22. október 2009

Börn og menning - hausthefti 2009

Hausthefti Barna og menningar kemur út á næstunni. Meðal efnis má nefna að Þórdís Gísladóttir fjallar um fjöldaframleiddar eftirprentanir af grátandi börnum, Ármann Jakobsson skrifar grein um bók J.R.R. Tolkiens, Gvendur bóndi á Svínafelli, sem var þýdd á íslensku fyrir þremur áratugum, bækurnar vinsælu um Fíusól eru til umfjöllunar í grein eftir Þorgerði E. Sigurðardóttur og umsjónarmenn Leynifélagsins, sem er barnaþáttur á dagskrá Rásar 1 hjá RÚV, skrifa grein um dagskrárgerð þáttarins. Þá eru í Börnum og menningu greinar um þrjár nýlega þýddar barna- og unglingabækur; Erla Elíasdóttir fjallar um hinn sígilda Bangsímon eftir A.A.Milne, Ingólfur Gíslason um Doktor Proktor og prumpuduftið eftir Jo Nesbø og Helga Ferdinandsdóttir um Göngin eftir Roderick Gordon og Brian Williams.

Börn og menning kemur út tvisvar á ári en það er eina íslenska tímaritið sem tekur eingöngu til umfjöllunar menningartengt efni fyrir börn. Blaðið er gefið út af IBBY á Íslandi, sem er félagsskapur áhugafólks sem vill efla barnamenningu.

Ritstjóri Barna og menningar er Þórdís Gísladóttir. Beiðni um áskrift má senda á bornogmenning@gmail.com.

Engin ummæli: