Fólk sem býr í heilsueflandi sveitarfélagi
þar sem börnin eru með eplakinnar,
morgunfrúr blómstra í kerjum
og bæjarskáldið skokkar á göngustíg,
fær stundum tómleikatilfinningu
og langar að stíga svo þungt til jarðar
að gangstéttarhellur molni.
Druslubækur og doðrantar seilast ekki langt yfir skammt í ljóðskáldaviðtali vikunnar: viðmælandinn er okkar eigin Þórdís Gísladóttir. Hún gaf út sína þriðju ljóðabók, Tilfinningarök, síðastliðið haust, en áður hafa komið út eftir hana ljóðabækurnar Leyndarmál annarra (2010) og Velúr (2014). Viðtalið hefst á broti úr síðasta hluta nýjustu bókarinnar, ljóðinu Til huggunar.
Hæ, Þórdís, velkomin í þetta hreinræktaða druslubókaviðtal!
Takk og hæ, er ekki næs hjá þér þarna undir Eyjafjöllum?
Jú, það er prýðilegt, takk. Búin með Reisubók séra Ólafs Egilssonar og Önnu á Stóru-Borg og byrjuð á Fjósakona fer út í heim (það hefur nú aldeilis verið týpa) – ætli það séu einhver ljóð úr sveitinni sem maður þarf að kanna?
Þorsteinn Erlingsson fæddist á Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Þú þarft að lúslesa hann, já og raula „Fyrr var oft í koti kátt“ fyrir túristana sem koma til þín á safnið.
Já, við erum einmitt með Þorsteinsstofu hér á Skógasafni, og svakalega brjóstmynd af skáldinu, hann er eins og grískur guð nema stæltari og skeggjaðri. En að nýju bókinni, hinu eiginlega umfjöllunarefni viðtalsins. Mig langaði til að byrja að spyrja þig hvaðan titillinn kemur – Tilfinningarök?
Tilfinningarök er hugtak sem er búið að hringla í hausnum á mér mjög lengi. Ég held að ég hafi kynnst því í kjallaragrein eftir Vilmund Gylfason og þar kom íslensk landbúnaðarstefna við sögu. Orðið tilfinningarök er örugglega mjög ungt, á timarit.is finnast bara örfá dæmi um það fram til 1980, það eru miklu fleiri og eldri dæmi um meinta andstæðu þess; skynsemisrök. Sumir slá gjarnan hugmyndir út af borðinu með því að segja að þær byggi á tilfinningarökum og ef manneskjan sem á smá sprett í Tilfinningarökum og geymir pökkuðu íþróttatöskuna undir rúmi færi í hugræna atferlismeðferð þá yrði henni mögulega leitt fyrir sjónir að hún væri með hugsanaskekkju sem byggir á tilfinningarökum og kennt að losa sig við þessa tilfinningu og töskuna með. En svo eru margir sem segja að tilfinningarök séu góð og gild rök og að ákvarðanir sem byggðar eru á tilfinningarökum séu ekki verri en hinar sem byggja á svokölluðum skynsemisrökum. Að nota Tilfinningarök sem titil á þessa bók má segja að sé leikur við lesandann og um leið vísun í sögupersónur bókarinnar. Svo má alveg leika sér með orðið, við verðum mörg rök þegar tilfinningar eru í spilinu ...
