27. desember 2009

Hinn nýi Þórbergur - Um ÞÞ í forheimskunarlandi eftir Pétur Gunnarsson

„Mér er hulið hvernig hættan á að fá yfir sig ævisöguritara hefur ekki fengið neinn ofan af því að eiga ævi,“ er setning sem Pétur Gunnarsson vitnar til eftir bölsýnishöfundinum Cioran undir lok seinna bindis bókar sinnar um Þórberg Þórðarson. Pétur bætir við að það hafi lengi verið talinn tvíverknaður að rita ævisögu Þórbergs – svo rækilega hefði hann gert henni skil í ótal bindum. [1]

Þar til á allra síðustu árum var það einasta sem skrifað var um Þórberg Þórðarson ritað af honum sjálfum. Helgi M. Sigurðsson hafði safnað saman óbirtum brotum úr dagbókum Þórbergs og bréfum hans og gefið út í bókunum Ljóra sálar minnar (1986) og Mitt rómantíska æði (1987). Halldór Guðmundsson reið á vaðið eftir nær tveggja áratuga hlé á umfjöllun um Þórberg og árið 2006 kom út bók hans Skáldalíf – Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri. „En það er með Þórberg, eins og okkur hin: hann er margir. Þær á annað hundrað dagbóka sem hann lét okkur í té minni á glerstrendingana sem í stað þess að endurvarpa spegilmynd deila henni upp í óteljandi myndbrot,“ skrifar Pétur.  (258)
Skáldfræðisaga er heitið sem Pétur Gunnarsson hefur gefið verki sínu um Þórberg. Fyrri bókin, ÞÞ – Í fátæktarlandi, hefur undirtitilinn Þroskasaga og Pétur skiptir verkinu í tvennt eftir vísnabroti sem ÞÞ kompóneraði við Vögguvísu Brahms, birti í Eddu og lagði til að yrði letrað á legstein sinn:

Liggur hér Þórbergur
Lifði í fátæktarlandinu
Dó í forheimskunarlandinu
Dó í forheimskunarlandinu. [2]

Grafskriftin á vitaskuld að varpa einhverju ljósi á líf þess sem er látinn og þetta taldi Þórbergur varpa ljósi á sitt líf. Því er ákaflega vel til fundið af Pétri að finna sér efnivið í titla á ævisögulegt verk Þórbergs úr þessum meitluðu setningum.
Í fyrra bindinu loðir nefnilega fátæktin við Þórberg, eins og hún gerði áður en hann varð frægur á einni nóttu fyrir Bréf til Láru. Bókin er sannkölluð þroskasaga sem hefst þegar Þórbergur fer að heiman frá sér úr Suðursveit og alfarinn til Reykjavíkur. Það gerðist árið 1906, þegar hann var á átjánda ári. [3] Pétur leitast við að endurskapa andrúmsloftið í Reykjavík í byrjun 20. aldarinnar. Hann leitar ekki einungis fanga í bókum Þórbergs, bréfum hans og dagbókum, heldur líka í öðrum heimildum um Reykjavík þess tíma. Sem dæmi má nefna Sögu Reykjavíkur eftir Guðjón Friðriksson og Við sem byggðum þennan bæ, eftir Vilhjálm S. Vilhjálmsson. Ennfremur setur Pétur sig inn í hugarheim Þórbergs, ímyndar sér líðan hans við ákveðnar aðstæður og skáldar í eyðurnar. Sem alvitur sögumaður, sem sér að auki hundrað ár fram í tímann, getur hann leyft sér ýmislegt og dregið skáldlegar ályktanir af atburðum og hugsunum Þórbergs. Hið sama er uppi á teningnum í seinna bindinu, sem hér er til umfjöllunar. ÞÞ - Í forheimskunarlandi. Þó eyðir höfundur meira púðri í aðra en Þórberg: vini hans og kunningja, hvað var að gerast í bókmenntum og listum, heimsmálum og þjóðmálum. Þetta bindi er „úthverfara“ ef svo má segja, á meðan hið fyrra var meiri sálarlífslýsing skáldsins.

Nivea-krem og hjónaband ...
Bókin er saga af einkalífi Þórbergs jafnt sem hans hugmyndasaga. Eins og segir á káputexta leitast höfundur ennfremur við að „endurskapa andrúmsloft liðinna ára.“ Ekkert vex af tómarúmi og heldur ekki Þórbergur Þórðarson. Í upphafi bókar hafa aðstæður Þórbergs breyst frá því sem áður var. Hann er kvæntur maður og bregður Pétur upp kómískri mynd í byrjun, þar sem skáldið dundar við að bera Nivea-krem á konu sína Margréti í útlöndum. Hveitibrauðsdögunum eyða hjónin á slóðum esperantista og kommúnista og njóta lífsins. Það er vel undirstrikað í bókinni að að einhverju leyti er ÞÞ kominn á hina svokölluðu „réttu hillu“ í lífinu, miðað við hvað ráðaleysi hans gat oft orðið mikið og dimmt í sálu hans í fyrri bókinni. Þetta er á árunum eftir 1930, hann starfar við Esperantókennslu og ferðast víða til þess að sækja þing sósíalista, auk þess sem út koma eftir hann bækur sem bera áhugamálum hans vitni; Alþjóðamál og málleysur (1933) Pistilinn skrifaði (1933) og Rauða hættan (1935). Munúðarfullur kremburðurinn leggur áherslu á að nú er hann „kominn í höfn“ í kvennamálum, sem, eins og fyrra bindið greindi frá, hafa oft reynst honum flókin og erfið.

Félagar og hugsjónir
ÞÞ - Í forheimskunarlandi er margradda frásögn. Hún er öðruvísi en fyrra bindið, þar sem meira var byggt á bókum Þórbergs sjálfs, bréfum hans og dagbókum. Hér leitar Pétur víða fanga og kallar til marga heimildarmenn. Hann leggur meiri áherslu á að draga upp mynd af þjóðlífinu á þessum tímum og ástandinu í þjóðfélagi, listum, menningu.
Það er skemmtilegt að Pétur notast mikið við dagbækur og bréf Þóru Vigfúsdóttur, eiginkonu Kristins E. Andréssonar, sem Þórbergur umgekkst mikið. Raunar átti ÞÞ alla tíð margar vinkonur. Sat löngum á hágreiðslustofunni Hollywood hjá Kristínu Guðmundardóttur vinkonu sinni, var vinur Maríu Thoroddsen (sem var víst kvenna skemmtilegust) og virðist alltaf hafa verið í góðum tengslum við eiginkonur vina sinna. Rödd Þóru og fleiri kvenna ljá bókinni femínískan blæ, sem er ekki algengt að finna í slíkum verkum. Sagt er að það hafi verið nokkurs konar þjóðaríþrótt Íslendinga um árabil að rífast um hvor væri betri rithöfundur, Halldór Laxness eða Þórbergur Þórðarson. Einkum var þetta iðkað eftir að leiðir með þeim í pólítík skildu. Þegar Halldór sagði eftir ræðu Krúsjoffs „Við vorum sviknir“ en Þórbergur sat við sinn keip, sem hann gerði raunar alveg fram í andlátið. Pétur tekur í bók sinni verðskuldað pláss undir samneyti þessara tveggja „risa“ Alveg frá því að þeir eru „bræður í Unuhúsi“ og þar til Þórbergur skilur við á Vífilsstöðum. Hann varpar nýju ljósi á samband þeirra, þennan meting sem maður greinir alltaf undir niðri, en sýnir engu að síður vináttu sem er sterkari en flest. Fleiri menn líkamnast á síðum bókarinnar ÞÞ – Í forheimskunarlandi. Erlendur, Hallbjörn og Árni prófastur, eins og gefur að skilja, og menningarpáfinn Kristinn E. Andrésson og Þóra Vigfúsdóttir eru vitaskuld fyrirferðarmikil, en þau umgengust bæði Þórberg og Laxness. Öll voru þau skoðanasystkin, svona framan af, að minnsta kosti. Mögnuð er lýsingin á því þegar Kristinn liggur banaleguna:
Á lokasprettinum er hann eins og þegar stjarna deyr, það gerist í rosalegum eldglæringum, líkast því að hún neyti hinstu krafta til stórkostlegs sjónarspils. Kristinn kallar menn að sjúkrabeðnum og hvetur þá til dáða eða les þeim pistilinn fyrir að hafa gerst fráhverfir málstaðnum. Jafnvel Einar og Brynjólfur fá það óþvegið fyrir sína „realpólitík“ og forystumenn alþýðusamtakanna hirtir hann fyrir þeirra skammsýna magamál.
Halldór Kiljan er einn af þeim sem kallaðir eru á teppið og fær yfir sig skunu fyrir svik við málstaðinn og liðhlaup af fleyi sósíalismans. Halldór var vanari hinu, að hann léti móðan mása en Kristinn hlustaði hljóður. Nú situr hann gneypur og biður um það eitt að þeir megi kveðjast sem vinir. Í gættinni stendur Þóra og nýr saman höndum í öngum sínum og bíður þess að óveðrinu sloti. Fylgir að lokum Halldóri til dyra og þrýstir hendur hans í þakklætisskyni. (238)

Kristinn tileinkar Þórbergi síðustu bók sína, m.a. „fyrir skilning á alþjóðasjónarmiðum alþýðustéttanna...“ (238) Þeir voru fáir sem aldrei kvikuðu, en Þórbergur var vissulega einn af þeim.

