28. febrúar 2012

Hringdans um bók

Ég held ég hafi nokkrum sinnum lýst því yfir á þessari síðu að ég sé lítið fyrir átakanlegar lífsreynslusögur. Samt fór það svo að fyrstu þrjár bækurnar sem ég las á þessu ári féllu í þann flokk. Fyrst Er lítið mein yfirtók líf mitt, svo Felicia försvann og loks sú sem fjallað skal um hér, Ómunatíð: Saga um geðveiki eftir Styrmi Gunnarsson.

Ómunatíð fjallar um líf með geðsjúkdómi. Eiginkona Styrmis, Sigrún Finnbogadóttir, fékk fyrstu einkenni geðhvarfasýki fyrir rúmum fjórum áratugum og segja má að veikindi hennar hafi mótað líf þeirra hjóna sem og dætranna tveggja upp frá því. Frásögnin er öðrum þræði ofin þessari persónulegu reynslu með stuðningi úr sjúkraskrám Sigrúnar en inn í hana eru jafnframt fléttaðar vísanir í aðrar heimildir, fræðibækur og –greinar, ævisögur og skáldskap.

Það er kannski bara best að ég segi það strax að ég veit ekki alveg hvað mér fannst um þessa bók og skoðanir mínar á henni eru æði mótsagnakenndar. Mér finnast styrkleikar hennar jafnframt vera veikleikar hennar og gallarnir í og með kostir. Mig grunar til dæmis að þeir lesendur sem hafi hlakkað til að fá þarna tækifæri til að kíkja inn um bréfalúguna hjá þjóðþekktum manni hafi fengið fremur lítið fyrir sinn snúð. Í stað tárvotra lýsinga á fjölskylduhörmungum sitja þeir uppi með ágrip af sögu geðlækninga og hálffræðilegar vangaveltur um gagnsemi raflækninga. Sjálfri fannst mér þeir kaflar athyglisverð og fróðleg lesning. Ég held að við höfum öll gott af að vita hve stutt er síðan (og stutt í) að við meðhöndluðum geðsjúka einstaklinga eins og dýr í búrum. Mér fannst líka að vissu leyti ferskur andblær yfir þessar vinnuaðferð að blanda heimildarvinnu við persónulegan texta. Hún tryggði að minnsta kosti að ekki var reynt að höfða til lægstu hvata lesenda með því að klæmast á þungbærustu smáatriðunum. Það er alltaf hætt við að bók eins og þessi verði búrið sjálft. Að þangað leiti lesendur til að skoða hinn geðsjúka, virða fyrir sér atferli hans sjálfum sér til skemmtunar um stund en hverfi síðan frá jafnsinnulausir og áður. Þetta tekst Styrmi að forðast.

Á bókaslóðum í Manchester

Hvaða bókanjörður kannast ekki við það að leita uppi bókatengd fyrirbæri á ferðum um útlönd? Ég hef farið á Jane Austen-safnið í Bath, gengið um Edinborg á slóðum Rebusar vinar míns, ráfað um Oxford í Morse-nostalgíukasti, og þegar ég fór fyrst til Parísar 17 ára gömul langaði mig að vera Andri hans Péturs Gunnarssonar.

John Rylands Library, Manchester
Svo er líka gaman að skoða almennari bókatengd fyrirbæri. Í síðustu viku eyddi ég afar ljúfum degi í Manchester og eitt af því sem ég hafði ákveðið fyrirfram var að skoða John Rylands-bókasafnið. Það reyndist auðvelt að finna þetta fallega safn, sem er háskólabókasafn undir Manchester-háskóla og staðsett í göngufæri við miðbæinn og t.d. Piccadilly-brautarstöðina. Ekki spillir fyrir að um miðborgina alla ganga ókeypis strætisvagnar sem kallast Metroshuttle og er afskaplega einfalt að nýta sér. Gott framtak í þágu umhverfisins og borgarmenningarinnar.

Byggingin sem hýsir John Rylands-safnið var reist fyrir þarsíðustu aldamót og safnið formlega opnað á nýársdag árið 1900. John þessi Rylands ku hafa verið auðkýfingur úr borginni sem sýslaði með bómull og önnur textílefni, en iðnaðararfleifð Manchester byggist ekki síst á vinnslu og sölu textílefna. Það var ekkja Johns, Enriqueta Rylands, sem stofnaði bókasafnið og styrkti byggingu þess í minningu eiginmannsins sem lést 1888. Ansi veglegur minnisvarði það.

Og hvað er svona skemmtilegt við að skoða John Rylands-bókasafnið?

27. febrúar 2012

Meira bókakaupæði

Mér fannst svo gaman að skoða myndina sem Guðrún Elsa birti af innkaupunum sínum á bókamarkaðnum að ég ákvað að herma eftir henni og blogga aðeins um bókamarkaðsferðina mína í dag. Þótt Guðrún Elsa hafi nefnt færsluna sína "Bókakaupæði" finnst mér hún hafa verið afar hófsöm í innkaupum - en það er kannski bara í samanburði við sjálfa mig.

26. febrúar 2012

Prúðuleikararnir

Í dag fór ég loksins að sjá nýju kvikmyndina um Prúðuleikarana. Ég var búin að hlakka barnslega mikið til, enda nógu gömul til að hafa alist upp við Prúðuleikarana í sjónvarpinu og stundum fengið að fara sérstaklega í heimsókn til vinkonu minnar til að sjá þá í litasjónvarpi því það var svarthvítt sjónvarp heima hjá mér. Enn þann dag í dag léttist brúnin á mér samstundis og ég heyri fyrstu tónana í upphafslaginu, hvað þá ef ég fæ líka að sjá upphafssenuna. Sem betur fer varð ég ekki fyrir vonbrigðum með kvikmyndina. Eiginlega er ég að hugsa um að kenna hamingjukastinu sem ég var í eftir hana um það hvað ég eyddi miklu á bókamarkaðnum þar sem ég kom við á heimleiðinni.

Þegar ég kom heim var ég enn í nostalgíukasti og dró fram bók um Prúðuleikarana sem ég hef átt síðan ég var barn.

25. febrúar 2012

Bókakaupæði

Árlega rennur á mig kaupæði, eins og konum á víst að vera eðlislægt. Þetta æði nær tökum á mér þegar bókamarkaðurinn í Perlunni hefst.
Fengur GE árið 2012.
Og bókamarkaðurinn hófst í gær. Nú vil ég alls ekki hvetja ykkur til að eyða peningum – flest af þessu má fá á bókasöfnum. Ég vil bara benda á að þarna eru ótrúlega margar bækur sem kosta lítið og því er tilvalið að ljúka hluta af afmælis- og jólagjafakaupum þessa árs af núna. Svo má kannski láta það allra mikilvægasta eftir sér líka.