24. júní 2016
15. júní 2016
„Er þetta fugl?“ Bókin hans Breka lesin
Ég á veglegt barnabókasafn frá æsku minni og er líka dugleg að fara í Kolaportið og finna þar eitthvað dásamlegt rarítet, löngu uppseldar bækur sem ég elskaði sem barn. Eins og margir foreldrar hef ég mjög gaman af því að kasta mér í faðm nostalgíunnar og lesa klökk fjársjóði barnæskunnar fyrir son minn – og það er hið besta mál – maður verður bara að gæta þess að fortíðarþráin komi ekki í veg fyrir að maður sjálfur sem og börnin – kynnist nýrri klassík – því hún er jú alltaf í fæðingu. Þess vegna er gott að fara oft í bókabúðirnar og á bókasöfnin og blaða í nýútgefnum barnabókum. Þetta gerðum við sonur minn um daginn og fundum afskaplega skemmtilega bók sem forlagið gaf út nú í ár eftir Hrefnu Bragadóttur sem nefnist Bókin hans Breka. Bókin er útskriftarverkefni Hrefnu úr MA-námi í barnabókamyndskreytingu í Cambridge School of Art og hefur nú þegar komið út í fjölmörgum löndum svo sem Englandi, Hollandi, Rússlandi, Kína og Nýja-Sjálandi. Þetta er fyrsta barnabók höfundar en Hrefna hefur unnið að hreyfimyndagerð fyrir sjónvarpsstöðvarnar BBC og Nickelodeon meðfram námi. Hér er hægt að lesa skemmtilegt viðtal við Hrefnu þar sem hún segir m.a. frá því að henni finnist skemmtilegast að teikna furðulegar verur sem skeri sig úr hópnum og séu dálítið óöruggar með sig. Hin viðkunnalegi Breki telst svo sannarlega til þeirra.
12. júní 2016
Nokkrar þvældar blaðsíður um það sem skiptir máli
Ég var á Akureyri um daginn og sat á spjalli við nokkrar konur um verðmæti og möguleika hins fallega listagils, þegar ein segir: „Fróði, þessi fornbókabúð – hún verður að fara. Hún er aldrei opin!“
Einmitt þetta atriði er eitt af því sem gerir Fróða hvað verðmætastan. Í samtímanum þar sem flestar vörur er hægt að fá allan sólarhringinn, hver klukkutími okkar gjarnan vel skipulagður eftir skapalónum sem nýfrjálshyggjan, tækninýjungar og hamingjukvöðin hafa lagt blíðlega yfir daga okkar svo við tókum varla eftir því. Þú hefur kannski áætlað að verja 35 mínútum af hinum átta klukkustundum þínum (hugtak yfir þær klukkustundir í sólarhringnum þegar þú ert ekki að sofa og ekki að vinna) í Fornbókabúðinni Fróða en allt skipulagið fer í vitleysu því þú getur ekki gengið að hinum þó óvenjulegu opnunartímum búðarinnar sem vísum. Þegar þú svo rambar á opna búðina þá gleymirðu stað og stund, mætir ekki í vinnuna, gleymir boðinu sem þú varst á leiðinni í, missir af löngu ákveðnum skíðadegi í Hlíðarfjalli.
Fyrr sama dag hafði ég lent í svona tíma- og aðstæðutapi. Konan mín varð að fara ein í hádegismat að fagna frumsýningardegi, sem henni þótti reyndar bara spennandi. Ég fór út úr Fróða með nokkra gripi sem fyrir mér hafa óviðjafnanlegt verðmætagildi. Fyrsta sem ég geri þegar ég kem inn í ofurhlaðna búðina er að leita í gömlum útfylltum tilefniskortum. Ég hef í mínum síðustu ferðum í Fróða komið mér upp safni sem ég dreg fram þegar mér finnst tengingin við raunveruleikann vera við það að bresta. Mig langar að deila þeim með ykkur þar sem þessi þráður er þunnur um þessar mundir en ég hef breytt nöfnunum á kortunum þó að þau séu líklega öll fyrir löngu farin að prýða veðurbarða legsteina.
Jólin 1978
Kæra Dísa! og aðrir sem hjá þér kunna að vera úr fjölskyldunni
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
Fréttalítið héðan og fábreytt eins og vera ber á elliheimilum.
Heilsufarið sæmilegt eftir aðstæðum en þróttur minnkar.
Þökkum þér allt gott og sendum kærar kveðjur,
Erla og Davíð.
