31. mars 2012

Kynlegir kvistir hjá Deild Q

Bók #2
Ég las hinn prýðilegasta krimma í vikunni sem leið og var ekki lengi að hesthúsa hann enda hafði ég beðið bókarinnar með talsverðri tilhlökkun. Veiðimennirnir (eða Fasandræberne eins og hún heitir á frummálinu) er önnur bókin í flokknum um Deild Q eftir danska höfundinn Jussi-Adler Olsen, en sú fyrsta heitir Konan í búrinu og kom út hjá Forlaginu í fyrra. Sú var einhver besti krimminn sem ég las í fyrra og það er ekki síst umgjörðin sem mér þykir skemmtileg; gallagripurinn Carl Mørck er settur í eins konar limbó innan lögreglunnar í Kaupmannahöfn eftir hrottalega árás þar sem einn félagi hans lét lífið og annar slasaðist alvarlega. Carl er troðið niður í kjallara með gamlar möppur um eldgömul sakamál og einungis einn aðstoðarmann, en sá er innflytjandi að nafni Hafez el-Assad sem er aldrei alveg ljóst hverju nákvæmlega á að sinna. Það sem á að vera einhvers konar geymsla fyrir Carl verður hins vegar eitthvað annað og meira þegar þeir Assad fara að rannsaka hvarfið á Merete Lynggaard, ungri stjórnmálakonu sem gufaði sporlaust upp einhverjum misserum áður.

Bókabúðablæti: nú í Boston

Literary Criticism-hornið í Coop
Eins og lesendur þessa bloggs vita eru Druslubókadömur ákaflega hrifnar af bókabúðum og telja þar að auki að þeim beri skylda til þess að gera ítarlega grein fyrir öllum bókabúðum sem þær stíga fæti í. Fyrir viku fór ég til Boston og reyndi að kynnast sem flestum bókabúðum, en það skemmtilega við stórborgir er að þó maður reyni þá er barasta ekki hægt að heimsækja þær allar í stuttri ferð. Svo margar eru þær. Ég byrjaði náttúrulega á því að fara í bókabúðirnar í kringum Harvard Square, enda hafði ég lesið í tíu ára gömlu túristabókinni sem ég tók á bókasafninu að hvergi væri að finna jafnmargar bókabúðir á sama svæði í gjörvallri Ameríku (þegar ég fór svo að gúgla torgið þá kom í ljós að þetta hefur nú eitthvað breyst undanfarin ár, fréttir sem báru fyrirsagnir á borð við „Another Harvard Square bookstore bites the dust“ hlóðust upp á skjánum svo ég lokaði glugganum um leið og fór að skoða gömlu bókina aftur).

30. mars 2012

„Maður á aldrei að líta á teljarann“

Vefsíðuna Subbuskapur og sóðarit má kalla bróðursíðu síðunnar sem hér er uppi. Hermann Stefánsson rithöfundur er upphafsmaður þeirrar síðu, sem er ætlaður stuttur líftími, Subbuskapur og sóðarit varð til í febrúar og mun verða haldið úti í um mánuð í viðbót ef mark er takandi á yfirlýsingu á síðunni. Í gær sendi ég Hermanni nokkrar vangaveltur og spurningar um bókmenntir og bókmenntaumræðu og hann svaraði strax.




Mig langar að byrja á sígildum vangaveltum um bókmenntaumræðu á Íslandi. TMM og Stína eru auðvitað til en þar er ekki „dagblaðaumræða“ eins og var í Lesbókinni og víðar fyrir einhverjum árum. Hefur netið tekið við eða er Ísland bara of lítið og fámennt til að hægt sé/vilji sé fyrir hendi til að borga fólki fyrir að halda úti daglegri bókmenntaumræðu og ígrundaðri bókmenntagagnrýni?

Ég er prentmaður eins og allir sem lifa í dag og ég sé ekki að netið hafi tekið yfir bókmenntaumræðuna, það er í rauninni frekar fátt á netinu um bókmenntir. Áðan spurði mig vinnustofufélagi minn sem átti í basli með netið: „Er eitthvað að netinu hjá þér?“ Ég svaraði: „Já, það er fullt af lágkúru og drasli.“ Það skiptir í rauninni litlu máli til hvaða fréttamiðils er litið. En í þetta sækir fólk því þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur. Þetta eru mikið til pólitískar veiðislóðir þar sem önglað er út hneykslunarefnum fyrir okkur fiskana, ég er alltaf að bíta á þetta sjálfur. Eitt algengasta þema bókmenntaumræðunnar er auðvitað bókmenntaumræðan og ég hef kannski sagt of mikið um dagana um bókmenntaumræðu, ég er fyrir löngu búinn með kvótann með að gera grín að Kiljunni og enginn skildi halda að því sé endilega vel tekið því eins og vinkona mín Halldóra Thoroddsen sagði af einhverju öðru tilefni: Það er manninum óeðlileg stelling að líta í eigin barm. Maður sér þetta fyrir sér. Að horfa í barminn á sjálfum sér er bara asnalegt. Kiljan er líka um margt prýðilegur þáttur. Einhver annar má gagnrýna bókmenntamiðla núna. Víðsjá heldur úti daglegri bókmenntaumræðu og þar er fólk á launum við það, netið á engan sjens í þetta þótt komnir séu netmiðlar eins og Hugrás. Dagblöðin hafa minnkað bókmenntaumfjöllun sína og áherslurnar hafa breyst og farið í ákveðinn farveg sem ég held hreinlega að sé of viðkvæmt til að nefna. Eða allavega nenni ég ekki alveg að fara út í það því eins og allir rithöfundar hef ég Damóklesarsverð sem hangir yfir höfðinu á mér, á bláþræði. En Druslubækur og doðrantar, það er miðill sem er að standa sig.

29. mars 2012

Ljóðskáld með innkaupapoka, varðveisla torfs, Guðrún frá Lundi og dadaistarnir í Tímariti Máls og menningar

Fyrsta hefti ársins af Tímariti Máls og menningar kom út í síðasta mánuði. Forsíðuna prýðir mynd frá Kúbu eftir Jóhann Pál Valdimarsson, sem virðist vera að festa sig í sessi sem hirðljósmyndari íslenskra bókmenntaheimsins. Þar sem aðrar druslubókadömur höfðu fyrir því að bera eintakið alla leið yfir hafið (ásamt fylltum lakkrísreimum, páskaeggjum og fleira smálegu) sé ég mér ekki annað fært en að skrifa um það síðbúna ritfregn. Ferðalangarnir tóku treglega í þá hugmynd að bera heftið með sér til baka svo ég er að hugsa um að lauma því í hillurnar hér í leiguíbúðinni og ímynda mér svipinn á eiganda hennar þegar hún rekst á þetta hrognamál milli alþjóðlegra arkitektúrbóka og Pessoaljóða.

