Ég held ég hafi nokkrum sinnum lýst því yfir á þessari síðu að ég sé lítið fyrir átakanlegar lífsreynslusögur. Samt fór það svo að fyrstu þrjár bækurnar sem ég las á þessu ári féllu í þann flokk. Fyrst Er lítið mein yfirtók líf mitt, svo Felicia försvann og loks sú sem fjallað skal um hér, Ómunatíð: Saga um geðveiki eftir Styrmi Gunnarsson.Ómunatíð fjallar um líf með geðsjúkdómi. Eiginkona Styrmis, Sigrún Finnbogadóttir, fékk fyrstu einkenni geðhvarfasýki fyrir rúmum fjórum áratugum og segja má að veikindi hennar hafi mótað líf þeirra hjóna sem og dætranna tveggja upp frá því. Frásögnin er öðrum þræði ofin þessari persónulegu reynslu með stuðningi úr sjúkraskrám Sigrúnar en inn í hana eru jafnframt fléttaðar vísanir í aðrar heimildir, fræðibækur og –greinar, ævisögur og skáldskap.
Það er kannski bara best að ég segi það strax að ég veit ekki alveg hvað mér fannst um þessa bók og skoðanir mínar á henni eru æði mótsagnakenndar. Mér finnast styrkleikar hennar jafnframt vera veikleikar hennar og gallarnir í og með kostir. Mig grunar til dæmis að þeir lesendur sem hafi hlakkað til að fá þarna tækifæri til að kíkja inn um bréfalúguna hjá þjóðþekktum manni hafi fengið fremur lítið fyrir sinn snúð. Í stað tárvotra lýsinga á fjölskylduhörmungum sitja þeir uppi með ágrip af sögu geðlækninga og hálffræðilegar vangaveltur um gagnsemi raflækninga. Sjálfri fannst mér þeir kaflar athyglisverð og fróðleg lesning. Ég held að við höfum öll gott af að vita hve stutt er síðan (og stutt í) að við meðhöndluðum geðsjúka einstaklinga eins og dýr í búrum. Mér fannst líka að vissu leyti ferskur andblær yfir þessar vinnuaðferð að blanda heimildarvinnu við persónulegan texta. Hún tryggði að minnsta kosti að ekki var reynt að höfða til lægstu hvata lesenda með því að klæmast á þungbærustu smáatriðunum. Það er alltaf hætt við að bók eins og þessi verði búrið sjálft. Að þangað leiti lesendur til að skoða hinn geðsjúka, virða fyrir sér atferli hans sjálfum sér til skemmtunar um stund en hverfi síðan frá jafnsinnulausir og áður. Þetta tekst Styrmi að forðast.



















