Druslubókum og doðröntum barst eftirfarandi pistill frá Grétu Kristínu Ómarsdóttur, háskólanema og ljóðskáldi.
Virginia Woolf var kona. Og skáld. |
Í dag geri ég ekki ráð fyrir því að læra eitthvað sem ég þarf síðar að „af-læra“. Ég geri ráð fyrir því að háskóli minn og kennarar mínir fylgi stöðlum okkar upplýsta, vestræna samfélags og miðli til mín og samnemenda minna þeirri þekkingu sem til er, segi mér alla söguna — ekki bara einhliða hluta hennar. En á Bókmenntasögunámskeiðinu kemur blákaldur veruleiki nútímans mér í opna skjöldu. Þar á að vera „veitt yfirsýn yfir bókmenntasögu síðustu 4000 ára með lestri valinna meistaraverka frá Afríku, Asíu og Evrópu“ eins og stendur í námskeiðslýsingu í kennsluskrá. Nemendur lesa 25 texta og textaflokka með það að markmiði að skilja samhengi þeirra og öðlast grunnþekkingu á sögu vestrænna bókmennta, hefðinni, kanónunni. Helsta kennslugagn námskeiðsins er Sýnisbók heimsbókmennta sem Gottskálk Jensson og Hjalti Snær Ægisson ritstýra en Hjalti Snær er einnig kennari námskeiðsins þetta misserið. Þessir virðulegu kumpánar velja téð meistaraverk sem reynast öll vera eftir kynbræður þeirra, fyrir utan fjögur kvæði og þrjú kvæðabrot eftir Saffó. Einnig eru í Sýnisbókinni nokkur forn-egypsk kvæði eftir ónafngreinda eða óþekkta höfunda sem gætu vel hafa verið konur ef marka má orð Virginiu Woolf um algengt kyn hins víðförula „anonymous“ í bókmenntasögunni.