23. febrúar 2009

Konur sem hata karla

Þúsaldarþríleikur Stiegs Larssons hefur að sögn sænskra blaða selst í yfir tíu milljónum eintaka. Fyrsta bókin, Karlar sem hata konur, kom út á íslensku fyrir jólin. Á föstudaginn verður bíómynd sem gerð er eftir bókinni frumsýnd í Svíþjóð og auðvitað má búast við nýjum sölukipp í kjölfarið. Þýðingarréttur bókanna hefur verið seldur til um þrjátíu landa og bækurnar um Lisbeth Salander og Mikael Blomkvist hafa undanfarið sturtast úr prentvélum um allan heim.

Menn velta því auðvitað fyrir sér hvað geri einmitt þessar bækur svona vinsælar og ómótstæðilegar, við sem höfum lesið þær vitum að það er næstum ómögulegt að slíta sig frá þeim þegar maður er einu sinni byrjaður. Skýringar lesenda og þeirra sem allt þykjast skilja og vita eru auðvitað fjölbreyttar. Sögurnar finnst mörgum vera í meira lagi lunkin samtímalýsing og persónurnar eru um margt óvenjulegar og heillandi. Í bókunum er hefðbundnu kynjahlutverkunum til dæmis snúið á rönguna; Lisbeth Salander, aðalkvenhetjan, er húðflúraður tölvunörd og slagsmálahundur en karlhetjan, Mikael Blomkvist, er hins vegar tilfinningaríkur og mjúkur náungi. Svo eru bækurnar vel skrifaðar og úthugsaðar, nú og loks má nefna að einkamál og erfðamál höfundarins heitins hafa líka farið hátt og mikið verið um þau skrifað, en óþarfi er að segja frá því hérna.

Áður en hinn stórmerkilegi blaðamaður og baráttumaður Stieg Larsson lést úr hjartaáfalli árið 2004 hafði hann skrifað þrjár og hálfa bók í röð sem hann hafði hugsað sér tíu bóka seríu en ekkert var enn komið út. Við hann var tekið eitt einasta viðtal um bækurnar og þar sagði hann að hann hefði haft stórvinkonu okkar allra, Línu langsokk, sem fyrirmynd Lisbeth Salander. Hann hugsaði sér Línu orðna tuttugu og fimm ára, félagslega óhæfa og uppá kant við allt og alla en auðvitað algjöra ofurkonu. Ég persónulega sé samt Lisbeth meira fyrir mér sem fullorðna hliðstæðu Míu litlu í Múmínálfabókunum; hún er pínulítil og þvengmjó, oft öskureið, öllum óháð, reddar sér í öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum og vílar ekki fyrir sér að kála andstæðingum sínum. En varðandi persónur Astridar Lindgren þá hljóta margir að hafa tekið eftir að Mikael Blomkvist er nafni persónu úr safni þeirrar góðu konu, þar er auðvitað átt við ráðagóða og vandaða leynilögreglumanninn Kalla Blómkvist, tvær bækur um hann komu út á íslensku á sjötta áratug síðustu aldar í þýðingu Skeggja Ásbjarnarsonar.

Nú er bara að vona að bíómyndinni um Salander og Blomkvist skoli hingað upp á sker hörmunganna sem allra fyrst.

Femínistinn Nina Björk skrifaði í fyrra grein í Dagens Nyheter um Lisbeth Salander. Hér er tengill á greinina. Ef einhverjir eru ofurspenntir yfir efninu en skilja ekki sænsku þá gæti ég alveg þýtt hana eða skrifað útdrátt – en það geri ég aðeins vegna fjölda áskoranna.

19. febrúar 2009

Barnabækur fyrir fullorðna?

Undanfarin ár hefur komið út töluvert af bókum sem virðast höfða jafnt til fullorðinna sem barna. Harry Potter-bækurnar eru að sjálfsögðu meðal þessara verka, en nefna má margar fleiri, t.d. Furðulegt háttarlag hunds um nótt eftir Mark Haddon og bækur Philip Pullman og Terry Pratchett. Í bókakaffi IBBY á Íslandi, sem haldið verður kl. 20 fimmtudaginn 26. febrúar á Laugavegi 18, halda þrír snjallir bókmenntafræðingar erindi og yfirskrift kvöldsins er: Barnabækur fyrir fullorðna eða fullorðinsbækur fyrir börn? Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta.