24. febrúar 2012

Af yfirburðum hins góða: Tvær bækur eftir Iris Murdoch

Breski rithöfundurinn og heimspekingurinn Iris Murdoch lifði megnið af 20. öldinni, frá 1919 til '99. Eftir hana liggja fjölmargar bækur, bæði skáldsögur og heimspekirit. Ég las nokkrar af skáldsögunum í menntaskóla og varð hrifin af þeim, þótt ég einhverra hluta vegna bæri mig ekki eftir fleirum af verkum hennar þá. Ég minntist á Murdoch í færslu hér á blogginu fyrir nokkrum vikum þegar ég var nýbyrjuð á heimspekiritgerðasafninu The Sovereignty of Good, sem upphaflega kom út 1970, og hef í millitíðinni lokið við hana auk sjöttu skáldsögu Murdoch, An Unofficial Rose (1962).

The Sovereignty of Good er nett bók, 101 síða í kilju og inniheldur þrjár ritgerðir: „The Idea of Perfection“, „On ‘God’ and ‘Good’“ og „The Sovereignty of Good Over Other Concepts“. Í káputexta er henni lýst sem „one of the very few modern books on philosophy which people outside academic philosophy find really helpful“. Murdoch á það einmitt til að ræða meðvitað um heimspekiiðkun á þá leið að varpar ljósi á hana á ofureinfaldan hátt, án þess þó að einfalda hana um of ‒ samanber t.d. eftirfarandi tilvitnun: „Philosophers merely do explicitly and systematically and often with art what the ordinary person does by instinct.“  (s. 91)

„Afsakið eggjasalatsblettina, en ég er ástfangin“*

Fyrir nokkrum dögum birtust hér hugleiðingar Þorgerðar Sigurðardóttur um rafbókavæðingu. Meðal annars nefndi hún að sumum þætti það löstur á rafbókunum að ekki væri hægt að skrifa athugasemdir á spássíurnar á þeim. Út frá þessu fór ég að hugleiða tvennt: Hvort það væri rétt að ekki væri hægt að krota á spássíur rafbóka og ef svo væri, hvort mér þætti það endilega vera löstur.

Fæst orð hafa minnsta ábyrgð
Áður en ég held áfram finnst mér nauðsynlegt að taka það fram að ég hef (frekar) mikla fordóma út í fólk sem krotar mikið í bækur. Lægstu lífsformin eru auðvitað þeir sem dirfast að krota í bókasafnsbækur. Stundum hef ég fengið lánaðar bækur á söfnum sem hafa reynst ónothæfar vegna þess að einhver bjáninn sem greinilega hefur litið á sig sem snilling hefur fyllt þær af pennaskrifuðum athugasemdum á spássíum og strikað undir heilu efnisgreinarnar með penna. Við slík tækifæri hefur mín sterka andstaða við dauðarefsingar orðið mun veikari. Í það minnsta ætti að setja svona fólk í gapastokk á Austurvelli. Svo veit ég ekki hvort ég fæ það af mér að minnast á þann sið sumra að fylla bækur af rákum eftir alls konar litaða yfirstrikunarpenna. Það er eins og sumir geti ekki lesið eina einustu setningu án þess að lita hana gula, bleika eða fjólubláa. Sé þetta notað til að hjálpa lesblindum að rýna í texta er það auðvitað gott og gilt en ég hef stórar efasemdir um að svona litabókaleikur gagnist öðrum til að öðlast betri skilning á námsefni, eða hvað það nú er.

23. febrúar 2012

Einar Áskell - hið eilífa barn

Mál og menning hefur nýlega látið endurprenta tvær bækur um Einar Áskel eftir Gunillu Bergström, Hvað varð um Einar ærslabelg? og Einar Áskell og Milla. Sú fyrrnefnda kom fyrst út 1982, bæði á sænsku og íslensku, hin kom fyrst út 1985 í Svíþjóð, en í íslenskri þýðingu 1987. Ég efast ekki um að unnendur barnabóka gleðjist yfir því að aðgengi að Einari Áskeli sé viðhaldið, enda ástæða til. Fyrsta bókin um hann kom út á sænsku árið 1972 og á íslensku sást hann fyrst fyrir meira en 30 árum og vinsældir bókanna eru gríðarlegar. Sú nýjasta á íslensku (fyrir utan þessar sem verið var að endurútgefa) heitir Einar Áskell og allsnægtapokinn, hún kom út í haust og Helga Ferdinandsdóttir skrifaði um hana. Þegar sænsk bókasöfn birta árlegar tölur um útlán barnabóka eru bækurnar um Einar Áskel (eða Alfons Åberg eins og hann heitir hjá Svíum) alltaf í efstu sætunum, árið 2005 voru til dæmis 9 Einars Áskels-bækur á listanum yfir 25 vinsælustu barnabækurnar á sænskum bókasöfnum.

22. febrúar 2012

Illir harðstjórar, töfrandi uppreisnarmenn og fallegar hórur sem taka til sinna ráða

Isabel Allende
Ég var mjög lítil þegar ég kolféll fyrir Isabel Allende. Ég reif í mig Hús andanna og Evu Lunu sem ég fann uppí hillu heima og las þær síðan strax aftur. Á þeim tíma var þekking mín á landafræði svo takmörkuð að ég hafði aðeins óljósa hugmynd um að þessar töfrandi og fantasísku bækur með sínum grimmum harðstjórum, hugrökku konum og myndarlegu uppreisnarmönnum gerðust í einhverju landi sem væri í alvörunni til og væru að miklu leyti byggðar á sannsögulegum atburðum. Ég upplifði þær þess vegna sem pjúra fantasíu þegar ég las þær fyrst og gat því notið þeirra alveg upp á nýtt þegar ég var orðin eldri og vissi aðeins meira um Suður-Ameríku og sögu Chile.

Isabel Allende er ástæðan fyrir því að mig langaði til þess að læra spænsku og þegar ég var búin að búa á Spáni og ferðast um latnesku Ameríku þá las ég bækurnar hennar aftur, á spænsku. Mér þykja þær misgóðar, Paula var æði, Dóttir gæfunnar fannst mér ekkert sérstök, barnabækurnar hennar tvær skildu ekki mikið eftir sig og El plan infinito, sem fjallar um seinni manninn hennar (og ég veit ekki hvort hefur verið þýdd á íslensku), fannst mér bara hundleiðinleg.

21. febrúar 2012

Má bjóða þér að blaða aðeins í kyndlinum mínum?

