Cherie Priest er afar afkastmikill bandarískur rithöfundur. Hún hefur skrifað fantasíur, vísindaskáldskap og hrylling, og einhver á Wikipedia flokkar skrif hennar sem „Southern Gothic“, eða gotneskar sögur sem gerast í Suðurríkjum Bandaríkjanna.
Undanfarið hefur hún þó einbeitt sér að gufupönki og hefur skapað heilan heim sem hún kallar Clockwork Century. (Og fyrir þá sem ekki þekkja gufupönk (e. steampunk) þá er það vísindaskáldskapur sem oft er staðsettur á Viktoríutímanum þar sem snjallir vísindamenn hafa skapað hin undarlegustu tól og tæki sem öll eru knúin áfram af gufu)
Sögusviðið í Boneshaker, sem er fyrsta bókin í Clockwork Century bókaflokkinum, er Seattle árið 1863. Bandaríska borgarastríðið geisar en Seattle er draugaborg. Því vísindamaður að nafni Leviticus Blue byggði ógurlega borvél fyrir Rússa sem þeir ætluðu að nota til að grafa eftir gulli í Klondike, en þegar hann prufukeyrði maskínuna gróf hún í sundur borgina (og undir alla bankana og gullhlaðnar hirslur þeirra) og úr iðrum jarðar slapp eitrað gas sem drap alla sem komust í tæri við það. Og ekki nóg með það, heldur risu sumir aftur upp frá dauðum, ófrýnilegir og rotnandi, og fóru að borða þá sem sluppu við eitrið. Eftirlifendur húrruðu þessvegna upp vegg og híma fyrir utan í menguninni og draga fram lífið í sollinum.
Ekkja uppfinningamannsins, Briar Wilkes, býr þar við þröngan kost með sautján ára syni sínum Zeke, þangað til hann hverfur einn daginn. Hún fer að grennslast fyrir um ferðir hans og kemst að því að hann hefur haldið inn fyrir vegginn til að leita að ummerkjum um föður sinn. Briar dustar rykið af gasgrímunni sinni, dregur fram byssuna og fær far með loftskipi inn í mengaða miðborgina. Þar hittir hún skrítna Kínverja og kynlega kvisti og berst við blóðþyrsta uppvakninga og brjálaðan vísindamann.
Briar er afar hörð í horn að taka og leggur allt í sölurnar til að bjarga syni sínum. Hún getur séð um sig sjálf og sjálfstæðið er svo mikið að hún á erfitt með að þiggja hjálp þegar hún er í boði. En auðvitað áttar hún sig á hinu fornkveðna: Enginn er eyland, og sérstaklega ekki þegar maður er með gasgrímu með stífluðum filterum yfir vitunum og þúsund uppvakninga á hælunum og valið stendur á milli þess að vera étinn eða slást í för með handalausri konu, brynklæddum risa og klæðskiptingi sem var einusinni indíánaprinsessa.
Priest er sem stendur að skrifa fjórðu bókina í Clockwork Century heiminum. Hún heldur úti bloggi þar sem hún leyfir lesendum að fylgjast með skrifunum og ég mæli sérstaklega með fyrir rithöfunda sem vilja fá minnimáttarkennd.
Því henni finnast tvö þúsund orð á dag nefnilega vera „low end of respectable“.
Hildur
31. mars 2011
Viðtalsbók við afkastamikinn höfund
Joyce Carol Oates er með rosalegt plan, það er gígantískt prójekt í gangi og sennilega má tala um köllun. Hún virðist vera að reyna að fanga Bandaríki nútímans, koma böndum á þau og lýsa þeim í allskonar flóknu samhengi og til þess notar hún skáldskapinn. Ég hef bara lesið eina bók eftir Joyce Carol Oates, Blonde, sem er skálduð ævisaga Marilyn Monroe og mikill múrsteinn. Ég var frekar ánægð með þá bók, sem ég las skömmu eftir að hún kom út árið 2000. Neðst á Wikipedia-síðu um Oates er listi yfir verk hennar, ég nenni ekki að telja þau en þetta er gríðarlegt höfundarverk svo ekki sé meira sagt. Oates er reglulega orðuð við Nóbelinn, en kannski tapar skáldkonan á afköstunum, hugsanlega nennir sænska akademían ekki að þvælast í gegnum höfundarverkið auk þess að þurfa stöðugt að vera að lesa eitthvað nýtt sem kemur út eftir hana. En kannski er hún líka mjög mistæk, ég er of illa að mér til að geta sagt til um það.