Sérviskur og leyndarmál
Pétur greinir frá ýmsum háttum Þórbergs sem mætti kalla krúttlega sérvisku, en hafa ennfremur orðið til þess að einhverjir hafa í gegnum tíðina afskrifað hann sem skrítinn karl, sérvitring og trúð, sem ekki væri mark takandi á. Dæmi má nefna þá áráttu hans að mæla alla skapaða hluti, t.a.m. tímalengd göngutúra sinna (sem styttust og lengdust eftir því hvaða mánuður var í árinu). Margt af þessu er vel þekkt öllum þeim sem eitthvað hafa kynnt sér verk Þórbergs Þórðarsonar, en líka bætir Pétur ýmsu við. Sumt er nýtt og þar hlýtur að bera hæst mælingar skáldsins á baðherbergisvenjum sínum. Þ.e. hversu langur tími fer í það daglega að „hægja sér til baks og kviðar“. Áður hafði ég heyrt að á klósettinu hefði ÞÞ ætíð lesið Gamla testamentið á Esperantó, en þessar upplýsingar eru mun nákvæmari, og alveg í anda Þórbergs! Pétur hefur bersýnilega fínkembt allt sem Þórbergur ritaði og allt sem um hann hefur verið ritað, dagbækur, minnismiða, bréf. Og sumt er honum ráðgáta og stundum reynir hann að ráða í táknin, en stundum leyfir hann lesendum bara að hugsa sitt. Hálfkveðnar vísur eru nokkrar og pirra höfundinn greinilega jafn mikið og okkur:
Í febrúarbyrjun 1940 heldur Þórbergur ásamt spúsu sinni til Grindavíkur þar sem þau hjón hyggjast dvelja um mánaðartíma, Þórbergur við hreinskriftir á fyrra bindi Ofvitans. En ekki eru liðnir nema fjórir dagar þegar bréf berst frá vinkonu hans, Kristínu Guðmundardóttur, sem hann svarar strax næsta dag (8/2). Það er eitthvað á seyði sem við megum ekki fá vitneskju um, hann strikar út heila línu í dagbókinni með breiðbandi. Næst lætur Kristín kalla hann upp í síma (15/12) og segir að Erlendur vilji finna hann. Erindið er nægilega brýnt til að Þórbergur standi upp frá verki sínu og hristist í rútu til Reykjavíkur eftir holóttum Keflavíkurvegi. Um kvöldið er hann mættur í Unuhús ásamt söfnuðinum sem hann færir til bókar (Kiljan, Þórður Sigtryggsson, Steinn Steinarr, Benedikt Stefánsson, Steinunn, Áslaug...) Síðan er kirfilega krassað yfir línuna fyrir neðan. Hvað er í gangi? (69)


Þetta brot varpar ekki aðeins ljósi á hugsanlegt leyndarmál Þórbergs, heldur einnig erfiðisvinnu Péturs, ævisagnaritarans, sem má láta sig hafa það að rekast á svona ráðgátur sem á náttúrlega að banna með lögum!

Annar Þórbergur
Þórbergur þreyttist aldrei á því að segja okkur í bókum sínum að hann væri að segja sannleikann um líf sitt og samferðamanna sinna. Í Sálminum um blómið beinlínis þrástagast hann á orðunum: „Ég er ekki að skrifa skáldsögu...“. Eins og drepið var á hér í upphafi skirrðust margir við að skrifa ævisögu Þórbergs Þórðarsonar vegna þess hversu mikið um ævi sína hann hefði skrifað sjálfur. Það væri vísast ekkert til þess að skrifa um! Þórbergur skýldi sér líka á bakvið dagsetningar og veðurlýsingar og kappkostaði að öll sannreynanleg atriði væru rétt, áður en hann fór að skálda.
Ekki bara skáldaði ÞÞ í verkum sínum, eins og sagan fræga um „Framhjágönguna“ úr Íslenskum aðli sýnir. Þegar kom að veigamiklum atriðum úr hans eigin lífi, þá sleppti hann úr og endurskapaði að vild. Það gerði það að verkum að á síðari árum hefur orðið til annar Þórbergur, í bókum Halldórs Guðmundssonar og Péturs Gunnarssonar. Þeir hafa m.a. grafið upp launbörn skáldsins og varpað ljósi á sársauka hans og erfiðleika í hjónabandi. Þetta hefur skapað nýjan Þórberg í huga lesenda. Hann er ekki lengur bara „þessi fyndni sem fór upp á fraukuna í kirkjugarðinum“ eða „æringinn og spaugarinn“ heldur flókin og margbrotin manneskja, sem gerði mistök sem ekki urðu aftur tekin, manneskja sem kannski vildi annað en hann fékk, en hafði ekki afl til þess að breyta aðstæðum sínum eða rísa gegn þeim.
Það kemur vel fram í bók Péturs að Þórbergur hafði sín takmörk og þurfti að kyngja beiskum vonbrigðum. Sumu kaus hann að ýta til hliðar og reyna að gleyma. Kannski var hann með Asperger-heilkenni, eins og Halldór Guðmundsson lét að liggja að í bók sinni. Mér er nær að halda það, þó að Pétur geri það ekki að umtalsefni í bókum sínum. Kannski er líka ósanngjarnt að sjúkdómsgreina fólk fjörutíu árum eftir dauða þess – og enn ósanngjarnara að svo margbrotinn persónuleiki sem Þórbergur var skuli fá einhvern einn stimpil eða merkimiða, sem á að skýra allar hans gjörðir.

Og Mammagagga ...
Margrét Jónsdóttir hefur alltaf verið Þórbergsaðdáendum hálfgerð ráðgáta. Eiginkonan sem þótti svarkur og skass og allir eldri Vesturbæingar virðast muna eftir. Þegar hún æpti t.d. út um gluggann og skipaði þjóðskáldinu út og suður eins og hundi. Sennilega er eitt af hennar fleygari tilsvörum það sem hún sagði þegar hún hafði látið auglýsa eftir Þórbergi í útvarpinu (hann kom ekki á „réttum tíma“ heim úr gönguferð). „Að þú skulir voga þér að vera kominn heim. Og það lifandi!“ Þetta segir kannski ýmislegt, hemm. Pétur gerir sitt besta til þess að átta sig á þessari konu, sem mér finnst einmitt vera lykilatriði til þess að ná að skilja ýmislegt í síðari hluta ævi Þórbergs. Margrét er stór hluti af seinna bindinu, eins og gefur að skilja, en hún er hreint ekki „auðveld“ manneskja og alls ekki sympatísk. Bréf sem eftir hana liggja skrifuð eru í takt við sögurnar af henni. Hún virðist hafa verið frek, sjálfhverf og stútfull af minnimáttarkennd, en hún kemur fram í monti og enn meiri frekju, sem stundum jaðrar við geðbilun. Það er líka grunnt á reiði ævisagnaritarans í hennar garð, undirtextinn á stundum mettaður hneykslun – og skyldi engan undra. En Pétur segir líka frá því hvað það er sem hún var Þórbergi. Hann var ákaflega háður henni með marga hluti og dáðist að ýmsu í fari hennar. Þrátt fyrir allt fann hann hjá Margréti einhverja festu, einhvern samastað, sem honum hafði ekki lánast að finna áður.
Annað sem lengi hefur vantað í umræðu um ævi Þórbergs, sem kunni svo óskaplega vel að tala við börn og skrifa af þeim skringilegar og skemmtilegar sögur (sbr. Lillu Heggu í Sálminum um blómið og Skottu í Viðfjarðarundrunum) og það varpar Pétur ljósi á, er að Jón Þór, sonur Margrétar bjó með hléum á heimili þeirra. Pétur bregður upp þeirri sterku og sorglegu mynd að á ritunartíma Viðfjarðarundranna var Jón Þór „til vandræða“ og Þórbergur lét þess nokkrum sinnum getið í dagbók sinni, segir „gat ekkert skrifað sakir heimilisástæðna“ (51) en ekki nóg með það. Guðbjörg, dóttir Þórbergs, sem hann hafði aldrei sinnt, bjó skammt frá, þó að enginn vildi nokkuð af henni vita. (51)
Af þessum börnum skrifaði Þórbergur engar skemmtisögur. Um þau skrifaði hann aldrei eitt aukatekið orð, heldur elti uppi Skottur og Heggur, sem hann hafði engum skyldum að gegna og skrifaði um þær einhverjar dýrustu perlur íslenskra bókmennta tuttugustu aldarinnar. Þarna birtist sá Þórbergur sem gengur gegn mýtunni um hann. Þórbergur sem vildi ekki sýna sig í bókunum sem hann skrifaði.
Þó að ég hafi hrósað Pétri fyrir greinargóða mynd af Margréti Jónsdóttur – og jafnframt fyrir sterkt kvenlegt sjónarhorn, sem sjaldgæft er að finna í bókum af þessu tagi, þá situr enn eftir spurningin í huga lesandans: Hvaðan kom Margrét Jónsdóttir? Hvað skapaði þessa konu sem hafði svo djúp áhrif á rithöfundinn Þórberg Þórðarson? Hula er enn yfir fortíð hennar, hún hittir Þórberg komin yfir þrítugt og þá tveggja barna móðir, og skapgerð hennar gefur til kynna að hún hafi reynt margt misjafnt í lífinu. Átti hún sér einhverja „Sólu“ eða lifði hún í tómarúmi fram að þrítugu?
Það er ósanngjarnt að fara þess á leit við Pétur að hann svari þessum spurningum. Ekki vil ég sækja í smiðju samtímagagnrýnenda sem vilja iðulega lesa einhverja allt aðra bók en höfundurinn skrifaði. En vonandi fáum við einhvern tíma að lesa um „týndu árin“ í lífi Mömmugöggu, það yrði áreiðanlega safaríkt.

