Sýnir færslur með efnisorðinu manchester. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu manchester. Sýna allar færslur

28. febrúar 2012

Á bókaslóðum í Manchester

Hvaða bókanjörður kannast ekki við það að leita uppi bókatengd fyrirbæri á ferðum um útlönd? Ég hef farið á Jane Austen-safnið í Bath, gengið um Edinborg á slóðum Rebusar vinar míns, ráfað um Oxford í Morse-nostalgíukasti, og þegar ég fór fyrst til Parísar 17 ára gömul langaði mig að vera Andri hans Péturs Gunnarssonar.

John Rylands Library, Manchester
Svo er líka gaman að skoða almennari bókatengd fyrirbæri. Í síðustu viku eyddi ég afar ljúfum degi í Manchester og eitt af því sem ég hafði ákveðið fyrirfram var að skoða John Rylands-bókasafnið. Það reyndist auðvelt að finna þetta fallega safn, sem er háskólabókasafn undir Manchester-háskóla og staðsett í göngufæri við miðbæinn og t.d. Piccadilly-brautarstöðina. Ekki spillir fyrir að um miðborgina alla ganga ókeypis strætisvagnar sem kallast Metroshuttle og er afskaplega einfalt að nýta sér. Gott framtak í þágu umhverfisins og borgarmenningarinnar.

Byggingin sem hýsir John Rylands-safnið var reist fyrir þarsíðustu aldamót og safnið formlega opnað á nýársdag árið 1900. John þessi Rylands ku hafa verið auðkýfingur úr borginni sem sýslaði með bómull og önnur textílefni, en iðnaðararfleifð Manchester byggist ekki síst á vinnslu og sölu textílefna. Það var ekkja Johns, Enriqueta Rylands, sem stofnaði bókasafnið og styrkti byggingu þess í minningu eiginmannsins sem lést 1888. Ansi veglegur minnisvarði það.

Og hvað er svona skemmtilegt við að skoða John Rylands-bókasafnið?