30. júní 2012

Hamingjusamir rasistar?

Þegar dönsku framhaldsþættirnir Taxa voru sýndir í danska sjónvarpinu sendi áhorfandi dönsku dagblaði kvörtunarpóst og benti á að þættirnir væru óraunsæir að því leyti að allir leigubílarnir í þáttunum væru af gerðinni Toyota (vegna samninga milli framleiðandans og Toyota-umboðsins) en langflestir leigubílar í Kaupmannahöfn væru í rauninni af gerðinni Mecedes Benz. Þessu velti Lena Sundström, höfundur bókarinnar Världens lyckligaste folk (Hamingjusamasta þjóð í heimi), ekkert fyrir sér þegar hún horfði á þættina, en hins vegar tók hún eftir að 23 af 24 aðalleikurum eru með danskhljómandi nöfn. Hún sjálf segist hins vegar aldrei hafa ekið í leigubíl með bílstjóra með danskt eftirnafn í Kaupmannahöfn þó að hún hafi búið þar þó nokkuð lengi og tekið mjög marga leigubíla.

Ég ólst upp við að lesa danskar bækur og blöð, á frummálinu og í þýðingum. Ég las t.d. bækur Deu Trier Mørch, Vitu Andersen, Susanne Brøgger og fleiri höfunda, hlustaði á danska tónlist og þegar ég kom til Kaupmannahafnar, fyrst 16 ára og svo nokkrum árum síðar til lengri dvalar, fannst mér ég kannast við mig. Ég las dagblöðin, fór í Huset og Kristjaníu og upplifði það sem mér fannst vera frjálslynt land og almennt var gleðin við völd þó að Mogens Glistrup væri stundum í fréttunum. Á meðan ég bjó í Svíþjóð á þarsíðasta og síðasta áratug fór ég ekki oft til Danmerkur og í Svíþjóð heyrði ég aldrei neinar fréttir að ráði frá grannþjóðinni. Á síðustu árum hef ég farið nokkrum sinnum til Danmerkur, ég horfi nokkuð reglulega á danskt sjónvarp og upplifi, eins og margir, Danmörku nútímans sem fremur íhaldssamt land og afskaplega „danskt“, þar sem margir virðast stöðugt óttast að yfir þá flæði hópar af óþjóðalýð og illum múslimum. 

29. júní 2012

The Odd Saga of the American

Snemma á þessu ári barst okkur Druslubókadömum bókin The Odd Saga of the American and a Curious Icelandic Flock. Bókin er eftir EE Ryan (höfundarnafn, skv. upplýsingum á bakhlið), en hann býr í Lexington, Massachusetts ásamt eiginkonu sinni, en stundaði áður nám á Íslandi.  Hann gefur bókina væntanlega út sjálfur en hún ku vera fáanleg í gegnum Amazon.


Bókin er stutt, ekki nema 59 síður með stóru letri. Þetta hljómar etv yfirborðskennt hjá mér, það er svosem ekkert sem segir að lengd sögu segi eitthvað til um gæði hennar! En hér er það hversu stutt bókin er einmitt vandamál. Hún er svo stutt að höfundurinn nær engan veginn að vinna úr efninu sem hann hefur og manni líður svolítið einsog maður sé að lesa „beinagrind“ að bók sem eftir sé að vinna úr. Að mínu mati er bókin alls ekki illa skrifuð, raunar bara nokkuð vel, og það eru í henni ýmsir þræðir sem gaman hefði verið að unnið hefði verið með, svo sem einsog tengingin við 9/11 og það að vera Ameríkani í útlöndum þegar þau óskup dundu yfir.  Þá hefði verið gaman ef Ryan hefði unnið meira með þá lífsreynslu að vera útlendur nemandi á Íslandi. Einsog sagan stendur þá er hún óskup endaslepp og vantar í hana alla fyllingu.  Sjálfur söguþráðurinn er engan veginn nægilega trúverðugur til að geta verið saga úr raunveruleikanum (enda varla ætlunin nema að litlu leyti) og  alls ekki nógu vel út pældur til að virka sem fantasía eða sci fi.
Mér finnst ekkert ólíklegt að fólk sem hefur dvalið í stuttan tíma á Íslandi gæti haft gaman að því að lesa bókina, þó ekki væri nema fyrir það að lesa um staði sem það hefur heyrt um eða komið á og hlæja svolítið að einkennilegum Íslendingum, en svona fyrir flesta aðra þá er bókin varla nægilega áhugaverð. Til þess vantar of mikið uppá söguþráð og fyllingu í frásögnina.