Í Tímaritinu er að finna hefðbundinn skammt af skáldskap, fræðiefni og bókarýni. Í þetta sinn finnst mér fræðilegi hlutinn koma sterkar inn en skáldskapurinn, þótt ég hafi dálítið gaman af óútreiknanlegum og út-í-hött Reykjavíkurljóðum Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur: „Við Grímur ræddum stutt um þau hughrif sem ljóðskáld með innkaupapoka vekur.“ Dante-þýðinguna þyrfti ég að lesa aftur og hægar.

Ég viðurkenni að ég nennti ekki að lesa til enda greinina „raunveruleg lýðræðisleg umræða hefur aldrei farið fram...“ eftir Salvöru Nordal, um stjórnarskrána og stjórnlagaþingið. Svona er ég lélegur borgari í lýðræðissamfélaginu. Hins vegar kom ánægjulega á óvart að sjá í Tímaritinu, sem hefur svosem ekki verið að springa úr róttækni undanfarið, grein eftir Snorra Pál Úlfhildarson Jónsson um óeirðirnar í London í fyrra og það hvernig yfirvöld og fjölmiðlar hafa afgreitt þær sem óröklegt og í raun merkingarlaust jaðarfyrirbæri. Kannski er ekki óvitlaust einmitt að lesa þær saman, grein Salvarar og grein Snorra; ólíkar greinar um ólík viðbrögð við kreppuástandi.

27. mars 2012

Rummungur ræningi og hamingjan


Rummungur, amma og kaffikvörnin.
Ég hef einhvern tímann áður skrifað um bókaskápinn heima hjá ömmu, þann sem er fullur af bókum mömmu minnar og systkina hennar. Sem barn eyddi ég ófáum stundum fyrir framan þennan skáp og leitað að áður óuppgötvuðum fjársjóðum. Einn mesti dýrgripurinn sem skápurinn hafði að geyma var bókin Rummungur ræningi eftir Otfried Preussler sem er enn í dag ein af mínum uppáhaldsbókum.

Bókin fjallar um þá Hans og Pétur sem vita ekkert betra en sveskjutertuna með rjóma sem þeir eru vanir að fá hjá ömmu Hans á hverjum sunnudegi. Amman aftur á móti veit ekkert betra en að mala kaffi í nýju kaffikvörninni sinni sem leikur uppáhaldslagið hennar þegar sveifinni er snúið. Þegar hinn alræmdi ræningi Rummungur stelur kaffikvörninni verður amman vitstola af sorg og Hans og Pétur ákveða að taka málin í sínar hendur, handsama Rummung og ná kvörninni aftur. En auðvitað fer ekkert eins og ætlað er og í stað þess að fanga ræningjann lenda félagarnir sjálfir í klóm Rummungs. Rummungur ákveður að halda öðrum drengjanna sem þræl en selur góðvini sínum Petrosiliusi Nikodamusi galdramanni hinn fyrir vænan sekk af neftóbaki. Nikodamus hefur lengi vantað þjónustusvein til að skræla kartöflur fyrir sig því það verk þykir honum einmitt svo leiðinlegt. Á meðan Pétur pússar stígvél Rummungs er Hans því fastur í höll galdrakarlsins og afhýðir, sýður, stappar og sker kartöflur í bita. En þrátt fyrir miður gæfulega stöðu þeirra félaga á þessum tímapunkti fer allt vel að lokum, vondi galdrakarlinn tortímist í rústum eigin hallar, ræninginn endar bak við lás og slá og amma fær kaffikvörnina – sem leikur eftirlætislagið hennar meira að segja tvíradda eftir ævintýraförina.

22. mars 2012

Prófessor og rithöfundur en þó ekki forseti

Ármann Jakobsson er miðaldabókmenntafræðingur og prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Eftir að hafa lagt stund á fræðistörf um allnokkurt skeið og gefið út dágóðan slatta af efni á því sviði laumaðist (tja, eða kannski fór það ekki svo leynt) hann til að gefa út skáldsöguna Vonarstræti árið 2008 og svo Glæsi 2011 og um þær hafa allir almennilegir íslenskir bókmenntavefir fjallað. Á Ármanni er að heyra að jafnvel kunni að vera von á fleiri skáldsögum frá honum einhvern tíma. Druslubækur og doðrantar tóku hann tali.

D&D: Hafðirðu látið þig dreyma lengi um að skrifa og/eða gefa út skáldsögu áður en þú lést verða af því?

ÁJ: Ég hafði sannarlega skrifað skáldsögur áður, frá 18 ára aldri var ég yfirleitt með skáldsögu í smíðum í nærfellt áratug og hef ekki tölu á því hversu margar þær urðu alls, a.m.k. fjórar eða fimm. En aldrei fannst mér þær verða nógu góðar og í þau tvö skipti sem ég ræddi við útgefendur voru þeir býsna sammála mér um það. En síðan hætti ég að hugsa um skáldskap um hríð, gafst eiginlega upp á þessum draumi. Sögurnar hættu þó aldrei að birtast í kollinum og svo kom að því að mér var nauðugur einn kostur að fara að láta draumana rætast til að geta haldið áfram tilvistinni. Ég hreinlega varð. Það á aldrei að bíða of lengi með draumana. En ég er allt annar maður en sá sem skrifaði þessar fyrri sögur. Enda kemur ekki til greina að gefa þær út, ekki einu sinni þær skárstu.

Land hinna ólesnu bóka

Kannast lesendur bloggsins við það að eiga ólesnar bækur upp í hillu sem horfa á mann ásökunaraugum ár eftir ár, en aldrei druslast maður til þess að taka þær úr hillunni og lesa?

Kannski myndi ég frekar nenna að lesa
Kommúnistaávarpið á velsku
Nýlega áskotnaðist mér lítið og huggulegt vinnuherbergi á heimili mínu þegar við sambýlingarnir breyttum skipulaginu á íbúðinni og framkvæmdum alls kyns tilfærslur. Af því tilefni fóru fram talsverðir bókaflutningar hjá mér; þótt ég sé aðeins með brotabrot af bókunum mínum hér í þessari íbúð eru þetta þónokkrir hillufermetrar og skemmtilegt púsluspil að ákveða hvað á að vera hvar, leggja höfuðið í bleyti, velja besta fyrirkomulagið, rölta með bækur úr stofu inn í svefnherbergi, þaðan inn í vinnuherbergi og jafnvel aftur inn í stofu á endanum. Eins og alltaf þegar ég fikta í hilluskipulaginu tók ég eftir bókum sem ég hafði svo gott sem gleymt. Þótt ég hafi haft þær fyrir augunum á hverjum degi í tvö ár var ég einhvern veginn hætt að taka eftir þeim. Slíkt er kærkomið og ég er t.d. núna að lesa tvær bækur sem ég var búin að steingleyma að væru til á heimilinu.

