31. janúar 2010

Segðu það með (stolnu) ljóði!

HolmanHuntMig minnir endilega að í Hvunndagshetju Auðar Haralds sé sagt frá manni sem féll fyrir bókahillu Auðar (bókahillur mínar eru þessa dagana í slíkum ólestri að ég legg ekki á mig að fara upp stigann og leita að bókinni). Littererar dömur eiga það örugglega líka til að falla fyrir bókahillum karlmanna. Sömuleiðis hefur ljóðaflutningur, að sögn, gert margar tregar konur tilkippilegri í gegnum aldirnar. Ef eitthvað er að marka síðuna fastseduction.com er nú sem fyrr mjög vænlegt að grípa til ljóðaflutnings þegar kona skal giljuð. Á undirsíðu fann ég eftirfarandi texta:

Poems will sweep women off their feet. Take them out of your pockets and recite. Or send them in a letter. You can also memorise them if you really want to impress her but even the real poets almost never recite their own poems by heart. ... You can turn to classic love-poetry (libraries etc.) or - once you get a grasp of patterns, you can start writing your own poems with the themes and messages that you wish to include. There is always the moral dilemma of whether to present someone else's poetry as your own. Presenting it as your own will make her feel much more intense about the messages and pictures painted in the poem, but if such insincerity bothers you, it might make you feel that much worse. Then again, being able to make her feel even better should make you feel just as much better about it, so I leave it to thee to decide, how to go about this problem.

If you do present them as your own though, don't forget to add, that you're not really much of a poet and you write extremely seldom and only when you really deeply feel like it.

Síðan koma dæmi um vænleg ljóð sem elskuginn tilvonandi gæti stolið:

An orange on the table
A dress on the carpet
And you on my bed
A delicate present of the present
The coolness of night
The warmth of my life.


Og annað hefst svona:

Have you ever been fascinated
by someone whose words just seemed to
PENETRATE you?


Mér finnst eins og síðari textinn gæti verið eftir Adrian Mole.

Skoðið endilega síðuna (hér er krækja) þarna eru fleiri dæmi um ljóð sem eiga að bræða kvenfólk! Ef einhver hefur prófað þetta, eða er til í að gera tilraun, þá má sá hinn sami gjarna fræða okkur um árangurinn.

Þórdís

29. janúar 2010

Uppáhaldselskendur bókmenntanna

frannyJ. D. Salinger dó í gær og minningargreinarnar poppa upp á bókmenntasíðum heimsins, til dæmis hér og hér. Á þessu bloggi var minnst á Salinger í sumar, hér má lesa þá færslu en ég ætla ekki að bæta neinu sérstöku við um hann þó að hann hafi verið algjör dúndurhöfundur og ég bíði jafn spennt og hálfur lesheimurinn eftir að handritabunkarnir sem hann á að hafa skilið eftir sig komi út. Sennilega hafa erfingjar Salingers nóg að rífast um í margar kynslóðir og enn seljast 200 þúsund eintök af Cathcer in the Rye árlega í Bandaríkjunum.

Mig langar hins vegar að stela hugmynd frá sænsku bókahórunum sem spyrja um uppáhaldsbókmenntapör lesenda og nefna sín eigin. Hvaða skemmtilegum bókmenntapörum man fólk eftir á þessum fagra föstudegi? Ég sjálf er eitthvað andlaus en man til dæmis eftir Franny og Zooey í samnefndri bók Salingers og Gilbert og Önnu í Grænuhíð. Asnalegt par eru hins vegar Ragnheiður Birna og Jón Guðni í Þetta er allt að koma.

Þórdís

27. janúar 2010

Íslensk prakkarabörn

fiasolVakin er athygli á því að Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands stendur í hádeginu á morgun, fimmtudaginn 28. janúar kl. 12:25 fyrir fyrirlestri sem Helga Birgisdóttir flytur í stofu 132 í Öskju (nýleg bygging í Vatnsmýri sem er þó að grotna niður). Fyrirlesturinn kallar Helga Að haga sér eins og stelpa: Stelpur í íslenskum prakkarabókum þá og nú.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um íslenskar prakkarabækur - þar sem bornar verða saman „drengjabækur" og „stúlknabækur". Langflestar íslenskar prakkarabækur hafa verið drengjabækur, skrifaðar í anda Nonnabóka Jóns Sveinssonar sem upphaflega komu út á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þegar eitthvað spennandi gerist í sögunum eru strákarnir iðulega bæði í aðal- og aukahlutverkum en stelpurnar hafa mun minna mikilvæg hlutverk í söguþræðinum. Á síðustu árum, aftur á móti, hefur nokkuð verið gefið út af bókum um sjálfstæðar og skemmtilegar stelpur, stelpur á borð við Fíusól Kristínar Helgu Gunnarsdóttur.

