29. desember 2020

Brennandi ástarbréf til Söru Stridsberg

Sara Stridsberg
Fyrir ellefu árum síðan – hér má skjóta inn upphrópun að eigin vali um það hve tíminn líður – skrifaði Þórdís Gísladóttir blogg á þessa síðu um skáldsöguna Drömfakulteten eftir sænska rithöfundinn Söru Stridsberg. Hún kom út árið 2006 og fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2007. Þórdís tók fram í pistli sínum að bókin hefði því miður ekki verið þýdd á íslensku og það hefur, því miður, ekkert breyst. Önnur skáldsaga eftir Stridsberg kom reyndar út í íslenskri þýðingu hjá Bjarti fyrir tveimur árum undir hinu þjála nafni Beckomberga-geðsjúkrahúsið og það er óhætt að mæla með henni, hún er virkilega fín. Stridsberg sjálf hefur komið til Íslands og lesið upp oftar en einu sinni; lestur hennar á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2011 var eftirminnilega góður. 

Allt frá því ég heyrði fyrst um skáldsöguna Drömfakulteten hefur hún kallað á mig, enda fjallar hún um Valerie Solanas sem fræg er fyrir karlhatandi manifestó sitt SCUM, sem ég þýddi fyrir mörgum árum á íslensku og kom út undir nafninu SORI. (Það hefur lengi verið á dagskrá hjá mér að endurskoða þessa ungæðislegu þýðingu mína og gera hana aðgengilega á netinu, vonandi kem ég mér að því áður en mjög langt um líður.) Ákall skáldsögunnar var hins vegar eðli málsins samkvæmt á sænsku og ég er svo ókúltíveraður plebbi að hana get ég ekki lesið mér til ánægju. Nú hefur bókin loksins verið þýdd á ensku undir titlinum The Faculty of Dreams, var meðal annars á langa tilnefningalistanum til Man Booker-verðlaunanna í fyrra, og það er komið eintak á Borgarbókasafnið í Grófinni; var mér þá ekkert að landbúnaði að vinda mér í lesturinn. Í stuttu máli sagt elskaði ég bókina svo mikið að ég finn mig knúna til að skrifa systurblogg við færslu Þórdísar frá 2009 og vekja athygli annarra ó-sænskumælandi lesenda á verkinu. 

15. desember 2020

Glæpirnir leynast víða í Skólaráðgátunni!

Ráðgátubækurnar um spæjarana Lalla og Maju hafa verið aufúsugestir á mínu heimili um árabil. Mér telst svo til að Forlagið hafi gefið út einar níu bækur um Spæjarastofuna á íslensku en í Svíþjóð er fjöldi þeirra kominn á þriðja tug – sem eru góðar fréttir – því þá eigum við aðdáendur þeirra nóg inni. Svo mikill aðdáandi bókaflokksins er ég raunar að ég skrifaði fyrir þremur árum pistil á síðuna um Bakarísráðgátuna og fyrir áhugasama má lesa hann hér

Ég komst fyrst í kynni við Lalla og Maju þegar sonur minn var nýorðinn sex ára og farinn að fikra sig áfram á stundum hálli braut lestursins. Hann hefur síðan lesið allar bækurnar í flokknum og þótt hann sé nú orðinn níu ára, og bókaskápurinn hafi stækkað og vaxið samfara því, þykir honum enn gaman að rifja upp kynnin við Lalla og Maju og það þykir mér raunar líka. Þegar hann er sjanghæjaður í að lesa upphátt verða þessar bækur oft fyrir valinu, allri fjölskyldunni til ánægju sem hljóta að teljast afskaplega góð meðmæli með bókaflokknum. 

Bækurnar um Spæjarastofu Lalla og Maju eru léttlestrarbækur, letrið er stórt, það eru myndir á hverri síðu og kaflarnir stuttir. Hins vegar eru þær þessi sjaldséði fugl – spennandi og fyndnar léttlestrarbækur. Raunar hefur grettistaki verið lyft á síðustu árum í þessum efnum þar sem fjöldamargir frábærir barnabókahöfundar hafa skrifað stuttar og skemmtilegar bækur fyrir þennan mikilvæga markhóp sem svo lengi var vanræktur. Gagn og gaman eru sem betur fer ekki það eina sem ungir lesendur geta gripið í. En Spæjarastofan er svo sannarlega mjög framarlega meðal jafningja í þessum flokki bóka. Höfundarnir Martin og Helena á góðri stundu


Bækurnar eru verk hinna sænsku Martin Widmarks, sem er höfundur texta, og Helenu Willis sem myndskreytir. Myndirnar eru stórskemmtilegar og raunar er hálf sagan er sögð í gegnum þær. Fremst eru myndir af aðalpersónum hverrar bókar, lesandanum til hæginda og ánægju. Þetta eru ýktar og kómískar myndir sem gefa lesandanum vísbendingar en afvegaleiða hann líka stundum eins og raunar textinn sjálfur. Þegar Lalli og Maja fara á stúfana og reyna að upplýsa málið komast þau nefnilega yfirleitt að því að fæstir hafa verið að segja alveg satt um allt – margir líta grunsamlega út og hljóma sömuleiðis grunsamlega. En það þýðir þó ekki að þeir séu sekir um glæpi. Það geta nefnilega verið margar góðar ástæður fyrir því að fólk hegðar sér undarlega eða segir ekki alla söguna – og fæstir glæpamenn líta út eins og glæpamenn. Þeir líta bara út eins og venjulegt fólk – enda eru þeir auðvitað venjulegt fólk – sem hefur tekið rangar ákvarðanir. Við erum sannarlega ekki á lendum Enyd Blyton hér þar sem glæpamennirnir voru gjarnan útlendingar eða útlendingslegir, með grimmdarlega munnsvipi og ör (Enda búa auðvitað Widmark og Willis að því að skrifa sínar bækur hátt í hundrað árum síðar en Blyton – svo fyllstu sanngirni sé nú gætt.) Fremst í hverri bók fylgir svo líka hið ómissandi kort af Víkurbæ, en það er heimabær Lalla og Maju og vettvangur allra glæpamálanna. Fátt veit ég betra í bókum en landakort – og það skemmtilega við þennan bókaflokk er að með hverri bók stækkar bærinn – eða stærri hluti hans kemur í ljós. Síðustu ár hafa yfirleitt komið út tvær ráðgátubækur á ári og svo er einnig á þessu herrans ári 2020 en þá komu út Gullráðgátan og Skólaráðgátan, báðar í ljómandi fínni þýðingu Írisar Baldursdóttur – og báðar fá bækurnar fullt hús stiga hjá okkur. 

Í Skólaráðgátunni, sem var lesin síðast, fer skyndilega að finnast mikið magn falskra peningaseðla í umferð í bænum og böndin berast að Víkurskóla, sem bæði Lalli og Maja ganga í, en þangað var nýlega keypt einstaklega góð ljósritunarvél. Sem fyrr vinna krakkarnir skipulega, búa til lista yfir grunaða, spyrja sakleysislegra en lymskulegra spurninga og fara í mátulega hættulega rannsóknarleiðangra. Að lokum leggja þau svo gildru sem hinn seki fellur í. Sænskur bakgrunnur bókanna leynir sér ekki frekar en fyrri daginn (skemmst er að minnast Bakarísráðgátunnar þar sem glæpurinn reyndist vera skattsvik) og hér má á fyrstu síðunum finna Gerði kennara barnanna flóandi í tárum vegna þess að hún sér fram á að ellilífeyririnn muni ekki duga til þegar hún hættir að vinna. Þessum sænska boðskap er þó alltaf stillt í hóf og gefur hann iðulega kærkomið tækifæri til að útskýra og ræða aðeins hvernig samfélagið virkar – foreldrar sem ekki hyggjast lesa bækurnar með börnunum þurfa þó ekki að hafa neinar áhyggjur – sagan gengur fullkomlega upp án slíks samtals. Stærsti kostur Spjarastofubókanna er án efa sá hvað þær eru spennandi og fyndnar, bæði myndir og texti - og eins og með allar góðar afþreyingarbókmenntir má lesa þær aftur og aftur!
Vinsælir sjónvarpsþættir hafa verið gerðir eftir bókunum

14. október 2020

Að verða Simone de Beauvoir

Undir lok síðasta árs las ég í erlendum vefmiðli að ný ævisaga Simone De Beauvoir, væri komin út. Hún heitir Becoming Beauvoir, A Life og er eftir Kate Kirkpatrick, fræðikonu við King's College í London. Fyrir áratugum las ég æviminningar Simone De Beauvoir, og ég hef lesið nokkrar ævisögur hennar og ævisögu samferðamanns hennar í gegnum lífið, Jean Paul Sartre, en verandi haldin mikilli og óslökkvandi ævisagnagræðgi blossaði upp hjá mér áhugi á að lesa þessa nýútkomnu bók. Á meðan ég reyndi í huganum að sannfæra sjálfa mig um að mig vantaði ekki 500 síðna ævisögu, ég væri búin að lesa nóg um Simone de Beauvoir, og að ég hefði nóg annað að lesa, tók ég, líkt og ósjálfrátt, skjáskot á símann af kápumynd bókarinnar, birti svo myndina á samfélagsmiðli og tjáði löngun mína til að lesa þessa bók. Svo sneri ég mér að öðrum verkefnum og reyndi að hætta að hugsa um hvort eitthvað forvitnilegt gæti mögulega komið fram í nýrri ævisögu Simone de Beauvoir.

Næst þegar ég leit á símann minn sá ég að ég hafði fengið skilaboð. Birna Anna, netvinkona mín, sem býr í New York, sagðist lítið muna um að útvega mér fyrrnefnda bók, hún tók ráðin í sínar hendur og nokkrum vikum síðar kom pabbi hennar við á skrifstofunni hjá mér við Túngötuna og afhenti mér ævisögu Simone de Beauvoir.

Hvað gerði Simone að Simone?