Með skrýtna húfu og eldhúsið á baðinu

Stundum hefur maður bók innan seilingar árum eða áratugum saman áður en maður lítur í hana og uppgötvar hversu frábær hún er. Sem dæmi um slíka bók finnst mér ég verða að segja frá Det vokser ikke hvitløk på Skillebekk (1986) eftir Iben Sandemose. Þessi bók hafði verið uppi í hillu hjá mömmu í hátt í 25 ár áður en mér datt í hug að líta í hana. Fyrir mér var þetta bara einhver bók sem mömmu hafði verið gefin í Noregi og einhvern veginn hvarflaði aldrei að mér að lesa hana—fyrr en á síðasta ári að ég sat heima hjá mömmu og var að bíða eftir einhverju og hafði ekkert betra að gera. Í ljós kom að bókin er bráðskemmtileg.

Bak við tjöldin...eða tjaldið

Marilyn alltaf spræk...
Bækur sem segja frá því sem gerist á bak við tjöldin eru oft skemmtilegar og sjálf er ég sérstaklega svag fyrir þeim sem segja frá gerð sögufrægra kvikmynda. (Reyndar hef ég líka mjög gaman af heimildarmyndum um sama efni – sem oft eru þegar vel tekst til ekki síðri en upprunalegu kvikmyndirnar – hér mætti t.d. nefna Heart of Darkness (1991) um gerð Apocalypse Now og Burden of Dreams um gerð Fitzcarraldo (1982)). Stundum eru slíkar bækur skrifaðar af leikstjórum eða framleiðendum sem annað hvort birta dagbækur skrifaðar meðan á vinnslu kvikmynda stendur eða þá að þeir líta um öxl, löngu eða stuttu síðar. Stundum eru það svo kvikmyndafræðingar eða hreinlega áhugamenn um kvikmyndir sem grafa upp staðreyndir og slúður um gerð frægra mynda – en ekki er síður skemmtilegt þegar einhverjir sem spila jafnvel litla rullu við gerð kvikmyndarinnar segja frá sínu sjónarhorni sem oft er þá óvenjulegt og áhugavert.




27. júní 2012

Prinsessan sem átti 200 bækur

Á dögunum fæddist ný prinsessa hér í Svíþjóð, hennar konunglega hátign prinsessan Estelle Silvia Ewa Mary. Þegar Estelle litla var skírð nú í lok maí færði ríkisstjórnin henni að gjöf sérsmíðaðan bókaskáp með 200 barnabókum. Ekki var annað að sjá en vandað hefði verið til verksins. Skápurinn var hannaður með form hins sögufræga leikkofa í garðinum við Haga höll í huga og hann prýðir gyllt stjarna sem væntanlega vísar í nafn prinsessunnar. Bækurnar 200 voru valdar af kostgæfni, meðal annars af fulltrúa frá Svenska barnboksinstitutet. Skilyrðin voru þau að bækurnar væru allar fáanlegar í búðum í mars 2012 og væru þannig þverskurður af barnabókmenntum þess tíma fremur en safn kanónubókmennta. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að bækurnar í skápnum, líkt og sænsk barnabókaútgáfa almennt, endurspegli jöfn réttindi allra óháð kyni, aldri, trú og kynþætti. Þetta hljómar óneitanlega vel.

