15. júní 2016

„Er þetta fugl?“ Bókin hans Breka lesin

Ég á veglegt barnabókasafn frá æsku minni og er líka dugleg að fara í Kolaportið og finna þar eitthvað dásamlegt rarítet, löngu uppseldar bækur sem ég elskaði sem barn. Eins og margir foreldrar hef ég mjög gaman af því að kasta mér í faðm nostalgíunnar og lesa klökk fjársjóði barnæskunnar fyrir son minn – og það er hið besta mál – maður verður bara að gæta þess að fortíðarþráin komi ekki í veg fyrir að maður sjálfur sem og börnin – kynnist nýrri klassík – því hún er jú alltaf í fæðingu. Þess vegna er gott að fara oft í bókabúðirnar og á bókasöfnin og blaða í nýútgefnum barnabókum. Þetta gerðum við sonur minn um daginn og fundum afskaplega skemmtilega bók sem forlagið gaf út nú í ár eftir Hrefnu Bragadóttur sem nefnist Bókin hans Breka. Bókin er útskriftarverkefni Hrefnu úr MA-námi í barnabókamyndskreytingu í Cambridge School of Art og hefur nú þegar komið út í fjölmörgum löndum svo sem Englandi, Hollandi, Rússlandi, Kína og Nýja-Sjálandi. Þetta er fyrsta barnabók höfundar en Hrefna hefur unnið að hreyfimyndagerð fyrir sjónvarpsstöðvarnar BBC og Nickelodeon meðfram námi. Hér er hægt að lesa skemmtilegt viðtal við Hrefnu þar sem hún segir m.a. frá því að henni finnist skemmtilegast að teikna furðulegar verur sem skeri sig úr hópnum og séu dálítið óöruggar með sig. Hin viðkunnalegi Breki telst svo sannarlega til þeirra.Hrefna Bragadóttir

Hér fylgjumst við með hinum loðna og bláa Breka sem elskar bækur, á fyrstu opnu sjáum við hann koma út úr barnabókabúðinni (eða mögulega barnabókasafninu?) með hjólbörur hlaðnar bókum sem margar hverjar bera skemmtilega titla á borð við Dularfullu hófarnir og Hver borðaðið bangsann minn? Hann er svo á gangi þegar hann sér auglýsingu fyrir bókaprufu og hann verður strax óður og uppvægur. Hér er tækifæri til að uppfylla drauminn um að verða sögupersóna í bók! En það þyrmir dálítið yfir hann þegar hann sér hina umsækjendurna – grimmur úlfur, þrír litlir grísir, ótrúlega krúttlegar kanínur, hugrakkt ljón... það kemur enda í ljós að dómnefndin veit ekki alveg hvað hún á að gera við Breka („Er þetta fugl?“ spyr einhver). Hann fellur ekki í neina fyrirfram ákveðna kategoríu af sögupersónum. Aðrir umsækjendur eru raunar hin almennilegustu og boðin og búin að hjálpa honum að reyna að vera sætur eins og kanínunar, grimmur og ógnvekjandi eins og úlfurinn osfrv. en allar þær tilraunir eru dæmdar til að fara út um þúfur (þótt Breki sé mjög fyndinn í kanínubúningnum) – Breki verður bara að fá vera hann sjálfur. En þá gefur sig á tal við hann Ugla sem hefur þegar nánar er að gáð (og við gáðum svo sannarlega) fylgt Breka alla bókina með nefið (gogginn) ofan í bók – það kemur í ljós að bókin sem Uglan er að lesa er einmitt Bókin hans Breka! Hann er nú þegar sögupersóna í bók, bókinni sem við vorum að lesa – og þurfti ekkert að breyta sér til að ná því takmarki.
Úr næstu bók höfundar sem fjallar um krókódíl sem heimsækir ofurhetjuíkorna

Hér er unnið með nokkra skemmtilega þræði – annars vegar kröfuna um að passa í ákveðin form og reyna að breyta sér til að þóknast öðrum og hins vegar þrá eftir einhvers konar frægð og frama. Prófraun Breka fyrir framan dómnefndina minnir á allar keppnirnar sem á síðustu árum hafa tröllriðið sjónvarpi út um allan heim – nema hér er skemmtilega snúið upp á þessa þrá þar sem Breka langar að verða persóna í bók – ekki stjarna í sjónvarpi eða kvikmyndum. Það að hann sé nú þegar persóna í bók – bók sem barnið er akkúrat að lesa – kallar svo aftur fram hugmyndir um að við séum kannski nú þegar aðalpersónur í okkar bók – í okkar lífi – við þurfum bara að gera okkur grein fyrir því! Sagan er skemmtileg og vel útfærð og myndirnar líflegar og lýsandi, einfaldar og fallegar en þegar nánar er að gáð er í þeim að finna ýmiss smáatriði sem dýpka skilning og auka ánægju fyrir lesendur á öllum aldri. Eftir að hafa lesið bókina tvisvar í bókabúð féll þessi dómur: „mamma, við þurfum að eiga þessa bók til að geta lesið hana mjög oft“. Á okkar heimili kallast þetta mikil meðmæli!

ps. saurblöðin eru skreytt - alltaf mikil gleði með það!

Engin ummæli: