Við á Druslubókum og doðröntum erum almennt séð opnar fyrir sveigjanleika varðandi það hvernig skrif okkar eru túlkuð. Fólk kemur jú að texta með sinn farangur og fordóma, sína fyrirframgefnu afstöðu og allt það. Þessu þurfa allir að gera ráð fyrir sem láta frá sér texta og að geta þolað. Við erum fjórtán sem skrifum hér, höfum hver okkar stíl og svo getur sama manneskjan beitt fyrir sig mismunandi stílbrögðum eftir því hvernig á henni liggur. Oft höfum við verið tregar til að mata lesendur á maukaðri fæðu og margar okkar hafa gaman af að beita fyrir sig margræðni og gefa lesendum færi á að draga eigin ályktanir. Í því felst ákveðið traust til lesenda: Þegar lesendum er ætlað að ráða í texta hafa þeir vissulega ákveðið frelsi en það hvílir þá líka á þeirri forsendu að þeir rjúki ekki beint út í móa og eigni höfundi eitthvað sem alls enginn fótur er fyrir. Túlkun hlýtur alltaf að þurfa að byggjast á einhverju sem finna má stað í viðkomandi texta.
Í pistli sínum „Einkabréf og fjölpóstur“ sem birtist á Kjarnanum fyrir nokkrum dögum skrifar Hjalti Snær Ægisson að pistillinn „Bögglapóststofan neðanjarðar“, sem birtist 29. apríl hér á Druslubókum og doðröntum, hafi verið skrifaður í jákvæðum tón. Þessi túlkun Hjalta er svo furðuleg að við eigum erfitt með að trúa að í henni felist heiðarleg tilraun til að gera grein fyrir því sem þar stendur. Lítið fer fyrir gildishlöðnum lýsingarorðum í pistlinum; til að byrja með er sagt með fremur hlutlausum hætti frá bók Braga Ólafssonar, Bögglapóststofunni. Undir lok lýsingarinnar er reyndar að finna tveggja setninga umsögn um innihald bókarinnar sem má kannski teljast í jákvæðari kantinum, alla vega ef við gefum okkur að lesandinn sé aðdáandi Braga Ólafssonar: „Frásögnin er hlaðin kunnuglegum húmor. Þetta er semsagt mjög Braga Ólafssonarleg bók, sem aðdáendur hans væru ekki sviknir af.“
Að þessu loknu er farið út í aðra sálma sem afar langsótt er að kalla jákvæða. Því er haldið fram að ef til vill sé „bók“ ekki réttnefni heldur sé um að ræða markpóst, bent er á að skilaskyldu til Landsbókasafns hafi ekki verið sinnt, beina tilvitnunin „nákvæmlega fyrir viðskiptavini GAMMA og enga aðra“ er dregin fram og bent er á skort á frumleika í kápuhönnun. Þarna ætti nú gagnrýninn broddur að vera augljós og ekki að þurfa sérstakra skýringa við. Í framhaldinu kemur sjálfshæðin frásögn af því að hafa náð í eintak gegum sambönd í undirheimum vegna taumhaldslausrar aðdáunar á verkum Braga og líking við samizdat í Sovétríkjunum sem er augljóslega ýkt. Það er ekki eins og dreifing á exklúsífum markpósti á Íslandi 2015 sé jafn áhættusöm og dreifing á ólöglegu efni var í Sovétríkjunum, og það má jafnt höfundum pistilsins sem lesendum hans vera ljóst. Þessi síðasti hluti er kannski opnastur fyrir margvíslegri túlkun. Eru höfundar pistilsins einlægir aðdáendur Braga eða er um kaldhæðni að ræða? Lögðu höfundar í raun og veru mikið á sig til að komast yfir bókina/markpóstinn eða kom hún upp í hendurnar á þeim fyrir tilviljun? En hvernig sem á þetta er litið er tæpast hægt að líta svo á að þarna sé um jákvæðni að ræða eða einhverja aðdáun á útgáfuforminu; í besta falli má skilja þennan hluta sem svo að höfundar hafi vegna einlægrar aðdáunar sinnar á verkum Braga Ólafssonar ákveðið að hafa fyrir því að komast yfir bókina og lesa hana þrátt fyrir útgáfuformið sem þeim augljóslega mislíkar.
