30. nóvember 2011

Rökkurhæðir - Rústirnar

Bókabeitan er nýtt, og að því er virðist afar metnaðarfullt, forlag. Stofnendur þess, Marta Hlín og Birgitta Elín, eru nýútskrifaðar úr kennslufræði með íslensku og íslenskukennslu sem sérgrein. Þær skrifuðu meistaraverkefni um að meira mætti nota barna- og unglingabækur við íslenskukennslu en ráku sig á að það er ekki nægilega mikið framboð af bókum fyrir unglinga. Þær segja sjálfar í kynningarefni: "Þar sem lítið hjálpar að tuða og bölsótast ákváðum við að bæta um betur og stofna bókaútgáfu. Bókabeitan hefur það að yfirlýstu markmiði að efla bóklestur barna og unglinga með útgáfu á gæðaefni fyrir þennan hóp."

Bókabeitan gefur nú fyrir jólin út tvær bækur, þær Marta Hlín og Birgitta Elín skrifa hvor sína bókina, en báðar gerast þær í Rökkurhæðum, sem er ímyndað hverfi í ímyndaðri borg á Íslandi. Þær segja: "Hugmyndin var að skapa heim þar sem jafn ólikir rithöfundar og við tvær gætum skrifað sögur sem tengdust án þess að þurfa að skrifa bækurnar saman. Við ákváðum einnig að sögurnar ættu ekki að vera í beinu framhaldi hver af annarri heldur tengjast í gegnum hverfið."

Mér sýnist því á öllu að hér sé mögulega byrjunin á viðamiklum bókaflokki um Rökkurhæðir komin, enda er orðið Rökkurhæðir á forsíðu miklu meira áberandi en eiginlegur titill bókarinnar sem ég las.

... alltaf í boltanum ...

„Víti í Vestmannaeyjum“ er fótboltabók. Hún er samt líka bók um ýmislegt annað en fótbolta. Fótboltakrökkum finnst hún skemmtileg og fótboltamömmur komast vel í gegnum hana og hafa bara nokkra ánægju af.

Á baksíðu bókarinnar kemur fram að hún sé fimmta bók Gunnars Helgasonar. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið neina þeirra og hefði væntanlega ekkert lagt í þessa heldur nema af því að dóttir mín, sem er næstum 11 ára fótboltastelpa, mælti sérstaklega með henni. Hennar dómur var að þetta væri frábær bók, ja allavega fyrir þá sem hefðu gaman af fótbolta ... kannski ekki alveg eins fyrir hina ... kannski svolítið mikið af „og hann hleypur upp kantinn og gefur á Ívar sem sendir á Kalla sem skorar glæsilegt mark.“ Sem er auðvitað æðislegt fyrir þá sem lifa fyrir fótbolta ....

29. nóvember 2011

Töfrandi óhugnaður?

„Dáleiðandi, draumkennd og algerlega mögnuð“, „gimsteinn“, „best skrifaða skáldsaga síðustu ára”... umsagnirnar um Trúir þú á töfra? eftir Vigdísi Grímsdóttur eru svo sannarlega hástemmdar og ritdómarar virðast vera í einhverri keppni um sætustu lofrulluna. Í einhverjum tilvikum veltir maður því reyndar fyrir sér hvort ritdómarinn hafi lesið bókina. Þá er ég alls ekki að gefa í skyn að þeir sem skrifa fallega um þessa bók geti ekki hafa lesið hana. En þegar farið er rangt með nafn aðalpersónunnar og nánast ekkert sagt um efni bókarinnar nema það sem stendur aftan á kápunni eða er á fyrstu blaðsíðunni þá leitar á mann ákveðinn efi. Alla vega vil ég beina því til þeirra sem sjá um að auglýsa bókina hjá Forlaginu að huga aðeins betur að því hvað er verið að vitna í hér.

Það er margt gott við Trúir þú á töfra? Stíllinn skýr og góður og frásögnin rennur vel. Persónusköpunin fannst mér sannfærandi. Aðalsöguhetjan er 12 ára stúlka, Nína Björk Hauksdóttir (já, Hauksdóttir! Föðurnafn hennar kemur margoft fram í bókinni!) sem nefnd hefur verið í höfuðið á skáldkonunni Nínu Björk Árnadóttur. Hún býr í þorpi sem einangrað er með múr og glerkúpli og einhverjir ónefndir dularfullir harðstjórar ráða ríkjum. Þorpið er á einhverjum ónefndum stað á Íslandi og á að hafa verið sett á laggirnar kringum fjármálahrunið, að því er mér virðist. Það er kynnt sem einhvers konar tilraunaverkefni en jafnframt notað sem fangabúðir og reynist vera dystópískt í meira lagi. Lífið í þorpinu er allsherjaræfing fyrir leikrit og hver hefur sitt hlutverk. Hlutverk Nínu Bjarkar felst meðal annars í því að fara með ljóð nöfnu sinnar fyrir aðra þorpsbúa.

27. nóvember 2011

Merk heimild fyrir stjórnmálafræðinga

Út er komin bókin Íslenskir kapítalistar 1918-1998 eftir Óttar Martin Norðfjörð. Bókin er fjórar blaðsíður að lengd og í henni rekur Óttar sögu kapítalisma á Íslandi og sýnir fram á að fylgismenn hans hafi ekki borið neina ábyrgð á fjármálahruninu. Óttar hefur áður unnið sér það til frægðar að rita ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og kemur Hannes talsvert við sögu í þessu riti, ásamt húsgagnaversluninni IKEA.

Ég verð að segja að ég hafði talsverða fordóma gagnvart þessari bók þar sem Óttar er hvorki menntaður sagnfræðingur né stjórnmálafræðingur. Eftir lestur hennar er neikvæðni mín þó á bak og burt. Þetta er þarft verk og sjálfsagt hafa margir beðið eftir því. Vinnubrögð eru öll til fyrirmyndar, ekki síst heimildanotkun. Við druslubókadömur óskum Óttari til hamingju með bókina og vonum að hann haldi áfram á sömu braut.


Karfar, geddur, álar og annað fínerí


Kápumynd: Ohno Bakufu
Hönnun: Aðalsteinn S. Sigfússon
(þetta finnst mér ein besta kápa jólabókaflóðsins)


Eitt forvitnilegasta þýdda skáldverkið sem kom út í ár er klárlega Hvernig ég kynntist fiskunum eftir tékkneska höfundinn Ota Pavel. Gyrðir Elíasson þýðir, en þegar ég renndi yfir lista yfir þýðingar Gyrðis á kápuflipa var ekki laust við að ég fyndi til öfundar í garð þessa mæta höfundar og þýðanda - hann hefur sannarlega fengið að þýða góðar bækur í gegnum tíðina. Oft eru þær líka dálítið Gyrðislegar, þótt það hugtak sé ekki auðvelt að útskýra í stuttu máli en það felur í sér lýrík, knappan texta og einhvern sérstakan undirtón sem ég kann afskaplega vel að meta.

25. nóvember 2011

Dönsk óþægindi og óhugnaður

Bavíani – eftir dönsku skáldkonuna Naja Marie Aidt er ekki þægileg bók, hún er ekki hugguleg lesning – maður hringar sig ekki upp í sófanum með tebolla og súkkulaði og á góða stund. En ég myndi hiklaust lesa aðra bók eftir Aidt – strax í kvöld – svo augljóslega hefur Bavíani ýmislegt annað sér til ágætis.

Naja Marie Aidt fæddist í Grænlandi á aðfangadagskvöld árið 1963 en flutti með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar þegar hún var sjö ára. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók Saalænge jeg er ung (Meðan ég er ung) árið 1991 og hefur síðan skrifað bæði ljóð, smásögur, kvikmyndahandrit og leikrit – bæði fyrir svið og útvarp. Hún hefur hlotið fjöldamörg verðlaun og fyrir Bavíana fékk hún einmitt Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2008. Bjartur gaf bókina út í ljómandi góðri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur nú í sumar.

