29. nóvember 2012

Hættulegar persónur í annarlegum heimi

Portúgalski rithöfundurinn Gonçalo M. Tavares kom óvænt inn í líf mitt úr mörgum áttum á um það bil mánaðar tímabili; vinur minn sendi mér tengil á útvarpsþátt þar sem fjallað var um hann, samstarfsmaður minn mælti með honum við mig og rithöfundur nokkur sagði mér að hann hefði hitt hann í útlöndum og séð hann lesa upp einhvers staðar í Skandinavíu fyrir þrjá áhorfendur. Þrátt fyrir það virðist Tavares vera höfundur á uppleið; allir dómarnir sem ég finn um bækur hans á netinu virðast eiga það sameiginlegt að spá honum frægð og frama, jafnvel Nóbelsverðlaunum í fyllingu tímans. Sá sem spáði honum Nóbelnum var enginn annar en José Saramago, en ein af fjöldamörgum viðurkenningum sem Tavares hefur hlotið á síðustu árum voru portúgölsk bókmenntaverðlaun kennd við Saramago. Forsíðu bókarinnar sem ég las eftir öll meðmælin, Jerúsalem, prýðir hnyttnasti hluti hrósyrða Saramago, blautur draumur hvers markaðssetningarmanns: „Tavares hefur engan rétt á að skrifa svona vel aðeins 35 ára gamall. Mann langar mest að berja hann!“

Sögusvið skáldsögunnar Jerúsalem er (þrátt fyrir titilinn) ónefnd borg og án áberandi staðareinkenna, en nöfn persónanna hafa þýskan hljóm. (Einn portúgalskur ritdómari skrifaði að það skapaði ákveðna fjarlægð fyrir hinn portúgalska lesanda að lesa um „hinar köldu og ópersónulegu norðurevrópsku borgir“ – þar höfum við það.)

27. nóvember 2012

Gelgjur snúa bökum saman í Svíþjóð

Mér finnst alltaf svolítið vandræðalegt að skrifa um bækur sem mér finnast frábærar, því einhverra hluta vegna finnst mér eitthvað pínulítið glatað við það að skrifa umfjallanir sem eru eintómar lofrullur. En stundum er það bara þannig að maður rekst á bækur sem maður finnur eiginlega ekkert til foráttu, sama hvað maður reynir. (Ég tek samt fram að ég á auðvitað ekkert við að bækurnar séu fullkomnar, heldur frekar að þær standast fullkomlega þær væntingar sem ég hafði til þeirra áður en lesturinn hófst og gott betur.)

Ég lauk í gærkvöldi við Hringinn eftir Mats Strandberg og Söru Bergmark Elfgren, sem er nýkomin út hjá Bjarti, og hef mikið verið að reyna að finna eitthvað til að kvarta yfir í þessari bloggfærslu. Að lokum varð ég að horfast í augu við að ég yrði að verða mjööög smásmuguleg og draga fram einhvern algjöran tittlingaskít sem skipti mig engu máli við lesturinn ef ég ætlaði að fara að fetta fingur út í eitthvað.

Mér fannst Hringurinn semsagt alveg ógeðslega skemmtileg. Þetta er fyrsta bókin í þríleik og hún fjallar í stuttu máli um nokkrar unglingsstúlkur í smábæ í Svíþjóð sem komast að því að þær búa yfir dularfullum kröftum og þrátt fyrir að vera mjög ólíkar og alls engar vinkonur (og sumar þeirra eru beinlínis óvinkonur) þá tengjast þær allar órjúfanlegum böndum. Þeim er sagt að þær verði að vinna saman gegn illum öflum sem eru að reyna að ná völdum, en þær eiga erfitt með að fyrirgefa gamlar syndir og yfirstíga allskonar gelgjutakta og fýluköst. En þegar þær komast að því að einhver dularfull vera er að reyna að taka allar í hópnum af lífi eina á fætur annarri neyðast þær til að horfast í augu við að þær verði annað hvort að útkljá vandamálin sín á milli eða hreinlega verða drepnar. 

26. nóvember 2012

Kantata um bróðurson móðurbróður og fleiri

Við fyrstu sýn var ég tvístígandi gagnvart kápunni á Kantötu eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, óviss um hvort þetta blómskrúð í björtum litum væri nokkuð laglegt eða heldur væmið. Þegar ég opnaði svo bókina og hóf lesturinn leist mér ekki á blikuna í fyrstu. Bókin hefst á stuttri, upphafinni senu úr neðanjarðarlest. Ungur maður fylgist með karli og konu sem eru bæði ljóshærð, eins og ítrekað kemur fram á þeim tæpu tveimur síðum sem kaflinn spannar, og raska ró „þeldökks manns“ í lestinni. Tvisvar á sömu síðu kemur fram að ungi maðurinn „fylgdist af áhuga með andstæðunum úr norðri og suðri“ og önnur dæmigerð setning úr kaflanum er: „Þeldökki maðurinn leit aldrei á ljóshærðu konuna við hlið sér.“

Þessi stíll fannst mér ekki aðlaðandi og upphafið á fyrsta eiginlega bókarkaflanum, stök setning og síðan greinarskil á undan þeirri næstu þótt hún sé í raun beint framhald af þeirri fyrri, gerði mig ekki jákvæðari (ýmsir fleiri kaflar í bókinni byrja á sama hátt):
Trén höfðu fikrað sig nær húsinu.
     Leitað hlýjunnar í kuldanum. Sum þeirra teygt greinar sínar upp á veröndina, skriðmispillinn ágengastur, hafði mjakað sér áfram eins og snákur í myrkrinu ...
Ég sé engan tilgang með svona greinaskilum annan en tilgerð. Eftir þessa byrjunarörðugleika batnaði ástandið þó mikið og það sem eftir var bókarinnar reyndist textinn oftast kjarnmikill og skemmtilegur aflestrar. Þó birtust öðru hverju heldur væmnar klausur fyrir minn smekk. Sennilega er tilfellið að bókarkápan sé býsna lýsandi fyrir innihaldið.