Nokkrum dögum eftir skírnina birti Dagens Nyheter hins vegar grein sem gefur aðra mynd af bókaskápnum góða. Greinin er skrifuð af þeim Marie Tomicic og Karin Salmson sem eru stofnendur forlagsins Olika förlag. Samkvæmt þeim eru bækurnar 200 ansi langt frá því að endurspegla samfélagið og fjölbreytileika þess. Samkvæmt útreikningum þeirra fer lítið fyrir minnihlutahópum á borð við innflytjendur, samkynhneigða, fatlaða eða Sama í bókaskápnum og þær spyrja hvers vegna ekki þyki vert að miðla myndum og frásögnum af þeim til ríkisarfans. Þær benda jafnframt á að söguhetjur bókanna séu í 40% tilvika strákar en aðeins 22% séu stelpur svo því fari fjarri að þær endurspegli jöfn réttindi kynjanna. Það að kynjahlutföll aðalpersóna séu jöfn í sænskum barnabókmenntum er reyndar mýta samkvæmt aðstandendum Olika förlag. Staðreyndin er víst sú að í myndskreyttum bókum fyrir yngri börn eru hlutföllin um það bil 58% strákar á móti 34% stelpum. Í unglingabókmenntum snúast hlutföllin við og þar eru 60% stelpur á móti 33% strákum. Þetta, benda þær á, megi ekki túlka sem leiðréttingu á kynjahlutfallinu heldur endurspegli aðeins þá staðreynd að þegar komið er upp í eldri aldurshópa lesi færri strákar bækur. Hátt hlutfall kvenpersóna sé því bara byggt á þeirri hugmynd að stelpur hafi ekki áhuga á að lesa bækur um stráka.

23. júní 2012

Bókavúgí í Amsterdam

Í Amsterdam er margt skemmtilegt og meðal annars mikið af girnilegum bókabúðum.
Ævisaga Marcel Duchamp
fékk mig til að gervibrosa.
Einhver sú skemmtilegasta er bókverkabúðin Boekie Woekie við Berenstraat, sem upphaflega var opnuð 1986 af sex listamönnum en er í dag rekin af þremur þeirra, hjónunum Hettie van Egten og Jan Voss ásamt Rúnu Þorkelsdóttur.

21. júní 2012

Morð frá nýju sjónarhorni

Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði Sigfríður pistil um hina amerísku Elizabeth George sem skrifar glæpasögur sem eru breskari en high tea. Pistillinn fékk mig til að fiska 14. bók George, What Came Before He Shot Her, fram úr hillunum hvar hún hefur staðið óhreyfð og ólesin frá því ég keypti hana fyrir svona fimm árum síðan. Ég hafði nefnilega aldrei fengið það af mér að lesa hana enda enn í áfalli yfir því hvernig 13. bókin, With No One as Witness endaði. (Sigfríður er auðvitað löngu búin að ljóstra upp um efni þessara tveggja bóka en ég kann samt ekki við annað en að vara fólk sem hefur í hyggju að lesa þær við því að ég er um það bil að fara að gera slíkt hið sama.)

Undir lok With No One as Witness er Lady Helen, ein af fimm aðalpersónum bókaflokksins og eiginkona rannsóknarlögregluforingjans Thomasar Lynley, óvænt myrt. Hún er að koma heim úr innkaupaferð þegar hún er skotin fyrirvaralaust og án nokkurrar sýnilegrar ástæðu en engin vitni eru að atburðinum - fyrir utan lesandann. Þegar bókinni lýkur hefur 12 ára drengur verið handtekinn fyrir morðið enda bendla ýmis sönnunargögn hann við glæpinn. What Came Before He Shot Her segir svo sögu þessa drengs og lýsir aðdraganda morðsins frá hans sjónarhorni.