24. nóvember 2011

Hundrað ára gamalt ástarsamband og goðsagnakennt skáld

Í 2. hefti Tímarits Máls og menningar á þessu ári rakti Guðrún Helgadóttir rithöfundur söguna af ástarsambandi Elínar Thorarensen og Jóhanns Jónssonar skálds á árunum 1915-1916 og sagði frá bókinni Angantý sem kom út árið 1946 og inniheldur frásögn Elínar af sambandi þeirra, en henni var ekki sérlega vel tekið í menningarkreðsum bæjarins. Nú er bókin Angantýr komin út á ný, gefin út af hinu nýja forlagi Lesstofunni, nett bók í fallegri útgáfu og rauðri kápu (í eftirmála kemur fram að upphaflega útgáfan hafi verið í rauðri kápu með fölbleikum síðum). Eða eins og ég sagði við Guðrúnu Elsu, alveg eins og ég væri að tala upp úr ritdómi: Tilvalin bók í jólapakka handa rómantískt innréttuðu áhugafólki um íslenskar bókmenntir og bókmenntaheim á fyrri hluta 20. aldar. Hún spurði á móti: „Handa þér, meinarðu?“ Þetta var kannski fullítarleg skilgreining hjá mér. En við hljótum nú samt að vera fleiri – og ég er búin að fá bókina í afmælisgjöf.

Glæsir, eða maðurinn sem aldrei brosir

Aðalpersóna bókarinnar Glæsir eftir Ármann Jakobsson situr í manni lengi eftir lesturinn. Hún er þríklofin – í bola, draug og mann. Hvert brot um sig lifir sinni tilvist eftir lögmálum þess forms sem það hefur tekið. Nautið Glæsir rymur, draugurinn Bægifótur skelfir og maðurinn Þórólfur ágirnist.

Ármann byggir skáldsögu sína á atburðarás í Eyrbyggju sem ég hafði ekki lesið þegar ég fékk Glæsi í hendurnar. Fyrir ykkur sem eru í sömu sporum þá fjallar Eyrbyggja að miklu leyti um Snorra goða Þorgrímsson og hvernig hann kemst með klókindum frá litlum efnum til mikilla metorða á Snæfellsnesi í kringum árið 1000. Eyrbyggja er einnig mikil ættar- og héraðssaga með ógrynni persóna og hliðarfrásagna. Ármann Jakobsson er íslenskufræðingur og kennari við Háskóla Íslands. Hann hefur sérhæft sig í miðaldabókmenntum og hefur yfirgripsmikla þekkingu á efniviði Eyrbyggju og tímabilinu sem Glæsir á að gerast á. Það er því eðlilegt að spá í það hvort lesandinn þurfi að þekkja Eyrbyggju eða vera eitthvað inní fornaldarbókmenntunum til að hafa gaman af sögu Ármanns.

23. nóvember 2011

Erum við dæmd til að endurtaka mistök forfeðranna: Fensmarkshneykslið og íslenska leiðin

Undanfariðhef ég verið að glugga í bækur, sem svona við fyrstu sýn að minnsta kosti virðast alls ekki vera við mitt hæfi. En hér er um að ræða bækurnar “Íslenskir sagnaþættir”  þar sem Gunnar S. Þorleifsson safnar saman frásögnum, misgömlum og um ýmis efni þó sögur af fólki og búskaparháttum séu kannski meginuppistaðan. Bókaútgáfan Hildur gaf þessi rit svo út á níunda áratug síðustu aldar.
Eins og gengur þá er þetta misáhugavert, en ansi margt samt virkilega grípandi og jafnvel bara spennandi. Mér fannst t.d. virkilega áhugaverð frásögn sem kallast “Síðasti Geirfuglinn: 140 ár frá því síðasti Geirfuglinn var drepinn.” Þar verður ljóslifandi hugsunarleysið og græðgin sem við sem þjóð höfum svosem ekki komist útúr ennþá – Geirfuglinn er næstum horfinn, aðal heimkynni hans við Ísland sokkin í sæ en engu að síður finna menn sig knúna til að króa af og drepa þessi tvö eintök sem eftir voru og taka  síðasta eggið.
Þá eru minningar Önnu Thorlacius frá æskuárum sínum ansi skemmtileg lesning. Anna skrifar frásögnina árið 1914 fyrir tímaritið Eimreiðina og tekur fram í lok hennar að hún væri alveg tilbúin til að fræða lesendur blaðsins meira um lífið í lok átjándu aldarinnar ef áhugi væri fyrir hendi. Ég vil ekki segja að Anna sé með eitthvað “heimsósóma” þema í pistlinum sínum, eða fari algjörlega inní “heimur versnandi fer” hugarfarið en það er samt ansi skemmtilegt að lesa pistil frá 1914 þar sem verið er, þó á penan hátt sé, að brigsla fólki um eyðslusemi bæði hvað varðar peninga, mat og tíma. Hún nefnir samt ýmislegt sem er á betri veg árið 1914 en þegar hún var að alast upp og þá sérstaklega atriði sem snúa að hreinlæti, bæði persónulegu og í híbýlum fólks.
Það sem virkilega vakti mig til umhugsunar var greinin “Fensmarkshneykslið” eftir Bárð Jakobsson. Hún fannst mér hreint ótrúleg lesning og er í raun alveg hissa á að hafa ekki heyrt neitt um það mál í kjölfar efnahagshrunsins og umfjöllunar um þá vægast sagt undarlegu fjármálagjörninga og klíkuskap sem einkenndu gróðæristímabilið.

22. nóvember 2011

Blóðug átök í hænsnakofa


Hvíta hænan er þýðing Vilborgar Dagbjartsdóttur á „Den hvide høne“ eftir Klaus Slavensky. Sagan birtist upphaflega á dönsku árið 2009 í bókinni Hønselortebænken þar sem hún var ein af átta sögum. Hvíta hænan er myndskreytt af Brian Pilkington og hið sama gildir um Hønselortebænken; væntanlega er um sömu myndskreytingar að ræða. Umgjörðin er sú að afi og barnabarn hans sitja saman á bekk og afinn segir sögu. Í sögunni af hvítu hænunni segir, eins og nafnið gefur til kynna, af hvítri hænu. Hvíta hænan er sú eina meðal svartra, og eftir að nýr hani kemur í hænsnakofann er hún lögð í einelti og hin hænsnin keppast um að gogga í hana. Sagan endar svo þar sem hvíta hænan lifir betra lífi í öðrum hænsnakofa meðal annarra hænsna. 

21. nóvember 2011

Bold and the beautiful í finnskum bókmenntum

 Myndirnar hér að ofan vistaði ég í tölvunni minni fyrir um það bil fimm árum síðan. Ég var þá nýflutt til Svíþjóðar og hafði lesið frétt í menningarkálfi eins dagblaðsins um þessar tvær finnsku konur. Ég var varla talandi á sænsku, hafði engan orðaforða og gat almennt varla lesið neitt annað en veðurfréttirnar í blöðunum. En einhvern veginn kraflaði ég mig í gegnum þessa frétt á viljanum einum saman. Að lestrinum loknum fór ég á netið, sló nöfn kvennanna inn í leitarvélar en fann ekkert annað en finnskar fréttasíður. Andspænis finnsku var alveg sama hversu viljug ég var, ég skildi ekki stakt orð! En myndirnar vistaði ég. Ég veit eiginlega ekki af hverju. Sennilega langaði mig bara til að vera viss um að ég myndi aldrei gleyma þessari undarlegu sögu.