25. nóvember 2012

Siglt um síki minnis og gleymsku

Siglingin um síkin eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur er skáldsaga um minni og gleymsku. Hún vinnur með allskyns hugmyndir um það hvað við munum og hverju við gleymum - og kannski ekki síður hvernig við munum og gleymum og hvaða aðferðir við notum til þess að komast í burtu og gleyma. Sagan er uppfull af þverstæðum og hliðstæðum og lesandinn ferðast með Gyðu, aðalsöguhetjunni, um síki minnisins, en á meðan á því ferðalagi stendur dregur hún upp úr gruggugu vatninu minningabrot og teygir sig inn í þokuloft hugans til að leita skýringa á því afhverju einhverjir atburðir gerðust á ákveðinn hátt og hversvegna hún er stödd í þeim aðstæðum sem hún virðist vera föst í.

Gyða er orðin gömul, maður veit ekki alveg hversu gömul, en nægilega til að hún á fullorðin börn, látinn eiginmann og er af orsökum sem ekki er alveg kunnar í byrjun bókar, flutt inn í borðstofuna hjá Sölva syni sínum. Hún telur að þarna eigi hún að vera tímabundið meðan Sölvi vinni í því að selja einbýlishúsið hennar og kaupa fyrir hana íbúð af heppilegri stærð. Það kemur hinsvegar fljótlega í ljós að ekki er allt sem skyldi. Gyða er augljóslega ekki alveg áttuð á því hvað er að gerast, einhverskonar veikindi eru í spilunum en henni líður líkt og hún sé höfð í stofufangelsi.

24. nóvember 2012

Um ævisögu Freddie Mercury. Við söknum þín.

Í dag eru liðin nákvæmlega tuttugu og eitt ár síðan Freddie Mercury, sá frábæri listamaður, kvaddi þennan heim. Af því tilefni langar mig að skrifa örlítið um ævisögu hans eftir Lesley-Ann Jones, sem kom út í kilju fyrr á þessu ári.

Áður en ég byrja umfjöllunina er líklega best að ég geri grein fyrir því hvar ég stend, hvað Freddie (já, ég kalla hann Freddie) varðar. Fyrir rétt um tveimur mánuðum síðan sá ég heimildarmynd um hann á RIFF. Þar áður þekkti ég auðvitað Queen og Freddie Mercury, þótt hann hafi dáið rétt fyrir fimm ára afmælisdaginn minn. En þegar ég sá þessa mynd þá varð ég gjörsamlega heltekin af honum, það er erfitt að útskýra hvers vegna (þótt ég geti reyndar velt vöngum yfir því tímunum saman með ykkur yfir bjór/kaffibolla, ef þið nennið að hlusta – ef svo er, sendið mér endilega tölvupóst). Ég held ég hafi upplifað í fyrsta sinn hvernig obsessívum, einlæglega hrifnum og vandræðalega berskjölduðum aðdáanda líður. Það var einmitt það sem truflaði mig fyrst, hvað það er lítið töff að vera svona heillaður af einhverjum. Auðvitað komst ég mjög fljótt að því að við erum ótalmörg þarna úti, fólk með Freddie fever (þótt við séum mögulega færri þessa dagana en þeir sem eru sjúkir í Bieber). Þetta er langt frá því frumlegt, en samt er þetta svo persónulegt. Og ég get bara ekki hætt að deila hrifningu minni með öðrum, enda hef ég eytt drjúgum hluta frítíma míns undanfarnar vikur í að (mynda)gúgla Freddie, horfa á tónlistarmyndbönd og viðtöl á youtube, lesa umræðuþræði um hann og… svo keypti ég ævisöguna hans.

22. nóvember 2012

Merkingarþrungnar tinnuflísar og gjall

Ég flissaði dálítið yfir þeirri yfirlýsingu á bakkápu Vínlandsdagbókar Kristjáns Eldjárn að hún hefði ekki verið gefin út fyrr en núna í haust vegna þess að Kristjáni hafi þótt efnið „viðkvæmt og hæfilegt að bíða í 50 ár“ – halló, Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. En þótt þorri lesenda myndi sennilega ekki lýsa þessari fimmtíu ára gömlu dagbók þjóðminjavarðar frá fornleifauppgreftri á Nýfundnalandi sem æsilegri afhjúpun hættulegra leyndarmála er hún samt ansi áhugaverð og fjallar, eins og Adolf Friðriksson talar um í eftirmála, ekki síst um það hvernig vísindaleg þekking verður til og þá pólitísku og persónulegu togstreitu sem þar kemur gjarnan við sögu.

Dagbókin er skrifuð á mánaðartímabili sumarið 1962, en þá hélt Kristján Eldjárn ásamt þremur öðrum íslenskum vísindamönnum til L´Anse aux Meadows á Nýfundnalandi til að taka þátt í uppgreftri með norska ævintýramanninum Helge Ingstad og konu hans, fornleifafræðingnum Anne Stine Ingstad, en þau töldu sig hafa fundið þar minjar norrænna manna – og ekki bara einhverjar minjar heldur sjálft Vínland hið góða. Það hafði komið Helge Ingstad á óvart þegar hann heimsótti staðinn fyrst „hve vel allir staðhættir féllu að frásögninni um komu Leifs heppna til Ameríku“, segir Adolf Friðriksson.

