8. febrúar 2009

Svartir sauðir í bókaskápnum



Ég á erfitt með að henda bókum og geri það eiginlega ekki (helst að maður gefi eitthvað sem maður getur ekki hugsað sér að eyða hilluplássi í). En það sem verra er – ég á erfitt með að kaupa ekki hræódýrar undarlegar bækur og jafn erfitt með að hafna þeim sem bjóðast ókeypis – jafnvel þótt ég hafi í raun ekkert við þær að gera.

Eins og hjá flestu öðru bókafólki er plássleysi endalaus höfuðverkur og um daginn ætlaði ég loks að taka mig saman í andlitinu og gefa eitthvað af þessum bókum í Góða hirðinn. En á elleftu stundu hætti ég við...það er eitthvað óvænt og skemmtilegt að reka augun í suma titla. Þegar maður hefur (eins og ég) frekar fyrirsjáanlegan skáldsögusmekk og á svo annað eins af leikhús/kvikmynda/bókmennta fræðibókum þá er hreinlega dálítið hressandi að hafa einhverja svarta sauði þarna inni á milli – ef Reykjavík, eins og Pompei forðum daga, hyrfi í heilu lagi undir öskuflóði og löngu síðar myndu fornleifafræðingar og aðrir sérfræðingar sitja á stofugólfinu hjá mér og dusta rykið af bókunum gleðst ég yfir þeirri hugmynd að þeir ættu erfiðara með að flokka löngu látna íbúa Grettisgötunnar út frá bókasmekk...allt svörtu sauðunum að þakka!

Þessum bókum til heiðurs skrifa ég því þennan pistil og læt fylgja með nokkur sýnishorn. Ég vil taka það fram að bækurnar eru ekkert endilega fáránlegar í sjálfu sér heldur aðeins í hillu hjá mér.

1) Teaching Someone To Drive – How to prepare a learner driver safely and successfully for the driving test eftir Angela Oatridge.
Aftan á kápu stendur: Accompanying a learner driver safely is often a frightening experience for both pupil and instructor...this book is aimed at anyone who is going to sit beside a learner driver...
Hér má taka fram að sjálf er ég ekki með bílpróf og því ólíklegt að ég fari að stunda ökukennslu.

2) Immortality – Funerary Rites and Customs e. C.E. Vulliamy.
Aftan á kápu: A belief in life after death is one that almost every culture the world over has entertained. Immortality, first published in 1926, is an important comparative study of the many and varied cultural forms of this belief.
Mér finnst þetta reyndar mjög áhugaverð bók en hef þó aldrei lesið hana...Greip nú niður í upphaf kaflans The Heathen Immortal: Whether the heathen who bows down to wood and stone can be justly accused of blindness, or not, he certainly bows with profound conviction...

3) The Hot Sauce Collectors Guide e. Jennifer Trainer Thompson.
Þetta er ekki bók um sterkar sósur og gæði þeirra eða jafnvel uppskriftir heldur listi yfir sósur og upplýsingar um framleiðendur.
Á kápu: information about more than 550 hot sauce makers worldwide, including adress, phone, fax, e-mail and contact names.
Blaðaði gegnum þessa sem var frekar daufleg lesning þótt sum sósunöfnin hafi verið áhugaverð: „Ultimate Burn“, „Bad Girls in Heat“ og „Screamin Demon“.

4) Producing Musicals – A Practical Guide e John Gardyne.
Á kápu: Producing Musicals is a step-by-step guide through the entire process of producing a show for the stage, from the earliest planning to the last performance.
Hér er sum sé nákæm úttekt fyrir framleiðanda big budget söngleiks á West End eða Broadway og sem slík er hún ugglaust mjög gagnleg en hér eru gefin ráð um allt frá bókhaldi til búningaþvotta sem samkvæmt Gardyne verður að þvo eftir hverja sýningu (fögur draumsýn miðað við mína reynslu). Máli sínu til stuðnings sýnir hann svo ljósmynd af eldri konu að setja í vél en bókin er ríkulega myndskreytt.

Læt þetta duga en að lokum vil ég hvetja aðra til að koma út úr bókaskápnum með sína sérkennilegustu titla!


Að gefnu tilefni bæti ég hér við nánari upplýsingum um bækurnar:

1) Teaching someone to Drive er gefin út árið 1997 af How To Books Ltd, Plymbridge House. UK Þetta er séría af How To Books en þar á meðal eru t.d. bækurnar How to Survive a Divorce, Making a Complaint og How to Claim State Benefits!
2) Immortality kom fyrst út árið 1926 og hét þá Immortal Man en var endurútgefin af Random House UK árið 1997.
3) The Hot Sauce Collector´s Guide er (ótrúlegt en satt) gefin út 1997 af Ten Speed Press California
4) Producing Musicals var gefin út 2004 af The Crowood Press Ltd.

6 ummæli:

Æsa sagði...

Þetta eru kostulegir titlar, en mér finnst forvitnilegt að vita hvenær þessar bækur komu út. Geturu bætt því inní færsluna?

Maríanna Clara sagði...

Að sjálfsögðu - og biðst afsökunar á því að hafa ekki látið þessar upplýsingar fylgja með frá upphafi!

Nafnlaus sagði...

Mig langar að þú segir líka frá því hvernig þessar bækur rötuðu í hilluna þína....
Maja

Maríanna Clara sagði...

uhu...það er nú það - keypti held ég sósubókin sérlega ódýrt haldandi að hún væri uppskriftarbók...Producing Musicals var afmælisgjöf (ehe bið gefandann hér með afsökunar)...Ökukennslubókinni átti að henda svo ég hirti hana og svo man ég bara ekki hvernig útfararsiðabókin endaði í minni eigu...spúkí?

Erna Erlingsdóttir sagði...

Ég er líka veik fyrir svona stórfurðulegum bókum en haldið merkilega aftur af mér síðustu árin, auk þess sem eitthvað af svona bókum varð fyrir barðinu á kaldranalegri tiltekt í fyrra eða hitteðfyrra.

Ýmislegt leynist þó í bókahillunum. Með því skemmtilegra er Bókin um John Travolta sem Setberg gaf út 1978. Hana keypti ég á bókamarkaði fyrir nokkrum árum. Þar eru margháttaðar upplýsingar um manninn og fjöldi mynda, auk þess sem bókinni fylgir "stórt litprentað plakat".

Best er þó danskennslan undir bókarlok! Með myndum! "32 spor gera ykkur kleift að dansa eins og John Travolta!"

Þetta er sérstaklega skemmtilegt þar sem ég hef aldrei haft nokkurn einasta áhuga á John Travolta.

Nafnlaus sagði...

hahaha - mér finnst Danskennslan með Travolta hljóma mjög vel (og stórkostlegt að það þurfi bara 32 spor til að dansa eins og hann!)
Ef fleiri skemmtilegir titlar skjóta upp kolli væri hægt að halda sýniskvöld sérkennilegra bókmennta!
Maríanna Clara

[22. feb. 2009]