Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ferðalög. Sýna allar færslur

1. september 2012

A Walk in the Woods í rútu um Bandaríkin

Á nýlegri rútuferð minni um Bandaríkin langaði mig (eftir skammt af skandinavískum glæpum auðvitað) til að lesa eitthvað um ferðalög í Ameríkunni og leitaði til Bill Bryson sem ég hef lengi ætlað að lesa annað eftir en Shakespeare (hana hef ég lesið þrisvar). (Bryson er góðvinur Druslubloggsins og hefur verið fjallað um hann hér). Fyrir valinu varð A Walk in the Woods sem segir frá (þrauta)göngu höfundar um Appalachia-slóðina sem er um 2000 mílur (heimildum ber ekki saman um nákvæma vegalengd) og liggur um mikilfenglega fjallgarða Bandaríkjanna og á nákvæmlega ekkert sameiginlegt með huggulegu rútuferðalagi mínu annað en landið. Það dró þó ekki úr ánægju við lesturinn og þó að mínar göngur hafi helst verið um aðalgötur bæja og borga (með sólhatt og kælt vatn í kaffhaldaranum á barnakerrunni) þá sá ég raunar bæði The Rockies og The Smokies út um gluggan á rútunni og átti ekki vandræðum með að ímynda mér Bryson sveittan í hlíðum fjallanna.
Rocky Mountains séð frá Bozeman Montana en þar
kom ég við...

Bryson hefur ferð sína um þennan fræga götuslóða þegar hann er 44 ára. Jólin áður hafði hann sent línu með öllum jólakortunum og boðið fólki að koma með (hann hryllti við að mæta úlfum, björnum og morðingjum einn á ferð). Einn einasti svaraði kallinu – Stephen Katz, æskuvinur sem hann hafði ekki hitt í 25 ár. Sá reyndist hafa fitnað og ólukkast eitthvað á þessum 25 árum og eftir lýsingar á því hvernig hann mæddist við að ganga upp stigann heima hjá Bryson var erfitt að ímynda sér annað en að hann yrði dragbítur á höfundinum þótt hann væri kannski enginn Ólympíufari sjálfur. Katz reynist vera mikill furðufugl en auðvitað betri en enginn þegar á hólminn (eða fjallið) er komið. Hann tekur gríðarmikið af kleinuhringjum og bollakökum með en hendir síðan helmingnum á leiðinni þegar bakpokinn fer að síga í, hendir dýrmætri vatnsflösku, villist, fer í fýlur, fer á fjörurnar við afmyndaða (og – kemur í ljós – gifta) gengilbeinu og er að sumu leyti það merkilegasta við ferðina. Bryson er reyndar svo brútal stundum í lýsingum á þessum félaga sínum að ég fór alvarlega að velta því fyrir mér hvort hann væri skáldaður, hvort hann hefði svona æpandi mikinn húmor fyrir sjálfum sér - eða hvort hann væri svo lítið menningarlega sinnaður að Bryson treysti því að hann myndi aldrei lesa bókina.

31. ágúst 2012

Bókasöfn á gististöðum, 14. þáttur: Kerlingarfjöll

Ég veit ekki af hverju það var mynd af
Akureyrarkirkju fyrir neðan bókahilluna.
Í júlí fór ég með gönguhópnum mínum í Kerlingarfjöll. Þar var gaman að ganga í nokkra daga, af Snækolli sást vítt og breitt um landið og náttúran öll var fjölbreytileg, dramatísk og falleg. Í Kerlingarfjöllum er rekin ferðaþjónusta og í húsinu þar sem hópurinn minn fékk inni mátti finna bókahillu sem var forvitnileg á sinn hátt eins og bókasöfn á gististöðum eru iðulega. Áður en ég kemst að bókahillunni finn ég mig þó knúna til að ræða aðeins aðbúnaðinn. Þess má geta að uppsett verð á manninn í svefnpokaplássi í Kerlingarfjöllum er 6800 kr. fyrir hverja nótt og því ætti ekki að þurfa gríðarmargar gistinætur til að safna nægu fé til að fara t.d. í IKEA eða Góða hirðinn og kaupa lágmarksútbúnað.