Í eftirmála Adolfs er saga kenninga um norræna arfleifð í Norður-Ameríku rakin og sú víkingarómantík og þjóðernissköpun sem þar lá oft að baki. Það skiptir máli hver á sína arfleifð og sinn uppruna hvar. Mikil togstreita ríkti til að mynda milli Norðmanna og Dana í „kapphlaupinu um fund Vínlands“ og Helge Ingstad (sem hafði átt vægast sagt skrautlegan feril og meðal annars verið settur yfir skammlífa nýlendu kennda við Eirík rauða sem hinn alræmdi Vidkun Quisling stofnaði á Grænlandi um 1930) átti í harðvítugum deilum við danska fornleifafræðinga (og reyndar fleiri) um mikilvægi fundarins í L´Anse aux Meadows.

21. nóvember 2012

Menn og blóð

Um þessar mundir eru ofarlega í huga okkar margra blóðsúthellingar í Palestínu þar sem fólk sem ekkert hefur til saka unnið annað en að fæðast á röngum stað á röngum tíma er látið gjalda með lífi sínu. Allt snýst þetta um yfirráð yfir landsvæðum og að öllum sé ljóst hver það er sem valdið hefur. Einhvern veginn finnst mér það eiga vel við að hafa rétt lokið við að lesa Vígroða eftir Vilborgu Davíðsdóttur þar sem segir frá keimlíkri hegðun forfeðra okkar. Þeir fara þar um Bretlandseyjar með hrottaskap og yfirgangi, höggvandi og brennandi. Þar er líka barist um yfirráð yfir landsvæðum og fólk er kúgað til undirgefni með ofbeldi. Engar höfðu þeir sprengjurnar en ekki vantar þó blóðtaumana og maður getur ekki annað en leitt hugann að því hversu meingölluð dýrategund mannskepnan er.

20. nóvember 2012

Bókmenntir, brúður og leikhús

Þetta var einhverra hluta vegna fyrsta myndaniðurstaða
þegar ég gúglaði jólabókaflóðið.
Jólabókaflóðið lætur ekki að sér hæða. Ég reyni mitt besta til að fylgjast með úr finnskri fjarlægð, og í það minnsta er internetið morandi í útgáfufögnuðum, kápumyndum, bókadómum og sölutölum. Hérna megin hafs teygir flóðið sig auðvitað líka hvað lengst uppá land fyrir jólin; finnskar bækur, þýddar, barna- og allskonar. Undanfarið hef ég sankað að mér þýddum bókum í vaxandi mæli ‒ verandi hvort sem er ólæs á annað en norræn mál og ensku datt mér í hug að ég gæti sem best lesið franskar, þýskar eða rússneskar bókmenntir í finnskum þýðingum og æft þá finnskuna mína í leiðinni.

Um daginn var ég til dæmis að skoða nýja finnskuþýðingu á þremur leikritum eftir Federico García Lorca, en þetta var einmitt um sama leyti og við kórinn minn vorum að æfa kórverk með texta úr ljóði eftir þann sama Lorca. Síðastliðna helgi sá ég síðan brot úr finnskri uppsetningu á brúðuleikhúsverkinu Retablillo de Don Cristóbal, eftir hvern annan en hinn spænska Federico del Sagrado Corazón de Jesús García Lorca, og flaug þá í hug að alheimurinn væri hugsanlega að reyna að segja mér eitthvað með milligöngu skapbráðu, fjólubláu feltbrúðunnar sem svo þróttmikil sló sambrúður sínar eina af annarri í trékylft rot.

19. nóvember 2012

Ólíver - handa öllum sem eru svolítið sérstakir

Forlagið gaf út fyrir skemmstu barnabókina Ólíver eftir Birgittu Sif. Bókin kom fyrst út í Bretlandi á vegum Walker Books Ltd. og hefur að því er virðist fengið lofsamlega dóma þar sem ætti nú sannarlega að ýta undir söluna hér þar sem Íslendingar eru jú alltaf spenntir fyrir upphefð sem kemur að utan.

En Ólíver er reyndar mjög vel allri upphefð komin. Þetta er einföld saga um lítinn strák sem er sér á báti og mikið einn. Hann er þó ekki óhamingjusamur í einveru sinni – hann á vini, tuskudýr sem hann lendir í spennandi ævintýrum með. En dag einn bregður svo við að gömlu vinirnir nægja honum ekki lengur. Hann leggur svo uppí langferð að leita að tennisbolta og leiðir sú ferð hann til Ólavíu – lítillar stúlku sem einnig er dálítið sér á báti og þau geta því verið sér á báti saman.


9. nóvember 2012

Saga föður

Nýlega las ég bókina Að endingu eftir Julian Barnes, skáldsögu sem býður upp á vangaveltur um minningar. Þar neyðist eldri maður, Tony, til að rifja upp atburði sem gerðust þegar hann var um tvítugt og hann veltir því fyrir sér hvort hann muni í raun allt sem átti sér stað, hann reynir að lesa í hegðun fólks sem sagði eða gerði eitthvað einhvern tíma fyrir löngu, túlkar það sem gerðist og veltir fyrir sér hvaða minningar séu hugsanlega uppspuni og hver raunveruleikinn sé. Eftir lesturinn veltir maður því fyrir sér hvort Tony dragi virkilega réttar ályktanir, hvort hann sé kannski að fegra eigin gjörðir og hvað hafi í raun átt sér stað.

Það fór vel á því að lesa nýja sögu Úlfars Þormóðssonar, Boxarann, rétt á eftir verðlaunabók Julian Barnes. Þær eru nefnilega hliðstæðar að því leyti að óljós fortíð er rifjuð upp og í báðum bókum má finna launbörn og vangaveltur um atburði sem eru þannig að síður en svo er augljóst hvort þeir hafi í raun gerst eins og flestir virðast halda, eins og sagt er frá þeim, já eða hvort menn rámi í eitthvað sem í raun gerðist einhvern veginn allt öðruvísi en talið er.

Í bók Úlfars er rifjað upp lífshlaup látins föður sem var rótlaus og margbrotinn maður sem sagði aldrei mikið frá sjálfum sér og nánustu ættingjum sínum, suma minntist hann bókstaflega aldrei á eða að hann hliðraði augljóslega atburðum. Púslað er upp í myndina með uppflettingum í ýmsar heimildir, sögusagnir eru rifjaðar upp og myndir skoðaðar. Undirtitill bókarinnar er „Saga“ - orð sem bendir til þess að höfundurinn telji sig ekki endilega vera að segja blákaldan sannleikann. Sannleiksleit er líklega nothæft hugtak; þarna er maður sem leitar sannleikans um föður sinn. Á þessari síðu hefur áður verið skrifað um sænskar pabbabækur en dánir og drykkfelldir feður  eru viðfangsefni þeirrar bókmenntagreinar. Nú sýnist mér sem þessi grein bókmenntanna sé komin til Íslands, Boxara Úlfars mætti vel flokka með pabbabókmenntum.

Á listasafninu

Út er komið þriðja bindi safnaritsafns Sigrúnar Eldjárn, Listasafnið. Hin tvö bindin heita Forngripasafnið og Náttúrugripasafnið og komu út í fyrra og hittifyrra. Ég hef ekki lesið þau, var kannski ekki með barn á réttum aldri (eða taldi mig ekki vera það), en ég las Listasafnið fyrr í vikunni með dóttur minni sem er að verða 8 ára. Skemmst er frá því að segja að við mæðgur vorum báðar hæstánægðar með bókina.

Aðalsöguhetjan heitir Rúnar og er alveg að verða 12 ára (á reyndar afmæli við lok bókar). Hann býr með föður sínum í safnahúsinu í þorpinu Ásgarði. Í safnahúsinu er rekið bæði náttúrugripasafn og forngripasafn og þegar bókin hefst er verið að undirbúa þar opnun listasafns. Bestu vinir Rúnars búa í næsta húsi, systkinin Magga og Lilli. Úr þessu er svo spunninn skemmtilegur og spennandi söguþráður þar sem alls konar sérvitringar og furðuverur koma fyrir: draugar, dvergar, listaverkaþjófur, sérvitrir listamenn, dreki og reiðir þorpsbúar. Mamma Rúnars, myndlistarkonan Þispa, kemur frá Ameríku til að aðstoða við uppsetningu listasafnsins, ágreiningur verður um fyrirkomulag safnsins og fleira, ýmsir lenda í lífsháska og allt fer auðvitað vel að lokum.

Dætur Juárez

Reglulega berst fréttir af morðum og grimmilegu ofbeldi frá Mexíkó. Glæpahringir eru sagðir halda heilu landshlutunum í gíslingu og mikil spilling grasserar innan lögreglunnar. Síðustu mánuði hefur hafnarborgin Veracruz verið í kastljósinu vegna fjölda morða sem flest virðast tengjast baráttu eiturlyfjasala um völd og áhrif. Í mörgum tilfellum virðist um hreinar fjöldaaftökur að ræða og líkum hefur verið komið fyrir í haugum á opinerum stöðum um hábjartan dag, að því er virðst öðrum til varnaðar. Það er ekki langt síðan Veracruz taldist vera mjög friðsæl á mælikvarða Mexíkóbúa, raunar hefur hún verið ferðamannaparadís í áratugi og íbúar að stórum hluta haft lifibrauð sitt af þeim iðnaði sem nú hefur skroppið saman í nánast ekki neitt vegna ástandsins.

Það voru fréttirnar frá Veracruz sem fengu mig til að hugsa til stúlknamorðanna í Juárez sem ég hef ekki heyrt fjallað um í töluverðan tíma og tel ég mig þó vera nokkuð tryggan lesanda heimsfréttanna. Mig minnir að það hafi verið í þáttum Eiríks Guðmundssonar um rithöfundinn Roberto Bolaño sem fluttir voru um páska fyrir nokkrum árum, sem ég heyrði fyrst fjallað skipulega um þessa hryllilegu atburði, en Bolaño notaði stúlknamorðin sem efnivið í skáldsögu sína 2666. Ég hef ekki enn lesið skáldsögu Bolaño en fór á bókasafnið til að leita mér að einhverju efni um Juárez og fann ágæta bók sem nefnist The Daughters of Juárez og er eftir þrjár bandarískar blaðakonur (Rodriguez, Montané og Pulitzer).

Það var árið 1993 sem fyrstu líkin byrjuðu að finnst í útjaðri borgarinnar Juárez sem staðsett er rétt við bandarísku landamærin. Nær undantekningalaust var um að ræða ungar stúlkur, vart af barnsaldri, sem áttu það sameiginlegt að vera af fátæku fólki og unnu þær oftar en ekki fyrir sér í einhverjum af þeim fjöldamörgu verksmiðjum sem spruttu upp í borginni á tíunda áratugnum. Margar þeirra stunduðu nám meðfram slítandi verksmiðjuvinnunni – flestar voru þær afskaplega fríðar og smágerðar. Oftast voru þær á aldrinum 15-20 ára, en lík af stúlkum allt niður í 9 ára hafa fundist.

8. nóvember 2012

Þegar sólin fer að skína / fylla strákar vasa sína / af plómum sem þeir tína

Albert nútímans
Gamlan vin minn er að finna í hinu alræmda jólabókaflóði (fyrirgefið að ég skuli nota þetta óþolandi orð, ég skal aldrei gera það aftur). Það er strákpjakkurinn Albert frá Kallabæ sem Ole Lund Kierkegaard skrifaði um árið 1968 og kom út í íslenskri þýðingu Þorvaldar Kristinssonar röskum áratug síðar. Albert hefur lengi verið ófáanlegur hér á landi - ég held að bókin hafi ekki verið fáanleg úr bókabúð þegar ég var sjálf lítil enda var hún ein fárra skáldsagna Ole Lund sem ekki voru til á mínu heimili. Þar kom Sólheimasafn þó sterkt til sögunnar og Albert var margoft ein þeirra sagna sem bókhneigð lítil stúlka með gleraugu hlóð upp á afgreiðsluborðið. Ég tók þessum gamla kunningja því fagnandi þegar JPV endurútgaf hann á dögunum.

Það er alltaf dálítið hættulegt að lesa aftur bækur sem voru í miklu uppáhaldi á árum áður. Samkvæmt minni reynslu stendur þó Ole Lund Kierkegaard enn fyrir sínu og vekur sömu kátínuna og þegar ég kynntist honum fyrst, sirkabát 1985. Ég hef ennþá innilega gaman af að lesa um Hodja frá Pjort á töfrateppinu, þjófinn á hlaupahjólinu í Fróða og öllum hinum grislingunum ("hnekk hnekk!"), Fúsa froskagleypi, Pésa grallaraspóa og Manga vin hans, Kalla kúluhatt og Virgil litla (hvern langar ekki í "inneign í sjóði"?). Bækurnar hans Ole Lund eru fyndnar, ófyrirleitnar og hlýjar; persónugalleríið er sérlega eftirminnilegt og söguheimurinn lýtur sínum eigin lögmálum.

Strandir Gerðar

Nýr gestabloggari lætur á sér kræla: Vera Knútsdóttir bókmenntafræðingur skrifar hér um Strandir eftir Gerði Kristnýju.
Ég held að ég hafi verið um fjórtán ára þegar ég bað um smásagnasafnið Eitruð epli eftir Gerði Kristnýju í jólagjöf frá foreldrum mínum. Ég þekkti ekki höfundinn en fannst eitthvað mjög spennandi við titilinn og myndina af höfundi sem fylgdi auglýsingu bókarinnar í Bókatíðindum það árið. Og ekki brást yfirborðsmennskan í sjálfri mér, því eitruðu eplin smökkuðust vel og ég las sögurnar aftur og aftur. Hversdagslegur tónn, en í senn hnyttinn, kaldhæðinn, ásamt svörtum húmor sem ólgaði undir yfirborði textans og skaust upp af og til, heillaði unglingahjartað. 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Gerður Kristný orðið margverðlaunað skáld og margþýtt. Hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabók sína Blóðhófnir árið 2010 og ég man eftir viðtali við hana (eða kannski var það bara status á feisbók) þar sem hún hafði fengið í hendurnar nýjustu þýðinguna á ljóðum sínum og letrið minnti hana helst á „þvott á snúru“ sem er reyndar mjög góð lýsing á tælenskum stöfum. Þá þykist ég vera löngu hætt að velja bækur eftir ljósmyndum höfunda á bókakápum, eða við skulum að minnsta kosti vona það – myndi sennilega aldrei koma til með að lesa menn eins og Sartre eða Flaubert ef sá væri hátturinn. Gerður hefur einnig látið að sér kveða í skrifum fyrir börn og hlaut Vestnorrænu barnabókaverðlaunin fyrir unglingasöguna Garðurinn árið 2010.

7. nóvember 2012

Ljóðabók um okkur og allt

Ljóðabókin Á milli okkar allt er fyrsta bók Heiðrúnar Ólafsdóttur. Höfundur stundar meistaranám í ritlist og hlaut nýræktarstyrk bókmenntasjóðs fyrr á þessu ári fyrir handritið, en í viðtali við stúdent.is kemur fram að ljóðin í bókinni hafi orðið til á tíu ára tímabili.


Bókartitillinn kemur ansi bókstaflega fram í titlum hlutanna þriggja sem hún skiptist í; heitir sá fyrsti „Ég“, annar „Allt“ og þriðji „Þú“. Í takt við þessar yfirskriftir er áherslan þannig einkum á fyrstu persónu, eða ljóðmælanda sjálfum í fyrsta hluta bókarinnar og í þriðja hluta á þeim sem ljóðmælandinn ávarpar. Ég-ið og þú-ið skarast þó auðvitað og óhjákvæmilega, því eins og bókartitillinn undirstrikar samfléttast þau í fleirtölunni, „okkur“ (og auðvitað ekkert sem segir að ljóðmælendur almennt geti ekki ávarpað sjálfa sig í annarri persónu einnig eða eingöngu, ef út í það er farið). Kaflaskil eru þó skörp að því leyti að í miðjukaflanum „Öllu“ eru ljóðin almennara eðlis; frekar í ætt við yfirvegaðar athuganir en innhverfa sjálfskoðun, með umheiminn og hversdaginn til umfjöllunar. Ef til vill má líta á þann kafla sem hvíld frá þesskonar tilfinningaálagi og naflaskoðun sem „við“-pælingar eiga til að hafa í för með sér, og sem eru nokkuð gegnumgangandi í upphafs- og lokahlutunum með tilheyrandi óþreyju og ófullnægju á stundum. Þó er slík stemning ekki alls fjarri í miðhlutanum heldur – því ef „allt“ er einfaldlega allt það sem ekki kemur elskendunum sjálfum beint við, þá hlýtur það að samanstanda af öllum aukaatriðunum og óþarfanum allt um kring og á milli þeirra, öllu því sem elskendurnir hefðu kannski gjarnan kosið að fá frið fyrir. Hvað sem öðru líður finnst mér bókartitillinn ansi góður og kaflaskiptingin virka ágætlega sem slík.