Íslenskir bókaútgefendur, rithöfundar, bóksalar og lesendur fikra sig nú áfram á rafbókamarkaði og lesendur virðast, margir hverjir að minnsta kosti, taka rafbókavæðingunni fagnandi. Rafbókina má kaupa strax, hvar sem maður er staddur í veröldinni og hún ferðast auðveldlega milli landa í víðum skilningi. Væntanlega þarf ekki að bíða endalaust eftir endurprentunum og svo eru rafbækur nokkuð ódýrari en hinar prentuðu. Við þurfum ekki að burðast með þungan pappír á milli staða og rafbækur taka ekkert sýnilegt pláss og það má stilla lesvélar eftir þörfum hvers lesanda. Einnig væri hægt að benda á umhverfissjónarmið í þessu sambandi þó að margir hafi vissulega bent á að gamlar lesvélar muni væntanlega hlaðast upp þegar frá líða stundir og því séu þau ekki endilega ægilega umhverfisvæn en það er önnur saga.

19. febrúar 2012

Downton Abbey og Life below stairs

Jafn klisjukennt og það nú hljómar þá er ég einlægur aðdáandi sjónvarpsþáttanna um fólkið í Downton Abbey. Því miður þá náði ég ekki að fylgjast með þáttunum alveg frá byrjun og hef því fengið söguna í aðeins bútasaumskenndu formi, en það sakar svosem ekki. Nú bíð ég auðvitað spennt eftir framhaldinu, það hýtur bara að vera að það verði framleiddir þætti alveg þangað til ættin verður komin á vonarvöl og afkomendurnir farnir að ganga í hippalegum klæðum og taka þátt í Aldermaston marches. Ég er alveg viss um að í næstu þáttaröð þá fer allt í rugl og enginn nema pólitíski bílstjórinn sem lady Sybil giftist getur bjargað familíunni.

18. febrúar 2012

Bokasofn eru vinir minir, meira ad segja i Bretlandi

Eg verd ad bidja lesendur ad umbera skort a islenskum stofum i thessari faerslu - eg er stodd i Edinborg og ekki med eigin tolvu, og er sannarlega ekki nogu taeknilega klar til ad finna islenska stafi, ef thad er yfirhofud haegt ...

Mitchell-bokasafnid er med fallegustu byggingum i Glasgow
Af thvi ad eg er i Skotlandi, thar sem eg bjo um tima, vard mer hugsad til horfinna tima og tha medal annars thess thegar eg var ad skrifa mastersverkefnid mitt. Thad sumar var eg mikid a Mitchell-bokasafninu i Glasgow, en vid vinkona min og skolasystir hittumst gjarnan i otrulega tacky lestrarsal sem leit ut eins og eitthvad slys fra upphafi 8. aratugarins. Thar unnum vid i einhverja klukkutima og drukkum svo kaffi saman nidri i kaffiteriunni. Mitchell Library er einn af theim stodum i Glasgow sem mer er serstaklega hlytt til. Gloggir sjonvarpsahorfendur kannast ef til vill vid bygginguna ur upphafsstefi Taggart-thattanna vinsaelu, thar sem ymsum fraegum stodum fra borginni bregdur fyrir. Thar spiludu Belle & Sebastian lika sina fyrstu tonleika fyrir ansi morgum arum, en yfir byggingunni er mikill sjarmi.

Hins vegar er bokasafnamenningin i Bretlandi alls ekki su sama og eg atti ad venjast heima a Islandi. Almenningsbokasofn eru morg hver mjog ospennandi - ef bokasafn getur einhvern tima verid ospennandi - og virdist ekki serlega vel hugsad um thau. Mer skilst ad sofnin seu mun minna notud. Mitchell Library er staersta bokasafnid i Glasgow og vel buid fraedibokum, thott katalogurinn se ad hluta til enn i spjaldskra (sem er reyndar sjarmerandi ef madur er svona retro-typa eins og eg); af skaldsogum og almennu efni er hins vegar fremur fataeklegt urval og thad var ekki mikid glaesilegra i Hillhead-bokasafninu i hverfinu minu.

17. febrúar 2012

Allt um Fry

Eftir góða rispu af reyfurum er ég núna á kafi í ævi Stephens Fry og það er ekki leiðinlegt. Fyrsta bindið af sjálfsævisögu hans ber það þjála og eftirminnilega nafn Moab is My Washpot (þótt ég hafi heyrt nafnið og lesið ótal sinnum þurfti ég að fletta því upp eina ferðina enn fyrir þessa færslu) og þar fjallar hann um æsku sína. Í næsta bindi – sem ég hef verið að lesa – skrifar hann m.a. um háskólaárin í Cambridge og fyrstu skrefin í leikhúsheiminum. Nafn þessa bindis er jafn einfalt og hitt er flókið (það er raunar svo frábrugðið því fyrra að maður veltir því fyrir sér hvort útgefandinn hafi grátbeðið um þægilegra nafn) - nýja bókin heitir The Fry Chronicles.


16. febrúar 2012

Nítjánda fegursta bókabúð heims og skáldið sem orti um lykil að hurð, en hurðin var hvergi

Fyrir skömmu tengdum við druslubókadömur af Facebooksíðu okkar á lista sem Flavorwire gerði yfir tuttugu fegurstu bókabúðir heims. Á honum uppgötvaði ég mér til mikillar gleði bókabúð hér í Lissabon sem ég hafði ekki komið í. Hún ber það sérstæða nafn Ler Devagar – Lesa hægt – og er önnur af tveimur portúgölskum bókabúðum á lista Flavorwire, en Þórdís hefur bloggað um hina, Livraria Lello í Porto. Það var ekki furða að ég hefði ekki rambað á Ler Devagar á gönguferðum mínum, enda er hún ekki staðsett í miðbænum heldur í gömlum verksmiðjukomplex í Alcântara-hverfinu vestur af miðborginni, svo að segja beint undir hinni risavöxnu 25. apríl-brú. Verksmiðjan, sem var byggð árið 1846 og framleiddi vefnaðarvöru, kallast í dag LX Factory og er dæmigerð uppgerð verksmiðja eins og maður finnur gjarnan erlendis með hipsteralegum fyrirtækjum, lífrænum kaffihúsum og hörfatabúðum. (Það var líka skemmtileg alþjóðleg blaðasala í gámi.)

