31. október 2010

Svar við bréfi Helgu

svarÞér finnst kannski gróft að minnast þessa, og skrifa til þín, Helga mín. Mannorð og virðing, mér er alveg sama um það. Hvað á maður svo sem að gera við slíkt þegar allt er komið í kring? Þegar öllu er á botninn hvolft verð ég víst að játa að aldrei hef ég vitað aðra eins og þvílíka jarðneska sælunautn sem okkar samfarir þar í hlöðunni þennan eilífa vordag í mínu minni. Þegar ég loksins fékk að þukla þinn brúnslétta skapnað og drukkna í fylltum vörum þessa sælu og skammæju fengitíð lífs míns. (Svar við bréfi Helgu bls. 35)

Inngangur að bókinni Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson er ljóðið Þau eftir Stefán Hörð Grímsson þar sem segir meðal annars Nú ganga þau sinn veginn hvort og haldast í hendur. Bók Bergsveins má segja tilbrigði við þetta ljóð en hún er bréf gamals bónda og ekkils, Bjarna Gíslasonar,  skrifað á höfuðdegi árið 1997 til Helgu, fyrrum ástkonu sinnar, sem hann fylgdi ekki til Reykjavíkur á sínum tíma. Það borgar sig ekki að rekja söguna því þá skemmi ég bara fyrir ykkur öllum sem verðið alveg endilega að lesa þessa bók.

Ég myndi segja Svar við bréfi Helgu býsna núþálegt verk í besta skilningi þess orðs. Það er dálítið í tísku um þessar mundir að póstmódernisera menningararfinn og poppa hann upp, en þessa bók ætla ég samt ekki að stimpla með póstmódernismastimplinum mínum því Bergsveinn gengur eins langt og hægt er að gera, bókin er eins og hún sé skrifuð af gömlum bónda og orðfærið og hugsunarhátturinn er svo sannfærandi að mér fannst ég alveg vera að lesa bréf frá íslenskum alþýðumanni sem gæti verið fæddur í byrjun síðustu aldar. Þetta hljómar kannski ekki sérlega spennandi, ég sjálf yrði líklega ekki beint spennt ef mér væri sagt að lesa svona verk (mig langar t.d. ekki að lesa ljóð eftir fólk sem yrkir eins og Guðmundur Böðvarsson eða Steinn Steinarr, þó ég dái þá báða) en Svar við bréfi Helgu er samt algjörlega ómótstæðileg bók og mig langar að gefa öllum sem ég þekki hana í jólagjöf. Hún er dásamlega fallega skrifuð erótísk ástarsaga og unaðslega skemmtileg lýsing á íslenskri alþýðumenningu til sveita á síðustu öld og svo er hún bæði fyndin og sorgleg. Þarf maður eitthvað meira?

Þórdís

21. október 2010

Sjötta alþjóðlega ljóðahátíð NýhilsSjötta alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils verður sett í Norræna húsinu klukkan fimm í dag, fimmtudaginn 21. október, og mun standa yfir helgina. Fimm erlend skáld eru gestir hátíðarinnar að þessu sinni en auk þeirra munu fjórtán innlend skáld lesa upp. Tvær skáldkonur koma frá Bandaríkjunum, Sharon Mesmer frá New York er reynsluflarfbolti í bransanum en Alli Warren frá Kaliforníu er yngst erlendu gestanna, fædd árið 1983. Frá Svíþjóð kemur tilraunaskáldið og hljóðalistamaðurinn Pär Thörn, sem mun flytja raftónlist á föstudeginum en lesa upp á laugardeginum. Teemu Manninen er frá Finnlandi en skrifar einnig mikið á ensku. Síðastur en ekki sístur er það Jean-Michel Espitallier sem kemur frá Frakklandi en hann er bæði ljóðskáld og trommari í rokkhljómsveit.

Druslubókadömur koma nokkuð við sögu á hátíðinni. Undirritaðar hafa veg og vanda af skipulagningu hátíðarinnar og munu vera kynnar á föstudagsupplestrinum, auk þess sem Kristín Svava mun lesa upp á laugardeginum. Kynnar á laugardagskvöldi verða Þórdís Gísladóttir og Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir og Þórdís mun einnig lesa upp úr flunkunýrri bók sinni, Leyndarmál annarra, á föstudagskvöldinu.

Sérstök athygli skal vakin á æsispennandi ljóðapöbbkvissi sem fer fram á Næsta bar klukkan níu í kvöld, fimmtudag, og vegleg verðlaun eru í boði. Hér, eftir fréttir, má finna umfjöllun Víðsjár um hátíðina og upplestur okkar á tveimur ljóðum erlendra gesta: http://dagskra.ruv.is/ras1/4555542/2010/10/20/

Dagskrá hátíðarinnar er í heild sinni sem hér segir:

Fimmtudagur 21. október
17:00: Opnunarkokkteill í Norræna húsinu.
21:00: Ljóðapöbbkviss á Næsta bar.

Föstudagur 22. október
20:00(- 00:00): Upplestur á Venue.
Jón Örn Loðmfjörð
Ásgeir H Ingólfsson
Ragnhildur Jóhanns
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Pär Thörn (tónlist)
HLÉ
Þórdís Gísladóttir
Kári Tulinius
Alli Warren
Hildur Lilliendahl
Byrkir
Teemu Manninen
Bárujárn spilar

Laugardagur 23. október
12:00: Pallborðsumræður í Norræna húsinu. Benedikt Hjartarson stjórnar. Í fyrra pallborði munu Sharon Mesmer, Pär Thörn, Angela Rawlings, Kári Tulinius og Ásgeir H. Ingólfsson ræða pólitík formsins. Í seinni pallborði munu Teemu Manninen, Jean-Michel Espitallier, Alli Warren, Ingólfur Gíslason og Anton Helgi Jónsson ræða um tilraunaljóðið, hefð þess og nýsköpun.
20:00(-00:00): Upplestur á Venue.
Bjarni Klemenz
Angela Rawlings
Sindri Freyr Steinsson
Ingólfur Gíslason
Pär Thörn
HLÉ
Jón Bjarki Magnússon
Kristín Svava Tómasdóttir
Jean-Michel Espitallier
Anton Helgi Jónsson
Sharon Mesmer
Hrund Ósk Árnadóttir syngur og Tómas R. Einarsson spilar undir


Kristín Svava og Guðrún Elsa

19. október 2010

Ský - tímarit fyrir skáldskap

skyÍ vor gaf Jón Hallur Stefánsson mér átta eintök af tímaritinu SKÝ sem kom út ellefu sinnum á árunum 1990-1994. Síðan hef ég haft þessi eintök sem náttborðslesningu og gluggað í þau öðru hverju mér til upplyftingar. Á innsíðu tímaritsins, sem er látlaust og í litlu og skemmtilegu vasabroti (ég giska á 10x15 cm), stendur að Ský sé tímarit fyrir skáldskap, í því birtust aðallega ljóð eftir íslenska og erlenda höfunda en þar má líka finna öðruvísi texta, ljósmyndir og dúkristur. Ritstjórar Skýs voru Jón Hallur og Óskar Árni Óskarsson en síðan voru gestaritstjórar sem fóru fyrir einstökum heftum, menn á borð við Geirlaug Magnússon, Gyrði Elíasson, Braga Ólafsson og Þór Eldon. Meðal íslenskra höfunda sem birtu ljóð má t.d. sjá Jón Stefánsson (sem nú heitir líka Kalman), Ágúst Borgþór Sverrisson, Harald Jónsson, Hannes Sigfússon, Sjón, Hallgrím Helgason, Hlyn Hallsson, Svein Yngva Egilsson o.fl. Þýddir höfundar eru t.d. Pentti Saarikoski, Eduardo Pérez Baca, Elias Canetti og Guillaume Appollinaire.  Kvenmannsnöfnum fer lítið fyrir í tímaritinu Ský en þó má t.d. finna ljóð eftir Úlfhildi Dagsdóttur, Berglindi Gunnarsdóttur, Önnu Láru Steindal og þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur á ljóði eftir Marínu Tsvetajevu og þýðingar Geirlaugs á Wieslawa Szymborska, sem þá var ekki orðin Nóbelsskáld. Hér á eftir fara örfá sýnishorn úr tímaritinu SKÝ.

Á heitum degi
getur majónes verið banvænt
það sagði mér frænka mín

hún sagði mér einnig
að fara aldrei veskislaus út
ef svo færi ég dræpist
þyrftu þeir að bera kennsl á líkið

Sam Shephard (Óskar Árni Óskarsson þýddi)

______________________________________


Lífshlaupið

Ginblautt var bréfið er ég sendi minni móður
Hún sagði komdu aldrei aftur heim
Ginblautt var skeytið er ég sendi minni konu
Hún sagði komdu strax aftur heim
Ginblautt var kortið er ég sendi mínum föður
Hann kom til mín strax næsta dag
Ginblautur var pakkinn er ég sendi mínum syni
Hann elskar mig ennþá í dag

Því að ginblautt er líf mitt     gegnsósa af gini
ég ferðast um ókunn lönd
með tösku fulla af gini og brúsa af tónik
ég heilsa uppá fjarlæga strönd

Óttarr Proppé

______________________________________


Hviids Vinstue

Mörghundruð ára gamalt brak
undir skónum

strýk þys borgarinnar af mér
og spyr eftir þögninni

Ég er ekki búinn að drekka mikið
þegar maður frá síðustu öld
sest á móti mér

honum fylgja
skógarþröstur
lóa

og lykt af fjalli

Jón Stefánsson

______________________________________


Jarðarglópur

Það er ekkert verra
að vera Guðsson og
á leið heim til Paradísar
þótt maður hafi misst af síðustu
ferð í kvöld

Á meðan getur maður bara
setið á bekknum og gónt
á stjörnur og rauðamöl þyrlast
um janúarnóttina og já
maður getur jafnvel hugsað

Nú væri gott að eiga
þótt ekki væri nema einn lítinn
poka af piparmyntum
frá Síríusi, Nói

Ísak Harðarson

______________________________________

Þórdís

17. október 2010

Erfitt að finna góðar metsölubækur?

harlekinAf einhverjum ástæðum tekst mér alltaf að gíra upp í mér einhverja spennu fyrir því hver fái Nóbelinn í bókmenntum. Í kringum Nóbelsverðlaunatilkynninguna heyrist alltaf umræðan um hvort höfundurinn sem vinnur happdrættið sé frægur/ekki frægur, hvort fólk þurfi almennt að gúggla viðkomandi og hvort bækur viðkomandi séu skiljanlegar eða hvort þetta sé óskiljanlegur litteratúr fyrir einhverja útvalda furðufugla.  Fólk hefur allskonar skoðanir á málunum og í ár birtist að venju einhver könnun, samdægurs eða daginn eftir að verðlaunahafinn var tilkynntur,  þar sem fram kom að sjötíu og eitthvað prósent Svía hefðu aldrei heyrt minnst á Vargas Llosa (túlki fólk tilgang og niðurstöður svona kannana eins og það vill).

Um daginn spurði Dagens Nyheter Peter Englund, ritara (er hann ekki kallaður ritari?) Sænsku Akademíunnar, sem velur þann sem fær Nóbel í bókmenntum, þriggja spurninga um hvernig bókmenntaverðlaunahafinn sé valinn. Í þessu stutta viðtali kemur fram að þeir sem vonast eftir því að Bob Dylan eða James Ellroy (sem er í uppáhaldi hjá Englund) fái Nóbelsverðlaun ættu ekki að gera sér miklar vonir. Síðan 1901 hefur Sænska akademían einungis veitt Nóbelsverðlaun fyrir prósa, ljóð og leikbókmenntir fyrir fullorðna (blaðamaðurinn telur þessa tvo fyrrnefndu karla greinilega ekki skrifa svoleiðis texta).  Peter Englund segir að það sé ekkert í erfðaskrá Nóbels sem segi til um hverju skuli farið eftir þegar verðlaunin eru veitt en barnabókmenntir eða dægurlagatextar hafa þó aldrei fengið Nóbel (meðan Astrid Lindgren var á lífi voru oft í gangi undirskriftalistar þar sem þess var krafist að hún fengi verðlaunin). Englund segir að það væri hægt að veita Dan Brown Nóbelsverðlaun en hann spyr til hvers það ætti að gera, verðlaunin geri það mögulegt að draga fram mikilvægari bókmenntir. Blaðamaðurinn spyr hvort mikilvægar bókmenntir sé ekki að finna meðal þess sem er á vinsældarlistunum en P.E. segir (hlæjandi) að þær þurfi ekki að draga fram því þær séu vinsælar. Síðan segir hann að það sé ekkert skilyrði að benda á eitthvað sem fáir þekkja en að málið snúist um bókmenntaleg gæði og hans skoðun sé sú að það sé mjög erfitt að finna vinsæla höfunda sem standi undir þeim kröfum sem Akademían krefst.

