11. desember 2014

Enn af Divergent-þríleik Veronicu Roth

Fyrir rúmu ári síðan bloggaði ég um „young adult“-skáldsöguna Afbrigði eftir Veronicu Roth, fyrstu bók Divergent-þríleiksins svonefnda, en hún var þá nýkomin út á íslensku hjá Bókabeitunni. Önnur bókin, Andóf, kom út á vordögum 2014 og Arfleifð, sú þriðja og síðasta, með haustinu. Magnea J. Matthíasdóttir hefur þýtt bækurnar og farist vel úr hendi.

Sögusviðið er dystópísk framtíðarsýn af Chicagoborg, sem hefur verið girt af frá umheiminum og skipt upp í 5 fylki. Þegnar hvers fylkis hafa sameinast um að grundvalla lífssýn sína á tilteknu sameiginlegu gildi: í einu er það hugprýði, í öðru samlyndi, í hinum þremur fjölvísi, ósérplægni og bersögli. Við sextán ára aldur ganga borgararnir gegnum e.k. manndómsvígslu sem sker úr um hvaða fylki hver og einn eigi raunverulega heima í. Það liggur í augum uppi að auk þess að sameina þegna hvers og eins fylkis um sameiginlegt gildismat verður skiptingin einnig til þess að skapa fjarlægð milli mismunandi fylkja - og ala á þeirri hugmynd að fólk sé virkilega svona einvítt þegar kemur að persónueinkennum (sem bækurnar gera reyndar alls ekki þegar upp er staðið).

Söguþráður þríleiksins er afar þéttur; bækur 2 og 3 taka strax upp þráðinn þar sem næstu bók á undan sleppti. Spennan helst allt til enda og þótt atburðarásin sé hröð kemur hún ekki í veg fyrir að persónur nái að þróast meðan á henni stendur, enda mæta þeim erfiðar ákvarðanir og samviskuspurningar í hrönnum. Þriðja bókin fannst mér mest spennandi að því leyti að þar verður loksins ljóst – persónum bókarinnar jafnt sem lesendum – hver sagan er bak við skiptinguna í fylkin fimm.
Aðalpersónurnar Tris og Fjarki eru vitundarmiðjur þessarar sögu til skiptis, en í fyrri bókunum var aðeins Tris í því hlutverki. Mér þótti það ljóður á þessari þriðju bók hvað ástarsamband þeirra tveggja var orðið fyrirferðarmikið, á þann hátt að þau voru meira og minna alltaf ýmist ósátt eða að sættast eða á leiðinni að öðru hvoru. Það var hreinlega orðið fyrirsjáanlegt (og leiðinlegt eftir því) hvaða atvik yrðu þeim kveikja að afbrýðisemi eða einhvers konar missætti. Heildarbragur sögunnar hefði grætt á því að slík atvik hefðu verið færri og fyrirferðarminni og það hefði alveg mátt koma dýnamíkinni milli Tris og Fjarka til skila á aðeins lágstemmdari hátt.

Að öðru leyti varð ég ekki fyrir vonbrigðum með þessar seinni bækur þríleiksins og mæli með þeim fyrir unnendur fantasía á öllum aldri.

13. nóvember 2014

Íslenski bókamarkaðurinn - ábati og umfang


Under the ideal measure of values there lurks the hard cash.
KARL MARX, Das Kapital


Það er alltaf skemmtilegt að finna áhugaverða og vel unna umfjöllun um bækur og menningarmál. Um daginn var mér bent á mjög  vandaða greiningu á umfangi og virði íslensks bókamarkaðar, en þar er um að ræða meistararitgerð Daggar Hjaltalín í almennri viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Það er útbreiddur misskilningur að þeir sem áhuga hafi á listum og menningu séu sveimhugar sem lítinn sem engan áhuga og skilning hafi á hagrænum hliðum lífsins og því að peningar séu hreyfiafl þeirra hluta sem gera þarf. Það er nú kannski full mikill metnaður að ætla sér greiningar á slíkum pælingum hér, en þó alveg þarft að nefna að menning og listir framleiða peninga líkt og aðrir geirar atvinnulífsins og þurfa vissulega innspýtingu fjármuna og aðfanga líkt og öll önnur framleiðsla og rekstur. 

Það að reiknimódelin og hagfræðipælingarnar (og sorrí, ég einhvernveginn efast alltaf um að hagfræði sé alvöru fræði, en það er bara ég) sem til þarf séu ef til vill aðeins flóknari en þau sem þarf til við t.d. framleiðslu á brauði og að ágóðinn sé í mörgum tilfellum lengur að falla til en gerist í „einfaldari“ geirum þýðir heldur ekki að fjárhagslegur ábati af menningu og listum sé lítill. Hinsvegar þarf líka að taka í reikninginn að listframleiðsla er ekki einvörðungu fjárhagslegt, eða hagrænt, fyrirbrigði. En hvað er það svosem, ef grannt er skoðað. Jæja, aftur að ritgerð Daggar Hjaltalín. Fyrir þá sem áhuga hafa á bókaútgáfu og bóksölu á Íslandi þá er þessi ritgerð sannkölluð gullnáma. Farið er yfir landslagið og útgáfa og sala bóka skoðuð útfrá ýmsum sjónarhornum, ótrúlegustu steinum er velt við og maður fær við lesturinn nokkuð góða mynd af bransanum. Sérstaklega fundust mér áhugaverðar töflur með tölulegu efni sem hún hefur unnið, þar sem fram koma bæði markaðshlutdeild bóksala, rekstrarafkoma bóksala og bókaútgefenda, hlutfall birgða af veltu og birgðaverðmæti og svo má lengi telja.

Tölurnar tala sínu máli. Fram kemur að af 24 sérhæfðum bókaverslunum eru verslanir Pennans þrettán talsins. Annar áhugaverður punktur er að matvöruverslanir sem selja bækur eru fleiri en sérhæfðar bókaverslanir (25 á móti 24) og að 16 þessara matvöruverslana eru  verslanir Haga eða Kaupáss.  Verslun með bækur fer þar af leiðandi að stórum hluta fram utan sérhæfðra verslana. Söluprósentur bóka milli þessara ólíku tegunda verslana eru afar árstíðabundnar (sem kannski eru svosem engin ný sannindi) en matvöruverslanirnar eru með um 35% af sölu í mánuðunum fyrir jól en ekki nema um 5% á öðrum tímum ársins.

Talnaefnið verður ekki síður áhugavert þegar kemur að bókaútgefendunum sjálfum.  En í svo gott sem öllum liðum þar trónir Forlagið á toppnum. Ekki bara að það tróni á toppnum heldur eru aðrir svo langt á eftir að það er eiginlega varla hægt að tala um „samkeppni“.  Ef við tölum t.d. um heildartekjur bókaútgefenda árið 2011 (tafla 3) þá voru heildartekjur Forlagsins 1.246.765.268 íslenskar krónur. Það ár var Edda útgáfa með næsthæstu heildartekjurnar uppá 306.200.000. Ef eigið fé bókaútgefenda árið 2011 er skoðað þá er Forlagið enn á toppnum með 1.077.117.323 krónur og næsti á listanum BF-útgáfa með 21.800.633. Eigið fé Eddu útgáfu það árið var hinsvegar neikvætt um rúma 41 milljón króna.

Ég er ekki nægilegur rekstrargúru til að treysta mér í miklar túlkanir á bransanum útfrá þessum tölum, en það er engu að síður áhugavert að velta tölunum og því sem að baki þeim stendur fyrir sér.

Hér er svo hlekkur í texta ritgerðarinnar, en hún er opin inni á Skemmunni, þó afritun hennar sé óheimil án leyfis höfundar.

9. nóvember 2014

Hafnarfjarðarbrandarar ólíkra tíma

Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttur hefst í unglingaherbergi (líklega í Norðurbænum) í Hafnarfirði þann 1. desember árið 1999. Klara er fimmtán ára, móðir hennar kallar herbergið hennar svínastíu og framan af sögunni, sem gerist vikurnar fyrir jól, er fátt sem bendir til annars en að hér sé bara á ferðinni sniðug og fyndin unglingasaga sögð í fyrstu persónu af Klöru sjálfri.

Foreldrar Klöru fara til Kanaríeyja þar sem pabbi hennar ætlar að hvíla sig eftir spítalavist. Klara dvelur hjá áttræðri og mjög hressri ömmu sinni á meðan. Kannski er Klara dæmigerður unglingur að svo miklu leyti sem til eru einhverjir dæmigerðir unglingar. Hún er ör og taugaveikluð, sælgætissjúk, feimin, oft svolítið einmana og dálítið klaufaleg á margan hátt, en hún er líka með húmor fyrir sjálfri sér sem er nú ekki sjálfsagt mál þegar unglingar eru annars vegar. Við sögu koma meðal annarra vinkonur, fyrrverandi kærastinn Grjóni, eineltisfórnarlamb frá Færeyjum, strákurinn sem allar stelpurnar eru skotnar í, vinsælu stelpurnar, tággrönnu fimleikastelpurnar sem eru með strekkt hár og pískra um próf og næringarfræði og auðvitað lúðarnir sem forðast hver annan í stað þess að mynda gengi því að þeir „halda að þrír eða fleiri lúðar í hóp séu lúðalegri en einn eða tveir lúðar á stangli.“ (bls. 37)

Í sögu Klöru eru margir drepfyndnir hlæja-upphátt-kaflar og allskonar skemmtilegar vangaveltur um lífið og tilveruna. Pabbi og mamma Klöru urðu fljótlega uppáhaldspersónur hjá mér. Þau eru roskin og kunna hvorki að leigja DVD-myndir né panta pítsur og þau gefa henni yfirleitt glataðar jólagjafir. Foreldrarnir endurspegla svo sniðuglega hvað heimurinn hefur breyst rosalega mikið síðustu áratugina. Ég ólst sjálf upp í Hafnarfirði ekkert mjög löngu á undan Klöru og er af millibilskynslóð milli hennar og foreldranna, en mér finnst mjög margt í sögu Klöru komið töluvert langt frá mínum unglingsárum í umræddu bæjarfélagi.

3. nóvember 2014

Einar Ben og litlu málleysingjarnir

Einar Ben átti hundrað og fimmtíu ára afmæli á föstudaginn. Ég vaknaði til að fara í vinnuna og kveikti á útvarpinu, alltaf gott að fara á fætur með Gufunni, malandinn í morgunútvarpsfólkinu hefur yfirleitt róandi áhrif ef maður passar að stilla hann nógu lágt til að greina ekki orðaskil. Ég klikkaði hins vegar á því í þetta skiptið og heyrði brot úr viðtali við skipuleggjendur stórafmælishátíðar Einars, sem gerði það að verkum að ég var hársbreidd frá því að grýta kaffibollanum í útvarpið. (Eftir að hafa lesið umræður um afmæli Einars á netinu veit ég að aðdáendur hans myndu segja að þetta væri til marks um að kallinn væri enn fær um að vekja sterk viðbrögð, sem er ekki rétt, Arthúr Björgvin Bollason á allan heiður af þessu bræðiskasti mínu.) Viðtalið snerist ekki einungis um afmælið í ár, heldur hugmyndir um að gera afmælisdag Einars formlega að Degi ljóðsins og halda upp á hann með ljóðasamkeppnum fyrir unglinga; einnig að stofna Hús ljóðsins, helgað Einari og skáldskap hans.

Ég hef aldrei lagt mig sérstaklega eftir ljóðlist Einars Benediktssonar og fundist hann frekar uppskrúfaður og leiðinlegur þar sem ég hef rekist á hann. Það er auðvitað bara smekksatriði, og ekki Einari að kenna að það sé svona eilíflega hamrað á þessum sjálfshjálparlegu línum úr Einræðum Starkaðar um brosið og aðgátina. Kannski er hann fínn þegar maður þekkir hann. Ég efast heldur ekki um að skipuleggjendur afmælisins séu raunverulega hrifnir af skáldskap Einars og vilji veg hans sem mestan (ég leyfi mér meiri tortryggni gagnvart menntamálaráðherra, sem lagði ríka áherslu á athafnasemi Einars og stuðning hans við „öld orkuiðnaðar, viðskiptafrelsis og samkeppni“ í grein um skáldið í Morgunblaðinu síðasta föstudag, en af einhverjum dularfullum ástæðum hefur Mogginn fjallað blaða mest um afmælishátíðina).

Það sem vakti hins vegar með mér slíka reiði í viðtalinu á föstudaginn var sú afstaða sem Arthúr Björgvin Bollason lýsti þar til skólakrakka og hins æskilega hlutverks ljóðlistarinnar í lífi þeirra og þjóðfélagsins:

8. ágúst 2014

Skaðlegri börnum en blásýra. Spjallblogg um The Well of Loneliness

Þessa hinsegin daga halda Guðrún Elsa og Kristín Svava áfram spjalli sínu um hinsegin bókmenntir, að þessu sinni yfir einum ísköldum Rusty Chain. Umfjöllunarefni dagsins er skáldsagan The Well of Loneliness eftir Radclyffe Hall, sem kom út árið 1928. 

Það er forvitnilegt að skoða ólíkar
kápumyndir bókarinnar.
KST: The Well of Loneliness kom mér mjög á óvart; hún var allt öðruvísi en ég hafði búist við. Ég vissi ekkert um bókina áður en ég byrjaði að lesa hana nema að hún væri klassísk lesbísk skáldsaga og ég hef sennilega verið að búast við einhverju dálítið framúrstefnulegu og róttæku, ekki bara í pólitískum skilningi.

GEB: Það brjálaða við þetta ágæta verk er náttúrulega það hversu íhaldssamt það er á sama tíma og það fjallar um eldfimt efni. Stíllinn er hámelódramatískur og hugmyndafræðilega er Radclyffe Hall ekki róttækasta skeiðin í skúffunni – fyrir utan viðfangsefnið sjálft hefði bókin í rauninni getað verið skrifuð löngu fyrr. Kristín, vilt þú varpa ljósi á viðfangsefni bókarinnar?

KST: Gjarnan, gjarnan. The Well of Loneliness fjallar um efri stéttar konu að nafni Stephen Gordon. Hún er einkabarn foreldra sinna - þau bjuggust allan tímann við strák og voru búin að ákveða að skíra hann í höfuðið á heilögum Stefáni - og elst upp á mjög svo ensku sveitasetri fjölskyldunnar á öndverðri 20. öld. Nafnið er ekki það eina sem greinir Stephen frá öðrum konum; frá því í frumbernsku, og jafnvel alveg frá því í móðurkviði, virðist hún fremur tilheyra heimi karla en kvenna. Frá sjónarhorni móður hennar, sem kann ekki alls kostar við dóttur sína, er henni lýst sem einhvers konar afbakaðri eða ófullkominni útgáfu af föður sínum.

Faðir Stephen, Sir Phillip, sem er vægast sagt upphafin persóna, gefur henni hins vegar rými til þess að vera eins og hún vill, svo hún ríður klofvega á hestum út um allar koppagrundir og klæðir sig upp sem Nelson flotaforingi til að ganga í augun á vinnukonunni. Þrátt fyrir verndarhönd föður hennar tekur Stephen það ekki út með sældinni að vera öðruvísi en hún á að vera. Eftir að hún fullorðnast og faðir hennar deyr neyðist hún til að yfirgefa hið ástsæla sveitasetur Morton. Þótt hún öðlist ákveðna velgengni í starfi, fyrst sem sjúkrabílstjóri í fyrri heimsstyrjöldinni og síðar sem skáldsagnahöfundur (á kápu bókarinnar stendur að hún sé „the thinly veiled autobiography of Radclyffe Hall“, hvort sem það nú er rétt eða ekki) setur mikil togstreita mark sitt á allt líf hennar, ástarsambönd og önnur sambönd á fullorðinsárunum.

30. júlí 2014

Niður með þjóðríkið! Upp með bíóið! Spjallblogg um Mánastein Sjóns.

Einn sólríkan laugardag settust Guðrún Elsa og Kristín Svava niður ásamt öldruðum ketti í stofu einni í San Francisco og ræddu skáldsöguna Mánastein eftir Sjón. Bókin fjallar um piltinn Mána Stein sem á heima í Reykjavík á 2. áratug 20. aldar.

Hér er það sem þeim stallsystrum fór á milli.

KST: Afskaplega þykir mér viðeigandi að hefja þetta spjallblogg um Mánastein sama dag og við fórum í Castro-leikhúsið í San Francisco og sáum tvær útgáfur af Galdrakarlinum í Oz, þar af eina dragsviðsetningu (The Wizard of Odd). Mánasteinn er jú frekar hinsegin bók. Hvað segir þú um það, Guðrún Elsa?

GEB: Jú, svo sannarlega. Alveg logandi hinsegin frá fyrstu blaðsíðu. Ég gæti líka ímyndað mér að aðalpersóna bókarinnar hefði sómt sér vel í bíósal Castro-leikhússins, enda fjallar bókin ekki aðeins um kynlíf karlmanna á hinum ólíklegustu stöðum í Reykjavík á öðrum áratug síðustu aldar, heldur líka um bíómenningu borgarinnar. Stundum renna þessir heimar líka saman í einhverjum skilningi, bíóið fylgir Mána Steini út úr salnum og kvikmyndaáhorfið er hin stórkostlegasta nautn.

KST: Og ég elska hvernig Sjón sviðsetur Mánastein, sem gerist að stærstum hluta árið 1918. Þetta er svo dramatískt ár í sögunni og allir stóru atburðirnir fá sinn sess í bókinni – spænska veikin, Kötlugosið, fullveldið – en alltaf er unnið með þessa sögulegu atburði og bakgrunn á skapandi hátt – spænska veikin rennur saman við einhvers konar súrrealíska fantasíu. Ekki eins og í sögulegum skáldsögum þar sem maður hefur á tilfinningunni að rithöfundurinn sé að elta sögubækurnar, án þess að vita sjálfur hvert hann vill fara. Hér eru hlutir eins og bíó og mótorhjól settir í forgrunn í skáldsögu sem gerist í Reykjavík árið 1918, sem er ekki endilega það fyrsta sem manni dettur í hug.

En það var samt ekki löngu eftir þetta sem Halldór Laxness sagði að nú hefði Reykjavík allt sem heimsborg þyrfti, „ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig fútboll og hómósexúalisma“. Þess má til gamans geta að Máni Steinn er einnig fæddur 23. apríl 1902 – ég varð ekkert lítið æst þegar útreikningar mínir leiddu mig að þeirri niðurstöðu. Hins vegar kemur fram að Máni Steinn er illa læs, og það er gaman að sjá kvikmyndum gert hærra undir höfði sem uppsprettu fantasíunnar og skáldskaparins. Maður er miklu vanari því að sjá bækur rómantíseraðar í bókum, það er kannski merki um sjálfhverfu rithöfundarins.

GEB: Gamlar kvikmyndir eru náttúrulega afskaplega rómantískt fyrirbæri. Mér fannst líka ljóminn sem fylgir þessum myndum smitast yfir á Reykjavík þessa tíma, þannig að sögupersónur birtast með mjúkri linsu og kvenhetjan á mótorhjólinu verður fallegur töffari í stíl kvenhetja gömlu myndanna. Ég sá einhverra hluta vegna fyrir mér Katherine Hepburn í mynd sem kom út rúmum áratug eftir að atburðir bókarinnar eiga sér stað, Christopher Strong. Ég hugsa að það sé út af leðurgallanum sem hún klæddist á mótorhjólinu.Annað sem maður tengir ekki við Reykjavík 1918 er samkynhneigð. Með því að einblína á forboðið kynlíf, bíó og mótorhjólið…

KST: ...sem í ofanálag er ekið af Sólu Guðb, kvenímynd nýrra tíma, sem rennur saman við kvikmyndapersónuna Irmu Vep...

GEB: …akkúrat! – En með því að fjalla um þetta tímabil með þessum hætti, þá tekst Sjón að gera það einstaklega hrífandi, dulúðugt og sexý. Þar að auki er hinsegin Reykjavík kvikmyndahúsa og rafknúinna hjóla nútímaleg borg, spennandi. Svo þótti mér skemmtilegt að lesa gagnrýni á kvikmyndina og blætiseðli hennar (sem ýtir undir gægjufýsn og allskonar öfuguggaskap), sem sett var fram í formi blaðagreinar í skáldsögunni. Hugmyndirnar sem þar voru viðraðar minntu mig á seinna tíma skrif innan kvikmyndafræði, sem gjarnan voru innblásin af sálgreiningu og auðvitað sett fram á aðeins jákvæðari nótum, en ekki í kverúlantatóni íhaldssama læknisins dr. Garibalda.

KST: Já, það eru alls konar hugmyndir á sveimi um nútímann og menninguna og fantasíuna og svo framvegis. Samkvæmt skrifum dr. Garibalda er það ekki bara hin menningarlega hnignun sem á upptök sín í kvikmyndahúsinu heldur líka hinn líkamlegi sjúkleiki; það er þar sem spænska veikin smitast. Það er mjög flott sena þar sem Máni Steinn og Sóla Guðb sótthreinsa bíóið með gasi.

En höfundurinn tekur sér stöðu á jaðrinum, gegn þjóðernishyggju og hefðbundnum karlmennskugildum og íhaldssemi, með fantasíu og frelsi. Sem nær algjörum hápunkti í senunni þar sem Máni Steinn hittir danska sjóliðann á fullveldishátíðinni.

GEB: Besta sena ever.

KST: Niður með þjóðríkið!

Það heyrir annars til undantekninga að ég lesi skáldsögur sem mér finnst ekki að mætti stytta um að minnsta kosti hundrað blaðsíður. Meðal annars þess vegna hafði ég mikla ánægju af því að lesa Mánastein, sem er mjög hnitmiðuð bók og engu ofaukið.

