26. febrúar 2011

Þrjú atriði sem gott er að hafa í huga áður en maður les Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson


Fyrir um það bil þremur vikum byrjaði ég að lesa Grámosinn glóir. Ég ætlaði að klára hana fyrir kennslustund á mánudegi og byrjaði að lesa helgina áður, en svo tókst mér bara að lesa um það bil sextíu blaðsíður vegna þess að ég sofnaði, ítrekað, á meðan á lestrinum stóð. Það var ekki að ástæðulausu sem ég sofnaði – ég fell iðulega í djúpt dá á meðan á löngum umhverfislýsingum stendur og svo fannst mér þetta líka allt saman svolítið ruglingslegt. „Af hverju eru elskendurnir sem voru í svona góðum fíling nokkrum blaðsíðum fyrr grátandi næst þegar þau hafa samfarir?‟ hugsaði ég önug rétt áður en ég sofnaði í þriðja skiptið. Jú, það var af því að þetta var ekki sama fólkið. Það eru tvö, jafnvel þrjú, pör af elskhugum í sögunni.

Jæja, nú ætla ég að hætta á það þessi færsla hljómi eins og kafli úr sjálfshjálparbókum á borði við þessa eða jafnvel þessa og koma með örfáar ábendingar til þeirra sem vilja lesa þessa ágætu bók.

1. Ég fékk heimapróf í vikunni sem krafðist þess að ég kláraði þessar tvöhundruð blaðsíður sem ég átti eftir af bók Thors. Ég úthlutaði sjálfri mér einn dag til að lesa bókina og svo óheppilega vildi til að ég þurfti líka að hjálpa mömmu í IKEA þennan sama dag – ég hafði ekki mínútu aflögu fyrir blund. Ráð: þegar þið lesið lýsingar á náttúrunni, sem skáldið „nemur með yrkjandi auga‟, gangið þá um gólf og lesið upphátt, helst með tilþrifum. Og verið alveg róleg, það er allt í lagi að gera þetta í almannarými, t.d. í IKEA – ef fólk má í sífellu vera blaðrandi í gsm-síma í kringum mann, þá má alveg lesa upphátt náttúruinnblásnar draumsýnir skálds í kringum þetta sama fólk. (Ég las að minnsta kosti tuttugu blaðsíður á meðan ég hjálpaði mömmu að velja skáp og leita að skóhorni). Upplestur gerir lýsingarnar skemmtilegri og enginn sofnar.

2. Sagan er hvorki í réttri tímaröð (allavega svona framanaf), né eru persónur kynntar til sögunnar með nafni. Þegar það eru tveir menn að ganga í náttúrunni í upphafi bókar, þá eru það Ásmundur sem er sýslumaður og skáld, og fylgdarmaður hans Þórir. Þeir eru á leiðinni austur á land, þar sem Ásmundur á að stjórna réttarhöldum yfir hálfsystkinunum Sæmundi og Sólveigu og dæma í máli þeirra. Í öðrum kafla bókarinnar „Laufskálaþætti‟, er Ásmundur í góðu stuði í Kaupmannahöfn, einhverju áður en hin eiginlega saga hefst (og Ásmundur fer til réttarhaldanna). Í þeim kafla er ein besta kynlífslýsing sem ég hef lesið – Ásmundur með ástkonu sinni. Í næsta kafla „Afmor‟ er ekki alveg jafn hress kynlífslýsing, en sá kafli fjallar líka um fyrrnefnd hálfsystkini og forboðna ást þeirra. Þetta eru aðalsöguþræðir bókarinnar, en inn á milli er sagt frá Svartármálinu svokallaða (Jón Jónsson drekkir óléttri ástkonu sinni í Svartá), en það er morðmál sem faðir Ásmundar hafði dæmt í stuttu áður og Ásmundur er að stúdera til að undirbúa sig fyrir komandi réttarhöld.

3. Það er líka gott að vita að bókin er byggð á sögulegum atburðum, Sólborgarmálinu svokallaða. Sólborg var ákærð fyrir að hafa átt mök við hálfbróður sinn og eignast með honum barn sem þau urðu svo að bana (ég segi ekki meir!). Einar Benediktsson skáld réttaði í málinu, en aðalpersónan, Ásmundur, er byggður á honum.

Jæja, nú takið þið fram eintökin ykkar af Grámosanum og einn tveir og byrja! Ég gef ykkur sólarhring. Þetta verður easy.

Guðrún Elsa

20. febrúar 2011

Friðlausir hvíldardagar

Ég var að klára að lesa fyrstu skáldsögu Braga Ólafssonar, Hvíldardaga, sem kom út hjá Bjarti árið 1999.