Í bókinni Becoming Beauvoir, má segja að sögð sé sagan af því hvað gerði Simone de Beauvoir að þeirri manneskju sem hún varð. Konunni sem fæddist árið 1908 og skrifaði eitt grundvallarrit feminista, Hitt kynið, Le deuxième sexe, múrsteinsþykkt verk sem kom út árið 1949. Útgangspunktur bókarinnar er spurningin Hvað er kona? og niðurstaðan er í stuttu máli: „manneskja fæðist ekki kona, heldur verður kona.“, orð sem miklu bleki og mörgum orðum hefur verið eytt í að ræða og túlka. Beauvoir hafnaði ríkjandi hugmyndum um meðfætt eða náttúrulegt séreðli kvenna og lagði grunn að því sem hefur verið kallað mótunarhyggja. Kate Kirkpatrick las við skrif þessarar nýju ævisögu áður óbirtar dagbækur Simone og sendibréf, sem nýlega hafa verið dregin upp úr skúffum og niður af háaloftum. Hún les þessi verk, beinir skörpum sjónum að heimspekikenningunum og samböndum Simone við fólk, ekki síður annað fólk en Jean Paul Sartre, sem hefur að mörgu leyti yfirskyggt alla hennar lífssögu. Það hefur endalaust verið fjallað um ástarsamband þeirra og samstarf, og í því samhengi, segir Kate Kirkpatrick, hefur Simone de Beauvoir oft verið sýnd sem ekki sérlega frumlegur hugsuður sem byggði á hugmyndum og kenningum Sartres.

Beauvoir og Sartre

Séu nöfnin Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre slegin inn í leitarvélina ómissandi, timarit.is, kemur ýmislegt upp sem styður orð ævisagnahöfundarins. Ég tek nokkur mjög tilviljanakennd dæmi: Í Lífi og list árið 1950 stendur: De Beauvoir er einn af hinum mjög fágætu og afburða þroskuðu lærisveinum Sartres. Í Morgunblaðinu 1956 er fjallað um skáldsögu Simone de Beauvoir Mandarínana, sem hún hlaut Goncourt-verðaunin fyrir. Þar er hún kölluð hofgyðja Existensíalismans og Sartre hlýtur þá að sjálfsögðu að vera æðsti presturinn. Í inngangi greinarinnar segir um De Beauvoir að hún hafi og ég vitna beint: meiri áhuga á að tala en borða eins og svo margar kynsystur hennar. Síðan er hægt að halda áfram. Morgunblaðið 1958 segir Simone tryggasta lærisvein Sartre, og árið 1960 er hún einnig sögð lærisveinn Sartre í heilsíðu viðtali sem birtist undir yfirskriftinni Fötin og ég og undirtitilinn, sem raunar er með stærra letri en yfirskriftin, og liggur yfir miðja síðu er: Of gömul til að klæðast rauðu. Viðtalið er vissulega þematengt, það fjallar um föt, hárgreiðslur og útlit, en það segir margt um hvað fólk hefur í gegnum árin helst viljað ræða við konur. Þegar ég las þetta viðtal varð mér hugsað til endurminningabókar eftir Margaret Atwood þar sem hún segir frá því að þegar hún ferðaðist um og las upp úr bókum sínum á fyrstu árum höfundarferilsins, vildi fólk sem mætti á upplestrana hennar iðulega ræða um hárið á henni, mun síður um bókmenntaverkin.

Heimshornaflakkari sem efaðist um sjálfa sig
Simone de Beauvoir hefur kynslóðum saman haft áhrif á vangaveltur okkar um hvað það hefur í för með sér að vera kona, og hún benti á að mörg tækifæri standa konum mun síður til boða en körlum. Kate Kirkpatrick notar dagbækur Simone, sem fræðimönnum hefur nýlega verið veittur aðgangur að. Þær sýna að dagbókarskrifarinn, jafnvel þó að hún hefði trú á frumlegum kenningum sínum og hefði búið yfir umtalsverðu sjálfstrausti, var sífellt plöguð af sjálfsefa. Hún var kona sem lifði og starfaði af mikilli ástríðu, hvort sem um fræðimennsku, skáldskaparskrif eða sambönd við fólk var að ræða, og Kirkpatrick sýnir einnig fram á að allt líf Simone og samband við Jean Paul Sartre var þrúgað af heterónormatífum hugmyndum. Nýja ævisagan er engin helgisaga og Simone var líka mun svalari manneskja en oft er látið í veðri vaka. Skiptir það máli? Já, mér finnst það. Hún var heimshornaflakkari sem umgekkst Picasso, Josephine Baker, Louis Armstrong og Miles Davis. Charlie Chaplin og Le Corbusier djömmuðu með henni í New York, og án þess að ég láti hvarfla að mér að reka áróður fyrir vímuefnaneyslu þá sagðist Simone de Beauvoir eitt sinn hafa reykt sex jónur í partýi án þess að verða útúrskökk. Það er auðvitað óþarfi að gera lítið úr mikilvægu sambandi sálufélaganna Simone de Beauvoir og Jean Paul Sartre, en það er mjög þrengjandi og niðurnjörfandi að hugsa aldrei um hana án þess að skuggi hans vomi yfir henni. Nýja ævisagan sýnir það glögglega.

Sagan er aldrei fullsögð
Nú er komið að lokum þessa pistils. Hverju var ég aftur að velta fyrir mér í upphafi? Jú, alveg rétt: Spurningin var, vantaði mig nýja ævisögu Simone de Beauvoir? Vantaði okkur öll nýja ævisögu Simone de Beauvoir? Svar mitt er afdráttarlaust: JÁ! Reglulega er þörf á að skoða og endurskoða allar sögur og velta við nýjum steinum. Og engin saga verður nokkurn tíma fullsögð. Ég lýk þessu með lokaorðum bókarinnar: Augnablikin í lífi hennar voru ótrúlega margslungin og fjölbreytileg. En ef það er eitthvað eitt sem hægt er að læra af lífi Simone de Beauvoir þá er það eftirfarandi: Engin verður hún sjálf algjörlega upp á eigin spýtur.

10. október 2020

Harmræn saga erfingja mjólkurfernuveldisins

Sumarið 2012 fylltust fjölmiðlar af myndum og fréttum um harmleik í einni af tuttugu ríkustu fjölskyldum heims. Fjölskylda þessi, sem hafði alltaf verið mjög fjölmiðlafælin og haldið einkalífi sínu eins fjarri slúðurpressunni og mögulegt var, komst ekki lengur undan því að lenda á forsíðum blaðanna. Eva Rausing, fædd 1964, hafði fundist látin af völdum ofskammts fíkniefna á heimili sínu í glæsihýsi í Belgravia í London. Eva þessi var eiginkona Hans Kristians Rausings, tæplega fimmtugs erfingja drykkjarfernuveldisins Tetra Pak. En Eva Rausing var ekki nýlátin, Hans Kristian hafði látið lík eiginkonunnar liggja og rotna bak við luktar dyr í tvo mánuði. Bæði hjónin voru háð vímuefnum, þau voru einnig foreldrar fjögurra barna og þekkt par í samkvæmislífi ríka og hressa fólksins í Lundúnaborg.

 

Sársaukafullt líf aðstandenda
Fimm árum eftir að lík Evu fannst gaf Sigrid Rausing, systir Hans Kristians, sem
er árinu eldri en hann, út bók. Þar segir hún frá sænsku Rausing-fjölskyldunni, ævi þeirra systkina, lífi bróður síns fíkilsins og aðdraganda dauða mágkonunnar. Sigrid býr í Englandi. Hún er með doktorspróf í mannfræði og er eigandi bókaforlagsins Granta Books þar sem hún er forleggjari og ritstjóri. Bók Sigrid hefur titilinn Mayhem: A Memoir. Ég veit ekki almennilega hvernig á að íslenska hugtakið mayhem; upplausn, ringulreið, öngþveiti, limlestingar, koma upp í hugann, en samkvæmt orðsifjabókinni er orðið mayhem, skylt íslensku sögninni að meiða. Sigrid Rausing skrifar:
„Að neyðast til þess að verða vitni að ofneyslu fíkniefna er skelfilega erfitt. Sem aðstandanda skipti það mig engu máli hvort þetta væri opinbert eða ekki. Áhyggjurnar voru slíkar að fyrirsagnir blaðanna skiptu engu máli. En ég vildi ekki að fjölmiðlar slægju eign sinni á söguna.“
Mayhem er áhrifarík bók um sársaukafullan raunveruleika aðstandenda fíkla. Af hreinskilni og virðingu miðlar Sigrid Rausing reynslunni af því sem hún hefur upplifað með fjölskyldu sinni. Örvæntingu, vonum, vonbrigðum og angist er lýst af einlægni og skerpu, en textinn er lágmæltur og oft svolítið dáleiðandi. Höfundurinn sagði í viðtali þegar bókin kom út að hún tryði á mikilvægi hins skrifaða orðs, enda eru skriftir og ritstjórn hennar daglega iðja. Sigrid Rausing segir frá barnæskunni með litla bróður sínum, krúttlegum krakka sem var sólginn í kakómalt, en breyttist á skömmum tíma í heróínfíkil um tvítugt. Rausing-systkinin eru þrjú, Lisbet, Sigrid og Hans Kristian. Þau fæddust með skömmu millibili og ólust upp í Lundi í Svíþjóð hjá foreldrum sínum, Märit og bissnissmanninum Hans Rausing, en faðir hans, Ruben Rausing, afi systkinanna, var einn af stofnendum Tetra Pak. Við þekkjum öll þær drykkjarfernur. Sigrid Rausing lærði sagnfræði og mannfræði og varði doktorsritgerð við University College í London. Ritgerðin fjallar um Sovétveldin eftir fall Sovétríkjanna, hún dvaldi í tvö ár á samyrkjubúi í Eistlandi við doktorsrannsóknirnar. Systkinunum lýsir Sigrid þannig að þau hafi verið mjög lík sem börn, ekki síst hún sjálf og Hans Kristian, en þegar þau stálpuðust skildi leiðir, bæði bókmenntalega og pólitískt. „Ég las Jane Austen en hann las Charles Bukowski. Ég hallaði mér til vinstri en hann til hægri“ skrifar hún.