15. febrúar 2012

Mein Kampf 2012

Ættum við að endurútgefa gamlar bækur sem innihalda hatursáróður í garð einstakra þjóða eða þjóðfélagshópa? Er vel til fundið að gefa þær út sem heimildir og einhvernskonar minnisvarða um liðna tíð sem vonandi gengur ekki aftur? Eða gætu þær mögulega orðið innblástur fyrir frekari hatur og illvirki og ættum við þess vegna að banna þær með lögum? Ættum við að hlífa fórnarlömbum ofsóknanna við minningunum?

Þetta eru allt góðar og gildar spurningar og eins og Kristín Svava bendir á í nýrri færslu þá stóðu Íslendingar frammi fyrir þeim þegar stóð til að endurútgefa þýðingu á Tíu litlum negrastrákum með myndskreytingum eftir Mugg. Ég var sjálf þeirrar skoðunar að bókin ætti ekkert erindi. Mér fannst hún meiðandi og vísurnar óhugnarlegar og ég er enn þeirrar skoðunar. Við það vil ég bæta að mér finnst vægast sagt undarlegt að a.m.k. tveir (1, 2) íslenskir leikskólar hafi þessar vísur í sínum söngbókum. Það er í svo hróplegu ósamræmi við allt sem leikskólar eiga að standa fyrir og kenna börnunum okkar - að bera virðingu fyrir öðrum, rækta ástina og friðinn svo ég taki nú bara handahófskennd dæmi. Ég verð stundum þreytt á ákveðnum öfgum í því sem kallast "pólitískt rétthugsun" hér í Bandaríkjunum en það veit Guð að ef 2 ára syni mínum væri kennt að syngja þessar vísur á leikskólanum sínum hvar svo sem í heiminum hann væri staðsettur, þá myndi fjúka verulega í mig og ég myndi grípa til aðgerða. En að öðru skyldu máli.

Nú nýlega bárust fréttir af því í fjölmiðlum að til stæði að endurútgefa Mein Kampf - einskonar manifesto Hitlers með sjálfsævisögulegu ívafi sem hann skrifaði meðan hann sat í fangelsi fyrir aðild að misheppnaðri valdaránstilraun árið 1923. Bókin er ekki bönnuð Í Þýskalandi en hefur verið ófáanleg síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk. Auðvelt hefur þó verið að nálgast hana á þýsku á bókasöfnum, kaupa hana á öðrum tungumálum eða hlaða textanum niður af internetinu.

Útgefandi tímaritsins Zeitungszeugen tilkynnti í byrjun janúar að hann hyggðist birta valda kafla úr Mein Kampf í fylgiriti með tímaritinu ásamt skýringum. Útgefandinn vildi með þessu varpa ljósi á hugmyndir Hitlers og hvetja almenning til þess að kynna sér þær betur og skilja þannig betur hvernig Þjóðverjar leiddust út í hörmungar síðari heimsstyrjaldar. Þessar fyrirætlarnir vöktu hörð viðbrögð í Þýskalandi. Margir sögðu að þeir sem lifðu helförina af ættu að geta farið um almannarými - drukkið kaffi í bókaverslunum og farið á markaðinn án þess að þurfa að óttast að rekast á Hitler. Aðir óttuðust að útgáfan gæti orðið frekara vatn á myllu nýnasistahreyfinga og mörgum var tíðrætt um hversu ósmekklegt það væri að selja tímarit og græða á minningunni um helförina. En það voru ekki allir Þjóðverjar andsnúnir útgáfunni og einhverjum fannst tími til kominn að þjóðin horfðist með þessum hætti í augu við sögu sína og útgáfa að bókinni ætti að vera til á þýsku eins og öðrum tungumálum. Hún hefði jafnvel verið gefin út á hebresku í Ísrael og hversvegna ekki í Þýskalandi?

Bæjaraland á útgáfuréttinn að Mein Kamp og öðrum nasískum literature þar til árið 2015 er liðið, en þá eru 70 ár frá dauða Hitlers. Þessi sami útgefandi Zeitungszeugen, Peter McGee, birti fyrir nokkrum árum brot úr dagblöðum nasista í tímaritinu og var fyrir það stefnt af ríkisstjórninni í Bæjaralandi. Dómstóll í München komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að enginn vafi léki á því að útgáfa nasísks áróðurs bryti í bága við lög þá væri McGee ekki sekur því tilgangur hans hefði ekki verið sá að dreifa hatri heldur hefði hann einungis ætlað sér að uppfræða almenning. Í ljósi þessa er ólíklegt að hægt verði að sækja hann til saka fyrir að birta valda kafla úr Mein Kampf en engu að síður hefur fyrirætlununum verið frestað vegna hótana um frekari málsóknir. Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldi þessa máls og ekki síður hvað úr verður þegar rétturinn að bókinni rennur út árið 2015. Þær raddir hafa heyrst frá sagnfræðingum að hefjast ætti strax handa við vandaða og gagnrýna útgáfu verksins sem geti komið út fljótlega og áður en nýnasistar ná að koma höndum yfir það og gefa út sína útgáfu.

Bækur sem eru börn síns (rasíska) tíma

Belgískur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu fyrir helgi að bókin Tinni í Kongó brjóti ekki gegn belgískum lögum gegn kynþáttahatri, en til þess hefði þurft að sýna fram á að bókinni hefði verið ætlað að hvetja til rasisma. Kongómaðurinn Bienvenu Mbutu Mondondo hefur staðið í lagaferlum gegn bókinni í nokkur ár, í Belgíu og í Frakklandi.

Tinni í Kongó var önnur Tinnabók höfundarins Hergé. Sagan kom fyrst út á bók árið 1931 og aftur í endurbættri útgáfu árið 1946. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar hún um ævintýri aðalsöguhetjunnar Tinna í Afríkulandinu Kongó. Tinni í Kongó hefur löngum verið umdeild, og gagnrýnd fyrir að draga upp neikvæða og rasíska mynd af Kongóbúum sem lötum einfeldningum. Sums staðar í Bretlandi er hún flokkuð með bókum fyrir fullorðna af þessum sökum. Hergé var víst sjálfur síðar á ferli sínum ekki alls kostar ánægður með bókina.

Þetta minnir á deilurnar sem komu upp á Íslandi fyrir nokkrum árum kringum endurútgáfuna á Tíu litlum negrastrákum. Ég held að fæstir hafi viljað banna útgáfuna, en það komu upp svipaðar hugmyndir um að gefa hana út með sögulegum skýringum eða færa hana úr barnabókahillunum í fullorðinsdeildina, að gera einhvers konar „ábyrgðarfulla útgáfu“ af bókinni, sem væri þá alltént ekki varpað formálalaust í hendurnar á börnum.

