31. ágúst 2012

Bókasöfn á gististöðum, 14. þáttur: Kerlingarfjöll

Ég veit ekki af hverju það var mynd af
Akureyrarkirkju fyrir neðan bókahilluna.
Í júlí fór ég með gönguhópnum mínum í Kerlingarfjöll. Þar var gaman að ganga í nokkra daga, af Snækolli sást vítt og breitt um landið og náttúran öll var fjölbreytileg, dramatísk og falleg. Í Kerlingarfjöllum er rekin ferðaþjónusta og í húsinu þar sem hópurinn minn fékk inni mátti finna bókahillu sem var forvitnileg á sinn hátt eins og bókasöfn á gististöðum eru iðulega. Áður en ég kemst að bókahillunni finn ég mig þó knúna til að ræða aðeins aðbúnaðinn. Þess má geta að uppsett verð á manninn í svefnpokaplássi í Kerlingarfjöllum er 6800 kr. fyrir hverja nótt og því ætti ekki að þurfa gríðarmargar gistinætur til að safna nægu fé til að fara t.d. í IKEA eða Góða hirðinn og kaupa lágmarksútbúnað.

Í húsi sem ætlað er átta manns væri varla til of mikils mælst að finna mætti m.a.:
  • fleiri en tvær súpuskálar,
  • a.m.k. átta borðhnífa, skeiðar og gaffla,
  • sæmilega stóran pott (það voru tveir litlir pottar á staðnum en samanlagt hefðu þeir varla dugað undir súpu eða hafragraut handa hópnum),
  • þó ekki væri nema einn búrhníf, jafnvel tenntan hníf líka ef maður færi að gera kröfur, hugsanlega líka ausu eða eitthvað sambærilegt (við notuðum bolla í ausu stað en þeir voru reyndar líka af skornum skammti). 

30. ágúst 2012

Frönsk börn frekjast ekki

Ég bý bandarískri borg sem státar af prýðilegum almenningsbókasöfnum og almennt læsi hér um slóðir er með því besta sem gerist á landsvísu. Það kostar ekki krónu að fá bókasafnsskírteini og kom sú staðreynd mér þægilega á óvart. Ég var búin að búa hér í nærri ár þegar ég gerði mér fyrst ferð á bókasafnið. Tveggja ára sonur minn beið spenntur með krypplaðan 20 dollara seðil í lúkunni sem hann hugðist rétta miðaldra bókasafnsfræðingi íklæddum peysu skreyttri maískólfum, í skiptum fyrir skírteini. Hún saup hveljur og sagði "oh no my dear! It´s public service!"

 Það eru fjölmörg bókasafnsútibú í borginni og þjónusta við börn og heimavinnandi mæður er umtalsverður hluti af starfsemi þeirra. Jafnréttisbaráttan er nefnilega fremur stutt á veg komin hér eins og kunnugt er og ekki útlit fyrir að hún taki nein stökk upp á við í nánustu framtíð. Fæðingarorlof er ekki lögbundið og dagvistun er rándýr. Það er því mjög algengt að mæður séu heima með börn sín allt fram á skólaaldur, og jafnvel að þær annist líka heimakennslu barnanna. Í kringum þetta allt saman skapast risavaxinn heimur sem getur verið erfitt fyrir konu frá hálfköruðu, skandinavísku velferðarríki að skilja.

Flesta daga eru bókasöfnin full af börnum undir sex ára aldri í fylgd mæðra sinna sem eygja þarna kærkomna stund til þess að draga andann utan veggja heimilisins og leyfa afkvæmunum að njóta samvista við önnur börn. Þessu fylgir auðvitað heilmikið fjör og læti og hin hefðbunda hugmynd um bókasafn - musteri þagnar og þekkingar - hefur örlítið látið undan síga í mínum huga. En ekki kvarta ég því syni mínum finnst afskaplega góð skemmtun að kíkja á bókasafnið, dvelja svolitla stund í barnakróknum og velja sér bækur. Við kíkjum því reglulega eftir leikskóla til þess að kynna okkur nýjustu stefnur og strauma í barnabókmenntum og slaka svolítið á. Í króknum góða er líka hugsað fyrir því að mæður hafi eitthvað til þess að glugga í meðan börnin hafa ofan af fyrir sér. Það eru reyndar eingöngu uppskrifta- , handavinnu- og uppeldisbækur sem eru í boði. Ef maður vill lesa eitthvað annað þarf maður að standa upp og gera sér ferð yfir safnið þvert og endilegt. Ég er ekkert að láta það fara í taugarnar á mér heldur kíki yfirleitt í einhverjar matreiðslubækur, enda finnst mér mjög gaman að elda.

Um daginn sá ég bók í hillunni sem ég ákvað að taka með mér heim. Ég hafði heyrt um hana á ýmsum stöðum á internetinu og yfirleitt verið ágætlega af henni látið. Hún ber titilinn Bringing Up Bébé. One American Mother Discovers the Wisdom of French Parenting og fjallar, eins og undirtitillinn gefur til kynna, um bandaríska móður sem er sannfærð um ágæti franskra uppeldisaðferða og ákveður að kynna sér þær nánar. Mig rámar í bók sem kom út fyrir nokkrum árum um franskar konur og þeirra matarsiði, hún kom meira að segja út í íslenskri þýðingu og heitir að mig minnir Franskar konur fitna ekki. Ég las hana aldrei en þessi bók ímynda ég mér að sé skrifuð á sömu nótum. Þessar Frakkar eru að gera eitthvað frábært og rétt, förum og könnum hvað það er!

Norskur tregi

Undirrituð druslubókadama stendur í flutningum um þessar mundir og við slík tilefni finnur maður ýmislegt skrítið og skemmtilegt úr eigin fórum, meðal annars ógrynnin öll af bókum (sé maður þannig innréttaður) sem vekja alls kyns hugrenningatengsl. Ég á mjög erfitt með að skiljast við bækur, sem sést á því að í þessum flutningum hafa aðeins tvær ratað í Góða hirðinn, annars vegar einhver skrítin sjálfshjálparbók sem einhver fyrri kommúnubúa hefur skilið eftir og hins vegar mjög vond íslensk ljóðabók. Ég hef aftur á móti fundið heilan helling af góðraminningabókum (svona fyrir utan allar þær sem ég á eftir að lesa). Ein þeirra sem ég fann í vænum stafla var bókin Meðan enn er glóð eftir Gaute Heivoll sem ég ætlaði alltaf að blogga um, var meira að segja búin að punkta hjá mér eftir lesturinn en missti einhvern veginn af lestinni á sínum tíma sökum anna og þvíumlíks. Þetta er ein uppáhaldsbókin mín af þeim sem ég hef lesið á árinu svo hún á alveg skilið eins og eina bloggfærslu.

Gaute Heivoll er (tiltölulega) ungur norskur rithöfundur sem hefur sent frá sér um tug bóka af ýmsum toga - skáldsögur fyrir fullorðna og börn, ljóð og smásögur. Meðan enn er glóð kom út hjá Máli og menningu í fyrra í þýðingu Sigrúnar Árnadóttur, en bókin - sem á frummálinu heitir Før jeg brenner ned - hlaut góðar viðtökur í Noregi, vakti umtal og var m.a. verðlaunuð með Brageprisen 2010. Það fór ekkert sérlega mikið fyrir útgáfunni hérlendis, a.m.k. hef ég þá misst af því, en ég fékk bókina senda frá Kiljuklúbbnum og las hana án þess að vita nokkuð fyrirfram. Mér finnst það yfirleitt besta mögulega aðkoman að skáldsögu (ég er káputextafælin með meiru).

Í bókinni fléttast í raun tvær sögur saman; höfundurinn sækir sér yrkisefni í atburði sem urðu á æskuslóðum hans og náðu hápunkti aðfaranótt sunnudagsins sem Gaute litli var borinn til skírnar. Í Finnslandi í Suður-Noregi gekk brennuvargur laus vorið 1978 og vakti mikinn óhug meðal íbúa á svæðinu. Gaute Heivoll segir sögu brennuvargsins (undir formerkjum skáldskaparins) en rekur jafnframt eigin þroskasögu og ákveðna atburði sem urðu til þess að hann ákvað að helga sig því að skrifa. Hann býr til portrett af tveimur ungum mönnum og einhvers konar tilvistarlegri glímu; á yfirborðinu eru sögurnar ólíkar en það er einhver sammannlegur, tregafullur og viðkvæmur strengur sem tengir þær.

29. ágúst 2012

Hverjum er ekki sama um örlög skilanefndarmannsins með skemmtibátaprófið?

Dr. Ólína Þorvarðardóttir: Óvæntur áhrifavaldur í
íslenskum glæpasagnaheimi.
Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi glæpasagna Yrsu Sigurðardóttur. Fyrstu kynni mín af þeim urðu eftir að ég rakst á Þriðja táknið í grein eftir Helga Þorláksson sagnfræðing, af öllum stöðum, en í greininni ræddi Helgi meðal annars áhrif doktorsritgerðar Ólínu Þorvarðardóttur um brennuöldina á þessa fyrstu glæpasögu Yrsu. Ég náði mér í bókina og hún reyndist nógu farsakennd til að ég skemmti mér hið besta; lík finnst í kústaskáp í Árnagarði, siðblindir og kókaínbrjálaðir BA-nemar í sagnfræði fikta við svartagaldur eftir kynni sín af doktorsritgerð Ólínu, og svo framvegis.

Þessi farsakenndi eiginleiki Þriðja táknsins – allt sem gerist í henni er gjörsamlega fáránlegt – minnir á þær bækur þar sem mér hefur þótt Yrsu takast best upp, en það eru barnabækurnar sem hún skrifaði áður en glæpasögurnar tóku yfir: Þar lágu Danir í því, Við viljum jólin í júlí og fleiri. Þar eru hressir karakterar, ævintýralegur söguþráður og endalaus aulahúmor, eins og stelpan sem þurfti að fara í fermingarhárgreiðslu á Elliheimilinu Grund af því að pabbi hennar var svo seinn fyrir í fermingarundirbúningnum. Stærsti veikleiki Yrsu er stíllinn – hún skrifar satt að segja ekki sérlega vel – en í barnabókunum var öllum stílæfingum haldið í lágmarki og sögunni sleppt lausri eins og í yfirdrifinni gamanmynd frá Hollywood. Mér fannst það virka ágætlega og hló oft eins og fífl.

28. ágúst 2012

Tipping the Velvet: Æsispennandi nítjándualdarlesbíumelódrama með kyngervisusla og kynlífi í hæfilegum skömmtum

Fyrir um það bil þremur árum var ég í bókabúð í London og sá bók sem mér fannst ég kannast við, líklega hafði ég lesið um hana einhvern tímann. Ég setti hana með bókunum sem ég ætlaði að kaupa og stakk henni svo í hillu þegar ég kom heim. Ég tók hana ekki úr hillunni fyrr en einn fagran sunnudagsmorgun núna í sumar og mér varð afskaplega lítið úr verki þar til lestrinum var lokið. Ég hef ekki orðið svona spennt yfir bók lengi, svo lengi að mér fannst það hálf óraunverulegt að hún skyldi hafa beðið mín örfáum metrum frá rúminu mínu í allan þennan tíma og ég látið eins og ég sæi hana ekki.