Mauri Sariola
Forsaga málsins er einhvern veginn svona: Árið 1985 liggur finnski glæpasagnahöfundurinn Mauri Sariola banaleguna. Rétt áður en hann dregur síðustu andatökin biður hann góðvinkonu sína, blaðamanninn Ritvu Sarkola (til hægri), að hugsa vel um eiginkonu sína, tollstarfsmanninn Tuulu Sariola (til vinstri), eftir sína daga. Ritva lofar því hátíðlega og Mauri deyr. Skömmu síðar tekur eitt vikublaðanna viðtal við hina syrgjandi ekkju. Í viðtalinu lýsir Tuula því yfir að hún sé einmitt að ljúka við að fullgera handrit að sögu sem Mauri hafði byrjað á fyrir andlát sitt. Þetta sé glæpasaga um morð í bænum Sammatti og að hún skrifi í sama anda og látni eiginmaðurinn enda hafi hún lært ritlistina af honum. Þetta er auðvitað út af fyrir sig efni í skemmtilega frásögn, ekkjan sem tekur upp þráðinn og lýkur við verk eiginmannsins.Vandinn var bara að það var ekki eitt sannleikskorn sögunni. Það var ekkert handrit um morð í Sammatti og Tuula þess engan veginn umkomin að skrifa heila bók. Þetta veit vinkonan Ritva mætavel og þegar hún les viðtalið bregður henni illilega í brún og spyr Tuulu hvað í ósköpunum hún sé að hugsa. Tuula svarar að hún hafi nú bara si svona misst þetta út úr sér en telur að þetta verði ekkert mál, fólk sé fljótt að gleyma og hún muni aldrei vera innt eftir handritinu. En ó nei. Blóðþyrstir útgefendur sjá að sjálfsögðu möguleika á að gera sér mat úr góðri sögu og þrýsta mjög á að fá handritið í hendurnar sem fyrst. Nú voru góð ráð dýr. Minnug loforðsins sem hún gaf Mauri á dánarbeðinu tekur Ritva málin í sínar hendur. Hún rifjar upp gamalt, raunverulegt morðmál sem gerðist í bænum Sammatti og fleygir í snarhasti upp handriti að glæpasögu byggðu á því. Hún var jú vön að vinna við skriftir og sá enga aðra leið til að bjarga vinkonu sinni og standa við gefin heit. Að vísu var til trafala þessi yfirlýsing Tuulu um að hún skrifaði í anda Mauri heitins því það þýddi að Ritvu voru ýmsar skorður settar í stíl og efnistökum en ekki var undan því komist, konan hafði jú lýst þessu yfir við alþjóð. Nema hvað, bókin var gefin út, gerði stormandi lukku og fljótlega fóru blóðþyrstir útgefendur að heimta meira.

20. nóvember 2011

Af stellingum


Þessi kona aðhyllist tæknilegar lausnir

Að lesa uppi í rúmi er góð skemmtun. Að finna sér hina fullkomnu rúmlestrarstellingu er hins vegar flókið mál. Ef leitað er á netinu að "reading in bed posture" eða "position for reading in bed" kemur í ljós að þetta er algengt vandamál og jafnvel hafa verið settar fram tæknilegar lausnir á því, samanber meðfylgjandi mynd af rúmlestrargræju nokkurri. Hér má líka finna stuttan pistil um rúmlestur og athugasemdir lesenda Guardian.

19. nóvember 2011

Kellíngabækur í Gerðubergi - MYNDIR

Ragnheiður Gestsdóttir les úr Gegnum glerveginn
Í dag lásu margir og ólíkir kvenhöfundar upp úr verkum sínum í Gerðubergi undir yfirskriftinni „Kellíngabækur“. Upplestrarnir fóru fram á þremur stöðum samtímis (sal A, sal B og á bókasafninu) þannig að maður var frá upphafi dæmdur til að missa af mörgu áhugaverðu. Ég náði þó nokkrum upplestrum og birti myndir af þeim hér fyrir neðan. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki viss um að ég kæmist nokkurn tímann í Gerðuberg. Ég rata ekkert í Breiðholtinu, var ógeðslega þreytt (eftir druslubókakokkteil gærkvöldsins) og sólin skein mjög agressíft í augun á mér þannig að ég beygði á einhverjum tímapunkti inn ranga götu og keyrði eftir það stefnulaust um Breiðholtið. Það sem bjargaði mér var það að víðsvegar í Breiðholtinu eru skilti sem vísa manni leiðina að Gerðubergi - það var aðeins þeim að þakka að komst á slaginu eitt í þangað, þar sem ég hitti druslubókadömuna Sölku Guðmundsdóttur sem leiddi mig inn í sal A. Þar náðum við upplestri nokkurra barna- og unglingabókahöfunda. (Afsakið, margar myndanna eru pínu blörraðar.)

18. nóvember 2011

Sjálfhverfa, bloggskrif og finnlandssænsku bloggverðlaunin

Af augljósum ástæðum er ómögulegt að ætla að myndagúgla
„blogg“.
Einu sinni bloggaði íslenskur almenningur töluvert meira en í dag, þarna kringum 2004 var líkt og önnur hver manneskja ætti bloggsíðu. Svo runnu upp tímar Myspace og síðar Facebook og pöpullinn átti sífellt greiðari leið að fleiri miðlum til að veita vel völdum hliðum eigin sjálfs í enn beinni útsendingu. Margir skrifa auðvitað ennþá blogg, en stemningin er töluvert breytt - bloggsíða hefur ekki þetta sama ídentítetsgildi og áður fyrr, flest virkustu og mest lesnu einstaklingsbloggin eru af pólitískum toga, gjarnan skrifuð af þekktum einstaklingum úr menningar- eða fjölmiðlalífinu og svo eru sum náttúrlega stofnuð um einhver tiltekin verkefni, eins og Tískubloggið hennar Hildar, skransala Dísu og Betu eða þá Druslubókabloggið. Ef mann langar að segja umheiminum frá draumum næturinnar eða því hvað barnið manns sagði geðveikt sniðugt má alltaf statusera það eða tvíta. (Svo held ég ekki að uppgangur moggabloggsins á sínum tíma hafi gert mikið fyrir íslensku bloggsenuna, en það er önnur saga.)

17. nóvember 2011

Prinsessan og glerþakið

Ég hef áður skrifað um hvað ég elska unglingabækur heitt. Ég fíla fantasíur, ég var mjög hrifin af bókinni 40 vikur þegar ég las hana fyrir mörgum árum, og þessvegna var ég fljót að panta nýútkomna unglingafantasíu (er það orð?) eftir Ragnheiði Gestsdóttur, sem ber titilinn Gegnum glervegginn .

Gegnum glervegginn fjallar um prinsessuna Áróru, unglingsstúlku sem býr ein í glerkúpli úr möttu, þykku gleri. Hún man ekki eftir öðru en að hafa búið þar, og hún man ekki einusinni eftir að hafa hitt aðra manneskju, fyrir utan Fóstru, sem var með henni fyrstu árin en hvarf sporlaust eina nóttina. Hún hefur allt til alls í líkamlegum skilningi, en einu samskiptin sem hún hefur er við plönturnar sem vaxa í kúplinum, nokkrar kanínur sem hún hugsar um og svo við myndir á sjónvarpsskjá sem segja henni að borða vel, hugsa um líkamann og kenna henni mannasiði. Það er næstum því einsog líf hennar líði hjá í móki, þangað til einn morguninn að hún vaknar og rekst á ókunnugan strák. Það kemur á daginn að hann heitir Rökkvi og er sonur konunnar sem hefur hugsað um hana öll þessi ár með því að læðast inn á meðan hún sefur, skilja eftir mat og þrífa í kringum hana. Áróra kemst að því að það er til veröld fyrir utan litla glerhvolfið hennar og hún ákveður að flýja fangelsi sitt.

Heimurinn fyrir utan er allt annar en sá sem henni hafði verið sýndur á skjánum í glerhvolfinu. Þar mega sumir búa við kulda, vosbúð, óréttlæti og fátækt, á meðan annar hluti mannkyns lifir í vellystingum. Áróra er elt á röndum af varðmönnunum sem áttu að gæta hennar og upphefst æsilegur flótti.

Kellíngabækur á laugardaginn í Gerðubergi

Á laugardaginn milli 13 og 15 verður dagskrá í Gerðubergi undir yfirskriftinni Kellíngabækur. Þar verða kynnt ný verk kvenhöfunda af margvíslegum toga; skáldsögur, fræðibækur, ljóðabækur, ævisögur og barnabækur. Þetta er fjórða árið sem Gerðuberg kynnir ritverk kvenna í samstarfi við undirbúningshóp Fjöruverðlaunanna.

Kynnt verða um fjörutíu verk og hafa nemendur við Háskóla Íslands umsjón með upplestrum. Í anddyri verða bækur seldar á sérstöku tilboðsverði auk þess sem höfundar og forleggjarar kynna bækur sínar. Í Gerðubergssafni Borgarbókasafnsins verður sérstök barnadagskrá þar sem lesið verður úr barnabókum, krakkar fá tækifæri til að æfa jóga og foreldrar og börn fá sýnikennslu í nuddi. Í bókasafninu verður einnig sýning á bókum þeirra kvenna sem hlotið hafa Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, síðustu ár. Að vanda verður hægt að kaupa veitingar í kaffistofu Gerðubergs.

Hér má sjá nánari dagskrá (pdf-skjal).

Þykk sneið af osti og hárið í klemmu

Ég tvísteig lengi með þessa færslu. Ég hafði áhyggjur af því að það væri ljótt að skrifa eitthvað neikvætt um fyrstu bók nýs höfundar. Hver vill ekki vera jákvæður og hvetjandi í slíkum tilfellum? Ég hugsaði því með mér að kannski ætti ég bara að láta það eiga sig að skrifa um þessa bók. En á hinn bóginn finnst mér að ef höfundur gefur út bók og kynnir hana opinberlega þá hljóti viðkomandi að vilja láta taka sig alvarlega og þar með að geta tekið þeirri gagnrýni sem sett er fram á verkið. Að lokum varð þetta seinna sjónarmið ofan á og hér kemur því álit mitt á Níní eftir Steinunni Fjólu Jónsdóttur.

Um er að ræða þroskasögu ungrar konu, Níníar, sem er í byrjun kennari á Íslandi. Hún er orðin leið á tilbreytingarlausu lífi sínu og ákveður að flytja til Spánar án þess að stefna þar á neitt sérstakt starf eða nám. Hún kemur sér þar fyrir í litlu þorpi og síðar á sveitabæ, og kynnist í kjölfarið nýjum hliðum á sjálfri sér. Bókin virðist hugsuð sem svokölluð skvísubók, að minnsta kosti eru áherslurnar á þá lund. Mikið er lagt upp úr hinu ljúfa lífi á Spáni, sem virðist felast í sólböðum og sundi og alls konar notalegheitum, sem og verslunarferðum á markaði sem og í stærri verslunarkjarna og er þá iðulega keyptur fatnaður. Við fáum oftast að vita hverju söguhetjan klæðist þann daginn og svo eru þarna heitir spænskir elskhugar, sveitasæla og mikið lagt upp úr vinkvennastússi.

16. nóvember 2011

Skrímsli í Börnum og menningu

Hausthefti Barna og menningar kemur út í vikunni. Blaðið er í þetta sinn helgað litla og stóra skrímslinu hennar Áslaugar Jónsdóttur, bókagerðarkonu, en sex bækur um þau hafa þegar komið út í samstarfi við norrænu höfundana Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Kristín Ragna Gunnarsdóttir teiknari og bókmenntafræðingur fjallar um myndmál í skrímslabókunum og Helga Birgisdóttir doktorsnemi í íslenskum bókmenntum tekur fyrir skrímsli og ótta. Í blaðinu er einnig viðtal Helgu Ferdinandsdóttur druslubókadömu og ritstjóra Barna og menningar við Áslaugu Jónsdóttur um tilurð litla og stóra skrímslisins og óvenjulegt samstarf þriggja höfunda. Skrímslin eru á leiðinni upp á svið Þjóðleikhússins í vetur og segir Áslaug frá því hvernig þessar loðnu verur hafa tekið í það brölt.

Af öðru efni í blaðinu má nefna grein Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur um Gríshildi góðu, kvenhetju úr íslenska sagnaarfinum og nafnleysi kvennanna sem héldu þeim arfi á lofti. Þá er að vanda fjallað um nýútkomnar bækur í blaðinu og má þar nefna grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur um Fluguna sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur sem hreppti Íslensku barnabókaverðlaunin á dögunum. Einnig er uppfærsla Borgarleikhússins á Galdrakarlinum í Oz leikrýnd af Sigurði H. Pálssyni.

Margt gerðist í Nóvember 1976

Sögupersónur Nóvembers 1976 búa í sama stigagangi í blokk, líklega í Breiðholtinu („myndarlegar blokkir ofan á tignarlegu holti“ stendur á bls. 108). Um er að ræða hjónin Dórótheu og Ríkharð, son þeirra um tvítugt sem heitir Þóroddur, Bíbí sem er fráskilin, frjálslynd og miðaldra og Batta, ástarsagnaþýðanda og braskara, sem gerir ýmislegt sem er á gráum svæðum. Sagan gerist á einni helgi um miðan nóvember 1976 og við innganginn að hverjum degi er birt sjónvarpsdagskrá viðkomandi dags eins og hún var í raun og veru (ég tékkaði auðvitað á timarit.is). Sjónvarpið gegnir ákveðnu lykilhlutverki í sögunni, í upphafi deyr sjónvarp Dórótheu og Ríkharðs og hann ásakar hana um að hafa gengið frá því með klaufaskap sínum. Síðan hefst atburðarás sem ég ætla ekki að rekja í smáatriðum, en næstu daga kynnumst við fólkinu í blokkinni, samskiptum hjónanna og forsögu þeirra og í lokin er sagt frá afdrifaríkri ferð Batta og Þórodds sem má ekki segja nákvæmlega frá því ekki viljum við birta spoilera í óhófi um jólabækurnar.

15. nóvember 2011

Úti í sveit að dást að næpu: viðtal við Sölva Björn Sigurðsson

Druslubókadömur eru skyggnar, það staðfestist hér með. Fengum þá flugu í höfuðið að taka viðtal við Sölva Björn Sigurðsson, án þess að vita að hann væri að gefa út bók þessi jólin, og mættum honum svo barasta á Þjóðarbókhlöðunni með handrit undir hendinni svo að segja daginn eftir. Ekki að það væri ekki full ástæða til að spjalla við Sölva þótt hann væri ekki að gefa út fyrir jólin, en samt gaman. Nýja bókin hans heitir Gestakomur í Sauðlauksdal og er að koma út hjá Sögum um þessar mundir, en eins og kemur fram í viðtalinu fjallar hún um kartöflubónda sem á sér þann draum heitastan að halda jólaveislu sem slær allt annað út.

Varstu í Frankfurt? Hvernig leist þér á bókamessuna?

Bókamessan var góð og ég gerði hina og þessa samninga við útlendinga, sem var mjög hressandi. Mér fannst skemmtilegast að standa afsíðis í íslenska skálanum, reika þar um í rökkrinu eða stara dreyminn á risavöxnu bókaskjána. Vissi ég þá oftast ekki fyrr en heyrðist viðkunnanlegt „hæ!“ og ég var búinn á rekast á einhvern sem ég þekkti, þetta minnti mjög á hlé í kvikmyndasýningu. Ég myndi segja að þetta hafi verið mjög vel heppnað.

Enn eru fréttir af ljóðum

Ég má til með að vekja athygli lesenda Druslubókasíðunnar á því hversu ötull fulltrúi ljóðsins Árni Johnsen er búinn að vera undanfarið, með dyggum stuðningi t.d. Tryggva Þórs Herbertssonar og Ólínu Þorvarðardóttur. Fyrst lagði hann fram tillögu til þingsályktunar um ljóðakennslu og skólasöng og síðan dustaði hann rykið af gamalli þingsályktunartillögu um prófessorsembætti við Háskóla Íslands kennt við Jónas Hallgrímsson, sem einnig skal miða að almennri ljóðrækt.

Það er skemmst frá því að segja að þessar þingsályktunartillögur Árna eru prósaljóð í sjálfum sér. Og ég segi við ljóðið: segðu mér hverjir vinir þínir eru og ég skal segja þér hver þú ert!

Bókasöfn á vinnustöðum, 1. þáttur

Dyggir lesendur druslubókabloggsins ættu að kannast við færsluröðina ágætu Bókasöfn á gististöðum, en þar hafa birst úttektir á bókakosti ýmissa híbýla þar sem færsluhöfundar hafa átt næturstað, svosem í sumarbústöðum og leiguíbúðum. Mér finnst hugmyndin stórskemmtileg en hefur hingað til skort tilefni til að leggja af mörkum – á ferðalögum undanfarinna missera hef ég gist í heimahúsum, þar sem bækur eru líklegar til að vera í öllu meira magni en í sumarbústöðum, og þegar umfangið er of mikið grípur mig athyglisbrostinn valkvíði og ég get ekki ákveðið í fljótu bragði hvað eigi að fókusera á fremur öðru. Auk þess sem það segir ekki endilega mikið um bókakostinn ef færsluhöfundur hefur sjálfur valið lítið brot til framsetningar, þótt það geti auðvitað skilað jafnskemmtilegri umfjöllun.

14. nóvember 2011

Tvær fréttir frá fréttaveitu Druslubóka

Þórdís og Kristín Svava fóru fyrir hönd druslubókakvenda á fund Síðdegisútvarps Rásar 2 í dag og ræddu stuttlega um bókabloggið og jólabækurnar.

