er harður.
Kjarni lífsins
er harðari.
Þess vegna
á að bíta laust í kring
og mæta hörðu með mýkt.
Tennur vita
margt.
Þær kenna mér
eitt og annað:
Bíta saman.
Stefnan er
einhvers staðar
á milli okkar.
Ljóðið Stefnuleit er að finna í nýlegri ljóðabók skáldsins Elínar Eddu, Hamingjan leit við og beit mig, sem kom út hjá Meðgönguljóðum í haust (en þess má geta að Elín Edda stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og hefur líka gert stórfallegar bókakápur fyrir Partus, yfirútgáfu Meðgönguljóða). Druslubækur og doðrantar tóku Elínu Eddu tali um nýju bókina hennar.
Sæl Elín Edda, til hamingju með nýju bókina! Þú hefur gefið út tvær bækur áður – myndasögurnar Gombra og Plöntuna á ganginum (sem Salka skrifaði um hér). Var það öðruvísi reynsla að gefa út ljóðabók?
Sæl Kristín Svava og kærar þakkir fyrir.
Já, það var svolítið öðruvísi. Ég gaf líka myndasögurnar út hjá Nóvember, sem er myndasöguútgáfa sem við Elísabet Rún, systir mín, rekum. Plöntuna á ganginum skrifaði ég og teiknaði með Elísabetu og við sáum sjálfar um allt í tengslum við útgáfuna. Gombri er síðan hugarfóstursonur minn sem varð að mjög persónulegu verki, myndasögunni Gombra.
Ljóðabókin Hamingjan leit við og beit mig finnst mér agaðri að forminu til. Ég hugsaði líka ekki um útlit hennar. Mér fannst að vissu leyti erfiðara að koma fram sem ljóðskáld. Ég leyndi því t.d. lengi að ég væri að skrifa ljóð.
Og er ljóðagerðin öðruvísi en mynd- og myndasögulistin – ertu að nota sömu stöðvarnar í heilanum? Hefurðu verið lengi að skrifa ljóð?
Mér finnst hugmyndirnar koma frá stað sem ég kalla undirmeðvitundina. Ég treysti mikið á hana. Textinn í myndasögunum kemur yfirleitt eins og ljóðin. Undirmeðvitundin veit hvað ég er að bralla hverju sinni og frá henni koma textar við myndir eða ljóð.
Mér finnst myndirnar sem ég geri oft byggðar á tilraunastarfsemi og mistökum. Myndlistin er meira tengd líkamanum.