Í húsi sem ætlað er átta manns væri varla til of mikils mælst að finna mætti m.a.:
  • fleiri en tvær súpuskálar,
  • a.m.k. átta borðhnífa, skeiðar og gaffla,
  • sæmilega stóran pott (það voru tveir litlir pottar á staðnum en samanlagt hefðu þeir varla dugað undir súpu eða hafragraut handa hópnum),
  • þó ekki væri nema einn búrhníf, jafnvel tenntan hníf líka ef maður færi að gera kröfur, hugsanlega líka ausu eða eitthvað sambærilegt (við notuðum bolla í ausu stað en þeir voru reyndar líka af skornum skammti). 

4. ágúst 2012

Leyndarmál síldarverkenda

Í jarðgöngum getur verið gagnlegt
að vita um stystu leiðina út.
Í júlí dvaldi ég um tíma á gömlum heimaslóðum norðanlands. Drjúgur hluti af tímanum fór í að liggja í leti sem var ósköp gott (sumarfrí er dásamleg uppfinning) en ég notaði líka tækifærið til að gerast túristi og kanna staði sem ég hafði sjaldan eða aldrei séð áður. Til dæmi hafði ég bara komið einu sinni til Siglufjarðar en nú eru komin þessi líka fínu Héðinsfjarðargöng og það tekur engan tíma að skreppa frá Akureyri. Ferðin var vel þess virði, Siglufjörður er laglegur bær og það var indælt að sitja úti á Kaffi Rauðku með kaffibolla, skoða söfnin í bænum, sérstaklega Síldarminjasafnið, rölta um bæinn og borða að síðustu á Hannes Boy Café. Nú eruð þið kannski farin að velta fyrir ykkur hvernig þetta kemur bókabloggi við. Vissulega var ferðin ekki sérlega bókmenntaleg - og þó. Á Síldarminjasafninu varð allavega á vegi mínum forvitnileg bók.

6. júlí 2012

Íslenska elskhuga með í ferðalagið!

Uppáhaldskápumyndin okkar.
Eins og glöggir lesendur bókasíðunnar hafa tekið eftir vorum við Kristín Svava og Guðrún Elsa á ferðalagi fyrir skömmu. Guðrún Elsa hafði með sér í þessa för eftirlætisferðabókina sína; ekki í þeim skilningi að bókin fjalli um ferðalög, heldur er svo gaman að lesa upp úr henni á ferðalögum og spjalla um hana við ferðafélagana. Jú, þið hafið eflaust áttað ykkur á um hvaða bók ræðir: það er einmitt bókin Íslenskir elskhugar frá 1985 eftir blaðamanninn Jóhönnu Sveinsdóttur. Þessa bók fékk Guðrún í afmælisgjöf frá annarri druslubókadömu, Þórdísi Gísladóttur, og kann henni miklar þakkir fyrir. Við ákváðum að nota tækifærið fyrst við höfðum báðar farið svo vandlega í gegnum bókina (hún var sannarlega okkar bókasafn á gististöðum) og blogga svolítið um hana.

K.Svava: Um daginn bárust fréttir af blaðakonu sem hygðist safna kynlífsfantasíum nafnlausra íslenskra kvenna og gefa út á bók, og okkur varð báðum hugsað til Íslenskra elskhuga þegar við lásum þessar fréttir. En þrátt fyrir titilinn einblínir Jóhanna Sveinsdóttir í Íslenskum elskhugum ekki bara á kynlíf karlanna átján sem hún tekur viðtöl við, heldur spyr hún þá út í líf þeirra almennt, tilfinningar og mannleg samskipti. Það góða við bókina er kannski einmitt að hún setur ástalíf karlanna í samhengi við líf þeirra og viðhorf, eitthvað sem gæti líka gert bók um fantasíur áhugaverða – hver eru tengsl fantasíunnar og raunveruleikans?