6. nóvember 2012

Að lúxusvæða lestur

Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég pistil um tímaritamarkaðinn hér í Svíþjóð og Skriva, nýlegt blað fyrir fólk sem hefur áhuga á að skrifa og langar að vera lesið. En kaupin gerast hratt bæði á eyrinni og í Pressbyrån og frá þeirri bloggfærslu hefur að minnsta kosti tvennt markvert gerst á þessu sviði. Annars vegar taldi ég nýlega heil 22 tattútímarit í bestu blaðsölu bæjarins og hins vegar hefur nýtt rit helgað bókmenntum, Books & Dreams, hafið göngu sína.

Á meðan Skriva er ætlað fólki sem hefur áhuga á að skrifa sjálft bókmenntir er þetta nýja blað helgað þeim sem vilja lesa þær. Í þessu fyrsta hefti kennir ýmissa grasa. Á forsíðunni eru þrír þekktir einstaklingar sem eru allir að gefa út endurminningabók nú í haust og viðtöl við hvern og einn þeirra er að finna inni í blaðinu. Það er líka rætt við bandaríska spennuhöfundinn Harlan Coben og breska femínistann Caitlin Moran, glæpasagnahöfundurinn Mons Kallentoft segir frá sínum uppáhaldsstöðum í Tælandi og enn einn rithöfundurinn, Emma Hamberg, leiðir lesendur inn í lestrarhornið sitt. Af föstum liðum blaðsins má nefna pistil eftir leikarann Michael Nykvist (sem meðal annars lék Mikael Blomkvist í sænsku myndunum sem gerðar voru eftir bókum Stieg Larssons) og smásögu blaðsins sem í þessu fyrsta hefti er eftir Jens Lapidus sem gjarnan kennir sig við bókmenntagreinina Stockholm noir. Inn á milli er svo það áhugaverðasta á bókamarkaðnum þetta haustið kynnt, sumt með örstuttum umfjöllunum þar sem greint er frá efni bókarinnar í einum eða tveimur setningum, annað í aðeins lengra máli.

Blaðið er allt hið vandaðasta, fallega upp sett og vel myndskreytt, brotið í sambærilegri stærð og harðspjaldabók af stærri gerðinni og fer því vel með bókunum sem það fjallar um. En einhvers staðar þar lýkur kostum blaðsins og gallarnir taka við. Því þótt viðtölin og greinarnar séu alveg áhugaverðar í sjálfu sér þá drukkna þær í yfirborðs- og markaðsmennskunni sem einkennir Books & Dreams. Svo kallaðar „kundtidningar“ hafa verið að sækja í sig veðrið að undanförnu hér í Svíþjóð. Þetta eru tímarit sem hin og þessi fyrirtæki gefa út um eigin starfsemi og láta viðskiptavinum sínum í té ókeypis. Þrátt fyrir að vinnan við þau sé oft mjög metnaðarfull eru þau auðvitað lítið annað en auglýsingar í glansumbúðum. Books & Dreams er ekki skilgreint sem slíkt heldur selt á opnum markaði en það er hins vegar gefið út af Bonnierförlagen og undir merkjum þess eru jafnframt ýmis bókaforlög svo hagsmunatengslin eru augljós. Ég fæ ekki betur séð en að það sé fjallað um bækur fá fleiri forlögum en þeim sem standa beint og óbeint að tímaritinu en gildi þess sem markaðsafl fyrir útgefandann er engu að síður óumdeilt.

5. nóvember 2012

Börn og menning, nýtt hefti

Við bendum lesendum okkar á að hausthefti Barna og menningar er nú komið út en blaðið er í þetta sinn mikið bóka- og lestrarblað. Í því má finna greinar um nýjar og nýlegar bækur eins og grein Ernu Erlingsdóttur um hinn gífurlega vinsæla bókaflokk Hungurleikana og gagnrýni Hjörvars Péturssonar um glænýja bók Þórdísar Gísladóttur, Randalín og Mundi. Í blaðinu er einnig að finna skemmtilegt viðtal við einn þekktasta myndabókahöfund Evrópu, Juttu Bauer. Jutta var á landinu í boði Mýrarhátíðarinnar og ræddi Helga Ferdinandsdóttir við hana um um ferilinn, myndabækur og listina. Brynhildur Þórarinsdóttir fjallar í blaðinu um það sem hefur áorkast á fyrstu mánuðunum í starfsemi Barnabókaseturs á Akureyri og Sölvi Björn Sigurðsson veltir vöngum um barnabækur og fortíðarþrá.

Ritstjóri Barna og menningar er Helga Ferdinandsdóttir druslubókadama.