Joyce Carol Oates vaknar snemma, byrjar strax að vinna og vinnur og drekkur te til klukkan tvö. Síðan hjólar hún eða skokkar og svo les hún handrit seinnipartinn en hún rekur bókaútgáfu og gefur út bókmenntatímarit með manninum sínum (eða gerði það allavega þegar viðtalsbókin við hana kom út árið 2003, nú er maðurinn sem hún átti í áratugi dáinn og hún á nýjan mann). Hún vinnur alla daga ársins og tekur sér aldrei frí!
Bókin sem ég var að lesa heitir Joyce Carol Oates - Samtal med Stig Björkman. Þetta er sem sé viðtalsbók kvikmyndagerðarmannsins Björkmans við skáldkonuna, en hann hefur áður gert svona viðtalsbækur, m.a. eina ágæta við Woody Allen. Bókin var unnin þannig að Björkman tók viðtöl við Joyce Carol Oates í eigin persónu, hringdi stundum í hana, þau skrifuðust á og síðan skrifaði Stig Björkman líka eigin ritgerðir um verk Oates og birtir þau í bókinni. Þau höfðu ekki tölvupóstsamskipti því Oates var búin að loka tölvuna inni í skáp og notaði bara ritvél og blöð og blýanta því henni fannst óþægilegt að nota tölvu.
Mér fannst gaman að lesa þessa bók þótt óneitanlega hefði ég þurft að vera betur lesin í verkum Oates, það er mjög mikið fjallað um einstakar bækur hennar. En viðtölin við hana þar sem hún ræðir um uppvöxt sinn, ævi og bandarískt þjóðfélag eftirstríðsáranna eru mjög áhugaverð.
Oates skrifar skáldskap um fjölskyldulíf Ameríkana, börnin og nágrannana, stútfullu matvöruverslanirnar, drive-in bíóin og lífið í úthverfunum, stéttaskiptinguna, fátækt sumra og ríkidæmi annarra, valdaleysi einstaklingsins og ofbeldið sem allsstaðar er sýnilegt. Í bókunum hennar er mikið um fjölskyldur sem eru að leysast upp, hún rýnir í samfélagið og gagnrýnir. Oates hefur áhuga á allskonar hlutum, til dæmis hefur hún mikinn áhuga á box-íþróttinni og hefur skrifað um hana og tengir hana stríðsþorsta, sem hún telur vera innbyggðan í manneskjuna (ég held nú reyndar að hún sé eitthvað úti að aka í þessu).
Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi verið þýtt eftir Joyce Carol Oates á íslensku en lestur þessarar viðtalsbókar varð til þess að mig langar að lesa meira eftir hana.
Þórdís
Joyce Carol Oates vaknar snemma, byrjar strax að vinna og vinnur og drekkur te til klukkan tvö. Síðan hjólar hún eða skokkar og svo les hún handrit seinnipartinn en hún rekur bókaútgáfu og gefur út bókmenntatímarit með manninum sínum (eða gerði það allavega þegar viðtalsbókin við hana kom út árið 2003, nú er maðurinn sem hún átti í áratugi dáinn og hún á nýjan mann). Hún vinnur alla daga ársins og tekur sér aldrei frí!