Þórdís

P.S. Já og eitt í viðbót. Annað tölublað Spássíunnar, sem er fínasta menningarrit sem að miklum hluta fjallar um bókmenntir, kom út um daginn og fæst í mörgum búðum og það er auðvitað líka hægt að gerast áskrifandi. Spássían er með feisbúkksíðu og  hér eru líka upplýsingar.

16. október 2010

Fyrir unnendur súrrealískra endurminningaÉg er orðin svo meðvirk druslubókardama að ég get ekki lesið áhugaverða bók án þess að nefna hana hér, þótt í stuttu máli sé. Hún var keypt á heimilinu eftir meðmæli frá fjölskylduvinum og ég var sú þriðja í fjölskyldunni sem tók við henni þannig að hún er þrautlesin orðin: endurminningabókin My last sigh (ensk þýðing á Mon dernier soupir) eftir spænska kvikmyndagerðarmanninn Luis Buñuel.

Buñuel gefur hressandi skít í nákvæma krónólógíska frásögn en segir mikið af litlum skrítnum sögum héðan og þaðan milli þess sem hann veltir vöngum, telur upp það sem honum finnst skemmtilegt og ræðir mismunandi áfengistegundir. Mér fannst sérstaklega gaman að lesa um barnæsku hans í Calanda á Spáni á fyrstu áratugum 20. aldar þar sem, segir hann sjálfur, miðaldir stóðu fram að fyrra stríði, og tíma hans með súrrealistunum í París, sem voru allir í því að reyna að breyta heiminum með því að hneyksla hann, stóðu fast á prinsippunum og voru alltaf að gera hver annan útlægan úr hópnum fyrir að brjóta þau. Þetta er ein af þessum bókum þar sem koma fyrir línur á borð við „Við sátum þarna nokkrir, ég, Dalí, Lorca, Picasso og André Breton...” (og að sjálfsögðu á Sélect, þetta er þvottekta Parísarsnobb).

Það eina sem stakk mig er að það fer áberandi lítið fyrir kvenfólki í bókinni, þær eru aðallega mellur og hysterískar leikstjörnur, sú sem kemur einna mest við sögu er Gala Dalí og sú fær nú ekki góð eftirmæli, fégráðug og klikkuð. Ég held ég megi segja að kona komi nokkurn veginn aldrei fyrir nema sem einhvers konar objekt. Hins vegar er Buñuel nógu fínn gaur að öðru leyti til að maður fyrirgefi honum það og mér leiddust sögurnar hans aldrei.


Kristín Svava

15. október 2010

Bráðum koma blessuð jólin

Jólabókaflóðið árlega er við það að bresta á. Jólin eru líka örugglega í næstu viku eða þarnæstu, allavega er byrjað að auglýsa Frostrósatónleika og senn munu feisbúkkstatusar vina minna meira og minna snúast um lakkrístoppabakstur, jólakortaföndur og skápahreingerningar. Ég sjálf er með gríðarlega metnaðarfull áform sem snúast ekki um neitt af því fyrrnefnda heldur um að lesa fullt af bókum sem koma út núna fyrir jólin og skrifa um þær á þessa síðu og svo ætla ég að tuða hæfilega mikið í hinum druslubókagellunum um að lesa og skrifa eins og óðar og rífa niður draslið og mæla með allri snilldinni. En góð áform eru náttúrlega bara góð áform, það er enginn að segja að maður þurfi að standa við þau!