GEB: Ég er innilega sammála því að hún er af afskaplega passlegri lengd. Það sem mér finnst oft leiðinlegt við sögulegar skáldsögur er hvað það er verið að reyna að segja mikið og hvað það þarf að koma mörgum persónum að. Til dæmis las ég Wolf Hall um daginn og þurfti í sífellu að fletta fram í bókinni að listanum yfir persónur og hvaða embættum þær gegndu í Englandi á 17. öld. (Fín bók samt, sem fór virkilega að taka við sér eftir svona 350 blaðsíður.) Mánasteinn lýsir meira einhverju andrúmslofti eða tilfinningu og er í rauninni bara saga sem gerist í ákveðnu umhverfi en ekki nákvæm úrvinnsla höfundar á sögulegum atburðum. Það finnst mér miklu skemmtilegra. Þú minntist á fullveldissenuna og þar er um raunverulegan sögulegan atburð að ræða, hins vegar er brugðið allt öðru ljósi á hann en í sögubókunum. Hann er gerður töff.

KST: Endirinn á bókinni er nokkuð óvenjulegur og við vorum ekki fyllilega sammála um ágæti hans. Það má segja að í síðustu setningum bókarinnar stígi höfundurinn inn í textann og dragi lesendurna og frásögnina inn í nútímann. Ég var ekki og er ekki enn alveg sannfærð um að þetta hafi verið tilkomumesta leiðin til að enda bókina, ég hefði sennilega hætt svona fimm línum fyrr.

GEB: Ég er sammála því að þessi endir er ekki jafn tilkomumikill og upphaf bókarinnar, sem er eitthvert það flottasta sem ég hef séð. Hins vegar hafði höfundur náð mér svo fullkomlega á sitt band þegar lestri lauk að ég var svosem bara glöð að hitta hann.

8. júlí 2014

Líkin hrannast upp í Piparkökuhúsinu - sumarið er komið!Sumarið er komið – eða farið - eða hvað skal segja – í öllu falli var loksins kominn tími á fyrsta sumar-reyfarann í síðustu viku. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum með Piparkökuhúsið eftir Carin Gerhardsen sem kom út nú á dögunum hjá forlaginu í ágætri þýðingu Nönnu B. Þórsdóttur. Bókin kom út í Svíþjóð árið 2008 og er fyrsta bók af sex um lögregluteymið á Hammersbystöðinni í suðurhluta Stokkhólms.

Í Piparkökuhúsinu fylgjumst við með lögreglumanninum Conny Sjöberg og félögum hans leysa dularfullt glæpamál. Þegar öldruð kona kemur heim eftir fremur langa sjúkrahúsvist finnur hún lík af manni í húsinu. Hún kannast ekkert við hann og málið virðist fullkomlega ósskiljanlegt en brátt fara fleiri lík að finnast, víðsvegar um Svíþjóð og málin taka að skýrast. Conny er skemmtileg persóna, hann er ekki drykkfelldur einfari, ekki sligaður af djöflum fortíðar og á ekki neinum sérstökum vandræðum með yfirmenn sína. Þvert á móti er hann vel liðinn í vinnunni, afskaplega vel giftur og á fimm börn sem hann á í góðu sambandi við. Börnin og eiginkonan skipta þar að auki máli og fá pláss í frásögninni. Persónulega fannst mér svo voða þakklátt að lesa um sænskan fyrirmyndaföður sem skellir börnunum fyrir framan sjónvarpið til að geta hugsa heila hugsun stöku sinnum...hann á reyndar fimm börn og ég eitt...en ég meina – who’s counting?
Carin á góðri stund og bandaríska útgáfa bókarinnar

óhugnanleg sænsk kápa
Áður en hún sló í gegn sem glæpasagnahöfundur með áðurnefndri bók starfaði Carin Gerhardsen sem ráðgjafi á sviði veflausna og hún er stærðfræðingur að mennt. Í umfjöllunum um bækur hennar er oft talað um að skrif hennar beri þess skýr merki að hér sé stærðfræðingur á ferð en ég verð að viðurkenna að ég varð ekki sérstaklega vör við það. Bókin er ágætlega upp byggð en hvort stærðfræðikunnátta er forsenda fyrir slíkt er ég ekki sannfærð um. En svo má náttúrulega vel vera að í næstu bók í flokknum fylgi morðinginn eða rannsakandinn einhverju mögnuðu talnakerfi og þá skal ég með glöðu geði éta þessi orð ofan í mig. Á kápu er líka sagt að Carin þekki einelti af eigin raun og nánari eftirgrennslan leiðir í ljós að hún varð sjálf fyrir grimmdarlegu einelti sem barn. Sú reynslan yfirgaf hana að sjálfsögðu aldrei og löngu síðar varð hún grunnurinn að þessari bók eins og lesa má um í þessu viðtali við höfundinn.

Það er vinsælt á þessum síðustu og bestu tímum að velta fyrir sér orsök og afleiðingu og það á ekki síður við í glæpasagnaritun. Rithöfundar velta oft upp spurningunni – af hverju? Hvernig verða glæpamenn til? Sem er í sjálfu sér virðingarverð spurning. Það er svo annað mál að svörin eru mis djúp, mis gáfuleg og stundum hreinlega mis áhugaverð. Það er alltof algengt að kokkaðar séu upp einhverjar klisjukenndar skýringar úr æsku gerandans – í yfirgnæfandi tilvikum er það móðir morðingjans sem hefur brugðist barni sínu, móðurhlutverkinu og þar með samfélaginu öllu, hún er hinn raunverulegi glæpamaður. Með fullri virðingu fyrir vægi móðurinnar í lífi hvers barns þá finnst mér þessi skýring oft ansi fyrirsjáanleg, auðveld og billeg. Það má því segja að það felist skemmtileg nýbreytni í því hjá Carin Gerhardsen að láta móðurina ekki vera undirliggjandi sökudólg...að minnsta kosti ekki nema að litlu leyti. Hér er það einelti, grimmd barna og afskiptaleysi hinna fullorðnu sem býr til glæpamann (ég er ekki að ljóstra neinu upp hér – þetta kemur fram í upphafi bókar og er gefið í skyn á kápu). Þessi tengin milli fórnarlamba misnotkunar af einhverju tagi og glæpa er auðvitað ekki ný af nálinni og þótt að Piparkökuhúsið rói kannski ekki beinlínis út á djúpsævið hvað þetta varðar þá spyr hún áhugaverðra spurninga um hvaða áhrif ofbeldi hefur á manneskjur – og hverju það veldur að það hefur svo mismunandi áhrif á þær. Nokkrar sniðuglega unnar hliðarsögur spegla svo stóra eineltis/ofbeldis málið sem er í forgrunni.

