Það misrétti sem konur hafa verið beittar gegnum aldirnar hefur meðal annars birst í þöggun þeirra. Það eru ýmsar leiðir til að þagga niður í fólki, meðal annars er hægt að láta það líta út fyrir að vera ómarktækt, gefa til kynna að það hafi ekkert merkilegt að segja, og neita þannig að taka mark á því. Slík afstaða hefur líka samfélagsleg áhrif: ef einhverjir sem eru í valdastöðu og almennt er hlustað á gefa ítrekað í skyn að tiltekinn einstaklingur eða hópur fólks sé ekki marktækur þá smita slík viðhorf út frá sér til annarra. Viðkomandi fólk fer jafnvel að trúa því sjálft að það hafi ekkert merkilegt að segja. Í það minnsta þá gefst fólk gjarnan upp á því að reyna að tjá sig ef það rekur sig ítrekað á að það er ekki á það hlustað hvort sem er.
Þöggun er ágæt aðferð til að bregðast við óþægilegum gagnrýnisröddum. Ef við viljum ekki þurfa að hlusta á gagnrýni á ríkjandi kerfi þá er yfirleitt árangursríkt að kveða raddirnar niður og það er oft þægilegri aðferð en að standa í því að svara þeim. Stundum er fólki haldið niðri með hræðslu, þ.e. ef það má búast við refsingu fyrir það að tjá skoðanir sem koma sér illa fyrir valdhafa, en oft er hunsun ekki síður árangursrík leið til að útiloka gagnrýnisraddir. Svo er hægt að hæðast að hópnum sem þagga á niður í og grafa þannig undan trúverðugleika hans.
Í dystópísku skáldsögunni Vox eftir Christinu Dalcher hafa raddir kvenna verið kæfðar með mjög svo bókstaflegum hætti. Sögusviðið er Bandaríkin á óræðum tíma, en miðað við aðstæður má vel ímynda sér að þetta eigi að gerast eftir fáein ár eða áratugi. Trúarofstækismenn hafa náð auknum völdum undir einræðissinnuðum forseta. Afleiðing af því er að réttindi kvenna hafa að mestu leyti verið afnumin. Þær mega ekki lengur vera úti á vinnumarkaði heldur eiga þær að vera fyrirmyndarhúsmæður, eignir þeirra eru skráðar á eiginmenn þeirra, getnaðarvarnir hafa verið teknar af markaði og meðgöngurof að sjálfsögðu bannað, kynlíf utan hjónabands er bannað og konum sem stunda það er grimmilega refsað (en ekki körlunum) og samkynhneigt fólk er fangelsað og sett í einhvers konar endurhæfingarheilaþvott. Það sem er svo sérstaklega einkennandi er að konum hefur verið úthlutaður talkvóti þannig að þær mega aðeins mæla 100 orð á sólarhring. Til að tryggja hlýðni þeirra við þessar reglur eru þær látnar bera sérstök armbönd með teljara sem gefa þeim raflost ef orðafjöldinn fer yfir 100. Tölvur, bækur og skriffæri eru kirfilega læst inni þar sem einungis karlar hafa aðgang að þeim og myndavélar fylgjast með til að tryggja að konur svindli ekki á orðakvótanum með því að tala táknmál.
Aðalsöguhetja bókarinnar, Jean, hefur áður starfað sem málvísindakona og stundað mikilvægar rannsóknir á málstoli. Sagan er sögð frá sjónarhorni hennar, þar sem hún er full reiði yfir nýju hlutskipti sínu sem undirgefin úthverfahúsmóðir sem fær ekki að tjá sig. Sonur hennar á unglingsaldri hefur teygað Kool-Aidið frá trúarnötturunum og messar reglulega yfir henni um hið sanna hlutverk konunnar og eiginmaður hennar virðist frekar uppburðarlítill gagnvart öllu saman. Hún hefur miklar áhyggjur af ungri dóttur sinni og áhrifum þess á þroskaferil hennar að fá ekki að tjá sig. Svo fer ýmislegt að gerast sem ekki verður tíundað hér til að skemma ekki plottið fyrir þeim sem eiga eftir að lesa bókina. Ég verð þó að játa að mér fannst söguþráður bókarinnar helst til reyfarakenndur og lausnir of einfaldar til að geta verið almennilega trúverðugar. Ekki að ég sé endilega mótfallin reyfurum, en miðað við þær safaríku hugmyndir og samfélagsádeilu sem lagt er upp með fannst mér plottið verða allt of rýrt og tækifæri vannýtt til að koma áhugaverðum hlutum á framfæri. Og það var eitthvað við ritstílinn sem pirraði mig, það var eitthvað þvingað við hann.
Sem sagt er þetta bók sem felur í sér gríðarlega áhugavert sögusvið sem hefði mátt gera mun meira við en var gert. Þöggun kvenna er viðfangsefni sem er einkar mikilvægt. Miðað við orðræðu sem verður iðulega vart við í kringum okkur, hvort sem um er að ræða alþingismenn á börum, reiða karla í kommentakerfum eða hugsunarlausa unglingsstráka, er það bara nokkuð útbreidd skoðun að konur eigi ekkert að vera að þenja sig. Samfélagið sem lýst er í Vox er því miður ekkert svo langsótt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli