9. janúar 2014

Bókmenntagetraun, þriðji liður

Þá er komið að þriðja lið af fjórtán í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Við ítrekum að svör þurfa að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Ekki hefur borist rétt svar við lið tvö frá því í gær, þar sem spurt var um söguna af Gunnþóru sem mjaðmarbraut sig í frekjukasti, svo þið hafið enn tækifæri til að svara þar.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, þriðji liður:

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

"Svipurinn á andliti herra Saunders tók að molna - andlit hans geiflaðist, herptist og var allt í senn: undrandi, sakbitið, reiðilegt og bernskt. Ég sá glitta í litla drenginn er leitað hafði móður sinnar þegar upp komu vandræði, en núna var móðir hans, að því gefnu að hún væri ekki farþegi á skipinu, víðs fjarri. Hann stóð snöggt á fætur, gekk yfir að rimlatjöldunum, svipti þeim upp og starði út á Esplanöðuna. Að liðnum nokkrum mínútum af íhugun og mettaðri þögn sneri hann sér við og ávarpaði Stein:
"Þér spilið skítuga en kannski virði ég það við yður. Ég skal segja allt af létta, hafið ekki áhyggjur. Ég játa mig sigraðan. Þér gætuð kannski byrjað á að upplýsa mig hvernig... Var það Irene?"
"Ah," sagði Steinn og brosti. "Núna eruð þér forvitnir. Ég skal upplýsa yður... Ungfrú Betty sagði ekkert. Það sem kom upp um yður var öllu smærra að vöxtum, eða jafn smátt og langanir sumra viðstaddra.""

1 ummæli:

Ásta Kristín Benediktsdóttir sagði...

Þetta hlýtur að vera úr skáldsögu Steinars Braga, Hinu stórkostlega leyndarmáli Heimsins.