14. febrúar 2012

„Kynmögnuð kona sem ann manni sínum fróar honum af kostgæfni“

Einhvern tímann á síðasta ári áskotnaðist mér bókin Sjafnaryndi: Unaður ástalífsins skýrður í máli og myndum. Bók þessi kom út á Íslandi 1978 og er þýðing á The Joy of Sex sem kom út í Bretlandi 1972 og var ritstýrt af doktor Alex Comfort. Ég hafði lítið skoðað þessa bók, rétt svo gripið niður hér og þar og flissað yfir myndunum og undarlegri málnotkun, en fór að skoða hana betur í gærkvöldi. Í tilefni af degi elskenda hlýtur að vera við hæfi að birta umfjöllun um hana.

Sæborgarblogg

Teikningin á kápunni er eftir Ingu
Maríu Brynjarsdóttur.
Síðasta haust kom fræðibók Úlfhildar Dagsdóttur, Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika, út hjá Háskólaútgáfunni. Ég hef legið í henni undanfarna daga og er haldin gríðarlegri þörf fyrir að tjá mig í löngu máli um þetta allt saman. Ég skal þó reyna að hemja mig, það er hreinlega ekki hægt að segja frá öllu vegna þess að það er farið svo víða í þessari bók. Ástæða þess er ekki síst sú að Úlfhildur gengur út frá mjög víðri skilgreiningu Donnu Haraway á sæborginni; að sæborgin geti „verið hverskyns gervivera, vélmenni, gervilíf eða jafnvel bara gervigreind, hvort sem um er að ræða samruna manneskju og vélar á beinan eða óbeinan hátt eða hreinan gerviskapnað“ (Sæborgin, bls. 29). Þannig verða ólíkustu fyrirbæri að viðfangsefni hennar: Gereyðandinn, fegrunaraðgerðir, stjórnun og eftirlit, sæberpönk, krufningar, gen, siðfræði, sjálfsveran, brjálaði vísindamaðurinn Frankenstein og Björk – í raun allt sem tengist líkamanum sem átt er við. Þegar kemur að sæborginni hætta tækni og mennska, karlkyn og kvenkyn að vera andstæður og mörkin verða óljós, athygli manns er dregin að því að líkaminn ferli fremur en fasti.

13. febrúar 2012

Fjöruverðlaunin afhent í sjötta sinn

Sunnudaginn 19. febrúar verða Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, afhent í sjötta sinn. Hátíðin fer fram í Iðnó og hefst dagskráin klukkan 11.00.

Sandi Toksvig
Dagskráin hefst á því að Ljótikór syngur nokkur lög og að því loknu flytur sérstakur gestur hátíðarinnar, Sandi Toksvig, ræðu og svarar spurningum úr sal. Toksvig er vel þekktur rithöfundur, grínisti og dagskrárgerðarmaður. Hún hefur einnig verið formaður dómnefndar Orange bókmenntaverðlaunanna í Bretlandi, en stofnandi þeirra, Kate Mosse, kom hingað til lands árið 2010 til að afhenda Fjöruverðlaunin. Að ræðu Toksvig lokinni verða verðlaunin afhent en samtals níu bækur eru tilnefndar í ár:

Fagurbókmenntir
Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur
Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf eftir Sigríði Jónsdóttur
Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur

Fræðibækur
Mannvist. Sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur
Nútímans konur: Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur
Ríkisfang ekkert: flóttinn frá Írak á Akranes eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur

Barna- og unglingabækur
Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur
Gegnum glervegginn eftir Ragnheiði Gestsdóttur
Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur

Aðgangseyrir er 1500 krónur og innifalið í því verði er samloka, kaffi og gos. Gestir eru vinsamlegast beðnir um að mæta tímanlega en dagskráin er í Iðnó og hefst stundvíslega klukkan 11.00 og stendur til 13.00. Allt áhugafólk um bókmenntir er velkomið á meðan húsrúm leyfir.

Af austenskum tilfinningaþunga

Eina teikningin sem til er af Jane Austen
Ég er svo heppin að vera að vinna í Jane Austen-tengdu verkefni þessa dagana og hef þar af leiðandi pottþétta afsökun fyrir að lesa og horfa á ofboðslega mikið sem hefur með hana að gera. Ekki sem verst! Ég hef lesið mér mikið til um hana og til dæmis fannst mér þessi bók mjög fín, Jane Austen: The World of her Novels eftir Deirdre Le Faye. Hún setur Austen í sögulegt samhengi og fjallar um þjóðfélagsskipan, tískustrauma og lifnaðarhætti þessa tíma; fer yfir breytingarnar sem urðu á ensku samfélagi á þeim fjórum áratugum sem Austen lifði og tekur hverja skáldsögu sérstaklega fyrir. Þetta er engin analýsa og afskaplega óróttæk sem fræðibók, en segir manni afskaplega mikið um heim sagnanna og er heilmikið myndskreytt, sem gerir bókina þeim mun eigulegri. Einnig er fjallað um ævi Jane Austen og hennar persónulega saga fléttuð saman við fróðleik um England frá miðri 18. öld og fram á þá 19., en Austen lést árið 1817.Ég hef auðvitað líka verið að lesa bækurnar hennar, bæði lesa aftur þær sem ég þekkti fyrir og svo að kynna mér þær sem ég hafði aldrei lesið. Í vikunni sem leið las ég þá síðustu sem ég átti eftir af fullkláruðu skáldsögunum, Persuasion, sem var einmitt síðasta bókin sem Austen lauk við og kom út skömmu eftir dauða hennar. Það er allt öðruvísi stemning í Persuasion en í hinum bókunum - reyndar er miklu meiri munur á bókunum hennar almennt en maður myndi halda af umfjöllun og skírskotunum í Austen. Persuasion var skrifuð á eftir Emmu, sem er af allt öðrum toga - löng og flókin, uppfull af glettni og háði (ekki síst á kostnað aðalpersónunnar), og þótt í henni séu mjög dramatískir straumar er samt aldrei eins og ástamál Emmu og hinna persónanna séu spurning um líf eða dauða. Emma býr vissulega við þrúgandi nærveru einstaklega heilsukvíðins föður (sem nú til dags yrði sendur beint í hugræna atferlismeðferð sem var því miður ekki til á tímum hýpókondríaksins herra Woodhouse), en með þeim er afskaplega kært, hún á vini og ástríka fjölskyldu og lífið blasir við henni. Í Persuasion fylgjumst við hins vegar með eftirleik ástarsambands sem endaði illa og aðalpersónan, Anne Elliot, er stödd í algjöru öngstræti.

11. febrúar 2012

„Did you ever stop to think, and forget to start again?“

Sögur A.A. Milne um Winnie-the-Pooh eða Bangsímon komu út á tveimur bókum á þriðja áratug 20. aldar. Bangsímon er með krúttlegri böngsum bókmenntasögunnar og örugglega sá frægasti ‒ líklega væri samkeppnin helst við samlanda hans Paddington (sem reyndar var perúskur innflytjandi í London), en þar sem sá hefur ekki orðið Disneyfígúra á hvíta tjaldinu hefur Bangsímon klárlega vinninginn.

Bangsímon er uppáhaldsleikfang drengs að nafni Jakob Kristófer, eða Christopher Robin á frummálinu. Engum sögum fer af tilveru Jakobs utan heimilis eða í félagsskap annars mannfólks og ekki er hann alltaf beinn þátttakandi í atburðum bókanna, en þó ávallt til staðar ‒ ef ekki uppi í tré eða heima í húsi, þá í meðvitund aðalpersónanna, tuskudýranna sinna. Með Bangsímon fremstan í flokki lenda þau í ýmsum svaðilförum sem yfirleitt vara í svosem eitt eftirmiðdegi, og hafi Jakob Kristófer verið fjarri góðu gamni fær hann að heyra allt af létta í endursögn Bangsímons.

9. febrúar 2012

Afmælisbarn ársins

Um þessar mundir fagnar tvöhundruð ára afmæli sínu einn af þessum rithöfundum sem allir þekkja, jafnvel þótt þeir hafi ekki lesið neitt eftir hann; Charles Dickens, en hann fæddist þann 7. febrúar 1812. Af því tilefni fagnar heimsbyggðin, en þó einkum Bretar, með margvíslegum hátíðahöldum. Svona afmælisár eru auðvitað kapítuli út af fyrir sig og ég vona að Dickens greyið hljóti ekki þau örlög sem sumar aðrar þjóðhetjur og stórafmælisbörn hafa hlotið, það er að segja að ákafi og metnaður stjórnvalda geri það að verkum að eftir afmælið séu allir búnir að fá ógeð á afmælisbarninu og alltumlykjandi nærveru þess.

Ákafinn og metnaðurinn eru allavega til staðar, eins og sjá má af afmælisheimasíðu Dickens. Þar er hægt að fræðast um höfundinn, verk hans, myndefni sem gert hefur verið eftir verkum hans, söfn, sýningar og atburði afmælisársins (hvern langar ekki að taka þátt í Dickens-hálfmaraþoninu?). Auk þess birtast tilvitnanir í Dickens ótt og títt og hann virðist nú bara oft hafa hitt naglann á höfuðið, kallinn.

Atburðirnir sem hér eru auglýstir eiga sér flestir stað í Bretlandi, einkum London, en hátíðahöldin teygja sig víðar. Hér í Portúgal standa yfir bókasýningar og bíósýningar Dickens til heiðurs og Reykvíkingar fá líka eitthvað fyrir sinn snúð. Samkvæmt vef Bókmenntaborgarinnar verður sérstök málstofa um Dickens á hugvísindaþingi Háskóla Íslands 9.-10. mars en einnig hefur Dickens verið minnst í Ríkisútvarpinu og í Kiljunni.

8. febrúar 2012

Eins konar X-Men

Sjáiði, hún svífur!
Miss Peregrine´s Home for Peculiar Children er unglingabók eftir Bandaríkjamanninn Ransom Riggs (já, ég held hann heiti það í alvörunni).

Hún fjallar um unglinginn Jacob sem á ríka foreldra sem virðast hvorki hafa tíma fyrir hann né mikinn áhuga á honum. En hann og afi hans, pólskur gyðingur sem missti alla fjölskyldu sína í útrýmingarbúðum í seinni heimsstyrjöldinni, eru afar nánir. Afi hans segir honum ótrúlegar sögur af því þegar hann barðist í stríðinu, hvernig hann lærði á byssur, hvernig hann lærði að komast af í óbyggðum og síðast en ekki síst sögur af börnunum sem hann ólst upp með á munaðarleysingahæli á velskri eyju, undir dyggri stjórn Miss Peregrine.

Þar voru engin venjuleg börn, sagði hann, heldur gátu sum flogið, önnur voru ósýnileg og önnur með andlit aftan á hausnum o.s.frv. Hann á meira að segja myndir af þeim öllum sem hann sýnir Jacob. Hann varar hann líka við skelfilegum skrímslum sem hafa elt hann á röndum alla ævina og lýsir þeim niður í smæstu smáatriði.

7. febrúar 2012

Raunhæft ástalíf

Ansi falleg bók, sjálft bandið er rautt.
Árið 1945 kom út á íslensku bók með titilinn Raunhæft ástalíf: Handbók með 11 innsigluðum litmyndum. Þýðandinn var Ásbjörn Stefánsson, sem var læknir í Reykjavík á sinni tíð (f. 1902), en útgefandi var Fræðsluhringurinn, sem ég finn hvergi að hafi gefið út fleiri bækur svo ég giska á að þýðandi hafi sjálfur gefið út. Höfundur bókarinnar er Anthony Havil.

Þessi bók, sem ég eignaðist í gær, var í íslenskri blaðaauglýsingu árið 1945 sögð fyrsta nútíma handbókin um samlíf karls og konu sem kemur út á íslensku og útgáfan hefur þótt svo umdeilanleg að skýringamyndirnar voru innsiglaðar aftast og tekið var fram í auglýsingum að bókin yrði aðeins seld fullorðnum. Ég hafði aldrei heyrt um þessa bók fyrr en ég fékk hana í hendur og hafði því auðvitað ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast. Vissulega var ég með ákveðna fordóma, kynlífshandbækur eru nú oft ansi kjánalegar, ekki síst ef þær eru komnar vel til ára sinna. En þegar ég fór að lesa kom þessi bók mér skemmtilega á óvart, hún er alveg ágæt að flestu leyti og greinilega skrifuð af höfundi sem vissi sínu viti.

5. febrúar 2012

Hann er bara ósköp venjulegt ungabarn: Doris Lessing og þriðja barnið

Oft finnst mér einsog það sé eiginlega sama hvað rætt er um, eða þessvegna hugsað, ég geti svotil alltaf fundið stað í skrifum Dorisar Lessing sem henti tilefninu. Hún hefur auðvitað skrifað alveg hreint ótrúlega mikið af allskyns texta, en það er samt ekki bara það, heldur kannski frekar að það sem hún skrifar um og virðist hafa upplifað og hugsað spannar alveg ótrúlega vítt svið og getur endalaust komið manni á óvart.


