31. júlí 2011
Atlas um afskekktar eyjar
Síðan ég var barn hef ég sjálf stundað álíka landakortaferðalög og Schalansky þannig að þegar ég las um bókina í þýsku blaði fyrir allnokkru var strax ljóst að þarna væri eitthvað fyrir mig. Því miður steingleymdi ég að panta hana þannig að það var óvænt ánægja að rekast á enska þýðingu í Eymundsson í vor. Það gerðist á leiðindadegi þar sem fjölmargt var að angra mig en bókarkaupin reyndust afar skapbætandi og hafa bjargað ýmsum dögum eftir það.
Samhengið milli landakorta og ímyndunaraflsins getur falist í fleiru en hugarflugi um ferðalög og staði eins og Schalansky minnist á í formála. Þótt landakortum sé oftast ætlað að miðla veruleikanum á einhvern hátt, þá endurspegla þau bara valda þætti hans. Á kortum þar sem hvert ríki er í ákveðnum lit fer landslagið forgörðum, á kortum þar sem litir eru notaðir til að sýna lögun landsins verður gróðurfar eða skortur á því útundan og svona mætti lengi telja. Að ekki sé talað um hvernig mismunandi vörpun hnattarins yfir í tvívíðan flöt brenglar veruleikann eins og CJ Cregg uppgötvaði í einni af uppáhaldssenunum mínum í Vesturálmunni þegar hún neyddist til að hitta „Cartographers for Social Equality“ sem röskuðu heimsmynd hennar verulega.
Það er samt einkum ímyndun um staðina á landakortunum sem ræður för í Atlas um afskekktar eyjar en þar blandast saman alvöru- og þykjustulandafræði. Hver af þeim fimmtíu eyjum sem Schalansky hefur valið fær eina opnu í bókinni. Á hægri síðu er fínlegt kort af eyjunni en á vinstri síðu er heillandi sambland af staðreyndum og skáldskap. Þar er byrjað á heiti eða heitum eyjarinnar, tölulegum upplýsingum um stærð og fjölda íbúa ef einhverjir eru, sýnd er staðsetning og fjarlægð frá nokkrum stöðum auk þess sem birt er tímalína með völdum þáttum úr sögu eyjarinnar. Á eftir þessum fróðleik birtist örsaga um eyjuna. Örsögurnar fimmtíu eru af ýmsu tagi en þar koma m.a. við sögu yfirgefnar veðurathugunarstöðvar, skipbrot, fangabúðir, kjarnorkutilraunir, sækýr, tungumál, kynferðisbrot, svarthvít svín, fjall sem lagði á flótta frá öfund annarra, morð og matareitrun.
Schalansky samdi ekki bara bókina heldur hannaði hana líka og hefur nostrað við hvert smáatriði, enda fékk bókin einhvers konar verðlaun sem fegursta bók Þýskalands árið 2009. (Hér má gægjast í hana.) Litavalið er markvisst: grátt, blágrátt, appelsínugult, svart og hvítt; gráhvítur pappírinn virðist stundum næstum fá silfraðan blæ og letur og umbrot er vandlega úthugsað.
Þetta er bók fyrir alla sem hafa snert af landabréfablæti, bókablæti, staðreyndablæti eða skáldskaparblæti – og alveg sérstaklega fólk sem býr yfir þessu öllu.
- - - - - - - - -
* Á þýsku heitir bókin Atlas der abgelegenen Inseln. Fünfzig Inseln, auf denen ich nie war und niemals sein werde. Í enskri þýðingu kallast hún Atlas of Remote Islands en undirtitillinn er aðeins mismunandi eftir heimsálfum; í amerísku útgáfunni: Fifty islands I have never set foot on and never will, en í þeirri bresku: Fifty islands I have not visited and never will.
Dómur fyrir neikvæða gagnrýni
Nýlega var bókarýnir breska blaðsins Daily Telegraph, Lynn Barber, dæmd til að greiða rithöfundinum, Söruh Thornton, upphæð sem reiknuð yfir í íslenskar krónur er á þrettándu milljón, fyrir dóm sem birtist árið 2009 um bókina Seven days in the art world. Thornton hélt því fram að gagnrýnin væri full af hatri og að í henni væru fjölmargar rangfærslur. Hún stefndi gagnrýnandanum og vann málið. Eigendum Daily Telegraph finnst illilega vegið að málfrelsinu og áfrýjuðu dómnum og því óvíst hvernig málið fer að lokum.
