30. september 2010

Leyndarmál annarra

leyndarmal annarra Í fyrradag tók ein þeirra sem halda úti þessari síðu (hún Þórdís) við Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar úr hendi borgarstjórans, Jóns Gnarr, fyrir ljóðabókina Leyndarmál annarra.  Bókin, sem hefur að geyma á þriðja tug ljóða og er skreytt að utan með mynstri af  veggfóðri sem er í eigu höfundarins, er komin úr prentsmiðju og er á leið í bókabúðir, en það er Bjartur sem gefur út.

Til þess að fagna útgáfunni verður efnt til útgáfugleði í Eymundsson á Skólavörðustíg á milli klukkan 17 og 18 föstudaginn 1. október. Þar mun höfundurinn árita bókina ef óskað er og lesa smávegis úr verkinu og boðið verður upp á léttar veitingar.

Allir velkomnir!

Ljóðaþerapía



Einn af fjölmörgum kostum við starf bókavarðarins er að óvæntum bókum á það til að skola upp í hendurnar á manni. Ég hefði aldrei rekist á bókina Poetry Therapy – sem er flokkuð í Deweynúmerið 615.8516 (nálarstungur, dáleiðslumeðferðir, trúarlækning, nudd) – ef ég hefði ekki verið við þau skyldustörf að raða inn bókum á svipuðum slóðum.

Poetry Therapy. The Use of Poetry in the Treatment of Emotional Disorders er greinasafn sem kom út árið 1969 í ritstjórn Jack J. Leedy og fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um notkun ljóða í sálrænni þerapíu. Ég hafði heyrt um tónlistarþerapíu og myndlistarþerapíu en þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri af fagmönnum sem nota ljóð sem meðferðartæki. Það er auðvitað útbreidd hugmynd að það sé á einhvern hátt læknandi gjörningur að tjá sig í ljóði, að þerapískt gildi ljóðsins fyrir skáldið skipti jafnvel töluverðu máli. Aðaláherslan í ljóðaþerapíu Jack Leedy og félaga er hins vegar ekki að sjúklingurinn sjálfur skrifi ljóð, þótt það komi einnig fyrir, heldur að geðlæknirinn eða sálgreinandinn noti ljóð sem tæki í meðferð sjúklingsins. Hann greinir þá erfiðleika sem sjúklingurinn á við að etja og velur síðan út frá þeirri greiningu hentugt ljóð sem hann kynnir fyrir sjúklingnum í von um að það hjálpi honum að takast á við vandann.

Þetta þótti mér við fyrstu sýn, og þykir eiginlega enn, fríkuð aðferð til að takast á við sálræn vandamál. Þótt ég kunni vel að meta ljóð og neiti því ekki að þau geti haft áhrif á andlegt ástand þess sem þeirra nýtur, svo sem með huggandi orðum eða sefandi ryþma, virkar þessi faglega og systematíska nálgun mjög fyndin. Greinarhöfundar bókarinnar hafa hins vegar alvöruþrungna tröllatrú á fyrirbærinu og ég bara verð að tilfæra þessa ræðu Theodors Reik, brautryðjanda í ljóðaþerapíu og fyrrum nemanda Sigmunds Freud, en hann segir um bókina: „Its publication should stimulate the establishment of poetry therapy in mental hygiene clinics, mental health centers, hospitals, guidance and counseling centers, self-help groups, rehabilitation centers, the private practice of psychotherapy, and training centers in psychiatry, psychology, social work, nursing occupational therapy, pastoral counseling, mental redardation, and penology. Inside the school system, I believe that the efficacy of poetry as therapy for disturbed youngsters may make a crucial contribution.“ (7)

Til sönnunar um lækningamátt ljóðsins segir hann söguna af ungum sjúklingi sínum sem hafði átt í erfiðu sambandi við móður sína – nema hvað – en brotnaði niður þegar læknirinn hafði yfir fyrir hann dramatískt ljóð um vanþakklátan son sem missir hjarta móður sinnar í göturykið, en hjartað spyr hann blíðlega: „Meiddirðu þig, barnið mitt?“ Sjúklingnum heilsaðist strax betur eftir þessa hreinsandi reynslu.