Áhugaverðasta nálgun á einelti í skáldsöguformi sem ég hef lesið er sennilega Undantekningin eftir Christian Jungersen sem kom út hjá Máli og menningu árið 2006 og Þórdís skrifar skemmtilega um hér. Þar byrjar hópur kvenna sem vinnur á Dönsku upplýsingamiðstöðinni um þjóðarmorð að fá hótunarbréf. Þær eru vissulega að garfa í viðkvæmum málum allt frá helförinni gegn gyðingum (ofl.) í heimstyrjöldinni síðari til þjóðarmorða í Balkan-löndunum á tíunda áratug síðustu aldar. Það sem gerir bókina brilliant er ekki uppbyggingin (Christian er greinilega ekki stærðfræðingur að mennt) og ekki endirinn sem er dáldið over the top, heldur sögusviðið sjálft – skrifstofa kvennanna og úrvinnslan á hugmyndinni um ofsóknir. Það viðgengst nefnilega einelti á skrifstofunni. Bókin er sögð út frá nokkrum sjónarhornum og fyrst verður lesandinn ekki var við neitt sérstakt annað en að ein konan á skrifstofunni er pínu hallærisleg og leiðinleg. Það er svo ekki fyrr en sjónarhornið flyst til hennar sem við skiljum að líf hennar er fullkomið helvíti. Sakleysislegar athugasemdir hinna kvennanna eru ekki sakleysislegar í samhengi við allt annað – heldur eru þær allt í einu orðnar ótrúlega grimmdarlegar og kvikyndislegar. Þrátt fyrir sífellt vaxandi áhyggjur kvennanna yfir hótunarbréfunum reyna þær þó að vinna vinnuna sína og rannsóknirnar sem þær lesa og greinarnar sem þær skrifa eru birtar í bókinni. Smám saman fer að myndast skuggaleg hliðstæða við upphaf og uppgang þeirra ofsókna sem leiða til þjóðarmorða annars vegar og eineltisins á skrifstofunni hins vegar. Allt hefst þetta með ofurlitlum athugasemdum og fínlegri útilokun – hún vs. við. Munurinn á henni og okkur fer allt í einu að skipta gríðarlegu máli. Smám saman eru allir, hinn útskúfaði oftast meðtalinn, farnir að trúa því að hann sé aðeins minna virði en hinir. Þegar það er búið að gera hann nógu lítils virði er skrefið frá andlegu ofbeldi yfir í það líkamlega ekki svo stórt og sífellt verður auðveldara að misþyrma, nauðga og/eða drepa. Bókin tekur líka föstum tökum óhugnanlegar en því miður sannfærandi niðurstöður sem segja okkur að þegar einhver hópur fólks fær skipanir að ofan um beita harðræði (eins og fangaverðir, hermenn, eða jafnvel „umhyggjusamir“ borgarar) þá gerir um 70% hópsins nákvæmlega það sem til er ætlast af honum, 20% gengur lengra – beitir sum sé meiri grimmd en um var beðið, en aðeins 10% segir nei. Öll viljum við halda að ef við hefðum verið stödd í Þýskalandi nasismans þá hefðum við aldrei samþykkt það sem þar fór fram. Við hefðum aldrei snúist gegn gyðingum, samkynhneigðum og kommúnistum en því miður segir tölfræðin okkur að það sé fremur ólíklegt. Þeir fáu sem neita að taka þátt eru nefnilega Undantekningin. Því miður.

Í Piparkökuhúsinu er svo aftur velt upp þeirri spurningu hver sé sekastur – er það gerandinn, þeir sem fylgja honum eða þeir sem sitja aðgerðalausir hjá og leyfa illskunni að viðgangast. Eins og í Undantekningunni er vinnustaðnum (í þessu tilviki lögreglustöðin) að einhverju leyti stillt upp sem hliðstæðu við eineltið í forgrunni sögunnar. Einn lögreglumannanna, Hamed, er af erlendu bergi brotinn og annar lögreglumaður er sífellt að koma með „létt grín“ um múhameðstrú sem hinir starfsmenn ýmist taka upp eða hlæja góðlátlega að. Hér er ekki gengið jafn langt og í Undantekningunni enda er hún mun lengri, ýtarlegri og dýpri bók en þetta er þó sniðuglega gert og vekur mann til umhugsunar um „saklaust grín“ og umræður síðustu ára um pólitíska rétthugsun og „góða fólkið“ (svo ég missi mig alveg í gæsalöppunum).

Piparkökuhúsið er sem sagt skemmtileg og spennandi bók, kafar kannski ekki alveg jafn djúpt og henni finnst sjálfri en kemur þó með góða punkta og er áhugaverð. Fyrir þá sem vilja frekar bíða eftir myndinni þá er hún á leiðinni í framleiðslu Yellowstone Productions sem kvikmynduðu líka Millennium þríleikinn. Ég er til í að lesa aðra bók eftir Carin! Bring it!

25. júní 2014

Afmælisbréfin


Undir lok síðustu aldar gætti ég stundum barna fyrir vinahjón foreldra minna. Systkinin voru einkar geðþekk og átti ég margar notalegar stundir með þeim á síðkvöldum við lestur og leiki. Þegar þau voru komin í ró gafst gott tækifæri til þess að blaða í bókakosti húsráðenda sem var ótæmandi brunnur fróðleiks og skemmtunar. Hjónin voru mikið smekkfólk og heimilið á margan hátt ansi ólíkt öðrum sem ég þekkti. Það var nefnilega útlenskt þrátt fyrir að vera staðsett í norðlenskri sveit. Foreldrarnir voru breskir og öll menningarneysla bar þess glögg merki.

Ég hafði aldrei komið til útlanda, intetnetið var ekki til og RÚV og Dagur, staðarblaðið á Norðurlandi, var nánast eina tenging mín við umheiminn. Þegar ég hugsa til baka hafði þessi krókaleið til útlanda líklega meiri áhrif á mig en ég gerði mér grein fyrir á þeim tíma. Þarna lærði ég að meta margt sem síðar kom við sögu á einn eða annan hátt í lífi mínu. Ég las A.J.P Taylor - og man raunar enn setningu sem krotuð var með blýanti á innsíðuna: "Always brilliant, often wrong". Ég smakkaði mince pies, stiltonost og lemon curd í fyrsta sinn. Ég prófaði mig áfram með myntusósu með lambakjöti í stað hinnar hefðbundu rabbabarasultu og lærði að meta breskan jólabúðing. Ég hóf samband við Tallis Scholars, Jan Garbarek og W.H. Auden sem enn sér ekki fyrir endann á.


Emily Watson í hlutverki Jacqueline du Pré.  
Bresku blöðin (af skárri gerðinni) voru keypt inn á heimilið og las mig í gegnum fréttir af spánýjum bíómyndum, bókum og tónlist - auk hrafls úr heimsfréttunum. Eitt var það sem í minningunni yfirskyggði allt annað í bresku dagblöðunum. Eða það var raunar tvennt. Í fyrsta lagi kom út umdeild kvikmynd sem byggði á ævi sellóleikarans Jacqueline du Pré sem lést ung að árum árið 1987 úr MS-sjúkdómnum. Myndin byggði á endurminningum Jackie systur hennar sem sjálf var ágætur flautuleikari, þó svo hún kæmist aldrei með tærnar þar sem systirin hafði hælana. Bókin, sem bar titilinn A Genius in the Family, þótti sérlega óvægin í garð Jacqueline og afhjúpa persónu hennar og viðkvæmar upplýsingar um einkalífið sem sannarlega ættu ekkert erindi fyrir almenningssjónir. Um þetta var mikið skrifað og kvikmyndin þótti jafnvel ganga enn lengra en bókin í því að lýsa Jacqueline sem þunglyndissjúklingi með brókarsótt sem var lífsins ómögulegt að eiga í heilbrigðum samböndum við annað fólk. Ég las aldrei bókina en sá myndina og fannst hún raunar alveg hreint ágæt, þó svo ég viti ekki hversu raunsanna mynd hún gefur af lífi þeirra systra.

Svo voru það Ted og Sylvia. Árið 1998 kom nefnilega út ljóðasafn lárviðarskáldsins Ted Hughes, Birthday Letters. Þar tjáði hann sig í fyrsta sinn um samband sitt við skáldkonuna Sylviu Plath eftir að hún stytti sér aldur árið 1960. Ég hafði aldrei heyrt um þetta fólk en fékk strax óstjórnlegan áhuga á sambandi þeirra og öllu höfundaverki. Þetta virkaði á 17 ára stelpu sem ástarsaga allra tíma - meira að segja Scott og Zelda gátu tekið pokann sinn. Ted og Sylvia höfðu það allt; ástina, óumræðanlegan harm, dauðann og að lokum algjöra tortímingu. Útgáfa ljóðabókar hefur líklega sjaldan vakið eins mikla athygli á síðari árum. Hún var á forsíðum flestra dagblaða, bæði austanhafs og vestan, og umræðan í kjölfarið lagði undir sig ótal dálksentimetra. Það höfðu kannski ekki allir áhuga á ljóðunum sem slíkum, en marga þyrsti í að vita meira um ástarsamband skáldanna og endalokin. Hvað vildi maðurinn nú loksins segja eftir 35 ára þögn?

Ted Hughes og Sylvia Plath árið 1956.

Ég eignaðist Birthday Letters stuttu síðar og las safnið upp til agna oft og mörgum sinnum. Hughes er auðvitað mikill spaði í breskum bókmenntum. Eftir hann liggur fjöldi ljóðabóka, þýðinga og leikrita auk þess sem hann vann töluvert við útgáfu á ritsöfnum annarra nafnkunnra höfunda og skrifaði einar tíu barnabækur. Árið 1956 stofnaði hann í félagi við nokkur önnur ungskáld bókmenntatímaritið St. Botolph’s Review. Í útgáfupartýinu hitti hann hina bandarísku Sylviu sem þá var á Fulbrightstyrk við Cambridge. Hún lýsti því í dagbókarfærslum sínum að Ted hefði verið sérlega glæsilegur á velli:

I met the strongest man in the world, ex-Cambridge, brilliant poet whose work I loved before I met    him, a large, bulky, healthy Adam, half French, half Irish, with a voice like the thunder of god - a singer, story teller, lion, and world wanderer, a vagabond who will never stop.
(Tekið af www.theparisreview.org/)

Ted Huges.
Fyrstu kynni þeirra voru raunar ansi dramatísk og kvöldið endaði á því að Plath beit tilvonandi eiginmann sinn til blóðs. Það virðist þó ekki hafa orðið til þess að draga úr áhuga hans og að nokkrum vikum liðnum gengu þau í hjónaband. Þau áttu saman sjö ár áður en Hughes sleit sambandinu til þess að vera með ástkonu sinni og fljótlega eftir það stytti Plath sér aldur. Í hjónabandinu skiptust vitanlega á skin og skúrir. Þau virðast hafa unnið töluvert saman og aðstoðað hvort annað við að vinna skáldverk sín og koma þeim á framfæri þó svo mögulega hafi Plath lagt meira af mörkum til þess samstarfs.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að margir hafa áfellst Hughes fyrir að hafa ýtt Plath fram af brúninni - eða gera ekki neitt til þess að styðja hana í stríðinu við svarta hundinn og að lokum yfirgefa hana fyrir aðra konu. Plath hafði raunar lengi glímt við alvarlegt þunglyndi og stuttu áður en hún kom til Cambridge hafði hún reynt að stytta sér aldur með því að taka inn svefntöflur. Svo sú saga rekur sig mun lengra aftur. Hughes hefur verið sakaður um að hafa hegðað sér sem óforbetranlegt karlrembusvín og skíthæll í hvívetna. Það er líklega ekki svo fjarri lagi. Þrátt fyrir að hafa stofnað heimili og eignast tvö börn hélt hann hélt áfram að taka virkan þátt í samkvæmislífinu og lyfti ekki litla fingri til þess að sinna börnum eða búi. Plath sá um þá hlið milli þess sem hún vélritaði verk þeirra beggja. Án þess að ég ætli hér sérstaklega að halda hlífiskildi yfir Hughes, þá voru jú flestir karlmenn á sjötta áratugnum karlrembusvín. Enginn gerði athugasemd við það að kona sæti dagana langa og vélritaði það sem streymdi úr hinu þunga höfði eiginmanns hennar. Barnauppeldi og heimilishald hvíldi alfarið á herðum kvenna og þeim var haldið niðri af samfélagi sem gat hvorki né vildi njóta krafta þeirra til fulls. Manni finnst kannski að þetta hefði átt að vera öðruvísi í sambandi Hughes og Plath; að þessir tveir ótrúlega hæfileikaríku höfundar hefðu átt að mætast á einhverskonar jafnréttisgrundvelli en ekki lúta hinu þá þegar útjaskaða feðraveldi í einu og öllu. En þetta var allt eftir hinni gömlu bók.

Þegar Plath dó skildi hún eftir sig mikið af óbirtum ljóðum auk dagbóka sinna og það kom í hlut Hughes að ritstýra þessu efni og búa sumt af því til prentunar. Ekki voru allir á eitt sáttir um hvernig hann komst frá því verki og var honum legið á hálsi fyrir að hafa beitt óhóflegri ritskoðun og margir vildu meina að í gegnum þessa vinnu hafi hann haldið áfram að beita Plath kúgun og andlegu ofbeldi. Hér skal ekkert um það fullyrt en víst er að Hughes kom þeim dagbókum sem Plath hélt síðustu vikurnar áður en hún lést fyrir kattarnef. Sjálfur sagði hann að það hefði eingöngu verið til þess að börnin þeirra myndu ekki sjá hversu illa hefði verið komið fyrir móður þeirra. En líklegt er að hann hafi viljað koma í veg fyrir að umheimurinn fengi að sjá það sem Plath skrifaði um hann sjálfan. Líklega hefur það ekki allt borið honum fagurt vitni.

Birthday Letters blés lífi í allar þessar vangaveltur á ný. Hvort þeirra bar meiri sök á þessari ægilegu ógæfu sem elti þau allt fram í andlátið? Notuðu þau hvort annað? Hvort þeirra var nú sannarlega betri rithöfundur? Fólk leitaði logandi ljósi að einhverju sem hönd á festi í ljóðunum í Birthday Letters. Hugmyndin er falleg. Í safninu er að finna 88 ljóð sem öll gera einhverja tilraun til að varpa ljósi á Plath, höfundinn sjálfan og ástina þeirra í millum. Hughes hafði þagað um árabil, en þó aldrei hætta að hugsa um Plath og var nú tilbúinn að tala. Sem fyrr voru skiptar skoðanir. Sumum þótti hann gera þetta vel, ná að skýra eitthvað og taka svolitla ábyrgð á dauða eiginkonu sinnar. Mörgum pistlahöfundum bresku blaðanna þótti einsýnt að feministar og aðrir gagnrýnendur hefðu farið fram með offorsi á árum áður og hann hefði engan veginn átt skilið þá skelfilegu útreið sem hann fékk í kjölfar dauða hennar. Plath glímdi jú við alvarlegt þunglyndi löngu áður en Hughes kom til sögunar og það voru hennar eigin djöflar sem króuðu hana af út í horn. Aðrir sögðu að hann væri bara að hossa sér á minningu hennar, óverðskuldað að baða sig í ljómanum sem leikur um nafn hennar og biðla til alheimsins um vorkunn. Gagnrýnendunum þótti hann svo sannarlega ekki taka neina ábyrgð á örlögum Plath. Hann væri miklu fremur að þvo hendur sínar og sýna sjálfan sig sem dyggðum prýddan eiginmann sem sýndi henni umhyggju þegar á þurfti að halda. Ef marka má ljóðmælanda var þó erfitt um vik því Plath hafi verið svo þjökuð af geðveiki og þráhyggju í sambandi við föður sinn að allur góður vilji til að sýna henni væntumþykju hafi farið fyrir ofan garð og neðan.