Hins vegar virðist ég ferðast hús úr húsi og jafnvel milli landa með ákveðnar bækur í farteskinu sem ég hef keypt eða fengið að gjöf en einfaldlega kem mér ekki í að lesa. Ástæðan er ekki alltaf ljós. Stundum er kápan ljót og fráhrindandi (já, ég er jafnhégómleg og aðrir þegar kemur að estetík lesefnis), stundum er eitthvað óárennilegt við bókina eða efni hennar. Nokkrar bækur á ég ókláraðar í sérstakri "þarf að klára"-hillu - eins og fleiri druslubókadömur er ég ófær um að hætta að lesa bók og finn mig knúna til að klára hverja einustu þótt stundum líði mörg ár frá fyrstu blaðsíðu til þeirrar síðustu. Þar er t.d. að finna To the Lighthouse eftir Virginiu Woolf, sem mér þykir óbærilega leiðinleg bók (fyrirgefið, þið sem tengið betur við stream of consciousness en ég og hafið dálæti á Woolf) en las ca. 4/5 af þegar ég var í mastersnámi í Glasgow; þar var hún á leslista. Ég er alltaf að reyna að mana mig upp í að klára hana en fyllist einhverjum ógurlegum pirringi í hvert sinn sem höndin nálgast kjölinn á kiljunni sem vinkona mín lánaði mér og neitaði að taka við aftur (álíka mikill aðdáandi og ég).

Mikið var ég vitlaus að geyma þennan
gullmola uppi í hillu svona lengi
Svo eru bækur sem ég er alltaf á leiðinni að lesa en verða bara aldrei fyrir valinu þegar eitthvað meira freistandi stendur til boða. Ein sem mér dettur í hug er Kommúnistaávarpið sem er hér í enskri þýðingu uppi í hillu; reyndar hef ég lesið hluta af því en finnst samt að ég verði að lesa hana alveg í gegn, varla geta ungkommar verið þekktir fyrir annað? Marabou Stork Nightmares eftir Irvine Welsh er önnur; ég fékk hana að gjöf fyrir nokkrum árum og veit ekki alveg af hverju ég hef ekki lesið hana ennþá, kannski er það ljóta kápan (einhver mjög billeg útgáfa frá tíunda áratugnum, sem verður að teljast versti áratugurinn í bókakápubissnessinum). Mér hefur fundist margt fínt eftir Welsh þannig að það er ekki óbeit á höfundinum sem veldur. Kannski er bókin bara búin að vera svo lengi í hillunni að ég er orðin eitthvað pirruð á henni.

Málið er samt að oft þegar ég loksins tek mig til og les einhverja af þessum ólesnu, ásakandi, bitru bókum reynast þær iðulega afskaplega góðar. Ég til dæmis átti Cloud Atlas ólesna uppi í hillu í örugglega hálft ár eftir að ég fékk hana í jólagjöf árið 2005, en síðan ég las hana hefur hún verið ein af mínum eftirlætisskáldsögum. Ég hafði lengi hörfað undan Ivanhoe eftir Sir Walter Scott, þótti hún eitthvað óárennileg, en hafði heilmikið gaman af henni þegar ég tók mig til og las hana í fyrra. Það sama á við um nokkrar fræðibækur og pólitískar skruddur.



Ef ég ætti þessa bók væri hún örugglega
í ólesnu, bitru hillunni
Sennilega er best að grípa einhverja úr hillunni áður en ég skríð upp í rúm ...

21. mars 2012

Maður selur ekki landið sitt, sama þótt börnin svelti

Getiði ímyndað ykkur hvernig það er að vera vel menntuð og tiltölulega venjuleg manneskja, í flottri vinnu, búa í fínni íbúð og eiga foreldra sem eru hóbóar? Ég reyndi ítrekað að setja mig í þau spor á meðan ég las The Glass Castle, æskuminningar Jeannette Walls, en ég gat það eiginlega ekki.

Fyrsta setning bókarinnar er með þeim áhrifameiri sem ég hef lesið:

I was sitting in a taxi, wondering if I had overdressed for the evening, when I looked out the window and saw Mom rooting through a Dumpster.

Jeannette bregður svo mikið að hún hættir við að fara í boðið og fer í staðinn heim í íbúðina sína á Park Avenue og setur Vivaldi á fóninn til að róa taugarnar.

Tvö ljóð í tilefni af alþjóðlegum degi ljóðsins

Í dag er alþjóðlegur dagur ljóðsins; ekki veit ég hver ákveður svonalagað en svo mikið veit ég að allir dagar eru góðir dagar fyrir ljóð. Persónulega finnst mér yfirleitt meira gefandi að lesa ljóð en að tala um ljóð og þess vegna ætla ég að halda upp á daginn hér á síðu druslubóka með því að birta tvö ljóð. Þau eiga það sameiginlegt að vera eftir svöl íslensk skáld sem byrja á B; Raunvísindi eftir Bryndísi Björgvinsdóttur (Foucaultísk ljóð um alræði vísindanna á kostnað hins tvíræða eða óljósa, eða eitthvað sagði höfundurinn mér) og Mannslát eftir Bólu-Hjálmar (ég hef ekki náð í hann).

Raunvísindi eftir Bryndísi Björgvinsdóttur

Í stærðfræði heitir notkun á bókstöfum algebra. Algebra snýst um að sannfæra bókstaf um að hann sé tala.
Svona:
A = 5 
A: !?!
A: :( :’( :(((((
A: Eins og ég sé eitthvað fimm! Bara af því það hentar þér!
Svona A, vertu fimm!
A: Nei!
Vertu fimm eða ég drep þig!!!
A: = 5

20. mars 2012

Ókeypis rauðvín og brostnar vonir: sannleikurinn um bókmenntaverðlaunaathafnir.

Ég sá ekki fólkið á sviðinu fyrir fólki.
Í dag birtist á bókablogginu Subbuskapur og sóðarit skemmtileg færsla eftir Þórarin Leifsson um það þegar hann fékk ekki menningarverðlaun DV. Þegar ég las lýsingar Þórarins á stemmingunni í Iðnó varð mér hugsað til þess þegar ég fékk að fara sem deitið hennar Kristínar Svövu í Listasafn Íslands þegar tilkynnt var um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ég var náttúrulega gífurlega spennt yfir þessu öllu saman enda hafði ég aldrei áður verið í herbergi með jafnmörgum risum hins íslenska bókmenntaheims, skjálfandi lítið eitt með ókeypis rauðvínsglas í hönd. Upplifun mín var eðli málsins samkvæmt ólík upplifun Þórarins – ég þekkti frekar fáa sem þarna voru mættir og enn færri þekktu mig (allavega þannig að þeir segðu hæ, skiljiði). Maður átti nú samt nokkur góð augnablik þar sem maður náði augnsambandi, brosti vandræðalega en horfði snögglega undan og flýtti sér að fylla á glasið. Það var gaman.

Skemmtilegast þótti mér þó að tala við skáldin sem voru ekki tilnefnd og stóðu lúpuleg aftast með mér. Þau sáu ekki sviðið (vildu það heldur ekki) og frussuðu út úr sér víninu á meðan þau baktöluðu hin skáldin. Sum þeirra töluðu um samsæri, önnur voru sannfærð um að enginn myndi nokkurn tíma kunna að meta þau. Ég fékk nokkur þeirra til að stilla sér upp á mynd með því skilyrði að hún yrði ekki birt á netinu, en ég get bara ekki setið á mér lengur.

Skáld í fýlu.
Lesendur Druslubóka og doðranta verða að fá að vita hversu harður íslenski bókmenntaheimurinn er.

Skáld, smá, ör og allt þar á milli

Kanadíski rithöfundurinn Margaret Atwood er í miklu uppáhaldi hjá mér. Aðdáunin er þó raunar ekki af taumlausa toganum því það er alltaf eitthvað í skrifum hennar sem skapar meiri fjarlægð en svo að ég geti alfarið gefið mig persónum eða texta á vald; einhver kaldur tónn sem lendir ekki alltaf réttu megin við línuna að mínu mati. En samt er Margaret Atwood svo firnagóður höfundur, svo beinskeytt þrátt fyrir stílsnilldina, svo flink að raða saman orðunum og afhjúpa smám saman einhvern kjarna sem er ýmist óþægilegur, sár, óvæntur eða furðulegur. Hún er beittur femínisti og skrifar þrívíðar persónur, bæði konur og karla. Annað sem gerir Atwood frábæra er það hversu fjölbreyttar bækur hennar og sögur eru, eins og allir vita sem hafa lesið meira en eina bók eftir hana. Hún hefur skrifað skáldsögur, ljóð, nóvellur og smásögur, handrit, söngtexta og pistla; stundum er hún á sviði vísindaskáldsögunnar, stundum raunsæis, stundum fantasíu, stundum eru skrif hennar meira í ætt við hugleiðingar eða einhvers konar flæði. Oft fléttast þetta einhvern veginn saman, t.d. er fantasíusaga inni í sögunni í The Blind Assasin (sem ein sögupersónan skrifar).

Falleg kápa
Ég hef aldrei lesið bók eftir Margaret Atwood sem mér hefur fundist slæm eða leiðinleg, en þær höfða mismikið til mín. Ég er minna fyrir vísindaskáldskapinn - sennilega leikur persónulegur smekkur þar stórt hlutverk, fremur en bækurnar sjálfar - en af skáldsögunum held ég gríðarlega mikið upp á The Blind Assassin og The Robber Bride. Sú fyrrnefnda er saga systranna Iris og Lauru Chase og gerist aðallega á fyrri hluta 20. aldar í Ontario; marglaga frásögn sem dregur smám saman fram í dagsljósið sannleikann um líf systranna tveggja. Frásagnarstíllinn er afskaplega sterkur og nákvæmur, þrátt fyrir að bókin sé hnausþykk; mig grunar að Atwood sé afar skipulagður höfundur enda nefndi hún það á masterclass sem hún hélt í ritlistarnáminu mínu í Glasgow að hún notaðist við tímaása og alls kyns skemu til að skipuleggja skáldsögurnar sínar. Skáldsögurnar hennar eru iðulega langar en samt einhvern veginn engu ofaukið. The Blind Assassin kallast meðal annars á við gotnesku skáldsöguna enda komst ég að því á hinu alvitra alneti að sambýlismaður Atwood, rithöfundurinn Graeme Gibson, bjó til merkimiðann Southern Ontario Gothic yfir skrif í þessum dúr og telur m.a. Alice Munro tilheyra þessari undirgrein kanadískra bókmennta, en um þá góðu skáldkonu hefur verið skrifað hér hjá Druslubókadömum. Svona merkimiðar eru oft dálítið handahófskenndir, en mér fannst þó athyglisvert að sjá staðfestingu þess að ég væri ekki bara að ímynda mér einhverja gotneska tengingu.

Mér finnast þó smásögur Atwood ekki síður skemmtilegar en skáldsögurnar.

19. mars 2012

Garðbókasafnið í Estrela












Þetta krúttlega almenningsbókasafn hefur verið starfandi í Estrela-almenningsgarðinum í Lissabon frá því á 4. áratug síðustu aldar. Bókasafnið er opið eftir hádegi fimm daga í viku.

17. mars 2012

Verklag í bókabúðum

bók fyrir bókaunnendur
Hér hefur talsvert verið fjallað um bókabúðir – jafnvel þær fallegustu í heimi. Ég hef því miður ekki komið inn í þær en hins vegar hefur maður komið inn í nokkrar góðar búðir– og sumar oftar en einu sinni. Þannig á ég uppáhaldsbókabúðir og jafnvel uppáhalds bókabúðagötur eins og hina dásamlegu Charing Cross Road í London. Mér skilst þó að hún sé ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var þar sem litlu sérbókaverslanirnar og fornbókabúðirnar hafa lokað ein af annarri eftir að stóru keðjurnar komu til sögunnar.

16. mars 2012

Heteróið og normatívisminn

Sé setningarupphafið „How do I know if I'm“ slegið inn í leitarvél Google og tillögur vélarinnar að framhaldi skoðaðar, trónir á toppnum setningin „How do I know if I'm in love“. Fast á eftir fylgir svo „How do I know if I'm gay“ (mikið er annars gaman að því að sumir ávarpi netleitarvélar svona eins og þær séu véfréttin í Delfí). Ég hef ekki kynnt mér hvaða svör internetið býður við þessum brennandi spurningum, en ætli samkynhneigðarspurningunni yrði ekki best svarað með öðrum spurningum: Hefurðu orðið skotin/n í einhverjum af sama kyni? Hefuruðu fantaserað kynferðislega um einhvern af sama kyni?

Í umræðu um samkynhneigð gegnum tíðina hefur gjarnan verið átt við samlíf karla fremur en kvenna – lög sett gegn „sódómsku“ og þess háttar, sem endurspeglar rótgróin viðhorf til mismunandi kynlífsfúnksjónar kynjanna; konan var lengst af ekki talin til gerenda og (karl)menn hafa líklega oft átt erfitt með að hugsa sér að kynlíf gæti yfirhöfuð verið stundað án hlutdeildar reðurs.

Með mundlaug og öllu saman - ný tískubylgja í íslenskum bókmenntum?

Körfukjúklingur
Það vakti athygli mína að í tveimur afar ólíkum íslenskum skáldsögum sem ég hef lesið nýlega er töluverðu púðri eytt í að fjalla um svokallaðan „körfukjúkling“ eða „Chicken in a Basket“ sem ku hafa verið vinsæll réttur á veitingahúsinu Naustinu (og víðar) á áttunda áratug síðstu aldar. Hann ber fyrst á góma í nýjustu skáldsögu Braga Ólafssonar, Handritinu að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexson, sem kom út 2010. Ári síðar dúkkar hann svo upp í Einvígi Arnaldar Indriðasonar. Sennilega hefur þessi nýstárlegi réttur þegar verið orðinn úreltur þegar ég komst til vits og ára, ég minnist þess að minnsta kosti ekki að hafa heyrt hann nefndan áður. Greinargóða lýsingu er þó að finna hjá Arnaldi í kafla sem greinir frá kvöldstund einnar aðalpersónunnar á Naustinu. Þar segir meðal annars: „[Á] borði skammt frá þeim var eldri maður að gæða sér á körfukjúklingnum, en það voru kjúklingabitar djúpsteiktir í olíu. Réttinum fylgdi lítil þurrka og mundlaug með sítrónusneið því gestir vildu stundum borða kjúklinginn með fingrunum.“ (s. 89) Þetta virðist sem sagt hafa verið einhvers konar forveri Kentucky Fried fötunnar og McNuggets dulbúinn sem lúxusréttur.

15. mars 2012

Ýmislegt með almenna skírskotun, en engin persónuleg smáatriði

Ég veit ekki hvort þetta á að vera Saramago á myndinni, en tilvitnunin
er allavega í hann: „Við komumst alltaf þangað sem beðið er eftir okkur.“
Í færslu um daginn vitnaði Salka í gagnrýnanda sem lýsti ferðabókum Bill Bryson þannig að hann „fari til útlanda, rölti um, tali í rólegheitunum við þá sem hann rekst á, kíki kannski inn á safn, fái sér að borða á krá og fari snemma í háttinn, með þeim afleiðingum að ári seinna liggja mörgþúsund lesendur í hláturskasti“. Mér varð hugsað til þessarar lýsingar við lestur ferðabókarinnar sem ég var að ljúka – margoft raunar, því það hefur tekið mig tvo mánuði að klára hana. Í bókinni Journey to Portugal (Viagem a Portugal) röltir José Saramago vissulega um, talar í rólegheitunum við þá sem hann rekst á, kíkir inn á söfn, fær sér að borða á krá og fer snemma í háttinn, en viðbrögðin sem frásögn hans af þessu framkallar hjá lesandanum eru meira í ætt við langdreginn geispa. Enda er ein athugasemdin við bókina á Amazon einmitt titluð „NOT Bill Bryson“.

Það er í sjálfu sér gott og blessað að það séu ekki allir ferðabókahöfundar eins og Bill Bryson, og almennt hefur Saramago dálítið annan stíl, en skáldsögurnar hans bera þeim stíl betra vitni en þessi bók. Hún fjallar um ferðalag höfundarins um heimaland sitt veturinn 1979-1980, en þá flakkaði hann milli bæja og þorpa í Portúgal í sex mánuði. Þetta ferðalag er á bókarkápu kallað „a passionate rediscovery of his own land“ en samanstendur nær eingöngu af heimsóknum hans í allar kirkjur og söfn sem á vegi hans verða, en innihaldi þeirra lýsir hann af stakri nákvæmni. Það tekur mann ekki marga kafla að fá sig fullsaddan af dórískum súlum og manúelískum dyrabogum. Þriðju persónu frásögn höfundarins, sem talar um sjálfan sig sem „ferðalanginn“, undirstrikar þessar þreytandi endurtekningar.

14. mars 2012

Á náttborðinu

Ef ég væri spurð að því hvert væri mikilvægasta húsgagnið í íbúðinni minni þá myndi ég ekki þurfa að hugsa mig lengi um - það er auðvitað náttborðið. Ég man eftir stuttum tímabilum í lífi mínu þar sem ég hef verið náttborðslaus og það var undantekingalaust alveg grábölvað. Þegar ég flutti vestur um haf tók ég með mér ýmislegt frá Íslandi, einkum bækur og brúðarstell en ekkert náttborð. Ég hugsaði sem svo að það yrði nú lítið mál í landi allsnægtanna að verða sér út um tvö náttborð í stíl.

Það var yfir 30°C og rakt fyrstu dagana okkar í vesturheimi. Borgir í Miðvestrinu eru ekki beint heillandi við fyrstu kynni og mér leist ekkert á blikuna. Brúðarstellið var fast í tollafgreiðslu í New York, við sváfum á lánsvindsæng og borðuðum take away kínamat í öll mál. Við vorum bíllaus fyrstu dagana og ég gekk móð og másandi með 8 mánaða gamalt barnið í magapoka yfir umferðareyjur og flennistór bílastæði. Hér er sko ekki verið að búa til gangstéttir að óþörfu.

13. mars 2012

Hestaheilsa


Vegna fjölda fyrirspurna sem borist hafa um heilsufar druslubókakvenna er rétt að geta þess að við erum allar stálslegnar í dag þótt örlað hafi á kvef- og magapestum í fjölskyldum okkar nýverið. Við óskum að sjálfsögðu öllum sem eiga við vanheilsu að stríða skjóts og góðs bata.