Aðrar sögur í bókinni eru í svipuðum dúr. Ég hef sérstakar mætur á fyrstu grein bókarinnar þar sem geðveik kona nær bata með stuðningi ljóðsins The Road Not Taken eftir Robert Frost – það er eitthvað svo stórkostlega og banalt viðeigandi í þessu samhengi, ég man langa enskutíma í menntaskóla þar sem við krufðum þetta ljóð til mergjar án mikils áhuga og svo kemur það allavega tvisvar fyrir í Simpsons, einu sinni þegar gömul kona fer með það í vídeóerfðaskránni sinni og einu sinni þegar Krusty the Clown er með Robert Frost í viðtali, hrópar „hey Frosty, want some SNOW, man?“ og sturtar yfir hann snjóskafli (Frost: „We discussed this and I said no.“). Jæja, þetta er útúrdúr, en allavega tekst geðlækninum með aðstoð ljóðsins að koma sjúklingnum í skilning um það að þegar maður tekur ákvarðanir fórnar maður alltaf þeim möguleika sem maður velur ekki, og voilà, hún er útskrifuð af spítalanum skömmu síðar.

Aðrar greinar í bókinni heita t.d. „The Universal Language of Rhythm“, „Poetry Therapy with Disturbed Adolescents“ og „Poetry, a Way to Fuller Awareness“. Aftast í bókinni er handhægur listi yfir ljóð sem henta til þerapíu, enda vill ritstjórinn meina að sálgreinandinn þurfi í raun ekki meira en fimmtíu til hundrað ljóð til að eiga við flest þau vandamál sem fyrir hann eru lögð. Á listanum eru ljóð eftir ýmsar kanónur á borð við William Blake, e.e. cummings, Emily Dickinson, Kahlil Gibran, Hómer, Gustav Mahler og Walt Whitman.

Poetry Therapy er ein af þeim bókum sem vekja fleiri spurningar en þær svara. Virkar ljóðaþerapía? Hvert er hlutverk hins listræna í þessu þerapíska samhengi? Væri hægt að staðfæra ljóðaþerapíuna á Íslandi? Hvaða geðveilu gæti Tíminn og vatnið læknað? (Já, ekki bara spurningar heldur ótal ljóðræna fimmaurabrandara.)

Það er annar útúrdúr, en ég má til með að minnast á sænska skáldið UKON, sem var einn gesta á ljóðahátíð Nýhils í fyrra. Hann starfar sem sálgreinir meðfram skáldskapnum og mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds af tilhugsuninni um að vera sjúklingur hans eftir að hafa heyrt hann lesa (frábærlega) upp á hátíðinni. Ég finn ekki upplesturinn sem ég var að hugsa um, Eiríkur Örn Norðdahl spilaði hann einu sinni í innslagi í Seiði og hélogum, en þetta gefur kannski einhverja hugmynd um það hversu lítil grið manni eru gefin hjá þessu snilldarskáldi: http://www.norddahl.org/2009/01/ulf-karl-olov-nilsson/ Mér finnst afar leiðinlegt að hafa ekki verið búin að rekast á bókina Poetry Therapy þegar hann var hérna, það hefði verið mjög áhugavert að heyra skoðun sálgreinandans og ljóðskáldsins á ljóðlist sem þerapíu.

Kristín Svava

18. september 2010

Framfaragoðsögnin

SkärmklippFyrir mörgum árum sá ég viðtal í sænsku sjónvarpi við finnlandssænska heimspekinginn Georg Henrik von Wright. Mig minnir að viðtalið hafi að miklu leyti fjallað um kynni hans af Wittgenstein og ævi von Wrights en það fjallaði líka um heimspekina. Mér fannst það sem hann sagði svo áhugavert að ég las nokkrar af bókum hans og síðan eru rit hans í miklu uppáhaldi.

Georg Henrik von Wright var menntaður í Cambridge og nemandi Wittgensteins og síðar eftirmaður hans sem prófessor. Ungur var hann mjög tæknilega þenkjandi en fræðilegar áherslur hans breyttust mikið þegar á leið. Von Wright skrifar aðdáanlega skýran og læsilegan texta og það vill svo vel til að ein góðra bóka hans, Framfaragoðsögnin, er til í fínni íslenskri þýðingu Þorleifs Haukssonar. Framfaragoðsögnin er safn greina sem eiga það sameiginlegt að gagnrýna framfarahugmyndir nútímans. Í Moggaviðtali við Ólaf Pál Jónsson í tilefni útgáfu bókarinnar í desember árið 2003 má lesa:

