Ég vil byrja á því að taka það fram að mér finnst Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir og Megas mjög töff og skemmtilegt fólk (nú verður þetta örugglega notað sem kvót til að auglýsa bókina).
Nú ætla ég að bókablogga aðeins um Dag kvennanna - ástarsögu, átján ára nóvellu sem var að koma út í fyrsta sinn núna, „eftir að kynjastríðið [hefur komið] konum á toppinn“, eins og segir á kápu bókarinnar. Atburðarás bókarinnar á sér stað á Kvennafrídeginum 24. október 1975. Clint Eastwood look alike-ið Dagur „Himinrjóður“ og næturdrottningin Máney eru aðalsögupersónur, auk þeirra tuttugu þúsund kvenmanna sem „skjóta rótum“ á Lækjartorgi svo miðbærinn verður gegnsýrður af karlfjandsamlegri nærveru þeirra. Kvenréttindakerlingarnar ógna kynverund og kyngervi blíðra kvenna og vaskra karla. Limir karlmanna lyppast niður og hanga ónýtir (ef þeir hverfa þá ekki bara) og fallegar konur þurfa að gæta sín – hinir illu feministar vilja í afbrýðisemi sinni setja þær í afkynjandi föt og svipta þær skarti og ástmönnum. Dagur kvennanna er öskubuskusaga – nema í þessari sögu á Öskubuska ekki tvær afbrýðisamar stjúpsystur, heldur tuttugu þúsund. Kvenréttindabaráttu og greddu/fegurð/(öllu sem mér finnst skemmtilegt) er ítrekað stillt upp sem andstæðum í fyrsta kafla bókarinnar. Það breytist ekki, maður þarf að sætta sig við það. Ég var ekki einu sinni að lesa á milli línanna – ég las það sem stendur í bókinni. Svo leitaði ég í örvæntingu á milli línanna að einhverju sem gæfi til kynna að um kaldhæðni væri að ræða, en ég fann ekkert. Semsagt, ef maður vill halda áfram að lesa þessa stuttu bók eftir fyrsta kaflann, þarf maður að anda djúpt og taka því að kvenréttindabaráttukonurnar eru ljótar, herptar, afbrýðisamar, kynkaldar og valdagráðugar leiðindaskjóður. Það kemur því í rauninni ekkert á óvart að að gefið sé í skyn á kápu bókarinnar að jafnréttisbaráttunni sé lokið og að hún hafi ekki snúist um að ná raunverulegu jafnrétti, heldur um að koma „konum á toppinn“.
Ég varð hrifnari af bókinni eftir því sem leið á frásögnina og hún varð kynlífsmiðaðri (hey, ég er ekki gerð úr steini) og mér fannst mjög gaman að njóta óhefðbundinnar ástarsögu Himinrjóðs og Máneyjar. Stuttur kafli sem lýsir misheppnuðum mökum erkigrybbunnar (forystufeministans) og fórnarlambs hennar er líka svo dónalegur og fyndinn að maður þarf eiginlega að lesa hann upphátt fyrir alla vini sína. Það er mikill húmor í bókinni; rúnkari leitar hælis á Kleppi sem erótískur flóttamaður. Feministarnir á Hótel Borg stofna kvennatímaritið Láttu mig vera (væntanlega vísun í blaðið Vera: tímarit um konur og kvenfrelsi). Það er enginn tepruskapur í frásögninni og er það mér mjög að skapi. Ég skil samt ekki hvers vegna bókin kom ekki bara út fyrir átján árum – hugmyndirnar í henni hafa allavega ekkert orðið ferskari eða beittari síðan þá. Í dag er þetta eiginlega bara frekar banalt. Persónur bókarinnar eru stereótýpur sem birtast í sífellu í (mogga)bloggum misgáfaðra landsmanna og öllum umræðum um feminisma. Við höfum Himinrjóð, sem skilur ekki af hverju konurnar á torginu ásaka hann fyrir það eitt að vera karlmaður: „ásökuðu HANN fyrir eðli kynjanna. Ásökuðu HANN fyrir árþúsunda hefð, í lognu umboði, ásökuðu HANN fyrir það sem náttúran hefur krafist að karlar og konur gerðu til að uppfylla jörðina mönnum og halda tilraun hennar gangandi.“ Máney skilur ekki af hverju hún má ekki bara vera falleg og kvenleg. Og feministarnir eru bitrar kellingar sem enginn elskar, sem neita að samþykkja eðli kynjanna og eru afkynjandi, geldandi afl.
Þetta er í rauninni mjög áhugavert samansafn af stereótýpum sem við þyrftum að setjast niður að ræða yfir nokkrum bjórum. Svo getum við athugað hverjar okkar eru með lengstu handarkikahárin.
Guðrún Elsa
30. nóvember 2010
27. nóvember 2010
Meira kjöt, takk
Af hverju ákveður maður að skrifa ævisögu annarrar manneskju? Ef við reiknum hvorki með praktískum efnum á borð við gróðavon né hreinum listrænum hugsjónum (synd að fólk geri ekki meira af því að formbylta ævisögum) hefði ég haldið að það væri einkum af tveimur ástæðum: af því að viðkomandi manneskja hefur átt sérstaklega áhugaverða ævi eða af því að hún hefur upplifað áhugaverða sögulega tíma. Ég veit ekki hvort það er hægt að dæma um forsendurnar fyrir ritun bókar af kynningu hennar eftir á, en alltént er ævisaga Guðrúnar Ögmundsdóttur eftir Höllu Gunnarsdóttur, Hjartað ræður för, kynnt þannig að þetta séu hvort tveggja ástæður fyrir því að segja sögu hennar. Hún er sögð eiga að baki „litríka og dramatíska ævi“ (aftan á kápunni stendur líka – í gæsalöppum, en ekki kemur fram hvaðan tilvitnunin er komin – „Tilfinningalegur rússíbani“) auk þess að vera „holdgervingur ´68-kynslóðarinnar“ og hafa tekið virkan þátt í pólitískri baráttu gegnum tíðina.
Persónulega hafði ég mestan áhuga á að lesa sögu Guðrúnar vegna þátttöku hennar í Rauðsokkahreyfingunni og kvennabaráttunni almennt en bókin bætir engu við það sem ég veit um þá sögu fyrir og hef heyrt áður. Mér finnst uppbygging bókarinnar frekar vanhugsuð; þetta er hefðbundin og vandlega krónólógísk frásögn þar sem hver kafli lífsins fær nokkurn veginn jafn mikið bókarpláss. Það er hins vegar fullmikið sagt að ævi Guðrúnar hafi verið „dramatísk“ – into each life some rain must fall og allt það, en það er ekki beinlínis dramatík – og að tala um bókina sem „tilfinningalegan rússíbana“ er svo yfirdrifið að það virkar eins og háð. Það er eins og ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um hvað ætti að leggja mesta áherslu á í frásögninni og því verður bókin dálítið eins og langt Mannlífsviðtal, eins konar human interest story. Ég hef ekkert á móti svoleiðis sögum í sjálfu sér, hversdagslíf annarra hefur oft einhvern undarlegan sjarma, en allt á sér sinn stað og stund.