30. júlí 2011
Já, auðvitað er ég búin að lesa Jane Eyre.
En nú finnst mér semsagt frábært að hafa lesið þessa ágætu bók og nýtti tækifærið þegar mamma var að horfa á þættina með systur sinni um daginn og settist hjá þeim og benti þeim á það hvernig hitt og þetta var í bókinni. Dæmi: „Já, nei, í bókinni er sko algjörlega augljóst að hún missir ekkert minnið, heldur vill bara ekki koma upp um það hver hún er og hvaðan hún kemur.“ Ég geri ráð fyrir því að þeim hafi þótt það jafn skemmtilegt og mér fannst það.
Bókin kom mér mjög skemmtilega á óvart, því þótt ég vissi nokkurn veginn hvað myndi gerast leiddist mér lesturinn aldrei. Það var kannski tvennt sem kom sérstaklega til. Fyrir það fyrsta er Jane afskaplega töff kvenpersóna. Hún er klár, hæfileikarík, skynsöm og sjálfstæð. Kannski full mórölsk stundum, en á móti kemur að hún hefur alltaf rétt fyrir sér. Það tengist kannski seinna atriðinu: mér fannst svo skemmtilegt hvað bókin er melódramatísk. Munurinn á þeim góðu og þeim illu er alveg skýr og þegar líður á bók eru hinir góðu verðlaunaðir og hinum vondu er refsað með einhverjum hætti. Tilviljunin þjónar líka stóru hlutverki í atburðarás sögunnar, persóna sem er fátæk en göfug eina stundina getur orðið forrík og göfug þá næstu. Því getur lestraránægjan orðið gífurlega mikil ef maður leyfir sér bara að hrífast með: að halda með þeim góðu og að fyrirlíta þá sem eru vondir (því guð hjálpi mér, þeir eru vondir inn að kjarna).
Það er kannski ein persóna sem er fyrst um sinn ekki augljóslega góð eða vond: herra Rochester. Ó, hvað mér þótti hann þreytandi stundum. Hann er einmitt týpan sem ungar stúlkur eins og Jane verða oft skotnar í enn þann dag í dag: þessi gáfaði, fjarlægi, þjáði en sjálfsánægði maður sem þær þurfa að sanna sig fyrir. Svo einn daginn horfir hann djúpt í augun á þeim og segir: „Þú ert eina konan sem skilur mig.“ Það verður hins vegar alveg ljóst hvaða mann Rochester hefur að geyma þegar líður á bók og ástæður þess að hann er svona dulur koma upp á yfirborðið.
(Þessi síðasta setning á að gera ykkur spennt fyrir því að lesa bókina).
29. júlí 2011
Í Undralandi Oates
Í maí síðastliðnum heimsótti ég Bandaríkin í fyrsta skipti og keypti þar slatta af bókum, sumum nýjum en fleiri notuðum. Ef ekki hefði verið takmarkað rúmmál ferðatöskunnar hefðu þær orðið mun fleiri. Ein hinna notuðu sem varð fyrir valinu var lítil, þykk og gulnuð bók að nafni Wonderland (1971), fjórða skáldsaga hinnar bandarísku Joyce Carol Oates.
Ég hafði ekkert lesið áður eftir Oates en kannaðist við nafnið, án þess að muna hvaðan (sem kom á daginn að var úr druslubloggi Þórdísar síðan í vor). Undralandið fylgdi mér semsagt frá Ameríku og hófst lestur fljótlega eftir heimkomuna.
Ekki líkaði mér allskostar við hana í fyrstu. Það var líkt og eitthvað við upphaf og inngang sögunnar passaði ekki við þá mynd sem ég hafði gert mér af henni fyrirfram, byggt á káputexta og -mynd (og óljósum fordómum í garð gamalla Bandaríkjakvenna sem hafa gefið út bækur í fleirtölu á ári, áratugum saman).* Kjánaleg ályktun þegar ég hugsa hana upphátt og eftirá, en einhverra hluta vegna átti ég bágt með að trúa að þessar upphafssíður, sem mér virtust takmarkaðar, yfirmáta morbid og vonlitlar, gætu leitt þangað sem þær virtust þó myndu þurfa að fara.