Hreinn skemmtilestur?
Hvort sem bók Péturs Gunnarssonar er kölluð skáldfræðisaga, skáldævisaga eða bara ævisaga, er ljóst að hún er mjög vel heppnað verk. Hún setur þennan mikla rithöfund „í samhengi“ bæði við annað fólk og hans samtíð og hún leyfir okkur að kynnast manninum sem hann vildi ekki endilega sýna okkur í verkum sínum. Hér skal þó viðurkennt að ég er ósammála ritdómum og auglýsingum um þessa bók sem tönnlast á orðunum „Hreinn skemmtilestur“ og tala um fyndnina í verkinu. Þvert á móti finnst mér oft slegið á harmræna strengi og dýptin vera meiri en maður á að venjast í verkum af svipuðu tagi. Og það er gott vegna þess að það þarf ekki alltaf að vera gaman.
Engar myndir eru í seinna bindinu, en hins vegar hefur Pétur ákveðið að leyfa okkur að sjá ýmis „sönnunargögn úr lífi Þórbergs“ ef svo má segja. Þetta eru dagbækur sem strikað hefur verið yfir orð í, og annað fullkomlega afmáð. Bréf, útreikningar, færslur um að hann hafi ekki eirð í sér til vinnu (iðulega þegar hann hefur fengið blátt bann á að geta haft samneyti við Guðbjörgu dóttur sína). Þetta eru sönnunargögn sem tengjast einnig fyrra bindi sögunnar, t.a.m. þegar Pétur telur að ÞÞ hafi átt í stuttu kynferðissambandi við Kristínu Guðmundardóttur og í dagbókinni strikað undir þá samfundi þeirra þegar þau stunduðu kynlíf (þá er líka X efst á síðunni!). Sönnunargögnin eru mjög til bóta og færa lesanda nær frásögninni. Það kemur t.a.m. fram tárunum á viðkvæmum Þórbergsaðdáanda að sjá titrandi rithönd skáldsins undir það síðasta. Hnignun dauðvona manns, sem reynir að fremsta megni að halda í reisn sína með því að fara reglulega í klippingu og nótera hjá sér stefnumót sín við rakara, en er ófær um að skrifa nokkuð annað.

Ævikvöldið
Í sögulok kemur einna best í ljós hversu gott skáld Pétur Gunnarsson er og hversu mikla samúð hann hefur með viðfangsefni sínu. Ógleymanleg er frásögn af síðustu ferð ÞÞ á Hala, þegar hann, veikur, gamall maður vildi deyja þar sem honum þótti hann alltaf eiga heima.
Það ætlar aldrei að hafast að koma honum út úr Halabænum, hann snýr jafnharðan við í göngunum og gerir sér upp erindi aftur inn til að kasta af sér vatni. Bæjargöngin, þessi fáu skref, breytast í vegalengd, torfæru, það þarf að sækja stól til að hann geti hvílt sig í hléum. „Við vorum hátt í klukkutíma að komast vestur á hlað frá bæjardyrunum og það er ekki langur vegur, líklega fimm metrar.“ Sagan endurtekur sig í flugskýlinu á Fagurhólsmýri, Þórbergur snýr stöðugt við í dyrunum. Farþegarnir eru farnir að tínast út í vél og hreyflarnir teknir að snúast. Margrét trompast, en fyrir lítið kemur, Þórbergur heldur áfram að snúa við. Á endanum vindur sér að honum bláókunnugur maður, tekur hann í fangið og ber hann grátandi út í vél. (246)


Þórbergur hlaut margar viðurkenningar í ellinni. Heiðursdoktorsnafnbót við HÍ var ein þeirra, þó að Háskólinn hafi ekki treyst sér til þess að útskrifa hann á sínum tíma, þrátt fyrir stíft skólanám, vegna þess að stúdentsprófið vantaði. En þrátt fyrir margvíslegan heiður á ævikvöldinu er ÞÞ ekki lesinn í skólum landsins nú til dags og yngri kynslóðir þekkja hvorki á honum haus né sporð. En Pétur huggar okkur með því að „með meiri fjarlægð sjatnar gruggið og rykið sest, en textinn tekur að vaxa fram“. (259) Og það er kenning höfundar ÞÞ – Í forheimskunarlandi að sá bautasteinn sem Þórbergur reisti sér með pennastönginni muni standa lengur en legsteinninn með grafskriftinni frægu.

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir

[1] Pétur Gunnarsson, ÞÞ-Í Forheimskunarlandi, Reykjavík: JPV, 2009, bls. 258. Hér eftir verður vitnað til bókarinnar með blaðsíðutali innan sviga á eftir hverri tilvitnun.

[2] Þórbergur Þórðarson, Edda Þórbergs Þórðarsonar, Reykjavík: Mál og menning, 1975 (önnur útgáfa, aukin), bls 216.

[3] Pétur Gunnarsson, ÞÞ – Í fátæktarlandi. Reykjavík: JPV, 2007.

Auður

safe_image.phpÉg hef verið aðdáandi Vilborgar Davíðsdóttur frá því ég sem unglingur las bækurnar um ambáttina Korku - Við Urðarbrunn (1993) og Nornadóm (1994). Það er á fárra færi að skrifa sögulegar skáldsögur sem eru í senn lifandi og trúar heimildum en þetta getur Vilborg. Hafandi nýlega endurnýjað kynnin við Njálu þar sem Auður Djúpúðga kemur fyrir (reyndar sem Unnur) var ég mjög spennt að fá Auði í hendurnar.

Margt er hér vel gert - texti Vilborgar er blátt áfram og einfaldur (sem er sjálfsagt ein ástæða þess að hann átti svo greiða leið að unglingshjartanu) og Auður er sérlega áhugaverð kona. Aðrar persónur eru einnig spennandi en fá kannski ekki alveg nægilegt rými til að blómstra. Ég saknaði þess að fá meira að vita um hina sjáandi hálfsystur Auðar, Jórunni mannvitsbrekku, sem verður óvart völd að skelfilegum atburði og einnig hina grimmu en örvæntingarfullu ambátt Eðnu.

Sagan er svolítið hæg í gang þar sem miklum tíma er varið í lýsingar á því hvernig munkurinn Gilli snýr Auði til kristinnar trúar. Fyrir nútímafólk verður að viðurkennast að það er mun áhugaverðara að lesa hvernig Kolka (í Við Urðarbrunn) kynnist fjölkynngi heiðninnar en hlusta á Gilla rekja söguna af Jesú Kristi. Það má kannski segja að það sé við hæfi að rifja hana upp núna yfir hátíðarnar en hér er óneitanlega verið að fjalla um efni sem hinn almenni lesandi er kunnugur og því ekki eins upprifinn yfir trúarbragðafræðslunni og Auður verður.