Ég held að bókin hefði grætt mikið á þematískari nálgun þar sem kafað hefði verið dýpra í ákveðna kafla og þeir settir í sögulegt samhengi. Það er væntanlega smekksatriði að einhverju leyti hvað er lögð áhersla á, eins og áður segir hafði ég persónulega mestan áhuga á kvennabaráttunni og hefði viljað miklu efnismeiri kafla um hana, en störf Guðrúnar í félagslega geiranum og þá þróun sem þar hefur orðið í alls kyns réttindamálum og hugmyndafræði hefði líka verið áhugavert að sjá setta í stærra samhengi. Sérlegir áhugamenn um flokkspólitík hefðu kannski viljað sjá meiri umfjöllun um tíma Guðrúnar á þingi en ég var reyndar dauðfegin að hún var ekki meiri, ég er búin að lesa yfir mig af ævisögum pólitíkusa með köflum á borð við „Fjárlög og landamerkjadeilur 1952“ og komin með algjört ógeð á þingrifrildum. Eiginlega hafa þær náð að sannfæra mig um að Alþingi hljóti að vera einn mest niðurdrepandi og mannskemmandi vinnustaður á landinu.
Mér fannst bókin ekki leiðinleg – ég meina, þetta er human interest, og Guðrún er augljóslega mjög sympatísk og skemmtileg manneskja – en það hefði verið hægt að hafa miklu meira kjöt á beinunum ef bókin hefði verið hugsuð betur og nálgunin verið örlítið frumlegri.
Kristín Svava
24. nóvember 2010
Kvennabókmenntir og skvísubækur
Í viðtali við Jónínu Leósdóttur á vefritinu Pressunni er skáldsaga hennar Allt fínt, en þú? sögð tilheyra þeim flokki bókmennta sem kallaður hefur verið kvennabókmenntir. Þetta er vissulega rétt, þannig séð, þarsem það er erfitt að skilgreina bók eftir konu um konur og reynsluheim þeirra ekki sem kvennabókmenntir. En fyrir minn pedandíska þankagang þá er þessi flokkun ekki alveg að gera sig. Í mínum huga tilheyrir Allt fínt, en þú? undirflokkuninni skvísubók sem á hinni fögru engilsaxnesku tungu myndi útleggjast „chick lit“ án þess þó að falla kannski alveg inn í þröngan ramma þeirrar flokkunar. Ekki að það sé eitthvað aðalatriði að flokka allt niður í öreindir sínar – en það er kannski svolítið mikilvægt í þessu tilfelli því bæði byggt á því sem höfundurinn segir í áðurnefndu Pressuviðtali og bókinni sjálfri er ljóst að lagt er upp með að skrifa bók útfrá ákveðnum viðmiðum, segi kannski ekki alveg formúlu, og færa þau viðmið (eða formúlu ef vill) uppá íslenskan raunveruleika.
Jónínu ferst þetta ætlunarverk vel úr hendi. Bókin er fín skvísubók, þó kannski frekar fyrir aðeins eldri og heldri skvísur, og sagan gengur vel upp innan þeirra marka sem henni eru sett. Ég las hana í einum rykk, sem ekki gerist oft núorðið, og var vel sátt að lestri loknum. Það er eitthvað þægilegt við að lesa bók einsog þessa sem rennur vel áfram, er lipurlega skrifuð og fjallar – þó á eilítið ýktan hátt sé - um aðstæður og atburði sem flestir geta sett sig inn í, að hluta til að minnsta kosti. Mér fannst sagan í flesta staði mjög fyndin, þó auðvitað sé aðeins dökkur undirtónn. Það hefði t.d. verið auðvelt að gera úr endinum ofurvæmið drama, en Jónínu tekst þar að taka skemmtilegt spin sem að mínu mati gefur sögunni aukið vægi og gerir það að verkum að hún fellur ekki alveg í formúlufarið.
Í stuttu máli sagt: skemmtileg og fjörleg bók sem er vel þess virði að leggjast í lestur á.
Sigfríður
22. nóvember 2010
Dekur á Koppi
Kvöldlesningunni á heimilinu áskotnaðist feikna skemmtileg bók á dögunum. Bræðurnir Breki og Dreki frá Furðufirði eftir Aino Havukainen og Sami Toivonen snöruðu sér inn á heimilið og hafa haldið uppi taumlausri gleði með kostulegum uppátækjum sínum.
Bókin fjallar um ærslabelgina Breka og Dreka sem fyrir misskilning eyða degi á leikskólanum Koppi. Bræðurnir höfðu hugsað sér að eiga dekurdag á baðhúsinu Kroppi og telja sig vera stadda þar. Á baðsloppum með sundgleraugu fara þeir í gegnum fasta liði leikskóladagsins eins og um meðferðir í baðhúsi væri að ræða. Hjá bræðrunum verður sandkassinn að dásamlegu leirbaði og pollagallinn að sérhönnuðum búningi fyrir spa-meðferð. Leikskólabörnin á Koppi taka þessum nýju leikfélögum fagnandi og þegar upp kemst um miskilninginn setja þau alla sína orku í að koma þeim á baðhúsið. Söguþráðurinn er fjörugur og textinn lipur og fyndinn í þýðingu Druslubókadömunnar Þórdísar Gísladóttur.
Hjónin Aino Havukainen & Sami Toivonen eru myndlistarmenntuð og vinna saman bæði texta og myndir í bókum sínum. Það kemur ekki á óvart að þau hjónin segjast halda upp á bækur Richard Scarry því að eins og hjá honum er hver myndaopna fyllt til hins ýtrasta. Hér fær athyglisgáfa lesandans nóg að gera. Það er auðvelt að gleyma sér við að leita uppi fyndin smáatriði í litríkum myndunum. Hliðarfrásagnir leynast einnig víða. Eitt leikskólabarnið getur til dæmis alls ekki talað
fyrir geipilega stóru snuði en reynist ef vel er að gáð tjá sig lipurlega á latínu
með ýmsum ráðum.
Breki og Dreki í leikskóla er ekki síst frábær bók fyrir foreldra. Eins og við þekkjum þá er það drep skemmtilegra bóka að þurfa að lesa þær aftur og aftur. En höfundarnir halda áhuga eldri lesenda ekki síður en þeirra yngri með aragrúa af óvenjulegum vísunum. Við höfum nú lesið Breka og Dreka í leikskóla á hverju kvöldi í marga daga og erum enn að uppgötva eitthvað nýtt. Síðast var það bleyjusugan.