Bókin sem ég var að lesa heitir Joyce Carol Oates - Samtal med Stig Björkman. Þetta er sem sé viðtalsbók kvikmyndagerðarmannsins Björkmans við skáldkonuna, en hann hefur áður gert svona viðtalsbækur, m.a. eina ágæta við Woody Allen. Bókin var unnin þannig að Björkman tók viðtöl við Joyce Carol Oates í eigin persónu, hringdi stundum í hana, þau skrifuðust á og síðan skrifaði Stig Björkman líka eigin ritgerðir um verk Oates og birtir þau í bókinni. Þau höfðu ekki tölvupóstsamskipti því Oates var búin að loka tölvuna inni í skáp og notaði bara ritvél og blöð og blýanta því henni fannst óþægilegt að nota tölvu.
Mér fannst gaman að lesa þessa bók þótt óneitanlega hefði ég þurft að vera betur lesin í verkum Oates, það er mjög mikið fjallað um einstakar bækur hennar. En viðtölin við hana þar sem hún ræðir um uppvöxt sinn, ævi og bandarískt þjóðfélag eftirstríðsáranna eru mjög áhugaverð.
Oates skrifar skáldskap um fjölskyldulíf Ameríkana, börnin og nágrannana, stútfullu matvöruverslanirnar, drive-in bíóin og lífið í úthverfunum, stéttaskiptinguna, fátækt sumra og ríkidæmi annarra, valdaleysi einstaklingsins og ofbeldið sem allsstaðar er sýnilegt. Í bókunum hennar er mikið um fjölskyldur sem eru að leysast upp, hún rýnir í samfélagið og gagnrýnir. Oates hefur áhuga á allskonar hlutum, til dæmis hefur hún mikinn áhuga á box-íþróttinni og hefur skrifað um hana og tengir hana stríðsþorsta, sem hún telur vera innbyggðan í manneskjuna (ég held nú reyndar að hún sé eitthvað úti að aka í þessu).
Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi verið þýtt eftir Joyce Carol Oates á íslensku en lestur þessarar viðtalsbókar varð til þess að mig langar að lesa meira eftir hana.
Þórdís
30. mars 2011
Dagur barnabókarinnar - saga og sögusteinn
Alþjóðlegur dagur barnabókarinnar er haldinn 2. apríl ár hvert. IBBY-samtökin standa af því tilefni fyrir því að fimmtudaginn 31. mars verður frumsamin saga eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur lesin upp í grunnskólum landsins og í útvarpi landsmanna kl. 9.45.
Á laugardaginn verða Sögusteinsverðlaunin síðan veitt í Borgarbókasafninu, en þá heiðra IBBY-samtökin rithöfund/myndskreyti/þýðanda sem hefur auðgað íslenska barnabókaflóru. Um er að ræða peningaverðlaun og verðlaunagrip.
Um sögustein segir svo í þjóðsögum Jóns Árnasonar: „Sögusteinn finnst í maríuerluhreiðri í maí. Skal maður bera hann á sér í blóðugum hálsklút og láta hann í hægra eyra þegar maður vill verða einhvers vísari af honum; segir hann þá allt sem maður vill vita.“
Þórdís
Á laugardaginn verða Sögusteinsverðlaunin síðan veitt í Borgarbókasafninu, en þá heiðra IBBY-samtökin rithöfund/myndskreyti/þýðanda sem hefur auðgað íslenska barnabókaflóru. Um er að ræða peningaverðlaun og verðlaunagrip.
Um sögustein segir svo í þjóðsögum Jóns Árnasonar: „Sögusteinn finnst í maríuerluhreiðri í maí. Skal maður bera hann á sér í blóðugum hálsklút og láta hann í hægra eyra þegar maður vill verða einhvers vísari af honum; segir hann þá allt sem maður vill vita.“
Þórdís
23. mars 2011
Ástarbréf til Dorine
Kannski rámar einhver ykkar í frétt úr erlendum dagblöðum frá árinu 2007. Fréttin sagði frá heimspekingi sem ásamt eiginkonu sinni stytti sér aldur í sumarhúsi þeirra austur af París. Fyrir það sem á eftir kemur er ágætt að rifja það upp.