Að öðru leyti er vert að vekja athygli á pistli Stefáns Snævarr um ljóðaupplestur á bókamessunni í Iðnó í gær, sunnudag. Stefán - sem er heimspekingur en hefur einnig gefið út ljóðabækur - er satt að segja ekki par hrifinn. Honum þótti skáldskapur flestra skáldanna keimlíkur og lítið skilið eftir til túlkunar:

Bookerbókin í ár


The Sense of an Ending heitir bókin sem hlaut Man Booker verðlaunin í ár og er hún eftir breska rithöfundinn Julian Barnes. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru Man Booker verðlaunin veitt árlega fyrir skáldsögu sem gefin er út í bresku samveldislöndunum svokölluðu, eða þá Írlandi eða Zimbabwe. Breska menningarpressan er iðulega voða upptekin af þessari verðlaunaafhendingu enda eru verðlaunin með þeim virtustu á heimsvísu, menn velta tilnefningum endalaust fyrir sér og stundum koma upp leiðindi og skandalar og það gerðist einmitt í ár. Dómnefndin var nefnilega gagnrýnd mjög fyrir val sitt í þetta sinn, það þótti frekar popúlískt og ómerkilegt og margir voru á því að af þeim bókum sem tilnefndar voru kæmi engin til greina nema The Sense of an Ending, það kom því ekki beinlínis á óvart að hún skyldi hljóta verðlaunin í ár. Julian Barnes var nú tilnefndur í fjórða sinn til verðlaunanna en hefur aldrei hlotið þau áður.

Vit í höfðinu, bein í nefinu og hjarta í brjóstinu: Sólarmegin, líf og störf Herdísar Egilsdóttur

Ég er alveg sannfærð um það að ekki hefði verið hægt að skrifa leiðinlega bók um æfi og störf Herdísar Egilsdóttur. Enda er það raunin með „Sólarmegin líf og störf Herdísar Egilsdóttur“ sem skráð er af Guðrúnu Pétursdóttur og Ólafi Hannibalssyni og Iðunn/Forlagið gaf út nú fyrir skemmstu. Eftirfarandi texti er settur á baksíðu bókarinnar: „Það er bjart yfir þessari bók. Af hverri síðu skín lífsgleði og jákvæðni, uppátækjasemi samfara útsjónarsemi og nægjusemi, því þótt lífið hafi ekki alltaf verið Herdísi auðvelt hefur hún ævinlega haldið sig sólarmegin.“ Svo ég taki nú það sem ég vil gagnrýna (með neikvæðum formerkjum, sem nota bene er erfitt með jafn jákvæðan efnivið) þá finnst mér þessi klausa ansi yfirborðskennd, og það er kannski svolítið það sem hrjáir bókina. Hvergi er kafað djúpt og svolítið vaðið úr einu í annað. Kveikjan að bókinni er sögð vera sú að Herdís og þau Guðrún og Ólafur hafi kynnst þegar dóttir þeirra síðarnefndu hóf skólagöngu í Ísaksskóla og að bókin sé í raun samantekt þeirra Guðrúnar og Ólafs á samtölum sem þau hafi átt við Herdísi. Við lesturinn fær maður á tilfinninguna að bókin byggi mikið til á skrifum þar sem Herdís rifjar upp ákveðna atburði og þemu úr lífi sínu, og tilfinningin er að þetta sé nokkuð milliliðalaust og óritskoðað. Það er helst að í byrjun bókar, þar sem fjallað er um æsku hennar á Húsavík að maður fái á tilfinninguna að einhver annar en hún sjálf haldi hugsanlega um penna. Skrásetjarar þvælast hvergi fyrir, mér finnst maður í raun aldrei verða var við þá, sem er bæði gott og slæmt, ef svo má segja. Fyrir vikið verður bókin aðeins stefnulaus, maður veit ekki alveg hvort maður er að fá söguna milliliðalausa eða ekki – og gerir sér þar af leiðandi ekki alveg ljóst hver ritstýringin er eða hvað er komið hvaðan.

13. nóvember 2011

Sex konur á sviði í Iðnó

Þær voru ekkert smávegis skemmtilegar konurnar sex sem spjölluðu saman á sviðinu í Iðnó í dag. Fullt af fólki, innihaldsríkar, fræðandi og áhugaverðar umræður og framtakið almennt alveg sérlega vel heppnað.
Auður Ava, Sigríður Víðis, Bryndís, Hildur, Kristín Svava og Salka

Heiðarlegi svikarinn hennar Tove Jansson

Tove Jansson skrifaði ekki bara hinar stórfenglegu múmínálfabækur, hún teiknaði/skrifaði líka myndasögur og samdi skáldsögur fyrir fullorðna. Þekktust fullorðinsbóka hennar er líklega Sumarbókin (1972) sem m.a. kom út í enskri þýðingu fyrir örfáum árum og varð nokkuð vinsæl í Bretlandi, þar sem fólk annars kveikir sjaldnast á nafni finnsku skáldkonunnar og tengir múmínálfana aðeins við teiknimyndirnar.
Svo er kápan líka undurfalleg, enda eftir höfundinn.
Nýlega las ég hins vegar aðra bók eftir Tove Jansson, Den ärliga bedragaren (1982), eða Heiðarlega svikarann (í minni bókstaflegu og óljóðrænu þýðingu).

12. nóvember 2011

Lesið „Ríkisfang: Ekkert“

Nú í september kom út hér á landi merkileg bók, bók sem hefur þegar fengið góðar viðtökur og mun sjálfsagt fá þær enn betri þegar fram líða stundir. Engu að síður eru það forréttindi fyrir mig að geta vakið athygli á þessu verki og vona að ég það verði því til framdráttar.

Þetta er bókin Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur. Þar endursegir Sigríður sögu nokkurra palestínskra kvenna sem komu hingað til lands ásamt börnum sínum haustið 2008. Þær komu sem flóttamenn frá flóttamannabúðunum Al Waleed í Írak en þar höfðu sumar þeirra dvalið á annað ár við skelfileg skilyrði. Það kemur í ljós að sem Palestínumenn frá Írak eru þær flóttamenn í tvöföldum skilningi – þegar Ísralesríki var stofnað í Palestínu í maí 1948 og jarðýtur komu og jöfnuðu heilu þorpin við jörðu, flúðu fjölskyldur þeirra frá Palestínu til Íraks. Þau fengu hins vegar aldrei Íraskan ríkisborgararétt. Meira en hálfri öld síðar, þegar Saddam Hussein var steypt af stóli í Íraksstríðinu, varð smátt og smátt ólíft fyrir Palestínumenn í landinu en þau gátu hvergi farið. Þau voru Palestínumenn en Palestína er ekki viðurkennt sem sjálfstætt ríki og þau því ekki með nein palestínsk vegabréf. Þau gátu ekki verið í Írak en þau gátu heldur ekki farið þaðan - vegabréfalaus ferðast maður ekki. Þau sátu því föst á landamærum í búðum sem Flóttamannhjálp Sameinuðu þjóðanna hafði úrskurðað fullkomlega óviðunandi. Landlaust fólk sem sótt var að úr öllum áttum, fólk sem lifði ótrúlegar skelfingar áður en það kom hingað til lands til þess að hefja nýtt líf.

11. nóvember 2011

Druslubókadömur og rithöfundar í Iðnó á sunnudaginn

Nú um helgina, laugardaginn 12. nóvember og sunnudaginn 13. nóvember, verður bókamessa í Ráðhúsinu og Iðnó. Dagskráin hefst klukkan 11 báða dagana og stendur til klukkan 18. Það verður heilmikið í gangi og börn verða ekki skilin útundan, hér er krækja á dagskrána í heild sinni.

Eins og stóð í færslu sem birtist hér í fyrradag þá vekjum við sem höldum úti þessari síðu sérstaka athygli á því að á sunnudaginn kl. 14-15 setjast Kristín Svava, Salka og Hildur í grænan sófa í salnum á neðri hæðinni í Iðnó og spjalla við Auði Övu Ólafsdóttur, Bryndísi Björgvinsdóttur og Sigríði Víðis Jónsdóttur. Þetta verður skemmtilegt.

10. nóvember 2011

Suðandi friðarsinnar

Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin nú í ár. Í henni segir frá nokkrum húsflugum, þeim Kolkexi, Flugunni og Hermanni Súkker, sem ákveða að flýja heimili sitt eftir að fólkið sem þar býr fjárfestir í sérlega öflugum flugnaspaða gegnum Sjónvarpsmarkaðinn. Þær frétta af einstaklega fluguvænum munkum í Nepal og koma sér áleiðis þangað með flugvél. Þær þurfa að millilenda í borginni Assambad þar sem þær kynnast flugunum Rel og Fító, en þær eru búsettar á veitingastaðnum Grilluðu kjöti. Í Assambad ríkir stríð og flugurnar skilja ekkert í þeirri heimsku mannanna að standa í slíku. Eftir rútuferð og stutta dvöl í munkaklaustrinu í Nepal ákveða Flugan, Kolkex og Fító að snúa aftur til Assambad með áætlun um að stöðva stríðið. Þótt ýmis ljón séu í veginum tekst þeim ætlunarverk sitt.

Bókin er mjög skemmtilega skrifuð og á góðu og lipru máli. Bryndísi tekst að fjalla um háalvarlegt efni, stríð, og koma friðarboðskap til skila án þess að nota neinn predikunartón. Stundum eru barnabækur með boðskap nefnilega eins og áróðursbæklingar frá einhverjum einvaldinum en Flugan sem stöðvaði stríðið er alls ekki þannig heldur notast við ímyndunarafl og húmor á skemmtilegan hátt. Það kemur vel út að segja söguna alveg frá sjónarhóli fluganna. Þó að nokkrar mannverur komi við sögu þá eru þær í aukahlutverkum, það eru hugmyndir og reynsla fluganna sem gilda. Flugurnar verða ljóslifandi persónur og það kemur skemmtilega út að kyn þeirra skuli vera tvírætt. Það er eins og það skipti ekki máli hvort persónufornafnið „hún“ eða „hann“ eru notuð til að vísa til þeirra þótt einhverjar þeirra heiti nöfnum sem við mannfólkið tengjum frekar við annað kynið en hitt. Bókin er fallega myndskreytt af Þórarni M. Baldurssyni með einfaldri teikningu við upphaf hvers kafla.


Ég las bókina sem kvöldsögu fyrir Iðunni Soffíu Agnadóttur, nemanda í 2. bekk í Hlíðaskóla. Við mæðgur vorum báðar spenntar að halda lestrinum áfram og fylgjast með framvindu söguþráðarins. Iðunn var svo væn að veita Druslubókum og doðröntum einkaviðtal um reynslu sína af bókinni.

Druslubækur og doðrantar: Hvernig fannst þér bókin?
Iðunn: Bara góð. Skemmtileg.
D&D: Hvað fannst þér skemmtilegt í henni?
ISA: Bara allt.
D&D: Var ekkert sorglegt?
ISA: Jú, þegar flugan dó. Og líka stríðið.
D&D: Hvað heldurðu að flugur tali um þegar þær suða?
ISA: Ég veit ekki. Bara eitthvað, eins og „eigum við að fara þangað?“ eða „eigum við að fara á Grillað kjöt?“
D&D: Voru flugurnar í sögunni stelpur eða strákar?
ISA: Ég veit ekki alveg.
D&D: Finnst þér að fólk eigi að vera gott við flugur?
ISA: Já. En kannski ekki alveg þannig að það sé að gefa þeim að borða. En ekki að slá þær eða svoleiðis.
D&D: Heldurðu að flugur geti í alvörunni stöðvað stríð?
ISA: Nei, ég held ekki.
D&D: Heldurðu að þær hugsi um stríð?
ISA: Kannski, svona stundum. Örugglega einhver fluga.
D&D: Heldurðu að það sé hægt að stöðva stríð?
ISA: Nei, nema kannski foringinn sjálfur.
D&D: Mælirðu með þessari bók fyrir aðra krakka á þínum aldri?
ISA: Já. Og hún getur líka alveg verið fyrir fullorðna.

9. nóvember 2011

Druslubókadömur setjast í sófa á bókamessu

Um helgina standa Bókmenntaborgin Reykjavík og Félag íslenskra bókaútgefenda fyrir bókamessu í Iðnó og Ráðhúsinu. Þetta verður heljarinnar dagskrá sem finna má í heild sinni hér.

Á sunnudeginum, 13. nóvember, verðum við druslubókadömur með sérstakt innlegg á bókamessunni, en þá mun undirrituð ásamt Hildi Knútsdóttur og Sölku Guðmundsdóttur setjast í sófa í Iðnó klukkan 14:00 og spjalla við rithöfundana Auði Övu Ólafsdóttur, Bryndísi Björgvinsdóttur og Sigríði Víðis Jónsdóttur.

Veður af graðhesti

Það var algjör tilviljun að ljóða- og ævintýrakverið Kanill eftir Sigríði Jónsdóttur rak á fjörur mínar þetta haustið; ég hefði örugglega aldrei rekist á það ef önnur druslubókadama hefði ekki gaukað því að mér. Þetta er lítil, ferköntuð bók í glansandi bleikri kápu með gylltum stöfum, skemmtilega extravagant hönnun og sannarlega ekki það sem ég hefði almennt búist við af Sæmundi, útgáfufélagi Sunnlenska bókakaffisins! (Myndin hér til hliðar sýnir glansáferðina alls ekki nógu vel.) Sigríður hefur áður gefið út ljóðabókina Einnar báru vatn, sem ég komst að því að er í sömu glansbleiku kápunni, þó með svörtum stöfum – höfundarverk Sigríðar hlýtur að skera sig mjög úr í bókahillum.

En bókin heitir sumsé Kanill: ævintýri og örfá ljóð um kynlíf og samanstendur af sjö erótískum ljóðum og einu ævintýri. Ég verð að segja að mér finnst erótíkin bara frekar vel heppnuð, sem er ekki lítill sigur, hún er eitthvað svo vandmeðfarin og verður auðveldlega áreynslukennd og tilgerðarleg. Hér er erótíkin prakkaraleg og opinská og snýst mjög um það hvað það er þrúgandi að leggja hömlur á kynferðið, eins og er auðvitað ekki síst gert í tilfelli kvenna. Mér finnst hin frelsandi erótík konunnar stundum eiga það til verða hálfvæmin – einhver svona Píkusögufílingur – en þessi er alveg laus við það.

Byltingartilraun í New York

Samband Puerto Rico og Bandaríkjanna á rætur sínar að rekja til loka nítjándu aldar þegar Spánverjar létu Bandaríkjunum þessa nýlendu sína eftir við lok stríðs sem þjóðirnar háðu sína á milli. Puerto Rico búar eru handhafar bandarísks ríkisborgararéttar þó þeir hafi ekki kosningarétt og alríkislög Bandaríkjanna eiga við í landinu. Þetta er ansi flókið og að ég held einstakt samband í mörgu tilliti.

Allt frá því snemma á tuttugustu öld hafa Puerto Rico menn flutt í stórum stíl til Bandaríkjanna í leit að betra lífi. Þar kemur margt til - landið var efnahagslega háð Bandaríkjunum og kreppan mikla hafði þar töluverð áhrif. Svo varð sprenging í þessum fólksflutningum á stríðsárunum þegar næg eftirspurn var eftir vinnuafli. Bandaríkjastjórn beinlínis hvatti fólk til þess að flytja og margir Puerto Rico menn stóðu svo dagana langa við færiböndin sem spýttu út úr sér vörum af ýmsu tagi. Þessir stórfelldu fólksflutningar stóðu allt fram á áttunda áratuginn og fluttu langflestir til New York og Chicago.

Fólk af Puerto Ríkóskum uppruna er nú um 1.5% Bandaríkjamanna. Það er þar löglega, þetta er þeirra land í einhverjum skilningi. Það breytir því ekki að kjör þeirra eru síst betri en þeirra innflytjenda sem kallaðir eru “ólöglegir” eða þeirra sem ekki eru bandarískir ríkisborgarar en vinna löglega í Bandaríkjunum. Raunar las ég einhversstaðar að staða þeirra væri með því versta sem gerist meðal minnihlutahópa og fyrir því eru ábyggilega margar ástæður.