Helga Ferdinandsdóttir
Bókin fjallar um ærslabelgina Breka og Dreka sem fyrir misskilning eyða degi á leikskólanum Koppi. Bræðurnir höfðu hugsað sér að eiga dekurdag á baðhúsinu Kroppi og telja sig vera stadda þar. Á baðsloppum með sundgleraugu fara þeir í gegnum fasta liði leikskóladagsins eins og um meðferðir í baðhúsi væri að ræða. Hjá bræðrunum verður sandkassinn að dásamlegu leirbaði og pollagallinn að sérhönnuðum búningi fyrir spa-meðferð. Leikskólabörnin á Koppi taka þessum nýju leikfélögum fagnandi og þegar upp kemst um miskilninginn setja þau alla sína orku í að koma þeim á baðhúsið. Söguþráðurinn er fjörugur og textinn lipur og fyndinn í þýðingu Druslubókadömunnar Þórdísar Gísladóttur.
Hjónin Aino Havukainen & Sami Toivonen eru myndlistarmenntuð og vinna saman bæði texta og myndir í bókum sínum. Það kemur ekki á óvart að þau hjónin segjast halda upp á bækur Richard Scarry því að eins og hjá honum er hver myndaopna fyllt til hins ýtrasta. Hér fær athyglisgáfa lesandans nóg að gera. Það er auðvelt að gleyma sér við að leita uppi fyndin smáatriði í litríkum myndunum. Hliðarfrásagnir leynast einnig víða. Eitt leikskólabarnið getur til dæmis alls ekki talað
fyrir geipilega stóru snuði en reynist ef vel er að gáð tjá sig lipurlega á latínu
með ýmsum ráðum.
Breki og Dreki í leikskóla er ekki síst frábær bók fyrir foreldra. Eins og við þekkjum þá er það drep skemmtilegra bóka að þurfa að lesa þær aftur og aftur. En höfundarnir halda áhuga eldri lesenda ekki síður en þeirra yngri með aragrúa af óvenjulegum vísunum. Við höfum nú lesið Breka og Dreka í leikskóla á hverju kvöldi í marga daga og erum enn að uppgötva eitthvað nýtt. Síðast var það bleyjusugan.
Helga Ferdinandsdóttir
21. nóvember 2010
Hrá hjörtu
Mér finnst yfirleitt mun erfiðara að segja eitthvað um bækur sem mér finnst góðar en bækur sem mér finnst lélegar eða bara svona la-la. Það er ekki – eða allavega ekki bara – vegna þess að ég uni mér best við að níða skóinn af öðrum, heldur af ótta við að skemma eða gengisfella þessar góðu bækur á einhvern hátt með banal athugasemdum eða klisjum sem þær hefðu vel getað verið án. Ég ætla að reyna að gera það ekki, og lýsi því einfaldlega yfir til öryggis að ég var mjög hrifin af Doris deyr eftir Kristínu Eiríksdóttur.
Bókin er safn tíu smásagna sem fjalla allar um manneskjur. Þetta eru ekki bara karakterar sem eru þarna af því að einhver þarf að segja eitthvað eða gera eitthvað í sögunni heldur fjalla sögurnar beinlínis um það að vera manneskja, með öðrum manneskjum, í ólíku samhengi. Þær eru vægðarlausar (svo ég noti sama orð og textinn á bókarkápunni, með þeirri afsökun að hann er óvenju vel heppnaður) að fleira en einu leyti; aðstæður eru oft erfiðar og drungalegar, jafnvel fullar af ofbeldi, og frásögnin mjög afhjúpandi gagnvart þeim breysku manneskjum sem lenda í þessum aðstæðum, af eigin hvötum eða annarra. Hins vegar er sagan líka sögð af skilningi í garð persónanna, sem skapar jafnvægi i frásögninni og ljáir þeim reisn og von – og kannski manni sjálfum sem lesanda í leiðinni.
Eins og eðlilegt er með flokk af sögum sitja þær missterkt í manni, en þegar ég ætlaði að fara að telja þær upp sem mér fannst bestar voru þær samt of margar, sem hlýtur að vera góðs viti. Stelpan með hráa hjartað sem fer afsíðis og þambar bjór, Evelyn sem fer að gráta yfir niðurlægingu stelpunnar sem á alveg eins úlpu og hún, saga af flugmanni og flugfreyjum sem gerði það að verkum að ég horfði sjúklega tortryggin á alla starfsmenn flugvélarinnar þegar ég fór til útlanda um daginn og ímyndaði mér um þá alls konar hluti.
Ég veit aldrei hvernig ég á að enda svona, en þetta er frábær bók, og sönn, mér þykir strax vænt um hana og mér finnst að þið ættuð að lesa hana. Ég sá að Kristín sagði í DV um daginn að af frægum manneskjum vildi hún helst hitta Britney Spears til að geta skrifað ævisögu hennar og ég held að það væri í fúlustu alvöru mjög góð hugmynd. Fyrir utan það hvað „ljóð – smásögur – ævisaga“ væri skemmtilegt tvist held ég að niðurstaðan gæti orðið verulega töff.
Kristín Svava
19. nóvember 2010
Kellíngabækur
Á morgun, laugardaginn 20. nóvember, verður haldin bókakynning í Gerðubergi með yfirskriftina Kellingabækur. Ný verk kvenhöfunda; skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur, barnabækur, fræðibækur o.s.frv. verða kynnt og einnig bækur eftir erlendar konur sem þýddar hafa verið á íslensku.
Dagskráin mun standa yfir á milli kl. 13-17. Lítið endilega við í Breiðholtinu fagra!
Dagskráin mun standa yfir á milli kl. 13-17. Lítið endilega við í Breiðholtinu fagra!
16. nóvember 2010
Darwin eldist ljómandi vel
Í fyrra voru liðin 200 ár síðan Charles Darwin fæddist í Shrewsbury á Englandi og einnig voru liðin 150 ár frá því verk hans um uppruna tegundanna kom út. Þetta var auðvitað haldið upp á um allar trissur og líka á Íslandi og nú hefur Bókmenntafélagið gefið út bókina Arfleifð Darwins; þróunarfræði, náttúra og menning þar sem þróunarfræðiþráðurinn er tekinn upp þar sem Darwin skildi við hann og raktar ýmsar hugmyndir og niðurstöður rannsókna síðari tíma. Í bókinni eru fjórtán greinar ritaðar af sextán íslenskum fræðimönnum á sviði líffræði, jarðfræði, trúarbragðafræði og vísindasagnfræði.
Lítið hefur hingað til verið skrifað um þróun lífvera á íslensku, en af því litla efni eru þrjár greinar eftir Þorvald Thoroddsen einna merkastar. Greinar hans birtust í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags 1887-1889, en tvær síðari greinarnar eru útdráttur úr 6. útgáfu Uppruna tegundanna. Þær voru endurútgefnar árið 1998 í lærdómsritinu Um uppruna dýrategunda og jurta með skýringum og ítarlegum inngangi eftir Steindór J. Erlingsson. Árið 2004 kom svo Uppruni tegundanna loksins út á íslensku í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar. Arfleifð Darwins ætti að höfða til fólks með áhuga á þróun lífsins og fjölbreytileika þess, sögu hugmyndanna og allra sem hafa áhuga á líffræði mannsins og stöðu hans í náttúrunni.
Ritstjórar bókarinnar eru Arnar Pálsson, Bjarni Kristófer Kristjánsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson og Steindór J. Erlingsson.
Þórdís
13. nóvember 2010
Húðflúr og hommaklám með ljóðrænu ívafi
Áður en ég dembi mér út í íslenska jólabókaflóðið, sem ég hef rétt tyllt tánni í enn sem komið er, langar mig að minnast á aðra bók sem ég lauk við í gær, svo ég gleymi því nú örugglega ekki. Það er ný bandarísk ævisaga eftir Justin nokkurn Spring með ómótstæðilegum titli sem leyfði mér ekki að láta hana ókeypta: Secret Historian. The Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade. Samuel Steward var ekki þekktur maður en skilur eftir sig miklar heimildir um fjölbreytt og áhugavert lífshlaup sitt, enda vísar heitið Historian í titlinum til þess hve ötull skrásetjari hann var.
Samuel Steward fæddist í Ohio árið 1909. Hann tók doktorspróf í enskum bókmenntum frá Ohio State University í Columbus og starfaði sem háskólaprófessor í tuttugu ár upp frá því, lengst af í Chicago. Framan af dreymdi hann um að verða rithöfundur, hann orti ljóð og gaf út eina skáldsögu sem fékk ágætar viðtökur. Hann ferðaðist til Evrópu, lærði frönsku og kynntist ýmsu andans fólki, einkum Gertrude Stein og Alice B. Toklas sem urðu góðar vinkonur hans. Um 1950 fékk hann skyndilega gríðarlegan áhuga á húðflúri, batt enda á langan feril sinn sem prófessor og gerðist tattúlistamaður. Sem slíkur flutti hann til San Francisco og tattúveraði meðal annars fjölmarga meðlimi Hell´s Angels. Á sínum síðari árum tók hann aftur til við skriftir en í þetta sinn runnu frá honum klámsögur á borð við $TUD og My Brother, the Hustler. Hann lést á gamlársdag árið 1993.
Rauði þráðurinn gegnum þetta margbreytilega líf Stewards var gríðarlegur áhugi hans á kynlífi, bæði verklegur og fræðilegur. Hann var samkynhneigður og kynferðisleg ástríða hans olli honum mikilli togstreitu og erfiðleikum sem einkenndu allt hans líf. Hann lifði þó ótrúlega opinskáu einkalífi miðað við þá fordóma og ofsóknir sem samkynhneigðir máttu sæta, sérstaklega um miðja öldina, enda hafði hann sérstaka andstyggð á því tvöfalda lífi sem flestir þeirra neyddust til að lifa og streittist mjög á móti því. Hann skilur eftir sig gríðarlega áhugaverðar heimildir um heim samkynhneigðra í Bandaríkjunum fyrir upphaf mannréttindabaráttunnar. Sem fyrr segir var hann ötull, allt að því smásmugulegur skrásetjari, en besta dæmið um þá áráttu hans er hið svokallaða Stud File, nákvæm spjaldskrá yfir allar kynferðislegar athafnir sem hann tók þátt í frá upphafi (þær urðu á fimmta þúsund, með meira en 800 mismunandi einstaklingum). Í gegnum víðfeðma reynslu Stewards af heimi samkynhneigðra og samviskusama skrásetningu hans gerðist hann samstarfsmaður og mikill vinur dr. Alfred Kinsey, sem gaf út tímamótarannsóknir sínar á kynlífi Bandaríkjamanna um miðja 20. öld. Kinsey fór jafnvel út í hálfgerðar mannfræðirannsóknir og var viðstaddur skipulagðar orgíur á heimili Stewards, væntanlega með lonníetturnar á nefinu og nagandi blýant.
Í einni tilvitnun á bókarkápu segir gagnrýnandi um bókina að í henni séu fleiri dónasögur en viðkomandi hefði haldið að rúmuðust í einu lífi, og ég viðurkenni fúslega að þær eru með því skemmtilegasta í bókinni. Steward var svo dásamlega opinskár um hneigðir sínar og þau misupplífgandi ævintýri sem hann rataði í fyrir þeirra tilstilli. Rúmlega tvítugur skellti hann sér til Evrópu og heimsótti Lord Alfred Douglas, hann Bosie hans Oscars Wilde, gagngert í þeim tilgangi að sofa hjá honum og komast þannig nær skáldinu. Og gerði það, þótt Bosie væri kominn á sjötugsaldur og ekki sérlega aðlaðandi náungi. Um svipað leyti átti Steward eldheitan fund með Rudolph Valentino á hótelherbergi og varðveitti æ síðan lokk af skapahárum Valentinos til minningar (lokkurinn ku enn vera til). Síðar þróaði hann með sér mikið búningablæti. Það beindist í fyrstu einkum að sjóliðum, sem hann leitaði uppi meðal annars á YMCA í San Francisco, eða eins og þar segir: „Moreover, because the Y was full of uniformed sailors, Steward found himself in a state of permanent sexual arousal, and as the weeks passed, the condition left him exhausted.“ Þegar hann varð tattúlistamaður sá Steward svo mikið af myndarlegum sjóliðum á degi hverjum að sjarmi þeirra dofnaði en hann sneri sér þá að lögreglumönnum, táknmyndum yfirvaldsins, meðfram því sem hann fikraði sig áfram í sadómasókískum tilraunum. Þessi hrifning átti eftir að endast Steward út lífið og það er mjög krúttleg saga af því í lok bókarinnar þegar félag samkynhneigðra lögreglumanna í San Francisco býður honum í veislu á 9. áratugnum, og það er passað upp á að allir séu einkennisklæddir – gamli maðurinn var alveg í skýjunum eftir það partí.
Höfundur bókarinnar, Justin Spring, segir sögu Stewards af mikilli hlýju og virðingu. Þótt bókin sé mjög skemmtileg er ekki dregin nein dul á það að líf Stewards var oft einmanalegt, einkum á síðari árum, þegar hann var ekki lengur ungur og hraustur og eftirsóttur kynferðislega heldur meira í ætt við gamlan perra sem sat innan um typpastytturnar sínar og skrifaði klám, vilji maður lýsa því harðneskjulega. Eitt af því sem er mest heillandi við Steward er hversu fjölbreytt líf hans og persóna er – ástríðufullur kynlífssérfræðingur, streetwise tattúlistamaður, háfleygur bókmenntamaður sem neimdroppar villt – og hvað rennur saman við annað, hann skrifar háskólaritgerðir um samkynhneigð Whitmans, bækur um mannfræði tattúlistarinnar og hommaklámsögur uppfullar af vísunum í heimsbókmenntirnar.
Ég hef bara rétt tæpt á bókinni hér, það er margt í henni sem athyglisvert væri að ræða frekar, einkum og sérílagi ýmis atriði viðkomandi lífi samkynhneigðra í Bandaríkjunum á 20. öld og þeirri þróun sem verður í hugmyndum um kynhneigðir og kynlíf á þessum tíma. Bókin um Samuel Steward er alltént fyrirtaks upphafspunktur, svo verðið þið bara að koma með mér í leshring.
Kristín Svava
11. nóvember 2010
Að flytja vestur á Ljósvallagötu og gerast bóhem
Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um „Leyndarmál annarra“, fínu ljóðabókina hennar Þórdísar Gísladóttur, druslubókadömu með meiru. En þarsem mottó okkar druslubókadamanna er að við skrifum um þær bækur sem okkur sýnist, þegar okkur sýnist og eins og okkur sýnist þá blæs ég á allar fyrri umfjallanir, hagsmunatengsl sem og næstum því tvíburastatus okkar Þórdísar og fer því hér á eftir lofrulla um bókina.
Það var auðvitað týpískt fyrir hana Þórdísi að vera nú ekkert að spýta því útúr sér við næstum því tvíburasystur sína að hún væri búin að skrifa heila ljóðabók, hvað þá að fá hana gefna út og næla sér í þessi líka huggulegu verðlaun í leiðinni. Ég veit ekki hvort þetta flokkast undir kvenlegt lítillæti eða bara almenna fælni þeirra sem fæddir eru í miðju krabbamerkinu. Sennilega frekar það síðarnefnda bara. Allavega, bókina skrifaði Norðurmýrarmaddaman og er vel að verðlaunum og útgáfu komin.
Ég las bókina, sem nota bene er ekki löng, í einum rykk og hef svo verið að glugga í hana öðru hvoru síðan – lesið úr henni ljóð fyrir hafnfirskar saumaklúbbskonur, opinbera starfsmenn og fleiri vel valda einstaklinga, sem allir hafa verið sammála mér í hrifningu minni. „Geðveikisbakteríur“ og „How to look good naked“ vekja sérstaka lukku á slíkum uppákomum! „Geðveikisbakteríur“ er náttúrlega ekkert minna er tær snilld, Icesave og allt það jukk verður hreinlega gruggugt í samanburðinum. Ég meina, hver getur keppt við tvílitar gjaldkerastrípur, innkaupakerruna og helvítis gasgrillið og bernaissósuna. „Hafnarfjörður á liðinni öld“ fannst mér líka meirháttar, kannski að hluta til vegna þess að ég kannaðist strax við það sem sögu úr kaffispjalli í Nýja Garði á gróðæristímabilinu þegar við Þórdís strituðum þar hlið við hlið og skemmtum okkur með því að segja sögur úr sveitinni.
En ljóðin eru ekki bara skemmtileg – ekki að það sé ekki nóg útaf fyrir sig. Það er þegar Sylviu Plath áhrifin verða hvað áþreifanlegust sem mér finnst Þórdísi takast hvað best til. Ég er ekkert að grínast með Sylviu og hennar áhrif. Veit líka að Þórdís fékk ítrekað þá einkunn í feisbúkkkvissum að hún væri Sylvia Plath endurborin, og varla lýgur fésbókin. Ljóðin „Félagslegt raunsæi“ og „Landakot“ finnast mér frábær og þar finnst mér ég sjá greinileg Plath áhrif. Sérstaklega er það síðarnefnda áhrifamikið en þar nær ljóðmælandinn algeru flugi í lýsingum á prestinum; útlitslýsingar svo næmar að innra landslag verður sem opin bók. Hápunkturinn er svo þegar hún gengur útúr kirkjunni og skyrpir í vígða vatnið. Ég segi ekki meir – er hægt að biðja um betra?
Sigfríður
Það var auðvitað týpískt fyrir hana Þórdísi að vera nú ekkert að spýta því útúr sér við næstum því tvíburasystur sína að hún væri búin að skrifa heila ljóðabók, hvað þá að fá hana gefna út og næla sér í þessi líka huggulegu verðlaun í leiðinni. Ég veit ekki hvort þetta flokkast undir kvenlegt lítillæti eða bara almenna fælni þeirra sem fæddir eru í miðju krabbamerkinu. Sennilega frekar það síðarnefnda bara. Allavega, bókina skrifaði Norðurmýrarmaddaman og er vel að verðlaunum og útgáfu komin.
Ég las bókina, sem nota bene er ekki löng, í einum rykk og hef svo verið að glugga í hana öðru hvoru síðan – lesið úr henni ljóð fyrir hafnfirskar saumaklúbbskonur, opinbera starfsmenn og fleiri vel valda einstaklinga, sem allir hafa verið sammála mér í hrifningu minni. „Geðveikisbakteríur“ og „How to look good naked“ vekja sérstaka lukku á slíkum uppákomum! „Geðveikisbakteríur“ er náttúrlega ekkert minna er tær snilld, Icesave og allt það jukk verður hreinlega gruggugt í samanburðinum. Ég meina, hver getur keppt við tvílitar gjaldkerastrípur, innkaupakerruna og helvítis gasgrillið og bernaissósuna. „Hafnarfjörður á liðinni öld“ fannst mér líka meirháttar, kannski að hluta til vegna þess að ég kannaðist strax við það sem sögu úr kaffispjalli í Nýja Garði á gróðæristímabilinu þegar við Þórdís strituðum þar hlið við hlið og skemmtum okkur með því að segja sögur úr sveitinni.
En ljóðin eru ekki bara skemmtileg – ekki að það sé ekki nóg útaf fyrir sig. Það er þegar Sylviu Plath áhrifin verða hvað áþreifanlegust sem mér finnst Þórdísi takast hvað best til. Ég er ekkert að grínast með Sylviu og hennar áhrif. Veit líka að Þórdís fékk ítrekað þá einkunn í feisbúkkkvissum að hún væri Sylvia Plath endurborin, og varla lýgur fésbókin. Ljóðin „Félagslegt raunsæi“ og „Landakot“ finnast mér frábær og þar finnst mér ég sjá greinileg Plath áhrif. Sérstaklega er það síðarnefnda áhrifamikið en þar nær ljóðmælandinn algeru flugi í lýsingum á prestinum; útlitslýsingar svo næmar að innra landslag verður sem opin bók. Hápunkturinn er svo þegar hún gengur útúr kirkjunni og skyrpir í vígða vatnið. Ég segi ekki meir – er hægt að biðja um betra?
Sigfríður
Graðir andarsteggir og fleiri borgarbúar
Þrjár hendur eftir Óskar Árna Óskarsson las ég með síðbúna morgunkaffinu mínu rétt áðan. Bókin er safn stuttra nafnlausra ljóða, myndir af atburðum og því sem fyrir augu ljóðmælandans ber á ferðum hans, oft er hann á rölti um bæinn. Í því fyrsta segir frá langt að komnum harmónikkuleikara á Laugaveginum sem veltir því fyrir sér af hverju fólki liggi svona mikið á, á næstu síðu er sagt frá auglýsingu um herbergi til leigu í kjallara í Norðurmýri og því að fáum dögum síðar sé búið að líma svartan plastpoka fyrir kjallaragluggann, einhversstaðar er sagt frá þvottaklemmum sem hangið hafa úti allan veturinn, þremur köttum sem læðast í bakgarði og afgreiðslustúlka í Góða hirðinum kemur líka við sögu í bókinni ásamt dulurfullum manni frá Austurlöndum sem ferðast um í Vesturbænum með túrban á höfði.