Fjallað verður um þessa nýju kvenkyns prakkara og stelpuskott á borð við Fíusól verða bornar saman við stúlkur í eldri prakkarabókum. Spurt verður hvort þessar nútímalegu stúlkur taki einfaldlega við hlutverki drengjanna úr eldri bókunum eða hvort þær eigi sér einhverja sérstöðu. Þurfa stelpurnar að haga sér eins og strákar til að vera prakkarar - til að vera gerendur í eigin lífi - eða er hægt að vera stelpuleg stelpa í bleiku pilsi og vera um leið prakkari?

Aukapersónur í eigin sögu: Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson

enn er morgunnEkki alveg ólíkt Vesturfarasögunum Híbýli vindanna og Lífsins tré þá er Enn er morgunn rammaskáldsaga. Benjamín Andrésson, ungur Reykvíkingur og góður Íslendingur, afkomandi Knudsen, Kohlhaas, Andersson – genafræðilega alls enginn Íslendingur en þó alíslenskur, segir söguna – uppúr sögum Evu ömmu og Tedda frænda, sem segja þessa sögu hvort á sinn sérstæða hátt. Benjamín veltir því fyrir sér hvort hann geti sagt söguna einsog hún er, varðveitt atburðina, þrátt fyrir að vera, líkt og Mæja mamma hans segir karlkyns og skynji þar af leiðandi ekki samband orsakar og afleiðingar. En sagan sem um ræðir, atburðirnir sem varðveittir eru og sagðir á sinn hátt af þeim sem aðkomu hafa haft af þeim, er saga Jóhannesar Kohlhaas og Önnu Láru Knudsen. Saga þeirra sem einstaklinga, saga fjölskyldna þeirra og þó kannski ekki síður saga þeirra tíma sem þau lifa. Þau lifa vægast sagt á viðburðaríkum tímum og flækjast inní ýmiskonar atburði og aðstæður sem þau hafa iðulega litla stjórn á og ná ekki að skilja til fulls.

Sögusviðið er Þýskaland, Ísland og Danmörk. Þýskaland á upphafsárum Nazismans, Ísland á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar og í raun fram á okkar daga, Danmörk sem nokkurs konar “móðurland” Íslendinga – þeir sem skipta máli (Knudsenar og fleiri) eru ættaðir þaðan og þangað fara menn til náms og starfa.

Enn er morgunn er fínasta bók, vel skrifuð og sagan rennur vel áfram. Ættfærslur og lýsingar á fjölskyldum, aðstæðum, tilfinningum ganga vel upp og eru skemmtilegar aflestrar. Persóna Önnu Láru fannst mér sérstaklega áhugaverð og vel unnin. Hún var trúverðug þó endalokin væru kannski full dramatísk og ekki endilega alveg í takt við það sem á undan hafði gengið. Jóhannes Kohlhaas fannst mér hinsvegar ekki eins trúverðugur. Hann er einhverveginn full mikil aukapersóna í eigin lífi til að virka vel. Hann gerir í raun aldrei neitt sjálfur – maður fær á tilfinninguna að hann sé einsog lauf í stormum sinna tíða – hann verður bakari án þess að ætla sér það eitthvað sérstaklega, hann verður tónlistarmaður allt að því fyrir tilviljun finnst manni, hann er allt í einu orðinn félagi númer 197.852 í hinum þjóðernissósíalíska þýska verkamannaflokki. Gyðingdómurinn er líka svolítið einsog undirmálsgrein í lífi hans – undirmálsgrein sem umbreytist í kaflafyrirsögn þegar brjálsemi nasismans, sem Jóhannes aðhylltist fyrir tilviljun, verður til þess að honum er næstum því úthýst úr fyrirmyndarríkinu vegna sinna gyðinglegu gena. En einsog svo margt annað í lífi Jóhannesar er bottrekstur hans úr þriðja ríkinu alls ekki afgerandi og ýmsum vafa undirorpipnn. Lífið með Önnu Láru, hjónabandið, börnin, tónlistarlífið á Íslandi – maður hefur á tilfinningunni að hann allt að því líði í gegnum þetta án þess að vera nokkurntíman alvöru þátttakandi og því er endinn kannski ekki eins óvæntur og hann gæti ella hafa orðið.

Jóhannes, bakarinn frá Chemnitz, nær að mínu mati aldrei að verða nægilega áhugaverð persóna til að halda bókinni alveg uppi. Til þess eru þau einkenni sem áður er lýst of áberandi. Það breytir ekki því að sagan sem slík er áhugaverð og heldur manni vel við efnið.

Sigfríður

26. janúar 2010

Múmínálfar í sextíu og fimm ár

Árið 2010 er haldið upp á það víða að sextíu og fimm ár eru síðan fyrsta bókin um Múmínálfana kom út. Bókin heitir Småtrollen och den stora översvämningen og þar birtast í fyrsta skipti opinberlega Múmínsnáðinn og mamma hans. Þau voru pínulítið mjóleitari en síðar varð en annars sömu sætu mæðginin og við þekkjum flest. Ári síðar, 1946, kom bókin sem er forveri þeirrar stórmerkilegu bókar sem við köllum Halastjörnuna en hún hét upphaflega Kometjakten. Síðar var henni breytt dálítið og þá fékk hún nafnið Mumintrollet på kometjakt en árið 1968 fékk hún titilinn Kometen kommer, aftur aðeins endurunnin. Pípuhattur galdrakarlsins kom 1948 og síðan þær bækur sem við þekkjum (það er eð segja ef við höfum getað útvegað okkur eintök) Örlaganóttin 1954, Vetrarundur í Múmíndal 1957 og Eyjan hans Múmínpabba 1965.

Tove Jansson fæddist í Helsingfors 1914 og lést árið 2001. Foreldrar hennar voru Viktor Jansson, myndhöggvari frá Helsingfors og Signe Hammarsten, prestsdóttir frá Stokkhólmi, myndskreytir og frímerkjateiknari. Þau höfðu kynnst í myndlistarnámi í París og þar stundaði dóttirin líka nám löngu síðar. Tove starfaði sem myndlistarkona og rithöfundur í yfir sjötíu ár. Hún hóf ferilinn formlega árið 1928, þá 14 ára, sem myndskreytir í tímariti og fyrstu skopteikningarnar birti hún 15 ára. 19 ára átti hún fyrst verk á sýningu en 1943 hélt Tove sína fyrstu einkasýningu, þá var hún byrjuð að skrifa sögur sem birtust í ýmsum tímaritum og árið 1945 birtist, sem fyrr segir, fyrsta múmínálfasagan í bókabúðum, það var sem sé  Småtrollen och den stora översvämningen, en bókin var gefin út samhliða í Stokkhólmi og Helsingfors. Bókin fékk engar sérstakar viðtökur og aðeins einn ritdómur birtist um hana en á eftir henni fylgdu Kometjakten/Halastjarnan (1946) og Pípuhattur galdrakarlsins (1948) og þá má segja að höfundurinn hafi verið búin að skapa sér rithöfundarnafn í Finnlandi og Svíþjóð. Á 6. áratugnum varð Tove Jansson stór höfundur á heimsvísu, myndabækur um múmínálfana komu út í Englandi, bækurnar komu síðan út ein af annarri í ýmsum löndum, sett voru upp leikrit um múmínálfana á Norðurlöndum og snemma var hugmyndafræði og heimspeki þessara verka rædd á menningarsíðum blaða og í háskólum.

Margt hefur verið skrifað um Múmínfjölskylduna og margt á eftir að skrifa um þá fjölskyldu og vini þeirra en hér er krækja í viðtal við bróðurdóttur Tove Jansson sem birtist í Dagens Nyheter um helgina.

Þórdís

24. janúar 2010

„Ástin er lipur tígur ...“

Käbi Laretei, konsertpíanisti fædd í Eistlandi og Ingmar Bergman, sænskur leikstjóri, hittust þegar þau voru í kringum fertugt. Käbi var gift og átti litla dóttur, Ingmar bjó með Bibi Andersson. Eftir nokkurn tíma skildu þau við makana, giftu sig og voru í hjónabandi í tíu ár (1959-1969). Þau eignuðust soninn Daniel en voru oft í langvarandi fjarvistum, hún á tónleikaferðalögum og hann að vinna við kvikmyndir. Hún skrifaði dagbók og bæði skrifuðu hvort öðru bréf. Bókin sem ég las í gær er samsett úr smábútum úr dagbókinni og bréfum þeirra tveggja. Þó að um sé að ræða fimmtíu ára gömul skrif fer efnið auðvitað aldrei úr tísku, ástin og allar þær tilfinningadýfur sem hún hefur í för með sér er sígilt efni í vangaveltur.

Vart tog all denna kärlek vägen?
(Hvert fór öll þessi ást?) er titill bókarinnar og það er einmitt það sem Käbi fór að velta fyrir sér þegar hún fékk í hendur, eftir dauða Ingmars í hittifyrra, bréfin sem hún hafði skrifað honum. Bókin er lítil og fljótlesin en mjög falleg lesning enda báðir skrifararnir skemmtilegir pennar. Þegar upp er staðið er spurningunni sem lagt var upp með svarað: Ástin breyttist í ævilanga og djúpa vináttu sem einkenndist af örlæti og hlýju á báða bóga. Það er fallegt.