Það sem bókin gerir vel er hins vegar að lýsa því sem áðurnefndur lesandi ekki þekkir - daglegu lífi fólks fyrir rúmum þúsund árum og það er hér sem skáldsagan fer á flug. Lýsingar á matarvenjum, vinnu og skemmtan eru lifandi og skemmtilegar en hæst rís sagan í frásögnum af fæðingunum tveimur og brúðkaupi Auðar og Ólafs Hvíta. Þar nær Vilborg að gera svo vel það sem hún gerir best - að vekja til lífsins löngu horfna fortíð og lýsa í smáatriðum án þess að lesandinn verði meðvitaður um upplýsingaflæðið því vitund sögunnar hverfur aldrei frá söguhetjunni og tilfinningum hennar. Við stígum með Auði í brúðarlaugina, greiðum hár, kveðum vísur og búum hana undir framtíðina um leið og við skynjum ótta hennar og eftirvæntingu fyrir því sem koma skal. Framtíðin er einmitt óræð í sögulok svo mögulega er von á fleiri bókum um Auði og sjálf er ég spennt að heyra hvernig hin djúpúðga endar á Íslandi.

Maríanna Clara

18. desember 2009

Lesist í einum rykk

Kate Atkinson er mikill snillingur og jafnvel myndi ég segja að hún væri ein af mínum uppáhaldsskáldkonum. Hún hóf feril sinn fagurbókmenntameginn við borðið og hlaut mikið lof fyrir bækur eins og Behind the Scenes at the Museum (1995) og Emotionally Weird (2000). Engu að síður hóf hún fyrir nokkrum árum að skrifa reyfara og þessi Druslubókadama syrgir svo sannarlega ekki þá ákvörðun enda mikill reyfaraaðdáandi.

Fyrsti reyfarinn hennar er einmitt Case Histories sem Bjartur gefur út núna fyrir jólin sem Málavexti. Það var ekki laust við að ég fengi örlítið hland fyrir hjartað þegar ég sá bókina enda fátt verra en lélegar þýðingar á uppáhaldsbókum manns. En áhyggjur mínar reyndust ástæðulausar - svo gríðarlega ástæðulausar að Málavextir fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem best þýdda bókin og þá gat ég auðvitað ekki stillt mig um að glugga í hana aftur!

Málavextir er spennandi reyfari en um leið margslungin frásögn um söknuð og missi - snilldarlega samantvinnuð. Hér fer mörgum sögum fram samtímis og ég mæli ekki sérstaklega með því að lesendur lesi tvo kafla núna og haldi svo áfram milli jóla og nýárs þegar um hægist - það er nauðsynlegt að halda vel á spöðunum því Atkinson hoppar á milli tíma og persóna og lesandinn þarf að gera slíkt hið sama.  Til hjálpar heita kaflarnir eftir þeirri persónu sem fjallað er um hverju sinni og oft er ártalið láta fljóta með til öryggis.

Fyrrverandi lögreglumaðurinn og núverandi einkaspæjarinn Jackson Brodie er límið sem heldur sögunni saman. Hann er passlega þunglyndur og aumkunarverður en um leið lúmskt sjarmerandi og prinsipp maður eins svo og margir kollegar hans gegnum bókmenntasöguna. Hann er reyndar auðsæranlegri en margir því þótt Málavextir séu sjálfstæð skáldsaga munu atburðir þessarar bókar draga dilk á eftir sér í næstu bókum - hann er því ekki óhagganlegur og óbreytanlegur eins og t.d. Sherlock Holmes sem gat sáttur gripið fiðluna og ópíumpípuna að loknu hverju leystu máli.

Þótt Málavextir séu reyfari og glæpurinn leystur í sögulok eru ekki neinar snyrtilegar lausnir, hvorki fyrir Brodie né aðrar persónur - til þess er lífið of flókið og kaótískt - en þótt tilveran sé stundum erfið og grimm gefur Atkinson alltaf einhverja von. Enginn atburður er svo ömurlegur að ekki sé að finna spaugilega hlið en um leið er gleðin aldrei svo fölskvalaus að ekki sé einhver angurværð. Gamanið er stundum grátt en sjaldan fyrirsjáanlegt:

„Útför Victors gaf hugtakinu naumhyggja nýja og strangari merkingu. Engir voru viðstaddir athöfnina nema Jackson, Amelía og Júlía, nema maður teldi með Victor sjálfan sem rotnaði hægt og hljóðlaust í ódýru spónalögðu kistunni sinni sem var gersneydd öllu blómaskreyti […] „Innréttingarnar hérna eru svo ömurlegar,“ hvíslaði Júlía hátt og Amelía sussaði eins og þau væru í leikhúsi og Júlía ókunnug kona sem truflaði sýninguna. „Hvað?“ sagði Júlía reiðilega. „Hann fer nú varla að stökkva upp úr kistunni“. (bls. 110-112) Atkinson lýsir persónum sínum af ómótstæðilegri blöndu af hreinskilni og húmor - hér eru allir breyskir en enginn gjörsneyddur samúð.

Þýðingin er eins og áður sagði hið besta mál en eitthvað hefur texti á bókarkápu skolast til því þar stendur að fyrsta bók Atkinson sé Behind the Scenes at the Museum og síðan hafi hún skrifað fjórar skáldsögur og eitt smásagnasafn. Þessar upplýsingar voru reyndar hárréttar þegar Málavextir komu fyrst út í Englandi 2004 en síðan þá hefur hún skrifað tvær aðrar skáldsögur um Jackson Brodie; One Good Turn (2006) og When will there be Good News (2008) sem maður gæti ímyndað sér að kæmu út hér fyrir jólin 2010 og 2011 ef þessi gengur vel. Hún á það í öllu falli innilega skilið!

Maríanna Clara

16. desember 2009

“... hún hefði getað sparkað í alla þjóðina”: Karlsvagninn eftirKristínu Marju

Karlsvagninn er bók um sálarástand íslenskrar þjóðar, um þjóð í fjötrum hugarfars. Geðlæknirinn Gunnur segir okkur söguna : setur eigið líf á svið fyrir unglingsstúlkuna Hugrúnu Lind dóttur Sunnu Lindar innanhússhönnuðar – kryfur fortíð sína, skoðar hana og ber saman við hegðun og viðbrögð Hugrúnar Lindar (Hindar). Hlutverk Hindar í bókinn er í raun að skapa vettvang fyrir sjálfsskoðun Gunnar – stelpan sjálf og hennar aðstæður skipta máli að svo miklu leyti sem þær spegla og styrkja sögu Gunnar sjálfrar.

Það er eitthvað mikið að í íslenskri þjóðarsál. Allt slétt og fellt á yfirborðinu en undir niðri kraumar bræði og örvænting. Örvæntingin brýst út á ýmsa vegu. Á því tímabili í lífi Gunnar þegar hún er einstæð móðir með ungan son lætur hún eftir sér í pirringi sínum og þreytu að sparka í bíldrusluna sína þegar hún neitar að fara í gang, en langar mest til að sparka í alla þjóðina “duglegu íslensku þjóðina sem lítur á vinnuna sem hina æðstu dyggð þótt hún breytist í þrælahald á stundum, þjóðina sem lengir sífellt vinnudaginn. . . Þjóðina sem hefur alltaf álitið sig betri en aðrar þjóðir af því að hún er svo dugleg og sterk. Skilgreinir sig sem slíka, selur sig sem slíka” (bls 138).  Þarna liggur nefnilega hundurinn grafinn. Við erum ekki að tala um neina nýlundu.  Það er ekki einungis verið að fjalla um firringu gróðæriskynslóðanna heldur leiða okkur í skilning um það að vandamál okkar sem þjóðar liggja miklu dýpra. Hugsunarleysið, harkan, yfirborðsmennskan – allt hefur þetta fylgt okkur lengi og gengið í arf kynslóða á milli.

Einsog í öðrum bókum Kristínar Marju er í Karlsvagninum nægur efniviður til að moða úr. Þó sagan sé á margan hátt ólík t.d. Karitasarbókunum eru engu að síður ákveðnir þræðir og minni sameiginleg: Áherslan á konurnar – þær eru í forgrunni og maður fær einhvernveginn á tilfinninguna að karlarnir séu hálf óþarfir – með nokkrum undantekningum þó.  Vatn bæði flæðandi og frosið sem skilgreinir persónurnar.