Langloka um sniðuga karla

Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf (sæ. Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann) eftir Jonas Jonasson virðist talin söluvænleg bók. Að minnsta kosti er hún ein af þessum kiljum sem eru hafðar til sölu á bensínstöðvum og í apótekum. Framan á kápunni er vitnað í umsagnir frá Skandínavíu þar sem segir „frábærlega skemmtileg saga, kemur sífellt á óvart“ og „Villt og galin, óstjórnlega fyndin“. Aftan á kápunni segir að bókin hafi óvænt orðið „ein helsta metsölubók síðari ára í Svíþjóð og fer nú sigurför um önnur lönd“. Þar að auki hefur bókin hlotið mjög lofsamlega dóma í Kiljunni og víðar, og er þá jafnan haft á orði hve fyndin hún sé. Væntingarnar til þessarar bókar mega því vera miklar.

8. nóvember 2011

Berklar, skák, bíó og fleira

Það er kunnara en frá þurfi að segja að Marion Briem er aðalpersónan í nýjustu bók Arnaldar Indriðasonar, Einvíginu, og að meginþráður bókarinnar gerist í Reykjavík sumarið 1972. Til rannsóknar er dauðsfall unglingspilts sem finnst stunginn til bana í Hafnarbíói eftir fimmsýningu á vestranum Undir urðarmána. Nokkrum dögum síðar á skákeinvígi Fischers og Spassky að hefjast í bænum svo lögreglan hefur í nógu að snúast. Æska Marion og dvöl á bæði Vífilsstöðum og dönsku berklahæli blandast einnig inn í söguna og sú forsaga er allítarleg.

Höfundi virðist oft, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, fullannt um ýmiss konar fróðleik sem hann hefur sankað að sér. Það getur skiljanlega verið erfitt að sleppa hendinni af þess háttar hlutum og vissulega gagnast staðreyndamolar oft til að gefa frásögn lit og trúverðugleika. Þeir eru þó oft óþarflega margir í bókinni, m.a. má nefna upplýsingar um heiti berklalyfja sem koma sögunni í raun ekki við og ítarlega lýsingu á því hvernig ferðalagi Marion á berklahælið í Kolding var háttað, svo dæmi séu nefnd. Ferðinni milli Kaupmannahafnar og Kolding er t.d. lýst svona:

7. nóvember 2011

Útópískt barnasamfélag á gulnuðum blaðsíðum

Stundum þegar ég er búin að lesa mjög áhrifamiklar bækur, svona bækur sem soga mann inn í aðra veröld, treysti ég mér ekki beint í nýja skáldsögu. Fyrir mér væri það einhvern veginn eins og að fljúga heim frá Kína og leggja svo beint af stað til Suður Ameríku. Á svona tímapunktum getur verið gott að grípa í bækur sem maður getur rennt í gegnum á 1-2 dögum, reyna ekkert á mann og eru svo hlutlausar að þær virka eins og stutt millilending þar sem maður nær úr sér mestu þotuþreytunni áður en haldið er á næsta áfangastað. Á þessum stundum í lífi mínu virðist ég alltaf leita aftur og aftur í sömu bækurnar. Þetta eru nær undantekningalaust gamlar barnabækur sem tilheyrðu mömmu minni og systkinum hennar og ég fann einhvern tímann í bernsku í bókahillunum hjá ömmu. Allra oftast leita ég á náðir Baldintátubóka Enid Blyton og þótt þær bækur hafi enn tilætluð áhrif finnst mér þær eiginlega verða merkilegri og merkilegri því oftar sem ég les þær.

Eftir því sem ég kemst næst skrifaði Enid Blyton fjórar bækur um baldintátuna Elísabetu Halldórsdóttur og þrjár þeirra komu út á íslensku á árunum 1959-1961, Baldintáta: Óþægasta telpan í skólanum, Baldintáta kemur aftur og Baldintáta verður umsjónarmaður. Ég á bara tvær síðustu bækurnar en las þá fyrstu einu sinni, kannski tíu ára gömul, þegar hún dúkkaði óvænt upp á Borgarbókasafninu (en sást svo aldrei aftur). Bækurnar fjalla sem sagt um fyrrnefnda Elísabetu sem er einkabarn foreldra sinna og svo óstýrilát að barnfóstran hennar segir upp. Hún er þá send í heimavistarskólann Laufstaði þar sem hún er staðráðin í að haga sér svo illa að hún verði rekin heim. En viti menn, þegar allt kemur til alls líkar henni vistin svo vel að hún fellur frá áformum sínum, nýtur þess að umgangast hin börnin í skólanum, lendir í alls kyns ævintýrum, gerir slatta af mistökum en verður líka vinsæl og vel liðin. Þetta eru sem sagt einfaldar bækur að forminu til og minna á allar aðrar skólasögur (til dæmis Harry Potter). Það sem gerir bækurnar sérstakar er hin útópíska jafnaðarstefna sem þar er boðuð af miklum þunga og ákafa.

6. nóvember 2011

Íslenskur náttúruhryllingur: Hálendið eftir Steinar Braga

Óhugnarlegar hendur.
Koverið minnir mig á atriði úr
Baywatch Nights-þætti.
Nýjasta skáldsaga Steinars Braga, Hálendið, fjallar um tvö pör sem fara saman í ferðalag upp á hálendið, týnast í þokunni einhvers staðar norðan við Vatnajökul og eyðileggja bílinn sinn. Pörin eru ekkert sérstaklega vön að bjarga sér í náttúrunni, þau eru borgarplebbar á stórum jeppa sem fóru í ferðalagið til að grilla humar og drekka sig full í stórbrotinni náttúru. Inn í hryllingssöguna af týndum ferðalöngum fléttast persónuleg saga þeirra. Þau eru, eins og persónur í bókum Steinars Braga eru gjarnan, alveg dásamlega fucked-up. Sem betur fer, því það er miklu skemmtilegra að fylgjast með samskiptum og sjálfsskoðun þannig persóna í erfiðum aðstæðum. Sögupersónur, þá ekki síst karlarnir sem eru frekar vafasamir góðærisgæjar, eru líka settar í samhengi við hrunið og andrúmsloftið sem var ríkjandi fyrir það, en það gefur sögunni einhvern veginn enn óhugnarlegra yfirbragð.

4. nóvember 2011

Af bókamessu í Helsinki. Bækur, fudge og fleiri bækur

Sofi Oksanen talar við Rosu Liksom.

Það mætti gríðarmargt segja af tveimur dögum á bókamessunni í Helsinki og ekki bara um bækur, því einnig stóðu yfir matar-, vín- og tónlistarmessur í húsinu. Svæðin voru ekki skýrt afmörkuð svo við röltum mis-markvisst á milli, skoðuðum bása og skoðuðum fólk, sem bókstaflega leit mismunandi út eftir svæðum – hinn almenni vínmessugestur reyndist t.d. allt öðruvísi klæddur og stemmdur á að líta en fólkið sem hélt sig bókamegin. Á matarsvæðinu voru haugar af osti og fjöll úr nammi, m.a. bás með bresku fudge-i í þúsund litum og brögðum (og ég svo upptekin við át með augunum að ég tók ekki einusinni mynd!). Mest vorum við á bókasvæðinu, þar sem viðtöl og pallborðsumræður og kynningar fóru fram á sviðum og bókabúðir og forlög voru með útstillingar. Eistland var þemaland messunnar í ár, en einhvernveginn tókst mér þó að missa alfarið af öllum Eistlandstengdu viðburðunum. Í ár er einnig 100 ára afmæli teiknimyndasögunnar í Finnlandi (hvernig sem það er annars reiknað), svo fullt af myndasögutengdu efni var í boði og sáum við slatta af því. Á barnasvæðinu var rosa fínn bókabíll og á fullorðinssvæðinu svignaði stórt borð undan þýddum Paulo Coelho á niðursettu verði. Svo eitthvað sé nefnt.

Bókmenntir á alþjóðlegri afmælisráðstefnu RIKK

Í dag og á morgun, 4.-5. nóvember, fer fram við Háskóla Íslands alþjóðleg afmælisráðstefna Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum. Þetta er heljarinnar ráðstefna, með þremur erlendum lykilfyrirlesurum og tuttugu málstofum, þar á meðal nokkrum sem tengjast bókmenntum sem eru hver annarri meira spennandi. Þær eru:

Á rauðum sokkum: baráttukonur segja frá, sem fer fram eftir hádegi í dag. Málstofan er haldin til að fagna útgáfu bókar um Rauðsokkahreyfinguna eftir þrettán rauðsokkur og þar munu rauðsokkur og fræðimenn ræða baráttu og árangur hreyfingarinnar, form hennar og uppbygingu, og bókina sjálfa.