Ég skal ekki segja. Mér finnst í raun allir þessir þræðir birtast í bókinni og hún öðru fremur undirstika hversu flókið þetta allt var og hversu beygluð þau voru í raun bæði á sálinni.

Lárviðarskáldið góða lifði svo sannarlega harmrænu lífi. Eins og áður segir þá yfirgaf hann Plath fyrir aðra konu. Sú hét Assia Wevill og var gyðingur af þýsk-rússneskum ættum sem hafði flúið undan nasistum. Þau áttu í sambandi um nokkurra ára skeið og gerir Hughes þeirra fyrstu kynnum skil í ljóðinu Dreamers í Birthday Letters. Meðan á sambandi þeirra stóð fæddi Wevill dóttur sem heimildum ber ekki saman um hvort var dóttir Hughes eða eiginmanns hennar, kanadíska skáldsins David Wevill. Hughes virðist hafa haldið uppteknum hætti og þekkt er að hann átti í samböndum við tvær nafngreindar konur meðan hann bjó með Wevill. Raunar virðast margir vina hans hafa talið að Wevill væri bara ráðskona og Hughes virðist lítið hafa gert af því að kynna hana sem unnustu sína. Wevill fyrirfór sér árið 1969, á nákvæmlega sama hátt og Plath hafði gert, með því að stinga höfðinu inn í gasofn. Þannig myrti hún líka um leið fyrrnefnda dóttur sína sem þá var fjögurra ára gömul. Árið 2009 stytti Nicholas, sonur Hughes og Plath, sér aldur. Hughes var þá þegar genginn á vit feðra sinna, en hann lést örfáum vikum eftir að Birthday Letters kom út.

Ef maður gúglar nöfnin þeirra spretta upp spáný kommentarifrildi þar sem ljóðaunnendur gera tilraun til að kveða upp um það hvort Hughes hafi verið sannur drullusokkur, Plath raunverulega geðveik og samband þeirra dauðadæmt frá upphafi. Líklega sér ekki enn fyrir endann á þeim kommentahala.

Birthday Letters er enn í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún rifjar upp minningar úr mínu eigin lífi og hefur hægt og rólega aftengst sligandi óhamingju skáldanna. Ljóðin lifa sjálfstæðu lífi og eru mörg hver alveg frábær – hvað svo manni kann að finnst um raunveruleikann sem þau spretta upp úr.

12. apríl 2014

Úrgangur draumaverksmiðjunnar


Stundum les ég eitthvað og hrópa í sífellu innra með mér „Já, einmitt það sem mér finnst“ og „Af hverju hef ég ekki áttað mig á þessu fyrr?“ Þannig voru viðbrögð mín við hinni sænsku Lyckliga i alla sina dagar. Om pengars och människors värde („Hamingjusöm alla sína tíð. Um gildi peninga og manneskju“) eftir Ninu Björk. Björk vakti mikla athygli í Svíþjóð á tíunda áratugnum með hinni femínísku ádeilubók sinni Under det rosa täcket („Undir bleikri sæng“). Lyckliga i alla sina dagar kom svo út á síðasta ári. Hún einskorðast ekki við málefni kynjanna heldur er hún gagnrýni á hina ýmsu þætti neyslu- og efnishyggjusamfélags þar sem samkeppni og eiginhagsmunagæsla ráða ríkjum.

Boðskapurinn er í grófum dráttum sá að við höfum gefið upp á bátinn hugsjónir um betra samfélag og látum okkur nægja einstaklingsmiðaða drauma sem tengjast persónulegum framgangi og aukinni neyslu. Hugsjónin um betra samfélag er hins vegar óeigingjörn, hún byggir á útópíu en ekki draumi.

21. mars 2014

Óvæntur skipsskaði við upphaf magnaðrar bókar

Ég vissi ekki mikið um Stúlku með maga þegar ég hóf lesturinn – hún er undirtitluð skáldættarsaga og ég vissi að hún væri skrifuð út frá (skálduðu) sjónarhorni Erlu, móður höfundar. Hún er sjálfstætt framhald Stúlku með fingur en hana hef ég ekki lesið svo það sagði mér lítið. Einhvers staðar segir að upphafið og endirinn skipti mestu máli í skáldsögu og þótt ég sé nú ekki sammála því er það hins vegar kúnst að byrja vel og þá list kann Þórunn. Byrjunin er líka óvenjuleg því það er ekki sjálfgefið að rétti staðurinn til að byrja sögu móðurinnar sé með skipsskaðanum þegar póstgufuskipið Fönixinn fórst undan ströndum Íslands frostaveturinn 1881 (óvæntir skipsskaðar fylgja mér þessa dagana). En frásögnin af slysinu og þeim sem komust lífs af og var hjúkrað í torfbæ á hjara veraldar setur þó einmitt fullkomlega rétta tóninn fyrir þessa ófyrirsjáanlegu og dásamlegu bók.

14. mars 2014

Óvæntur skipsskaði í magnaðri bók

Sigrún Pálsdóttir
Ein magnaðasta jólalesningin mín var án efa Sigrún og Friðgeir – ferðasaga. Þetta er áhrifamikil lesning og ég var hreinlega skekin þegar ég lagði bókina loks frá mér. Það hefur væntanlega ýtt undir áhrifin að af dularfullum ástæðum – ég veit ekki hvernig – tókst mér að láta fram hjá mér fara um hvað bókin er. Nú er óhætt að segja að efnið hafi ekki verið neitt leyndarmál en einhvern veginn tókst mér greinilega að líta af blaðinu/sjónvarpinu eða lækka í útvarpinu akkúrat þegar Goðafoss og skelfileg endalok hans voru nefnd í tengslum við bókina. Í öllu falli hafði ég ekki hugmynd um að bókin hverfðist um þann atburð að þessi indælu læknishjón, Sigrún og Friðgeir, færust ásamt börnum sínum þremur með Goðafossi örlagaríka nótt árið 1944.

18. febrúar 2014

Grænland í litríkum svipmyndum

Sunnudaginn næstkomandi verða Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, veitt í Iðnó áttunda árið í röð. Hátíðin er í þetta sinn tileinkuð Jakobínu Sigurðardóttur og verkum hennar og á dagskránni verða alls konar spennandi erindi og tónlistaratriði (sjá nánar hér).
Tilnefndar bækur eru níu alls, þrjár í hverjum eftirtaldra flokka: flokki barna- og unglingabóka, flokki fagurbókmennta og flokki fræðibóka og rita almenns eðlis, en ég er nýbúin að lesa eina af bókunum sem tilnefndar eru í flokki fagurbókmennta; ljóðabókina Af hjaranum (2013) sem er önnur bók Heiðrúnar Ólafsdóttur.

11. febrúar 2014

Í gryfju Nabokovs: Guðrún Elsa og Kristín Svava spjallblogga um Pale Fire

KST: Sæl, Guðrún mín, velkomin í enn eitt Google Docs-skjalið! Þá er komið að því að við höldum áfram með druslubókaverkefnið Níðumst á Nabokov, sín hvoru megin Atlantsála, þó nokkuð löngu eftir að það hófst. Varst það ekki þú sem tókst fyrst upp Pale Fire hér um árið?