Ég hefði alveg verið til í lengri bók – meiri upplýsingar og lýsingar á Gunni og hennar lífi. En maður getur auðvitað ekki ætlast til að höfundur skrifi trekk í trekk doðranta á borð við Karitasarbækurnar. Mann má samt langa þegar um er að ræða texta eftir jafn færan og skemmtilegan höfund og Kristínu Marju.

Sigfríður

13. desember 2009

„Læfseiver“

images
cocktailsÞegar ég hafði jafnað mig á því að á blaðsíðu 8 kemur fyrir harðhent og óhugnanleg hjúkrunarkona að nafni Maríanna var Síðustu dagar móður minnar eftir Sölva Björn Sigurðsson sannkallaður gleðigjafi. Það er sjaldan sem íslenskir rithöfundar þora að vera svona fyndnir (ef frá er talin Auður Haralds) en ég hló margoft upphátt yfir gríðarlega litríkum ferðalögum Dáta og Evu um líflegar lendur Amsterdam. Rauða hverfið hefur fyrir löngu öðlast sinn sess í heimsbókmenntunum en ég man ekki eftir annari eins reið í gegnum það - og engri þar sem lesandinn slæst í för með tæplega fertugum, einhleypum manni og krabbameinssjúkri, spriklandi fjörugri móður hans. Það er líka langt síðan ég hef lesið bók þar sem aðalsöguhetjurnar innbyrða jafn brjálæðislegt magn af áfengi - Philip Marlowe og aðrir alkóhólíseraðir einkaspæjarar glæpasagnanna komast ekki með tærnar þar sem Eva Briem Þórarinsdóttir og læfseiverinn (peli sem hún skilur sjaldan við sig) hafa hælana. Svo sannfærandi er frú Briem með "spesdrykk" í hendi að þegar hún á tímabili hvílir læfseiverinn og snýr sé að jurtatei þá missti ég svolítið tengslin við hana og keypti umskiptin varla.

Þrátt fyrir öll ærslin spyr bókin í raun stórra spurninga um líf og dauða sem ekki er hægt að líta fram hjá. Ég var sjálf eindreginn stuðningsmaður líknardauða þar til ég las grein þar sem bent var á að eins mikilvægur og þessi möguleiki hlýtur að vera manneskjunni þá er hann um leið gríðarlega vandmeðfarinn. Sumt dauðvona fólk er hreint ekki tilbúið að kveðja og heldur dauðahaldið í lífið fram á síðustu stundu - það er skelfilegt ef fólk í þannig stöðu velur líknardauða af röngum ástæðum eins og til að vera ekki lengur fjárhagslegur og/eða andlegur baggi á fjölskyldu sinni. Líknardauði má ekki vera svo sjálfsögð leið að það sé pressa á fólk að fara hana.

En hér verður að taka fram að þótt bókin velti upp spurningum um dauðann og hvernig hann ber að höndum er hún langt frá því að vera vígvöllur heimspekilegrar baráttu. Hún er þvert á móti sérlega manneskjuleg og skemmtileg þótt dauðinn sé vissulega handan við hornið.

Persónugallerí Sölva er dásamlega litríkt og eftirminnilegt en á toppnum trónir auðvitað Eva Briem. Hún er einn af þessum larger than life karakterum sem á sér svo sannarlega hliðstæðu í íslenskum veruleika og eins ýkt og ævintýri þeirra mæðgina verða á köflum, tapa þau aldrei þeirri tengingu við blákaldan raunveruleikann sem gerir þau svo áhrifarík. Eva er yfirgengileg og í raun óalandi og óferjandi en hún er svo skemmtileg og sönn að henni fyrirgefst allt. Hún er full af mótsögnum eins og allar alvöru manneskjur og mikið sem mér þykir leiðinlegt að geta ekki fengið mér í glas með henni.

Maríanna Clara

11. desember 2009

Doris Lessing og nóbelinn

lessing2Svona í jólabókaflóðinu miðju, þegar maður ætti auðvitað frekar að skrifa háfleyga bókadóma um nýútkomnar íslenskar bækur og dásama sæta og skemmtilega höfunda í hástert þá fann ég allt í einu hjá mér löngun til að lesa aftur Nóbelsræðuna hennar Dorisar Lessing frá því í desember 2007. Í þessari ræðu, einsog almennt í því sem úr smiðju Dorisar kemur, er farið um víðan völl og ekkert mannlegt verður óviðkomandi. Það er svo yndislega hressilegt hvað hún nennir alltaf að segja okkur öllum til syndanna og tyggja ofaní okkur hversu mikilvægt það er að gera sér grein fyrir samhengi allra hluta. Hún er eitthvað svo skemmtilega anti-establishment, þrátt fyrir að vera orðin allra kerlinga elst. Ræðuna, sem hefur þann ágæta titil “On not Winning the Nobel Prize” má lesa á slóðinni: http://nobelprize.org/nobel_prizes/literature/laureates/2007/lessing-lecture_en.html

Þarna eru skemmtilegar pælingar um það hverjir vinni til verðlauna – og niðurstaðan liggur í loftinu – það eru oftast kannski ekki þeir sem mest lögðu á sig og ættu þau helst skilið. Hverjir lesa og hverjir ekki – uppúr hvaða jarðvegi spretta rithöfundar og listamenn. Hversu langt nær ímyndunarafl okkar – geta krakkar úr velmegandi fjölskyldum sem ganga í þá bestu skóla sem hægt er að hugsa sér og hafa allt til alls þannig séð ímyndað sér hvernig það er að alast upp í þorpi í Zimbabwe, geta hugsanlega gengið í skóla þarsem kennarinn hefur varla lokið formlegu námi sjálfur, þarsem varla eru til kennslubækur, engin kennslutæki, vatnið er af skornum skammti og skrjáfaþurr rauð moldin fýkur um allt.

Ég veit það ekki – og Lessing kemst svosem ekki að niðurstöðu heldur, að öðru leyti en því að líklegast er ákveðinn slagur nauðsynlegur til að halda okkur við efnið.

Sigfríður

Gefins bækur með reykingalykt

route 66Í fyrradag leit ég inn í Góða hirðinn en þá var þar jólahreinsunarátak í gangi og allar bækur gefins. Það er ekki eins og bækur kosti almennt stórar upphæðir í nytjamarkaðinum en engu að síður var þarna fólk með fullar körfur, t.d. flíspeysumaðurinn sem selur í Kolaportinu og tvær konur sem hrúguðu á sig ástarsögum. Ég ætlaði ekki að nenna að grípa neitt með mér en ákvað síðan að hirða nokkrar ævi- og endurminningabækur. Maður getur aldrei lesið of mikið af endurminningum fólks, sérstaklega ef það er ekki frægt. Endurminningar frægra komast oft ekki í hálfkvisti við minningar þeirra ófrægu sem eru ekki jafn mikið að passa upp á orðsporið og ímyndina og betri borgararnir og eru ekki með einhverja góða höfunda í liði með sér. Það sem ég fann var þó flest eftir respekteraða.

Meðal bókanna sem ég hirti er ævisaga hafnfirskar konu sem giftist ekkjumanni eftir ömmusystur mína, falsaði passann sinn svo hún taldist tíu árum yngri en fæðingarvottorðið sagði til um og varð síðar prófessor í Vínarborg. Ég tók líka eina eftir Nönnu Rögnvaldar og Undir kalstjörnu lenti í bunkanum ásamt einhverju fleiru. Ein bókanna sem ég tók með heim er Úti að aka á reykspúandi Kadilakk yfir Ameríku eftir Ólaf Gunnarsson og Einar Kárason, sem kom út fyrir þremur árum. Þrátt fyrir að eintakið sé stinkandi af viðbjóðslegum, inngrónum reykingafnyk þrælaði ég mér í gegnum það í gærkvöldi. Já og allt í lagi með þessa bók, oft gaman að henni þó að ég skeiðaði hratt yfir allar frásagnir af bílum. Þeir skrifa aldrei illa þessir kallar og gátu alveg fengið mig til að flissa þó að ég fengi ekki neina nostalgíu yfir þeim tíma þegar ég bjó í USA, klæddist snjóþvegnum gallabuxum og ók um á Pontiac (frekar bara tremmi yfir þessu úthverfalandi Satans). Efnið er kannski ekki beint það ferskasta, Route 66 er voða mikið tekinn og einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að það sé til tonn af sögum sem gerast á þeim ágæta vegi. En þeir þvælast sem sagt þarna yfir heimsálfuna á þremur vikum nokkrir kallar saman, á einhverjum alveg fáránlegum handónýtum fornbíladruslum sem drulla olíu um allt og ósa eins og kolatogarar, allir meira og minna hálfnevrótískir, svefnlausir og sveittir og stöðugt að móðgast hver við annan út af einhverjum tittlingaskít. Bókin er skreytt misgóðum ljósmyndum eftir útgefandann JPV, dálítið gaman að þeim.

