23. febrúar 2010

Fyrirlestur um ferðir barna til miðalda

gasagatanFimmtudag, 25. febrúar, kl. 20, stendur Félag íslenskra fræða fyrir fyrirlestri í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3.  Þar flytur Brynhildur Þórarinsdóttir, rithöfundur og lektor í barnabókmenntum við Háskólann á Akureyri, fyrirlestur sem hún nefnir Bókmenntaverkfræði og samgöngubækur – Um brúarsmíði og ferðalög barna til miðalda.  Brynhildur ætlar að ræða um bókmenntaverkfræði út frá endursögnum sínum á Íslendingasögunum og nýjustu barnabók sinni Gásagátunni, sögulegri skáldsögu frá 13. öld. Rætt verður einnig um viðtökur barna við Íslendingasögunum og hvernig börn og fullorðnir geta gengið saman um hinar fornu slóðir bókmenntanna.

22. febrúar 2010

Matur og bækur og matreiðslubækur

Á laugardaginn, 27. febrúar, verður haldið málþing í Norræna húsinu um mat í bókum og matreiðslubækur. Þingið hefst með setningu Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra kl. 13.15 og síðan verða fluttir fyrirlestrar.

Dagskrána má  sjá á heimasíðu Norræna hússins.

20. febrúar 2010

Marklund og Patterson bjóða næringarsnauðan skyndibita

James Patterson og Liza Marklund ættu líklega að vera skothelt glæpasagnapar. Liza er gríðarvinsæll höfundur og Patterson hefur átt um fimmtíu bækur á metsölulista New York Times, af bókum hans hafa selst einhver skrilljónhundruðmilljón eintök. Í Aftonbladet stendur að fimmtánda hver innbundin bók sem seldist í Bandaríkjunum 2007 hafi verið eftir hann, þetta ár var hann söluhærri en John Grisham og Stephen King til samans.

Ég hef aldrei lesið bók eftir James Patterson og aðeins eina hef ég lesið eftir Lizu Marklund. Eftir lestur Póstkortamorðanna er ég efins um að ég nenni að lesa meira eftir þau. Bókin fjallar um röð subbulegra morða sem framin eru á pörum í evrópskum stórborgum en morðingjarnir senda á undan viðvörunarpóstkort til blaðamanna. Persónulýsingar eru allar mjög illa gerðar, fólkið almennt óáhugavert (ein aukapersóna er þó undantekning), kaflarnir eru örstuttir og málið á bókinni einfalt, en ég geri ráð fyrir að það sé miklu einfaldara á útlensku því þýðandinn, Guðni Kolbeinsson, bjargar algjörlega því sem bjargað verður í þessari bók og kemur virkilega sterkur til leiks.

Nú halda kannski lesendur þessa bloggs að ég sé geðvond og fordómafull út í metsölubókmenntir en það er kolrangt. Ef gluggað er í erlenda gagnrýni sem umrædd bók hefur fengið þá hefur henni bókstaflega verið rústað. Rýnir Gautaborgarpóstsins hallast að því að Marklund og Patterson hafi skrifað glæpasögu fyrir tólf ára krakka með áhuga á blóði og smekklausum kynlífslýsingum og segir Póstkortamorðin mest óspennandi spennubók sem hann hefur komist yfir um leið og hann spyr hvað höfundunum gangi eiginlega til með því að senda þetta frá sér. Hann veltir því fyrir sér hvers vegna Liza Marklund, sem hefur skapað sér orðspor sem þokkalegur glæpasagnahöfundur, taki sénsinn á að vinna með maskínu á borð við Patterson og segir í leiðinni að þessi spurning sé það eina sem hélt honum vakandi yfir þessari bók. Marie Tetzlaff hjá Politiken vísar í blaðamann Expressen og kallar Póstkortamorðin „hamborgarabókmenntir“ og þá er ekki átt við neinn djúsí þynnkuborgara heldur seigt amerískt hakk í einföldu norrænu brauði. Lotta Olsson hjá Dagens nyheter trompar eiginlega slátrunina en hún segir um bókina að hún »slår alla rekorder i idioti«. Það sem fer mikið fyrir brjóstið á Lottu eru fordómar fyrir listum, en aðalpersónu bókarinnar, afbrotafræðinginn Dessie Larsson, segir hún bergmála grunnhyggni og heimskulega fordóma fyrir nútímalist. Lars Ole Sauerberg hjá Jyllands-Posten líkir bókinni við flugvél sem er á sjálfsstýringu og kvartar yfir skorti á tilþrifum í stíl áður en hann gefur henni tvær stjörnur.