G.Elsa: Já, þetta viðtalsform er svo ágætt vegna þess að Jóhanna leggur sig fram um að tengja saman og spyrja frekar, fá karlana til að skýra betur afstöðu sína eða tilfinningar. Hún er greinilega í hlutverki blaðamannsins; þótt maður verði sjálfur stundum pirraður út í karlana fyrir viðhorf þeirra er hún alltaf mjög sanngjörn og dæmir þá ekki. Svo er líka skemmtilegt að hún spyr þá alltaf út í áhrif jafnréttisbaráttunnar á þá og tengir þannig upplifanir þeirra af sjálfum sér og öðrum við hugmyndir um kynhlutverk. Flestir lýsa þeir sig jákvæða í garð kvenréttindabaráttunnar en oft kemur ýmislegt mótsagnakennt fram í máli þeirra og ýmis íhaldssöm viðhorf til kynjanna. Svo finnst mér ógeðslega fyndið þegar einhverjir tala aðallega um það hvað kvenréttindakonur séu góðar í rúminu, eins og það sé það besta við þær.

23. júní 2012

Bókavúgí í Amsterdam

Í Amsterdam er margt skemmtilegt og meðal annars mikið af girnilegum bókabúðum.
Ævisaga Marcel Duchamp
fékk mig til að gervibrosa.
Einhver sú skemmtilegasta er bókverkabúðin Boekie Woekie við Berenstraat, sem upphaflega var opnuð 1986 af sex listamönnum en er í dag rekin af þremur þeirra, hjónunum Hettie van Egten og Jan Voss ásamt Rúnu Þorkelsdóttur.

9. apríl 2012

Gotlandsklám

Ég hef lengi haft þann sið að lesa glæpasögur frá viðkomandi landi þegar ég er á ferðalögum. Skemmtilegast af öllu er að lesa bók sem gerist akkúrat í þeirri borg eða á því svæði sem maður er staddur á en það er auðvitað ekki alltaf sem það tekst. Þannig hef ég lesið Elizabeth George í London, Ian Rankin í Edinborg og þegar ég dvaldi í viku í sumarhúsi á Gotlandi byrgði ég mig að sjálfsögðu upp af seríu Mari Jungstedt um lögregluparið Anders Knutas og Karin Jacobsson og blaðamanninn Johan Berg.

Mari Jungstedt á Gotlandi
Það er auðvitað ekki bara í mínum huga sem ferðamennska og bókmenntir eru tengd. Skáldskapur er almennt frábær leið til að kynnast framandi slóðum. En skáldskapur er líka frábær leið til að markaðssetja framandi slóðir – og framandi slóðir eru frábær leið til að markaðssetja bækur. Glæpasögur Mari Jungstedt eru gott dæmi um þetta. Sögurnar gerast sem sagt á Gotlandi, sænskri eyju í Eystrasaltinu. Þar sem eyjan er nokkuð afskekkt (þangað er um þriggja tíma sigling) hefur tungumál hennar, bygginarstíll, búskaparhættir og menning löngum þróast án stórkostlegra áhrifa frá meginlandinu. Á eynni má til að mynda finna bæði sérstakan fjárstofn og smáhestakyn, þar er töluð áberandi mállýska auk þess sem hvít steinhús leysa þar hin erkitýpísku falurauðu timburhús algjörlega af hólmi enda lítill skógur á eynni en undirlag hennar allt úr kalksteini. Gotland er líka ríkt af fornminjum og frægastur er varnarmúrinn sem umlykur gamla bæjarkjarnann í höfuðstaðnum Visby. Fólkið, náttúran og menning – allt hefur þetta löngum þótt meira „ekta“ en annars staðar í Svíþjóð og gott ef það var ekki ein af skýringum Ingmars Bergmans á óbilandi kærleika sínum til Fårö (sem er lítil eyja við suðausturströnd Gotlands, gjarnan talin einn afskekktasti hluti þess). Bergman er þó ekki sá eini sem hefur heillast af andrúmslofti eyjunnar því vinsældir hennar hafa farið stöðugt vaxandi undanfarna áratugi og í dag er hún jafnþekkt sem sumarparadís forríkra meginlandsbúa og fyrir menningarauðinn. Þessi nýja hlið Gotlands nær hámarki í svokallaðri Stokkhólmsviku en þá yfirtaka ofdekruð Östermalms-ungmenni Visby, dansa við europopp og „vaska“ kampavín (að vaska kampavín er einfaldlega að panta dýrustu kampavínsflöskuna sem skemmtistaðirnir bjóða upp á og biðja þjóninn að hella henni í vaskinn – allt eftir að sett var bann við að sprauta kampavíni yfir innréttingar og gesti á skemmtistöðum sem fram að því hafði verið helsta iðja sama hóps). Það er sem sagt sama út frá hvaða sjónarhorni Gotland er skoðað, það er kjörlendi markaðssetningar þar sem það er ekki bara framandi í augum umheimsins heldur líka þorra Svía.

28. febrúar 2012

Á bókaslóðum í Manchester

Hvaða bókanjörður kannast ekki við það að leita uppi bókatengd fyrirbæri á ferðum um útlönd? Ég hef farið á Jane Austen-safnið í Bath, gengið um Edinborg á slóðum Rebusar vinar míns, ráfað um Oxford í Morse-nostalgíukasti, og þegar ég fór fyrst til Parísar 17 ára gömul langaði mig að vera Andri hans Péturs Gunnarssonar.

John Rylands Library, Manchester
Svo er líka gaman að skoða almennari bókatengd fyrirbæri. Í síðustu viku eyddi ég afar ljúfum degi í Manchester og eitt af því sem ég hafði ákveðið fyrirfram var að skoða John Rylands-bókasafnið. Það reyndist auðvelt að finna þetta fallega safn, sem er háskólabókasafn undir Manchester-háskóla og staðsett í göngufæri við miðbæinn og t.d. Piccadilly-brautarstöðina. Ekki spillir fyrir að um miðborgina alla ganga ókeypis strætisvagnar sem kallast Metroshuttle og er afskaplega einfalt að nýta sér. Gott framtak í þágu umhverfisins og borgarmenningarinnar.

Byggingin sem hýsir John Rylands-safnið var reist fyrir þarsíðustu aldamót og safnið formlega opnað á nýársdag árið 1900. John þessi Rylands ku hafa verið auðkýfingur úr borginni sem sýslaði með bómull og önnur textílefni, en iðnaðararfleifð Manchester byggist ekki síst á vinnslu og sölu textílefna. Það var ekkja Johns, Enriqueta Rylands, sem stofnaði bókasafnið og styrkti byggingu þess í minningu eiginmannsins sem lést 1888. Ansi veglegur minnisvarði það.

Og hvað er svona skemmtilegt við að skoða John Rylands-bókasafnið?

4. febrúar 2012

Bókabúðir í Singapúr: Kinokuniya og Books Actually

Myndin tengist efni pistilsins alls ekki beint.
Á nýliðnu ferðalagi um Víetnam var ég að vanda tíður gestur í ýmsum bókabúðum, jafnvel þótt þar hafi sjaldnast verið seldar margar bækur sem ég gat lesið. Það er bara svo notalegt að hanga í bókabúðum, hvort sem bækurnar eru á tungumáli sem maður skilur eða ekki. Ég get svo sannarlega gert orð sem Guðrún Elsa lét falla í gamalli og góðri færslu að mínum: "bókabúðir gera mig hamingjusama".

Í agalega stóru ljósmyndasafni sem bíður flokkunar og úrvinnslu er að finna ófáar myndir úr bókabúðum sem ég kannaði á ferðalaginu. En áður en ég leggst undir feld til að ákveða hvort betra sé að reyna á þolinmæði lesenda með maraþonbloggfærslu um víetnamskar bókabúðir eða beinlínis með greinaflokki verður hér fjallað um tvær bókabúðir í Singapúr þar sem ég kom við á leiðinni.