Dag einn síðla í september, þegar hreingerningarstúlkan sem þjónaði André og Dorine Gorz, kom að húsinu til að sinna skyldum sínum, sá hún að miði hafi verið festur á útidyrnar: „Hringið á lögregluna. Ekki koma upp.“ Hjónin fundust svo látin hlið við hlið í hjónarúminu. Dorine hafði átt við erfið veikindi að stríða árum saman og þau gátu ekki hugsað sér að skiljast. Hann var 84 en hún 83 ára.
Ári áður kom út í Frakklandi bókin Lettre à D. Histoire d’un amour þar sem Gorz ávarpar konu sína. Bréfið naut mikilla vinsælda meðal franskra lesenda og kom út í enskri þýðingu að Gorz látnum.
Til að byrja með var ég var á báðum áttum. Eintal aldraðs heimspekings hljómar ekki sérlega áhugavert lesefni. Ég hef satt að segja ekki tölu á þeim bókum eldri manna sem legið hafa á mínu náttborði og eru ritaðar undir einhverju yfirskyni, en eru í raun bara röfl og sjálfsupphafning þar sem minnst er á aðra merka menn, eina og eina konu í framhjáhlaupi og blessuð námsárin. Ég þurfti ekki að lesa lengi til að átta mig á því að bréfið hans Gorz er laust við allt það sem svo gjarnan einkennir slíkar sjálfsbókmenntir.
Rithöfundurinn, blaðamaðurinn og aktívistinn André Gorz var nokkuð áhrifamikill maður á sinni tíð. Hann var af austurrísku bergi brotinn, fæddur í Vín en flúði til Sviss í síðari heimsstyrjöldinni. Þaðan fluttist hann til Parísar fyrir tilstilli Sartre, en Gorz kynntist Sartre og Beauvoir þegar þau voru á ferðalagi í Sviss. Í París starfaði Gorz sem blaðamaður og rithöfundur allt sitt líf. Á fræðilega sviðinu var hann undir sterkum áhrifum af marxisma. Hann skrifaði mikið um vinnu, framleiðslu og annað eftir því. En hann var líka einn aðalfrumkvöðullinn á sviði pólitískrar vistfræði og helgaði sig þeim fræðum á síðari árum. Sjálf heyrði ég fyrst um hann í gegnum verk Ivan Illich en þeir voru nánir vinir og samstarfsmenn.[1]
Gorz hitti hina bresku Dorine fyrst haustið 1947 og lýsir hann fundum þeirra sem ást við fyrstu sýn. Þau voru saman upp frá því. Giftu sig fljótlega, bjuggu saman, unnu saman og voru óaðskiljanleg. Þau voru ólík. Hún var lífsglöð, afslöppuð og hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom. Hann var þyngri í skapi og botnaði aldrei í því að þessi ómótstæðilega kona skyldi kæra sig um að leggja lag sitt við hann. Þau voru um margt óvenjulegt par. Þau gátu ekki án hvors annars verið í nokkra klukkutíma og þau ákváðu snemma að samband þeirra skyldi vera barnlaust. Gorz lét síðar hafa það eftir sér í blaðaviðtali að hann hefði ekki getað hugsað sér að deila Dorine með neinum, ekki einu sinni börnum þeirra.
Um fimmtugt veiktist Dorine af ólæknandi taugasjúkdómi. Hún ákvað að kljást við veikindi sín án aðstoðar hefðbundinna lyfja og vestrænna lækninga, enda má skilja það af skrifum Gorz að veikindi hennar hafi einmitt orsakast af íhlutun læknisfræðinnar. Nokkrum árum áður var litarefni sprautað í Dorine til þess að taka röngenmynd af mænu hennar og líkaminn náði ekki að losa sig við efnin. Eftir að Dorine veiktist vörðu þau hjón tíma sínum að mestu út í sveit, þar sem þau ræktuðu matjurtir, stunduðu jóga og voru sjálfum sér nóg. Gorz tók virkan þátt í að gagnrýna nútíma læknis- og lyfjafræði meðan Dorine reyndi að lina kvalir sínar með öllum tiltækum ráðum. Síðar greindist hún með illvígt krabbamein til viðbótar við taugasjúkdóminn.