Það vita auðvitað allir glæpasagnalesendur að ákveðin frelsun getur verið fólgin í því að lesa meira eða minna fyrirsjáanlega reyfara. Stundum er bara svo þægilegt að hugsa ekki neitt og láta sig pompa inn í heim snjallra leynilögreglumanna og sturlaðra morðingja í framandi heimshlutum eða næsta húsi. Þess vegna er skúffelsi hvað þessi bók er þunnur þrettándi. Það er reyndar í sjálfu sér áhugavert hvað hún er lapþunn því maður hefði aldeilis haldið að höfundar á borð við Marklund og Patterson væru með færustu glæpasagnaritstjóra heims sem einkaþjóna.

Ég tek hins vegar pípuhatt minn ofan fyrir Guðna Kolbeinssyni sem er stórskemmtilegur þýðandi. Reyndar finnst mér hann tala hið glæsilega vöruhús NK í Stokkhólmi niður með því að kalla það stórmarkað hvað eftir annað og við íslensku kaþólikkarnir tölum um heilagan Georg og drekann en ekki heilagan Göran, kanilbollur eru líka étnar í bókinni (kanelbulle er víst það sem kallað er falsvinur) en þetta, ásamt því að ákveðið ósamræmi er í þýðingum t.d. á staðarnöfnum, er nú bara eitthvað sem smásmugulegir þýðendur geta skemmt sér við að þrasa um yfir kaffibolla og sígarettu. Í þýðingu Guðna gengur maður að „rórillandi skrifborði“, himinninn er „skafheiður“ og maður er sagður „vendilkráka“.  Svoleiðis orðalag kemur mér í gott skap þannig að þegar upp er staðið sé ég ekkert eftir að hafa lesið Póstkortamorðin.

Þórdís

13. febrúar 2010

Horfðu á mig

Ég hef ítrekað orðið fyrir vonbrigðum með glæpasögur Yrsu Sigurðardóttur. Þótt grunnurinn hafi gjarnan verið efnilegur, söguefni t.d. álitlegt, sögusviðið áhugavert og aðalpersónan Þóra frekar skemmtileg, hefur úrvinnslan hvað eftir annað verið ófullnægjandi. Stundum hafa verið svakalegar gloppur í frásögninni, stundum hafa veigamiklar persónur hegðað sér óbærilega fram úr hófi heimskulega, lausnin á Auðninni, ef lausn skyldi kalla, var agalegt guð-úr-vélinni-drasl og svona gæti ég haldið áfram um stund.

Það kom því skemmtilega á óvart að nýjasta bókin, Horfðu á mig sem er fimmta glæpasaga Yrsu, er allvel heppnuð og laus við verulega pirrandi parta – nema minniháttar endurtekið atriði frá fyrri bókum en kveinstafirnir yfir því eru neðanmáls.*

Þar sem ég hef takmarkaðan áhuga á draugasögum leist mér ekkert yfirmáta vel á upphafið þar sem svo virðist sem barnapía gangi aftur, jafnvel þótt kaflinn sé vel skrifaður og hrollvekjandi, en ég tók hann í sátt enda er unnið mjög vel úr málinu og þráðurinn vel til lykta leiddur en jafnframt skilinn eftir skemmtilega opinn.

Plottið er það besta við bókina: sagan er heilsteypt og þræðirnir fléttast vel saman, en persónurnar og söguefnin líka spennandi. Vonandi veit þetta á gott um framhaldið.

Erna

-------------------------------------
* Allt frá fyrstu bók hef ég furðað mig á því að Þjóðverjinn sem Þóra er í tygjum við skuli heita Matthew. Við lesturinn á hverri einustu bók hef ég beðið eftir skýringu á þessari ó-þýsku nafngift og t.d. séð fyrir mér þann möguleika að einhver sögupersónan furðaði sig á henni og þá kæmi í ljós að maðurinn ætti enska móður, svo einfalt dæmi um mögulega lausn sé nefnt. Það hefur ekki gerst þannig að ég hef ekki farið ofan af þeirri skoðun að þetta sé leiðindaklúður sem sé til marks um þann hugsunarhátt að samasemmerki sé milli útlensku og ensku. Það kom ekki á óvart að uppgötva að málunum var bjargað í þýsku þýðingunum, þar er maðurinn víst látinn heita Mathias.

