Afmælisbarnið 20. september |
Þórdís fór fögrum orðum um fyrstu ljóðabók Höllu Margrétar, 48, hér á síðunni um daginn, og ég ákvað að nota tækifærið til að segja aðeins frá nýjustu bók Sigurlínar Bjarneyjar, sem heitir Bjarg og kom út í vor. Bjarg er þriðja bók Sigurlínar Bjarneyjar, en hún hefur áður gefið út ljóðabókina Fjallvegir í Reykjavík og smásagnasafnið Svuntustrengur. Sigurlín Bjarney hefur sinn sérstaka stíl, yfirvegaðan og lausan við dramatík, en af og til brestur á með undirfurðulegum húmor. Þessi stíll er á sínum stað í Bjargi en er held ég jafnvel orðinn kraftmeiri og blæbrigðaríkari en áður.
Ljóðabókin Bjarg fjallar um íbúa blokkar nokkurrar. Blokkin er stór – átta hæða með sex íbúðum á hverri hæð – og af þeim sökum er bókin lengri en ljóðabækur eru yfirleitt á Íslandi, heilar 111 blaðsíður. Hver íbúð fær eitt ljóð en stundum skarast þau, til dæmis þegar íbúi í einni íbúð er að tala við eða hugsa um íbúa í annarri íbúð. (Ég hef aldrei búið í blokk en ég velti því fyrir mér hvort fólk hafi almennt jafn mikil samskipti í blokkum og það gerir í þessari bók? Er alltaf einhver Skúli í 5a sem fleiri en ein og fleiri en tvær konur í blokkinni láta sig dreyma um?)
Ljóðin eru margvísleg eins og fólkið í blokkinni. Sum eru angurvær, eins og ljóð Fjólu litlu í 7a sem:
muldrar í koddann:
Þú sæla heimsins svala lind
Um þessar mundir
gráta læknar í
sár sjúklinga
Skurðlæknar opna
brynna músum
og sauma fyrir
Önnur eru dapurleg, kaldranaleg, draumkennd, þetta er ekki sósíalrealísk blokk: fólk sópar sandi úr gluggakistum sínum, heyrir veggina gráta, tínir krækiber í stofunni hjá sér, eða bara fylgist með náttúrunni af svölunum hjá sér. Þetta fólk er á öllum aldri, af öllum kynjum, er misveikt fyrir því að „kyssa, drekka og slást“, borgarbörn og sveitamenn:
Kaupfélagið á
Egilsstöðum fær
upphringingu á
hverjum morgni upp
úr klukkan tíu
Kári leggur inn
pöntun fóðurbætir
í sekkjum
flutti hingað út
af lyftunni
hún er alltaf biluð
Fjósalykt á
skyrtuerminni hefur
áhyggjur af skepnunum
sem hírast svangar í
húsum skilur ekki
hvað er orðið af
konunni
Kári á von
á sendingu
á hverri stundu
Íbúðin tóm en
svalirnar fullar
af von
Blokkin virkar ágætlega sem umgjörð um fólkið í ljóðunum og nærvera eina íbúans sem er á niðurleið hnýtir hana saman. Að sumu leyti minnti þetta form mig á aðra bók sem hægt er að lesa aftur og aftur, Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson, sem einnig fjallar um tilveru og samskipti fólks í hversdeginum, og stórvægileg og lítilmótleg áhyggjuefni þess.
Mér finnst Bjarg vinna á við áframhaldandi lestur, þar á meðal ljóðin sem gripu ekki jafn auðveldlega og önnur, en ég hef enn jafn gaman af því sem var uppáhaldsljóðið mitt eftir fyrsta lestur, um manninn í 1f:
Guðjón vill engum
í húsinu
vel
Lætur sameignina
sem vindþyt
í eyrum
Kallar lyftu
niður
að óþörfu
Hringir dyrabjöllum
af handahófi
plokkar bréf
úr póstkössum
víxlar fötum á
milli þvottahúsa
Siggi hefur kvartað
segir þessa pönkstæla
úrelta
eins og rofabarð
síðasta stig
öskrandi land-
eyðingar
Þá hlær Guðjón
segist heyra þyt
í laufum
sölnuðum
Við Þórdís hvetjum alla sem ljóðavettlingi geta valdið til að koma á Café Haítí annað kvöld og hlusta á þessi ljóð og fleiri til!
1 ummæli:
Takk fyrir þessa ábendingu - þessi bók hefði vafalaust farið framhjá mér annars en þetta hljómar mjög skemmtilega!
Skrifa ummæli