9. september 2011

Risar, hríslur og töfrandi ferðalög

Þessi býr í Lapplandi.
Tré hafa verið mér hugleikin undanfarin misseri. Kannski afþví ég hef búið í Finnlandi, hvers landslag einkennist af trjám-trjám-trjám í svo endalausum beinvöxnum röðum að það sést varla í skóginn fyrir þeim (hver hélt því annars fram að landslag væri aldrei leiðinlegt?). Í sumar fór ég í ródtripp til Finnmerkur, eða þess hluta Lapplands sem liggur norðan finnsk-norsku landamæranna og sá hvernig landslagið breyttist eftir því sem norðar dró: trjám fækkaði uns nánast engin voru eftir og jafnframt urðu þau lágvaxnari og kræklóttari. (Þegar ég sá fyrst svona víðfeðma birkiskóga í útlöndum, með uppréttum eintökum og ljósum berki, þá fattaði ég ekki einusinni strax að trén væru af sama kyni og birkihríslur Reykjavíkur.) Með öðrum orðum, gróðurfarinu (og landslaginu reyndar með) svipaði sífellt meir til Íslands og í nyrsta hluta Noregs gaf fátt til kynna að við værum annarsstaðar en í íslenskum óbyggðum. Nema kannski stöku hreindýrskálfur á beit.

Í vor fór ég aðra ferð, til Kaliforníu, skoðaði þar m.a. risafuruskóga með nokkur þúsund ára gömlum trjám og fannst vægast sagt frekar töff. Þetta var sömuleiðis fyrsta skipti sem ég kom út fyrir Evrópu og ég upplifði margt, meðal annars náttúruna, sem einhvernveginn merkjanlega útlendara en í gamla heiminum. Upplifði hvað þekking mín á ýmsum náttúrufyrirbærum er í raun takmörkuð og heimóttarleg, þar eð svo gríðarmargar sortir þrífast jú bara alls ekki uppi á Íslandi. Því þótti mér mikill fengur í því – og nálgast nú bókatengingar pistilsins – að finna í fornbókabúð í Norður-Kaliforníu (nánar til tekið í Mendocino, en dvöl í þeim krúttlega smábæ hefur eðalrithöfundurinn Richard Brautigan lýst á sinn grátbroslega einkennishátt í síðasta verki sínu, Ógæfusömu konunni) bókina Simon & Schuster's Guide to Trees. Þetta er um 400 síðna uppflettirit frá árinu 1978, með yfir 650 myndum – 350 in full color!
R. Brautigan með stráhattinn (en undirrituð festi
einmitt kaup á einum slíkum í Kaliforníureisunni).
Einnig inniheldur ritið ýmsan fróðleik um tré:

POPULUS ALBA, White Poplar (distributed from central-southern Europe to western Asia and North Africa): Etymology: Derived from arbor populi, the people's tree, the name the Ancient Romans used for the same plant.
SEQUOIA SIMPERVIRENS, Coast Redwood (native to California and Oregon): Etymology: Commemorates the Cherokee chief and scholar Sequoyah, who devised an alphabet for the Cherokee language.

Trjáabókin góða.
Redwood-trén eru risafururnar, en önnur tegund þeirra nefnist METASEQUOIA GLYPTOSTROBOIDES eða Dawn Redwood / Water Larch: found in the fossil state in Japan in 1941, discovered living in central China near the Yangtze river shortly afterwards, from there introduced into America and Europe – sem þýðir að risavaxnar finnist þær ekki utan Asíu. (Ég er semsagt að þróa með mér ferðabakteríu út frá því hvar falleg og exótísk tré kynnu helst að finnast.)

Þetta fallega tré sást í San Fransiskó en
deilir því miður jarðvegi með McDonald's.
Útfrá þessu fór ég síðan að hugsa um tré í bókmenntum og komst reyndar að fleiri niðurstöðum en ég hefði fyrirfram búist við. Fyrst má auðvitað nefna Enturnar í Hringadróttinssögu. Svo er það Ljónið, nornin og skápurinn eftir C.S. Lewis: töfraskápurinn, upphafspunktur ferðarinnar til Narníu, var unninn úr trénu sem óx upp af öðrum töfrahringanna tveggja sem sagt er frá í Frænda töframannsins, sem er fyrst í tímaröð Narníusagnanna sjö þótt hún sé sjötta í útgáfuröðinni. Nú og svo eru náttúrlega heimsbókmenntahríslur á borð við ask Yggdrasils og skilningstré góðs og ills! Kemur nokkrum fleira í hug þessu tengt, eða bara hverju sem vera skal?