28. mars 2013

Sagan Hans (ekki Grétu) . . . af heilögu bræðralagi bókmenntafræðinnar

Druslubókum og doðröntum barst eftirfarandi pistill frá Grétu Kristínu Ómarsdóttur, háskólanema og ljóðskáldi.

Virginia Woolf var kona. Og skáld.
Ég er fyrsta árs nemi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og sit núna skyldunámskeiðið „Bókmenntasögu“ sem allir grunnnemar þurfa að sitja ef þeir ætla sér að útskrifast með BA gráðu. Sjálf ætla ég mér að gera það og er heldur annt um þessa menntun mína, ég valdi hana jú sjálf út frá mínu áhugasviði með mína framtíð fyrir augum. Ég er líka með kynjafræði sem aukagrein og byrjaði að sitja námskeið innan hennar haustið 2011. Síðan þá hefur mikið smurst ofan á veganestið sem ég tók með mér úr grunn- og menntaskóla og ýmislegt grátt og loðið þaðan lent í ruslinu.

Í dag geri ég ekki ráð fyrir því að læra eitthvað sem ég þarf síðar að „af-læra“. Ég geri ráð fyrir því að háskóli minn og kennarar mínir fylgi stöðlum okkar upplýsta, vestræna samfélags og miðli til mín og samnemenda minna þeirri þekkingu sem til er, segi mér alla söguna — ekki bara einhliða hluta hennar. En á Bókmenntasögunámskeiðinu kemur blákaldur veruleiki nútímans mér í opna skjöldu. Þar á að vera „veitt yfirsýn yfir bókmenntasögu síðustu 4000 ára með lestri valinna meistaraverka frá Afríku, Asíu og Evrópu“ eins og stendur í námskeiðslýsingu í kennsluskrá. Nemendur lesa 25 texta og textaflokka með það að markmiði að skilja samhengi þeirra og öðlast grunnþekkingu á sögu vestrænna bókmennta, hefðinni, kanónunni. Helsta kennslugagn námskeiðsins er Sýnisbók heimsbókmennta sem Gottskálk Jensson og Hjalti Snær Ægisson ritstýra en Hjalti Snær er einnig kennari námskeiðsins þetta misserið. Þessir virðulegu kumpánar velja téð meistaraverk sem reynast öll vera eftir kynbræður þeirra, fyrir utan fjögur kvæði og þrjú kvæðabrot eftir Saffó. Einnig eru í Sýnisbókinni nokkur forn-egypsk kvæði eftir ónafngreinda eða óþekkta höfunda sem gætu vel hafa verið konur ef marka má orð Virginiu Woolf um algengt kyn hins víðförula „anonymous“ í bókmenntasögunni.

9. mars 2013

Uppdreymd sveppasystkin á eynni Tulipop og máttur söngsins

Barnabókin Mánasöngvarinn eftir Margréti Örnólfsdóttur og Signýju Kolbeinsdóttur kom út hjá Bjarti fyrir jólin 2012. Hinar litríku persónur bókarinnar eiga rætur að rekja til vörumerkisins Tulipop, sem er sköpunarverk fyrrnefndrar Signýjar og Helgu Árnadóttur, en hafa áður skreytt m.a. lyklakippur og matarstell frá sama merki. Eftir því sem ég kemst næst er það svo fyrst í Mánasöngvaranum sem fígúrurnar verða að fullgildum sögupersónum.

Á fyrstu opnu bókarinnar gefur að líta myndir af íbúum ævintýraeyjunnar Tulipop, hverjum fyrir sig, ásamt stuttum texta þar sem helstu persónueinkenni eru útlistuð, en meðal eyjarskeggja eru útsmoginn ormatrúður, ljúflyndur gimsteinabóndi, hjartagóður ógnvaldur, óaðgreinanlegir tvíburar og gítarhetjan Friðgeir Búddason.

7. mars 2013

Veslings frúin sem sundreið ár og bjó um lærbrot

Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815, sem ég lauk við yfir spínatbökunni minni í hádeginu í gær, er um margt merkileg bók. Það hefur ekki farið mikið fyrir Gyðu Thorlacius í Íslandssögunni, en hún var dönsk, fædd árið 1782, og bjó hér á landi í hálfan annan áratug í upphafi 19. aldar með eiginmanni sínum Þórði Thorlacius, sem var sýslumaður í Suður-Múlasýslu og síðan í Árnessýslu. Móðir Þórðar var dönsk og hann ólst upp í Danmörku, en faðir hans, Skúli Þórðarson Thorlacius, var kominn af biskupum og sýslumönnum á Íslandi. Gyða og Þórður undu sér ekki sem skyldi á Íslandi, fóru aftur til Danmerkur árið 1815 og bjuggu þar upp frá því.

Það sem ég vissi ekki áður en ég byrjaði að lesa bókina var að í rauninni er hér ekki um að ræða eiginlegar endurminningar Gyðu Thorlacius heldur eins konar samræður danska guðfræðingsins Viktors Bloch við þær. Bloch var tengdasonur Gyðu og gaf endurminningar hennar út árið 1845, en í stað þess að gefa út handritið hennar endursegir hann sögu hennar með eigin orðum og völdum tilvitnunum í upprunalega textann. Árið 1930 voru endurminningarnar gefnar aftur út í Danmörku, en þá vildi svo óheppilega til að upprunalegt handrit Gyðu hafði eyðst í bruna árið 1881 og því var ekki um annað að ræða en endurútgefa endursögn Blochs.

Endurminningarnar voru svo gefnar út á íslensku árið 1947, þýddar af Sigurjóni Jónssyni lækni. Þar bætist enn önnur persóna við í samræðurnar því þótt Sigurjón einbeiti sér aðallega að því að gera grein fyrir ýmsum Íslendingum í neðanmálsgreinum og leiðrétta staðreyndavillur um íslenska landafræði á hann það til að sleppa ýmsu úr frásögninni sem honum finnst ekki koma málinu við og blanda sér jafnvel í hana.