Þeir sem lesið hafa það sem Óskar Árni hefur áður skrifað kannast við fílgúdd-tóninn í bókum hans. Það er huggulegt andrúmsloft og ljúfur tónn í ljóðunum og ýmislegt skemmtilegt sem kemur á óvart. Ef fólk er að leita að pönki eða byltingu þá eru Þrjár hendur ekki málið en með morgunkaffinu, þegar maður er að róa sig niður eftir að hafa lesið yfir sig af heimskulegum netpistlum og Eyjukommentum, eða rifist við góða feisbúkkvini um bann við hænsnahaldi í borgum, er bókin róandi innspýting frá nærgætnum smáskammtalækni.
Hitti aldrað ljóðskáld í Austurstrætinu
komdu með út í Hljómskálagarð
segir hann og lyftir brúnum bréfpoka
við setjumst á bekk við Tjörnina
súpum á og horfum þegjandi á fuglana
svo togar hann í skeggið
hallar sér að mér og hvíslar
Andarsteggirnir eru víst býsna graðir núna
Þórdís
Þeir sem lesið hafa það sem Óskar Árni hefur áður skrifað kannast við fílgúdd-tóninn í bókum hans. Það er huggulegt andrúmsloft og ljúfur tónn í ljóðunum og ýmislegt skemmtilegt sem kemur á óvart. Ef fólk er að leita að pönki eða byltingu þá eru Þrjár hendur ekki málið en með morgunkaffinu, þegar maður er að róa sig niður eftir að hafa lesið yfir sig af heimskulegum netpistlum og Eyjukommentum, eða rifist við góða feisbúkkvini um bann við hænsnahaldi í borgum, er bókin róandi innspýting frá nærgætnum smáskammtalækni.
Hitti aldrað ljóðskáld í Austurstrætinu
komdu með út í Hljómskálagarð
segir hann og lyftir brúnum bréfpoka
við setjumst á bekk við Tjörnina
súpum á og horfum þegjandi á fuglana
svo togar hann í skeggið
hallar sér að mér og hvíslar
Andarsteggirnir eru víst býsna graðir núna
Þórdís
10. nóvember 2010
Stolnar raddir
Stolnar raddir eftir Hugrúnu Hrönn Kristjánsdóttur lauk ég við á andvökustund í nótt. Þetta er saga stúlku á þrítugsaldri, Sóllilju, sem sem býr með dóttur sinni í kjallara hjá ömmu sinni en í húsinu býr einnig heyrnarlaus frændi með tölvudellu. Sóllilja finnur mynd af ömmu sinni og ókunnum karlmanni á bakvið mynd af ömmunni og afa sínum og kemst í framhaldinu að því að fortíð fölskyldunnar er flóknari en hún hefur hingað til talið.
Stolnar raddir er ekki leiðinleg eða óáhugaverð bók og það hvarflaði aldrei að mér að hætta að lesa (lífið er stutt og nóg af góðum bókum þannig af ef ég fæ ekki áhuga á efni bókar á 50-100 síðum þá legg ég hana frá mér) en hins vegar finnst mér verkið dálítið gallað. Söguþráðurinn er áhugaverður og ætti að vera spennandi en hann er allt of fyrirsjáanlegur og útreiknanlegur frá því snemma í bókinni. Miðað við hvað söguefnið er gríðarlega dramatískt þá fannst mér tilfinningarnar einhvernveginn ekki ná í gegn. Til þess er margt afgreitt með svo miklum hraði og persónurnar eru í heildina of óljósar, þær náðu a.m.k. ekki að fá á sig nægilega góða mynd í mínum huga með örfáum undantekningum. Þó að fatnaði og útliti fólks sé vel lýst (eins og þarna er oft gert) þá nægir það ekki til að persónan fái dýpt, þetta hefði verið hægt að vinna betur.
Sagan er í nokkrum lögum. Líf Sóllilju í nútíð finnst mér besti hlutinn. Bernsku hennar er lýst með ljóðrænum innskotum um fiðrildi, mjólk sem hellist niður og ýmislegt sem hún upplifir og hugsar en þau fannst mér síðri (ég held hins vegar að margir lesendur muni kunna vel að meta þá kafla) og saga ömmunnar er of losaralega sögð og kaflarnir náðu ekki vel að fanga tíðaranda þess tíma sem þeir gerast á, en einmitt sú saga er hryggjarstykki bókarinnar.
Þrátt fyrir það sem ég hef nefnt er ýmislegt lúnkið í Stolnum röddum og ég vona að höfundurinn sé í stuði til að vinda sér í frekari bókaskrif. Frásögn af feisbúkkstatusum þeim sem móðirin setti inn, með nákvæmum upplýsingum um einkunnir systkina aðalpersónunnar og tilheyrandi kommentum vinkvenna, skemmtu mér til dæmis. Sóllilja sjálf er vel heppnuð persóna; gölluð, lygin, ábyrgðarlaus og dugleg við að klúðra lífi sínu eins og býsna margt gott fólk þannig að ég held að margir lesendur muni ná góðu sambandi við hana.
Þórdís
Stolnar raddir er ekki leiðinleg eða óáhugaverð bók og það hvarflaði aldrei að mér að hætta að lesa (lífið er stutt og nóg af góðum bókum þannig af ef ég fæ ekki áhuga á efni bókar á 50-100 síðum þá legg ég hana frá mér) en hins vegar finnst mér verkið dálítið gallað. Söguþráðurinn er áhugaverður og ætti að vera spennandi en hann er allt of fyrirsjáanlegur og útreiknanlegur frá því snemma í bókinni. Miðað við hvað söguefnið er gríðarlega dramatískt þá fannst mér tilfinningarnar einhvernveginn ekki ná í gegn. Til þess er margt afgreitt með svo miklum hraði og persónurnar eru í heildina of óljósar, þær náðu a.m.k. ekki að fá á sig nægilega góða mynd í mínum huga með örfáum undantekningum. Þó að fatnaði og útliti fólks sé vel lýst (eins og þarna er oft gert) þá nægir það ekki til að persónan fái dýpt, þetta hefði verið hægt að vinna betur.
Sagan er í nokkrum lögum. Líf Sóllilju í nútíð finnst mér besti hlutinn. Bernsku hennar er lýst með ljóðrænum innskotum um fiðrildi, mjólk sem hellist niður og ýmislegt sem hún upplifir og hugsar en þau fannst mér síðri (ég held hins vegar að margir lesendur muni kunna vel að meta þá kafla) og saga ömmunnar er of losaralega sögð og kaflarnir náðu ekki vel að fanga tíðaranda þess tíma sem þeir gerast á, en einmitt sú saga er hryggjarstykki bókarinnar.