Nú man ég alls ekki hvað ég hafði hugsað mér að skrifa, það var eitthvað allt annað en það sem ég sit uppi með. Skítt með það, ég læt þetta standa. Hér má nefnilega skrifa um það sem manni sýnist, svo lengi sem það hefur eitthvað að gera með bækur.

Þórdís

10. desember 2009

Allsberar bókahillur!

Bookshelves1Ónefndur forelggjari sendi okkur þessa mynd af náttúrulegustu bókahillum sem hægt er að hugsa sér. Þvílík fegurð!

9. desember 2009

Sólstjakar

Mikið er ég ánægð með að fá íslenska glæpasögu þar sem mengi grunaðra er skýrt afmarkað frá byrjun. Hérlendis hefur verið skortur á tilbrigðum við þetta klassíska stef, það hefur meira að segja verið leiðindaósiður hjá sumum höfundum að kynna morðingjann seint til sögunnar eða draga upp úr hatti sínum veigalitla aukapersónu þegar leysa þarf málið. Viktor Arnar Ingólfsson gerir sig ekki sekan um vanrækslu á þessum mikilvæga hluta sérhverrar glæpasögu í Sólstjökum og það er fagnaðarefni. Hann vinnur líka vel með aðra þætti sem gjarnan fylgja aðferðinni þar sem ýmis tengsl reynast vera milli hinna grunuðu og allir ljúga eða halda a.m.k. mikilvægum upplýsingum leyndum. Rætur atburðanna í Sólstjökum reynast liggja í fortíðinni. Snyrtilega er farið að því að miðla frásögnum af þeim smám saman eftir því sem lögreglan kemst á snoðir um málin og plottið flækist alveg mátulega eftir því sem á líður.

Lögreglumennirnir sem hér er sagt frá öðru sinni, hægláta snyrtimennið Birkir og hinn sísvangi Gunnar, komust strax í hóp áhugaverðustu karaktera í íslenskum glæpasögum þegar þeir voru kynntir til sögunnar í síðustu bók Viktors, Aftureldingu. Þeir standa alveg sæmilega fyrir sínu hér í Sólstjökum, ekki síst er auðvelt að skemmta sér yfir mörgum kostulegum senum með Gunnari, en þó er synd að engar nýjar hliðar á þeim félögunum skuli birtast í þessari bók. Ætli þeir hafi kannski verið kynntir fullítarlega í Aftureldingu, eftir á að hyggja? Vonandi fá þeir tækifæri til að þróast meira í framtíðinni.

Aðrar persónur í Sólstjökum eru margar skemmtilegar og dregnar skýrum dráttum, til dæmis pottþétti sendiráðunauturinn í Berlín og sífulli sendiherrann sem var áður stjórnmálamaður, að ógleymdri Maríu móður Gunnars sem þarf ekki nema rétt að bregða fyrir til að hún steli senunni. Hinir grunuðu eru litríkur hópur en fórnarlambið mesta varmenni. Eiginlega virðist rýtingsstungan í kviðinn makleg málagjöld.

Í síðustu tveimur bókum Viktors, Flateyjargátu og Aftureldingu, gengu þrautir gegnum alla söguna og þótt það hafi verið gaman, enda þrautirnar vel gerðar, var skynsamlegt að breyta til í Sólstjökum. Hér eru það persónurnar, fortíð þeirra og rannsókn málsins sem drífa söguna áfram en þó er vinkað aðeins til Aftureldingar með því að hafa eina litla þraut seint í sögunni sem er ágætis krydd.

Viktor er nákvæmur höfundur sem er bæði kostur og galli. Stundum keyrir smásmyglin úr hófi fram, t.d. liggur við að hægt væri að teikna sendiráðið í Berlín nákvæmlega upp eftir lýsingunum í bókinni sem varð svolítið þreytandi þegar á leið. Upplýsingar um fermetrafjölda voru dropinn sem fyllti mælinn og lýsingin á hlaupaæfingu Birkis var líka fullítarleg fyrir minn smekk. En þegar best lætur er nákvæmnin liður í að skapa lifandi andrúmsloft og það tekst oft ágætlega. Þótt engin senan standist samanburð við magnaðan gæsaveiðikaflann sem Afturelding hófst á gerir það ekki mikið til, enda er standardinn sem sá kafli setur líka ansi hár. Þegar við bætast áhugaverðar persónur þrátt fyrir allt, heilmikill húmor í frásögninni og vel fléttuð saga er niðurstaðan býsna jákvæð.

Erna Erlingsdóttir

8. desember 2009

Raddir frá Hólmanesi

raddir_fra_holmanesi_1Raddir frá Hólmanesi er nýtt safn ellefu smásagna eftir Stefán Sigurkarlsson. Höfundurinn hefur áður sent frá sér nokkrar bækur, þar á meðal Hólmanespistla árið 1995, sem ég geri af augljósum ástæðum ráð fyrir að kallist á við þá bók sem hér um ræðir, en því miður hef ég ekki lesið Hólmanespistla (því mun ég hins vegar drífa í þegar ég hef útvegað mér eintak).

Raddir frá Hólmanesi er býsna skemmtileg bók. Sögurnar gerast hérlendis og erlendis á ýmsum tímum, flestar þó í Hólmanesi eða í íslenskri sveit í grennd við það uppdiktaða þorp við Jökulflóa (sem minnir mjög á Stykkishólm). Endirinn er oft óvæntur og sögurnar einkennast af þægilegum húmor og huggulegheitum þó efnið sé gjarna meinlegt, tregablandið eða hreinlega sorglegt. Stíllinn er léttur og litríkur, algjörlega tilgerðarlaus og hvergi hroðvirknislegur. Ég get vel ímyndað mér að legið hafi verið yfir textanum og dedúað við setningar. Stefán Sigurkarlsson notfærir sér íslenska frásagnarhefð, mannlýsingar eru oftar en ekki í anda ýmiss konar gamalla sagnaþátta af einkennilegum mönnum og hann bregður líka fyrir sig dæmigerðum þjóðsagnastíl en stundum er lesandanum kippt til baka inn í nútímann svo minnir á stílbrögð sem Þórarinn Eldjárn er þekktur fyrir. Við sögu kemur íslenskt alþýðufólk og betriborgarar en einnig útlendingar, hinn fræga Dana Simon Spies ber til dæmis á góma og sömuleiðis líkþornaplástraframleiðandann heimsþekkta Doktor Scholl. Sögurnar eru sagðar í fyrstu persónu en stundum hafðar eftir hinum og þessum og skemmtilegar líkingar og persónulegar útleggingar frásagnarmannsins um fólk og fyrirbæri lyfta frásögninni. Ég á örugglega eftir að grípa oft í þessa bók.

P.S. Raddir frá Hólmanesi (sem Ormstunga gefur út) er fallega unnin og umbrotin og fer vel í hendi, vasa eða tösku.

Þórdís Gísladóttir

7. desember 2009

Himinninn yfir Þingvöllum

Steinar Bragi vakti nokkuð verðskuldaða athygli fyrir ári síðan með skáldsögunni Konur sem var nýverið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd.

Nú er hinsvegar komin út bókin Himininn yfir Þingvöllum sem inniheldur þrjár nóvellur sem tengjast í sjálfu sér ekki að öðru leyti en því að þær fjalla allar um dauðann í einhverjum skilningi. Munu lesendur heillast jafn hressilega af Himninum yfir Þingvöllum og Konum? Ég er ekki viss um það, þó ekki væri nema vegna þess að sögurnar eru nokkuð misjafnar að gæðum.

Fyrsta sagan í bókinni, Rafflesíublómið er býsna vel unnin, aðalpersónunni í þeirri sögu svipar til margra þeirra sem birst hafa í bókum Steinars Braga, einangraði lónerinn sem flækist inn í atburðarás sem lyftir tilveru hans á annað plan.Ungur maður hefur komið sér fyrir í íbúð látins afa síns til að skrifa háskólaritgerð um Laxness en þau plön fara út um þúfur þegar ung, ónefnd stúlka tekur að venja komur sínar til hans. Steinar Bragi fetar oft þverhnípið á milli kunnugleika og framandleika í verkum sínum og það gerir hann einnig hér, heimur sögunnar er örlítið á skjön, Reykjavíkin sem birtist hér er ekki alveg eins og hún á að sér. Sögufléttan er vel unnin og persónusköpunin er  forvitnileg, sagan nálgast það jafnvel stundum að vera fyndin, en fyndni er ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar skáldskapur Steinars Braga er annars vegar.