Druslubókadömurnar

12. mars 2012

Staður og stund

Ég fór í miklum sparnaðargír á nýafstaðinn bókamarkað í Perlunni og keypti bara tvær bækur, báðar hræódýrar. Þá sem er til umfjöllunar hér fékk ég á 160 krónur. Hún heitir Amazon og er eftir Barböru G. Walker, gefin út í íslenskri þýðingu Eddu R.H. Waage hjá bókaútgáfunni Ísfólkinu 1993. Bókin er í svona sjoppukiljubandi en það var eitthvað við hana sem vakti forvitni mína þegar ég rak augun í hana. Kannski var það nafn höfundarins sem mér fannst hljóma kunnuglega. Þegar ég las aftan á hana virtist mér hún að minnsta kosti nógu áhugaverð til að fjárfesta í henni og lesa. Þegar heim var komið fór ég að grennslast betur fyrir um höfundinn og fékk grun minn staðfestan: Barbara G. Walker er þekkt nafn úr prjónabókaheiminum, ekki síst fyrir að hafa safnað sérstaklega hinum ýmsu mynstrum og gefið út á bókum. Þrátt fyrir prjónabókasafn mitt á ég ekkert af prjónabókunum hennar en bækurnar hennar ber oft á góma í þaraðlútandi kreðsum. Við þessa nánari athugun mína komst ég að því að Walker hefur ekki einskorðað sig við skrif um prjónaskap heldur hafa femínismi, gyðjutrú, umfjöllun um ýmiss konar mystík og gagnrýni á kristna trú verið henni hugleikin líka. Þótt hún hafi skrifað um gyðjutrú sem einhvers konar femíníska vitundarvakningu virðist hún þó ekki aðhyllast slíkt sjálf heldur hefur hún verið gallharður trúleysingi. Og hún hefur skrifað um hluti eins og alls konar steintegundir og symbólisma þeim tengdan en leggur í þeim skrifum (eftir því sem sagt er, ég hef ekki lesið þetta sjálf) áherslu á að í rauninni sé ekkert yfirnáttúrulegt við steina.

10. mars 2012

Léttir?

Í haust sótti ég námskeið þar sem verið var að fjalla um vændi og afleiðingar þess. Í fyrirlestri einum fjallaði þekktur íslenskur femínisti um sálarástand kvenna sem stunda vændi og lagði áherslu á að ekki þurfi að minna vændiskonur á skömmina sem vændinu fylgir og hún notaði samlíkingu við of feitar konur, eins og hún orðaði það. Konur sem eru of feitar vita nefnilega alveg að þær eru of feitar, það þarf ekki að minna þær á það og auka þannig við niðurlægingu þeirra.

Mér þótti þetta heldur ankannanleg samlíking, ekki síst í þessu samhengi,  en það er í raun stórmerkilegt hversu lítið hefur verið rætt um fordóma í garð feitra í feminísku samhengi hér á landi, þeir birtast á ólíklegustu stöðum, samanber þetta útspil femínistans. Og þessi samlíking kom upp í hugann þegar ég las nýútkomna bók eftir Jónínu Leósdóttur. Bókin heitir Léttir, og í henni birtast dagbókarskrif höfundarins á eins árs tímabili. Hún ákveður að fara í megrun og það ekki í fyrsta sinn, hún kallar sig harmónikkukonu, en slíkar konur léttast og þyngjast á víxl. Hún hefur sett sér markmið, ætlar að léttast um ákveðinn kílóafjölda og ákveður að fylgja átakinu eftir með skrifum, hún nóterar hjá sér ýmsar upplýsingar um offitu og átraskanir sem birtast í fjölmiðlum á tímabilinu og segir frá ýmsum misgáfulegum megrunarráðum sem hún fréttir af og tekur stundum afstöðu til þeirra, annaðhvort í gríni eða í alvöru.

8. mars 2012

Margt á prjónunum

Á tímabili safnaði ég prjónabókum. Þar á ég fyrst og fremst við bækur með prjónauppskriftum en þó ekki bara. Oft er prjónabók helguð tiltekinni aðferð, tækni eða mynsturgerð, hugmyndum tiltekins prjónahönnuðar eða prjónuðum plöggum af einhverju tagi og oft inniheldur hún heilmikinn sögulegan fróðleik. Mér telst svo til að ég eigi tæplega fimmtíu prjónabækur, sem eru nú kannski engin ósköp, en mér finnst það orðið nóg. Alla vega er ég nánast alveg hætt að kaupa slíkar bækur því mér finnst ég orðið eiga allt sem ég þarf í þeim efnum. Ég á nokkuð gott safn af flestum þeim uppskriftum sem ég þarf eða fræðslu um aðferðir til að prjóna allt það sem mig langar til að prjóna og það sem upp á vantar er auðvelt að nálgast á netinu, ekki síst eftir tilkomu prjónafeisbúkkarinnar Ravelry. Líklega gæti ég freistast til að kaupa enn eina prjónabókina ef hún innihéldi eitthvað mjög frumlegt eða nýstárlegt, eða væri með alveg sérdeilis fallegum myndum, en ég ber mig ekki eftir því lengur.

7. mars 2012

Af hestinum Gusti, baldursbrám, fagurfíflum og fleiru

Nabokov að störfum
Margir lesa aðallega þýddar bækur en fæstir velta því sennilega mikið fyrir sér hversu mikil vinna getur legið að baki einni þýddri bók. Margtyngdur höfundur og fiðrildasafnari, Vladimir Nabokov, sagði víst að þýðing væri the slow journey at night from one village to the next with only a candle for illumination (þýðið þetta ef þið nennið) og margir minni spekingar hafa tjáð sig um þýðingar og haft margar og misjafnar skoðanir.

Ég heyri fólk oft segja að það vilji helst lesa bók á frummálinu (það er að segja ef það er slarkfært í því máli) en ef ég get valið kýs ég sjálf oft að lesa bók á því tungumáli sem ég kann best. Að hluta til má kannski kenna um leti, en ef ég á kost á íslenskri þýðingu sem ég held að sé þokkaleg þá sé ég yfirleitt enga ástæðu til að lesa bók á einhverju máli sem ég kann ekki eins vel og íslensku.

5. mars 2012

American shouldn´t cry he should look kind and grave and very sorry

Um daginn pantaði ég mér Bandaríkjaþríleik John dos Passos eftir að hafa lesið um hann einhvers staðar og fundist spennandi. Ég bjóst við skáldsögunum saman í módern svartri bók úr klassískri seríu eins og ég hafði séð á heimasíðu Amazon, en í staðinn fékk ég þrjú hnausþykk og virðuleg myndskreytt bindi frá 1946. Skömmu síðar datt netið út og ég las allar fimmtánhundruð blaðsíðurnar í einum rykk, lifði og hrærðist í bandarísku samfélagi á fyrstu áratugum 20. aldar og dreymdi vélritunarstúlkur, fyrri heimsstyrjöldina og flugtilraunir Wright-bræðra.

Bandaríkjaþríleikurinn samanstendur af skáldsögunum The 42nd Parallel, Nineteen Nineteen og The Big Money. Stærstur hluti bókanna eru kaflar sem segja sögur einstakra persóna, en þær fléttast saman eftir því sem á líður, persónur í einni sögu koma fyrir í annarri og svo framvegis. Þessir kaflar eru brotnir upp með þrenns konar öðrum köflum; æviágripum fólks sem setti svip sinn á tímabilið (til dæmis Woodrow Wilson, Isadoru Duncan og Thomas Edison), köflum með yfirskriftinni Newsreel þar sem blandað er saman brotum úr dægurlagatextum og fréttum og fyrirsögnum dagblaða frá tímabilinu, og köflum með yfirskriftinni The Camera Eye sem eru skrifaðir í frjálsu flæði og ku vera sjálfsævisögulegir textar höfundar.

Tumi og Emma - miðaldra börn

Þeir sem hafa eitthvað að ráði umgengist börn undanfarna áratugi (eða sjálfir verið börn) þekkja mjög sennilega bækurnar um Emmu og Tuma eftir Gunillu Wolde. Bækurnar voru flestar skrifaðar á 7. og 8. áratugnum í Svíþjóð og komu fljótlega eftir það út á íslensku og nú er nýbúið að endurprenta nokkrar þeirra. Gunilla Wolde er komin eitthvað á áttræðisaldur en hún skrifaði fyrstu bækurnar um Tuma þegar hún átti ungan son sem var víst stundum dálítið þver og öfugsnúinn (það er bókin sem segir frá því þegar Tumi fer í bað) og síðan fylgdu fjölmargar í kjölfarið. Tumi og Emma hafa bakað, þrifið, ryksugað og farið til tannlæknis, læknis, í leikskólann og tekist á hendur allskonar hversdagsleg verkefni í sönnum raunsæisanda auk þess að hafa þurft að takast á við eigin skapgerðarbresti og þvermóðsku. Ég man að þegar ég kynntist Tuma fyrst hét hann Tóti og var í sjónvarpinu. Hann heitir Totte á sænsku svo þetta var svo sem ágætt val á nafni, en á sama tíma hefur líklega verið búið að ganga frá þýðingu á bókunum þar sem hann heitir Tumi svo það nafn varð ofaná.

Bækurnar um Tuma og Emmu hafa komið út í sautján löndum og eru stöðugt endurprentaðar í löngum bunum, enda handhægar og skemmtilegar og myndir og texti kallast fallega á. En bókmenntagagnrýnendur í Svíþjóð tóku þessum bókum víst ekkert vel til að byrja með, myndirnar þóttu lítið listrænar og textinn ómerkilegur. Það má auðvitað alveg segja að bækurnar um Emmu og Tuma séu ekki neitt merkilegur litteratúr en mér finnst þær samt alltaf standa fyrir sínu og bíð spennt eftir að lítil stúlka sem ég þekki verði nógu stór til að lesa þær með mér.

4. mars 2012

Breskari en high tea: Elizabeth George og Inspector Linley

Ég held það hafi verið sirka árið 1993 sem ég komst fyrst í tæri við Elizabeth George. Síðan hef ég verið algjörlega hooked og finnst það kvöl og pína að þurfa að alltaf að bíða í ár eða tvö eftir næsta fixi. Ég komst í kynni við George og söguhetjur hennar í gegnum vinkonu mína, mikinn aðdáanda breskra krimma. Hún hafði gert undantekningu og lesið George þrátt fyrir að hún sé ameríkani, en ákvað að best væri að arfleiða mig að bókunum þannig að það væri ekkert rugl í bókahillunum, ameríkani er jú alltaf ameríkani þó viðkomandi skrifi krimma sem eru breskari en high tea.

Bækur Elizabeth George um Inspector Linley eru orðnar 17 talsins. Sú nýjasta Believing the Lie var að detta inn. Ég kunni mér ekki læti þegar ég fann hana í hillunum hjá WH Smith á Kastrup um helgina. Bókina varð ég að fá þó verðlagið í þessari bókabúð (já og bara á Kastrup almennt, en það er nú önnur saga) sé algjörlega fáránlegt. En mikið varð stoppið á vellinum og flugið áfram til Brussel miklu skemmtilegra í fylgd með þeim Linley og Havers.

Thomas Linley, áttundi jarlinn af Asherton er lögregluforingi hjá Scotland Yard. Hann er ekki bara moldríkur jarl sem mun taka við herragarði ættarinnar þegar þar að kemur, heldur er hann líka ljóshærður og litfríður, vel á sig kominn, kvennagull hið mesta og bara almennt góður gæi.

3. mars 2012

Konan sem man ekki neitt

Ólíkt huggulegri mynd en myndin
af þrútna snípnum sem birtist þegar ég
reyndi að leita að bókarkápunni
á Google
Það er alltaf dálítið undarleg tilfinning að uppgötva að höfundur sem maður hélt að væri karl er kona, eða öfugt. Stundum dregur maður einhverja ályktun sem reynist svo röng, jafnvel án þess að maður hafi sérstaklega leitt hugann að því, sem er svo jafnvel ansi afhjúpandi fyrir kyngreiningartilhneiginguna sem er svo rík í manni. Ég semsagt var alveg handviss um að rithöfundurinn S J Watson væri kona; í síðustu viku spændi ég í mig fyrstu bók Watsons, metsöluskáldsöguna Before I Go To Sleep, og velti því stuttlega fyrir mér í upphafi lestrar hvort um karl- eða kvenkynshöfund væri að ræða, ákvað svo einhvern veginn að þetta hlyti að vera kona og það var ekki fyrr en núna rétt áðan, þegar ég fletti bókinni upp á Amazon til að geta linkað á hana í færslunni, að ég komst að því að S J er fertugur karlmaður að nafni Steve.

Það eru sennilega meðmæli með Steve að ég skuli hafa haldið svona staðfastlega að hann væri kona; þessi fyrsta skáldsaga hans er nefnilega skrifuð í fyrstu persónu frá sjónarhorni konu á fimmtugsaldri. Án þess að ég sé sammála þeim sem finnst karlar ekki geta skrifað trúverðugar konur og konur ekki getað skrifað trúverðuga karla (hvaða rugl er það líka? Getur maður þá aldrei skrifað um fólk sem er eitthvað sem maður er ekki?) þá er þetta áberandi trúverðug rödd.