Ég hef fengið mjög mikið útúr því að lesa æfisögurnar hennar, og þær bækur sem hún hefur skrifað sem eru “hálf æfisögulegar” eða fjalla á einhvern hátt um líf hennar og pælingar. Ég ætla svosem ekkert að fara djúpt ofaní þau mál í þetta sinn, en fann allt í einu hjá mér þörf til að minnat aðeins á atvik sem hún lýsir undir lok fyrra bindis sjálfsæfisögu sinnar “Under My Skin: Volume One of My Autobiography. To 1949” Einsog margir eflaust vita giftist Lessing ung manni að nafni Frank Wisdom og átti með honum tvö börn, þau John og Jean. Hún fór frá Frank eftir nokkrra ára hjónaband og skildi börnin eftir í hans umsjá. Eitthvað sem vissulega þótti afar einkennilegt á þeim tíma og hún var dæmd fyrir. Þessi “einkennilega” hegðun var útskýrð með því að hún væri í slæmum félagsskap “kommúnista” og útlendinga sem hefðu einkennilegar hugmyndir og stæðu í allskyns undirróðursstarfsemi.

Eftir skilnaðinn frá Frank Wisdom hellti Lessing sér útí starf róttæks hóps í Salisbury sem í raun varð hennar andlega og veraldlega fjölskylda. Þar kynntist hún manni að nafni Gottfried Lessing, en hann var flóttamaður frá Þýskalandi Hitlers, intellektúal af gyðingaættum sem endað hafði í Suður Rhodesíu. Lessing lýsir því á sinn jarðbundna hátt að þau hafi í raun aldrei átt neitt sameiginlegt þannig séð, annað en það að vera kommúnistar - af ástæðum sem höfðu allt með aðstæður og tíðaradann að gera. Þau áttu engan vegin saman sem hjón og voru á allan hátt svo ólík að undrum sætir.

4. febrúar 2012

Bókabúðir í Singapúr: Kinokuniya og Books Actually

Myndin tengist efni pistilsins alls ekki beint.
Á nýliðnu ferðalagi um Víetnam var ég að vanda tíður gestur í ýmsum bókabúðum, jafnvel þótt þar hafi sjaldnast verið seldar margar bækur sem ég gat lesið. Það er bara svo notalegt að hanga í bókabúðum, hvort sem bækurnar eru á tungumáli sem maður skilur eða ekki. Ég get svo sannarlega gert orð sem Guðrún Elsa lét falla í gamalli og góðri færslu að mínum: "bókabúðir gera mig hamingjusama".

Í agalega stóru ljósmyndasafni sem bíður flokkunar og úrvinnslu er að finna ófáar myndir úr bókabúðum sem ég kannaði á ferðalaginu. En áður en ég leggst undir feld til að ákveða hvort betra sé að reyna á þolinmæði lesenda með maraþonbloggfærslu um víetnamskar bókabúðir eða beinlínis með greinaflokki verður hér fjallað um tvær bókabúðir í Singapúr þar sem ég kom við á leiðinni.

3. febrúar 2012

Um „andstuttan“ krimma

Aftan á danska krimmanum Líf og limir eftir Elsebeth Egholm er vitnað í glimmrandi dóm úr Jydske Vestkysten og staðhæft að hér sé um að ræða „úthugsað og vel spunnið glæpamál í andstuttri frásögn...“ Ég á nú erfitt með að skrifa undir það – bæði var bókin nú ekki svo spennandi að maður héldi niðri í sér andanum og svo finnst mér hálf undarlegt að tala um að frásögn sé andstutt (það gengur kannski í dönsku og ensku (breathless) en hæpið í íslensku...En þar með hefur Molaskrifari lokið sér af og ég get farið að mæra bókina sem var bara nokkuð góð!

Bókin sem breytti útgáfuheiminum

Rafbókavæðingin og það hvað hún getur þýtt fyrir bókaútgáfu hefur mikið verið rædd undanfarið. Sitt sýnist auðvitað hverjum, sumir fagna rafbókinni á meðan aðrir bölsótast og eru vissir um að hún muni ganga af forlögunum dauðum, Amazon muni erfa heiminn og allt fari til andskotans.

Amanda Hocking er nafn sem hefur verið áberandi í þessari umræðu, því hún hefur orðið einskonar tákn fyrir rafbókavæðinguna og öðruvísi útgáfulandslag.

Amanda Hocking
Amanda Hocking er tuttugu og sjö ára bandarískur rithöfundur sem skrifar yfirnáttúrulega rómansa (eða paranormal romance eins og það heitir upp á ensku). Hún hefur alltaf haft áhuga á bókmenntum og hún byrjaði mjög ung að skrifa. Hún fór fljótlega að leita sér að útgefanda en fékk neitun á neitun ofan. Þegar hún var komin með heilu skúffustæðurnar fullar af bókum og bókaflokkum og var orðin úrkula vonar um að fá útgáfusamning ákvað hún að taka málin í sínar hendur. Hún gaf bækurnar sjálf út á Amazon og verðlagði þær afar ódýrt. Ég held að fyrsta bók í seríu hafi kostað 99 sent og sú næsta 2.99 dollara. Þær seldust ekkert sérstaklega hratt í fyrstu, en Hocking dældi þeim á netið og forvitnir lesendur tóku við sér. Sex mánuðum síðar voru bækurnar hennar orðnar heitasta heitt á Amazon, hún var búin að græða sex þúsund dollara og gat hætt í vinnunni og einbeitt sér að ritstörfum. Og nú skilst mér að hún hafi selt 1,5 milljón bækur og grætt 2,5 milljónir dollara á þeim.

Forleggjarar, sem höfðu ekki sýnt henni áhuga áður, fóru að hafa samband við hana og hún þáði að lokum 2,1 milljóna dollara samning við St. Martins Press. Margir urðu hissa á að hún hefði gengið til liðs við forlag eftir að hafa gengið svona vel sjálfri, en hún sagðist vera orðin dauðþreytt á því að þurfa að gera allt sjálf. Hún kvartaði yfir því að hún ætti erfitt með að finna nógu gott frílansfólk, því bækurnar hennar voru oft morandi í villum, þrátt fyrir að hún hefði borgað fólki fyrir ritstjórn og prófarkalestur. Það fannst henni leiðinlegt, því lesendur ættu betra skilið. Hana langaði líka að bækurnar hennar væru til í bókabúðum og aðgengilegar fólki sem ætti ekki rafbókalesara.

Ég ákvað að tjékka á því hvort eitthvað væri í hana spunnið og keypti mér bókina Switched, fyrstu bókina í Trylle-trílógíunni (á kyndilinn, en ekki hvað), sem nú kostar reyndar 9 dollara en ekki lengur 99 sent, útgefin og yfirfarin af nýja forlaginu hennar og ódýra, upphaflega útgáfan löngu horfin af netinu.