Hans og Eva Rausing

Afdrifaríkt ferðalag

Rétt fyrir tvítugt fór Hans í ferðalag með vinum sínum, þeir tóku Síberíuhraðlestina í gegnum Sovétríkin og ferðuðust síðan til Kína og Indlands. Á strönd í Goa á Indlandi kynntust þeir ítölskum stelpum sem buðu þeim heróín og Hans ákvað að prófa. Eftir að hann sneri heim aftur festist hann fljótlega í neyslu. Sigrid reyndi að hjálpa honum að hætta en með litlum árangri. Hún sjálf sökk niður í örvæntingu og þunglyndi og brotnaði niður andlega. En hún jafnaði sig og hóf doktorsnám sem hún lauk með góðum árangri. Á meðan var bróðir hennar í ruglinu. Hans Kristian kynntist Evu á meðferðarheimili þegar þau voru tuttugu og fjögurra og tuttugu og fimm ára gömul. Þau heilluðust hvort af öðru og í átta ár eftir útskrift úr meðferð neyttu þau engra fíkniefna. Þau gáfu fúlgur fjár til stofnana sem aðstoða fíkla og eignuðust fjögur börn. En á gamlárskvöld árið 2000 skutu þau tappa úr kampavínsflösku, drukku það sem var í flöskunni, sneru sér svo að sterkari efnum og við tóku tólf skelfileg ár. „Ég var þrjátíu og átta ára þegar þetta hófst og fimmtíu þegar því lauk“ skrifar Sigrid Rausing í bókinni Mayhem.

Líkið í rúminu
Þann 9. júlí árið 2012 var Hans Rausing stöðvaður á bíl af lögreglunni sem tók eftir því að eitthvað væri undarlegt við aksturslagið. Í biðfreiðinni fundust fíkniefni og krakkpípa. Þetta varð til þess að lögreglan sótti sér heimild til húsrannsóknar. Þá fannst lík Evu Rausing, það hafði legið í tvo mánuði í rúminu, læknir staðfesti síðar að dánarosök væri ofskammtur og að hún hefði að öllum líkindum látist 7. maí. Líkið var vafið inn í ábreiðu, ofan á henni var sæng og þar ofan á hafði verið staflað fjölmörgum sjónvarpsskjám. Hans Kristian, frávita af neyslu, afneitaði því að konan hans væri liðið lík: „Ég gat ekki horfst í augu við þann raunveruleika að hún væri dáin. Ég reyndi bara að halda áfram að lifa líkt og þetta hefði ekki gerst og ýtti frá mér öllum spurningum um hvar hún væri,“ sagði hann í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Hans Rausing horfði á Evu taka skammtinn sem varð henni að bana, en gat síðan ekki viðurkennt að hún væri dáin. Nokkrum árum áður en hún lést höfðu börnin verið dæmd af þeim, Sigrid systir hans fékk forræði yfir þeim.
Sigrid Rausing skrifar: „Ég hugsaði mikið um fyrirbærið fjölskyldu og hvað felst í því að vera fjölskylda. Hvar liggja mörkin varðandi ábyrgð? Hans og Eva elskuðu börnin sín,“ heldur hún áfram, „en verður ekki hugtakið ást klisjukennt þegar talað er um foreldrahlutverkið? Hvaða merkingu hefur það að elska ef fíkniefnin ganga alltaf fyrir?“ Það tekur á að lesa um réttarhöldin þegar Sigrid berst fyrir því að fá forræði yfir börnum bróður síns. Eva gerir það sem hún getur til að spyrna á móti, hún sendir hatursbréf til mágkonu sinnar og segir hana hafa stolið börnunum frá sér, en málið snýst í raun um hvort Sigrid fái börnin, og þau geti þá mögulega haldið einhverju sambandi við foreldrana, eða hvort bresk barnaverndaryfirvöld sendi börnin í fóstur til vandalausra.Í meðferð með Amy Winehouse

Sem lesandi skynjaði ég vanlíðan höfundarins mjög sterkt. Hún reynir að feta einhvern vandrataðan stíg, gera það sem henni finnst rétt og halda haus við algjörlega ömurlegar aðstæður. Tilvistarlegar spurningar leita á hana. Er hún að gera rétt? Hvað er rétt? Á hún að vera með sektarkennd? Á árunum 2006 og 2007 fór Hans í nokkrar árangurslusar vímuefnameðferðir. Í einni þeirra var söngkonan Amy Winehouse samtímis honum. Á ritunartíma Mayhem horfir Sigrid Rausing á heimildarmynd Asif Kapadia um Amy og verður fyrir áhrifum. Hún finnur til samlíðunar með döprum vinum hennar en mest áhrif hafa sjálfsmyndir af Amy sem hún tók dagana fyrir andlát sitt. Magurt andlit, baugar og kuldalegt og fjarrænt augnaráð minna hana á mágkonuna. Sigrid veltir því fyrir sér hvort Amy og Eva hafi áttað sig á því rétt fyrir andlát sín að þær væru í bráðri lífshættu. Sigrid segist á tímabilum hafa látið sig dreyma um að ræna bróður sínum:
„Mig langaði að fara með hann á afvikinn stað, losa hann við fíkniefnin og neyða hann til að takast á við lífið án efnanna. Ég velti því fyrir mér hver gæti hjálpað mér, ég velti fyrir mér hvaða lækna ég gæti fengið í lið með mér og hvernig ég gæti lokað hann inni. Ég var með sektarkennd yfir þessum fantasíum, og ég skammaðist mín fyrir að ætla að bjarga honum en ekki Evu.“
Þessar vangaveltur finnst mér mjög skiljanlegar, efnin höfðu í raun rænt Hans Kristian, hann var fangi og systir hans þráði að ræna honum til baka úr klóm vímuefnanna. En Sigrid Rausing rændi aldrei bróður sínum. Hún barðist í réttarsal og fékk að taka börnin hans að sér þegar foreldrarnir voru orðnir vanhæfir til þess að hugsa um þau. Hún missti í kjölfarið alveg samband við Hans en átti alltaf í einhverjum samskiptum við Evu. Þegar systkinin hittust og féllust í faðma, tveimur árum eftir lát Evu, árið 2014, höfðu þau ekki sést í sex ár.


Hvað er að vera manneskja?

Í bókinni Mayhem reynir Sigrid Rausing að komast til botns í því sem gerðist, hún leitar svara við sársaukafullum spurningum sem aðstandendur þeirra sem neyta vímuefna í óhófi standa frammi fyrir. Þær spurningar eru margar og við fæstum fást eindregin svör. Mayhem er saga um átankanlegar afleiðingar fíkniefnaneyslu, áhrifin á fjölskyldu fíklanna og vanmátt allra aðstandenda. Eftir lát Evu fékk Hans Rausing tveggja ára skilorðsbundinn dóm. Hann var einnig dæmdur til meðferðar á fíknideild. Árið 2014 kvæntist hann Juliu Delves Braughton, framkvæmdastjóra hjá uppboðsfyrirtækinu Christie's, og meðal gesta í brúðkaupinu voru heimsfrægar poppstjörnur og fjölmiðlafólk. Þegar ég sló nafn Hans Rausings inn í leitarvél í dag komst ég að því að haustið 2019 leiddi hann Lucy, 24ra ára dóttur þeirra Evu heitinnar, upp að altarinu þegar hún gifti sig.

Það þarf hugrekki til að skrifa bók eins og Mayhem. Ég held að hvati höfundar hafi að töluverðu leyti verið að svara slúðurpressunni sem einfaldar flókna hluti, veltir sér af slepjulegri tilfinningasemi upp úr þjáningum fólks og svarar fáum spurningum. Sigrid Rausing segir að erfiða reynslu þurfi að setja í orð, ekki vegna þess að það þjóni meðferðarlegum tilgangi fyrir skrifarann heldur vegna þess að þannig megi öðlast skilning á því hvað felst í því að vera manneskja.

30. september 2020

Í myrkraherberginu

Í vor flutti ég nokkra pistla um nýlegar endurminningabækur í þættinum Víðsjá á Rúv. Á næstunni ætla ég að birta pistlana og sá fyrsti fjallar um áhugaverða bók eftir Susan Faludi.

„Sumarið 2004 hóf ég að rannsaka sögu manneskju sem ég þekkti ekki sérstaklega vel. Um var að ræða pabba minn. Verkefnið spratt upp úr beiskjutilfinningu, upp úr reiði dóttur sem átti foreldri sem hafði horfið úr lífi hennar. Ég var á höttunum eftir óbermi, slægum manni, sem hafði, háll sem áll, stungið af frá svo mörgu; ábyrgð, ást, skuldum, iðrun. Ég hóf undirbúning ákæru, safnaði saman sönnunargögnum til að nota við réttarhöld. En einhvers staðar á miðri leið breyttist saksóknarinn í vitni.“

Með þessum orðum hefst inngangur bandaríska feministans og Pulitzer-verðlaunahafans Susan Faludi að bókinni Í myrkraherberginu (In the Darkroom) sem kom út árið 2016, en bókin er afrakstur djúpköfunar þar sem höfundurinn sekkur sér í ævi og sjálfsmyndarleit pabba síns og staldrar víða við á meðan sagan er skrifuð. Skömmu eftir að Susan Faludi fékk tölvupóst og komst að því að pabbi hennar, sem hún hafði ekki haft nein samskipti við í tuttugu og fimm ár, hafði flutt til Ungverjalands og látið leiðrétta kyn sitt í Taílandi á gamals aldri, ákvað hún að slá til og hitta hann aftur. Gat það virkilega staðist að ofbeldisfulli karlakarlinn sem hún ólst upp hjá væri orðin settleg kona í landinu sem hún flúði eitt sinn frá?  

21. desember 2019

Brotakennd mynd af merkilegum konum

Ung Vera Zilzer prýðir kápu bókarinnar Brot
Ég hugsa oft um allar ævisögurnar sem væri gaman að skrifa. Allar þessar áhugaverðu ósögðu ævir! Og hið dásamlega ævisöguform, hinn fasti frásagnarrammi, ævin, sem er hægt að fara með í svo margvíslegar áttir. Vissulega eru tilraunaglaðir ævisagnahöfundar í minnihluta, og leiðinlegar ævisögur eru með leiðinlegustu bókum, en það er líka svo ánægjulegt þegar vel tekst til.

Ég hef lýst þeirri skoðun minni frjálslega undanfarin ár að það ætti að setja eins og tíu ára lögbann á kvikmyndir um tilvistarkrísur og þroskasögur karlmanna. Það myndi bæði auka á fjölbreytni kvikmyndanna og forða áhorfendum frá melódramatískum endurtekningum. Þetta sama mætti kannski segja um ævisögur; tíu ára lögbann á ævisögur íslenskra karlmanna. Það væri forvitnilegt að sjá hvað gerðist ef höfundar væru þvingaðir til að leita annarra viðfangsefna. Myndu ævisögur hætta að koma út?