Nú hef ég lesið fimm skáldsögur og nóvellu eftir Oates og efast ekki lengur um að sögurnar hennar komist hvert sem þær þurfa. Það er einmitt einkenni á sérstaklega lengri skáldsögunum að teygja sig gríðarlega langt og vítt, yfir löng tímabil og gegnum miklar breytingar á bæði ytri þjóðfélagsaðstæðum og lífi persónanna, án þess þó að tapa trúverðugleikanum hið minnsta. Sögur eins og Wonderland eða The Gravedigger‘s Daughter láta lítið yfir sér í byrjun en síðan líkt og stigmagnast í margar áttir samtímis, þó aldrei úr augsýn. Þetta eru sögur af því taginu að geta verið epískar að umfangi, skelfilegar og átakanlega hræðilegar, um morð og sjálfsmorð, fátækt og örbirgð, nauðganir, ofbeldi, kúgun og ótta - en líða samt áfram svo átakalaust og eðlilega, líkt og öðruvísi hefðu hlutirnir ekki getað farið. (Eins og lífið!) Fjölskyldur slitna sundur, persónur ganga gegnum ótrúlegar hörmungar, flýja upprunann tilneyddar og móta sér nýtt sjálf við nýjar aðstæður á ótrúlega grípandi og sannfærandi hátt. Ég skrifa ótrúlega og ótrúlega, en á auðvitað einmitt við það að einhvernveginn tekst Oates að gera skil öllum þessum margbrotnu atburðum og tilfinningum á ofur trúlegan og jafnvel hversdagslegan hátt.
Það mætti ætla að höfundurinn Oates byggi yfir algerum skilningi á mannskepnunni – en við nánari umhugsun gengur það ekki upp, enda sumir hlutir þannig að enginn fær skilið til fulls. Líklega má kalla það innsýn frekar en skilning, einnig inn í það að ekki þarf alltaf að skilja allt - að það getur samt verið hægt að lýsa því. Hún lýsir óskiljanleika lífsins. Um leið deilir hún hart á kúgara í ýmsum myndum, fátækt og ójöfnuð og ameríska drauminn og er líka femínísk almennt (raunar myndi ég kalla öll verk hennar sem ég hef lesið mjög femínísk, með eins vel heppnuðu móti og skáldverk geta yfirhöfuð verið pólitísk). Svo ég leyfi mér að vitna í ofannefnda bloggfærslu Þórdísar: „Hún virðist vera að reyna að fanga Bandaríki nútímans, koma böndum á þau og lýsa þeim í allskonar flóknu samhengi og til þess notar hún skáldskapinn“ – ég er ekki frá því að það sé að takast hjá henni.
Ég gæti skrifað miklu meira um Oates, einstök verk og stíl almennt – t.d. hvernig hún notar sendibréf og tölvupósta í textanum – en í bili læt ég duga þá fullyrðingu að hún skrifar alvöru skáldskap. Án þess að vera viss um hvers konar skáldskapur fengi þá falleinkunn fyrir alvöru finnst mér henni rétt lýst þannig. Auðvitað hef ég oft lesið skáldsögur sem mér fundust ekkert spes. Mér finnst skáldsögur líka geta verið góðar án þess að vera brillíant, og mér finnst þær reyndar mjög sjaldan brillíant. En Joyce Carol Oates finnst mér algjörlega brillíant.
*) Oates virðist ansi forvitnilegur karakter, skrifar náttúrlega ofurmikið (m.a. einhverjar einkennilegar fabúleringar um fagurfræði boxíþróttarinnar, að mér skilst). Hún segist þó ekki endilega skrifa á hverjum degi, hvað þá allan daginn. (Í framhjáhlaupi má nefna að samkvæmt viðtali við Sofi Oksanen sem ég las um daginn vinnur hún 10-12 tíma á dag, ALLA daga. Og á sér engin áhugamál utan vinnunnar.)