Tipping the Velvet, fyrsta bók Söruh Waters, kom út árið 1998. Sögusvið bókarinnar er England undir lok nítjándu aldar og í henni er sögð saga Nancy Astley, stúlku sem vinnur í eldhúsi ostruveitingastaðar fjölskyldu sinnar í Whitstable í upphafi bókar. Á hverju laugardagskvöldi fer Nancy með systur sinni til Kantaraborgar þar sem þær heimsækja Canterbury Palace og horfa á söngvara, loftfimleikamenn og ýmiss konar listafólk koma fram. Kvöld eitt stígur söngkonan Kitty Butler á svið, með drengjakoll, í jakkafötum og með pípuhatt. Nancy verður svo hrifin að hún tekur lestina til Kantaraborgar á hverjum degi næstu vikuna bara til að sjá hana – og fljótlega tekur Kitty eftir henni líka. Atburðarásin sem fer af stað eftir að Nancy kynnist Kitty er spennandi og ófyrirsjáanleg, melódramatísk í þeim skilningi að hún einkennist af tilviljunum, dramatískum umskiptum (ýktum breytingum í aðstæðum aðalpersónunnar) og sterkum tilfinningum. Þeir sem vilja raunsæjar bókmenntir ættu því kannski að sleppa þessari, annars er hætta á að þeir verði pirraðir yfir smáatriðum (eins og til dæmis því að næstum allar konurnar sem Nancy hittir séu samkynhneigðar).

21. ágúst 2012

handavinna í kreppunni

Á síðustu árum hefur holskefla af handavinnubókum skollið á landsmönnum – bæði íslenskar og þýddar. Fróðir menn/konur telja þessa miklu handavinnuástríðu vera eina birtingarmynd kreppunnar – nú eru allir í sjálfsþurftarbúskapnum, búa til frá grunni osfrv. Það er kannski eitthvað til í því en garn kostar reyndar handlegg og fótlegg svo nema þú prjónir allt úr plötulopa (sem ég geri mikið af – hræódýr og fallegur) þá ertu kannski ekki að spara neinar fúglur með prjónaskapnum. En alla vega, þessar handavinnubækur hafa vægast sagt verið afar misjafnar af gæðum og ég ljóstra því hér með upp að þetta hefur valdið talsverðum æsingi í hópi Druslubókadama. Færum handavinnukonum innan hópsins hefur ofboðið sumt það sem á boðstólnum er svo ekki sé meira sagt.

20. ágúst 2012

Hungurleikarnir - blóð, ofbeldi en varla kynlíf

Sú fyrsta er best 
Þríleikur Suzanne Collins The Hunger Games eða Hungurleikarnir hefur farið sigurför um heiminn á undanförnum árum og bækurnar verið þýddar yfir á fjöldamörg tungumál, tvær fyrri eru komnar út á íslensku á vegum Forlagsins og fyrsta kvikmyndin leit dagsins ljós nú í vor. Bækurnar eru markaðsettar sem Young Adult eða fyrir unglinga en eru í raun lesnar jafnt af börnum, unglingum og fullorðnum. Slíkar bækur sem svo að segja brúa kynslóðabilin hafa átt vaxandi velgengni að fagna á síðustu áratugum eins og bækurnar um Harry Potter og vampýrurnar í Ljósaskiptunum eru gott dæmi um.


16. ágúst 2012

Sagan af Constance Lloyd, Wilde, Holland


Ég giska á að markaðsfræðingar hafi
ráðið leturstærð á nöfnum þeirra hjóna.
Ég var mikil áhugamanneskja um Oscar Wilde þegar ég var unglingur. Áhugi minn á honum stafaði að hluta til af hrifningu á bókunum hans og að hluta til af því hvað líf hans hafði verið ómótstæðilega tragískt, sjálfseyðingarhvötin og hin ódeyjandi ást á skíthælnum snoppufríða Lord Alfred Douglas.

Ég hafði lesið mér til um líf hans og vissi að hann hafði verið giftur og átt tvo syni. Þegar við systir mín skemmtum okkur við að búa til síður á Barnalandi fyrir „börnin okkar“ Brasilíu Mist, Venesúelu Nótt og Enok Sörla var það mynd af hinum bráðfallega syni Oscars Wilde, Cyril, sem við stálum af netinu og settum á síðuna hans Enoks Sörla. (Við fengum meira að segja sérstakan umræðuþráð á Barnalandi í kjölfarið, þótt það geri reyndar enginn sérstaka athugasemd við nítjándu aldar yfirbragð Enoks litla.)

Ég verð samt að viðurkenna að ég hafði aldrei leitt hugann sérstaklega að örlögum hinnar ógæfusömu eiginkonu Oscars Wilde fyrr en mamma lánaði mér ævisöguna hennar, Constance. The Tragic and Scandalous Life of Mrs Oscar Wilde eftir Franny Moyle. Bókin kom út á síðasta ári og er reyndar ekki fyrsta ævisagan sem skrifuð hefur verið um Constance Wilde; mér sýnist á bókalistanum aftast að skrifaðar hafi verið bækur um velflesta þá sem stóðu Oscari Wilde nærri, til dæmis Oscar Wilde and His Mother eftir Önnu Brémont, Son of Oscar Wilde eftir son hans Vyvyan, Robbie Ross: Oscar Wilde´s Devoted Friend eftir Jonathan Fryer, að ótaldri Oscar Wilde and Myself eftir Lord Alfred Douglas.

Oft hefur verið litið á Constance sem hagkvæman aukahlut í lífi Oscars, þýðingarlitla kvenpersónu sem hann giftist til fjár og til að senda samfélaginu réttu skilaboðin, en hér fær hún ákveðna uppreisn æru. Franny Moyle dregur úr fjárhagslegum ávinningi Oscars við giftinguna og telur að þau hafi raunverulega elskað hvort annað í upphafi – þótt það sé alltaf erfitt og ekki endilega æskilegt að reyna að setja hugtök á borð við ást og hagkvæmni í augum fólks sem var uppi fyrir meira en öld í flokka sem okkur finnst passa þeim í dag.

15. ágúst 2012

Hálfgildingsjómfrýr og heterónorm: Tillögur að lausnum á sjálfsfróunarvandanum

Við rót í bókakössum í geymslu foreldra minna fyrr í sumar rakst ég á bókina A Study of Masturbation and The Psychosexual Life eftir John F.W. Meagher, M.D., F.A.C.P. Hvorki myndir né texti eru á bókarspjöldunum utan upphleypts tákns framaná fyrir miðju (sjá mynd), en bókin er útgefin af Baillière, Tindall & Cox sem munu hafa verið „medical and scientific publishers“ í London. Innan á framhlið bókarinnar er hún svo merkt Gunnari Benjamínssyni með afar virðulegum ex libris-límmiða og saurblaðið vitnar um að einhverntíma hafi hún verið seld notuð fyrir 600 krónur – ég á enn eftir að forvitnast um það við foreldrana hvort einhver velunnari hafi fært þeim bókina að gjöf eða þau keypt hana sjálf.

Það vakti semsagt forvitni mína hvað þessi ríkulega stafsetti Meagher hefði haft um málið að segja á sinni tíð, sem augljóslega var nokkru á undan okkar (kom á daginn að útgáfuárið var 1936, fyrsta útgáfa leit dagsins ljós 1924). Ekki leynir sér að vandamálið sjálfsfróun hefur brunnið á karli og að ásamt ýmsum sinna titlaskreyttu starfsbræðra hefur hann lagst í miklar pælingar og empírískar rannsóknir.

7. ágúst 2012

Rauðu ástarsögurnar í BDSM-dulargervi

Fifty Shades of Grey eftir E.L. James og framhaldsbækurnar Fifty Shades Darker og Fifty Shades Freed raða sér í efstu sæti ýmissa metsölulista um þessar mundir. Þetta hefur vakið athygli af ýmsum ástæðum en einkum þeirri að trílógían flokkast til erótískra bóka sem hafa talist jaðargrein til þessa, og ýmsir hafa íhugað ástæðurnar fyrir því að þær hafa náð almennum vinsældum. Í því samhengi er rafbókavæðing oftast nefnt til sögunnar og sú staðreynd að auðvelt er að láta lítið bera á bæði kaupum og lestri rafbóka. Einnig er sérlega fljótlegt að kaupa rafbækur, þegar forvitni vaknar þarf ekki marga smelli þangað til bókin er tiltæk til lestrar.