Ljóð kvenna, sem fer fram á sama tíma. Þar verður rætt um ljóðagerð Herdísar Andrésdóttur, Halldóru Kristínar Thoroddsen, Ingunnar Snædal og ítalskra kvenfútúrista.

3. nóvember 2011

Mjólkurfernukveðskapur

Játningar mjólkurfernuskálds eftir Arndísi Þórarinsdóttur fjallar um 13 ára stelpu, Höllu, sem er gripin með fíkniefni og rekin úr skóla. Í kjölfarið missir pabbi hennar vinnuna og hún flytur í nýtt hverfi með feðrum sínum tveimur og hefur nám í nýjum skóla. Halla hefur alltaf verið mikill fyrirmyndarnemandi og í alla staði ólíkleg til að gerast fíkniefnasali. Hún er hins vegar treg til að gefa nokkra skýringu á því sem hafði gerst og þegar líður á bókina fáum við loksins svarið við því. Í bókinni er sagt frá því hvernig henni gengur að fóta sig í nýja skólanum, þar sem orðsporið hefur orðið á undan henni og allir líta á hana sem vandræðaungling.

Halla virðist þroskast heilmikið á því að takast á við nýja hluti og hún fær nýja sýn bæði á sjálfa sig og heiminn í kringum sig. Hún verður víðsýnni og fer að hugsa meira sjálfstætt. Okkur fannst takast vel að sýna þetta þroskaferli. Sumir hafa haft orð á því að sögupersónurnar í bókinni, bæði Halla og margir aðrir krakkar, virtust óeðlilega þroskaðar miðað við að eiga að vera 13-14 ára. Það vill svo til að önnur okkar er einmitt sjálf 13 ára og tekur undir þessa gagnrýni. Það eru ýmis áhugamál sem krakkarnir í bókinni hafa eða hlutir sem þau velta fyrir sér sem 13 ára krakkar eru ekki mjög líklegir til að vera farnir að hugsa um, þótt það geti auðvitað alltaf verið til einstaka undantekningar. En svo má velta fyrir sér að hve miklu leyti þetta kemur að sök, það væri svo sem verra ef þau væru óvenju barnaleg. Sögupersónur, hvort sem er í bókum, kvikmyndum eða leikritum, þurfa jú að vera áhugaverðar og eru þá gjarnan klárari og sniðugri en meðaljóninn. Ýmislegt í söguþræðinum var líka ótrúverðugt, til dæmis hvernig kennarar komast upp með að leggja nemendur í einelti og hvernig Halla hegðar sér í sambandi við dópmálið. Eins er það ótrúverðugt, og frekar skoplegt, hversu mikil áhrif það að hafa fengið ljóð birt á mjólkurfernu virðist hafa á ímynd Höllu. Pabbar hennar eru óumræðilega stoltir af þessari ljóðabirtingu og einhvern veginn er það að vera mjólkurfernuskáld talið ósamrýmanlegt því að vera vandræðaunglingur.

Bókin er þegar á heildina er litið skemmtileg og við teljum óhætt að mæla með henni. Hún er á lipru og góðu máli sem rennur mjög eðlilega úr munnum 13 ára unglinga, laust við alla tilgerð. Hvorki er farið út í að rembast við að nota óþarfa slangur sem talið er dæmigert fyrir aldurshópinn (og getur stundum komið mjög afkáralega út í meðförum fullorðinna rithöfunda) né er málið stirt eða óeðlilega fullorðinslegt.

  VÉDÍS MIST AGNADÓTTIR OG

2. nóvember 2011

Tvær bækur eftir Audrey Niffenegger

Versta spurning sem ég fæ er „Hver er uppáhaldsbókin þín?“. Mér finnst hún vond afþví það er ekki séns í helvíti að ég geti valið bara eina, og líka afþví ég er ekkert endilega viss um að þær bækur sem mér finnast bestar séu endilega eitthvað mikið betri en aðrar bækur sem mér fundust bara skítsæmilegar.

Því ég held að þetta snúist nefnilega oft um það hvort maður lesi rétta bók á réttum tíma. Stundum er maður móttækilegur fyrir bók og stundum ekki, og ég veit t.d. að í mínu tilviki þá las ég fullt af bókum alltof ung og fannst þær glataðar, afþví ég skildi þær hreinlega ekki alveg, sem skemmir þær fyrir mér þó ég taki þær aftur upp síðar. Að sama skapi las ég fullt sem mér fannst alveg frábært þegar ég var 9 ára, sem stenst svo kannski ekki alveg kröfur mínar í dag.

En hvað um það. Þó ég reyni í lengstu lög að forðast að svara spurningum um uppáhaldsbækur þá eru það samt alltaf sömu bækurnar sem koma upp í hugann. Ein af þeim er The Time Traveler´s Wife eftir Audrey Niffenegger (eða Kona tímaflakkarans einsog hún heitir í íslenskri þýðingu).

1. nóvember 2011

Ofsafengin leit að sannleikanum

 „Skáldskapur er að mínu viti ekki uppspuni, hvað þá lygar, skáldskapur er ofsafengin leit að sannleikanum.“ Þessa fallegu og skáldlegu setningu, sem er á bls. 13 í Bernskubók, eiga örugglega margir eftir að vitna í (svona eins og oft er vitnað í HKL þegar tilvitnana er þörf) þegar fram líða stundir. Í bókinni er líka talað um „vefnað minninganna“ og þar má líka lesa að eldhúsið sé hjarta hvers heimilis.

Í Bernskubók lýsir Sigurður Pálsson uppvextinum á Skinnastað í Norður-Þingeyjarsýslu, sem var prestsetur þar sem var einnig stundaður hefðbundinn landbúnaður. Þar var líka símstöð, skóli og félagsmiðstöð þar sem fjölskyldan, vinnufólk, kaupafólk og fjölbreyttur hópur gesta hafðist við. Þarna römmuðu fastir liðir tímann inn, bæði hvunndaga og helgidaga. Sigurður er fæddur um miðja síðustu öld en foreldrar hans voru rígfullorðnir, pabbinn fæddur fyrir þarsíðustu aldamót og mamman skömmu eftir þau, þau voru fólk af kynslóð sem er eldri en afi minn og amma. Fólkinu sínu, foreldrum, systkinum og þeim sem þau umgangast lýsir Sigurður alveg sérlega skemmtilega og líka öllu umhverfi og andrúmslofti bernskunnar. Og þetta er allt svo léttilega stílað og mikil stemning í textanum að ég las bókina í tveimur rykkjum.

Nú er ég auðvitað algjör sökker fyrir þjóðlegum fróðleik, ævisögum og allrahanda sveitastemningarbókum en þessi bók náði alveg að sameina það áhugamál áhuga mínum á að lesa blogg ókunnugs nútímafólks um daglegt líf (svoleiðis las ég daglega fyrir nokkrum árum en því miður hefur slíkur blogglestur nokkurnveginn horfið úr lífi mínu). Þó að Sigurður sé, í þessari bók, allur í fortíðinni er hann samt alltaf með annan fótinn í okkar tíma. Hann rykkir lesandanum reglulega inn í nútímann með skemmtilegum vendingum en svo er maður mínútu síðar komin inn í andrúmsloftið sem hann endurskapar í lýsingum á tíma barns í sveit fyrir norðan uppúr miðri síðustu öld, já og þess á milli er gert örstopp í allt öðrum tíma; „Kannski er lykt af geitum mín madeleine-kaka.“ (bls. 183).

Í Bernskubók rifjar Sigurður Pálsson upp ýmislegt sem hann man og líka ýmislegt sem hann man ekki. Þegar hann var fimm ára dó Stalín, hann man ekkert eftir því enda var ekki haldin minningarathöfn á Skinnastað og foreldrar hans höfðu enga trú á Stalín. Hann man heldur ekki alþingiskosningar sama ár þegar engin kona náði kjöri. En hann man eftir og lýsir ferð til Reykjavíkur þegar hann var sex ára og þurfti að gangast undir uppskurð hjá mönnum sem höfðu þýtt Ezra Pound og Stefan Zweig.

Þó að orðið „ofsafengið“ komi fyrir í tilvitnun hér að ofan þá finnst mér það hugtak ekki beint eiga við um Bernskubók. Það sem Sigurður man – og man ekki – er með því ljúfasta sem ég hef lengi lesið.