26. janúar 2014

Bókmenntagetraunin: Úrslit

Eins og fram kom á föstudaginn voru þau Gísli Ásgeirsson og Þórdís Kristleifsdóttir jöfn að stigum þegar allir fjórtán liðir bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta höfðu verið birtir. Áður en farið yrði í bráðabana voru  þau Gísli og Þórdís hvött til að svara ellefta lið getraunarinnar, sem var sá eini sem rétt svar hafði ekki borist við.

Svo fór að Gísli svaraði ellefta lið rétt, og er hann því hér með krýndur sigurvegari bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta og vinnur sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, sem hefst í vikunni og druslubókabloggararnir Salka, Hildur og Kristín Svava hafa umsjón með.

Við óskum Gísla hjartanlega til hamingju með sigurinn og þökkum öllum sem tóku þátt í getrauninni kærlega fyrir. Einnig á Endurmenntun þakkir skildar fyrir verðlaunin.

Þess verður svo að sjálfsögðu að geta í hvaða verk textabrotið í ellefta lið er sótt, en það er úr bókinni Lifandi vatnið eftir Jakobínu Sigurðardóttur.

24. janúar 2014

Úrslit bókmenntagetraunar! Bráðabani!

Úrslit hinnar æsispennandi bókmenntagetraunar liggja þá fyrir og spennan á bara eftir að aukast því Gísli og Þórdís Kristleifsdóttir eru jöfn með þrjú stig hvort!

Okkur er því nauðugur einn kosturinn að efna til bráðabana og biðjum keppendur því vinsamlegast um að senda tölvupóst á bokvit@gmail.com og við munum reyna að skera úr um hvort þeirra hlýtur sæti á hinu geysivinsæla námskeiði Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi, sem er meira að segja svo vinsælt að það er orðið uppselt á það en áhugasamir geta samt enn skráð sig á biðlista og vonað það besta. 

Nú, eða þau Gísli og Þórdís geta gert sér lítið fyrir og giskað á ellefta lið, sem enn hefur ekki borist fullnægjandi svar við.

Rétt svar við fjórtánda og síðasta lið var auðvitað hin ógnvænlega Haldin illu anda eða The Exorcist eftir William Peter Blatty.

Annars þökkum við bara kærlega öllum þeim sem tóku þátt!

22. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fjórtándi og síðasti liður

Þá er það fjórtándi og jafnframt síðasti liður hinnar æsispennandi bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Enn hefur ekkert svar borist við þrettánda lið, sem þið megið endilega spreyta ykkur við.

Úrslit verða tilkynnt von bráðar, en eins og fyrr segir eru verðlaunin ekki af verri endanum, heldur sæti á jólabókaflóðsnámskeiði Endurmenntunar sem hefst á fimmtudaginn í næstu viku.

Og vindum okkur þá í fjórtánda liðinn.

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Nákvæmlega klukkan 00.25 eftir miðnætti leit Chris upp úr handritinu og hleypti brúnum. Hún heyrði undarleg högg. Þau voru óregluleg. Lág. Djúp. Hrynjandilaus. Annarleg eins og dauður maður berði.
Skrítið.
Hún hlustaði andartak; missti síðan heyrnar á höggunum, en þegar þau héldu áfram, gat hún ekki einbeitt sér að handritinu. Hún lagði það frá sér á rúmið.
Drottinn minn, ég þoli þetta ekki!Hún stóð upp til að kanna málið. Hún fór fram á ganginn og svipaðist um. Hljóðin virtust koma úr svefnherbergi Regans.“



21. janúar 2014

Bókmenntagetraun, þrettándi liður

Þá er komið að þrettánda og næstsíðasta lið í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Svar við tólfta lið var Ég um mig frá mér til mín eftir Pétur Gunnarsson, en enn hefur ekki borist rétt svar við ellefta lið og því eru lesendur hvattir til að halda áfram að giska.

Spurt er: Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Einmanaleikinn var ekki horfinn úr hjarta mínu þegar við Ágúst gengum út af dansstaðnum Týnda hlekknum sem stóð bleikmálaður og háreistur með glæsilegum gluggapóstum við Götu glötuðu tækifæranna í þann mund sem hárprúðar hórur flykktust alls staðar að með klappstólana sína útá gangstétt, í sólríku síðdeginu, til þess að greiða sér, lesa blöðin, tjatta saman og mála sig. Allt í kringum þær rússuðu litlir strákar að gera þeim til geðs með sígarettuna hangandi í munnvikinu, með skemlana sína og skóburstakassana í höndunum, tilbúnir að bursta skó hóranna og karlanna sem færu að mæta í heimsókn eftir hádegisverðinn. Gömlu hórurnar sem voru hættar að sofa nokkurn hlut vöfruðu um, vaktandi ástand hlutanna og tóku auðvitað eftir mér um leið og við Ágúst gengum hönd í hönd útaf skemmtistaðnum.“

20. janúar 2014

Bókmenntagetraun, tólfti liður

Þá er það tólfti liður hinnar epísku bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Rétt svar við ellefta lið hefur enn ekki borist svo við hvetjum lesendur eindregið til þess að halda áfram að giska.