Netið leikur þó ennþá stærra hlutverk í upphaflegri útbreiðslu 50-Shades-bókanna því það skiptir vafalaust máli að frumgerðin var skrifuð og birt á netinu sem „fanfiction“ út frá Twilight-bókaflokknum (er til almennilegt íslenskt heiti yfir fanfiction?). Þótt E.L. James sé fjarri því að vera sú fyrsta sem kryddar fanfiction með kynlífi, þvert á móti skrifar hún inn í umfangsmikla hefð þar, mun hún hafa vakið tiltölulega mikla athygli fyrir að skipta skírlífu vampírunum í Twilight út fyrir kynlíf sem þótti krassandi. Svo fór boltinn að rúlla. E.L. James umskrifaði fanfiction-söguna Master of the Universe og til varð 50-Shades-trílógían sem var í fyrstu gefin út sem rafbækur hjá litlu forlagi. Þegar metsölu í rafbókaflokki var náð fóru stærri forlög að bítast um bækurnar og þær komust fljótt einnig á metsölulista prentaðra bóka.

Eins og fleiri var ég semsagt forvitin að sjá um hvað málið snerist og las fyrstu bókina um daginn. Hún kom mér nokkuð á óvart en ekki út af kynlífsþættinum og ekki á jákvæðan hátt. Það var býsna merkilegt að sjá hversu afgerandi keim bókin ber af annarri bókmenntagrein sem hefur einnig verið á jaðrinum, þ.e. þeirri sem oft er kölluð „rauðu ástarsögurnar“. Ef nokkrum kynlífslýsingunum væri sleppt og aðrar styttar svolítið myndi bókin smellpassa inn í einhverja af seríunum sem Ás-útgáfan gefur út.*

5. ágúst 2012

Hinsegin bókasafn og bókmenntaviðburðir

Það er alltaf gaman að fara á bókasafnið í Samtökunum '78 og okkur þykir vel við hæfi að minna á það núna þegar Gay Pride-hátíðin er að ganga í garð, enda ekki víst að öllum sé kunnugt um safnið eða ágæti þess.

Bókasafnið er til húsa í höfuðstöðvum Samtakanna '78 á Laugavegi 3, á fjórðu hæð. Það er opið frá 9-17 virka daga og frá 20-22 á fimmtudagskvöldum. Á safninu kennir ýmissa hinsegin grasa, en þar má finna bækur, tímarit, myndbandsspólur, mynddiska og blaðaúrklippur tengdar hinsegin sögu á Íslandi. Leita má í safnkostinum á Gegni og Leiti, en í bókasafninu má finna mikið af myndefni og bókum sem ekki er hægt að finna í öðrum söfnum.

Bókasafnskort hjá Samtökunum '78 er frítt fyrir þá sem eru meðlimir í Samtökunum, en kostar 1000 kr. fyrir aðra. Bækur eru leigðar út til mánaðar í senn, en myndefni til einnar viku og kostar það 300 kr. fyrir meðlimi í Samtökunum en 600 kr. fyrir aðra. Safnið er lítið og notalegt, hægt að setjast þar niður til að lesa og styttra á barinn en í nokkru öðru bókasafni í Reykjavík.

