6. febrúar 2019

Þreyjum þorrann með pottaplöntum!


Það eru ekki mörg sumur (garðáhugafólk telur auðvitað árin í sumrum) síðan ég varð forfallin plöntuáhugakona. Raunverulegur áhugi kviknaði sennilega með fyrstu fjölæru plöntunni sem var gróðursett í garðinum – ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað hún gladdi mikið þegar hún stakk upp kollinum næsta vor! Fram að því hafði ég verið sú kona sem drap jafnvel kaktusa úr þurrki (eða öðru mótlæti) og skyldi engan veginn af hverju fólk gaf blóm þegar það gat gefið súkkulaði, vín eða bækur! En nú er ég sem sagt komin með græna fingur og tókst meira að segja að gleðjast (svolítið) yfir vætunni síðasta sumar því hún var svo góð fyrir gróðurinn (alla vega fram í júlí – svo fóru sumarblómin að mygla).

En hvað gerir plöntuáhugafólk yfir háveturinn þegar allt grænt er hvítt í snjónum? Jú það leggur allar gluggakistur, hillur og laus borð undir pottaplöntur. Hýasintur, Riddararósir, Aloa vera, einhver skrítin planta úr IKEA sem ekki var nafngreind á kvittun og fleiri hafa glatt augað og lyft geðinu yfir síðustu mánuði.