Og þá spyrjum við: Í hvaða verki birtist eftirfarandi brot og hver er höfundur þess?

„Hafiði séð rafmagnstannburstana? spurði tannlæknirinn í fjölskyldunni og fjölmargir þurftu að taka til máls um hina vélknúnu bursta sem voru nýkomnir á markaðinn, mælendaskráin ætlaði aldrei að tæmast. Það var kona búin að að króa tannlækninn af og endaði hverja setningu með því að gapa niður í kok og í hvert skipti var eins og tannlæknirinn fengi ofbirtu í augun. Fólk vissi ekki fyrr en það var búið að bursta aðrahverja fyllingu úr tönnunum.“

19. janúar 2014

Bókmenntagetraun, ellefti liður

Þá er komið að ellefta lið bókmenntagetraunarinnar. Textabrotið í tíunda lið var sótt í ævisögu Stefáns Jónssonar, Að breyta fjalli.

Nú er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Verkamenn hafa enga ástæðu til að drepa sig. Nema þá geðbilun. Þeir hafa ekki heldur neina ástæðu til geðbilunar. Þeim hefir aldrei liðið eins vel. Þeir ættu að skammast sín að bilast á geðsmunum og drepa sig eins og þeir hafa það gott. Annað mál með okkur. Við vinnum með heilanum og berum ábyrgðina á velferðarríkinu ofan frá og niður í gegn. Þeir ættu að skammast sín. Já, þeir ættu að skammast sín! Þurfa ekki einu sinni að hugsa. Og gera það ekki. Það er ekki ætlast til þess af þeim, það er ekki þeirra fag. Og samt drepa þeir sig. Til hvers ætlast þeir eiginlega? Þeir hafa sína menn til að standa í kjarasamningamakkinu fyrir sig og segja þeim hvenær þeir eiga að samþykkja og hvenær þeir eiga að fara í verkföll. Þeir fá sína lýðræðislegu tilsögn um hverja þeir eiga að kjósa, þeir fá allt upp í sig hakkað og tuggið. Um hvað ættu þeir að hugsa?“

18. janúar 2014

Bókmenntagetraun, tíundi liður

Það er farið að síga á seinni hlutann í bókmenntagetrauninni og komið að tíunda lið af fjórtán. Rétt svar við níunda lið var Frankenstein: eða hinn nýi Prómóþeus eftir Mary Shelley, í þýðingu Böðvars Guðmundssonar.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Það þótti ekki fráleitt að koma dálitlu hjartarsalti saman við í neftóbaksdós eða pontu, ef færi gafst, en fyrir neðan allar hellur að spræna í regnkápuvasa, þar sem maður geymdi munntóbakið sitt. Það var alls ekki vítavert að lauma dálitlu af natroni eða matarsóda í náttpottinn hjá gamalli frænku sinni, en fráleitt að nota karbít, sem gat brennt á henni botninn, þegar sauð upp úr koppnum. Óleyfilegt var að troða strigapoka ofan í stromp á nokkru húsi, en ekki fráleitt, ef svo bar undir, að leggja torfusnepil yfir reykháfinn og banka svo uppá og fá að sitja inni í eldhúsi dálitla stund, til þess að hlýða á athugasemdir húsfreyju um undarlega hegðun eldavélarinnar, sem aldrei áður hafði tekið upp á því að reykja!“

17. janúar 2014

Bókmenntagetraun, níundi liður

Þá er komið að níunda lið bókmenntagetraunarinnar. Verðlaunin eru ekki af verri endanum: sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi sem hefst 30. janúar, en það er í umsjón þriggja penna Druslubóka og doðranta.

Svarið við áttunda lið hefur þegar borist, en textabrotið var úr skáldsögunni Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Meðan ég var að lesa einbeitti ég mér að eigin tilfinningum og ástandi. Mér fannst ég vera líkur og þó jafnframt ólíkur þeim sem ég las um og hlustaði á ræða saman. Ég hafði samúð með þeim og skildi þau að nokkru leyti en hugur minn var ómótaður, ég var ekki háður neinum og ekki í ætt við neinn. Mér var „greiðfært á brautu að leita“ og enginn mundi gráta tortímingu mína. Ég var viðbjóðslegur útlits og risi að vexti. Hvað þýddi það? Hver var ég? Hvaðan kom ég? Hvert lá leið mín? Þessar spurningar leituðu stöðugt á mig en ég var ófær um að svara þeim.“

16. janúar 2014

Bókmenntagetraun, áttundi liður

Þá fer áttundi liður bókmenntagetraunarinnar í loftið. Svarið við sjöunda lið kom fljótt fram, en tilvitnunin var úr Dagbók Önnu Frank.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Hún hrökk upp í Blessuð sértu sveitin mín og leit í kringum sig, hafði sigið niður í sætinu og sparkað skónum undir næsta bekk. Vonandi hafði hún ekki hrotið líka. Vandræðaleg gaut hún augunum til konunnar við hliðina en hún sat og starði svipbrigðalaus og steinþegjandi á textablaðið. Hinum megin við hana svaf eldri herra. Það ýldi í nefinu á honum þegar hann andaði inn, svo púffaði hann á útönduninni. Hún smokraði sér í skóna, reisti sig upp í sætinu og tók hraustlega undir.“

15. janúar 2014

Bókmenntagetraun, sjöundi liður

Og þá er það sjöundi liður bókmenntagetraunarinnar. Rétt svar við sjötta lið kom fram; Blinda eftir José Saramago, í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur.

Að gefnu tilefni tökum við fram að svör þurfa að berast í kommentakerfi bloggsíðunnar en ekki á Facebook-síðu Druslubóka og doðranta.

Þá er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Við höfum öll verið dálítið ringluð þessa síðastliðnu viku vegna þess að yndislegu Westertoren kirkjuklukkurnar okkar hafa verið teknar niður og sendar í málmbræðslu vegna stríðsins, svo að við vitum ekki nákvæmlega hvað tímanum líður, hvort heldur er að nóttu eða degi. Ég el enn með mér vonir um að þeir komi með eitthvað í staðinn, gert úr tini eða kopar eða einhverju slíku, til þess að minna nágrennið á klukkuna.“

13. janúar 2014

Bókmenntagetraun, sjötti liður

Þá er komið að sjötta lið bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Svar við fimmta lið barst fljótt og vel, en textabrotið var úr ljóðabókinni Blysfarir eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Þá er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Stúlkan með sólgleraugun sté fram úr rúminu sínu hinum megin við ganginn og gekk af stað með útrétta handleggina í áttina að grátinum: – Þér eruð í uppnámi, get ég gert eitthvað fyrir yður? spurði hún þar sem hún gekk til hennar og þreifaði með báðum höndum á liggjandi fólkinu. Háttprýðin bauð henni að kippa að sér höndunum tafarlaust og heilinn gaf henni þessa skipun afdráttarlaust, en hendurnar hlýddu ekki, snertingin varð bara mýkri, varla annað en létt stroka með fingurgómunum yfir þykkt og hlýtt teppið. – Get ég gert eitthvað fyrir yður, spurði stúlkan aftur og núna dró hún loksins til sín hendurnar, lyfti þeim uns þær hurfu inn í steindauða hvítu, umkomulausar. Læknisfrúin var enn snöktandi og fór fram úr rúminu, faðmaði stúlkuna að sér: – Þetta er ekki neitt, ég varð allt í einu svo niðurdregin, sagði hún.“

12. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fimmti liður

Þá er komið að fimmta lið bókmenntagetraunarinnar. Rétt svar við fjórða lið var Gvendur bóndi á Svínafelli eftir J. R. R. Tolkien.

Og við vindum okkur bara beint í fimmta lið.

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„hann ítrekar að drekinn lækni einsemdina, ég
segi: ég er hér
en
drekinn gerir hann heyrnardaufan og málstola
og sjúklegan í sumarbirtunni, ég er með tálkn sem
víbra eins og dauðateygjur, ég sá það fyrir
því pabbi minn segir að allt fallegt sé
spillandi eða

kannski sagði hann það aldrei“


10. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fjórði liður

Þá er komið að fjórða lið af fjórtán í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Eins og áður þurfa svör að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Rétt svar við þriðja lið er auðvitað að textabrotið er úr Hinu stórkostlega leyndarmáli Heimsins og er eftir Steinar Braga. Rétt svar hefur enn ekki borist við öðrum lið en við hvetjum ykkur eindregið til þess að halda áfram að giska.

En er þá komið að fjórða lið getraunarinnar:

 Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Bóndinn spratt á bak merinni. Drekinn tók til fótanna og merin líka, því að hún hafði fælst. Drekinn brokkaði másandi og blásandi yfir akra og engi. Merin fylgdi fast á hæla hans. Bóndinn skammaðist og öskraði eins og hann væri á veðreiðum og sífellt veifaði hann brandinum Sporðbíti. Því hraðar sem drekinn hljóp því ringlaðari varð hann og hræddari og sífellt neyddist hann til að auka hraðann.“


9. janúar 2014

Bókmenntagetraun, þriðji liður

Þá er komið að þriðja lið af fjórtán í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Við ítrekum að svör þurfa að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Ekki hefur borist rétt svar við lið tvö frá því í gær, þar sem spurt var um söguna af Gunnþóru sem mjaðmarbraut sig í frekjukasti, svo þið hafið enn tækifæri til að svara þar.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, þriðji liður:

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

"Svipurinn á andliti herra Saunders tók að molna - andlit hans geiflaðist, herptist og var allt í senn: undrandi, sakbitið, reiðilegt og bernskt. Ég sá glitta í litla drenginn er leitað hafði móður sinnar þegar upp komu vandræði, en núna var móðir hans, að því gefnu að hún væri ekki farþegi á skipinu, víðs fjarri. Hann stóð snöggt á fætur, gekk yfir að rimlatjöldunum, svipti þeim upp og starði út á Esplanöðuna. Að liðnum nokkrum mínútum af íhugun og mettaðri þögn sneri hann sér við og ávarpaði Stein:
"Þér spilið skítuga en kannski virði ég það við yður. Ég skal segja allt af létta, hafið ekki áhyggjur. Ég játa mig sigraðan. Þér gætuð kannski byrjað á að upplýsa mig hvernig... Var það Irene?"
"Ah," sagði Steinn og brosti. "Núna eruð þér forvitnir. Ég skal upplýsa yður... Ungfrú Betty sagði ekkert. Það sem kom upp um yður var öllu smærra að vöxtum, eða jafn smátt og langanir sumra viðstaddra.""

8. janúar 2014

Bókmenntagetraun, annar liður

Þá er komið að öðrum lið (af fjórtán) í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Í verðlaun er eins og fyrr sagði sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi sem hefst 30. janúar. Við ítrekum að svör þurfa að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Textabrotið frá því í gær var, eins og glöggir lesendur voru fljótir að uppgötva, úr Dýrasögu eftir Ástu Sigurðardóttur.

Nú kemur í ljós hvort þið getið jafn auðveldlega svarað öðrum lið.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, annar liður: 

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Í hvert sinn sem ég henti mér í gólfið sagði pabbi mér sömu söguna. Þetta var sagan af henni Gunnþóru. Gunnþóra reyndi alla ævi að sveigja veröldina að eigin frekju og meinlokum. Hún hafði vanið sig á að kasta sér í gólfið ef hún fekk ekki vilja sínum framgengt. Þegar hún var áttatíu og sjö ára gömul kastaði hún sér í gólfið í síðasta sinn og mjaðmarbrotnaði illa. Vildi ég enda eins og hún Gunnþóra?“


7. janúar 2014

Druslubækur og doðrantar kynna: Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta!

Druslubækur og doðrantar óska lesendum gleðilegs nýs árs. Við vonum að hið liðna hafi verið ykkur ánægjulegt.

Við ætlum að hefja nýtt lestrarár með æsispennandi bókmenntagetraun í mörgum liðum og verðlaunin eru vegleg, nefnilega sæti á bókmenntanámskeiði hjá Endurmenntun. Það eru auðvitað engar aðrar en við sjálfar sem kennum námskeiðið (eða réttara sagt hluti okkar, þær Kristín Svava, Salka og Hildur). Námskeiðið hefst fimmtudaginn 30. janúar og þar verða nokkrar vel valdar jólabækur lesnar og ræddar út frá öllum mögulegum vinklum, fræðilegum jafnt sem ófræðilegum. Námskeiðið heitir Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi og það má lesa meira um það hér.

Þar sem við erum fjórtán sem hér skrifum þá verður getraunin í fjórtán liðum. Hver okkar mun velja textabrot úr einhverri bók og lesendur eiga að giska á bæði verk og höfund þess í athugasemdakerfi síðunnar. Sá eða sú sem oftast giskar á rétt svar vinnur getraunina og þar með sæti á námskeiðinu, sem við lofum að verður skemmtilegt. Athugið því að svör þurfa að vera undir réttu nafni þess sem giskar svo við getum reiknað saman stig.

En vindum okkur bara beint í getraunina.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, fyrsti liður:

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur verksins?

„Nei litla heimska dýrið sleppur ekki. Stóra stóra dýrið eltir það lengi enn - eltir það að gamni sínu. Stóra dýrið er ekkert þreytt og það getur hlaupið miklu miklu harðara ef það vill, en það er bara að skemmta sér við að hræða litla dýrið og gera það dauðþreytt. Litla dýrið hleypur miklu harðara en það getur af því að það er svo hrætt - svo ógurlega hrætt við stóra dýrið. En það er alveg sama hvað það hleypur, það á sér engrar undankomu von. Stóra dýrið nær í það með stóru sterku klónum þegar það vill.“