4. ágúst 2012

Leyndarmál síldarverkenda

Í jarðgöngum getur verið gagnlegt
að vita um stystu leiðina út.
Í júlí dvaldi ég um tíma á gömlum heimaslóðum norðanlands. Drjúgur hluti af tímanum fór í að liggja í leti sem var ósköp gott (sumarfrí er dásamleg uppfinning) en ég notaði líka tækifærið til að gerast túristi og kanna staði sem ég hafði sjaldan eða aldrei séð áður. Til dæmi hafði ég bara komið einu sinni til Siglufjarðar en nú eru komin þessi líka fínu Héðinsfjarðargöng og það tekur engan tíma að skreppa frá Akureyri. Ferðin var vel þess virði, Siglufjörður er laglegur bær og það var indælt að sitja úti á Kaffi Rauðku með kaffibolla, skoða söfnin í bænum, sérstaklega Síldarminjasafnið, rölta um bæinn og borða að síðustu á Hannes Boy Café. Nú eruð þið kannski farin að velta fyrir ykkur hvernig þetta kemur bókabloggi við. Vissulega var ferðin ekki sérlega bókmenntaleg - og þó. Á Síldarminjasafninu varð allavega á vegi mínum forvitnileg bók.

2. ágúst 2012

Á loftlausri kaffistofu frá liðinni öld

Fyrir réttum tveimur vikum skrifaði ég færslu um þá ágætu bók Sjö dauðasyndir eftir dr. Guðbrand Jónsson. Eins og fram kom í þeim pistli fylltist ég nokkrum áhuga á dr. Guðbrandi við lesturinn, enda skrifaði hann ekki einungis fjölbreyttar bækur um glæpi, presta, ferðalög og Reykjavíkurlögregluna heldur var hann jafnframt kaþólikki sem gekk á fund páfa, víðförull bókavörður, málamaður mikill, túlkur og þýðandi, sem var réttilega eða ranglega bendlaður við starf fyrir Þjóðverja í bæði fyrri og seinni heimsstyrjöldinni.

Þessi áhugi leiddi mig að bókinni Afbrigði og útúrdúrar eftir Kjartan Sveinsson, skjalavörð á Þjóðskjalasafninu til margra ára, en hún hefur að geyma sagnaþætti Kjartans um menn sem hann kynntist á lífsleiðinni. Þættirnir eru níu talsins og hver kenndur við einn karl, en eins og titill bókarinnar gefur til kynna eru farnir ýmsir útúrdúrar í frásögninni og her manns úr íslensku 20. aldar þjóðfélagi kemur við sögu. Safnahúsið við Hverfisgötu myndar eins konar miðpunkt í bókinni en um það lágu leiðir margra þessara manna, sem ýmist störfuðu þar eða voru þar tíðir gestir.

Fyrsti þátturinn og sá illskeyttasti fjallar um dr. Guðbrand Jónsson, en doktorstitil hans hefur Kjartan jafnan innan gæsalappa (ef marka má þessa bók virðast menn ansi oft hafa verið grunaðir um að skreyta sig með fölskum nafnbótum á fyrri hluta 20. aldar). Það er skemmst frá því að segja að Guðbrandur fær miður góð eftirmæli hjá Kjartani, sem lýsir honum eiginlega sem ósvífnum og sjálfhverfum siðblindingja sem hafi jafnvel verið grunaður um að koma upplýsingum um siglingar íslenskra skipa til þýskra kafbáta í fyrra stríði. „Aldrei varð þetta mál þó sannað og vera má að þetta hafi verið orðum aukið“, viðurkennir Kjartan að vísu, en bætir við að „Guðbrandi hefði tekið sárast „rétt í rassinn“, eins og strákurinn sagði, þótt íslenskum skipum hefði verið sökkt, gæfi það honum sjálfum nokkurn gróða eða ávinning. Samviskan var aldrei að þvælast fyrir honum. Fyrir næga peninga var hægt að fá Guðbrand til að gera hvað sem var, jafnvel góðverk.“ (Ég verð að tilfæra þessa síðustu línu líka sem dæmi um þann leiftrandi þjóðlega húmor sem er ríkjandi í bókinni.) Lýsing Kjartans á Guðbrandi er víða í miklum hneykslunartóni en það verður að segjast eins og er að illmælgi höfundarins sjálfs gerir lesandanum erfitt fyrir að taka undir hina heilögu vandlætingu.