Lesendur Elizabeth George voru harmi slegnir yfir morðinu á Lady Helen – þar á meðal ég. Í athyglisverðum pistli á heimasíðu sinni útskýrir George af hverju hún tók þá dramatísku ákvörðun að myrða Helen og þar kemur líka fram að viðbrögðin við bókinni hafi verið gríðarleg, hún hafi fengið bréf víða að úr heiminum frá reiðu fólki sem úthúðaði henni fyrir gjörninginn. Sjálf var ég kannski ekki alveg svo örvingla en ég var svo óendanlega sorgmædd að ég fékk mig ekki til þess að lesa neitt meira um morðið. Ég ákvað svo sem aldrei að hætta að lesa bókaflokkinn, það gerðist bara óvart þar sem ég gat aldrei hugsað mér að taka 14. bókina fram. Ekki fyrr en Sigfríður skrifaði sinn pistil og sannfærði mig um að What Came Before He Shot Her væri vel þess virði að lesa.

18. júní 2012

Hér vex enginn sítrónuviður

Milli Gyrðis Elíassonar og Tove Jansson liggur þráður. Það hef ég oft áður sagt (til dæmis hér). Í nýjustu ljóðabók Gyrðis, Hér vex enginn sítrónuviður, rakst ég á skriðlukt og sjónauka og í einu ljóðanna skríða stafir löngum, svörtum fótum, út af síðu og hverfa í gras. Þetta hefur gerst í Múmíndal, hugsaði ég stundum á meðan ég las. Takið þessu samt ekki of bókstaflega, Gyrðir býr auðvitað til alveg sérstakan heim í þessari nýju bók eins og í öðrum bókum sínum, mjög áhugaverðan heim, þar sem vísað er í ýmsar áttir.


16. júní 2012

Íburðarmikla háskólabókasafnið í Coimbra

Á ferðalagi okkar um Íberíuskagann höfum við Guðrún Elsa og Kristín Svava lagt okkur fram um að heimsækja bækur, hvort sem er í bókabúðum eða á bókasöfnum. Eitt þeirra fjölmörgu bókasafna sem við höfum heimsótt, og án efa það glæsilegasta, er gamla háskólabókasafnið í Coimbra. Það er í barokkstíl, byggt á 18. öld, og kennt við João konung fimmta. Það mátti ekki taka myndir inni á safninu en við tókum tvær myndir úti fyrir og stálum hinum af netinu.
Framhlið bókasafnsins.

15. júní 2012

Karlinn í tunglinu

Ég tók svolitla Le Guin-syrpu nýlega og las loksins The Dispossessed, bók sem ég hef verið á leiðinni að lesa árum saman. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum, þetta er þrælgóð bók. Söguhetjan er eðlisfræðingurinn Shevek sem fæddur er og uppalinn á Anarres, sem er tungl plánetunnar Urras. Forsagan er sú að um einni og hálfri öld áður en sagan gerist fékk hópur uppreisnarmanna á Urras að nema land á Anarres og stofna þar anarkíska nýlendu. Þessi hópur byggir svo upp samfélag í hrjóstrugu umhverfi þar sem allir hafa nóg, en bara rétt svo. Í bókinni fáum við svo að fylgjast með lífshlaupi Sheveks á Anarres og heimsókn hans til Urras, sem er kannski ekki svo ósvipuð Jörðinni, þótt ljóst sé að um allt aðra reikistjörnu er að ræða. Nokkrir Jarðarbúar koma reyndar við sögu undir lok bókar og kemur þar fram að þeir eru komnir langt að.

14. júní 2012

Póstkort til Pessoa

Í gær hefði portúgalska ljóðskáldið Fernando Pessoa orðið 124 ára, hefði hann lifað. Af því tilefni skrifuðum við Guðrún Elsa og Kristín Svava til hans afmælispóstkort og stíluðum á hvílustað hans í klaustri heilags Hírónýmusar í Belém.