Þórdís

P.S. Käbi og Ingmar fæddust bæði 14. júlí, ég líka.

22. janúar 2010

Guðrún Elsa og Kristín Svava fara á fyrirlestur

Þegar við mættum upp í Humboldt-háskóla áttum við í fyrstu erfitt með að átta okkur á því hvar Orhan Pamuk væri nú eiginlega. Fljótlega urðum við þó varar við straum varalitaðra miðaldra kvenna sem voru háfleygar á svip, eins og eitthvað merkilegt væri í vændum. Við eltum þennan hóp, og viti menn, við fundum Nóbelsverðlaunahafann Orhan Pamuk.

G: Fyrstur steig fram Prof. Dr. Dr. h.c. Christoph Markschies, rektor skólans, með heljarmikið bling, og hélt ræðu. Maðurinn talaði vægast sagt undarlega, lagði sérstaka áherslu á ákveðin atkvæði orða sinna og dró sérhljóðana. Ræða hans náði hápunkti þegar hann sagðist hafa sérstöðu meðal rektora í Þýskalandi vegna þess að hann læsi ekki bara bækur um mannauðsstjórnun heldur skáldsögur (og hlýtur því að vera vel til þess fallinn að kynna Orhan Pamuk, sem ætlar að halda fyrirlestur um skáldsögur). Fólk í salnum átti erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum og ungi maðurinn við hliðina á mér sagði eitthvað við mig á þýsku hálfhlæjandi og ég brosti og kinkaði kolli. Ég skildi ekki hvað hann sagði, en ég vissi hvað hann átti við.

K: Í kjölfar rektorsins fylgdu ótrúlega margir embættismenn sem fundu sig knúna til að sleikja rassinn á rithöfundinum aðeins áður en hann steig á svið. Að þeim formsatriðum loknum birtist Orhan sjálfur, prakkaralegur jakkafataklæddur maður á miðjum aldri. Erindi hans fjallaði um þá reynslu að lesa skáldsögur og var í sjálfu sér ekki byltingarkennt. Sjálf verð ég að játa á mig nær fullkomið áhugaleysi á formbyggingu skáldsögunnar og því fór ýmislegt í máli (Or)hans inn um annað eyra mitt og út um hitt.

G: Orhan talaði mikið um áhrif sem hann varð fyrir af lestri skáldsagna á sínum yngri árum, en lagði þó sérlega áherslu á það þegar hann las Önnu Kareninu, sem er að hans mati besta bók í heimi. Hann las þá upp kafla úr bókinni þar sem hún Anna er sjálf að lesa skáldsögu, að berjast við að einbeita sér að lestrinum í lest á leið til Pétursborgar. Það sem mér (og flestum áhorfendanna ef marka má undirtektir þeirra) fannst sniðugast, var þegar Orhan talaði um það hversu ánægður lesandinn er með sjálfan sig þegar hann les gáfulegar bækur. Áhorfendur hlógu og klöppuðu ákaft fyrir þessu, en einhvern veginn fannst mér eins og þeir væru að minnsta kosti að hluta til að klappa fyrir sjálfum sér fyrir að vera á fyrirlestri hjá höfundi jafn gáfulegum og Orhani Pamuk.

K: Mér varð þá hugsað til þess manns sem sagt er frá í einhverri af Andrabókum Péturs Gunnarssonar, sem var frægur í bæjarlífinu í Reykjavík sem maðurinn sem hafði lesið Finnegan´s Wake. Þegar Orhan hafði lokið máli sínu steig með honum á stokk einhver bókmenntasinnaður Þjóðverji sem átti við hann samræður um erindið og skáldskapinn almennt. Þær samræður, og svör Orhans við nokkrum misgáfulegum spurningum úr sal, voru mun líflegri en fyrirlesturinn sjálfur, enda hafði höfundurinn sérlega gaman að því að stríða viðmælendum sínum og mótmæla þeim harðlega en þó hálfglottandi. Hápunktur þessara samskipta var í lokin, þegar Þjóðverjinn las kafla úr þýðingu á nýjustu bók Orhans í hægu og virðulegu tempói, en Orhan greip stafræna myndavél úr pússi sínu og fór að taka myndir undir lestrinum, bæði út í sal og af sjálfum sér og viðmælanda sínum.

Í sporvagninum á leiðinni heim drógum við saman helstu punkta og ánægjustundir fyrirlestursins – en frá þeim hefur verið sagt hér á undan. Það má reyndar bæta því við að okkur þykir það vel gert hjá Orhan Pamuk að vera svona ungur og sprækur en vera samt búinn að fá Nóbelsverðlaun.