12. febrúar 2010

Allir miðaldra karlmenn eiga líkama

Nektarmyndin

Það er að verða sérstakt einkenni á þeim bókafærslum sem ég á aðild að hér að byrja á að lýsa því yfir að ég hafi haldið að viðkomandi bók væri unglingabók. Það er samt ekki svo undarlegt þegar Nektarmyndin eftir Helga Jónsson er annars vegar, því Helgi hefur einkum verið afkastamikill unglingabókahöfundur frá því á 9. áratug síðustu aldar – auk þess sem kápumyndin er kannski meira á þeirri línu. En Nektarmyndin er semsé titluð önnur skáldsaga Helga.

Nektarmyndin segir frá Fjólu Lind, fjórtán ára stelpu úr Hafnarfirðinum. Hún býr með bróður sínum og drykkfelldum foreldrum, sem henni finnst ekki veita sér næga athygli. Einn daginn nálgast hana ljósmyndarinn Valur og vill fá að taka af henni nektarmyndir. Hann sannfærir hana með skjalli og loforðum um frægð og peninga og svo fer að grófar nektarmyndir af Fjólu birtast í tímaritinu Sætum stelpum. Það hefur í för með sér mikla reiði foreldra hennar og Arnaldar unnusta hennar. Skömmu síðar finnst ljósmyndarinn myrtur í íbúð sinni og lögreglufólkið Róbert og Lára byrja að rannsaka málið. Sögunni af Fjólu og sögunni af morðrannsókninni vindur samhliða fram svo hoppað er fram og til baka í tíma og málið skýrist smám saman

Svo ég dragi það saman strax er Nektarmyndin ekki góð bók. Persónurnar eru allar bæði óaðlaðandi og ótrúverðugar, það er helst að hægt sé að hafa samúð með hinni týndu táningsstúlku Fjólu Lind. Ég verð að nefna sérstaklega persónu Arnaldar, sem flakkar á milli upploginna morðjátninga, rasísks kjaftháttar við Pólverja í bíó og hlutverks hins elskandi unnusta á mjög furðulegan hátt. Samtöl eru stirðlega skrifuð, tungutak persónanna er til skiptis hátíðlegt og tilgerðarlega hrátt. Sakamálasagan er kaotísk og óspennandi, allt of margir eru kynntir til sögunnar og liggja undir grun á víxl af óljósum ástæðum. Þar að auki er bókin illa frágengin og varla prófarkalesin að neinu ráði, víða vantar jafnvel heil orð inn í textann.

Ef tekið er mið af káputexta aftan á bókinni ætlar Helgi sér að fjalla hér um klám, framleiðslu þess og neyslu, en er engan veginn nógu góður höfundur til að standa undir viðfangsefninu. Klámljósmyndarinn Valur stjórnast til að mynda hvorki af kynferðislegum hvötum né gróðalöngun við iðju sína. Nei, Valur er undir áhrifum af því að hafa misst báða foreldra sína og yngri bróður fyrir aldur fram og myndatökur hans af útglenntri píkunni á ungum stúlkum hafa því þann ljóðræna tilgang að storka dauða og hrörnun, eða svo við gefum Vali sjálfum orðið: „Ég vil bara að það sé morgunljóst að hlutverk mitt í þessu lífi er að fanga fegurðina meðan hún varir. Hennar nýtur við svo ógnar skamma stund. Tréð úti í garði er orðið aldargamalt fyrr en varir. [...] Ég er ekki vondur. Ég er misskilinn. Það er sál mín og synd.“ (85, skáletrun höfundar)

Efnið verður oft hreinlega óþægilegt í meðförum Helga, til dæmis í hinni dularfullu yfirskrift aftan á bókarkápu, „Allar stúlkur eiga líkama“, en ekki síður í gáskafullum kvenlýsingum: „En í sömu andrá gekk framhjá þessum öldnu vinum ung stúlka, léttklædd svo ekki varð um villst að hér var á ferð kona með brjóstin stór og stæðileg“ (12) og um skólastjóra Fjólu Lindar: „Stýran stórbrjósta dregur upp krumpað bréfsnifsi.“ (164)

Textinn er stútfullur af samtímavísunum sem sumar eru eins og teknar út úr stúlknablaðinu Júlíu; Miley Cyrus, Zac Efron og allir hinir krakkarnir í High School Musical koma oft við sögu en aukinheldur bresta reglulega á heilu efnsigreinarnar með upptalningum á frægum konum sem setið hafa fyrir naktar: „Isabella Adjani, Sharon Stone, klofbrött í Basic Instinct, Sophie Marceau, Kelly Macdonald, Kristin Scott Thomas og Charlize Theron. [...] Uma Thurman, Kate Winslet, Drew Barrymore, Salma Hayek, Rachel Weisz, Asia Argento, Julianne Moore, Halle Berry, Jodie Foster, Natalie Portman“. (74-75)

Aðalsmerki Helga og það sem gerir bókina að nokkru leyti skemmtilega aflestrar er hins vegar mjög sérkennilegur stíll, sem ég hef hvergi séð neitt í líkingu við áður. Hann beitir fáum stílbrögðum en sígildum: rím notar hann oft en ennþá meira stuðlar hann og stundum tekst hann á slíkt flug að lesandinn veit ekkert hvernig það mun enda. Öll bókin er full af stuðluðum og ofstuðluðum línum en ég hef safnað saman nokkrum góðum dæmum og skýri samhengið jafnóðum:

Unga kona ákveður að ganga í lögregluna eftir að hafa orðið fyrir nauðgunartilraun: „Hún ætlaði að forða öðrum frá fáránlegu fláræði hins frumstæða.“ (31-32)

Par nær aftur saman yfir rómantískum kvöldverði: „Seddan var bara forrétturinn. Heima beið þeirra eftirrétturinn: greddan.“ (70)

Fyrrum eiginkona ljósmyndarans segir frá grunleysi sínu um framhjáhald hans: „Ég var alveg grandalaus, þótt við byggjum úti á Granda.“ (83)

Fjóla Lind messar yfir foreldrum sínum: „Ég ætla að verða fræg og rík. Ég ætla ekki að þræla hér á galeiðunni alla ævi, skítblönk og sjúskuð, neiónei, ég vil frægð og frama því ég er ferlega flott dama.“ (144)

Róbert lögreglumaður yfirheyrir dópistann Davíð eftir að sá síðarnefndi hefur gengið í skrokk á kærustunni sinni:

„Þú kýldir kærustuna kalda, sagði Róbert yfirvegaður.
Hættu að pirra mig, sagði Davíð og draup höfði.
Þú lamdir ljúfuna í blóðugt buff!“

(151)

Að lesa röskar 250 blaðsíður af þessum sérstæða stíl hefur haft slík áhrif á mig að ég er orðin ofurnæm fyrir stuðlun og rími og á það til að grípa um höfuð mitt í örvæntingu þegar ég hef óvart gerst sek um annað hvort í daglegu tali. Ég ætla að enda á einni skemmtilegustu lýsingu bókarinnar, þegar Fjóla Lind og Arnaldur koma heim úr bíó og hyggjast njóta lystisemda holdsins. Það er mesta synd að bókaklúbburinn Krummarnir séu búnir að veita verðlaunin sín fyrir bestu kynlífslýsingu ársins 2009 því þessi hefði sannarlega átt erindi á verðlaunapall:

„Bæði hentust upp í rúm og fötin flugu líka. Ekkert rautt ljós núna. Bara gapandi grænt og gult og fullt af greddu. Það var bara eitt líf og einn heimur og þau voru ein í þessum hormónaheimi sem var svo æðislegur fyrir hálfvita því þau hvorki heyrðu né sáu. Þegar allt var um garð gengið, þegar Arnaldur var lagstur og límdur við lakið og sofnaðu sælli en spriklandi sæðisfruma og hans kelling og krúsídúlla slefandi lömuð og sæl við hliðina á honum, voru þau svo komin áleiðis í annan heim að þau hefðu ekki hreyft sig þótt krókódíll skriði upp í til þeirra og nartaði í tippi og tær, tásur og pjásur.“ (95)

Kristín Svava

Svalið forvitni minni!

DahlstedtNabokov_Speak_MemoryWaxlerMemoirCvrRound2.indd

Oft hefur verið minnst á ævisögur og endurminningabækur á þessum slóðum enda er ævisagnalestur áhugamál margra okkar eða hreinlega ástríða og ævisögur raða sér gjarna á metsölulistana fyrir jólin. Stundum hneykslast menn á ævisagnaþorstanum, telja hann til vitnis um hnýsni og óþarfa forvitni um náungann. En ævisögur og endurminningabækur eru auðvitað margskonar og forvitni er líka mannkostur, í raun er heilbrigð forvitni hverjum manni nauðsyn.