28. júlí 2011
Bókasöfn á gististöðum, 1. þáttur
„Með öruggum skilningi á atburðum og sálarlífi og jafnöruggum frásagnarhætti lýsir Moravia hugrenningum og tilfinningum portkonunnar með hennar eigin orðum. Hún segir ævisögu sína á hógværan og látlausan hátt, segir jöfnum höndum af sjálfri sér og þeim mönnum, sem lagt hafa lag sitt við hana, og lætur aldrei glepjast af volulegri tilfinningasýki, þrátt fyrir dapurleg örlög. Stundum er að vísu þunglyndisblær á frásögn hennar, en hún kvartar ekki. Hún sættir sig við tilveruna eins og hún er. Í rauninni á hún ekki sjálf mikla sök á því, að hún dregst niður í svaðið. Aðrir hafa átt drjúgan þátt í því – móðir hennar, unnusti og kunningjar. En enginn þessara aðila gerir sér fyllilega ljóst, hvað þeir hafa gert. Þeir hafa aðeins verið hlekkir í keðju atvikanna, sem leiddu stúlkuna út á götuna. Þessi framvinda er svo blátt áfram, miðað við persónur og umhverfi, að manni finnst, að öðruvísi hefði alls ekki getað verið. Það er ekki hægt að ásaka stúlkuna. Enginn getur leyft sér að líta niður á hana. Hún er hvorki betri né verri en margir aðrir, sem kallað er að lifi heiðarlegu lífi á borgaralega vísu. Hún er raungóð manneskja, sem knúin er af atburðarás, er hún fær ekki við ráðið, út á eymdarbraut saurlifnaðarins.“Þetta segir bókmenntagagnrýnandinn mag. arg. E. K. Westergaard um „Dóttur Rómar“. Að lokum skulu undir strikuð ummæli C. P. Snow í Sunday Times, þegar hann segir um Alberto Moravia: „Ég held, að hann sé einn af beztu rithöfundum, sem nú eru uppi.“
Aðstöðumunur karls og konu hefur einnig verið afnuminn eftir föngum. Konurnar eru loksins orðnar jafningjar karlmannanna og virðast fremur reyna að dylja kvenleika sinn en hampa honum. Sökum þess að þær eru klæddar eins og karlmenn, eru margar þeirra einnig mjög áþekkar karlmönnum í vexti – engan veginn víst, að mjaðmirnar og vel falin brjóstin komi upp um þær. (Og allt um það hafa þær brjóst, sem þær geta allt í einu og feimnislaust töfrað fram: kona sem býður barni sínu svellandi mjólkurríkt brjóst.)
Hjá kínverskum konum vottar ekki fyrir ytri tilraunum til kynörvunar. Yfirleitt bera kínverjar kynferðislegar hneigðir ekki utan á sér. Kynlífið virðist vera þeim svo eðlilegt og sjálfsagt, að þess verði naumast vart. Sjálfsafneitun að ætla mætti, en getur allt eins stafað af algjörum skorti á tilhneigingum til sjálfsafneitunar.
En sannarlega eru þær frelsaðar að sjá, kínversku konurnar, sem hafa verið svo lengi innilokaðar og niðurlægðar. Allt í einu hafa þær skundað fram á sjónarsviðið, ótrúlega frjálslegar, fullar af þrótti og lífshungri, tekið við stöðu sinni sem jafningjar karlmannanna, vinnufélagar þeirra og lífsförunautar. Og frjálsastar allra virðast hláturmildu ungu stúlkurnar, sem sveifla löngum fléttunum eða kasta til klipptu sléttu og hrafnsvörtu hárinu (bls. 15).
Svefnherbergisforlag með bók á Man Booker-lista
26. júlí 2011
Um ritlistarnám II
En hæpið getur líka verið hættulegt, einsog Obreht fékk svo sannarlega að kenna á nýverið, þegar rithöfundurinn Ruth Fowler lét hana fá það óþvegið í bloggi á Huffington Post. Fowler finnst bókin ömurlega leiðinleg, ofmetið drasl, og hún skellir skuldinni á MFA-gráðu Obreht í ritlist. Hún segir:
„The Creative Writing MFA is the singularly most devastating occurrence to hit literature in the 20th century, churning out writers of utterly indistinguishable competence.“Fowler veltir upp nokkrum gömlum tuggum um ritlistarnám einsog hvort það sé yfirhöfuð hægt að kenna fólki að skrifa, kvartar yfir því að það sé verið að framleiða einsleitan hóp af ríkum rithöfundum sem hafi efni á náminu og læri þar að setja saman fágaðar setningar, en hafi ekkert til að skrifa um afþví þau viti ekki neitt því þau hafi ekkert lifað (annað en Fowler sjálf sem hefur afar skrautlegan feril). Og svo það sem virðist fara mest í taugarnar á henni: Hún vill meina að ritlistarnemar fái einhverskonar frípassa inn í útgáfuheiminn því í náminu hafi þau aðgang að rithöfundum, agentum og útgáfum á meðan hæfileikaríka en próflausa fólkið sem hefur lifað fær aldrei séns.
Ég er alltaf svolítið hissa á þessari heift sem sumir virðast hafa gagnvart ritlistarnámi og ég á bágt með að skilja hversvegna það er talið eðlilegt að þeir sem stunda aðrar listgreinar og iðnir mennti sig í þeim, á meðan sú krafa er gerð til rithöfunda að þeir séu sjálfsprottnir snillingar. Ég hef meira að segja séð viðtöl við útlenska rithöfunda sem stæra sig beinlínis af því að hafa ekki farið í einn einasta ritlistarkúrs.
En ritlistarnám er vissulega umdeilt nám. Ég er sjálf með próf í ritlist (og játa svolitla fordóma fyrir náminu áður en ég byrjaði) og ég skrifaði mínar hugleiðingar um námið hér, ykkur er velkomið að lesa þær. Rúnar Helgi, lektor í ritlist, skrifar svo sínar vangaveltur hér. Hann verður vonandi ekki sár ef ég bendi á þær. Svo má ég líka til með að benda ykkur á krúttlegan pistil um ritsmiðjur hér.
Ég útskrifaðist fyrir tæpu ári og var með þeim fyrstu sem kláruðu BA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands. Það er því alls ekki komin reynsla á það hvernig ritlistarmenntuðu fólki reiðir af í íslenskum bókmenntaheimi miðað við aðra, og það er ennþá síður hægt að leggja mat á það hvort ritlistarnemar hér komi til með að hafa greiðari aðgang að útgefendum en aðrir.
Ég efast samt um að sú verði raunin, ekki síst vegna þess að útgáfubransinn hér á Íslandi er ekki eins ógurlegur frumskógur og t.d. í Bandaríkjunum og Bretlandi. Landið er blessunarlega svo lítið að maður getur sent forleggjurum handrit og verið viss um að þeir lesi það.
En það verður spennandi að sjá hvernig umræðan um ritlistarnámið og þá sem útskrifast hérna þróast.
Ég get allavega fyrir mína parta sagt að ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af því að Háskóli Íslands fari að fjöldaframleiða rithöfunda sem allir skrifa eins. Það er a.m.k. ekki á skrifum samnemenda minna að sjá að það sé nokkur einasta hætta á því.
P.S. Ég er annars byrjuð á bókinni hennar Obreht. Ég skal svo segja ykkur hvernig mér finnst hún við tækifæri.
Hausar taldir í TMM
Þessvegna finnst okkur oft afar fróðlegt að skoða kynjahlutföllin í bókmenntum og bókmenntaumræðu á Íslandi. Og þá liggur yfirleitt beinast við að leggjast í hausatalningar.
Ég skoðaði efnisyfirlit síðasta heftis af Tímariti Máls og menningar (72. árgangur, 2. hefti, maí 2011). Það lítur svona út:
Höfundar: 20
Karlar: 15 (75%)
Konur: 5 (25%)
Og þess má geta að tvær konur eru meðhöfundar einnar ádrepu (sem svo skemmtilega vill til að fjallar einmitt um hausatalningar í bókmenntaþætti).
Greinarnar í blaðinu eru því 19 talsins, og konur því einungis höfundar 21% efnis.
14. júlí 2011
Kennarablæti og hamskipti
Einhvern veginn tekst Oates að fá mann til að lifa sig nógu mikið inn í söguna til að þykja ást Gillian á Harrow og undirgefni við hann fullkomlega eðlileg. Harrow virðist hæfileikum gæddur við að miðla skilningi á ljóðlist til nemenda sinna en aðferðir hans við kennslu í skapandi skrifum, þar sem fámennur hópur útvaldra nemenda keppist við að þóknast honum, eru heldur vafasamar. Þar þykir beinlínis eftirsóknarvert að vera niðurlægð af Harrow fyrir framan hópinn, en niðurlæging felur jú í sér að hann veiti manni athygli. Og hann lætur nemendur halda dagbækur þar sem ekki skal halda aftur af neinu, allar innstu hugsanir og þrár skulu látnar flakka, svo ekki sé minnst á fjölskylduleyndarmál, og þessu skal deila með hópnum.