Kristín Svava og Guðrún Elsa

Hver skrifaði bækurnar eftir Stieg Larsson?

stieg

Enn eina ferðina er allt að verða tjúllað út af Stieg heitnum Larssyni. Vinur hans, Kurdo Baksi, gaf nýlega út bókina Min ven Stieg Larsson þar sem hann segir Stieg hafa verið meðalmenni í blaðamannastétt en sambýliskona Stiegs segir bókina óhróður og níð. Og ekki nóg með það, fyrrverandi kollegi Stiegs úr blaðamannastéttinni, Anders Hellberg, segir í meira lagi grunsamlegt að Larsson hafi skrifað bækurnar vinsælu um Lisbeth Salander og Mikael Blomqvist. Hann grunar kærustuna, Evu Gabrielsson, hreinlega um að hafa stýrt pennanum. Anders Hellberg segir að Stieg hafi verið hugmyndaríkur rannsakandi en að hann hafi hreinlega ekki kunnað að skrifa og hafi Eva Gabrielsson verið með puttana í handritunum sé það ekki í fyrsta skipti sem ástkonur karlkyns rithöfunda hafi átt meiri þátt í þeirra verkum en almennt sé viðurkennt. Anders Hellberg heldur því fram að til þess að skrifa sögur á borð við verk Stiegs Larssons þurfi menn vissulega að búa yfir kostum sem höfundurinn (meinti) hafi haft en hins vegar hafi skriftir verið hans veika hlið. Hellberg fullyrðir að eftir að hafa árum saman, oft kvöld eftir kvöld, lesið það sem Stieg skrifaði, hafi hann gert sér grein fyrir því að sjálft handverkið var ekki hin sterka hlið þessa fjölhæfa manns. Fyrir þá sem vilja lesa meira um deilurnar eru hér krækjur á grein Anders Hellbergs í Dagens nyheter og meira um deilurnar í Politiken. En á meðan klögumálin ganga á víxl eru bækurnar rifnar út og um helgina ætla ég að horfa á bíómyndina um stúlkuna sem lék sér að eldinum.

Þórdís

21. janúar 2010

Satanismi fyrir börn

satancoverHér hægra megin er krækja  á síðu með ljótum bókakápum. Á undirsíðu út frá þeirri síðu rakst ég á myndina hér að ofan sem er af kápu bókar sem kom út 1990 og heitir Don’t Make Me Go Back, Mommy: A child’s book about satanic ritual abuse. (Á Amazon-síðunni sem krækjan vísar á eru umræður um bókina).
Það er margt merkilegt gefið út krakkar! Hér fyrir neðan er síða úr bókinni.

dont-make-me-go-back-mommy3

Þórdís

Maðurinn sem talaði um bækur sem hann hafði ekki lesið

bayardEinu sinni, löngu fyrir tíma Internetsins, var gjarna talað um kjölfræðinga. Þeim hópi tilheyrðu menn sem áttu að hafa lesið lítið meira en kili bóka en gátu samt rætt verkin af innlifun (ég man bara eftir karlmönnum sem áttu að vera kjölfræðingar). Til er einhverskonar blöffarahandbók í faginu eftir Henry Hichings, um hvernig maður ber sig að við að ræða ólesnar bækur, en franski bókmenntafræðiprófessorinn Pierre Bayard gaf  í hittifyrra út öllu fræðilegri bók; How to Talk About Books You Haven’t Read. Í viðtali í New York Times sagði höfundurinn: I think a great reader is able to read from the first line to the last line; if you want to do that with some books, it’s necessary to skim other books. If you want to fall in love with someone, it’s necessary to meet many people.

Ég tala auðvitað oft um bækur sem ég hef ekki lesið, mæli t.d. með einhverri ólesinni bók sem einhver sem ég hef trú á sagði mér að væri góð eða tala um bækur sem ég gafst upp á í miðju kafi.  En hvað sem þessu líður þá les fólk bækur með ólíkum hætti, sumir lesa hratt en aðrir hægt, sumir hvert orð en aðrir fara á handahlaupum yfir síðurnar. Í fyrsta hluta bókar Bayards, Ways of Not Reading, heita kaflarnir:

1. Books You Don’t Know
2. Books You Have Skimmed
3. Books You Have Heard Of
4. Books You Have Forgotten

Kannast lesendur við þetta og talið þið um bækur sem þið hafið ekki lesið eða eruð löngu búin að gleyma?