Af eldri bókum eru endurminningar Hannesar Sigfússonar, Kristínar Dahlstedt, Benedikts Gröndals, Jóns Óskars og Eufemiu Waage í uppáhaldi hjá mér. Allar eru þær góð heimild um menningu, tíðaranda og mannlíf á tímum aðalpersónanna. Af erlendum endurminningabókum sem ég held upp á man ég í svipinn til dæmis eftir Speak Memory! Eftir Vladimir Nabokov og í sumar las ég ævisögu Hitlers og skrifaði um hana hér.

Sveinn Skorri Höskuldsson heitinn, sem kenndi mér nokkur námskeið við Háskóla Íslands, sagði einu sinni að stóri gallinn við ævisögur væri að maður fengi sjaldnast að vita það sem mann langaði raunverlega mest að vita um aðalpersónuna. Sitthvað er til í þessu, það er afar fátítt að fólk sjái sér fært að leggja öll spil á borðið, fyrir því liggja ýmsar ástæður og menn ritskoða meira að segja eigin dagbækur sem aldrei er ætlunin að komi út.

En spurningar dagsins eru eftirfarandi: 1) Hver er uppáhaldsævisagan þín og 2) hvaða manneskja, sem ekki hefur gefið út ævisögu sína, langar þig til að setjist niður og skrái lífshlaup sitt?

Þórdís

11. febrúar 2010

Holmes leysir gátuna!

Jerry Faces 11_10_2005_nonamesÉg er mikill reyfaraaðdáandi og er meira að segja í reyfaraklúbbi til að fá útrás fyrir þessar glæpsamlegu hneigðir. Um daginn ákvað klúbburinn að fara „back to the roots“ og lesa um frægasta og mögulega færasta ráðgátuleysara allra tíma – Sherlock Holmes. Fyrir valinu varð Hound of the Baskervilles eða Baskerville hundurinn sem kom út árið 1902. Höfundur Holmes, Arthur Conan Doyle, hafði reyndar nokkrum árum áður fengið sig fullsaddan af Holmes hvurs frægð og vinsældir ætluðu engan endi að taka. Doyle reyndi því að drepa sköpunarverk sitt í The Final Problem (1893) þar sem Holmes og erkióvinur hans Professor Moriarty takast á á bökkum Reichenbach fossins í Sviss með þeim afleiðingum að báðir falla í fossinn.

Þetta tiltæki vakti ekki mikla lukku aðdáanda Holmes (sem sumir tóku upp á að ganga með sorgarbönd) og Doyle var undir stöðugum þrýstingi að vekja hann upp frá dauðum - bæði frá æstum aðdáendum sem og gráðugum útgefendum. Árið 1901 heyrði hann á ferðalögum sínum þjóðsögu sem varð grunnurinn að Baskerville hundinum en þegar skrifin hófust vantaði hann sögumann og ákvað að lokum að fá Holmes og hans dygga aðstoðarmann Watson til verksins. Doyle leysti vandann sem dauði Holmes skapaði með því að láta söguna gerast áður en hann féll í fossinn.

En nokkru síðar lét Doyle svo undan þrýstingnum og dró Holmes upp úr fossinum í The Adventure of the Empty House sem á að gerast 1894. Árin á milli 1891 og 1894 eru oft nefnd The Great Hiatus af Holmes aðdáendum og eru til margar skemmtilegar útskýringar á því hvað hann hafði fyrir stafni þessi týndu ár. Ein sú áhugaverðasta snýr að því að Holmes hafi verið í fíkniefnameðferð hjá Sigmund Freud en eins og margir vita var spæjarinn frægi hallur undir kókaín og heróín en heldur dró úr neyslu hans í síðari bókunum.

Í Baskerville hundinum er Holmes hins vegar í essinu sínu og er Dr Watson gjörsamlega gáttaður á snilli meistara síns. Að vanda er það Watson sem segir söguna og byggir hana á dagbókarbrotum sínum og bréfaskriftum við Holmes. Málið snýst að þessu sinni um bölvun sem hvílir á Baskerville ættinni þar sem allir eigendur ættaróðalsins sjá risastóran froðufellandi hund skömmu áður en þeir mæta óútskýranlegum og óhugnanlegum dauðdaga. Öll sveitin trúir þjóðsögunni og jafnvel hinn jarðbundni Watson lætur blekkjast um stundarsakir – en ekki Sherlock Holmes! Hann leysir gátuna með vísindalegum aðferðum og meistaralegri afleiðslu.