„Framfarir er gildishlaðið hugtak eins og hugtakið góður,“ segir Ólafur,„en mælikvarðarnir á framfarir eru hinsvegar ekki gildishlaðnir, þeir tengjast tæknilegum atriðum eins og launum og framleiðslugetu. Wright bendir á að menn eigi til að rugla saman tæknilegum framförum og batnandi mannlífi.“ Wright ritar einnig í bókinni um alþjóðavæðingu, tæknihyggju og stöðu náttúrunnar í heimi mannsins.“

Framfaragoðsögnin á alltaf erindi, en núna, þegar enn einu sinni er töluvert hamrað á því að hagvöxtur sé sannur mælikvarði á velferð fólks, á hún sérstakt erindi.

Þórdís

15. september 2010

Land draumanna

land draumannaLand draumanna eftir norðmanninn Vidar Sundstöl er fyrsti hluti þess sem á baksíðu bókarinnar er kallað Minnesota-þríleikurinn. Eins gott því ef Land draumanna ætti að standa ein og óstudd væri hún svona frekar endaslepp – en þarsem henni fylgir loforð um tvær í viðbót þá sleppur þetta alveg.

Lance Hansen er lögreglumaður, eða einhverskonar sambland af skógarverði og lögreglu, verkefni hans þartil atburðir bókarinnar eiga sér stað hafa að mestu falist í því að skamma fólk fyrir að tjalda á röngum stöðum og fæla burt unglinga sem hópast saman í skógarrjóðrum til að reykja eða gera annan óskunda sem unglingum dettur í hug. Þetta breytist daginn sem hann gengur fram á nakinn norskan ferðamann í miklum hugaræsingi og finnur í kjölfarið líkið af félaga hans. Framhaldið er svosem að flestu leyti týpísk glæpasaga. Hún er ágæt aflestrar og það sem kannski skilur hana aðeins frá öllum hinum glæpasögunum sem maður drekkur í sig er að hún er full af skemmtilegum lýsingum á bæjarbrag, náttúrufari, fólki – og menningu Ameríkana af norskum ættum. Það sem var samt áhugaverðast við söguna að mínu mati var fjölskyldutengingin – en án þess að ætla að fara nákvæmlega ofaní hvað gerist – þá hefur Lance Hansen rökstuddan grun um að morðið sem er til rannsóknar tengist fjölskyldu sinni. Þetta er líka sá hluti sögunnar sem nauðsynlegt er að þróa betur í þeim tveim bókum sem eiga að fylgja í kjölfarið og mynda „Minnesota þríleikinn“ – Land draumanna gerir í raun ekki meira en að setja sviðið fyrir dýpri og meiri umfjöllun um þann hluta. Þýðingin, sem er eftir Kristínu R. Thorlacius, er fín - rétt á einstaka stað sem mér fannst ég hnjóta um textann, en það gæti fullt eins verið sökum eigin óvana við að lesa sögur af þessu tagi á íslensku. Ég hlakka amk til að lesa meira um afdrif þessa morðmáls og fylla upp í eyðurnar um leyndarmál Hansen klansins.

Sigfríður

3. september 2010

Málþing um tengsl texta og myndskreytinga

Föstudaginn 10. september kl. 14-17 verður síðari hluti barna- og unglingabókmenntahátíðarinnar Myndir úti í mýri haldinn í sal Norræna hússins en þá verður haldið málþing um tengsl myndskreytinga og texta í barna- og unglingabókum.  Dagskráin er mjög spennandi  og áhugaverð og meðal annars flytur doktor í Múmínálfafræðum fyrirlestur um myndir og texta í þeim góðu bókum, þar sem dans kemur við sögu.

Allir eru velkomnir á málþingið en fólk er samt vinsamlega beðið að skrá sig.  Sjá nánar á heimasíðu Mýrarinnar http://myrin.is.

Dagskrá:

14.00-14.30: Dr. Elina Druker, Stokkhólmsháskóla: Recent trends in Nordic Picture Books.

14.30-15.00: Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari: The relationship between words & pictures in Icelandic picture books. Do the pictures stand a chance?

15:00-15.30: Dr. Sirke Happonen, Helsinkiháskóla: The Dancing Moominvalley: A Choreographic View on Tove Jansson’s Art and Literature.

15:30-16.00: Þórarinn Leifsson rithöfundur og myndskreytir: What does a Cannibal and a Librarian have in common with a Street Painter?