Þórdís

20. janúar 2010

Fæti brugðið fyrir Karen Blixen?

karen-blixenÁ vefsíðu Information má lesa umfjöllun um bók eftir fyrrverandi lektor í Árósum, Aage Jørgensen, sem kemur út í næstu viku. Bókin heitir ‘Nærved og næsten. Danske Nobelpristabere fra Brandes til Blixen - en dokumentation’. Blaðamaður Information er búinn að lesa bókina og gerir að umfjöllun hvers vegna Karen Blixen fékk aldrei Nóbel. Hann vitnar m.a. í Horace Engdahl fyrrverandi ritara Sænsku Akademíunnar, sem sagði það eina af fortíðarsyndum þeirrar klíku að hafa á sínum tíma sniðgengið Blixen. Það er óþarfi að endursegja greinina í Information, sem hér er hægt að lesa, en nærsýn augu mín runnu smávegis í kross þegar ég las að Gunnar Gunnarsson og Halldór Laxness hefðu fengið verðlaunin 1955 og það hefði staðið í vegi fyrir að Karen Blixen hlyti þennan mikla heiður. Hmmmmm?

Þórdís

18. janúar 2010

Bang: fréttaritari, friðarsinni, femínisti ...

Norrænar sjónvarpsstöðvar sýndu í fyrra heimildarmyndina „Bang och världshistorien“ sem fjallar um Barbro Alving.  Ég sá myndina fyrir tilviljun og varð dálítið heilluð af aðalpersónunni. Barbro Alving, sem fæddist 12. janúar 1909, var þekktur fréttaritari fyrir sænska blaðið Dagens Nyheter og blaðamaður á fleiri fjölmiðlum. Hún eyddi starfsævinni í að þeysa um heiminn og greina frá stórtíðindum, allt frá Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og Spænsku borgarastyrjöldinni til Hírósíma eftir kjarnorkusprengjuna og byltingarinnar í Ungverjandi 1956. Barbro, sem fljótlega fór að skrifa Bang undir greinarnar sínar, byrjaði kornung hjá DN og vann þar lengi en sagði starfinu lausu 1958, þegar ritstjórinn, Herbert Tingsten, tók afstöðu með því að Svíar smíðuðu kjarnorkusprengju. Bang lýsti sjálfri sér sem alkohólista, tvíkynhneigðri og einstæðri móður en hún var líka femínisti og friðarsinni. Hún var reyndar ekki einstæð lengi því þegar dóttir hennar, Ruffa, var kornung hóf hún sambúð með konu sem hét Loyse Sjöcrona. Sambandið entist út ævina og sambýliskonan ól barnið (sem Barbro eignaðist með giftum manni sem dó fremur ungur) mikið til upp. Fréttaritarinn átti það til að vera lengi að heiman, líkt og þegar hún fór í heimsreisu í heilt ár með blaðamannapassann.

Það er til töluvert af útgefnu efni eftir Barbro Alving, bæði bækur og geisladiskar með vinsælum útvarpsþáttum sem hún gerði. Í Þjóðarbókhlöðunni eru til þrjár bækur og eitthvað í bókasafni Norræna hússins, en þar rakst ég um daginn á glænýja bók, Bang om Bang, með efni sem Ruffa Alving hefur tekið saman úr dagbókum og bréfum mömmunnar og einnig hefur hún skrifað millitexta og eftirmála um hana. Bókin er ágæt, ekki síst fyrir þá sem þekkja til Bang. Hún hafði sjálf ætlað að skrifa endurminningar sínar og tekið saman mikið efni. Meining hennar var að gera upp líf sitt, segja frá áfengissýki, tvíkynhneigð og allrahanda flækjum,  angistarköstum og snúningi til kaþólsku, en áður en af því varð fékk hún heilablóðfall og málstol svo ekkert varð úr. Í tilefni hundrað ára fæðingarárs mömmu sinnar ákvað dóttirin að koma þessari bók út. Hún fór í gegnum dagbækur, sendibréf og greinasöfn og útbjó persónulegt úrval sem henni finnst lýsa mömmu sinni en dóttirin dáir hana greinilega mikið. Bók mæðgnanna las ég um helgina og fannst hún ágæt. Aðalpersónan var sérstök og áhugaverð kona og svo er heillandi að lesa sögu kvenkyns fréttaritara sem ferðaðist um heiminn og pikkaði á ritvél eins og Beverly Gray, mitt í hringiðu atburðanna.  Hér er krækja á síðu á ensku um Barbro Alving.

Þórdís

P.S. Þess má geta til gamans að pabbi Barbro Alving, Hjalmar Alving, var prófessor í norrænum fræðum og þýddi Íslendingasögurnar en móðir hennar, Fanny Alving, var fyrsta sænska konan sem skrifaði glæpasögur.

14. janúar 2010

Fín bók um frábæra söngkonu

Mér er sagt að ekki sé hægt að kaupa disk með tónlistarflutningi sænsku söngkonunnar Monicu Zetterlund í Reykjavík. Hins vegar er hægt að fá lánaða nýlega ævisögu hennar á bókasafni Norræna hússins og það hvet ég þá sem halda upp á Monicu til að gera (ég lofa að skila eintakinu um leið og safnið opnar á morgun).

Monica Zetterlund dó 67 ára gömul árið 2005 þegar kviknaði í íbúðinni hennar í Stokkhólmi. Frá því fyrir 1960 hafði hún verið ein af vinsælustu söngkonum Norðurlanda og þekkt langt út fyrir þau enda hafði hún unnið með mörgum af þekktustu djassistum heims; Stan Getz, Arne Domnérus, Bill Evans svo einhverjir séu nefndir.  Í Svíþjóð söng hún og lék í kabarettsýningum,  bíómyndum og sjónvarpsþáttum, meðal annars varð hún fræg sem sóknarhóran Ulrika í þáttunum um Vesturfarana, sem gerðir voru eftir verki Vilhelms Mobergs.

Í þessari fyrstu alvöru ævisögu Monicu, Enkel, vacker, öm (upphafsorð texta lagsins Monicas vals eftir Beppe Wolgers), eftir blaðamanninn Klas Gustafson er farið yfir ævi Monicu frá æskuárum hennar í Hagfors í Värmlandi og allt til dauða. Monica var það sem í Svíþjóð er kallað folkkär, þ.e. í meira lagi vinsæl. Hún var kornung einstæð móðir þegar hún söng sig inn í hjörtu fjölmargra Svía, sló í gegn í Danmörku og söng með frægum djassistum í New York.

Monica var margbrotin og mótsagnakennd manneskja. Hún átti í stöðugri baráttu við lélegt sjálfstraust, lifði á köflum hressilegu bóhemlífi, skipti um eiginmenn og sambýlinga oftar en tölu verður á komið og leyfði allskonar fólki að búa hjá sér og dóttur sinni í lengri eða skemmri tíma. Höfundurinn klippir saman búta úr viðtölum við Monicu sjálfa, vini hennar og dótturina Evu-Lenu, sem átti oft ekki sjö dagana sæla hjá móður sem ýmist var fjarverandi, full eða með heimilið fullt af gestum og endaði síðan sem einmana kona í hjólastól, sem fór sjaldan úr húsi. Út úr þessu klippiríi kemur ágætisbók, kannski dálítið sundurlaus á köflum en hún rennur annars vel og er svo áhugaverð að ég las síðurnar 350 nokkurnvegin í einum rykk.

Þórdís Gísladóttir

7. janúar 2010

Margt skrítið í kýrhausnum...

bok_handbok_um_hugarfar_kuaMilli jóla og nýárs rak á fjörur mínar Handbók um hugarfar kúa eftir Bergsvein Birgisson. Þar fléttar höfundar saman persónulegri sögu ungs manns sem kemur heim úr námi erlendis frá og sögu kýrinnar í sögulegu samhengi. Gestur, sem er nýbakaður doktor í menningarfræðum, fær nefnilega ekkert að gera við sitt hæfi í markaðsbrjálæði hins íslenska nútíma og tekur því að sér að skrifa handrit að heimildarmynd sem Bændasamtökin ætla að gera um íslensku kúna. Við lesum sögu doktorsins samfara því sem við lesum skrif hans um kúna og frásagnirnar fléttast saman þar til saga doktorsins er orðin saga kýrinnar...eða öfugt.

Hugmyndin er frumleg og skemmtileg og margt tekst ágætlega - á köflum er bókin mjög fyndin og varpar fram áhugaverðum spurningum um tengsl kýrinnar við mannkynið - menningu þess og trúarbrögð. Höfundur teygir sig langt í lýsingum á kúm Íslandssögunnar og ég gat ekki annað en fylgt honum eftir - frá heiðnum og heilögum kúm á landnámstímum að hinni óhugnanlegu hormónakú nútímans (sem í mjólkurbúslegu samhengi hófst að sjálfsögðu með gerilsneyðingunni!) Hér er á ferðinni skemmtileg söguskýring og hreinlega lýsing á þróun menningarsögu Íslendinga samfara breytingum í ræktun kúa.

En bókin er líka saga Gests og veraldleg og andleg vandræði hans taka heilmikið pláss og þar dapraðist stundum áhugi minn. Hinn skemmtilegi texti um kýrnar er þá nýttur til að sýna vaxandi geðsýki hans og verður um leið þyngri aflestrar - því það er erfitt að fylgja manni í maníukasti. Þessi saga Gests náði því miður ekki að grípa mig á sama hátt og vangavelturnar um kýrnar, en það segir kannski meira um mig en bókina að mér tókst aldrei almennilega að gíra upp samúð með aðalsöguhetjunni - mér fannst kýrnar hreinlega áhugaverðari.