Oates tekst þarna að koma heilmiklu til skila í stuttri bók. Það er ekki verið að eyða orðum í óþarfa og ekkert af textanum fer til spillis. Hún nýtir sér ímyndunarafl lesandans til að koma óhugnaði til skila; í stað langra og ógeðfelldra lýsinga gefur hún hluti í skyn og segir jafnvel (eða lætur Gillian segja) að eitthvað sé of ógeðfellt til að lýsa því. Það sem segja má að skipti máli þarna er ekki einhver keppni í að ganga sem lengst í óhugnaði heldur það að gengið er fram af sögupersónum, traust þeirra misnotað og tilfinningar þeirra meðhöndlaðar sem leikföng. Þarna flykkjast hæfileikaríkar, ungar konur um að verða niðurlægðar af valdasjúklingum. Er þráin eftir viðurkenningu svona sterk? Hvað er hægt að fá fólk til að ganga langt fyrir það eitt að upplifa sig sem útvalið umfram aðra?
Einkennandi fyrir þessa bók er hvernig hún vekur upp spurningar um mörkin milli fegurðar og ljótleika og á milli góðs og ills. Lýsingarnar eru oft myndrænar og Gillian, og lesandinn með henni, skiptir um skoðun á því hvort eitthvað sé ljótt eða fallegt og eins verður það stundum óljóst hvort það sem verið er að lýsa sé ljótt eða fallegt. Eftir alla leikina með mannlegar tilfinningar fer að verða freistandi fyrir lesandann að líta á illvirki sem góðverk. Og hefndin er sæt, hvort sem sá sætleiki er nú hollur eða ekki.
6. júlí 2011
Þegar Skippy dó
Ókei, þegar maður er farinn að mikla það fyrir sér að skrifa bókablogg af því að það þurfi að vera svo agalega sniðugt, skemmtilegt, gáfulegt og einstakt, þá er sennilega kominn tími til að skrifa stuttan og ófullkominn pistil til að sanna það fyrir sjálfri sér að það sé hægt. Það er yfirleitt auðveldast að skrifa um það sem manni finnst mjög gott eða mjög vont - þannig að ég ákvað að kynna lesendur síðunnar fyrir þeirri bók sem hefur vakið hvað mesta lestrarlukku hjá mér það sem af er þessu ári. Af þeim 53 bókum sem ég er búin að lesa í ár (já, ég er njörður sem skrifa hjá mér allt sem ég les) er það Skippy Dies eftir írska höfundinn Paul Murray sem hefur vinninginn, þótt vissulega séu nokkrar sem fylgi fast á eftir.
Bækur sem ég hef gefist upp á
Einhverra hluta vegna skora ég alltaf rosalega hátt á þessum listum. Ég held það sé af því að þeir samanstanda yfirleitt af temmilegri blöndu af bestsellerum og svokallaðri „vestrænni kanónu“.
Og það vill svo til að á þeim sviðum er ég ágætlega lesin, sérstaklega af því að Penguin Classics bækurnar eru svo dásamlega ódýrar og svo er ég óttalega svag fyrir bestsellerum og læt einhverra hluta vegna alltaf blekkjast og held að bókin hljóti að vera rosalega góð fyrst hún hefur selst svona vel (nýjasta dæmið um svoleiðis svekkelsi var The Passage eftir Justin Cronin sem ég las síðasta sumar og er kannski efni í sér færslu).
En það sem fer svo rosalega mikið í taugarnar á mér þegar ég skoða svona lista er hvað það eru yfirleitt margar bækur þar sem ég hef byrjað að lesa og gefist upp á og fæ þar af leiðandi ekki stig fyrir.
Ég er hrifin af listum og birti því meistaraverkin sem ég man í svipinn eftir að hafa gefist upp á. Titlarnir eru ýmist á ensku eða íslensku, eftir því á hvaða tungumáli ég byrjaði að lesa þær.
(Og það eru margar þarna sem ég veit að eiga að vera æðislegar og ég man ekki einu sinni afhverju ég lagði frá mér. Plís ekki dæma mig.)
Útlendingurinn
Stríð og friður
Biblían
Moby Dick
Ulysses
Grasið syngur
Catch 22
Á hverfanda hveli
The Hitch Hiker´s Guide to the Galaxy
Þrúgur reiðinnar
For Whom the Bell Tolls
100 ára einsemd
Vopnin kvödd
The Heart of Darkness
Lolita
Do Androids Dream of Electric Sheep?