Önnur sagan, Dagur þagnar fjallar um ungt par sem dvelst á skíðahóteli í Ölpunum yfir sumar þar sem  hún vinnur en hann stundar skriftir. Það verður að segjast eins og er að þessi saga missti  algerlega marks hjá mér. Hér víkur byggingin fyrir löngum samtölum og vangaveltum persónanna en það er ljóst frá upphafi að sambandsslit eru í farvatninu. Undarleg miðaldra karlpersóna flækist inn í líf þeirra og sú flækja hefði getað orðið áhugaverð, en öll spenna hverfur í endalausum heimspekilegum vangaveltum og söguþráðurinn verður einfaldlega undir. Höfundurinn nær einhvern veginn ekki að halda þræðinum almennilega, allt rennur saman.

Þriðja sagan, Svarti hluturinn, hafði líklegast mestu áhrifin á mig. Hér er höfundurinn á kunnuglegum slóðum, en fyrir skáldsögur hans hverfast gjarnan í fantasíur og þessi saga er af þeirri gerðinni, með tilheyrandi heimsendatilfinningu og myrkri. Hugmyndin um manninn sem lifir einn í yfirgefinni borg hefur líka áður birst í skáldsögu Steinars, Sólskinsfólki . Hér segir frá dreng og stúlku sem eru stödd á olíuborpalli sem stendur í miðri eyðimörk, sjórinn er nefnilega horfinn. Dag einn birtist maður á hestbaki og þá breytist auðvitað allt. Hann hefur yfirgefið yfirgefnu borgina til að finna svarta hlutinn. Þessi saga er langt frá því að vera gallalaus, söguþráðinn hefði gjarnan mátt þétta, of margir útúrdúrar og endurtekningar veikja bygginguna og minnka spennuna. Hér er myndmálið hinsvegar áhrifamest, hugmyndin um svarta hlutinn sem allir leita að en enginn vill finna er býsna mögnuð og henni fylgja myndir sem eru ógleymanlegar, ekki síst myndin af svarta fílnum sem sýgur næringu úr eigin endaþarmi. Púff.

Hér má þannig finna margt af því sem vakið hefur áhuga og aðdáun á skáldskap Steinars Braga en miðjusögunni hefði að mínu mati gjarnan mátt sleppa.

Þorgerður E. Sigurðardóttir

6. desember 2009

Bankster

banksterÉg var að ljúka við Bankster eftir Guðmund Óskarsson. Bókin höfðaði engan veginn til mín en ég þrælaði mér í gegnum hana alla í þeirri von að úr rættist, sem því miður ekki varð. Sagan fjallar um Markús og Hörpu, unga bankastarfsmenn sem misstu vinnuna í fyrrahaust. Markús skrifar dagbók í atvinnuleysinu og það er sem sagt bókin Bankster. Þessi fyrrverandi bankamaður er alveg óskaplega óáhugaverð  persóna, drepleiðinlegur hreinlega og einhvernveginn alveg furðulega laus við að velta fyrir sér í víðara samhengi því sem gerst hefur í þjóðfélaginu og í leiðinni umturnað lífi hans og annarra. Þó að bókin sé ágætlega skrifuð og höfundurinn greinilega með rithæfieika þá náði stíllinn ekki að heilla mig. Þar sem þetta er blogg þar sem allt er leyfilegt innan ramma laganna þá nenni ég ekki að skrifa meira um Bankster. Þeir eru örugglega margir sem eru hrifnir  af bókinni (hún er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna), lesið hana endilega og mótmælið mér ef ykkur finnst ástæða til.

Útúrdúr
Undanfarið hef ég tekið eftir að sífellt fleiri tala um Hafnfarfjörð með greini. Í sjónvarpsfréttunum í gær og í kvöld var til dæmis talað um Hafnarfjörð-inn. Þessa málþróun má líka sjá í Bankster. Eftirfarandi dæmi rakst ég á í bókinni:

„Þau buðu upp á fiskisúpuna í Hafnarfirðinum í gær. “ (28).
„Snemma í mánuðinum var gengið út frá því að við yrðum í Hafnarfirðinum á aðfangadag ... .“ (71).

Eru einhverjir með kenningar um hvenær þetta byrjaði og hvernig á þessu stendur?

Þórdís

3. desember 2009

Bragi Ólafsson - fucking hilarious

Olafsson

Scott Pack, sem heldur úti bókablogginu Me and My Big Mouth ( við erum með krækju á síðuna einhversstaðar hérna hægra megin), er heldur betur hress með Gæludýr Braga Ólafssonar. Hérna er krækja á færslu um bókina sem skrifuð var í fyrradag. Scott er að springa af hrifningu, hann segir I think it is fucking hilarious. And I loved it. One of the most refreshingly different books I have read all year. Í færslu á síðunni sem skrifuð var í dag kemur fram að af fjórtán uppáhaldsbókum sem Scott Pack las á árinu séu tvær íslenskar. Hann ætlar að byrja að telja upp titla í næstu viku og segir:  Bet you can't bloody wait.

Hér er wikipediukrækja þar sem hægt er að lesa sér til um The Friday Project og Scott Pack.

Þórdís

Prófarkalestur

Blaðakona á Politiken skrifaði í fyrradag pistil um prófarkalestur á dönskum bókum. Danskir gagnrýnendur hafa lengi kvartað yfir hroðvirknislegum prófarkalestri nýrra danskra bóka og krafist betri vinnubragða. Forleggjarinn Johannes Riis hjá Gyldendal skýrir slakan prófarkalestur með því að það sé hreinlega svo erfitt að finna góða prófarkalesara í Danmörku. Allir prófarkalesarar forlagsins þurfa að taka próf  áður en til ráðningar kemur og þar fellur hver umsækjandinn af öðrum.

Ég les töluvert af gömlum íslenskum bókum og sömuleiðis helling af nýjum og án þess að ég hafi gert einhverja tölfræðiúttekt þá fullyrði ég að nýjar íslenskar bækur eru upp til hópa mun betur prófarkalesnar en flestar af þeim eldri. Ég held reyndar að prófarkalestur og frágangur sé almennt mjög góður á íslenskum bókum, allavega hjá stærri forlögunum (og reyndar oft hjá þeim minni líka). Hins vegar finnst mér textar margra vefmiðla ekki boðlegir ... en það er kannski önnur saga.

Þórdís

2. desember 2009

Í fótspor afa míns

afi 2Í fótspor afa míns er miðjubók í endurminningaþríleik Finnboga Hermannssonar sem ólst upp á Njálsgötunni upp úr seinna stríði. Við mamma vorum báðar hrifnar af fyrstu bókinni, Í húsi afa míns, sem kom út i fyrra (ég held að mamma sé að endurlesa hana núna) og þessi er líka alveg ljómandi. Ég er logandi af forvitni um það  sem snertir sögu og mannlíf Reykjavíkur í gegnum tíðina og sakna líka mjög þeirra Reykjavíkurtíma ( sem ég að vísu upplifði aldrei) áður en borgin fylltist af úthverfabotnlöngum og fiskbúð, mjólkurbúð, skósmiður, rakari eða úrsmiður var á hverju götuhorni og menn byggðu sér skúra úr kassafjölum hér og þar án nokkurs samráðs við skipulagsyfirvöld. Svona bæ lýsir Finnbogi í stuttum köflum, hann segir hlýlega frá mönnum og bæjarlífi út frá sjónarhóli barns og rifjar ýmislegt áhugavert upp. Ég hefði alveg þegið nákvæmari lýsingar á fólki og borgarlandslagi og aðeins minni upplýsingar um bíla og sveitastörf (höfundur var að sjálfsögðu sendur í sveit) en textinn rann þó allur ljúflega ofan í mig.

Finnbogi er ágætispenni, fyndinn og stundum býsna kaldhæðinn, til dæmis þegar hann lýsir skólakerfinu sem menntaði fólk í fornum búskaparháttum, Íslandssögu Jónasar frá Hriflu og kenndi ljóð eftir dauða presta en hvergi var minnst á Nóbelsskáldið eða Jón úr Vör og eina nútímaskáldið sem ástæða þótti til að transportera á milli barnaskóla landsins var Kristmann Guðmundsson sem heimsótti skólabörn við lítinn fögnuð sumra.

Í fótspor afa míns er notaleg endurminningabók fyrir þá sem hafa gaman af að forvitnast um fólk og rifja upp hvunndagslíf og tungutak alþýðu á Íslandi kaldastríðsáranna.