Hvað sem því líður þá er ég eftir lestur bókarinnar gjörsamlega á þeirri skoðun að íslensku kýrnar (sem reynast sem betur fer ekki vera hreinræktaðari en hin en margblandaða íslenska þjóð) verði að vernda fyrir innflutningi hormónabættra fósturvísa. Doktornum tókst að sannfæra mig um að það yrði mögulega endir á mennsku okkar og menningu!

Maríanna Clara

6. janúar 2010

Allt sem Harry Potter er ekki

Sögusvið bókarinnar Votlendi eftir Charlotte Roche, er sjúkrahúsherbergi þar sem hin átján ára Helen liggur vegna rassaðgerðar sem hún þurfti að gangast undir eftir ógætilegan rakstur. Við fylgjum henni og vangaveltum hennar alveg frá því fyrir aðgerðina og þar til henni er sagt að fara heim nokkrum dögum eftir hana. Á þessum tíma gerist ekki svo mikið, en við fáum þó að fræðast heilmikið um allt sem viðkemur kynfærum, rassi og líkamsvessum söguhetju. Það skiptir eiginlega ekki máli hvar maður opnar bókina og byrjar að lesa; maður dettur alltaf niður á eitthvað um kynlíf, vessa, hárvöxt eða sjálfsfróun. Þetta getur verið nokkuð skemmtilegt (og um að gera að nota þetta sem partýskemmtiatriði; fletta tilviljunarkennt upp í bókinni og lesa upphátt þá málsgrein sem maður lendir á – það hlýtur að vekja kátínu). En mér finnst alveg merkilegt, í bók sem fjallar aðeins um ofangreind atriði (kynfæri, rass og líkamsvessa o.s.frv.), hversu lítið er af efni sem virðist geta örvað lesanda kynferðislega. Það þarf alls ekki að gera ráð fyrir því að runkpásur trufli lesturinn nokkuð að ráði. Ég tek þetta sérstaklega fram vegna þeirra viðbragða sem bókin hefur fengið, hún hefur til dæmis verið kölluð „sjálfsfróunarbæklingur“ í þýsku dagblaði. Aftan á bókinni er það líka tekið fram að bókin hafi ýmist verið kölluð klám eða meistaraverk, en það eru skemmtilegar andstæður sem segja kannski meira um bókina en „klám“ eða „meistaraverk“ gera hvort um sig. Þetta veldur því að manni verður ef til vill hugsað til annarrar bókar, Lolitu, sem einnig hefur verið kölluð hvort tveggja. Þær eru þó gerólíkar, bæði að efni og í stíl, og hin síðarnefnda skrifuð af mun meira listfengi. Aðrar bækur sem mér datt í hug við lestur Votlendis voru Saga augans, vegna kynferðislegra lýsinga hennar sem ganga mjög langt og Útlendingur Camus, vegna tómhyggjulegs stíls og hve utangarðs persónan virðist vera í samfélaginu – aðrir hafa bent á líkindi milli söguhetju Votlendis, Helen, og Holden Caulfield úr Bjargvættinum í grasinu.

Í raun má segja að í frásögnum Helen af líkama sínum sé hún alveg blygðunarlaus. Hún er uppfull af tilraunamennsku og greddu, sérviskum og því sem mætti kalla „afbrigðilegar hvatir“. Það sem mér þótti skemmtilegast við kynlífslýsingarnar var að það var eins og hún vildi helst hafa þær sem nákvæmastar, hráastar (á kostnað þess að þær séu æsandi) – þetta má til dæmis sjá á orðinu sem hún notar yfir sníp: perlurani. Aðalsögupersóna bókarinnar, Helen, ögrar hefðbundnum hugmyndum um almennt hreinlæti og kvenleika. Hún trúir því ekki að sýklar geti haft svo skaðleg áhrif á líkamann og sannreynir kenningar sínar til dæmis með að strjúka píkunni upp við almenningsklósettsetur borgarinnar. Hún tekur það svo sérstaklega fram, sigri hrósandi, að hún hafi aldrei fengið sveppasýkingu. Helen sér fegurðina í vessunum og finnst tilhugsunin um að dreifa eigin vessum kitlandi – hvort sem hún nær að lauma munnvatni í vatnsglas sjúkrahússstuðningsfulltrúans eða þvagi sínu undir klossa læknanema. Hún heillast líka af því að innbyrða vessa annarra og reynir ítrekað að vera dónaleg við starfsfólk á pítsustöðum vegna sögu sem hún heyrði um stelpu sem fékk senda heim pítsu með sæði úr fimm karlmönnum, sem voru þreyttir á óþolinmæðinni í henni.

Það má segja að þessi bók sé feminismi, dónaskapur, ögrun, eitthvað ógeðslegt og skítugt eða dásamlegt og frelsandi. Mér leiddist hún að minnsta kosti aldrei.

Guðrún Elsa Bragadóttir