Tímaritið Börn og menning er gefið út af IBBY-samtökunum á Íslandi tvisvar á ári. Hægt er að gerast félagi í samtökunum og jafnframt áskrifandi að blaðinu á www.ibby.is eða með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.4. nóvember 2012

Múffumaraþonið: úrslit

Áhugi minn á matreiðslubókum getur líklega talist svona í meðallagi. Mér finnst oft gaman að fletta matreiðslubókum en svo er ég ekki nærri nógu dugleg að prófa uppskriftirnar úr þeim. Oft fletti ég matreiðslubók og finn fjölmargar uppskriftir sem mig langar að prófa en svo steingleymi ég því og aldrei verður af þeirri prófun. Kannski er ég ekki nógu áhugasöm um matreiðslu til þess. Auðvitað elda ég (eitthvað þarf maður víst að borða) og mér finnst oft gaman að prófa mig áfram í eldhúsinu en það er bara svo margt annað sem ég hef áhuga á og ég er ekki einn af þessum stórkostlega duglegu gúrmekokkum. Eiginlega hef ég meiri áhuga á bakstri en eldamennsku og því fannst mér upplagt að prófa nýju bókina hennar Nönnu Rögnvaldardóttur, Múffur í hvert mál. Ég á reyndar aðra bók frá Nönnu, Matinn hennar Nönnu, og hef notað hana talsvert.

Randalín og Mundi - útgáfugleði 6. nóvember

Nokkrar okkar sem skrifa á þessa síðu eiga bækur í jólabókaflóðinu í ár, ýmist frumsamdar eða þýddar. Sú fyrsta þessara bóka sem nefnd verður hér á Druslubókum og doðröntum kom út í síðustu viku, en það er Randalín og Mundi, barnabók eftir Þórdísi Gísladóttur. Bókin fjallar um tvo hressa 9 ára krakka og hún er myndlýst af Þórarni Má Baldurssyni.

Um bókina segir rýnir glænýs eintaks tímaritsins Barna og menningar meðal annars: „Randalín og Mundi er skrifuð í léttum, kersknisfullum og allt að því kæruleysislegum stíl sem minnir á köflum á prakkarabækur Ole Lund Kirkegaard og vekur þá tilfinningu með lesandanum að hvað sem er geti átt eftir að gerast.“ 


Útgáfu Randalínar og Munda verður fagnað í Eymundsson í Austurstrætinu þriðjudaginn 6. nóvember klukkan 17. Þá tekur Þórdís á móti vinum, vandamönnum, eftirvæntingarfullum lesendum og hreinlega öllum sem vilja koma, les kafla úr bókinni, áritar eintök fyrir þá sem það vilja (bókin verður á tilboðsverði) og boðið verður upp á piparkökur og létta drykki. Allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir!


Einmana sálir í ljótfallegri borg

Fyrir tæpum sex árum síðan kom út í Bretlandi fyrsta bók höfundarins Catherine O'Flynn, What Was Lost. Bókin kom út hjá litlu forlagi í Birmingham - O'Flynn hafði gengið á milli umboðsmanna og forlaga með handritið sitt áður en þau hjá Tindal Street Press tóku hana upp á arma sína. Það er skemmst frá því að segja að skáldsaga þessi var óvænti smellurinn í bresku bókmenntalífi árið 2007; O'Flynn hreppti verðlaun fyrir bestu frumraunina hjá Costa Book Awards og var tilnefnd til Booker-verðlaunanna sem og Orange-verðlaunanna, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur væntanlega ekki verið árennilegt fyrir höfundinn að fylgja þessum gríðarlega sökksess eftir, en rúmlega þremur árum eftir útkomu What Was Lost birtist önnur skáldsaga O'Flynn, The News Where You Are. Ég nældi mér í hana í Oxfam á Byres Road í Glasgow nú í haust (mæli með þeirri bókabúð fyrir þá sem koma til Glasgow og hafa gaman af second hand-bókabúðum með góðu úrvali) og las í kjölfarið What Was Lost, sem ég hafði gefið mömmu minni í jólagjöf fyrir mörgum árum og lengi ætlað að lesa sjálf.

 Ég ætla mér í rauninni ekki að skrifa eiginlega krítík um skáldsögurnar tvær eða lýsa söguþræðinum í löngu máli heldur langar mig að draga fram og íhuga einn af þeim vinklum sem mér þótti hvað áhugaverðastur þegar ég las þessar tvær bækur svona í einni bunu. Stuttlega samt um söguþráð beggja: What Was Lost gerist annars vegar árið 1984 og hins vegar árið 2003; sögusviðið er Birmingham og þá sérstaklega verslanamiðstöðin Green Oaks sem er nýrisin þegar sagan hefst. Við kynnumst Kate Meaney, tíu ára gamalli foreldralausri telpu sem eyðir frístundum sínum við spæjarastörf í verslanamiðstöðinni með aðstoð bókarinnar How to Be a Detective. Árið 2003 finnur Lisa sem er aðstoðarverslunarstjóri í steingeldri tónlistar- og myndbandakeðju velktan tuskuapa í grámóskulegu rangölunum sem teygja sig um miðstöðina alla. Öryggisvörðurinn Kurt sér lítilli telpu bregða fyrir í öryggismyndavélunum en grípur í tómt þegar hann reynir að finna barnið og koma því til hjálpar. Bókin fjallar um einmanaleika, um vítahringina sem fólk festist í gagnvart sjálfu sér og öðrum, um svör sem finnast ekki því réttu spurningarnar hafa ekki verið bornar upp. Mögnuð bók og persónusköpunin eftirminnileg; þrátt fyrir þung, jafnvel sár umfjöllunarefni er líka húmor í sögunni og persónurnar eru aldrei vonlaus fórnarlömb heldur er í kjarna textans sterkur vonarneisti og möguleiki á að þetta einmana fólk nái að mynda raunveruleg tengsl. Ég skil afar vel að þessi bók hafi vakið svona mikla athygli, og fæ eiginlega í magann fyrir hönd Catherine O'Flynn þegar ég hugsa um það hvernig henni gæti hafa liðið að senda frá sér aðra bók við allt aðrar aðstæður en í fyrra skiptið. The News Where You Are er hins vegar virkilega fín bók; hún hafði ekki jafn sterk áhrif á mig og What Was Lost enda er lagt upp með allt annan tón.

The News Where You Are er kómískari (á tragíkómískan máta þó) og ekki jafn stingandi sár, en hún er vel skrifuð og aftur þessi sanni strengur í persónunum. Í þetta sinn er aðalpersónan sjónvarpsfréttaþulur að nafni Frank Allcroft. Frank er rúmlega fertugur og hefur alltaf upplifað sig sem einhvers konar miðlungsmann; hann er í svæðisfréttunum á Midlands-svæðinu (þaðan kemur titill bókarinnar en þegar skipt er úr aðalfréttatíma yfir í svæðisfréttir í bresku sjónvarpi er gjarnan sagt: "And now, the news where you are") og býr rétt fyrir utan Birmingham en hefur sterka tengingu við borgina í gegnum föður sinn heitinn sem var einn af arkitektunum sem settu mark sitt á borgina upp úr miðri síðustu öld. Forveri Franks í starfi - vinsæll með eindæmum - lést þegar ekið var á hann við undarlegar aðstæður og Frank verður smám saman heltekinn af ráðgátunni um andlátið þrátt fyrir að enginn annar sjái neitt dularfullt við atvik þetta. Brotin raðast saman eitt af öðru og þótt Frank sé í öndvegi fáum við einnig að kynnast sjónarhorni hins látna kollega sem og einstæðings sem fannst látinn á bekk í almenningsgarði. Frank er nefnilega líka heltekinn af þeim sem deyja einir, þeim sem daga uppi án þess að það snerti nokkurn.

Hér má sjá borgarbókasafnið í Birmingham
sem hefur verið smekklega komið fyrir á þessu torgi
Sá rauði þráður sem öðru fremur tengir bækurnar tvær er borgarlandslagið - borgarlandslagið og firringin sem leggst yfir þegar byggingar eru ekki í tengslum við fólkið sem á að blása lífi í þær.

3. nóvember 2012

Leikari les Einar Ben, leikari deyr

Ein af þeim íslensku glæpasögum sem rak á fjörur lesenda í ár var Leikarinn, fyrsta bók Sólveigar Pálsdóttur, sem kom út í vor. Hún hefst á voveiflegu andláti stórleikarans Lárusar Þórarinssonar, sem hnígur niður á tökustað kvikmyndarinnar Sagan sem aldrei var sögð og bendir allt til þess að hafi verið eitrað fyrir honum (dauði Lárusar minnti mig á annað fórnarlamb norræns glæpasagnahöfundar, útvarpsþulinn sem dó í beinni útsendingu eftir að hafa verið byrluð blásýra í upphafinu á Gráum október eftir Jógvan Isaksen – eftirminnileg sena þar sem því er lýst hvernig gjörvöll Þórshöfn situr yfir soðinni ýsu og kartöflum og hlustar á þulinn kafna).

Við kynnumst samstarfsfólki Lárusar við kvikmyndina, einkum leikmunakonunni Öldu og sminkunni Brynju, og lögreglufólkinu sem rannsakar morðið á Lárusi; Guðgeiri, Andrési, Særósu og Guðrúnu. Eins og lög gera ráð fyrir eru þeir fleiri sem mæta hroðalegum örlögum í bókinni, ýmsar flækjur sem þarf að leysa og ekki allt sem sýnist.

Þetta er ekki illa gerð bók og oftast rennur hún ágætlega. Samtölin eru einna stirðust og snúast oft, eins og stundum vill verða í glæpasögum, á augljósan hátt um að koma upplýsingum á framfæri um plottið eða persónurnar. Persónur bókarinnar lifna almennt ekki nógu vel á síðunum, að illmenninu undanteknu. Þær eiga greinilega að vera einhverjar týpur og það er mjög undirstrikað: ef það á að koma því nógu rækilega til skila að feita stelpan sé óörugg sjálfa með sig (sem er nógu klisjukennt út af fyrir sig) verður hún að nefna holdafar sitt og útlit í öðru hverju orði, tvístíga og gjóta augunum í sífellu á grannan vöxt annarra kvenna. Þetta er svo sem ekkert nýtt í íslenskum glæpasögum, meira að segja hinn margkrýndi glæpasögukonungur Arnaldur Indriðason er yfirleitt með frekar flatt persónugallerí.

Styrkur bókarinnar finnst mér einkum liggja í byggingu hennar, sem er sniðuglega hugsuð, og hinn spennuþrungni hápunktur undir lokin er skemmtilega krípí og bíómyndalegur. Ég sé á netinu að menn eru búnir að tryggja sér kvikmyndaréttinn að bókinni, og ég held að með góðum leikurum og almennilegu handriti gæti bókin orðið ágætis spennumynd. Þótt einstakir brandarar séu stundum áreynslukenndir er hún heldur ekki laus við að vera fyndin, til dæmis er stemmningin í senunni sem Lárus er að leika í þegar hann deyr kunnugleg íslenskum bíóáhorfendum: hann á að súpa á kaffibolla, taka upp bók með ljóðum Einars Ben, horfa út um glugga og fara djúpri og hljómmikilli röddu hins íslenska stórleikara með ljóðlínur: „Þel getur snúist við atorð eitt, aðgát skal höfð í nærveru sálar“.