The Tin Drum
Mrs Dalloway
Don Kíkóti
Treasure Island
... og svo ábyggilega fullt í viðbót sem ég man ekki eftir í svipinn.
Áhugasamir geta t.d. fundið einn svona lista hér.
Það hefur líka verið tekinn saman svona listi yfir íslenskar bókmenntir og þar stóð ég mig mun verr.
Utan við
4. júlí 2011
Hold og kjöt
---
Undanfarið hef ég aðallega verið að lesa höfunda sem þurfa ekki sárlega á því að halda að vera komið á framfæri, gamla karla sem hafa ýmist fengið Nóbelsverðlaun eða verið tilnefndir oftar en einu sinni. Eina bók las ég hins vegar í miklu lestrarmaraþoni í vor sem mér þykir þess verð að auglýsa svolítið; það er skáldsaga eftir kúbanska höfundinn Virgilio Piñera, sem heitir á frummálinu La carne de René en ég las í ensku þýðingunni sem René´s Flesh. Piñera var ljóð- og leikritaskáld, smásagna – og skáldsagnahöfundur og Hold Renés var hans fyrsta skáldsaga, kom út árið 1952.
Það carne sem kemur fyrir í titlinum getur á spænsku þýtt bæði hold og kjöt og sú tvíræðni er í raun lykillinn að bókinni, en verður óhjákvæmilega dálítið stirð í þýðingu. Ég ráðlegg því þeim sem lesa spænsku á annað borð að reyna frekar að verða sér úti um upprunalega útgáfu bókarinnar en enska þýðingu, þótt hún sé að öðru leyti ágætlega gerð.
Aðalpersóna sögunnar er René, veikbyggður unglingspiltur. Hann á yfirgangssaman og ráðríkan föður sem er fylgismaður undarlegs sértrúarsöfnuðar sem tignar holdið og kjötið framar öllu. Faðirinn reynir með öllum ráðum að vígja René inn í þennan dýrkendaflokk, meðal annars með því að láta hann snerta ógeðsleg sár sem faðirinn hefur rist í eigið hold og neyða hann til að standa í röðinni í kjötbúðinni, en René ræður ekki við verkefnið og fellur í yfirlið. Svo fer að faðir hans sendir hann í piltaskóla söfnuðarins þar sem nemendurnir eru hafðir í taumi og með múl eins og hundar og þjálfaðir í ögun og dýrkun holdsins. Hómóerótískur og sadómasókískur andi svífur yfir vötnum. En þótt René sýni mótþróa og takist á endanum að sleppa úr kjötskólanum er raunum hans ekki lokið.
Alla bókina er René að berjast við fólk sem vill eiga hann og ráða yfir honum, gjarnan í holdlegum skilningi. Þetta fólk er hvert öðru einkennilegra; kjötdýrkandi faðir hans, væmin eldri nágrannakona sem girnist hann, drykkfelldir og sadískir kennarar í piltaskólanum, að ekki sé minnst á akfeitan og útlimasmáan mann sem heitir einfaldlega Kjötbolla og á unglingspilta fyrir elskhuga sem rúlla honum um stofugólfið með priki.
Ég hef lesið svolítið af ljóðum eftir Piñera og það er sami fáránleikablær yfir þeim og þessari skáldsögu. Hún er uppfull af skrítnum persónum og absúrd uppákomum, hugmyndaauðgi og pervertisma. Það finnst mér skemmtilegt.
3. júlí 2011
Meiri hellar, minna kynlíf
Nei, afsakið: Þeir sem lágu yfir bókunum um Börn jarðar® eftir Jean M. Auel rétti upp hönd! (Já, þetta er skráð vörumerki.)
Fyrir þá sem ekki vita þá fjalla bækurnar um konuna Aylu og manninn Jondalar, en þau eru Cro-Magnon fólk og sögusviðið er Suður- og Mið-Evrópa á ísöld. Þær fjalla um lífsbaráttu, óblíð náttúruöfl, ástir, uppfinningar og síðast en ekki síst samskipti Cro-Magnon fólksins við Neanderdalsfólk. Auel er greinilega mikill grúskari og ég las einhversstaðar að hún sé orðinn einn helsti fræðingurinn um mannlíf á ísöld. Hún skáldar að sjálfsögðu ansi mikið í eyðurnar, en kenningar hennar um hvernig lífið var þá eru a.m.k. áhugaverðar, þó mér vitrara fólk hafi sagt mér að hún sé oft komin út á hálan ís.
Fyrsta bókin, Þjóð bjarnarins mikla, kom út árið 1980 og sjötta og síðasta bókin, sem hefur ekki verið þýdd á íslensku en heitir The Land of Painted Caves á ensku, kom út á þessu ári. Þegar ég var níu ára las ég þær bækur sem þá voru komnar út upp til agna og lét mig dreyma um að eignast fjallaljón, temja villta hesta, búa til vopn úr leðurþvengjum og veiða hýenur og púmur.
(Svona eftir á að hyggja finnst mér kannski svolítið skrýtið að foreldrar mínir hafi ekkert fett fingur út í þennan lestur minn á þessum aldri, því bækurnar eru öðrum þræði afar erótískar og eiginlega ljósbláar. Miklu púðri er t.d. eytt í að lýsa því hversu vel vaxinn niður hann Jondalar er og hversu fimlega hann kann að beita bæði fingrum og tungu. Ástarleikjum hans og Aylu er lýst í minnstu smáatriðum, en hann leiðir hana í allan sannleikann um holdlegar nautnir. Annars man ég reyndar ekki til þess að nokkur fullorðinn hafi nokkurn tímann reynt að skipta sér af því hvað ég las og hvenær, fyrir utan konuna á bókasafninu í Melaskóla, en hún ætlaði ekki að vilja lána mér Mávahlátur því henni fannst ég of lítil. Ég þráaðist samt við og ég man að hún rétti mér hana og fussaði um leið.)
Þó það séu mörg ár síðan ég skildi við Aylu og Jondalar síðast þá sperrti ég nýverið eyrun þegar ég heyrði að síðasta bókin væri að koma út. Bókin fékk arfaslaka dóma, en ég keypti hana samt, því mig langaði að vita hvernig ævintýrið um æskufélagana endar.
Og ég varð fyrir fáránlegum vonbrigðum. Raunar svo miklum að ég nennti ekki að klára bókina. Hún er held ég rúmar 600 blaðsíður (ég keypti hana á kyndilinn svo ég er ekki alveg með það á hreinu), en það gerist eiginlega ekki neitt í henni (eða a.m.k. ekki í fyrri helmingnum sem ég er búin að lesa). Auel er líka afar slakur penni og hún skilur ekkert eftir handa lesandanum að ráða í. Margar senur voru á þessa leið:
Ayla vildi láta í ljós aðdáun sína á X án þess að vekja athygli hinna svo hún brosti fallega til hans. X sá bros Aylu og áttaði sig á því að hún vildi láta aðdáun sína í ljós án þess að vekja grunsemdir. Y sá Aylu brosa og viðbrögð X fór ekki framhjá henni og hún gladdist yfir því að Ayla hefði kosið þessa leið til að láta X vita af aðdáun sinni.
Auel hefur víst rannsakað söguslóðir (þar sem nú er Frakkland) nákvæmlega, sem skín allt of vel í gegn í bókinni. Því óburðugur söguþráðurinn virðist varla vera nema afsökun til þess að þvæla söguhetjum úr einum máluðum helli í annan. Auel lýsir svo hverju einasta málverki í hverjum einasta helli af sársaukafullri nákvæmni auk þess að lýsa lyktinni og bergmálinu og berginu o.s.frv.
Og svo veit ég ekki hvort minnið hafi svikið mig og bækurnar ekki jafn blautlegar og mig minnti eða hvort Auel sé vaxin upp úr kynlífsáhuganum (hún er orðin 75 ára), en ég var búin með nákvæmlega 25% af bókinni þegar fyrsta kynlífssenan kom. Og Ayla og Jondalar voru rétt að komast í gírinn og hefja seinni hálfleik þegar þau voru trufluð.
En ég gafst s.s. upp á bókinni og veit því enn ekki hvernig vegferð þeirra lýkur, og efast um að ég nenni að taka upp þráðinn og þræla mér í gegnum hana til að komast að því.
Það er kannski rétt sem sumir segja um að maður eigi að láta vera að lesa aftur bækurnar sem maður dýrkaði í æsku?