Þórdís Gísladóttir

1. desember 2009

Fimmtán tilnefningar

medaliur_litil- – - – - – - – - – - – - – - – -

Það gengur á með tilnefningum í dag. Rétt í þessu var tilkynnt hvaða þýðendur og höfundar eru tilnefndir til Íslensku þýðingarverðlaunanna (sem Bandalag þýðenda og túlka veitir) og Íslensku bókmenntaverðlaunanna (sem Félag íslenskra bókaútgefenda stendur fyrir). Druslubókadama lagði við hlustir þegar athöfninni var útvarpað og komst að því að tilnefningarnar eru sem hér segir:

Íslensku þýðingarverðlaunin

Elísa Björg Þorsteinsdóttir: Málavextir e. Kate Atkinson. Bjartur.
Guðbergur Bergsson: Öll dagsins glóð – safn portúgalskra ljóða frá 1900 til 2008. JPV.
Kristján Árnason: Ummyndanir e. Óvíd. Mál og menning .
María Rán Guðjónsdóttir: Kirkja hafsins e. Ildefonso Falcones. JPV.
Sigurður Karlsson: Yfir hafið og í steininn e. Tapio Koivukari. Uppheimar.

Í dómnefndinni voru: Hjörleifur Sveinbjörnsson, Steinunn Inga Óttarsdóttir og Þórdís Gísladóttir.

- – - – - – - – - – - – - – - – -

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Fræðirit og bækur almenns efnis
Árni Heimir Ingólfsson: Jón Leifs. Líf í tónum. Mál og menning.
Helgi Björnsson: Jöklar á Íslandi. Opna.
Jón Karl Helgason: Mynd af Ragnari í Smára. Bjartur.
Kristín G. Guðnadóttir: Svavar Guðnason. Veröld.
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir: Á mannamáli. Ofbeldi á Íslandi: brotin, dómarnir, aðgerðirnar og umræðan. JPV.

Í dómnefndinni voru: Védís Skarphéðinsdóttir, Salvör Aradóttir og Ólafur Stephensen.

Fagurbókmenntir
Böðvar Guðmundsson: Enn er morgunn. Uppheimar.
Guðmundur Óskarsson: Bankster. Ormstunga.
Gyrðir Elíasson: Milli trjánna. Uppheimar.
Steinunn Sigurðardóttir: Góði elskhuginn. Bjartur.
Vilborg Davíðsdóttir: Auður. Mál og menning.

Í dómnefndinni voru: Felix Bergsson, Ingunn Ásdísardóttir og Árni Matthíasson.

Ævisaga - skáldævisaga - endurminningar - sjálfsævisaga ...

[gallery]

Fyrir þessi jól koma að vanda út fjölmargar ævisögur og endurminningabækur af ýmsu tagi og má búast við að einhverjar þeirra nái umtalsverðum vinsældum. Ævisögur og endurminningabækur eru ekki auðskilgreinanleg bókmenntagrein og fræðimenn eru heldur betur ekki á einu máli um flokkun eða hugtakanotkun þegar um slík verk er rætt .

Stundum ritar aðalpersónan eigin endurminningar eða skrifar svokallaða sjálfsævisögu, stundum eru fengnir sagnfræðingar eða blaðamenn í lið með aðalpersónunni, þess eru fjölmörg dæmi að ævisögur séu ritaðar í óþökk aðalpersónunnar, sumar ævisögur fjalla um látið fólk en aðrar um fólk sem ekki hefur einu sinni náð miðjum aldri. Stundum minna umræddar bækur á löng viðtöl á borð við þau sem birtast gjarna í svonefndum glanstímaritum, sumar eru línuleg frásögn af ævi, aðrar eru minningar frá ákveðnum tíma á ævi aðalpersónunnar, einhverjar eru kaflar um eftirminnileg atvik og enn aðrar sverja sig meira í ætt við skáldsögur, nöfnum er jafnvel breytt og höfundar eiga það til að þræta fyrir að um ævisöguleg verk sé að ræða. Í sumum bókanna eru birtar myndir sem tengjast frásögninni og jafnvel sendibréf.

Í grein sem Gunnþórunn Guðmundsdóttir, bókmenntafræðingur, skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum veltir hún fyrir sér formi endurminningabóka og nefnir í því sambandi merkar bækur sem komu út á 8. áratug síðustu aldar. Árið 1975 kom fyrsta bókin í endurminningaflokki Halldórs Laxness, Í túninu heima út og fjórum árum síðar, 1979 kom út fyrsta bókin í miklum bókaflokki Sigurðar A. Magnússonar, Undir kalstjörnu. Gunnþórunn bendir á að þessi verk hafi velt upp ýmsum spurningum um formið, Halldór nefndi verk sín essay-rómana því bækurnar byggja á raunverulegum atburðum en framsetningin er skáldleg, en Sigurður A. kallaði sitt verk uppvaxtarsögu og til að hlífa ákveðnu fólki, breytti hann mörgum nöfnum í bókinni. Þessir höfundar voru greinilega að hliðra sér hjá því að nota orðið sjálfsævisaga. Slíkt er býsna algengt, skrifi maður verk undir formerkjum einhvers konar sjálfsævisögu vofir líklega yfir krafa um að rétt sé farið með og sannanlega satt sagt frá. Guðbergur Bergsson er kannski að reyna að snúa á skilgreiningarvandann þegar hann kallar sín nýlegu endurminningaverk; Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar, skáldævisögur, en maður getur auðvitað spurt sig að því hvað réttlæti hugtakið, eru kannski allar endurminningabækur og ævisögur einhverskonar skáldævisögur?

Aftan við bók Sigurðar Gylfa Magnússonar, Fortíðardraumar, sem kom út 2004 og fjallar um það sem hann kallar sjálfsbókmenntir á Íslandi, er listi yfir íslenskar ævisögur. Þar má sjá að á fyrri hluta síðustu aldar voru það að langstærstum hluta karlmenn sem voru aðalpersónur endurminningabóka og ævisagna. Þegar leið á öldina bættust sífellt fleiri konur í hópinn. Við höfum ekki gert neina alvöruúttekt á hlutföllum kynjanna í enduminningabókum undanfarna áratugi eða efnistökum með tilliti til kynjanna, en eftir lestur allmargra bóka úr þessum flokki er okkar persónulega og óvísindalega tilgáta sú að að þegar skoðaðar eru endurminningabækur liðinna áratuga séu karlmenn oftast opinskárri um einkalíf sitt og frekar tilbúnir að koma fram eins og þeir eru klæddir.

Við sem skrifum á þessa síðu ætlum okkur að fjalla á næstunni um nokkrar af þeim spennandi ævisögum sem eru nýkomnar út. Þetta kemur allt með kalda vatninu!

Þorgerður og Þórdís

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs - tilnefningar

nordurlond-Nú er búið að opinbera hvaða bækur eru tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2010. Í lok mars verður ákveðið hver fær verðlaunin en þau verða afhent á fundi Norðurlandaráðs í Reykjavík eftir tæpt ár, í nóvemberbyrjun 2010, þannig að það er nægur tími til að kynna sér bækurnar. Tvær ljóðabækur og níu skáldsögur eru tilnefndar að þessu sinni, en þær eru:


Danmörk:
Peter Laugesen: Fotorama - [ljóð]
Ida Jessen: Børnene - [skáldsaga]

Finnland
Sofi Oksanen: Puhdistus (Hreinsun) - [skáldsaga]
Monika Fagerholm: Glitterscenen - [skáldsaga]

Ísland
Einar Kárason: Ofsi - [skáldsaga]
Steinar Bragi: Konur - [skáldsaga]

Noregur
Karl Ove Knausgård: Min kamp 1 - [skáldsaga]
Tomas Espedal:  Imot kunsten (notatbøkene) - [skáldsaga]

Svíþjóð
Steve Sem-Sandberg: De fattiga i Lódz - [skáldsaga]
Ann Jäderlund:Vad hjälper det en människa om hon häller rent vatten över sig i alla sina dagar - [ljóð]

Færeyjar
Gunnar Hoydal: Í havsins hjarta - [skáldsaga]

Engar grænlenskar eða samískar bækur voru tilnefndar að þessu sinni.

Tilnefningar til bókmenntaverðlauna 2009

booksÍ dag, þriðjudaginn 1. desember, efna Bandalag þýðenda og túlka og Félag íslenskra bókaútgefenda til sameiginlegrar athafnar þar sem tilkynnt verður um tilnefningar til verðlauna fyrir þýðingar, fagurbókmenntir og fræðirit og bækur almenns efnis árið 2009. Verðlaunin sjálf verða veitt á degi bókarinnar 23. apríl 2010. Athöfnin hefst klukkan 17:30 og það verður áreiðanlega útvarpað beint frá henni að venju.