Í kjölfar víðfrægrar greinar Rebeccu Solnit „Men Explain Things To Me“ frá 2008 kom hið óendanlega gagnlega hugtak hrútskýring (e. mansplaining) fram á sjónarsviðið. Það eina sem er óskiljanlegt við hugtakið er að það skuli ekki hafa komið fram miklu, miklu fyrr. Við látum það eiga sig að setja fram skilgreiningu á hugtakinu hér, enda hægur leikur fyrir sjálfbjarga lesendur að afla sér hennar án okkar hjálpar. En við getum tekið tilviljanakennt dæmi: karlkyns bókmenntafræðingur úti í bæ tekur það óbeðinn að sér að útskýra hægt og rólega fyrir hópi af kvenkyns bókabloggurum að það sé eitthvað athugavert við að landsþekktur rithöfundur skrifi markpóstsbók sem aðeins er aðgengileg þröngum hópi vildarvina fjárfestingarfélags, þrátt fyrir að á bloggi þeirra hafi þegar verið birt færsla þar sem sú skoðun kemur fram.
Í samskiptum beitir fólk ýmsum aðferðum leynt og ljóst til að marka og staðfesta vald sitt. Velþekkt greining á þessu, ekki síst með tilliti til valdaátaka í samskiptum milli karla og kvenna, eru hinar svokölluðu drottnunaraðferðir sem norska stjórnmálakonan og félagssálfræðingurinn Berit Ås hefur lýst. Aðferð númer eitt ætti að vera mörgum kunn: Að gera fólk ósýnilegt. Þessari aðferð er beitt með ýmsum hætti en undir hana falla auðvitað hunsun og þöggun. Leiðir til þöggunar eru margvíslegar en auk þess að hlusta ekki og láta eins og viðkomandi hafi hreinlega ekki sagt neitt má gera hluti eins og að afbaka merkingu þess sem sagt hefur verið eða láta eins og hinn aðilinn hafi sagt eitthvað sem hann aldrei sagði. Skilaboðin verða svipuð: „Það skiptir ekki máli hvað þú reynir að segja, ég mun stýra því hvað kemst á leiðarenda.“ Svo við tökum alveg tilviljanakennt og uppskáldað dæmi um þöggunartilraun þá gæti það verið svona: Karlmaður les texta þar sem konur láta í ljós gagnrýna afstöðu til útgáfu bókar. Hann skrifar síðar sjálfur grein þar sem hann viðhefur mikinn reiðilestur yfir sömu útgáfu. Til að gera sem mest úr eigin afrekum skrifar hann svo aðra grein þar sem hann heldur því fram að afstaðan í texta kvennanna hafi verið jákvæð og tónninn að auki kurteis og varfærnislegur, eignar sér þar með hugmyndina að því að eitthvað sé yfirleitt athugavert við útgáfuna og gerir lítið úr framlagi kvennanna til umræðunnar. Þessi karl gæti svo líka átt í einhvers konar undarlegri ritdeilu í þessum greinum sínum við karlkyns rithöfund um það hvort konurnar hafi átt erfitt eða auðvelt með að útvega sér umrædda bók og fjalla efnislega um hana. Þar væru þá tveir karlar að karpa um athafnir kvenna án þess að láta sér detta í hug að spyrja þær, enda óhugsandi að þær hefðu nokkuð um málið að segja. Við getum hugsað okkur að rithöfundurinn héti Hermann Stefánsson, hefði skrifað pistil á Kjarnann sem héti „Eymdarstuna úr ættarmóti“ og sagt eitthvað á borð við: „Hvers vegna er Hjalta það ofviða fyrst stelpurnar á Druslubókavefnum fóru létt með það?“
Eins og áður hefur verið nefnt höfum við tröllatrú á lesskilningi lesenda okkar en til að taka af allan vafa þá er þessi færsla ekki í jákvæðum tón. Eða eins og einni okkar varð að orði: Það er alveg ástæða til að gera eitthvað þegar sjálfstæðiskonur útí bæ eru farnar að senda manni skilaboð um „ótrúlega karlrembulegar athugasemdir um Druslubækur og doðranta“.