Þrátt fyrir það sem ég hef nefnt er ýmislegt lúnkið í Stolnum röddum og ég vona að höfundurinn sé í stuði til að vinda sér í frekari bókaskrif. Frásögn af feisbúkkstatusum þeim sem móðirin setti inn, með nákvæmum upplýsingum um einkunnir systkina aðalpersónunnar og tilheyrandi kommentum vinkvenna, skemmtu mér til dæmis. Sóllilja sjálf er vel heppnuð persóna; gölluð, lygin, ábyrgðarlaus og dugleg við að klúðra lífi sínu eins og býsna margt gott fólk þannig að ég held að margir lesendur muni ná góðu sambandi við hana.
Þórdís
8. nóvember 2010
Franskt reyfarahaust með Fred Vargas
Eftir að hafa helgað líf mitt skandinavískum reyfurum í sumar setti ég í annan gír þegar fór að hausta og las tvær bækur eftir frönsku skáldskonuna Fred Vargas í prýðilegri þýðingu Guðlaugs Bergmundssonar. Þetta eru reyndar líka reyfarar en gjörólíkir norrænum frændum sínum – hér erum við víðsfjarri skandinavíska myrkrinu, kuldanum og alkahólismanum, í staðinn er hiti og ryk og já- reyndar eru aðalpersónurnar sötrandi vín meira eða minna frá fyrsta til síðasta kafla en í Frakklandi er það ekki alkahólismi heldur menning!
Fyrri bókin, Varúlfurinn, hefst í afskekktu þorpi í frönsku ölpunum – í takt við hitastigið og rykið er tempóið hægt. Helsta ógnin virðist til að byrja með vera hitinn en persónur eru í sífellu að hóta því að núverandi veður sé „bara byrjunin“. Í raun og veru byrjar bókin svo rólega að ég gleymdi því eiginlega að ég væri að lesa spennusögu og fór að gefa meiri gaum að persónu- og landslagslýsingum sem kom alls ekki að sök. Það kemur þó að því að ókyrrð kemst á þorpið vegna dularfulls vargs sem leggst á sauðfé og síðar fólk en það er hins vegar komið fram í miðja bók áður en áþreifanlegur glæpur er framinn og áður en stjarna séríunnar – Adamsberg lögregluforingi – stígur fram á sjónarsviðið.
Adamsberg er skemmtilega ólíkur Erlendi, Harry Hole og í raun helstu rannsóknarmönnum bókmenntanna. Sherlock Holmes hefði varla virt hann viðlits þar sem Adamsberg gefur lítið fyrir rökvísi og afleiðuaðferðina frægu. Í staðinn treystir hann alfarið á innsæi sitt og leið hans til að leysa málin má helst líkja við það þegar maður horfir á 3D mynd í bók og veit að myndin verður fyrst greinileg þegar hægt er að horfa á hana nógu lengi til að hún fari úr fókus. Adamberg er sífellt að fara í langar gönguferðir og leyfa huganum að fljóta til að þess að hann geti séð mynstrið sem óumflýjanlega finnst í þeim flóknu glæpamálum sem á fjörur hans rekur. Þetta ferli tekur mjög á taugar hans helsta aðstoðarmanns sem líður ekki verulega vel nema hann geti skrifað allt í exel.
En Adamsberg er skemmtileg týpa og lesandinn kynnist honum enn betur í næstu bók – Kallaranum – sem kom út í sumar. Þar er hann nýfluttur í nýjar bækistöðvar – búið að hækka hann í tign og hann reynir eftir nýstárlegum leiðum að leggja andlit og nöfn undirmanna sinna á minnið: „-Noel, endurtók Adamsberg um leið og hann reyndi að leggja andlit hans á minnið. Ferkantað höfuð, fölur á vanga, ljóst burstaklippt hár og eyru í stærra lagi sama sem Noel. Þreyta, dramb, hugsanlegur hrottaskapur sama sem Noel. Eyru, hrottaskapur, Noel“ (bls. 39 í Kallaranum). Þar eru það ekki varúlfar sem fólk þarf að óttast heldur plágan, svartidauði, sem lagði Evrópu nánst í rúst fyrr á öldum og hefur nú óvænt látið á sér kræla aftur.
Það er þó ekki endilega Adamsberg, skemmtilegur sem hann er, sem stendur upp úr persónugalleríi bókanna. Í hvorri bók fyrir sig skapar Vargas lokaðan heim sérkennilegra en sannfærandi persóna og lesandinn fylgist með áhrifunum sem glæpirnir hafa í þessum litlu samfélögum. Í Varúlfinum leggja ungur ættleiddur drengur, ævagamall fjárhirðir, stór hundur og ung kona uppí langferð en í Kallaranum kynnumst við samansafni af utangarðsfólki sem leigir herbergi hjá dularfullum eldri manni. Það eru þessar persónur, þeirra innra líf og skemmtilegar samræður sem gera bækurnar áhugaverðar. Þær tengjast líka þessu rólega tempói sem einkennir Vargas – það þarf tíma og rúm til að leyfa þessu fólki að lifna á síðunum og á meðan verða allar sprengjur og bílaeltingaleikir bara að bíða róleg.
Maríanna Clara
Fyrri bókin, Varúlfurinn, hefst í afskekktu þorpi í frönsku ölpunum – í takt við hitastigið og rykið er tempóið hægt. Helsta ógnin virðist til að byrja með vera hitinn en persónur eru í sífellu að hóta því að núverandi veður sé „bara byrjunin“. Í raun og veru byrjar bókin svo rólega að ég gleymdi því eiginlega að ég væri að lesa spennusögu og fór að gefa meiri gaum að persónu- og landslagslýsingum sem kom alls ekki að sök. Það kemur þó að því að ókyrrð kemst á þorpið vegna dularfulls vargs sem leggst á sauðfé og síðar fólk en það er hins vegar komið fram í miðja bók áður en áþreifanlegur glæpur er framinn og áður en stjarna séríunnar – Adamsberg lögregluforingi – stígur fram á sjónarsviðið.
Adamsberg er skemmtilega ólíkur Erlendi, Harry Hole og í raun helstu rannsóknarmönnum bókmenntanna. Sherlock Holmes hefði varla virt hann viðlits þar sem Adamsberg gefur lítið fyrir rökvísi og afleiðuaðferðina frægu. Í staðinn treystir hann alfarið á innsæi sitt og leið hans til að leysa málin má helst líkja við það þegar maður horfir á 3D mynd í bók og veit að myndin verður fyrst greinileg þegar hægt er að horfa á hana nógu lengi til að hún fari úr fókus. Adamberg er sífellt að fara í langar gönguferðir og leyfa huganum að fljóta til að þess að hann geti séð mynstrið sem óumflýjanlega finnst í þeim flóknu glæpamálum sem á fjörur hans rekur. Þetta ferli tekur mjög á taugar hans helsta aðstoðarmanns sem líður ekki verulega vel nema hann geti skrifað allt í exel.