Jólin 1979
Einlægar jóla og nýárskveðjur, þökk fyrir liðin ár.
Fréttir fáar héðan af karli og kerlingu.
– Hún lasnari innvortis uppá síðkastið – Á að fara í myndartöku.
Ekkert sést né heyrst frá Guðríði.
Innil. kveðjur frá Erlu og Davíð.
Jólin 1978
Beztu óskir um Gleðileg jól og gott og farsælt komandi ár.
Ég bankaði uppá hjá þér í sumar, en ég var 3 daga fyrir norðan. Þú hafðir skroppið
suður með Ragnheiði. Ég hringi á dyrabjölluna næst þegar ég á leið um, vona að við
sjáumst þá – með vorinu.
Kær kveðja frá mér og mínum mönnum, Dídí.
Annað merkilegt fann ég á dögunum. Gamalt tilefniskort. Á því var mynd af karli með háan hatt, rautt nef og sígarettu í hendinni. Hendurnar bentu bjóðandi eitthvert út fyrir ramma kortsins.
Textinn framan á segir:
Ef þú heldur að þú hafir aldur til…
og innan á kortinu heldur áfram:
… þá skal ég kynna þig fyrir kroppunum
….. ha! ha! …
Til hamingju
En enginn hafði fundið tilefni til að gefa kortið aðstandanda (á mörkum lögaldurs), og stendur það óútfyllt og gleymt. Óræði hláturinn hljómar lengi í höfði þess sem handleikur kortið.
Ég fann bók sem ég hef dálítið leitað að, Áróra og pabbi sem er gefin út á svipuðum tíma og gömlu konurnar skrifuðu á fallegu blómakortin hér að ofan. Eitt meginstefið í þessari dásamlegu bók er símaklefinn í hverfinu sem sögupersónurnar eru nýfluttar í. Þær standa lengi í röð til að fá að komast að í símann. Sögupersónan röltir líka margoft út í hverfisbúðina, um fimm ára stúlka. Afgreiðslufólkið þekkir hana með nafni. Íbúar í stigaganginum þar sem sögupersónurnar búa eru mjög umhyggjusamir þegar ein þeirra fer á spítala.
Ég fann líka bók í seríunni Keðjubækurnar, ljósblár rammi á kápum þeirra, um kisur, og gaf lítilli vinkonu minni. Blaðsíðurnar voru margar hverjar límdar saman og aðeins búið að lita innan í bókina.
Staðir eins og Fróði grafa undan ofurafli skipulagningar, dugnaði, skynsemi, framleiðni, stundvísi; öflunum sem rífa töfrana úr lífum okkar, beina sjónum okkar frá því sem skiptir máli. Slíkir staðir eru á hverfanda hveli. Það á vel við að taka strætisvagn yfir heiðarnar til þess eins að vona að þú sjáir opna hurðina hjá Fróða.
Gestapenni: Eva Rún Snorradóttir
10. júní 2016
Ofbeldi á Fimmtu árstíðinni
5. júní 2016
Ég hef aldrei verið hagvön í svokölluðum „raunveruleika“: Viðtal við Guðrúnu Hannesdóttur
grafin heit
rjúkandi fylgja
og blóðlifrar
í myrku skauti
stjörnurnar opna nálaraugu sín
loka þeim jafnharðan aftur
jafnvel sú birta
er mér of skær
einhver stendur
á hrímfaldi mínum
eitthvað tefur mína för
(skítug klóför
falin í snjónum)
Druslubækur og doðrantar halda áfram að birta viðtöl við ljóðskáld sem gáfu út bækur á síðasta ári. Viðmælandi vikunnar er Guðrún Hannesdóttir og ljóðið berangur sem birtist hér í upphafi er úr hennar fimmtu ljóðabók, Humátt. Bókin kom út hjá Sölku fyrir jól, en fyrir hana var Guðrún tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2016.
Þú gafst út þína fyrstu ljóðabók, Fléttur, árið 2007, og síðan hefur þú gefið út fjórar ljóðabækur í viðbót. Varstu löngu byrjuð að skrifa ljóð þegar Fléttur kom út eða varstu bara að byrja á því þá? Hvernig kom það til?
Ljóðin mín fóru að spretta fram um 2005 þegar ég tók mér hlé frá barnabókaskrifum og myndskreytingum. Öll mín verk verða til af grunsamlegum skorti á ásetningi og umhugsun, eiginlega bara af einskærri ánægju og þörf til að ögra sjálfri mér í laumi. Að vísu er ég og hef alltaf verið ofurseld orðum, hrynjandi og „anda“ tungumálsins svo ég sé hátíðleg, en ég hafði þá aldrei skrifað ljóð, bara lesið þau svona eins og hver annar. En mér hafði nokkuð lengi ofboðið hvað ég var viss í minni sök um misjafnt ágæti ljóða annarra og hugsaði þá að ég hefði gott af því að reyna sjálf að yrkja, og það varð örlagaríkt, fimm ljóðabækur og sú sjötta á leiðinni, svo ekki leiðist mér þetta! Ég les mikið og skrifa mikið en hugsa ekki um sjálfa mig sem „skáld“, hvað þá „Skáld“, og leiðist heldur öll flokkunarárátta.
Þú ert líka myndlistarmaður og hefur meðal annars myndskreytt bækur sem þú hefur skrifað fyrir börn. Hvernig er það öðruvísi að gera myndir og að gera ljóð? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín?
rjúkandi fylgja
og blóðlifrar
í myrku skauti
stjörnurnar opna nálaraugu sín
loka þeim jafnharðan aftur
jafnvel sú birta
er mér of skær
einhver stendur
á hrímfaldi mínum
eitthvað tefur mína för
(skítug klóför
falin í snjónum)
Druslubækur og doðrantar halda áfram að birta viðtöl við ljóðskáld sem gáfu út bækur á síðasta ári. Viðmælandi vikunnar er Guðrún Hannesdóttir og ljóðið berangur sem birtist hér í upphafi er úr hennar fimmtu ljóðabók, Humátt. Bókin kom út hjá Sölku fyrir jól, en fyrir hana var Guðrún tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2016.
Þú gafst út þína fyrstu ljóðabók, Fléttur, árið 2007, og síðan hefur þú gefið út fjórar ljóðabækur í viðbót. Varstu löngu byrjuð að skrifa ljóð þegar Fléttur kom út eða varstu bara að byrja á því þá? Hvernig kom það til?
Ljóðin mín fóru að spretta fram um 2005 þegar ég tók mér hlé frá barnabókaskrifum og myndskreytingum. Öll mín verk verða til af grunsamlegum skorti á ásetningi og umhugsun, eiginlega bara af einskærri ánægju og þörf til að ögra sjálfri mér í laumi. Að vísu er ég og hef alltaf verið ofurseld orðum, hrynjandi og „anda“ tungumálsins svo ég sé hátíðleg, en ég hafði þá aldrei skrifað ljóð, bara lesið þau svona eins og hver annar. En mér hafði nokkuð lengi ofboðið hvað ég var viss í minni sök um misjafnt ágæti ljóða annarra og hugsaði þá að ég hefði gott af því að reyna sjálf að yrkja, og það varð örlagaríkt, fimm ljóðabækur og sú sjötta á leiðinni, svo ekki leiðist mér þetta! Ég les mikið og skrifa mikið en hugsa ekki um sjálfa mig sem „skáld“, hvað þá „Skáld“, og leiðist heldur öll flokkunarárátta.
Þú ert líka myndlistarmaður og hefur meðal annars myndskreytt bækur sem þú hefur skrifað fyrir börn. Hvernig er það öðruvísi að gera myndir og að gera ljóð? Hvað er það við ljóðformið sem höfðar til þín?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)