13. júní 2012

Persónur og lesandi reyndir

Nýverið komst ég loksins yfir skáldsöguna Abide With Me eftir bandaríska rithöfundinn Elizabeth Strout. Loksins segi ég þar sem ég hef fyrir löngu lesið og endurlesið fyrstu bók hennar, Amy and Isabelle sem og nýjusta verk hennar, hina mögnuðu Olive Kitteridge sem Strout hlaut Pulitzer verðlaunin fyrir árið 2009. Ég hef áður lofað því að skrifa um Olive Kitteridge enda ein af mínum uppháldsbókum og ítreka það loforð en hér verður hins vegar talað um aðra bók Strout, áðurnefnda Abide With Me.

2. júní 2012

Dýrasögur eftir David Sedaris

Bók David Sedaris, Squirrel Seeks Chipmunk, hefur fengið vægast sagt blendnar viðtökur síðan hún kom út haustið 2010. Einn viðskiptavinur Amazon hefur látið eftirfarandi orð falla um bókina: „These stories are brutal, vulgar, even hateful. [...] The only commentary seems to be that people are awful, and life is misery.“ En annar segir: „Simply amazing...“ Ég ætla að vera alveg hrikalega flippuð og segja: hún er svona la la. Ágæt. Bara fín.

Bókin er safn stuttra sagna og sumar þeirra eru ótrúlega fyndnar, aðrar ekki. Ian Falconer myndskreytir sögurnar virkilega skemmtilega. Þetta er fyrsta Sedaris-bókin sem ég les, þannig að ég varð ekkert sár yfir því að sögurnar væru ekki allar algjör snilld (eins og margir aðdáenda hans sem tjá sig á amazon.com). Þótt sögurnar í Squirrel Seeks Chipmunk fjalli um dýr, er viðfangsefni þeirra í raun manneskjur eða manngerðir. Það mætti kannski kalla þær dæmisögur Esóps fyrir fullorðna, fyrir utan það að í þeim leynist enginn boðskapur. Dýrin eru breysk, sum þeirra reyndar alveg snarvitlaus, og samtölin þeirra á milli eru oft ótrúlega fyndin. Það er bara eitthvað við dýr sem gædd eru mannlegum eiginleikum, ég held að það sé eiginlega ekki til neitt skemmtilegra. Næstum því allir brandararnir á internetinu (sem eru eitthvað fyndnir) fjalla um dýr sem haga sér eins og manneskjur

Myndirnar sem prýða bókina eru frábærar.
Hugmyndin að bókinni var afskaplega góð og margar sagnanna voru vissulega vel heppnaðar. Ég las bókina á meðan ég var í stuttu ferðalagi og reyndi að treina mér hana, leyfði mér bara lesa eina sögu í einu af því annars hefði hún strax verið búin. Það gerði lesturinn held ég ánægjulegri, því ég fann yfirleitt eitthvað skemmtilegt til að lesa upp fyrir ferðafélagann (mömmu) þegar ég dvaldi lengi við sögurnar, Sedaris er svo skemmtilegur penni. Stundum las ég reyndar heilu sögurnar upphátt og lék dýrin, sem varð til þess að við mamma hermum ennþá eftir móðurlausa birninum úr sögunni „Motherless Bear“ þegar okkur finnst við vera dottnar í sjálfsvorkunn. Ég mæli sérstaklega með „The Toad, the Duck and the Turtle“, sem fjallar um halakörtu, önd og skjaldböku sem eru í röð sem leiðir að óskilgreindu kvörtunarborði og tengjast vinaböndum við að tala illa um slönguna sem vinnur á borðinu. „The Grieving Owl“ er líka frábær, en hún fjallar um óvenjugáfaða uglu og sníkjudýr sem búa í endaþarmi flóðhests. Þetta er að bók sem allir sem eru örlítið antrópómorfískir ættu að minnsta kosti að kíkja á.