Eða myndi ég kannski loksins fá bækur um allar forvitnilegu konurnar sem ég þrái að vita meira um og hinar sem ég veit ekki einu sinni að voru til? Hvernig eigum við að túlka líf og stöðu stórjarðeigandans Guðrúnar eldri Eggertsdóttur frá Skarði? Eða KFUK-frömuðarins Ingibjargar Ólafsson sem þrumaði svo harðorðar siðapredikanir yfir íslenskri þjóð um 1910 að hún þurfti að flýja land og bjó svo í marga áratugi með grískri prinsessu? Hvers konar Reykjavík aldamótanna myndum við kynnast gegnum augu Diðrikku Hölter, sem var skráð ómagi í manntölum en spákona í bæjarskránni?

Ég fékk slíkt kikk út úr Brot. Konur sem þorðu eftir Dóru S. Bjarnason sem er nýlega komin út hjá bókaforlaginu Benedikt og fjallar um þrjár kynslóðir óvenjulegra kvenna. Meðal þess sem gerir bókina athyglisverða er að þótt þetta sé íslensk ævisaga, gefin út á íslensku af íslenskum höfundi, eru konurnar þrjár staðsettar á mörkum Íslandssögunnar og hins alþjóðlega samhengis (hér koma fyrir persónur með nöfn eins og Ödön Zichy zu Zich sur Vasonykeö). Þær voru allar fæddar annars staðar og í rauninni eyddi engin þeirra löngum tíma á Íslandi.

19. desember 2019

Heimsbókmenntir fyrir börn

Það er kunnara en frá þurfi að segja að útgáfa barnabóka á íslandi stendur völtum fótum - ekki af því að það skorti hæfileika, ástríðu eða metnað heldur af því að það skortir fjármagn og athygli fjölmiðla í þennan ótrúlega mikilvæga málaflokk. Barnabókaútgáfa hefur löngum verið nokkurs konar hugsjónastarf þeirra rithöfunda, myndskreyta og bókaútgáfa sem láta sig málið varða

Það er því alltaf gleðiefni þegar einhver ræðst í það (að mörgu leyti) vanþakkláta verkefni að koma heimsbókmenntum til íslenskra barna en það hefur einmitt lítil bókaforlag að nafni AM gert nýverið þegar þau gáfu út þrjár bækur eftir rithöfundinn og myndlistamanninn Tomi Ungerer. Ungerer er fæddur í Strasbourg í Frakklandi árið 1931 en lést í byrjun þessa árs eftir magnaðan feril sem rithöfundur, myndlistarmaður og hönnuður svo fátt eitt sé nefnt . Eftir hann liggja yfir 150 bækur af ýmsum toga en þekktastur var hann fyrir barnabækur sínar. Þær þrjár bækur sem AM forlag gefur nú út, í ljómandi skemmtilegri þýðingu Sverris Norlands, eru Ræningjarnir þrír, Máni og Tröllið hennar Sigríðar. Allt eru þetta ævintýri – ævintýri sem byrja kunnuglega en breyta svo skemmtilega um stefnu og fara í allt aðra átt en lesendur, ungir sem aldnir, búast við.

9. desember 2019

Fimm konur með nöfn og sögur

Áður en ég las bókina sem hér er til umfjöllunar hafði ég ekki gert mér grein fyrir alþjóðlegum vinsældum Kobba kviðristu, aka Jack the ripper, sem er frægur fyrir að hafa myrt fimm konur í Whitechapel-hverfinu í London árið 1888 og aldrei náðst. Það eru heil samfélög manna þarna úti sem þreytast ekki á að velta fyrir sér störfum hins dularfulla raðmorðingja og raunverulegu nafni.

Honum eru tileinkaðar sögugöngur, sjónvarpsþættir, kvikmyndir, heimasíður og lífleg spjallborð og það hafa verið prentaðir margir kílómetrar af texta um hann frá öllum mögulegum sjónarhornum. Bækur sem fjalla um morðin og morðingjann. Bækur sem fjalla um lögreglumennina sem eltust við morðingjann. Bækur sem fjalla um það hvernig dagblöðin fjölluðu um morðingjann. Bækur sem fjalla um viktoríanskt samfélag í ljósi morðanna. Bækur sem fjalla um aðra morðingja sem voru að störfum á sama tíma. Að ótöldum auðvitað öllum skáldverkunum innblásnum af atburðunum. Í langstærstum hluta þessa gríðarlega textamagns er morðinginn Jack the ripper semsé í forgrunni og þær limlestingar sem hann sérhæfði sig í.

Það sem sagnfræðingurinn Hallie Rubenhold gerir í The Five. The Untold Lives of the Women Killed by Jack the Ripper er hins vegar að beina sjónum sínum að konunum sem urðu fyrir honum. Þetta er sögulegt réttlætisverkefni með yfirlýst femínískt markmið af hálfu höfundarins; að gangast ekki undir ástríðufullan áhugann á karlmorðingjanum heldur byggja í staðinn upp mynd af kvenfórnarlömbunum sem manneskjum og setja í samhengi við stöðu þeirra í viktoríönsku samfélagi.

Áhugi minn var strax vakinn þegar ég las um útgáfu bókarinnar í vor. Ég var nýbúin að lesa bækur Maggie Nelson, Jane. A Murder frá 2005 og The Red Parts frá 2007, þar sem hún skrifar um móðursystur sína Jane sem var myrt í Bandaríkjunum á sjöunda áratug síðustu aldar, og veltir fyrir sér þeim þráhyggjukennda áhuga á morðum á ungum hvítum konum sem birtist svo mjög í skálduðum og sannsögulegum glæpasögum, prentuðum og kvikmynduðum. Bækurnar tvær eru meðal annars tilraun til að draga upp mynd af Jane sem lifandi persónu, skemmtilegri og greindri manneskju, og spyrna gegn því að morðið á henni sé gert að afþreyingarefni og hún að aukaatriði í sögu manns sem hefur gert það eitt sér til frægðar að drepa konur. Hin þekktu orð Edgar Allan Poe bergmála hér víða: „The death of a beautiful woman is, unquestionably, the most poetical topic in the world.“ Einmitt, Edgar. Eða svo ég vitni í The Red Parts:

1. desember 2019

Glæpir menningarmafíunnar

Matilda Gustavsson
Á föstudaginn fyrir rúmri viku kom bókin Klubben, eftir Matildu Gustavsson, út í Svíþjóð (hún kemur líka út á ensku með titilinn The Club: A Chronicle of Power and Abuse at the Heart of the Nobel Scandal). Matilda (f. 1987) fékk virt blaðamannaverðlaun 2018 fyrir að fletta ofan af nauðgunum, ofbeldi og fleiri glæpum sem viðgengust áratugum saman í kreðsum nátengdum Sænsku akademíunni og urðu til þess að Nóbelsverðlaunin í bókmenntum voru ekki veitt árið 2018. Ég fylgdist með afhjúpuninni í dagblöðum svo ég vissi töluvert um þetta mál, en engu að síður gleypti ég bókina í mig í gær og finnst hún alveg stórmerkileg lesning sem setur kvenfyrirlitninguna, menningarsnobbið og þöggunina í enn skýrara samhengi.

Inngangurinn í
menningarklúbbinn Forum
Í Klubben segir Matilda Gustavsson frá því hvernig hún fletti ofan af Jean-Claude Arnault sem gekk undir nafninu Kulturprofilen áður en hann var dæmdur fyrir nauðgun og nafngeindur opinberlega. Jean-Claude er eiginmaður skáldsins Katarinu Frostenson, sem sat í stól númer 18 í sænsku akademíunni frá 1992 og þar til fyrr á þessu ári, þegar henni var ýtt út, en hún fær engu að síður ævilangar mánaðargreiðslur frá Akademíunni og má að auki búa í íbúð á besta stað í eigu þeirrar menningarstofnunar. Kynferðisleg áreitni Jeans-Claudes Arnaults var fyrst til umfjöllunar opinberlega fyrir síðustu aldamót. Þá var skrifuð blaðagrein og fólk í ýmsum stofnunum fékk bréf frá konum sem upplýstu um hegðun hans, en allt var þaggað niður, það þurfti #metoo og mál Harvey Weinsteins til að eitthvað gerðist og þá kom í ljós að margt fólk var aldeilis til í að verja margfaldan nauðgara og konuna hans sem tók þátt í öllu saman beint og óbeint.

8. mars 2019

Endalokin og ástin á lífríki jarðar

Í tilefni þess að þriðja loftslagsverkfallið fór fram á Austurvelli fyrr í dag datt mér í hug að það væri upplagt að henda í blogg um eina eftirminnilegustu bókina sem ég las á síðasta ári, sænsku unglingabókina Slutet (sem þýða mætti sem Endalokin) eftir Mats Strandberg. Mats er íslenskum unglingabókaaðdáendum að góðu kunnur frá því hann skrifaði Cirkeln-þríleikinn ásamt Söru Bergmark Elfgren. Fyrstu bækurnar tvær, Hringurinn og Eldur, komu út í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur en þriðja bókin, sem hefði með öllu réttu átt að heita Lykillinn á íslensku, var því miður aldrei gefin út. (Spældum bendi ég á að bókin er til í enskri þýðingu sem er hægt að fá lánaða á Borgarbókasafninu eða kaupa á Amazon.)

Slutet segir frá síðustu vikunum í lífi unglinganna Simonar og Lucindu en þau segja söguna til skiptis. Formáli hennar gerist síðla vors þegar þær fréttir berast að hinn gríðarstóri loftsteinn Foxworth stefni á jörðina, muni lenda á henni á tilteknum degi í byrjun hausts og eyða þar öllu lífi á örfáum mínútum. Hin eiginlega saga hefst svo þegar það eru 4 vikur og 5 dagar í heimsendi. Kærasta Simonar, Tilda, hefur sagt honum upp þar sem hún vill ekki vera í sambandi þessa síðustu mánuði og hann er í ástarsorg. Milli þess sem við fylgjumst með villtu líferni Simonar, sem fer eins og flestir aðrir unglingar í partý öll kvöld, lesum við skilaboð sem Lucinda sendir út í geiminn í gegnum appið #TellUs, forrit sem var sett upp í von um að einhvern tímann í framtíðinni verði til einhverjar lífverur sem muni uppgötva skilaboðin og geti þannig fræðst um lífið fyrir Foxworth.

6. febrúar 2019

Þreyjum þorrann með pottaplöntum!