Auðvelt er að sjá hversu mikla skuld vinsælir glæpaþættir nútímans á borð við CSI eiga Holmes og aðferðarfræði hans að gjalda. En tímarnir eru óneitanlega breyttir og það sem kom Holmes á slóðina rétt fyrir aldamótin 1900 myndi kannski ekki hjálpa mikið skömmu eftir aldamótin 2000. Þar má t.d. nefna hæfni hans til að rekja sígarettustubba til upprunans sem var áhrifaríkara þegar hver tóbakssali vafði sínar eigin sígarettur. Þá má ekki gleyma meistaralegum dulargervum Holmes en þau eru svo góð að jafnvel Watson þekkir ekki húsbónda sinn fyrr en hann heyrir rödd hans hljóma.

Ómögulegt er að setja sig almennilega í spor 19. aldar lesanda og átta sig á því hvort það eru sömu þættir sögunnar sem vöktu lukku þá og nú. Sjálf verð ég að játa að það er síður plottið sem heldur mér en dýrðlegar lýsingar Watson á Holmes: „[Holmes] burst into one of his rare fits of laughter as he turned away from the picture. I have not heard him laugh often, and it has always boded ill to somebody.“

Þá má hafa talsvert gaman af hugmyndinni um um Englendinginn sem háþróaðasta eintak jarðarbúa sem óneitanlega skín víða í gegn (þótt nýlendustefna Breta sé kannski ekkert gamanmál). Þeim Holmes og Watson þykir til að mynda ágætis hugmynd að senda sérlega ofbeldisfullan raðmorðingja til Suður-Ameríku – svo lengi sem Englendingar eru óhulltir er allt í orden! Þá kemur fyrir ótrúlega hress samanburður á færni til að greina leturgerðir dagblaða og beinabyggingu kynþátta.

Holmes er sjálfur mesta ráðgáta sögunnar – hrokafullur og hégómagjarn, einrænn og dulur – eins og Watson þreytumst við seint á að dást að honum. Ég átta mig ekki alveg á hvort ég les í lýsingum á Holmes einhvern vott af íróníu sem Doyle hefði aldrei kannast við eða hvort verið geti að höfundurinn hafi brosað út í annað þegar hann dustaði rykið af þessari persónu sem hann hélt hann hefði komið undir græna torfu...

Maríanna Clara

Hver er Rune Michaels?

Rune Michaels er höfundur sem gefur út vel metnar unglingabækur hjá Simon&Schuster (sem er eitt fjögurra stærstu forlaga heims ef marka má Wikipediu). Á heimasíðu forlagsins má sjá að eftir höfundinn hafa komið tvær bækur og að sú þriðja sé væntanleg í ágúst.

Á heimasíðu Rune Michaels kemur fram að þýðingarréttur verkanna hafi verið seldur til Frakklands, Þýskalands, Kóreu og Portúgal og einnig má þar lesa að hún sé menntuð við Háskóla Íslands og búi í Reykjavík.

Fréttaritari Druslubóka og doðranta hefur rökstuddan grun um að Rune Michaels sé íslensk kona sem skrifar undir dulnefni. Kannast lesendur við bækurnar eða höfundinn?

ÞG

10. febrúar 2010

Höfundahádegi í Norræna húsinu á mánudögum

halldor

Næstu vikur mæta rithöfundar í Norræna húsið í hádeginu á mánudögum og spjalla um nýleg verk. Á mánudaginn var ræddi Haukur Ingvarsson við Pétur Gunnarsson um bækur Péturs um Þórberg Þórðarson; ÞÞ í fátæktarlandi sem kom út árið 2007 og ÞÞ í forheimskunarlandi sem kom út fyrir jólin og fjallað hefur verið um á þessari síðu. Þetta var skemmtilegt spjall og hressileg frammíköll úr sal skemmdu ekki fyrir enda fátt gleðilegra en þegar fólki hitnar í hamsi þegar rætt er um bókmenntir.

Næstu mánudaga verður dagskráin svona:

Mánudaginn 15. febrúar ræða Jón Karl Helgason og Ármann Jakobsson um bókina Mynd af Ragnari í Smára eftir Jón Karl, en bókin kom út fyrir jólin.

Mánudaginn 22. febrúar segir Vilborg Davíðsdóttir frá tilurð nýrrar bókar sinnar Auður í spjalli við Jórunni Sigurðardóttur.

Mánudaginn 1. mars ræða Haukur Ingvarsson og Bergljót Kristjánsdóttir um bókina Andlitsdrættir samtíðarinnar sem Haukur sendi nýverið frá sér, en í henni er fjallað um síðustu skáldsögur Halldórs Laxness.

Höfundahádegin hefjast klukkan 12 á hádegi í sal Norræna hússins.

ÞG

Erfiljóð

Erfiljóð voru áreiðanlega vinsælasta grein tækifæriskveðskapar á Íslandi í margar aldir. Þessi tegund kvæða hefur  samt ekki fengið mikið pláss í bókmenntasögunni, líklega eru erfiljóðin ekki beinlínis góð heimild um hina látnu heldur frekar almennt oflof og oft óttalegur leirburður.  Í dag heyrist oft vitnað í erfiljóð Bjarna Thorarensen um Baldvin Einarsson, sem dó af brunasárum í Kaupmannahöfn 1833, Íslands óhamingju verður allt að vopni ... Flestir sem hafa þessi orð yfir vita örugglega ekkert hvaðan þau eru komin (enda kannski engin furða). Ég er illa að mér um erfiljóð en man þó eftir vísunni sem Álfgrímur í Brekkukoti orti eftir Snata sinn.

Blessaður hjartahundurinn
sem hundar allir lofa.
Svíf þú með hundum eingla inn
í einglahundakofa.

Þegar ég sló orðið erfiljóð inn í leitarvélina á timarit.is. Birtist meðal annars þetta:

erfiljod

Þórdís

6. febrúar 2010

Fréttir frá Bótoxlandi

Nora Ephron (fædd er 1941) er bandarískur handritshöfundur, leikstjóri, kvikmyndaframleiðandi, rithöfundur, blaðamaður og bloggari á Huffington Post. Flestir kannast líklega við hana vegna rómantísku vasaklútakómedíanna sem enda allar rosa vel; When Harry met Sally, Sleepless in Seattle, You´we got Mail, Heartburn og margar fleiri en hún hefur komið að einhverjum hellingi af þekktum myndum, nú síðast Julie & Julia. Nora er líka þekkt fyrir að hafa, á sínum tíma, verið gift blaðamanninum Carl Bernstein sem er karlinn sem fletti ásamt félaga sínum ofan af Watergate-hneykslinu á áttunda áratugnum.

Um daginn keypti ég bókina I feel bad about my neck and other thoughts on being a woman eftir Noru Ephron, sem ég rakst á í útsölubókahrúgu í Eymó. Þetta metsölugreinasafn (útgefið 2006) er í raun óttalega ómerkilegt. Bókin vakti mig þó til umhugsunar (um hluti sem ég er svosem alltaf að hugsa um) og hún er alls ekki leiðinleg.  Ég las allavega hverja einustu grein – þrátt fyrir allt er áhugavert að kynnast hugsun og hegðun kvenna sem eru helteknar af útliti og til í að láta kapítalista hirða stjarnfræðilegar upphæðir af sér í þeirri trú að þær líti fyrir vikið út fyrir að vera yngri og sætari.

5. febrúar 2010

„Fékk maður bráðasáðlát yfir því að vera aðaltappinn í PR deildinni hjá Glitni?“ Flottastur@feisbúkk veltir upp áleitnum spurningum

Guðrún Elsa og Kristín Svava lásu skáldsöguna Flottastur@feisbúkk eftir þá kumpána Helga Jean Claessen og Sölva Tryggvason. Hún fjallar um fyrrum bankamanninn Hákon Karl, eða Hákarlinn, sem neitar að horfast í augu við að góðærinu sé lokið og gerir það sem hann getur til að láta líta út fyrir að honum gangi allt í haginn, þótt hann sé fluttur úr „Skugga“(hverfinu) heim til móður sinnar og lifi á peningum sem hann stelur úr buddunni hennar.

KS: Mín fyrsta spurning eftir lestur þessarar bókar er: Handa hverjum er hún eiginlega skrifuð? Ég hélt fyrst að þetta væri unglingabók, en hún er það tæpast.

GE: Ég velti þessu líka fyrir mér. Nú er bókin eins konar ádeila á hugsunarháttinn sem einkenndi góðærið, en skáldsagan kemur náttúrulega út eftir hrun, þegar allir eru orðnir meðvitaðir um það hve súr sá hugsunarháttur var. Það er verið að sparka í liggjandi hugsunarhátt. (Eftir langa þögn) Ég held samt að bókin sé fyrir Audda Blö.