S J Watson, sem er ekki kona
Ástæðan fyrir því að ég festi kaup á Before I Go To Sleep úti í Leicester um daginn var sú að vinkona mín sem var með mér í bókabúðinni mælti afskaplega mikið með henni, og áður hafði önnur vinkona (sem hefur yfirleitt svipaðan smekk og ég) minnst á dálæti sitt á bókinni. Ég átti nokkurra klukkustunda lestarferðir framundan og þar eð þær sögðu báðar að þessa bók yrði maður að lesa í einum rykk fannst mér það hljóma nokkuð vel. Bókin hefur slegið rækilega í gegn þar ytra og mér skilst að Ridley Scott hafi nú tryggt sér kvikmyndaréttinn.

Tvær (mis)hressar ævisögur

Winters með Coleman (hér er hún greinilega komin yfir feimnina)
Frá síðustu færslu um Stephen Fry stíg ég skref aftur um áratugi í ævisögur leikkvenna sem löngu eru horfnar af sjónarsviðinu. Ég hef verið spennt fyrir skemmtilegum æviminningum frá því að ég var barn – ekki endilega íslenskum (þótt þær séu nokkrar frábærar) en sérstaklega þeim sem lýstu á lifandi hátt heimi sem var fjarlægur en ég þó tengdi við. Íslensku minningarnar voru oft hvorugt – ég tengdi lítið við þær (vissi ekki hverjir Ási í Bæ eða Jónas frá Hriflu voru) en þótti þær heldur ekki nógu framandi þar sem þær sögðu gjarnan frá böllum á Borginni og spássitúrum niður Laugaveginn. Hrifnust var ég af æviminningum gamalla Hollywoodleikara enda var ég mikill aðdáandi þeirra og safnaði úrklippum af stjörnum eins og hinum fögru hjónum Vivien Leigh og Laurence Olivier, Grace Kelly, Audrey Hepburn og Cary Grant.


Shelly Winters í góðum gír


1. mars 2012

Kanadísk listamannalaun, hljóðaþýðingar og bókafuglar: Viðtal við angelu rawlings

angela rawlings að störfum með upptökutækið.
Tekið af síðu PennSound.
Kanadíska skáldið angela rawlings er íslenskum ljóðaunnendum að góðu kunn. Hún kom fyrst til Íslands til að taka þátt í alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils árið 2007 en hefur komið oft til landsins síðan og settist loks að í Reykjavík á síðasta ári. Auk upplestra hefur hún haldið ljóðavinnusmiðjur í höfuðborginni og hún var listrænn stjórnandi Ljóðahátíðarinnar sem haldin var í Nýlistasafninu fyrr í vetur. Eins og sönnu nútímaskáldi sæmir er angelu víða að finna á netinu; forvitnum lesendum er bent á bloggsíðu hennar, Twitter-síðu og ekki síst síðu hennar á PennSound. Þar má finna ýmsa ljóðagjörninga og upplestra, meðal annars úr bók hennar Wide Slumber for Lepidopterists – en bókaperrar eru hér með upplýstir um að hún er með fallegri ljóðabókum sem undirrituð hefur séð (það er hægt að fletta henni aðeins á Amazon). Ég skrifaði angelu og spurði hana nokkurra spurninga um ljóðatengd málefni og listamannalaun í Kanada.

You were the artistic director of Ljóðahátíðin last fall and I seem to remember that the people that organized Ljóðahátíðin had plans for other poetry events this year. Is this still ongoing? Could you tell me about the project?

Definitely! Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Þór Steinarsson, Kristín Eiríksdóttir, Ásgeir Ingólfsson, and I are putting our collective efforts into this year’s Ljóðahátíðin, which we are tentatively scheduling for mid- to late October. We also have plans to hold text-oriented events beyond the festival itself, stretching over the year with a few performances and workshops. The idea is to create an extended space for literary performance, experimentation, and dialogue while supporting opportunities to connect with foreign writers when they arise.

Ljóðahátíðin og viðburðir henni tengdir verða auglýstir á Facebook og víðar á alnetinu og ég hef lofað að setja einnig inn auglýsingar hér á Druslubókasíðunni – svo fylgist vel með.

Kvöldverður móðurástarinnar og typpi í mjólkurflösku

Tveggja ára sonur minn hefur mikla unun af því að láta lesa fyrir sig og í gegnum hann er ég að uppgötva heim barnabókmenntanna upp á nýtt. Ég las sjálf mikið sem barn og unglingur og átti himinháa stafla af bókum. Ég var líka daglegur gestur á skólabókasafninu og bar með mér heim allskyns bækur í kílóavís. Þetta efni var misjafnt að gæðum eins og gerist og gengur – sumt er hrein og klár klassík, annað hefur elst ágætlega og svo er annað sem ég held að hafi aldrei getað talist sérlega vandað. Ég fór ósjálfrátt að hugsa um þetta lesefni æsku minnar þegar ég heyrði Egil Helgason ræða það stuttlega í Kiljunni við Kollu og Pál að hann teldi að börn í dag hefðu aðgang að miklu betri bókum en hann hafði sem strákur og margt af því sem hann las hefði verið óttalegt drasl. Nú er ég dulítið yngri en Egill Helgason en ég er ekki frá því að ég geti tekið undir þetta hjá honum. Ég las barna- og unglingabækur móður minnar upp til agna og þar var Enid Blyton í aðalhlutverki. Mamma átti líka ýmsa bókaflokka sem fjölluðu sérstaklega um stúlkur, eins og Beverly Gray sem var heljarmikill bandarískur bálkur um metnaðarfulla stelpu sem gerist blaðakona og ferðast um heiminn, verður ástfangin og fer svo að leysa glæpamál minnir mig. Af sömu ætt voru Nancy bækurnar og fleiri slíkar. Svo var líka til heilmikið íslenskt efni á heimilinu, eins og Hjaltabækurnar eftir Stefán Jónsson og Kári litli og Lappi eftir Stefán Júlíusson. Ég hafði ágætlega gaman af þessu á sínum tíma en oft fannst mér eins og ég væri að lesa sömu bókina aftur og aftur, þetta var voðalega keimlíkt alltsaman. Þessi skýra kynjaaðgreining í öllu þessu barnaefni fer líka í taugarnar á mér og ég efast um að ég muni halda þessum bókum að mínum eigin börnum.
Þegar ég var að byrja að lesa sjálf hélt ég upp á Smjattpattana og Rasmus klump. Ég hef prófað að endurnýja kynnin við Rasmus ásamt syni mínum og líkar ágætlega. Sú persóna sem mér þykir þó líklega hvað vænst um er Einar Áskell og kannski er enginn annar karakter heimsbókmenntanna sem hefur haft meiri áhrif á mig.