Nú um stundir er ég hins vegar dálítið að lesa ljóð eftir Fredrik Lindström sem er netttilgerðarleg fjölmiðlafígúra og rithöfundur í Svíþjóð.  Ljóðin hans Fredriks minna mig töluvert mikið á ljóð Vitu Andersen, sem ég las mér til óbóta einhverntíma á síðustu öld. Það er eitthvað skemmtilegt við það. Hún skrifaði líka smásagnasafnið Haltu kjafti og vertu sæt og Fredrik hefur skrifað smásögur sem eru líka svolítið undir áhrifum frá Vitu Andersen.*

Að lokum ætla ég að ljóstra upp hvernig kápan á bókinni minni, Leyndarmál annarra,  er til komin. Maður kaupir sér veggfóður á fornsölu í útlöndum og er með góð áform um að betrekkja skrifstofuna eða svefnherbergið, en gerir ekkert í málunum og skrifar í staðinn bók og fer svo með veggfóðrið til bókaútgefandans sem kemur því til hönnuðar sem breytir því snilldarlega í bókarkápu.

Leyndarmál

* Fyrir þá sem skilja sænsku er hér fyrir aftan krækja á þúskjá þar sem Fredrik Lindström les smásöguna sína Bara knulla lite sem útleggst á góðri íslensku Bara ríða smávegis: Bara knulla lite.

Þórdís

13. október 2010

MÁTTLEYSI MIÐALDRA MANNA

Þennan pistil um Svíann Jan Guillou fengum við sendan frá Dr. Gunnari Hrafni Hrafnbjargarsyni og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Þeir sem senda svona skemmtilega gestapistla eru í sérlegu uppáhaldi hjá Druslubókadömunum.

Stundum stingur rithöfundurinn Jan Guillou upp kollinum í sænskum fjölmiðlum, oft óforvarendris, jafnan með ákúrur á aðra rithöfunda samtímis því sem hann rómar eigið ágæti. Svíar muna einna helst eftir rifrildi hans og Unni Drougge, en hann sakaði hana um að hún gerði ekki annað en að næla sér í karlmenn til þess að geta svo hefnt sín á þeim í bókum sínum þegar sambandi var slitið. Þetta orðaskak þeirra er dregið upp í hvert sinn sem Unni Drougge (sem sumir álíta jafnathyglissjúka og Guillou) birtist á sjónvarpsskjánum. Þetta greinarkorn er ekki um ritdeilur sænskra rithöfunda. Það er fyrst og fremst stutt lýsing á manni sem hefur mest gaman af að hlusta á sjálfan sig.

Hver er maðurinn?
Jan Oskar Sverre Lucien Henri Guillou fæddist 17. janúar 1944. Móðir hans var af ætt ríkra Norðmanna en faðir hans, sem var franskur, var sonur húsvarðar (síðar sendiherra í Helsinki) við franska sendiráðið í Stokkhólmi. Framan af var Jan Guillou franskur ríkisborgari, en 1975 öðlaðist hann sænskan ríkisborgararétt. Foreldrar Jans skildu þegar föðurafi hans gerðist sendiherra í Helsinki og hún giftist stjúpföður Jans sem beitti fjölskylduna líkamlegu og andlegu ofbeldi eins og lýst er í bókinni Ondskan frá 1981.

Á sjöunda og áttunda áratugnum starfaði Jan Guillou innan maóístísku hreyfingarinnar Clarté og var um tíma meðlimur í Sænska kommúnistaflokknum. Jan Guillou þreytist seint á því að gagnrýna aðskilnaðarstefnu Ísraels. Á sjöunda áratugnum starfaði Jan Guillou sem blaðamaður á tímaritinu FiB aktuellt. Árið 1973 gerðist hann ritstjóri vinstrisinnaða tímaritsins Folket i Bild/Kulturfront sem birti greinar hans og Peters Bratts um IB (Informationsbyrån), leyniþjónustu sænska hersins. Fyrir þátt sinn í að koma upp um leyniþjónustuna var Jan Guillou dæmdur í tíu mánaða fangelsi fyrir njósnir.

