21. október 2016

Ljóðskáldið er ljón sem öskrar á heiminn

Elgtanaður handrukkari kemur úr fangelsi og ræður sig í vinnu á elliheimili. Þar kynnist hann gömlum hrotta á lokametrunum og saman halda þeir til Hafnar í Hornafirði til að gera út um gamla skuld. Á leiðinni borða þeir pylsur, taka tuddalega lyftingaæfingu á Kirkjubæjarklaustri, sofa hjá norskum túristamæðguskvísum, eru lamdir af færeyskri áhöfn, hjálpa bæjarstýru sem er með bakið upp við vegg og að endingu deyr sá yngri – sá eldri urðar hann í Skógafossi. Að því loknu brotnar hann niður, í frumeindir.

Eftir tæplega fjögurra mánaða síðsumars- og snemmhaustfrí snýr ljóðaviðtalaröð Druslubóka og doðranta aftur með viðtali við Halldór Laxness Halldórsson, einnig þekktan sem Dóra DNA, en hann gaf út sína fyrstu ljóðabók í fyrra: Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir. (Undirtitill: Lítil atvik – mikil eftirmál.) Bókin kom fyrst út hjá Tunglinu en síðan í viðbættri útgáfu hjá Bjarti. Ein hugmyndanna í bókinni er sú sem birtist hér í upphafi: Hugmynd að skáldsögu #2.

Sæll og blessaður, takk fyrir að vera til í að koma í viðtal um Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir! Hvaðan kemur þessi titill? Maður hugsar yfirleitt ekki um ljóð og hundrað milljónir í sömu setningunni. 

Ég er ástfanginn af hugmyndum. Því þær eru alltaf sprottnar úr engu, en geta svo breytt heiminum - eða eitthvað. Ég er hugmyndaríkur gæi og get baunað þeim út úr mér, en það geta svo sem allir kannski. Þess vegna fannst mér svo gott að staðsetja mig einhvernveginn fyrir ofan alla aðra. Mínar hugdettur eru virði milljóna – ekki þínar.

Þetta er líka tónninn í bókinni. Húsið mitt er betra en þitt. Ég elska bílinn minn meira en þú elskar bílinn þinn. Harmar mínir eru miklu dýpri og verri en þínir. Ég er sérstakari en þú, þó ég sé hræddur og einmana og ráðvilltur.

Þetta er einhvernveginn dýnamíkin í bókinni og kannski mitt helsta hugðarefni. Að berskjalda sig um leið og maður ber sér á brjóst.

16. október 2016

Morð er morð er morð

Fyrir sex árum síðan (ó, hvað tíminn flýgur) las ég og bloggaði hér um ævisögu sem hefur orðið mér óvenju eftirminnileg: Secret Historian. The Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade eftir Justin Spring. Fyrir manneskju sem er veik fyrir bókmenntasögu, hinsegin sögu, skráningarsögu, klámsögu, húðflúrum og trega er Samuel Steward ómótstæðileg týpa; þessi maður sem var víðlesinn bókmenntaprófessor í Ohio og Chicago, gerðist svo húðflúrlistamaður á vesturströndinni, stundaði mikið kynlíf með mörgum mönnum og hélt því öllu til haga í sérstakri spjaldskrá sem kynlífsrannsakandinn Kinsey tók fagnandi (gott ef hann fékk ekki að vera fluga á vegg í einhverjum orgíum líka), og fór svo á endanum að skrifa hommaklám undir hinu lærða grískættaða höfundarnafni Phil Andros (philia = ást, andro = karlmaður).

Ég náði mér í nokkrar bækur eftir Phil Andros í Samtökunum ´78 í fyrra, þegar verið var að selja bækur af bókasafni félagsins sem var leyst upp árið 2014. Stór hluti safnsins er hins vegar kominn á Borgarbókasafn Reykjavíkur og uppi á 2. hæð á aðalsafninu í Grófinni er sérmerkt hilla með fjölbreyttu úrvali hinsegin bóka. Fyrir tveimur vikum sá ég þar aðra bók eftir sama höfund – reyndar undir sínu rétta nafni, Samuel Steward – sem erfitt var að taka ekki eftir, svo gul er kápan og titillinn æpandi: MURDER IS MURDER IS MURDER. Hvaða bók var þetta? Jú, að sjálfsögðu var það leynilögreglusaga með Gertrude Stein í aðalhlutverki.