Það eru ekki mörg sumur (garðáhugafólk telur auðvitað árin í sumrum) síðan ég varð forfallin plöntuáhugakona. Raunverulegur áhugi kviknaði sennilega með fyrstu fjölæru plöntunni sem var gróðursett í garðinum – ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað hún gladdi mikið þegar hún stakk upp kollinum næsta vor! Fram að því hafði ég verið sú kona sem drap jafnvel kaktusa úr þurrki (eða öðru mótlæti) og skyldi engan veginn af hverju fólk gaf blóm þegar það gat gefið súkkulaði, vín eða bækur! En nú er ég sem sagt komin með græna fingur og tókst meira að segja að gleðjast (svolítið) yfir vætunni síðasta sumar því hún var svo góð fyrir gróðurinn (alla vega fram í júlí – svo fóru sumarblómin að mygla).

En hvað gerir plöntuáhugafólk yfir háveturinn þegar allt grænt er hvítt í snjónum? Jú það leggur allar gluggakistur, hillur og laus borð undir pottaplöntur. Hýasintur, Riddararósir, Aloa vera, einhver skrítin planta úr IKEA sem ekki var nafngreind á kvittun og fleiri hafa glatt augað og lyft geðinu yfir síðustu mánuði.


7. desember 2018

Sveinarnir, rannsóknin og miðlunartillaga mömmu


Þegar ég var lítil neitaði ég algerlega að taka þátt í því að lokka hrekkjótta karla inn í svefnherbergið mitt. Þrátt fyrir möguleika á mandarínum. Miðlunartillaga mömmu var að skórinn sem allt snérist um færi upp í glugga í stofunni og ég lokaði hurðinni vel inn til mín. Ef mamma vildi hætta á að fá einhverja leppalúða í heimsókn þá var það hennar mál. Þetta situr svo fast í mér að krakkarnir mínir hafa aldrei verið spurð að því hvort þau vilji hafa skóinn úti í glugga hjá sér. Þeir eru bara í stofunni.

Þjóðfræðingurinn Benný Sif Ísleifsdóttir tekur sitt fyrsta jólabókaflóð með áhlaupi. Hún er með tvær bækur í ár, annars vegar skáldsöguna Grímu sem hún hlaut nýræktarstyrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta fyrir og hins vegar barnabókina Jólasveinarannsóknin sem fjallar einmitt um samviskuspurninguna um skóinn, traustið og foreldrana. 

Jólasveinarannsóknin er spennandi og skemmtileg frásögn sem ætti að höfða til ungra krakka sem eru með skó úti í glugga. Henni er skipt upp í 13 kafla sem hver er mátulegur að lengd fyrir kvöldlestur þá þrettán daga sem jólasveinarnir eru á gluggunum. Og minnir þannig á klassískar jólasveinabækur eins og Jólasveinana eftir Iðunni Steinsdóttur og Búa Kristjánsson. Jólasveinarannsóknin er þó kirfilega staðsett í nútímanum og söguhetjurnar Baldur, Elías og Hjörtur notfæra sér snjalltæki þegar þeir reyna að veiða jólasveina, eitthvað sem allir á Íslandi ættu mögulega að vera búnir að tileinka sér eftir fréttir síðustu viku!

Það er stóra spurningin sem hefur brunnið á íslenskum börnum: „jólasveinar eða foreldrar?“ sem strákarnir eru að reyna að svara. Strákarnir gera sér algerlega grein fyrir því að það verður að vera óyggjandi sönnun og helst myndskeið því þá kemst maður í Krakkafréttirnar og verður frægur. Benný fléttar inn í fjöruga frásögnina umfjöllun um örugga notkun á snjalltækjum og þá sérstaklega hvort það sé í lagi að taka upp og dreifa myndum af fólki, þó að það séu jólasveinar, án þess að spyrja um leyfi. Það tekst nokkuð vel til með að opna augu ungra lesenda fyrir þessu mikilvæga málefni án þess að Benný missi niður dampinn í frásögninni, sem betur fer, því fátt er leiðigjarnara en umvandanir og puttar á lofti í barnabókum.

Það er frábært að skrifa bækur sem höfða sérstaklega til stráka og mikið hefur verið rætt um vöntunina á slíku efni. Það er nokkur galli hvað stelpur koma lítið við sögu í Jólasveinarannsókninni. Þær eru tvívíðir óþolandi bekkjarfélagar í fjarlægð og hafa ekki mikil áhrif á frásögnina fyrr en í blálokin – en koma þá sannarlega sterkar inn. Bók sem höfðar til stráka þarf samt ekki endilega að þýða bók án stelpna.

Skemmtilegar myndir eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur prýða Jólasveinarannsóknina en mér fannst samspil mynda og texta ganga vel upp og styðja hvort annað.

Nú nálgast fyrsti jólasveinninn byggðir og ég hlakka til að eiga lestrarstund með stráknum mínum og Jólasveinarannsókninni á hverju kvöldi til jóla. En fyrst munum við setja skóinn út í gluggann.
Í stofunni.

4. desember 2018

Ástir og örlög á Rue de Fleurus, Sellandsstíg og Sólvallagötu

Það er sjö stiga frost í Reykjavík og kominn sá tími að manni finnst varla birta af degi áður en myrkrið er aftur skollið á. (Þegar þetta loks birtist hefur reyndar hlýnað, svo allrar nákvæmni sé gætt, en myrkrið blífur.) Ég á að vera að skrifa fyrirlestur en hef svo litla eirð í mínum beinum, nenni varla að næra mig á öðru en mandarínum, gríp tilviljanakennt í bækur og er byrjuð á öðru bókablogginu á viku.

Ég hefði líklega ekki sett Að eilífu, ástin eftir Fríðu Bonnie Andersen í jólabókabunkann (þótt hver rithöfundur með sjálfsvirðingu myndi drepa fyrir þetta skáldanafn) ef ég hefði ekki frétt út undan mér að hún fjallaði um lesbískar ástir á Íslandi á millistríðsárunum. Um það gefur káputextinn ekkert uppi, þar eru mjög óræðar yfirlýsingar um „dimma sali bak við djúprauð flauelstjöld“, líf sem „fléttast saman“ og „mikil og afdrifarík átök“, en framan á kápunni er myndabankaleg ljósmynd af konu með samkvæmisgrímu og Eiffelturninn í baksýn; vissulega hefur Parísardvöl afgerandi áhrif á líf annarrar aðalsöguhetjunnar, en þetta segir manni ekkert um bókina. Ég segi ekki að hún hefði þurft að heita Forboðnir ávextir og líta svona út

en það má kannski eitthvað á milli vera.

Hvað um það – „mikil og afdrifarík átök“ er í sjálfu sér ekki ónákvæm lýsing, því hér er nóg af hasar og drama. Önnur aðalsöguhetja bókarinnar, Elín, elst upp á Íslandi en fer ung utan að læra fatasaum, fyrst í Kaupmannahöfn og síðan í París. Þar kynnist hún hinu ljúfa lífi, þar á meðal fyrrnefndum „dimmum sölum bak við djúprauð flauelstjöld“ þar sem karlar eru með körlum og konur með konum og hefðbundnum kynhlutverkum er ögrað (það bregður meira að segja fyrir heimboðum hjá Gertrude og Alice á Rue de Fleurus). Elín eignast kærustu en eftir nokkur vandræði í ástamálum endar hún í Aþenu, þar sem hún gengur í sýndarhjónaband með samkynhneigðum karlmanni og eignast með honum barn, áður en hún snýr aftur heim til Íslands sem einstæð móðir.

Í Reykjavík millistríðsáranna takast síðan ástir með Elínu og Þórhöllu, ungum ljósmóðurfræðinema. Meðfram saumaskapnum fer Elín að skrifa sögur og ljóð og inn í ástarsögu hennar og Þórhöllu blandast ýmsar flækjur tengdar bróður Þórhöllu, bókaútgefandanum Þórði, og skáldaferli Elínar. Saga Elínar og Þórhöllu kallast svo á við þann hluta bókarinnar sem gerist í nútímanum; Þórhalla er þá orðin háöldruð kona á elliheimili, Alexander sonur Elínar er sjálfur kominn á níræðisaldur og gruflar í sögu móður sinnar, en einnig fáum við sjónarhorn Siggu, trans konu sem vinnur á elliheimilinu þar sem Þórhalla býr og hefur gefið upp vonina um að verða prestur.

30. nóvember 2018

Hundrað orða þöggun

Það misrétti sem konur hafa verið beittar gegnum aldirnar hefur meðal annars birst í þöggun þeirra. Það eru ýmsar leiðir til að þagga niður í fólki, meðal annars er hægt að láta það líta út fyrir að vera ómarktækt, gefa til kynna að það hafi ekkert merkilegt að segja, og neita þannig að taka mark á því. Slík afstaða hefur líka samfélagsleg áhrif: ef einhverjir sem eru í valdastöðu og almennt er hlustað á gefa ítrekað í skyn að tiltekinn einstaklingur eða hópur fólks sé ekki marktækur þá smita slík viðhorf út frá sér til annarra. Viðkomandi fólk fer jafnvel að trúa því sjálft að það hafi ekkert merkilegt að segja. Í það minnsta þá gefst fólk gjarnan upp á því að reyna að tjá sig ef það rekur sig ítrekað á að það er ekki á það hlustað hvort sem er.

Þöggun er ágæt aðferð til að bregðast við óþægilegum gagnrýnisröddum. Ef við viljum ekki þurfa að hlusta á gagnrýni á ríkjandi kerfi þá er yfirleitt árangursríkt að kveða raddirnar niður og það er oft þægilegri aðferð en að standa í því að svara þeim. Stundum er fólki haldið niðri með hræðslu, þ.e. ef það má búast við refsingu fyrir það að tjá skoðanir sem koma sér illa fyrir valdhafa, en oft er hunsun ekki síður árangursrík leið til að útiloka gagnrýnisraddir. Svo er hægt að hæðast að hópnum sem þagga á niður í og grafa þannig undan trúverðugleika hans.

Í dystópísku skáldsögunni Vox eftir Christinu Dalcher hafa raddir kvenna verið kæfðar með mjög svo bókstaflegum hætti. Sögusviðið er Bandaríkin á óræðum tíma, en miðað við aðstæður má vel ímynda sér að þetta eigi að gerast eftir fáein ár eða áratugi. Trúarofstækismenn hafa náð auknum völdum undir einræðissinnuðum forseta. Afleiðing af því er að réttindi kvenna hafa að mestu leyti verið afnumin. Þær mega ekki lengur vera úti á vinnumarkaði heldur eiga þær að vera fyrirmyndarhúsmæður, eignir þeirra eru skráðar á eiginmenn þeirra, getnaðarvarnir hafa verið teknar af markaði og meðgöngurof að sjálfsögðu bannað, kynlíf utan hjónabands er bannað og konum sem stunda það er grimmilega refsað (en ekki körlunum) og samkynhneigt fólk er fangelsað og sett í einhvers konar endurhæfingarheilaþvott. Það sem er svo sérstaklega einkennandi er að konum hefur verið úthlutaður talkvóti þannig að þær mega aðeins mæla 100 orð á sólarhring. Til að tryggja hlýðni þeirra við þessar reglur eru þær látnar bera sérstök armbönd með teljara sem gefa þeim raflost ef orðafjöldinn fer yfir 100. Tölvur, bækur og skriffæri eru kirfilega læst inni þar sem einungis karlar hafa aðgang að þeim og myndavélar fylgjast með til að tryggja að konur svindli ekki á orðakvótanum með því að tala táknmál.

Aðalsöguhetja bókarinnar, Jean, hefur áður starfað sem málvísindakona og stundað mikilvægar rannsóknir á málstoli. Sagan er sögð frá sjónarhorni hennar, þar sem hún er full reiði yfir nýju hlutskipti sínu sem undirgefin úthverfahúsmóðir sem fær ekki að tjá sig. Sonur hennar á unglingsaldri hefur teygað Kool-Aidið frá trúarnötturunum og messar reglulega yfir henni um hið sanna hlutverk konunnar og eiginmaður hennar virðist frekar uppburðarlítill gagnvart öllu saman. Hún hefur miklar áhyggjur af ungri dóttur sinni og áhrifum þess á þroskaferil hennar að fá ekki að tjá sig. Svo fer ýmislegt að gerast sem ekki verður tíundað hér til að skemma ekki plottið fyrir þeim sem eiga eftir að lesa bókina. Ég verð þó að játa að mér fannst söguþráður bókarinnar helst til reyfarakenndur og lausnir of einfaldar til að geta verið almennilega trúverðugar. Ekki að ég sé endilega mótfallin reyfurum, en miðað við þær safaríku hugmyndir og samfélagsádeilu sem lagt er upp með fannst mér plottið verða allt of rýrt og tækifæri vannýtt til að koma áhugaverðum hlutum á framfæri. Og það var eitthvað við ritstílinn sem pirraði mig, það var eitthvað þvingað við hann.

Sem sagt er þetta bók sem felur í sér gríðarlega áhugavert sögusvið sem hefði mátt gera mun meira við en var gert. Þöggun kvenna er viðfangsefni sem er einkar mikilvægt. Miðað við orðræðu sem verður iðulega vart við í kringum okkur, hvort sem um er að ræða alþingismenn á börum, reiða karla í kommentakerfum eða hugsunarlausa unglingsstráka, er það bara nokkuð útbreidd skoðun að konur eigi ekkert að vera að þenja sig. Samfélagið sem lýst er í Vox er því miður ekkert svo langsótt.

Heill sé Angústúru, lengi lifi Angústúra!

Þegar ég kom heim frá útlöndum í vikunni beið mín pakki. Ég er farin að kannast við þessa nettu hvítu pakka en þeir koma mér einhvern veginn alltaf á óvart – ég hef aldrei verið í bókaklúbbi áður og er enn óvön slíkri heimsendingarþjónustu á sérvöldum gæðabókmenntum. Upp úr nýjasta pakkanum kom bók með þeim fagra titli Etýður í snjó eftir Yoko Tawada (ekki að ég viti hvað etýða er, en orðið er afar hljómfagurt), í íslenskri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur. Mér telst til að þetta sé sjötta bókin í áskriftarseríu hins unga forlags Angústúru, en serían hóf göngu sína á síðasta ári og er ein gleðilegasta viðbótin við íslenska bókmenntaflóru á síðustu misserum.

Tvær bækur komu út árið 2017: Veisla í greninu (annar glæsilegur titill) eftir mexíkanska höfundinn Juan Pablo Villalobos í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur og Einu sinni var í austri eftir kínverska höfundinn Xiaolu Guo í þýðingu Ingunnar Snædal. 2018 var fyrsta fulla starfsár bókaklúbbsins, með fjórum útgefnum bókum: Allt sundrast eftir Nígeríumanninn Chinua Achebe í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur, Sæluvíma eftir hina bandarísku Lily King í þýðingu Ugga Jónssonar, smásagnasafnið Sakfelling eftir norður-kóreskan rithöfund undir dulnefninu Bandi í þýðingu Ingunnar Ásdísardóttur og loks fyrrnefnd bók japanska höfundarins Yoko Tawada.

Af þeim fimm bókum sem ég er búin að lesa voru heilar þrjár í sérstöku uppáhaldi. Það var í fyrsta lagi Einu sinni var í austri eftir Xiaolu Guo, sem var jafnframt fyrsta bókin úr seríunni sem ég las. Ég fékk hana í afmælisgjöf en var dálítið lengi að koma mér að því að lesa hana; einhvern veginn stóð ég í þeirri trú út frá káputextanum að hún sækti í goðsögur eða þjóðsögur, sem mér finnst yfirleitt frekar leiðinlegar bókmenntir, en komst síðan að því að svo var ekki, heldur er þetta býsna raunsæisleg frásögn af oft heldur nöturlegum aðstæðum aðalsöguhetjunnar, frá því hún elst upp hjá afa sínum og ömmu í bláfátæku kínversku fiskiþorpi á áttunda áratugnum og þar til hún flytur til Bretlands sem ungur rithöfundur og byrjar að skrifa bækur á ensku.

Xiaolu Guo vandlega dúðuð
Frásögn hennar af bernskuárunum er eftirminnileg og var stundum erfið aflestrar, sérstaklega lýsingarnar á ömurlegu lífi hinnar kúguðu ömmu hennar, en stíllinn er látlaus og húmorinn kaldhæðinn. Ég hafði sérstaklega gaman af köflunum í seinni hluta bókarinnar um tilraunakenndu listasenuna í Beijing um 1990; sögukonan verður meðal annars vitni að ólöglegum líkamslistargjörningum við Kínamúrinn þar sem einn listamaðurinn sviptir sig klæðum, grefur holu í jörðina og hefur ofsafengin mök við móður Jörð – síðan mætir lögreglan á staðinn. Xiaolu Guo kom til Íslands í sumar og talaði fyrir troðfullu húsi í Veröld. Hún er sjúklega töff týpa og það var gaman að fá tækifæri til að sjá hana og horfa á heimildarmynd hennar um fyrstu utanlandsferð foreldra hennar, sem eru jú líka persónur í bókinni.

18. nóvember 2018

Bókin með brjóstdropunum

Um helgina hefur rignt mjög mikið í Reykjavík. Í ljósi þess, og að auki var ég með hálsbólgu og hæsi, var alveg upplagt að eyða dögunum aðallega í rúminu með heimiliskettinum og nýrri bók. Ég er með stafla af glænýjum bókum til taks og búin að lesa nokkrar. Bókin sem ég las á meðan rigningin buldi á súðinni er Sorgarmarsinn eftir Gyrði Elíasson og hún gerði helgina enn betri en annars hefði verið - annað sem var skemmtilegt var að þrátt fyrir raddleysið fór ég í útgáfuboð vegna bókar Alexanders Dans, sem heitir Vættir, en það er önnur saga.

Eitt af því sem mér finnst mikilvægt við bækur sem ég les er að þær fái mig til að hugsa, láti einhver óvænt fræ spíra í huganum og að þær hafi rödd sem talar til mín, röddina má auðvitað líka kalla stíl. Röddin í Sorgarmarsinum finnst mér alveg sérlega þægileg. Aðalpersónan, sem heitir Jónas eins og syndugi maðurinn í Gamla testamentinu sem gat sofið í maga sjávarspendýrs eða mögulega risastórs fisks, er einrænn maður. Það er varla hægt að kalla hann einmana því einsemdin er sjálfvalin. Hann dvelur í sumarhúsi frænda eiginkonu sinnar í jaðri þorps á Austfjörðum og fæst við að krota nótur í minnisbók og skrifa auglýsingar fyrir auglýsingastofu í Reykjavík. Jónas er í persónulegum ógöngum, honum leiðist vinnan og hjónaband hans er að sigla í strand. Hann er raunar ekkert að spyrna á móti því eða vinna í sínum málum eins og það er oft kallað. Hann virðist líta á það sem óhjákvæmilegt að eiginkonan, Anna, hitti annan mann, enda hefur hún oft sagt að Jónas nærist á óhamingju, sem er ekki þægilegur eiginleiki hjá sambýlismanni.

Það er kannski klisjukennt að tala um rauðan þráð, en samt ... rauði þráðurinn í þessari bók er sköpunarþörfin. Jónas hlustar á fjölbreytta tónlist, umhverfishljóð og fuglasöng og notar það sem hann heyrir sem innblástur í eigin tónverk, sem munu samt að líkindum aldrei verða flutt. Minnisbókinni glatar hann líka í skógræktarlandi en hann fær sér aðra og heldur áfram að kompónera. Á vegi Jónasar verða ýmsar persónur sem eru andstæður hans eða jafnvel spegilmyndir, svona eftir því hvernig maður kýs að túlka söguna; nefna má kaupmann þorpsins, sem fer til tónlistarborgarinnar Salzburgar heimaborgar Mozarts höfundar Sálumessunnar frægu, þar sem hann deyr skyndilega og listmálara sem hefur lagt penslunum og palettunni og ræktar gulrætur í stórum stíl.

Sorgarmarsinn er ekki löng, hávær, fjörug eða stórkarlaleg bók, enda ekki við því að búast af höfundinum, en hún fór dásamlega vel með norsku brjóstdropunum sem eru á náttborðinu mínu og ég náði alveg sérstöku sambandi við bugaða sögumanninn Jónas.

30. október 2018

Prjónað meðfram jólabókaflóðinu

Nú er jólabókaflóðið skollið á og mig svimar af hamingju yfir öllum yndislestrinum sem fram undan er. En eitthvað verður kona að hafa fyrir stafni þau kvöld sem hún dettur í sjónvarpsgláp, þær stundir sem hún situr barnlaus í strætó, meðan hún hlustar á hljóðbækur og já – mér detta svo sem ekki í hug fleiri staðir og stundir þar sem ég gæti með góðu móti prjónað – en það geta vonandi aðrir - til dæmis má prjóna jólagjafir! Fyrir tæpu ári síðan áskotnaðist mér dásamleg dönsk bók sem heitir Kærlighed paa pinde – hér er engin erótík í spilunum heldur er þetta bók um prjónaskap. Það sem meira er – þetta er bók eftir einn uppáhalds prjónahönnuðinn minn –  Lene Holme Samsöe (hér eftir nefnd LHS). 

14. mars 2018

Barnagæla

Þetta er eins konar ritfregn, sprottin af því að þegar ég var að segja mínum góðu vinkonum í Druslubókum og doðröntum frá því að bók sem ég hefði lesið nýlega „hlyti að fara að koma út á íslensku“ kom í ljós að viðkomandi bók var þegar komin út á íslensku, það hafði bara algjörlega farið framhjá mér. Mér rennur blóðið til skyldunnar að forða öðrum frá sömu örlögum.

Um er að ræða bók eftir fransk-marokkóska rithöfundinn Leïlu Slimani sem heitir Barnagæla í íslenskri þýðingu Friðriks Rafnssonar og kom út hjá Forlaginu í haust. Hún fjallar um hjón í París sem eiga tvö lítil börn. Upphaflega er móðirin heima með börnunum en síðan fer hún aftur út á vinnumarkaðinn og þá ráða þau til sín barnfóstruna Louise, sem tekur síðan æ meira pláss í lífi þeirra og endar á að rústa því, eins og er ljóst frá fyrstu blaðsíðu.

Ég las bókina í enskri þýðingu, sem Lullaby, og allavega í umfjöllun um þá útgáfu virðist hún oft vera kynnt sem einhvers konar spennusaga. Það er vissulega spenna í henni, en það er líka töluvert öðruvísi stemmning og pælingar í þessari bók en hefðbundnum þrillerum. Ég myndi segja að eitt meginþemað í Barnagælu væru flóknar krossgötur stéttar, kyns og uppruna sem grundvöllur misskiptingar í samfélaginu – mun þyngri undiralda en í bókum eins og Gone girl og Girl on the train, sem ég hef séð nefndar til sögunnar í sama samhengi.

Ég fílaði Barnagælu frekar vel. Mér fannst Leïlu Slimani takast vel að sameina þessa óhugnanlegu og spennandi sögu annars vegar og hins vegar óþægilega og frekar þrúgandi mynd af stöðu kvenna í (allavega frönsku) nútímasamfélagi. Ég mæli semsagt með því að fólk noti tækifærið og lesi hana í íslenskri þýðingu.

8. janúar 2018

Afrek ársins 2017: Lestrardagbókin

Ég lít á það sem eitt af afrekum mínum árið 2017 að hafa í fyrsta sinn á ævinni tekist að halda skrá yfir bóklestur minn. Lykillinn að því reyndist vera að skrifa svolitla umsögn um allar bækurnar og upplifun mína af þeim, sem jók á lestraránægjuna og gerði það skemmtilegra að rifja bækurnar upp eftir á. Ég gaf stjörnur eins og sannur bókmenntagagnrýnandi – en held reyndar að ég hafi þjáðst af dálítilli stjörnuverðbólgu, sérstaklega framan af, og hyggst mæta með sveðjuna reidda til höggs í lestrardagbókinni á nýju ári. (Fyrsta bókin sem ég opnaði eftir áramót, ævisaga Patriciu Highsmith eftir Andrew Wilson, sem er búin að vera mörg ár ólesin uppi í hillu, er að reynast býsna slöpp, þannig að það ætti að auðvelda mér að sýna fulla hörku strax í upphafi.)

Samkvæmt mínum útreikningum las ég fimmtíu og eina bók á árinu sem var að líða, rétt tæplega bók á viku, sem mér sýnist mun minna en hjá mörgum af lesóðum facebookvinum mínum, en mér finnst samt bara fínt. Ég taldi bækur sem ég las utan vinnu (og ég skilgreini skrif mín um íslenska klámsögu sem vinnu, þótt lítt launuð séu, og tel því ekki með bækur á borð við Kynblendingsstúlkuna frá 1970) og sem ég kláraði. Þar af voru 33 skáldsögur, tvö smásagnasöfn, tíu ljóðabækur og fimm bækur óskáldaðs efnis. Meirihluti bókanna voru eftir íslenska höfunda, eða 27 bækur, næstu þjóðlönd voru Svíþjóð, Bandaríkin og Portúgal með 4-5 bækur hvert, en það var skammarlega lítið um bækur frá löndum utan Evrópu og Bandaríkjanna – aðeins ein eftir rússneskan höfund, ein frá Chile og ein frá Suður-Kóreu. Það hallaði nokkuð á konur í höfundahópnum; 21 bók var eftir konu en 29 eftir karla.

Það hafði einhver áhrif á fjölda íslenskra höfunda og fjölda karlhöfunda að í ár ákvað ég – einnig í fyrsta sinn – að lesa allar skáldsögur tveggja höfunda, og bækur eftir þessa tvo höfunda tróna í efstu sætum yfir

uppáhaldsskáldsögurnar mínar árið 2017: 

Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur frá 1981
Gæludýrin eftir Braga Ólafsson frá 2001

20. desember 2017

Bakarísglæpir um jólin

Þau hafa ekki dregið veitingarnar frá skatti
Við sonur minn höfum fallið kylliflöt fyrir sænskri bókaseríu sem Forlagið hefur gefið út undanfarin ár eftir rithöfundinn Martin Widmark og myndskreytinn Helenu Willis. Bakarísráðgátan er fjórða bókin í æsispennandi flokki um spæjarana og vinina Maju og Lalla en þau leysa hvert glæpamálið á fætur öðru í heimabæ sínum, Víkurbæ. Um þessa seríu er ekkert nema gott að segja, þetta eru bráðfyndnar bækur og mjög hvetjandi fyrir litla lestrarhesta sem og þá sem ekki eru byrjaðir að lesa sjálfir. Letrið er stórt, myndirnar mjög skemmtilegar og efnið afar spennandi. Þá spilla ekki fyrir litrík götukort af Víkurbæ og teikningar af aðalpersónum en við flettum mikið fram og tilbaka – bæði til að athuga hvert söguhetjurnar voru að fara eða hvaðan þær voru að koma á kortinu og líka til að skoða myndir af hinum grunuðu og athuga hvort þar leyndust einhverjar vísbendingar um innra atgervi (svo var ekki).

30. október 2017

„Hvernig sefur þú“ er pappírslistaverk!

Sem barn var ég ekkert sérstaklega hrifin af myndabókum – þótt þær væru auðvitað margar góðar höfðu þær þann galla að klárast of fljótt. Þó hafa þær auðvitað stytt mér stundir áður en farið var að lesa fyrir mig flóknari bækur og áður en ég fór sjálf að lesa. En óhjákvæmilega hefur fennt yfir fyrstu bókaárin og minningunni lúta þau í lægra haldi fyrir Astrid Lindgren, Múmínálfunum, Anne-Cath. Vestly, Ole Lund Kirkegaard og fleiri meisturum. En á síðustu árum hefur afstaða mín til myndskreyttra bóka gjörbreyst og loksins er ég farin að kunna að meta þau sjálfstæðu listaverk sem metnaðarfullar myndaskreyttar bækur geta verið. Og nú sit ég hér í hægindastól heimilisins og les til skiptis fyrir fimm ára og eins árs – sjaldnast sömu bækurnar en sumar fallegar myndabækur eiga þó greiðan aðgang að báðum börnum og þá er líka skemmtilegt fyrir þann eldri að geta lesið takmarkaðann textann í myndabókum fyrir litlu systur.

Olivia Cosneau á góðri stundu
Eina slíka myndabók rak á fjörur okkar þriggja um daginn en það er ný bók sem Angústúra þýðir og gefur út, Hvernig sefur þú? eftir Olivia Cosneau og Bernard Duisit. Olivia sér um myndir og texta en Bernard pappírshönnun sem er svo sannarlega einn stærsti hluti verksins og samvinna þeirra tveggja dásamleg. Olivia hefur myndskreytt bækur í yfir áratug og þau Bernard unnið alla vega tvær slíkar saman svo nú er bara að vona að við fáum að njóta hinnar líka. Á heimasíðu Forlagsins er Guðrún Vilmundar skráð fyrir þýðingunni en ég sé þær upplýsingar raunar ekki á bókarkápu. Þetta er ægifögur bók sem þessi fimm ára kallar “Origami-bókina” og sú nafngift er kannski ekki alveg úr lausu lofti gripin því þetta er vissulega listaverk úr pappír. Á hverri síðu legst eitthvað dýr til svefns og textinn útlistar athöfnina nánar – svo er hægt að toga í flipa og þá hringar kötturinn sig, kóalamamma faðmar litla kóalabjörninn, apinn sveiflast í trénu og svo framvegis. Þetta er ekki flókið en pappírsteikningarnar eru afskaplega fallegar og meira að segja fullorðnu fólki (alla vega mér) finnst ennþá gaman að toga í flipann hjá kengurunni og sjá litla ungan stinga kollinum upp úr poka móður sinnar – hvar hann sefur.Hin bókin sem Olivia Cosneau og Bernard Duisit
unnu saman

20. september 2017

Hér hefur kúasmali verið á ferð: Sigurður Pálsson látinn

Vegalengdir og skógarbotn

Salthnullungar, ætlaðir kúnum, þær sleiktu þessa steina hægum tungustrokum, sleiktu sér salt í kroppinn sinn hlýja og stóra.

Salt. Fjögra stafa orð. Ef ég væri beðinn um skilgreiningu á kjarna lífsins myndi ég skrifa þetta orð. Lífið er ekki saltfiskur, lífið er salt.

Rak kýrnar eftir slóðanum, hugsaði: merkiði slóðina vel með þyngslalegum skrokki ykkar og klunnalegu fótum með hörðu klaufum.

Merkiði götuna, þrykkið nærveru ykkar niður í svörðinn svo mín tilvist komist til skila líka, svo framtíðin sjái að hér hefur kúasmali verið á ferð.(Úr Bernskubók, 2011)

11. ágúst 2017

Meiri glæpi - minni ást!


Sumri hallar því miður, sest er sól en sumarið hefur að vanda verið tími glæpa og ofbeldis þegar kemur að bókalestri. Rebus og Jimmy Perez fylgdu mér úr hlaði í vor og nú hefur Nóra Sand tekið við en hún er (eins og Perez) á framfæri Bókaútgáfunnar Uglu. 

Nóru er að finna í Stúlkunum á Englandsferjunni, sem er ekki beinlínis frumraun dönsku skáldkonunnar Lone Theils á ritvellinum en vissulega hennar fyrsta bók. Áður starfaði hún sem fréttaritari Berlinske Tiderne og Politiken í London í fjölda ára. Bakgrunn sinn í blaðamennskunni nýtir Theils prýðisvel í bókinni en aðalsöguhetjan, Nóra, er einmitt fréttaritari fyrir skáldaða tímaritið Globalt. Eins og Theils starfaði Nóra m.a. í Kosovo og Norður Írlandi og sakamálið sem Nóra reynir að leysa byggir á sönnum atburðum en þar með lýkur sem betur fer samanburðinum enda lendir Nóra í ansi kröppum dansi.

Sagan hefst á því að Nóra fjárfestir í gamalli tösku sem hún finnur í antíksölu í smábæ í Englandi. Í töskunni finnast svo ljósmyndir af stúlkum, þar á meðal tveimur stúlkum sem hurfu á ferju frá Danmerkur til Englands fyrir áratugum. Forvitni Nóru er vakinn og nánari athugun leiðir í ljós tengsl milli töskunnar og sérlega óhugnanlegs bresks fjöldamorðingja sem situr í lífstíðarfangelsi fyrir morð á ungum konum. 

14. apríl 2017

Stírur, hárflækjur, hrukkur og sviti

Það er alltaf gaman þegar skáld gefur út sína fyrstu ljóðabók. Ég er hálfgerður þjóðernissinni fyrir hönd ljóðsins (ég veit það blasir við að skrifa ljóðernissinni en kommon, maður hefur smá sjálfsvirðingu) og gleðst jafnan yfir nýjum fylgismönnum við málstaðinn. Enn meiri er þó gleðin þegar skáld sendir frá sér ljóðabók númer tvö, sem sýnir fram á ákveðið þolgæði og gefur til kynna að viðkomandi hyggist halda þessu tímafreka rugli til streitu.

Eitt af þeim fjölmörgu skáldum sem gáfu út sína fyrstu ljóðabók árið 2015 var Vilborg Bjarkadóttir, sem sendi frá sér bókina Með brjóstin úti og var meðal þeirra sem sat fyrir rafrænum svörum í ljóðaviðtalaseríu Druslubóka og doðranta af því tilefni. Eins og fram kemur í viðtalinu – og titill bókarinnar sjálfrar gefur raunar vísbendingu um – er Með brjóstin úti mjög líkamleg bók, nánar tiltekið kvenlíkamleg. Hún fjallar um getnað, meðgöngu, fæðingu og fyrstu vikurnar í lífi nýrrar manneskju, um það hvernig móðir býr til barn og barn býr til móður. Rétt fyrir jól 2016 sendi Vilborg síðan frá sér aðra ljóðabók, Líkhamur, sem á það meginþema sameiginlegt með fyrri bókinni að fjalla um líkamann, en er að öðru leyti töluvert ólík henni.

[Innskot: Ég var búin að skrifa heilt bókablogg um ljóðabókina Líkham þegar ég fór að skoða facebooksíðu útgefandans Sæhests og komst að því að þar er hún kölluð örsagnasafn. Ég tek þessu hins vegar bara sem dæmi um hið sveigjanlega eðli ljóðsins og held mínu striki.]

10. apríl 2017

Óvinsæl kona

Þessa dagana er ég með vinnuaðstöðu í bókmenntahúsinu í Åmål, tíu þúsund manna bæ í Dalslandi í Svíþjóð. Við hliðina á dyrunum að skrifstofunni minni hangir plakat í ramma sem auglýsir viðburð sem átti sér stað á hótelinu hér í bænum í september 2014. Þar kynnti rithöfundurinn Sigrid Combüchen bók sem hún skrifaði um umdeilda konu frá Åmål. Ég kannaðist við höfundinn en ekki við umdeildu konuna Idu Bäckmann frá Åmål. Á plakatinu er mynd af alvarlegri konu með hönd á hægra brjósti, stellingin minnir smávegis á Napóleon og er líklega mjög óvenjuleg fyrir miðaldra konu á ljósmynd frá því snemma á síðustu öld. Forvitni mín kviknaði, ég fór að gúggla og fann ýmislegt á netinu og hlustaði á útvarpsþátt þar sem Ida Bäckmann kemur við sögu og svo náði ég mér í bókina og las hana í einum rykk (ég fann hana í hillu hér í við dyrnar hjá mér, rétt hjá plakatinu í rammanum).

Ida Bäckmann var óvenjuleg og illa liðin kona. Hún fæddist 1867 í Åmål og dó ekki langt hérna frá árið 1950. Ida var dóttir málarameistara, hún fékk að mennta sig, fór til Stokkhólms í stúlknaskóla og tók stúdentspróf. 22ja ára gömul, árið 1889, rakst hún á skáldið Gustaf Fröding í lystigarði í Karlstad. Þau hittust varla, hún sá hann bara, en þessi viðburður sneri lífi konunnar algjörlega á hvolf. Fröding hafði á þessum tíma ekki gefið út ljóðabók, hann var 29 ára og þekktur blaðamaður í Karlstad og það var slúðrað um ólifnað hans, en unga stúlkan heillaðist og varð ekki söm.

Árið 1890 gerðist Ida barnakennari og næstu fimmtán árin eða svo stundaði hún kennslu og skólastjórn og var óvinsæll kennari. Hún virðist algjörlega hafa verið með Fröding á heilanum, hún tók upp bréfasamband við hann og fór síðan að umgangast hann og var stöðugt með hann í sjónlínunni og skiptandi sér af honum. Hún gaf út bók árið 1898 sem virðist vera einhvers konar lykilskáldsaga um drykkjubolta sem líkist Fröding mjög en bókin varð upphafið að höfundarferli Idu Bäckmann.

Árin 1891 og 1894 komu út ljóðabækur eftir Gustaf Fröding sem slógu í gegn og fleiri bættust við næstu árin. Síðan hefur hann haft þjóðskáldsstatus og var orðaður við Nóbelsverðlaun skömmu áður en hann dó. Fröding dvaldi langtímum saman á hælum og stofnunum og var augljóslega vanhæfur til margs sem venjulegt fólk þarf að sinna, hann dó árið 1911 rétt fimmtugur. Ida gerðist hins vegar fréttaritari víða um heim, hún skrifaði smám saman margar bækur, var hædd og smáð af mörgum og endaði sem hænsnabóndi í sænskri sveit og dó, eins og fyrr sagði, árið 1950.

Gustaf Fröding. Hann dó fimmtugur.
Ida Bäckmann þótti laus við þá eiginleika sem álitnir eru hæfa músum listamanna. Hún var hvorki kvenleg, fögur né leyndardómsfull, heldur var hún sögð forljót, uppáþrengjandi og nöldurgjörn. Hún þótti allt of ófríð og óskáldleg til að verjandi væri að hún elskaði stórskáld og séní. Það kemur víða fram í heimildum samferðamanna að hún var lítil, rauðhærð og þótti almennt óaðlaðandi. Gustaf Fröding líkti henni við afa sinn, sem þótti minna á álf eða furðudverg. Hrifning Idu af Fröding virðist merkilega lítið upphafin, hún var ekki skáldlegur skýjaglópur eða bókmenntagreinandi heldur praktískt þenkjandi kona sem kunni að taka til hendinni. Ida Bäckmann var ástfangin af skáldinu og hún ætlaði að bjarga honum með skynsemi sinni, redda honum úr ógæfunni með umhyggjusemi og góðu atlæti. Hún virðist hafa álitið að hún gæti komið Fröding af geðveikrahælinu, læknað hann af lífsstílstengdum kvillum og óviðeigandi greddu til vændiskvenna og haldið honum réttu megin við strikið ef hún fengi til þess tækifæri. Hún ætlaði sem sagt að bjarga tilfinningalega vanhæfri fyllibyttu sem skrifaði pornógrafísk ljóð – kannski ekkert mjög óvenjulegt við það? Einu sinni játaði Ida Bäckmann meira að segja bónorði plantekrueiganda frá Suður-Afríku með því skilyrði að hún eignaðist hús í Afríku og fengi að halda Fröding uppi. Að þessu gekk vonbiðillinn en hann dó úr taugaveiki áður en kom til brúðkaups og Ida fékk ekki tækifæri til að láta reyna á björgunarhæfileika sína. Að endingu þótti hún til svo mikilla vandræða að læknar Gustafs Frödings og systir hans, sem hafði verið vinkona hennar, harðbönnuðu henni að umgangast stórskáldið. Frá 1904 var henni alfarið bannað að koma á geðdeildina í Uppsölum.

6. apríl 2017

Það er svo sannarlega eitthvað sem stemmir ekki

Ég skammast mín dálítið fyrir að skrifa aldrei um neitt annað en sænskar bækur inn á þessa síðu. Þegar ég lauk við sænsku skáldsöguna Det är något som inte stämmer eftir Martinu Haag fyrir örfáum dögum var ég því fljót að ákveða að ég myndi ekki skrifa bókablogg um hana. Ekki bara vegna þess að bókin er sænsk og ég ímynda mér að allir séu búnir að fá nóg af pistlum um sænskar bækur - heldur líka vegna þess að ég ímyndaði mér að akkúrat þessi tiltekna bók ætti sérlega lítið erindi við íslenska lesendur. Það kom mér því ekki lítið á óvart þegar ég átti erindi í bókabúð daginn eftir að lestrinum lauk og sá að einmitt þessi bók er nýkomin út á íslensku. Það er eitthvað sem stemmir ekki heitir hún í þýðingu Kristjáns H. Kristjánssonar og það er MTH útgáfa á Akranesi sem gefur út.

Bókin segir frá rithöfundinum Petru sem tekur að sér að vera skálavörður í óbyggðum nyrst í Svíþjóð. Það kemur fljótlega í ljós að hún hefur flúið til fjalla í kjölfar erfiðs skilnaðar og eftir því sem frásögninni vindur fram taka að fléttast inn í hana minningar Petru um andarslitrur hjónabandsins og tímabilið eftir að Anders, maðurinn hennar, fór frá henni fyrir aðra konu.