Bókin fjallar um mann (hvers nafns er ekki getið) sem vinnur á lager, en hefur verið skikkaður af yfirmanni sínum til að taka þriggja mánaða sumarfrí sem hann á inni. Hann hefur í raun engin plön fyrir sumarfríið, en honum dettur í hug einn laugardag að fara í Heiðmörk, aðallega vegna þess að hann fær samviskubit yfir því að hafa logið því að frænku sinni sem vildi bjóða honum í mat, að hann væri að fara út á land. Hann er ekki kominn lengra en á Hringbrautina þegar bíllinn hans bilar, þannig að hann hættir við ferðina. Svona reynist líf hans að miklu leyti vera – það er alltaf eitthvað að gerast, eitthvað eða einhver sem hefur ófyrirsjáanleg áhrif á líf hans þegar hann vill raunverulega bara fá að vera. Vera í friði, vera til.

Bók Braga er bæði fyndin og erfið. Við fylgjumst með viku í lífi aðalpersónu og frásögnin er í fyrstu persónu þannig að við kynnumst bæði því sem hann gerir og hugsar. Mér fannst ég oft skilja þennan mann vel, ég fann jafnvel til með honum, en á sama tíma þoldi ég hann ekki. Lesandi fær að sjá í honum alla þessa smávægilegu og hlægilegu galla sem ég held að allir hafi upp að vissu marki, en eru svo fáránlegir að við viljum ekki að aðrir komist að því að við höfum þá. Hann hugsar til dæmis óþarflega mikið um það hvað aðrir séu að hugsa, eyðir töluverðum tíma í langa og ítarlega dagdrauma um það hvernig það væri að þekkja fólk sem hann þekkir ekki og hann á erfitt með að taka einfaldar ákvarðanir. Hann segir meinlausar lygar til að komast hjá því að hitta fjölskyldu sína og eyðir mikilli orku í það að komast hjá því að gera hluti, en endar auðvitað á því að eyða meiri tíma og orku í undanbrögð og fresti heldur en það hefði tekið að gera hlutinn bara strax. En það eru þessi smávægilegu, hlægilegu atriði sem eru uppistaðan í aðalsögupersónu og í raun meginefni bókarinnar. Og maður hlær og engist um til skiptis.

Annars fannst mér bara mjög gaman að lesa þessa bók Braga, mér fannst alveg fáránlegt að hafa ekki lesið neina af skáldsögum hans eftir að ég sá leikritið Hænuungana (sem er einmitt líka eftir hann) um daginn og skemmti mér konunglega. Ég held ég lesi fleiri.

P.s. Ég er nýbúin að kynnast svokölluðum tumblr-síðum og mér finnst vel við hæfi að linka á eina slíka á þessu bloggi: http://womenreading.tumblr.com/

Guðrún Elsa

19. febrúar 2011

Ylur útí hversdaginn

Þar eð seint ku vera betra en aldrei dreif ég loks í að skrifa um Síðdegi, níundu ljóðabók Vilborgar Dagbjartsdóttur, sem einhverntímann fyrir ekki svo alltof löngu síðan hefði mátt skoðast hér sem jólabókarfærsla - en, og enda er það einn hinna áþreifanlegri efnisþráða bókarinnar: tíminn líður.

Síðdegi olli mér engum vonbrigðum og staðfesti Vilborgu jafnvel enn frekar í þeim uppáhaldsessi sem ég hef haldið hana síðan hún kenndi mér í Austurbæjarskólanum í fjórða bekk (en námsgreinin sú nefndist einfaldlega „Ljóð“ í stundaskránni). Eins og oft áður eru konur henni hugleikið yrkisefni, einnig náttúran og á stundum þetta tvennt samfléttað: fyrsta ljóðið er helgað fjallkonum af ýmsum toga, í öðru er hauströkkrið persónugert í líki „gamallar ömmu“, þ.e. frá gömlum tíma, stígandi rokkinn taktfast í horni sínu. Í ljóðinu „Furða“ má greina bergmál af ljóði Ingibjargar Haraldsdóttur, „Kona“ - þar ráða karlar ráðum sínum í reykmettuðum vistarverum en skortir sýn á konurnar í bakgrunninum, þótt þeir hafi löngu vanist óskýrri heildarmynd þess sama bakgrunns og gætu síst án hans verið.
Einnig er málfræðispekúlerað í ástamál Laxdælu (var Guðrún „þeim“ verst í ein- eða fleirtölu?).

Þetta er bók um lífið og undrin, bernskuna og ellina, fjöllin fyrir austan og sorgina sem safnast upp á lífsleið en einnig þá sátt sem finna má og er nauðsyn meðfram sorginni, og sem höfundi virðist sjálfri hafa ratast á. Bókin er fyrirferðarlítil, 55 síður. Ljóðin, mörg hver, eru sömuleiðis af því taginu að láta lítið yfir sér, en ná samt alltaf nægilega djúpt. Einstaklega notaleg lesning á Þorraþræl og hvenær annars sem þörf kann að vera á smávegis auka yl útí hversdaginn.

Erla