En Adamsberg er skemmtileg týpa og lesandinn kynnist honum enn betur í næstu bók – Kallaranum – sem kom út í sumar. Þar er hann nýfluttur í nýjar bækistöðvar – búið að hækka hann í tign og hann reynir eftir nýstárlegum leiðum að leggja andlit og nöfn undirmanna sinna á minnið: „-Noel, endurtók Adamsberg um leið og hann reyndi að leggja andlit hans á minnið. Ferkantað höfuð, fölur á vanga, ljóst burstaklippt hár og eyru í stærra lagi sama sem Noel. Þreyta, dramb, hugsanlegur hrottaskapur sama sem Noel. Eyru, hrottaskapur, Noel“ (bls. 39 í Kallaranum). Þar eru það ekki varúlfar sem fólk þarf að óttast heldur plágan, svartidauði, sem lagði Evrópu nánst í rúst fyrr á öldum og hefur nú óvænt látið á sér kræla aftur.
Það er þó ekki endilega Adamsberg, skemmtilegur sem hann er, sem stendur upp úr persónugalleríi bókanna. Í hvorri bók fyrir sig skapar Vargas lokaðan heim sérkennilegra en sannfærandi persóna og lesandinn fylgist með áhrifunum sem glæpirnir hafa í þessum litlu samfélögum. Í Varúlfinum leggja ungur ættleiddur drengur, ævagamall fjárhirðir, stór hundur og ung kona uppí langferð en í Kallaranum kynnumst við samansafni af utangarðsfólki sem leigir herbergi hjá dularfullum eldri manni. Það eru þessar persónur, þeirra innra líf og skemmtilegar samræður sem gera bækurnar áhugaverðar. Þær tengjast líka þessu rólega tempói sem einkennir Vargas – það þarf tíma og rúm til að leyfa þessu fólki að lifna á síðunum og á meðan verða allar sprengjur og bílaeltingaleikir bara að bíða róleg.
Maríanna Clara
6. nóvember 2010
Er þetta bókakápa ársins?
Ritarar þessarar síðu hafa nú orðið sér úti um þó nokkrar nýjar bækur og vonandi fyllumst við allar mikilli löngun til að tjá okkur um þær með tilheyrandi bloggfærsluflóði. Á meðan beðið er má skoða þessa mögnuðu kápu á bók Kleopötru Kristbjargar sem hefur hinn einkennilega titil Biðukollur út um allt. Það er eitthvað við þetta!
5. nóvember 2010
Múmínálfar í Máli og menningu þriðjudagskvöldið 9. nóvember
Halastjarnan eftir Tove Jansson hefur verið endurútgefin á íslensku!
IBBY-samtökin á Íslandi fagna þessum tíðindum og og því verður haldið Múmínálfakvöld á Súfistanum í Máli og menningu á Laugavegi 18 í Reykjavík þar sem valinkunnir múmínaðdáendur fjalla um þessar geðþekku skepnur. Samkoman fer fram þriðjudagskvöldið 9. nóvember klukkan átta og fyrirlesarar verða:
Erna Erlingsdóttir - Seint í nóvember. Síðasta múmínbókin, fjarvera og ferðalög
Stefán Pálsson - Múmínsnáðinn, Kattholtsstrákurinn, Erlendur lögregluforingi & Sir Edmund Halley
Dagný Kristjánsdóttir - Múmínálfarnir og hamskiptin
Sérstakur gestur frá múmínvinunum í borgarstjórn verður Óttarr Ólafur Proppé.
Í þessu samhengi er vert að benda á grein um Halastjörnuna sem birtist í tímaritinu Börn og menning fyrr á árinu og var endurbirt hér á síðunni.
IBBY-samtökin á Íslandi fagna þessum tíðindum og og því verður haldið Múmínálfakvöld á Súfistanum í Máli og menningu á Laugavegi 18 í Reykjavík þar sem valinkunnir múmínaðdáendur fjalla um þessar geðþekku skepnur. Samkoman fer fram þriðjudagskvöldið 9. nóvember klukkan átta og fyrirlesarar verða:
Erna Erlingsdóttir - Seint í nóvember. Síðasta múmínbókin, fjarvera og ferðalög
Stefán Pálsson - Múmínsnáðinn, Kattholtsstrákurinn, Erlendur lögregluforingi & Sir Edmund Halley
Dagný Kristjánsdóttir - Múmínálfarnir og hamskiptin
Sérstakur gestur frá múmínvinunum í borgarstjórn verður Óttarr Ólafur Proppé.
Í þessu samhengi er vert að benda á grein um Halastjörnuna sem birtist í tímaritinu Börn og menning fyrr á árinu og var endurbirt hér á síðunni.
3. nóvember 2010
Börn og menning - hausthefti 2010
Tímaritiðörn og menning er gefið út af IBBY-samtökunum á Íslandi tvisvar á ári. Nú er hausthefti blaðsins nýkomið út prentun og kemur senn til áskrifenda.
Blaðið er að þessu sinni helgað bókmenntum. Tveir höfundar, Brynhildur Þórarinsdóttir og Friðrik Erlingsson, skrifa um miðlun íslenskra fornbókmennta til íslenskra barna, grein Brynhildar ber yfirskriftina Bókmenntaverkfræði og samgöngubækur en grein Friðriks heitir Þruma úr heiðskíru lofti. Í blaðinu eru einnig greinar um nýlega útkomnar barnabækur; Guðrún Elsa Bragadóttir skrifar um nýlega útgáfu af Spóa eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, Kristín Svava Tómasdóttir um Núll Núll 9 eftir Þorgrím Þráinsson, Brynja Baldursdóttir fjallar um Hetjur, eftir Kristínu Steinsdóttur og Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir um Illa kall efti Svein Nyhus og Gro Dahle og Þórey Mjallhvít hannar einnig kápu Barna og menningar í þetta skiptið.
Hægt er að gerast félagi í IBBY-samtökunum og jafnframt áskrifandi að Börnum og menningu með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.
Blaðið er að þessu sinni helgað bókmenntum. Tveir höfundar, Brynhildur Þórarinsdóttir og Friðrik Erlingsson, skrifa um miðlun íslenskra fornbókmennta til íslenskra barna, grein Brynhildar ber yfirskriftina Bókmenntaverkfræði og samgöngubækur en grein Friðriks heitir Þruma úr heiðskíru lofti. Í blaðinu eru einnig greinar um nýlega útkomnar barnabækur; Guðrún Elsa Bragadóttir skrifar um nýlega útgáfu af Spóa eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, Kristín Svava Tómasdóttir um Núll Núll 9 eftir Þorgrím Þráinsson, Brynja Baldursdóttir fjallar um Hetjur, eftir Kristínu Steinsdóttur og Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir um Illa kall efti Svein Nyhus og Gro Dahle og Þórey Mjallhvít hannar einnig kápu Barna og menningar í þetta skiptið.
Hægt er að gerast félagi í IBBY-samtökunum og jafnframt áskrifandi að Börnum og menningu með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.
2. nóvember 2010
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)