KS: Að sumu leyti minnir sagan mig á kvikmyndina Íslenska drauminn, en þar er líka í aðalhlutverki maður sem er fullur af innantómum en mjög háfleygum fyrirætlunum. Tóti í Íslenska draumnum er reyndar meiri lúser en Hákon Karl og meira sannfærandi persóna, en báðir eiga erfitt með að læra af mistökum sínum og eru fljótir að rísa upp aftur með enn stærri plön þótt þeir séu í rauninni með allt niðrum sig. Í Íslenska draumnum er svo annar karakter sem endar grenjandi í fangi móður sinnar eftir misheppnað múv í markaðssetningarbransanum, en Hákon Karl á einmitt eitt slíkt móment með móður sinni í lok bókarinnar.

GE: Á meðan á lestri stóð varð ég pirruð yfir því hvað aðalpersónan var óþolandi (sem hefur líklega verið ætlun höfunda), en það eru líka nokkur atriði fóru í taugarnar á mér vegna þess að mér þóttu þau ósannfærandi. Til dæmis það að hann prenti út af feisbúkk mynd af gellunni sem hann þráir og fari með hana upp í rúm. Hver prentar út mynd til að rúnka sér yfir henni? Nútímafólk fróar sér náttúrulega bara fyrir framan tölvuna.

David Hume
KS: Hákarlinn er að eigin mati mikill menningarviti og hæðist að fólki sem gerir ráð fyrir að hann sé „pappakassi“, það er innantómur einstaklingur, út frá ríkmannlegum klæðaburði hans. Hann er sí og æ að monta sig af því sem hann hefur lesið – aðallega Descartes, Locke og Hume. Nú veit ég ekki hvort þetta átti að vera svona asnalegt en mér finnst þessir menn ekki sannfærandi fulltrúar menningarkapítalsins hjá 21. aldar bankamanni. Hvaða leikmaður les Hume sér til skemmtunar, og hverjum finnst það töff?

GE: Svo má kannski minnast á það að Hákon Karl hittir „róttækling“ með rastahúfu á Saga Class (!) og kemur henni á óvart með því að vera fróðari en hún um umhverfisvernd og barnaþrælkun stórfyrirtækja. Þetta er blautur draumur frjálshyggjumanna sem myndu einmitt endilega vilja hitta hippalega stelpu á fyrsta farrými til þess eins að geta sagt: „þú ert á móti álverum, en flýgur þó í flugvél úr áli!“

KS: Bókin er alls ekki alslæm. Stíllinn er dálítið þreytandi einhæfur en bókin er ekkert illa skrifuð og er stundum fyndin. Eitt af því sniðugra eru tíðir feisbúkkstatusar Hákonar, sem eru alltaf á bæði ensku og íslensku og fullir yfirgengilegrar sjálfsblekkingar. Til dæmis þegar hann fer á Vinnumálastofnun að sækja um atvinnuleysisbætur en leggur fyrir framan Vox: Hákon Karl – The delicious chicken @ Vox always leaves you with the best of feelings J / Kjúklingabringan í basil sósunni skilur mann alltaf eftir með hlýjar tilfinningar. Eða þegar hann mætir einn á Ölstofuna og þykist þekkja hóp af ókunnugum mönnum til að lúkka ekki illa: Hákon Karl – Hanging with my boyz @ 101 – Með strákunum að djamma ...



GE: Það má finna það helst að bókinni hvað hún er léttvæg, bókin er alls engin þroskasaga vegna þess að Hákon lærir aldrei neitt af reynslunni. Það er enginn broddur í því að deila á gildi sem fólki þykja fáránleg í dag, þetta er eiginlega alltof auðvelt. Það vantar í rauninni eitthvað í bókina sem gerir það ómaksins vert að lesa hana frekar en meinhæðin blogg um útrásarvíkinga.
Kristín Svava og Guðrún Elsa

Bókatitlar ársins?

tálbeitaÍ gær var sagt frá því í vefútgáfu Independent að metfjöldi væri tilnefndur í vali The Bookseller á einkennilegustu bókatitlum síðasta árs en listinn verður opinberaður 19. febrúar. Meðal tilnefndra bóka eru An Intellectual History of Cannibalism, Collectible Spoons of the Third Reich og Is the Rectum a Grave?

Fyrir jól vakti titillinn Tálbeita Satans (sem er einhverskonar sjálfshjálparbók hafi ég skilið umræður á sjónvarpsstöðinni ÍNN rétt) athygli en að öðru leyti sitja nýlegir bókatitlar lítið í mér. Ef þið eigið uppáhaldstitla eða munið eftir einhverjum sérlega hallærislegum þá nefnið þá endilega, athugasemdakerfið er galopið.

Þórdís