2. febrúar 2012

Stofnunin og mæðraveldið

Undanfarið hef ég verið að lesa á kyndlinum tvær skáldsögur sem hafa verið lengi á leslistanum og eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar af þeirri tegund sem lendir gjarnan á listum yfir hundrað bestu bækur 20. aldarinnar, þær eru báðar frá 1962, þær fjalla báðar um samskipti einstaklingsins við yfirvaldið og það hafa verið gerðar frægar kvikmyndir eftir þeim báðum; A Clockwork Orange eftir Anthony Burgess og One Flew Over the Cuckoo´s Nest eftir Ken Kesey (myndarlega manninn með pípuna hér til vinstri).

Ég hafði gaman af A Clockwork Orange, sérstaklega rússneskuskotna nadsat-slangrinu sem talað er í þessari dystópísku veröld og setur mark sitt á frásögnina, en plottið greip mig ekki sem slíkt og mér fannst endirinn ósannfærandi (rétt eins og bandarísku útgefendum Burgess, sem og Stanley Kubrick, sem slepptu síðasta kaflanum). Ég man reyndar ekki eftir neinni bók þar sem mér hefur þótt uppljómun syndara í blálokin sannfærandi, sem er það sem á sér stað í A Clockwork Orange. (Eitthvað svipað gerist í Les Liasions Dangereuses, sem Guðrún Elsa skrifaði um fyrr í vikunni, og af líkum ástæðum fór endirinn á Glæp og refsingu rosalega í taugarnar á mér á sínum tíma.) Gaukshreiðrið er hins vegar mun dramatískari bók og olli mér á endanum mun meiri óþægindum en ofbeldið og djöfulgangurinn í Burgess.

Söguþráðurinn hljómar sennilega kunnuglega fyrir marga. Gaukshreiðrið gerist á deild á geðsjúkrahúsi þar sem valdasjúka hjúkrunarkonan Ratched ræður ríkjum. Hún stjórnar mönnunum á deildinni með járnhendi í flauelshanska, etur þeim saman, niðurlægir þá og og kúgar með útsmognum sálfræðihernaði. Sögumaðurinn er Chief Bromden, hálfur indíáni og tröll að vexti, sem þykist vera mállaus og heyrnarlaus en fylgist náið með því sem á sér stað. Einn daginn kemur nýr vistmaður á deildina, hinn rauðhærði og tattúveraði McMurphy, sem hefur tekist að svindla sér út úr fangelsi þar sem hann sat inni fyrir kynferðisglæp og inn á geðsjúkrahús í staðinn. McMurphy er hress, blátt áfram og blygðunarlaus töffari, semsagt allt sem hinir vistmennirnir eru ekki. Koma hans hleypir lífinu á deildinni í uppnám og endar á að frelsa mennina undan yfirráðum Ratched hjúkrunarkonu og eigin veikleikum.

Wisława Szymborska látin

Köttur í tómri íbúð

Deyja — það er ekki hægt að gera ketti.
Eða hvað ætti köttur að gera
í tómri íbúðinni.
Klifra upp veggina?
Nudda sér upp að húsgögnunum?
Ekkert virðist breytt
en ekkert er þó eins og það var.
Ekkert hefur hreyfst úr stað
en samt er meira pláss.
Og á kvöldin er ekki kveikt á neinum lampa.

Það heyrist fótatak í stiganum,
en ekki það rétta.
Höndin sem leggur fisk í skálina
er líka önnur.

Eitthvað byrjar ekki
á venjulegum tíma.
Eitthvað gerist ekki
eins og það ætti.
Einhver var alltaf, alltaf hérna
síðan skyndilega horfinn
og þrjóskast við að vera horfinn.

Hver skápur hefur verið rannsakaður.
Hver einasta hilla könnuð.
Til einskis að grafa sig undir teppið.
Búið að gera það sem er bannað,
pappírum rótað út um allt.
Hvað er hægt að gera fleira?
Sofa og bíða.

Bíða bara uns hann kemur
bara láta hann sýna sig.
Þá skal hann vita að svona
kemur maður ekki fram við kött.
Mjakast í áttina til hans
með sýnilegum óvilja
og ákaflega hægt
á móðguðum loppum
og ekki stökkva eða væla til að byrja með.

Faðir og dóttir

Richard og Ianthe Brautigan
Ég les stundum minningargreinarnar í Morgunblaðinu, líka þó ég viti engin deili á því fólki sem um ræðir. Mér finnst áhugavert að sjá hvernig fólk tjáir sorgina og endurskapar samband sitt við hinn látna - innsiglar það á prenti. Textinn fjallar jú fyrst og fremst um þann sem skrifar, ekki þann sem dó.

Á dögunum las ég bók sem í einhverjum skilningi er löng minningagrein. Það er dóttir sem minnist föður síns sem stytti sér aldur árið 1984 en hann var einn fremsti rithöfundur Bandaríkjanna á tuttugustu öld, Richard Brautigan. Ég hef sjálf haldið upp á hann síðan ég keypti fyrir löngu Vatnsmelónusykur í þýðingu Gyrðis Elíassonar á bókamarkaði í Perlunni. Þetta var einhverntíma um miðbik Clinton tímans og ég man að bókin kostaði heilar 480 krónur. Mögulega eru þetta bestu kaup sem ég hef gert á ævinni. Eintakið fylgdi mér árum saman - ég flatmagaði með það á strönd við Adríahafið og í íslenskum fjallakofa. Ég veit reyndar ekkert hvar það er í dag, líklega í góðri geymslu.

Ianthe Brautigan var 24 ára gömul þegar faðir hennar skaut sig í höfuðið á heimili sínu í hippabænum Bolinas í Kaliforníu. Það liðu nokkrar vikur áður en líkið uppgötvaðist og sagan segir að hann hafi skilið eftir miða sem á stóð "Messy, isn't it?" Eðlilega hafði dauði Brautigans mikil áhrif á dóttur hans og hún upplifði mikla sjálfsásökun og höfnun. Það var líka sársaukafullt fyrir hana að fylgjast með því hvernig blaðamenn túlkuðu ævi rithöfundarins og persónu hans. Hún þekkti ekki þennan mann sem minnst var í öllum helstu fjölmiðlum. Ianthe fór í sálfræðimeðferð ári síðar, þá hafði hún sjálf eignast dóttur og vildi síst af öllu verða bitra mamman sem horfðist aldrei í augu við fortíðina. Þá byrjaði hún að skrifa og afraksturinn er bókin You Can't Catch Death. A Daughter's Memoir.