Letter to D hefur öll þau sígildu einkenni sem alvöru ástarjátning þarf að hafa til að bera. Gorz lýsir konunni sinni í smáatriðum – líkama hennar og anda, háttum hennar og hvernig annað fólk sá hana og brást við henni. Lesandinn getur ekki annað en orðið ástfanginn af þessari bresku stúlku. Hún er svo óvenjuleg, klár og skemmtileg. Hún laðar að sér manneskjur og dýr. Hún eldar hollan og góðan mat. Hún fyrirlítur prjál og neyslu, neitar að tolla í tískunni en er alltaf klassísk, svo óumræðanlega glæsileg og tímalaus.
Það er eitthvað yfirmáta tragískt við þessa ástarsögu. Það er eftirtektarvert hversu harður Gorz er við sjálfan sig. Honum finnst hann alls ekki hafa verið samboðinn Dorine og hann iðrast. Til dæmis er honum ofarlega í huga myndin af Dorine sem hann dró upp í sögunni The Traitor, sem hann skrifaði um þrítugt og er að hluta sjálfsævisöguleg. Stúlkan sem þar birtist lesendum er óframfærin og öðrum háð, talar lélega frönsku og á erfitt með að eignast vini. Hann þráspyr sig hvers vegna í ósköpunum hann hafi lýst henni á þann veg, þegar hún var í raun algjör andstæða þess – lífleg, afslöppuð og eftirsótt. Maður getur ekki annað en fundið til með þessum gamla manni, sem ásakar sjálfan sig svo mjög fyrir eitthvað sem maður áttar sig ekki stundum á hvað er. Hann talar sjálfan sig svo niður að stundum spyr maður sig sömu spurningar og hann sjálfur: hvað sá hún eiginlega við hann?
Bókin er stutt, enska þýðingin telur ekki nema 130 síður með eftirmála. Hún er minnisstæð samtímalýsing. Við sjáum Evrópu rísa upp eftir seinni heimsstyrjöldina, fylgjumst með stúdentaóeirðum í París og hræringum í fjölmiðlum. Við verðum vitni að ofurtrú samfélags á nýjustu tækni og baráttu hugsandi fólks gegn henni.
En fyrst og fremst er ástarbréfið heimild um manninn André Gorz og konuna hans Dorine. Lesið bréfið. Það mun koma út á ykkur tárum.
Hilma
[1] Handahófskennd leit í marxískum fræðum heimilisins leiddi í ljós að Gorz er getið víða. Negri og Hardt vísa til dæmis í hann á nokkrum stöðum í Empire bls. 422 (nmgr 16), 458 (nmgr. 18) og 472 (nmgr. 5) og Deleuze og Guattari ræða hugmyndir hans á bls. 238 í Anti-Oedipus.
Dag einn síðla í september, þegar hreingerningarstúlkan sem þjónaði André og Dorine Gorz, kom að húsinu til að sinna skyldum sínum, sá hún að miði hafi verið festur á útidyrnar: „Hringið á lögregluna. Ekki koma upp.“ Hjónin fundust svo látin hlið við hlið í hjónarúminu. Dorine hafði átt við erfið veikindi að stríða árum saman og þau gátu ekki hugsað sér að skiljast. Hann var 84 en hún 83 ára.
Ári áður kom út í Frakklandi bókin Lettre à D. Histoire d’un amour þar sem Gorz ávarpar konu sína. Bréfið naut mikilla vinsælda meðal franskra lesenda og kom út í enskri þýðingu að Gorz látnum.
Til að byrja með var ég var á báðum áttum. Eintal aldraðs heimspekings hljómar ekki sérlega áhugavert lesefni. Ég hef satt að segja ekki tölu á þeim bókum eldri manna sem legið hafa á mínu náttborði og eru ritaðar undir einhverju yfirskyni, en eru í raun bara röfl og sjálfsupphafning þar sem minnst er á aðra merka menn, eina og eina konu í framhjáhlaupi og blessuð námsárin. Ég þurfti ekki að lesa lengi til að átta mig á því að bréfið hans Gorz er laust við allt það sem svo gjarnan einkennir slíkar sjálfsbókmenntir.