After You´d Gone á sunnudegi


Eftir endalausa harðsoðna reyfara allan febrúarmánuð vaknaði ég síðastliðinn sunnudag og fann ólga í mér knýjandi þörf fyrir epíska dramatík. Eftir mikið tvístig fyrir framan bókahillurnar greip ég After You´d Gone (frá 2000) eftir Maggie O´Farrell en bók hennar The Vanishing Act of Esme Lennox kom út á mér tárum fyrir nokkrum árum. Svo hitaði ég te, náði í kúlusúkk og hringaði mig í sófann. Mörgum klukkutímum síðar staulaðist ég fram í eldhús, kastaði einhverju í pott og æddi svo með það aftur í sófann þar sem lestri lauk fyrir náttmál. Skemmst er frá því að segja að O´Farrell olli engum vonbrigðum og After You´d Gone er bara frábær lesning.

Í upphafi bókar kynnumst við Alice, tæplega þrítugum Lundúnarbúa. Lesandinn fær fljótt á tilfinninguna að eitthvað sé mikið að í lífi hennar en áður en hægt er að ákvarða hvað það er hefst hröð atburðarás – Alice stekkur upp í lest til Edinborgar, þar taka systur hennar á móti henni – en á lestarstöðinni sér hún eitthvað hræðilegt, snýr við og tekur lestina beint aftur til London. Stuttu síðar verður hún fyrir bíl og fellur í dá. Fjölskyldan safnast við sjúkrabeð hennar og meðan beðið er eftir að hún komist til meðvitundar fær lesandinn smám saman að vita hver Alice er og hvaða atburðir leiddu til núverandi aðstæðna. Þetta er ástarsaga en líka spennusaga – og lesandinn er ekki í rónni fyrr en öllum spurningunum hefur verið svarað. Sögunni vindur fram og til baka í tíma og rúmi og sjónarhornið flyst milli persóna. Þótt Alice sé þungamiðja sögunnar er heilmiklum tíma varið í að segja sögu ömmu hennar og mömmu líka – það er þó alls ekki truflandi eða langdregið – á einhvern hátt miðar allt að sama marki – undir niðri kraumar söguþráður sem smám saman brýst fram í skelfingu og fegurð.

Eins og titillinn kannski vísar til fjallar After you´d gone um missi. Í áhugaverðri grein í The Guardian segir höfundurinn frá því að hún hafi lagt upp með að skrifa sögu um ást og missi. Þegar hún svo ætlaði að fara að skrifa um ást Alice hafi hún allt í einu áttað sig á því að hún gæti ekki gert henni skil fyrr en hún væri búin að segja frá mömmu hennar og ömmu. Hversu sjálfstæð og óháð sem við höldum að við séum þá erum við óhjákvæmilega hluti af stærra megni, sögur okkar samtvinnaðar og tilfinningar bergmála gegnum kynslóðirnar. Þannig liggur saga Alice einnig í sögum formæðra hennar og fyrst birtist hún okkur ljóslifandi þegar alls konar púsl sem maður hefði ekki haldið að tilheyrðu myndinni hafa fallið á sinn stað.

Snilld skáldsögunnar liggur þannig í brotakenndum smáatriðunum – í lýsingum á hversdagslegum athöfnum og gjörðum sem þrátt fyrir að vera þriðju persónu frásagnir eru engu að síður svo persónulegar og afhjúpandi að það er eins og maður sjái inn í sálir fólks. Þetta er ekki fullkomin bók (enda frumraun höfundar) og stökkum milli vitunda (sem annars eru mjög vel gerð) er einstaka sinnum ofaukið – eins og þegar lesandinn er skyndilega settur inn í erfiðan skilnað læknisins sem sér um Alice. Þetta eru þó bara smáhnökrar. Sagan er harmræn en ekki niðurdrepandi og þótt lausnir sumra leyndarmála séu fyrirsjáanlegari en annarra er bókin - eins og sjá má á sunnudeginum mínum – gríðarlega spennandi og eftirminnileg lesning.

17. febrúar 2009

Malavísk ljóð

Líklegt verður að telja að fæstir íslendingar, ja eða bara vesturlandabúar almennt, séu vel upplýstir um Malavíska ljóðlist – eða Malavískar bókmenntir – eða bara almennt um Malaví, hið hlýja hjarta Afríku. Þetta er skiljanlegt ... og þó kannski ekki þegar Íslendingar eru annars vegar. Malaví hefur frá árinu 1989 verið aðalsamstarfsland okkar Íslendinga í þróunarsamvinnu og þeir því þónokkrir Íslendingarnir sem þar hafa starfað um lengri og skemmri tíma með öllum þeim samlegðaráhrifum sem slíkt hefur. Ekki það að þróunargeirinn hefur svosem ekki mikið verið að velta sér uppúr bókmenntum og listum – og kannski eru það bara óforbetranlegir bókabéusar á borð við undirritaða sem dettur í hug að kynna sér dútl á borð við ljóðagerð Malava.

Þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður sem ríkja í Malaví er ótrúlegt hversu þrautsegir rithöfundar þar hafa verið að stunda sína iðju og koma verkum sínum á framfæri við umheiminn – bæði innan Malaví og utan. Ljóðskáld á borð við Steve Chimombo, Jack Mapanje og Frank Chipasula hafa gefið út verk sín hjá alþjóðlegum forlögum svo sem Heinemann, auk minni forlaga í Bretlandi og Bandaríkjunum. Útgáfa á ljóðum er einnig nokkur innan Malaví, þrátt fyrir krónískan skort á öllum aðföngum og fjármagni, og ber þar helst að nefna útgáfu á vegum rithöfundasambands landsins (sem styrkt hefur verið af sænsku og norsku þróunarsamvinnufé), háskólans auk trúfélaga. Malavísk dagblöð birta einnig heilmikið af ljóðum, á ensku og chichewa sem bæði eru opinber tungumál í landinu.

Sprenging varð í útgáfu allrahanda ritaðs máls, þar með talið ljóða, við fall einræðisstjórnar Kamuzu Banda árið 1994. Á tímum Banda var ritskoðun stunduð grimmt í Malaví og ekkert efni gefið út eða selt nema “ritskoðunarráðið” (e. Censhorship Board) hefði lagt blessun sína yfir það. Rithöfundar voru miskunnarlaust fangelsaðir, reknir úr landi eða eitthvað þaðanaf verra væru þeir staðnir að verki við að láta frá sér efni sem ekki féll í kramið hjá yfirvöldum. Sem dæmi má nefna að skáldið Jack Mapanje var fangelsaður árið 1987 án þess að hafa áður verið ákærður eða dæmdur, og ekki látinn laus úr Mikuyu fangelsinu fyrr en 1991. Á tímum Banda var allur skáldskapur bannaður sem var á einhvern hátt gagnrýninn á yfirvöld eða aðstæður í landinu og ekki mátti fjalla um neitt sem talist gæti pólitískt. Því er etv ekki að undra að pólitík hafi verið kærkomið yrkisefni þeim sem spruttu fram á ritvöllinn í kjölfar nýrrar stjórnarskipunar og fjölmiðlafrelsis. Þessi ljóð og textar lofsungu frelsið, lýðræðið og fjölflokkakerfið og í þeim voru settar fram kröfur um pólitískar breytingar, gagnsæi, sjálfsskoðun.

Frelsið sem afnám ritskoðunar Bandatímabilsins hafði í för með sér birtist að sjálfsögðu ekki einungis í þessu flæði texta og ljóða frá áður óþekktum skáldum inn á síður dagblaðanna heldur einnig í verkum þekktra og virtra skálda sem nú fengu áður óþekkt tækifæri til að skrifa og birta án þess að leggja sig og sína í hættu. Mjög áhugavert er að skoða í þessu ljósi ljóð t.d. þeirra Steve Chimombo og Jack Mapanje, þar sem yrkisefni þeirra eru ekki einungis pólitískt ástand heldur kannski ekki síður siðvenjur í Malavísku þjóðfélagi, sjúkdómar, fátækt, erlend aðstoð og svo má lengi telja.

Malavísk ljóðagerð er, miðað við aðstæður, hreint ótrúleg. Það sem þar er best gert er algjörlega samanburðarhæft við það besta á alþjóðlegum vettvangi. Því þarf enginn að halda að þar, eða annarsstaðar í hinum svokallaða þriðja heimi, sé ekkert að sækja annað en fátækt, sjúkdóma og vannærð börn. Hér er hvorki staður né stund til að fara dýpra ofaní þau mál en aðalatriðið að mati þessarar druslubókadömu er að fólk/lesendur geri sér grein fyrir að við vesturlandabúar getum sótt ýmislegt til þriðja heimsins – jafnvel frábærar bókmenntir.

9. febrúar 2009

Deaf Sentence - David Lodge

Rithöfundurinn og fræðimaðurinn David Lodge er búinn að vera lengi að. Hann gaf út sína fyrstu skáldsögu árið 1960 og hefur síðan gefið út fjöldamargar bækur tengdar bókmenntafræðum, leikrit, smásögur, 14 skáldsögur í viðbót auk þess að hafa skrifað handrit fyrir sjónvarpsþætti. Nýjasta bókin hans, Deaf Sentence, kom út í fyrra og er nú loksins komin út í kilju. Hana má flokka með öðrum akademískum skáldsögum eftir David Lodge, að því leyti að aðalsöguhetjan vinnur í háskóla, en undirtónn sögunnar er mun alvarlegri en fyrr.

Orðaleikurinn í titli bókarinnar er auðskilinn en kannski illþýðanlegur. Deaf Sentence segir sögu (í fyrstu og þriðju persónu til skiptis, eins og tæknilegum bókmenntafræðingi sæmir) hins heyrnardaufa bókmenntaprófessors Desmond Bates. Sá er virtur fræðimaður á sínu sviði en fór fyrr á eftirlaun frá háskólanum vegna þess að honum fannst hann ekki lengur ráða við kennsluna sökum heyrnarskerðingar. Við starfslok verður honum furðu lítið úr sjálfstæðri fræðimennsku og einangrast mjög. Lodge spilar á þá hugmynd að heyrnarleysi jafngildi félagslegum dauðadóm og skrifar af mikilli einlægni um efnið. Þegar forvitinn lesandi fer að gúgla kemur auðvitað í ljós að Lodge er sjálfur mjög heyrnarskertur. Hér skrifar hann sjálfur um heyrnarskerðingu sína: http://entertainment.timesonline.co.uk/tol/arts_and_entertainment/books/article3778988.ece

En þó umfjöllunarefnið sé auðvitað grafalvarlegt er Lodge launfyndinn sem fyrr. Grátlega fyndin samskipti Desmonds við aldraðan föður sinn eru einir bestu kaflar bókarinnar og eins eru nokkur óbærilega vandræðaleg atvik þar sem lesandinn „heyrir” en aðalsöguhetjan ekki. Þetta er hvorki Small WorldTherapy, en ágætis David Lodge bók engu að síður.

8. febrúar 2009

Svartir sauðir í bókaskápnum



Ég á erfitt með að henda bókum og geri það eiginlega ekki (helst að maður gefi eitthvað sem maður getur ekki hugsað sér að eyða hilluplássi í). En það sem verra er – ég á erfitt með að kaupa ekki hræódýrar undarlegar bækur og jafn erfitt með að hafna þeim sem bjóðast ókeypis – jafnvel þótt ég hafi í raun ekkert við þær að gera.

Eins og hjá flestu öðru bókafólki er plássleysi endalaus höfuðverkur og um daginn ætlaði ég loks að taka mig saman í andlitinu og gefa eitthvað af þessum bókum í Góða hirðinn. En á elleftu stundu hætti ég við...það er eitthvað óvænt og skemmtilegt að reka augun í suma titla. Þegar maður hefur (eins og ég) frekar fyrirsjáanlegan skáldsögusmekk og á svo annað eins af leikhús/kvikmynda/bókmennta fræðibókum þá er hreinlega dálítið hressandi að hafa einhverja svarta sauði þarna inni á milli – ef Reykjavík, eins og Pompei forðum daga, hyrfi í heilu lagi undir öskuflóði og löngu síðar myndu fornleifafræðingar og aðrir sérfræðingar sitja á stofugólfinu hjá mér og dusta rykið af bókunum gleðst ég yfir þeirri hugmynd að þeir ættu erfiðara með að flokka löngu látna íbúa Grettisgötunnar út frá bókasmekk...allt svörtu sauðunum að þakka!

Þessum bókum til heiðurs skrifa ég því þennan pistil og læt fylgja með nokkur sýnishorn. Ég vil taka það fram að bækurnar eru ekkert endilega fáránlegar í sjálfu sér heldur aðeins í hillu hjá mér.

1) Teaching Someone To Drive – How to prepare a learner driver safely and successfully for the driving test eftir Angela Oatridge.
Aftan á kápu stendur: Accompanying a learner driver safely is often a frightening experience for both pupil and instructor...this book is aimed at anyone who is going to sit beside a learner driver...
Hér má taka fram að sjálf er ég ekki með bílpróf og því ólíklegt að ég fari að stunda ökukennslu.

2) Immortality – Funerary Rites and Customs e. C.E. Vulliamy.
Aftan á kápu: A belief in life after death is one that almost every culture the world over has entertained. Immortality, first published in 1926, is an important comparative study of the many and varied cultural forms of this belief.
Mér finnst þetta reyndar mjög áhugaverð bók en hef þó aldrei lesið hana...Greip nú niður í upphaf kaflans The Heathen Immortal: Whether the heathen who bows down to wood and stone can be justly accused of blindness, or not, he certainly bows with profound conviction...

3) The Hot Sauce Collectors Guide e. Jennifer Trainer Thompson.
Þetta er ekki bók um sterkar sósur og gæði þeirra eða jafnvel uppskriftir heldur listi yfir sósur og upplýsingar um framleiðendur.
Á kápu: information about more than 550 hot sauce makers worldwide, including adress, phone, fax, e-mail and contact names.
Blaðaði gegnum þessa sem var frekar daufleg lesning þótt sum sósunöfnin hafi verið áhugaverð: „Ultimate Burn“, „Bad Girls in Heat“ og „Screamin Demon“.

4) Producing Musicals – A Practical Guide e John Gardyne.
Á kápu: Producing Musicals is a step-by-step guide through the entire process of producing a show for the stage, from the earliest planning to the last performance.
Hér er sum sé nákæm úttekt fyrir framleiðanda big budget söngleiks á West End eða Broadway og sem slík er hún ugglaust mjög gagnleg en hér eru gefin ráð um allt frá bókhaldi til búningaþvotta sem samkvæmt Gardyne verður að þvo eftir hverja sýningu (fögur draumsýn miðað við mína reynslu). Máli sínu til stuðnings sýnir hann svo ljósmynd af eldri konu að setja í vél en bókin er ríkulega myndskreytt.

Læt þetta duga en að lokum vil ég hvetja aðra til að koma út úr bókaskápnum með sína sérkennilegustu titla!


Að gefnu tilefni bæti ég hér við nánari upplýsingum um bækurnar:

1) Teaching someone to Drive er gefin út árið 1997 af How To Books Ltd, Plymbridge House. UK Þetta er séría af How To Books en þar á meðal eru t.d. bækurnar How to Survive a Divorce, Making a Complaint og How to Claim State Benefits!
2) Immortality kom fyrst út árið 1926 og hét þá Immortal Man en var endurútgefin af Random House UK árið 1997.
3) The Hot Sauce Collector´s Guide er (ótrúlegt en satt) gefin út 1997 af Ten Speed Press California
4) Producing Musicals var gefin út 2004 af The Crowood Press Ltd.

6. febrúar 2009

Bókaspurningalisti á föstudegi

Þessi bókadrusludama er mjög forvitin um lestur og lesvenjur annarra. Því setti hún saman þennan hnýsna spurningalista sem þið mættuð gjarnan svara í kommentakerfinu.

1. Eftir hvaða kerfi raðar þú í bókahillurnar þínar?
Dewey-kerfið eins nákvæmlega og það er hægt án þess að númera bækurnar. Eiginmaðurinn skildi ekki hvað var í gangi þegar ég tók fyrsta kast sambúðar okkar. Ég greip hann í miðjum klíðum við að stinga bók aftur í bókahilluna “bara einhverstaðar”. Á mínu heimili er það ekki til. Kannski dáldið anal en þetta eru mín einu trúarbrögð.

2. Áttu þér bók sem þú vildir gjarnan geta sagst hafa lesið en aldrei haft það af að klára?
Vildi að ég gæti svarað einhverju frumlegra en Ulysses eftir James Joyce en því miður hún er minn Moby Dick. Hef gert nokkrar atrennur að bókinni en hún sleppur alltaf undan. Taldi málið komið í höfn þegar leshringurinn minn tók hana fyrir en hringurinn gafst upp á bókinni áður en við byrjuðum. Hef meira að segja gefist upp á að lesa mikið niðursoðna teiknaða útgáfu af bókinni. Fyrst ég tók ekki Ulysses-námskeiðið hjá Ástráði Eysteins í denn og synti í gegnum bókina með kút og kork undir hans styrku stjórn þá verður líklega aldrei af  þessum lestri.

3. Eftir hvaða höfund áttu flestar bækur?
Ef ég tel arfgóssið með þá fara óneitanlega flestir hillumetrar undir Laxness, en af því sem ég hef pungað út fyrir sjálf hljóta glæpa- og vísindaskáldsagnahöfundar að vera með flestar bækur. Fór og tók út hillurnar, sem er sérlega auðvelt sökum vinar míns Dewey, og niðurstaðan var allt önnur en ég hafði talið. Ekki glæpir eða vísindi heldur japanskur súrrealismi. Hr Murakami var með flestar bækur, ellefu talsins. Gaman að því.

4. Áttu þér uppáhalds- eða draumalesstað?
Ég veit ekki með uppáhaldslesstað en þegar ég var krakki þá dreymdi mig um lestur í breiðum bogagluggakistum (á ensku: bay window, ævintýrabækur Blyton voru fullar af þeim) á bak við gardínur í fullkomnum friði. Hef aldrei komist í það en efrihæðin á Borgarbókasafninu í Þingholtsstræti að sumarlagi var góður staður fyrir lestur.

5. Hvaða bók ertu að lesa?
Það er magnað með tilviljanirnar. Ég er að lesa “Bókin mín” eftir Ingunni Jónsdóttur, sem gefin var út 1926 . Hef átt hana lengi en greip í hana fyrir rælni í gær. Ákvað svo að gúgla Ingunni þegar ég er að skrifa þetta og kemst að því að 30. janúar var á Rás eitt Sagnaslóðarþáttur um bókina og höfundinn Ingunni. Eitthvað í etherinu eða hvað? Hér er þátturinn ef ykkur vantar hressilegan skammt af sveitalýsingum.

4. febrúar 2009

Um dæiliga drós, Ísafold og Grím Thomsen

Undirrituð gerir sér það gjarnan til dundurs að líta í gömul blöð. Eitt sinn þurftu menn að læðast upp á háaloft til að sitja yfir slitrum af fúkkalyktandi prentmáli, en síðan timarit.is varð til er engin þörf á slíku. Nú er á síðkvöldum hægt sitja við arineld í eigin dagstofu og skemmta sér yfir liðnum tíma, sem þó er svo merkilega nálægur. Eitt hinna gömlu blaða sem finna má á tímaritavefnum fyrrnefnda er Ísafold. Margir kannast sjálfsagt við Ísafoldarprentsmiðju og muna kannski líka eftir Birni Jónssyni alþingismanni og ráðherra sem stofnaði tímaritið Ísafold sem kom út 1874-1909, Björn var faðir Sveins Björnssonar fyrsta forseta Íslands (þetta síðasta skrifa ég undir áhrifum frá Agli Helgasyni sem finnst, eins og mér, ekki verra ef ættir fólks eru til umtals í fjölmiðlum án þess að þær komi umfjöllunarefninu rassagat við). Oft er Björn sagður hafa verið eini ritstjóri Ísafoldar en það er ekki alveg rétt því Grímur Thomsen ritstýrði blaðinu 1878-1879. Grímur Thomsen varð dr. phil frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1845 (reyndar hét það fyrst mag.art. en gráðan var af einhverjum ástæðum höluð upp nokkrum árum síðar) og fjallaði doktorsritgerðin um Byron. Samkvæmt Lesbók Morgunblaðsins uppúr miðri síðustu öld var Grímur um margt bókmenntalegur uppalandi Dana, hann opnaði ekki bara augu þeirra fyrir Byron lávarði heldur líka höfundum sem stóðu þeim nær:

Á þeim tíma sem Grímur var ritstjóri Ísafoldar birtist Vikivakinn hér að neðan í blaðinu. Ekki þekki ég höfundinn en maður spyr sig hvort hinum rómantíska Grími hafi virkilega þótt þetta vandaður kveðskapur sem hafandi var eftir (klikkið á myndina til að stækka hana).


3. febrúar 2009

Lesandi vikunnar í gær

Í þættinum Samfélagið í nærmynd í gær var Erna Erlingsdóttir gestur í horninu sem kallast lesandi vikunnar. Til umræðu voru nýjar bókmenntir og eldri, við sögu koma til dæmis bækur eftir Guðrúnu frá Lundi, Guðrúnu Eva Mínervudóttur, Steinar Braga og Eirík Örn Norðdahl.

Hér má hlusta á bókaspjall Ernu og Leifs Haukssonar.

2. febrúar 2009

Bókabókhald Ernu - janúar 2009

Upphaf bókakaupaársins var afar óábyrgt. Bókakaupin voru ekki beinlínis hófleg og að auki var greitt fyrir fyrstu törnina með mikilvægum erlendum gjaldeyri. Fljótlega eftir heimkomuna byrjuðu svo bókaútsölur ...

Annars leyfi ég bara listunum að hafa orðið:

Keyptar bækur
  • Feuchtgebiete - Charlotte Roche
  • Der Dativ ist dem Genitiv sein Tod. Ein Wegweiser durch den Irrgarten der deutschen Sprache - Bastian Sick
  • Gebrauchsanweisung für Schwaben - Anton Hunger
  • Gebrauchsanweisung für Leipzig - Bernd Lutz-Lange
  • Tod im Schönbuch - Veit Müller
  • Tot geschrieben - Michael Wanner
  • Mörderisches Ländle - Gudrun Weitbrecht (ritstj.)
  • dtv-Atlas: Deutsche Sprache - Werner König
  • Der Baader-Meinhof-Komplex - Stefan Aust
  • Das kleine Schwaben-Kochbuch - Rose-Marie Büchele
  • Flygtningen - Olav Hergel
  • Eclipse - Stephenie Meyer
  • New Moon - Stephenie Meyer
  • Rökkurbýsnir - Sjón
  • Algleymi - Hermann Stefánsson
  • Alþýðusöngbókin: söngvar, tækifæriskvæði, sálmar og þýðingar - Böðvar Guðmundsson
  • Gómorra: mafían í Napólí - Roberto Saviano, Árni Óskarsson þýddi
  • Rósaleppaprjón í nýju ljósi - Hélène Magnússon
  • Dreams from my father - Barack Obama
  • Män som hatar kvinnor - Stieg Larsson
  • Flickan som lekte med elden - Stieg Larsson
  • Vonarstræti - Ármann Jakobsson
  • Maíkonungurinn - Allan Ginsberg, Eiríkur Örn Norðdahl þýddi
  • Árstíð í helvíti - Arthur Rimbaud, Sölvi Björn Sigurðsson þýddi
  • Ætigarðurinn: handbók grasnytjungsins - Hildur Hákonardóttir

Lesnar bækur
  • Twilight - Stephenie Meyer
  • Gebrauchsanweisung für Schwaben - Anton Hunger
  • The Audacity of Hope - Barack Obama [byrjað]
  • Affinity - Sarah Waters
  • Flygtningen - Olav Hergel
  • Skaparinn - Guðrún Eva Mínervudóttir
  • Der Baader-Meinhof Komplex - Stefan Aust
  • New Moon - Stephenie Meyer
  • Hvar er systir mín? Eyrún Ýr Tryggvadóttir
  • Gómorra: mafían í Napólí - Roberto Saviano, Árni Óskarsson þýddi [byrjað]
  • Dreams from my father - Barack Obama [byrjað]
  • Mörderisches Ländle - Gudrun Weitbrecht (ritstj.)
  • Eclipse - Stephenie Meyer
  • Konur - Steinar Bragi
  • Petite Anglaise - Catherine Sanderson, Halla Sverrisdóttir þýddi
  • Algleymi - Hermann Stefánsson [byrjað]

Meðal bóka sem gluggað var í:
  • Loftnet klóra himin - Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir
  • Ú á fasismann - Eiríkur Örn Norðdahl
  • Other colours - Orhan Pamuk, Maureen Freely þýddi
  • Ljóðnámusafn - Sigurður Pálsson
  • Species of Spaces and Other Pieces - Georges Perec, John Sturrock þýddi
  • Alþýðusöngbókin - Böðvar Guðmundsson