9. maí 2013

Barn verður til

Flestir sem alist hafa upp á Íslandi síðustu áratugina hafa eflaust lesið einhverja bók í dúr við Svona verða börnin til, sem var til á heimili mínu og uppfræddi mig um getnað og barnsburð. Ógleymanleg er myndin af risastóru hænunni sem og hippapabbinn með krullurnar. Á skólabókasafninu var svo til bókin Ása, Jón og Agnarögn sem var ögn grafískari enda ætluð eldri börnum. Þegar ég bjó í Bretlandi fyrir nokkrum árum fékk ég nett áfall er ég komst að því að flestir þarlendir vinir mínir höfðu hvorki fræðst um kynlíf né tilurð barna fyrr en í grunnskóla, sumir jafnvel um tíu eða tólf ára aldur, þar eð foreldrunum þótti óþægilegt og óviðeigandi að ræða þennan málaflokk við börn. Alveg steikt.

Eins og sést á þessum lista frá Bókasafni Kópavogs er þónokkuð til af bókum sem ýmist útskýra líffræðina á bak við barnsfæðingu eða fjalla um það sem gerist þegar barn eignast systkini. Ég vil líka eignast systkin var mikið lesin á mínu heimili, ekki síst þegar yngsta systkinið mætti á svæðið. Fyrir síðustu jól kom hins vegar út glæný íslensk bók sem útskýrir hvernig börnin verða til og beitir annarri og fjölbreyttari nálgun; Hugrún Hrönn Kristjánsdóttir rithöfundur og íslenskufræðingur sendi frá sér bókina Hulstur utan um sál um getnað, meðgöngu og hin ólíku fjölskyldumynstur, en aðrar bækur sem í boði eru á þessu sviði eru upp til hópa afar heterónormatívar og ganga yfirleitt út frá formúlunni pabbi + mamma = barn og fjölskylda sem býr undir einu þaki. Í bók sinni tekur Hugrún dæmi um mismunandi mynstur, t.d. einstæða móður, samkynhneigð pör, stjúpfjölskyldur, ættleiðingar, fjarbúð, unga foreldra o.s.frv. og minnir þannig á að fjölskyldur eru af öllum stærðum og gerðum, fræðir lesendur um fjölbreytileikann og gefur börnum sem ekki falla inn í hið viðtekna mynstur færi á að samsama sig textanum. Líffræðin er útskýrð en einnig horft á félagslega þáttinn.


Bókin er ríkulega myndskreytt af þeim Hugrúnu, Unni Valdísi Kristjánsdóttur og Hólmsteini Össuri Kristjánssyni og afar vel. Við fyrstu sýn þótti mér sem myndirnar væru ef til vill ekki nógu aðlaðandi fyrir börn - þær eru talsvert flóknar og byggjast á svörtum teikningum + stöku vatnslitum - en þegar ég skoðaði bókina í annað sinn áttaði ég mig á því að hún minnti mig mjög á einhverja bók frá áttunda eða níunda áratugnum sem ég las aftur og aftur sem barn og ekki síst til að skoða myndirnar. Ég man ekki ennþá hvað bókin hét en það er sannarlega dálítill hippablær yfir myndunum í bók Hugrúnar enda svífur þar ást og lífsgleði yfir vötnum.

Textinn er þannig uppbyggður að á hverri opnu er dregin upp mynd af tilteknum aðstæðum og svo bætir hið ófædda barn við nokkrum orðum. Þroski fóstursins kemur þar gjarnan við sögu og á litlum myndum á hverri opnu fáum við að sjá fóstrið stækka og dafna. Það eina sem ég hef við textann að athuga er að sjónarhornið er dálítið flókið og ég er ekki viss um að ung börn nái að fylgja því eftir; sem dæmi má nefna að stundum er það hið ófædda barn sem talar alla síðuna og stundum er það þriðju persónu frásögn af viðkomandi foreldri/foreldrum. Einnig gæti reynst snúið fyrir krakka að átta sig á því að um er að ræða mismunandi börn vegna þess að fyrstu persónu frásögnin og uppstillingin á textanum gefur til kynna að sá hluti myndi eina heild. Mér datt í hug að ef til vill væri sniðugast að skoða eina og eina opnu með yngri krökkum til að koma í veg fyrir rugling. Semsagt: Bókin mætti vera aðgengilegri en hefur samt margt gott fram að færa.

Engin ummæli: