27. apríl 2010

Sumarbústaðabók um venjulega stelpu

Sítrónur og Saffran eftir Kajsu Ingemarsson er rólegheitabók, hentar vel til þess að taka upp í sumarbústað eða bara upp í rúm til að slappa af fyrir svefninn.

Sagan er um Agnesi, unga konu sem upplifir margt sem flestir upplifa eflaust einhvern tíma á ævi sinni, til dæmis það að missa vinnuna, kærasta og ástvin. Hún er þó svo heppin að eiga frábæra vinkonu og fjölskyldu sem vilja henni vel, svona fólk sem heldur alltaf með manni en mætti stundum skipta sér örlítið minna af. Í upphafi bókar reynir yfirmaður Agnesar að nauðga henni í vínkjallara fína veitingahússins sem hún vinnur á. Hún kemst af eigin rammleik undan krípinu, en er rekin og þarf að leita sér að vinnu án þess að geta vænst þess að fá meðmæli fyrir sitt mikilvægasta starf. Löngunin til að Agnes rísi upp og berjist gegn ruddalegum ríkum körlum sem misnota starfsfólk sitt í skjóli þeirra valda sem fjármagn gefur þeim kviknar vissulega hjá lesanda. Kannski er ekki hægt að búast við þessháttar baráttu í svona bók, en það er þó hressandi að lesa chick-lit sem fjallar ekki bara um verslunarferðir. Eftir þetta atvik fylgjumst við með tilraunum Agnesar til að koma sér aftur á lappirnar og reyna að halda lífinu í fyrra horfi, þegar breytingar virðast óhjákvæmilegar.

Bókin er létt og skemmtileg, en fjallar þrátt fyrir það um ýmislegt alvarlegt og erfitt. Þótt Agnes geti virst of venjuleg og lítið spennandi í byrjun bókar, finnst lesanda örlög hennar skipta máli, maður les smám saman hraðar, mann langar að stíga inn í bókina og segja Agnesi fyrir verkum, hrista hana mögulega til. Agnes er svo venjuleg að hún verður nokkurs konar everywoman, Jóna Jónsdóttir og þess vegna er afskaplega auðvelt að spegla sjálfan sig og þá sem maður þekkir í henni.

Guðrún Elsa


24. apríl 2010

Barna- og unglingabókmenntahátíð í Norræna húsinu

krummi1Í dag átti að vera fræðidagskrá um tengsl mynda og texta á barna- og unglingabókmenntahátíðinni Myndir úti í mýri í Norræna húsinu en því miður komst aðeins einn útlensku fræðimannanna til landsins (þið hafið kannski heyrt af þessu eldgosi)  svo dagskránni sem átti að vera í dag, laugardag, verður frestað fram á haust.

Á morgun, sunnudaginn 25. apríl, verður hins vegar dagskrá fyrir börn sem hefst kl. 11 með opnun sýningar á bókverkum barna á leikskólanum Sæborg, Fíasól og félagar sprella síðan og loks kynna barnabókahöfundar verk sín og lesa fyrir börn og fullorðna. Eitthvað verður lítið um útlenska höfunda en íslenskir barnabókahöfundar eru svo skemmtilegir að þeir valda engum vonbrigðum.

Stefnt er að því að setja upp nýja dagskrá  um myndskreyttar bækur helgina 11.-12. september. Heimasíða hátíðarinner er www.myrin.is

21. apríl 2010

Að láta sig hverfa

Ár hérans eftir Arto Paasilinna kom út árið 1975, en var gefin út í íslenskri þýðingu árið 1999. Ég fékk bókina að láni frá nágrannakonu minni fyrir löngu síðan og var loksins að koma mér að því að lesa hana.

Blaðamaðurinn Vatanen er í vinnuferð þegar hann keyrir á héraunga. Hann fer þá inn í skóg sem liggur utan vegarins til að finna hérann og huga að líðan hans. Þegar Vatanen stendur inni í skóginum með fótbrotinn hérann í höndunum finnur hann að hann vill ekki snúa til baka að bílnum og til síns fyrra lífs. Hann tekur ákvörðun um að láta sig hverfa með héranum. Í kjölfarið ferðast hann vítt og breitt um Finnland, kynnist fólki og dýrum, kennir gömlum róna að synda, kemur þjófóttum hrafni fyrir kattanef og aðstoðar við að slökkva skógareld, en endar á landafylleríi með ókunnugu fórnarlambi eldsins. Frelsið er algert og lífið ekki alltaf auðvelt, en það er mun áhugaverðara en áður.

Ár hérans minnti mig á tvær bækur sem ég las í vetur, Miss Wyoming eftir Douglas Coupland og Leviathan eftir Paul Auster. Báðar bækurnar fjalla um fólk sem lætur sig hverfa, sem tekur meðvitaða ákvörðun um að snúa baki við fyrra lífi, ýmist í leit að einhvers konar tilgangi, eða til að láta tilviljun ráða för. Ár hérans sýnir ákvörðunina um að hverfa í jákvæðara ljósi en hinar tvær bækurnar, Vatanen verður hamingjusamari og nær tökum á tilveru sinni á flakkinu. Í Leviathan, sem kom út árið 1992 er aðalpersónu að sama skapi nauðsynlegt að láta sig hverfa, en það hefur mun neikvæðari afleiðingar í för með sér. Aðalpersóna finnur tilgang með lífinu, en endar á því að tortíma sér. Þegar komið er að bók Couplands, Miss Wyoming, sem kom út árið 2000, er tilgangsleit óhugsandi. Líkt og í Leviathan og Ári hérans láta sögupersónur sig hverfa algerlega af tilviljun, bara vegna þess að þeim dettur það í hug. Annars vegar lifir útbrunnin leikkona ein af flugslys og ákveður að flýja vettvang slyssins og fara eitthvert, hins vegar tekur subbulegur Hollywoodleikstjóri ákvörðun um að gefa allar eigur sínar og gerast útigangsmaður. Báðar persónurnar úr Miss Wyoming snúa aftur án þess að reynslan hafi breytt þeim, þau leituðu að tilgangi en fundu bara ruslið á vegum Kaliforníu.

Ég hafði afskaplega gaman af þessari eftirlætisbók nágrannans. Bækur um fólk sem lætur sig hverfa eru yfirleitt skemmtilegar, hvort sem hvarfið hefur í för með sér tortímingu eða kósýkvöld með héra. Ég mæli með öllum þremur bókunum.


Guðrún Elsa

20. apríl 2010

Vika bókarinnar

lesandinnÁrleg vika bókarinnar hefst á morgun, miðvikudag, og af því tilefni er ýmislegt bókmenntatengt í gangi út um allt land og því vert að fylgjast vel með í fjölmiðlum, kíkja á bókasafnið og vera almennt með kveikt á öllum skilningarvitum. Þessa dagana eiga líka öll heimili að fá senda ávísun frá bókaútgefendum sem nýta má til bókakaupa. Með henni berst litfagri bæklingurinn Lesandinn (pdf 1,7 mb ) þar eru lestrarhvetjandi greinar eftir skemmtilegt fólk og viðtöl við lesendur á öllum aldri.

8. apríl 2010

Barnabækur vítt og breitt

BornogMenning 1 2010Þessa dagana smjúga vorhefti Barna og menningar eitt af öðru inn um bréfalúgur áskrifenda.  Börn og menning er alþýðlegt fræðirit sem kemur út vor og haust og er gefið út af Íslandsdeild IBBY-samtakanna, sem eru samtök áhugafólks um víða veröld sem vill efla barnamenningu og ekki síst barnabókmenntir. Nýja heftið, sem er fjörutíu síður, er fullt af efni sem tengist menningu barna. Þar er t.d. umfjöllun um barnastarf á söfnum, barnamenningarhús, grein um Múmínálafabókina Halastjörnuna eftir Tove Jansson og nokkrar greinar um nýjar bækur og leikrit sem eru á fjölunum og ætlaðar börnum, auk ýmislegs annars.

Forsíða blaðsins er auðkennismynd barna- og unglingabókmenntahátíðarinnar Myndir úti í mýri, sem haldin verður í Norræna húsinu síðar í mánuðinum, en Áslaug Jónsdóttir hefur hannað myndina. Mýrarhátíð er nú haldin í fimmta skipti síðan 2001 en um er að ræða alþjóðlega bókmenntahátíð helgaða barna- og unglingabókmenntum og þema hátíðarinnar í ár er myndskreyttar bækur og tengsl mynda og texta.  Helgina 24.-25. apríl verður Norræna húsið lagt undir opna dagskrá, fyrri daginn verður vöngum velt yfir fræðilegum atriðum, en þá munu fjórir fræðimenn og myndskreytar frá jafnmörgum löndum fjalla um tengsl texta og mynda í barnabókmenntum, en á sunnudeginum verður dagskrá fyrir börn, sem hefst kl. 11 með heimsókn Fíusólar, en síðan kynna íslenskir og erlendir höfundar verk sín og allt verður túlkað eða lesið á íslensku. Allir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér málið á myrin.is, endanleg dagskrá dettur fljótlega inn á síðuna. Þarna má líka lesa heilmikið um gestina, en þeirra á meðal eru heimsfrægir höfundar og myndskreytar, nefna má Wolf Erlbruch sem skrifaði söguna um Moldvörpuna sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni og Sven Nordqvist höfund bókanna um Pétur og köttinn Brand.

Ungir sem aldnir sem áhuga hafa á barnabókmenntum og myndlýsingum barnabóka eru hvattir til að taka helgina 24.-25. apríl frá og það má strax byrja að hlakka til.

P.S. Hægt er að panta áskrift að Börnum og menningu með því að senda línu á netfangið bornogmenning@gmail.com.

7. apríl 2010

Vigdís

vigdis Undir lok jólabókavertíðarinnar í desember síðastliðnum setti ég upp bókmenntafræðingshattinn og mætti í huggulegan sjónvarpsþátt til að tjá áhorfendum hvað ég teldi áhugaverðustu bækur flóðsins. Vigdís – Kona verður forseti var einn þeirra þriggja bóka. Það er því til helberrar skammar að ég hafi ekki tekið mér tak og skrifað eitthvað um þá ágætu bók á síðuna fyrr en nú – en umsagnir um hinar tvær Karlsvagninn og Enn er morgunn hafa þegar verið skráðar í annála þessarar síðu. Þessi slóðaháttur minn segir ekkert um bókina sjálfa eða álit mitt á henni. Það tók mig reyndar langan tíma að lesa mig í gegnum hana, og ég hefði alveg áhuga á að lesa hana aftur og mun sjálfsagt gera það með tíð og tíma. Fyrst maður er byrjaður á játningum er best að halda þeim bara áfram. Það er kannski nauðsynlegt að láta koma fram hér að mér hefur alltaf frá því ég fyrst heyrði af henni, þ.e. í kosningabaráttunni 1980, fundist Vigdís stórfengleg kona. Aðdáun mín á henni minnkaði síst þegar ég vann um nokkurt skeið sem verkefnastjóri hjá stofnun sem við hana er kennd og komst að því að hún er ekki bara falleg og gáfuð heldur líka góð og afskaplega skemmtileg kona. Þessir eiginleikar Vigdísar finnast mér allir koma vel í gegn í ævisögunni. Sagan er trúverðug og skemmtileg aflestrar þó auðvitað hefði  maður á stöku stað kannski viljað fá aðeins  meira að heyra. Bókin er einstaklega vel skrifuð og textinn flæðir vel. Maður fær aldrei á tilfinninguna að verið sé að teygja lopann eða að frásögnin detti niður. Mér fundust sérstaklega skemmtilegar lýsingar á fjölskyldu Vigdísar, systrunum úr Sauðlauksdal og öllu því áhugaverða fólki sem að henni stendur. Viðurkennist hér með að ég hágrét yfir köflunum um örlög Þorvaldar bróður hennar og varð iðulega upprifin af pirringi yfir því sem gekk á í kosningabaráttunni 1980.  Frásagnir af forsetatíð hennar fundust mér áhugaverðar og þá einkum af seinni hluta tímabilsins sem ég sjálf missti mikið til af vegna búsetu erlendis.

Til að setja nú út á eitthvað þá verð ég að viðurkenna að mér finnst kápumyndin alls ekki nægilega góð – raunar bara kolómöguleg. Finnst þetta óþarfi því það eru til svo margar fallegar myndir af Vigdísi.

Sigfríður