11. ágúst 2017

Meiri glæpi - minni ást!


Sumri hallar því miður, sest er sól en sumarið hefur að vanda verið tími glæpa og ofbeldis þegar kemur að bókalestri. Rebus og Jimmy Perez fylgdu mér úr hlaði í vor og nú hefur Nóra Sand tekið við en hún er (eins og Perez) á framfæri Bókaútgáfunnar Uglu. 

Nóru er að finna í Stúlkunum á Englandsferjunni, sem er ekki beinlínis frumraun dönsku skáldkonunnar Lone Theils á ritvellinum en vissulega hennar fyrsta bók. Áður starfaði hún sem fréttaritari Berlinske Tiderne og Politiken í London í fjölda ára. Bakgrunn sinn í blaðamennskunni nýtir Theils prýðisvel í bókinni en aðalsöguhetjan, Nóra, er einmitt fréttaritari fyrir skáldaða tímaritið Globalt. Eins og Theils starfaði Nóra m.a. í Kosovo og Norður Írlandi og sakamálið sem Nóra reynir að leysa byggir á sönnum atburðum en þar með lýkur sem betur fer samanburðinum enda lendir Nóra í ansi kröppum dansi.

Sagan hefst á því að Nóra fjárfestir í gamalli tösku sem hún finnur í antíksölu í smábæ í Englandi. Í töskunni finnast svo ljósmyndir af stúlkum, þar á meðal tveimur stúlkum sem hurfu á ferju frá Danmerkur til Englands fyrir áratugum. Forvitni Nóru er vakinn og nánari athugun leiðir í ljós tengsl milli töskunnar og sérlega óhugnanlegs bresks fjöldamorðingja sem situr í lífstíðarfangelsi fyrir morð á ungum konum.