Rithöfundurinn, blaðamaðurinn og aktívistinn André Gorz var nokkuð áhrifamikill maður á sinni tíð. Hann var af austurrísku bergi brotinn, fæddur í Vín en flúði til Sviss í síðari heimsstyrjöldinni. Þaðan fluttist hann til Parísar fyrir tilstilli Sartre, en Gorz kynntist Sartre og Beauvoir þegar þau voru á ferðalagi í Sviss. Í París starfaði Gorz sem blaðamaður og rithöfundur allt sitt líf. Á fræðilega sviðinu var hann undir sterkum áhrifum af marxisma. Hann skrifaði mikið um vinnu, framleiðslu og annað eftir því. En hann var líka einn aðalfrumkvöðullinn á sviði pólitískrar vistfræði og helgaði sig þeim fræðum á síðari árum. Sjálf heyrði ég fyrst um hann í gegnum verk Ivan Illich en þeir voru nánir vinir og samstarfsmenn.[1]
Gorz hitti hina bresku Dorine fyrst haustið 1947 og lýsir hann fundum þeirra sem ást við fyrstu sýn. Þau voru saman upp frá því. Giftu sig fljótlega, bjuggu saman, unnu saman og voru óaðskiljanleg. Þau voru ólík. Hún var lífsglöð, afslöppuð og hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom. Hann var þyngri í skapi og botnaði aldrei í því að þessi ómótstæðilega kona skyldi kæra sig um að leggja lag sitt við hann. Þau voru um margt óvenjulegt par. Þau gátu ekki án hvors annars verið í nokkra klukkutíma og þau ákváðu snemma að samband þeirra skyldi vera barnlaust. Gorz lét síðar hafa það eftir sér í blaðaviðtali að hann hefði ekki getað hugsað sér að deila Dorine með neinum, ekki einu sinni börnum þeirra.
Um fimmtugt veiktist Dorine af ólæknandi taugasjúkdómi. Hún ákvað að kljást við veikindi sín án aðstoðar hefðbundinna lyfja og vestrænna lækninga, enda má skilja það af skrifum Gorz að veikindi hennar hafi einmitt orsakast af íhlutun læknisfræðinnar. Nokkrum árum áður var litarefni sprautað í Dorine til þess að taka röngenmynd af mænu hennar og líkaminn náði ekki að losa sig við efnin. Eftir að Dorine veiktist vörðu þau hjón tíma sínum að mestu út í sveit, þar sem þau ræktuðu matjurtir, stunduðu jóga og voru sjálfum sér nóg. Gorz tók virkan þátt í að gagnrýna nútíma læknis- og lyfjafræði meðan Dorine reyndi að lina kvalir sínar með öllum tiltækum ráðum. Síðar greindist hún með illvígt krabbamein til viðbótar við taugasjúkdóminn.
Letter to D hefur öll þau sígildu einkenni sem alvöru ástarjátning þarf að hafa til að bera. Gorz lýsir konunni sinni í smáatriðum – líkama hennar og anda, háttum hennar og hvernig annað fólk sá hana og brást við henni. Lesandinn getur ekki annað en orðið ástfanginn af þessari bresku stúlku. Hún er svo óvenjuleg, klár og skemmtileg. Hún laðar að sér manneskjur og dýr. Hún eldar hollan og góðan mat. Hún fyrirlítur prjál og neyslu, neitar að tolla í tískunni en er alltaf klassísk, svo óumræðanlega glæsileg og tímalaus.
Það er eitthvað yfirmáta tragískt við þessa ástarsögu. Það er eftirtektarvert hversu harður Gorz er við sjálfan sig. Honum finnst hann alls ekki hafa verið samboðinn Dorine og hann iðrast. Til dæmis er honum ofarlega í huga myndin af Dorine sem hann dró upp í sögunni The Traitor, sem hann skrifaði um þrítugt og er að hluta sjálfsævisöguleg. Stúlkan sem þar birtist lesendum er óframfærin og öðrum háð, talar lélega frönsku og á erfitt með að eignast vini. Hann þráspyr sig hvers vegna í ósköpunum hann hafi lýst henni á þann veg, þegar hún var í raun algjör andstæða þess – lífleg, afslöppuð og eftirsótt. Maður getur ekki annað en fundið til með þessum gamla manni, sem ásakar sjálfan sig svo mjög fyrir eitthvað sem maður áttar sig ekki stundum á hvað er. Hann talar sjálfan sig svo niður að stundum spyr maður sig sömu spurningar og hann sjálfur: hvað sá hún eiginlega við hann?
Bókin er stutt, enska þýðingin telur ekki nema 130 síður með eftirmála. Hún er minnisstæð samtímalýsing. Við sjáum Evrópu rísa upp eftir seinni heimsstyrjöldina, fylgjumst með stúdentaóeirðum í París og hræringum í fjölmiðlum. Við verðum vitni að ofurtrú samfélags á nýjustu tækni og baráttu hugsandi fólks gegn henni.
En fyrst og fremst er ástarbréfið heimild um manninn André Gorz og konuna hans Dorine. Lesið bréfið. Það mun koma út á ykkur tárum.
Hilma
[1] Handahófskennd leit í marxískum fræðum heimilisins leiddi í ljós að Gorz er getið víða. Negri og Hardt vísa til dæmis í hann á nokkrum stöðum í Empire bls. 422 (nmgr 16), 458 (nmgr. 18) og 472 (nmgr. 5) og Deleuze og Guattari ræða hugmyndir hans á bls. 238 í Anti-Oedipus.
22. mars 2011
Það eru að koma rithöfundar
Norræna húsið, í samvinnu við bókaútgefendur, stendur fyrir nokkrum höfundakvöldum á tímabilinu 14. apríl – 1. júní 2011 og þangað eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Höfundarnir eru:
Kristian Olsen Aaju frá Grænlandi, tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár fyrir bókina Det tatoverede budskap.
Mariane Petersen ljóðskáld frá Grænlandi og hefur nýverið gefið út ljóðasafnið Storfangerens efterkommere
Carl Jóhan Jensen frá Færeyjum
Tóroddur Poulsen frá Færeyjum, tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár fyrir bókina Útsýni.
Eva Gabrielsson frá Svíþjóð, flestir þekkja hana sem ekkju Stiegs Larsson en hún er einnig rithöfundur sjálf og hefur gefið út endurminningar sínar og bókina Sambo. Ensammare an du tror.
Kajsa Ingemarsson, höfundur bókanna Sítrónur og saffran sem kom út í fyrra og Bara vanligt vatten sem kemur út í íslenskri þýðingu í ár undir yfirskriftinni Allt á floti.
Fleiri höfundar munu sennilega bætast í hópinn þegar nær dregur en nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Norræna hússins og við skellum kannski áminningu inn á þessa síðu líka.
Kristian Olsen Aaju frá Grænlandi, tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár fyrir bókina Det tatoverede budskap.
Mariane Petersen ljóðskáld frá Grænlandi og hefur nýverið gefið út ljóðasafnið Storfangerens efterkommere
Carl Jóhan Jensen frá Færeyjum
Tóroddur Poulsen frá Færeyjum, tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár fyrir bókina Útsýni.
Eva Gabrielsson frá Svíþjóð, flestir þekkja hana sem ekkju Stiegs Larsson en hún er einnig rithöfundur sjálf og hefur gefið út endurminningar sínar og bókina Sambo. Ensammare an du tror.
Kajsa Ingemarsson, höfundur bókanna Sítrónur og saffran sem kom út í fyrra og Bara vanligt vatten sem kemur út í íslenskri þýðingu í ár undir yfirskriftinni Allt á floti.
Fleiri höfundar munu sennilega bætast í hópinn þegar nær dregur en nánari upplýsingar um dagskrána má finna á vef Norræna hússins og við skellum kannski áminningu inn á þessa síðu líka.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)