Leyniþjónustumaðurinn Hamilton, riddarinn Árni Magnússon og lofsöngur höfundar um sjálfan sig
Jan Guillou er án efa þekktastur fyrir bækur sínar um sænska leyniþjónustumanninn Carl Hamilton, en um hann hafa komið út þrettán bækur á árunum 1986-2008. Jafnframt hafa bækur hans um riddarann Árna Magnússon notið mikilla vinsælda. Tvær þeirra, Musterisriddarinn og Leiðin til Jerúsalem hafa komið út á íslensku í þýðingu Sigurðar Þórs Salvarssonar. Auk þessa hefur Jan Guillou skrifað tæplega þrjátíu bækur og greinasöfn, sem fjalla um allt frá hans eigin ævi, mat, veiðar, stjórnmál, og nornaveiðar. Síðust kom út bókin Ordets makt och vanmakt (Máttur og máttleysi orðsins) á síðasta ári. Bókin fjallar um þau fjörutíu ár sem Jan Guillou hefur starfað sem blaðamaður og rithöfundur. Bókin er einn endalaus lofsöngur höfundar um sjálfan sig og það hvað samferðamenn Jans Guillous hafi verið vitlausir og að hann hafi nú alltaf haft rétt fyrir sér. Ég gafst upp áður en ég kláraði fyrsta kaflann og á örugglega ekki eftir að lesa bókina nema ég þurfi að liggja í rúminu í heila viku.

Uppskrúfun og einhæfni
Þegar ég kom í fyrsta sinn til Svíþjóðar á fullorðinsárum (2000) kom ég í fornbókasölu og ákvað að kaupa allar bækurnar um Carl Hamilton. Ég ætlaði mér að læra sænsku og fannst það bráðupplagt að lesa eitthvað létt. Ég hafði ekki hugmynd um hver Jan Guillou var, né að tungumálið sem bækurnar eru skrifaðar á er einstaklega uppskrúfað og einhæft. Ég tengi til dæmis orðið „numera“ (nú á tímum) mjög við bækur Jans Guillous. Þegar ég kynntist konunni minni (sem er sænsk) sagði ég „numera“ í annarri hverri setningu sem ég reyndi að segja á stirðri og norskublandaðri sænsku (við bjuggum í Noregi þá) án þess að hafa hugmynd um hvort það passaði inn eða ekki. Það má segja að sænskur orðaforði minn hafi einskorðast við kafbáta, köfunarleiðangra, titla á rússneskum hershöfðingjum, kavíar og, síðast en ekki síst, frönskum vínum.

Innbrot og árgangavín
Í bókinni Tjuvarnas Marknad (um leynilögreglukonuna Evu Johnsén-Tanguy, sem er gift Pierre Tanguy, sem er vinur Eriks Pontis, sem er aftur á móti vinur Carls Hamiltons, svona flækjur eru í miklu uppáhaldi hjá Jan Guillou, því það er hægt að flétta inn matarboð með öllum þessum persónum í hinar ýmsu bækur) þylur ein sögupersónan upp hvaða vín er til í vínkjallaranum. Þetta eru allt voða fínir árgangar af dýru frönsku víni, en það vill svo til að þetta er vínið sem Jan Guillou á í vínkjallaranum sínum á sveitasetrinu sínu í Östhammar í Upplöndum. Um miðjan september brutust þjófar inn á sveitasetrið og stálu einum fimmtahluta af víninu hans Jans, árgöngunum sem eru nefndir í bókinni, og því sem hann saknar mest, öllum orðum Carls Hamiltons! Sá sem kemur upp um þjófana og skilar orðunum (Guillou er að sögn skítsama um vínið) er lofað fimmtíu þúsund sænskum krónum í fundarlaun.

Gunnar Hrafn Hrafnbjargarson

Heimildir:

Aftonbladet:
http://www.aftonbladet.se/nyheter/article1329711.ab
http://www.aftonbladet.se/nyheter/article166513.ab

Expressen:
http://www.expressen.se/nyheter/1.2172693/guillou-utlyser-beloning-for-stulna-medaljer

Wikipedia:
http://sv.wikipedia.org/wiki/Jan_Guillou