
![]() |
Rocky Mountains séð frá Bozeman Montana en þar kom ég við... |
Bryson hefur ferð sína um þennan fræga götuslóða þegar hann er 44 ára. Jólin áður hafði hann sent línu með öllum jólakortunum og boðið fólki að koma með (hann hryllti við að mæta úlfum, björnum og morðingjum einn á ferð). Einn einasti svaraði kallinu – Stephen Katz, æskuvinur sem hann hafði ekki hitt í 25 ár. Sá reyndist hafa fitnað og ólukkast eitthvað á þessum 25 árum og eftir lýsingar á því hvernig hann mæddist við að ganga upp stigann heima hjá Bryson var erfitt að ímynda sér annað en að hann yrði dragbítur á höfundinum þótt hann væri kannski enginn Ólympíufari sjálfur. Katz reynist vera mikill furðufugl en auðvitað betri en enginn þegar á hólminn (eða fjallið) er komið. Hann tekur gríðarmikið af kleinuhringjum og bollakökum með en hendir síðan helmingnum á leiðinni þegar bakpokinn fer að síga í, hendir dýrmætri vatnsflösku, villist, fer í fýlur, fer á fjörurnar við afmyndaða (og – kemur í ljós – gifta) gengilbeinu og er að sumu leyti það merkilegasta við ferðina. Bryson er reyndar svo brútal stundum í lýsingum á þessum félaga sínum að ég fór alvarlega að velta því fyrir mér hvort hann væri skáldaður, hvort hann hefði svona æpandi mikinn húmor fyrir sjálfum sér - eða hvort hann væri svo lítið menningarlega sinnaður að Bryson treysti því að hann myndi aldrei lesa bókina.