Hausfrau, eftir Bandaríska skáldið og bókmenntaprófessorinn Jill Alexander Essbaum, kom nýlega út í íslenskri þýðingu Guðna Kolbeinssonar með titilinn Fram hjá. Þessi bók, sem kom út á frummálinu fyrir tæpu ári síðan, hefur greinilega slegið í gegn því leitarvélin segir mér að hún hafi verið þýdd á mörg tungumál, sé tilnefnd til Pen-verðlaunanna, það er búið að skrifa mjög mikið um hana og henni er gjarna líkt við Madame Bovary og Önnu Kareninu. Ég hef aldrei lesið síðarnefndu bókina og Madame Bovary las ég fyrir tuttugu og fimm árum og hafði lítið gaman af og gleymdi henni fljótt, svo ég er ekki dómbær um hvort umtalsverð líkindi eru til staðar. En aðalpersóna Hausfrau heitir að minnsta kosti Anna eins og persóna Tolstoys og hún er að drepast úr leiðindum eins og frú Bovary.
Anna er 37 ára gömul amerísk kona sem hefur búið í næstum áratug í smábænum Dietlikon í Sviss með Bruno, hálfblóðlausum eiginmanni og bankamanni, og börnunum þremur. Svissneskar lestir eru alltaf á áætlun, Alparnir gnæfa yfir og Önnu leiðist. Hún hefur ekkert lært í tungumálunum sem töluð eru á svæðinu og er vinalaus. Anna hefur haldið framhjá eiginmanninum með amerískum manni sem átti skamma dvöl í Sviss og hann er blóðfaðir yngsta barnsins, Polly Jean. Þegar hún byrjar á þýskunámskeiði finnur hún sér skoskan elskhuga og einnig heldur hún fram hjá með fjölskylduvini.