GEB: Sæl og blessuð, kæra Kristín Svava. Jú, það var víst ég sem tók hana fyrst upp, en ég er ansi hrædd um að ég hafi líka orðið síðust til að leggja hana niður.

KST: Þú tekur þér bara góðan tíma í að njóta þess unaðsmjúka súkkulaðikonfekts sem orðin eru.

GEB: Hér er mjög mikilvægt að lesendur átti sig á því að ekkert háð felst í þessum orðum þínum. 

KST: Það er hverju orði sannara.

GEB: „Unaðsmjúkt súkkulaðikonfekt“ er nefnilega alls ekki fjarri lagi. Fáir höfundar skrifa jafn fallegan og úthugsaðan texta og Nabokov. Ég hef allavega aldrei lesið höfund sem er jafn heillaður af tungumálinu, en mér skilst að hann hafi hrifist af engu eins og orðum, nema ef vera skyldi fiðrildum og skák. Annars hugsa ég að það hafi helst verið strúktúr sögunnar sem gerði það að verkum að ég dróst ekki beinlínis inn og var því lengi að klára bókina þrátt fyrir að hafa alltaf gaman af því að grípa í hana og lesa.

4. febrúar 2014

Um holdlegar fýsnir og sálartætandi Bylgjufliss

Það er ekki hægt að halda því fram að ljóðabækur fái sérstaklega stórt pláss í hinni yfirdrifnu jólabókastemningu sem loðir við meginstraumsbókmenntaumræðuna á Íslandi. Fyrir utan örfáar "kanónur" er heldur lítið fjallað um nýjar ljóðabækur, einna helst þegar það er hægt að finna eitthvert sniðugt "teik" á bókunum og smætta þær niður í það, t.d. ef það er eitthvað sneddí konsept á bak við bókina eða þá að skáldið samdi ljóðin meðan það sinnti vitavörslu í Malasíu, þið skiljið hvað ég er að fara. En ljóðin halda nú samt áfram að koma út og ég taldi eitthvað um þrjátíu nýjar íslenskar ljóðabækur í Bókatíðindum síðasta árs. Hér á blogginu hafa í gegnum tíðina birst þónokkrar færslur um ljóð en við höfum lítið fjallað um nýjustu bækurnar. Ég er hins vegar með nokkrar af þeim á skrifborðinu hjá mér, bækur sem komu út 2013 og 2012 og ég hef þegar lesið, svo það er löngu kominn tími til að sparka í eigin rass og gefa ljóðinu smávegis pláss.

Í fyrra fjallaði ég um lúmska ljóðabók eftir Braga Pál Sigurðarson sem bar þann hógværa titil Fullkomin ljóðabók. Um þá bók var margt gott að segja og ekki síst lofaði seinni hluti hennar góðu, en þar mátti lesa nýrri ljóð Braga sem báru vitni um sterkari höfundarrödd og stílræna þróun. Í lok síðasta árs kom svo út ný bók eftir Braga Pál, Hold, hjá forlaginu ÚTÚR. Þegar ég skoðaði aðra umfjöllun um bókina var nokkuð augljóst að fjölmiðlafólki fannst það aldeilis hafa fundið sniðugt teik á hana, nefnilega nektina á kápunni þar sem ljóðskáldið stendur berstrípað með svínshaus í Norðurmýrinni í Reykjavík. Sumt af því sem ég las var bókstaflega fáránlegt, svo pirrandi innantómt og vandræðalegt að ég nenni ekki einu sinni að tengja á það (Fréttatíminn, ég er að horfa á þig). Mér gekk raunar illa að finna umfjöllun þar sem útgangspunkturinn var ekki bókarkápan, fann en Víðsjá brást þó ekki frekar en fyrri daginn og hér má hlusta á viðtal við Braga Pál þar sem hann talar um eigin afstöðu gagnvart ljóðinu; Bragi talar um að hafna fegurðinni og hinu fínpússaða formi og búa þess í stað til einhvers konar beintengingarljóð þar sem textinn gengur beint inn í lesandann, laus við skrúð og skraut. Hann vilji fjalla um eigin veruleika í dag, mótsagnakenndan og hráan, frekar en festa sig í fortíðarsýn hins upphafna ljóðskálds. Hann talar um heiðarleika og vafningalausan skáldskap.

Hold er vissulega skilgetið afkvæmi Fullkominnar ljóðabókar, að því leyti að ljóðmælandinn er kunnuglegur og sama hrjúfa yfirborðið einkennir ljóðin. Hins vegar er nýja bókin hnitmiðaðri og röddin eindregnari, hún segir meira en oft í færri orðum. Vaðallinn sem einkenndi fyrri bókina er ekki lengur áberandi, en takturinn verður ekki hægari fyrir vikið heldur þvert á móti þéttari og sterkari.

Undir niðri ríkir alltaf einhvers konar kaldhæðin meðvitund um formið, um fáránleika þess að skrifa ljóð, vera enn ein röddin í kaosinu. Ljóðmælandinn rennir sér inn í fyrsta ljóðið í bókinni með upphitun á lyklaborðinu og mætir opinberlega á svæðið:

"Asdferum við semsagt að skrifa í hvítu núna?


ok
gerum þetta"

(ég óska annars eftir blaðsíðutölum í næstu bók, svo hægt sé að vitna almennilega í textann!)

Röddin á bak við ljóðin vekur gjarnan athygli á sér, leyfir okkur ekki að gleyma því að við sitjum og lesum ljóðabók og stillir þannig takmörkunum formsins í kastljósið: "Ónýt orð. Afhelguð. / Fullkomin og merkingarlaus. / Sjáðu þessi tákn. / Hlustaðu á hljóðin. / Algjörlega merkingarlaus." Stundum ritskoðar röddin sig með stjörnum og við sjáum **** í stað orðanna, stundum ráðskast hún með framvinduna:

"hér er bara auð síða hehe"

26. janúar 2014

Bókmenntagetraunin: Úrslit

Eins og fram kom á föstudaginn voru þau Gísli Ásgeirsson og Þórdís Kristleifsdóttir jöfn að stigum þegar allir fjórtán liðir bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta höfðu verið birtir. Áður en farið yrði í bráðabana voru  þau Gísli og Þórdís hvött til að svara ellefta lið getraunarinnar, sem var sá eini sem rétt svar hafði ekki borist við.

Svo fór að Gísli svaraði ellefta lið rétt, og er hann því hér með krýndur sigurvegari bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta og vinnur sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, sem hefst í vikunni og druslubókabloggararnir Salka, Hildur og Kristín Svava hafa umsjón með.

Við óskum Gísla hjartanlega til hamingju með sigurinn og þökkum öllum sem tóku þátt í getrauninni kærlega fyrir. Einnig á Endurmenntun þakkir skildar fyrir verðlaunin.

Þess verður svo að sjálfsögðu að geta í hvaða verk textabrotið í ellefta lið er sótt, en það er úr bókinni Lifandi vatnið eftir Jakobínu Sigurðardóttur.

24. janúar 2014

Úrslit bókmenntagetraunar! Bráðabani!

Úrslit hinnar æsispennandi bókmenntagetraunar liggja þá fyrir og spennan á bara eftir að aukast því Gísli og Þórdís Kristleifsdóttir eru jöfn með þrjú stig hvort!

Okkur er því nauðugur einn kosturinn að efna til bráðabana og biðjum keppendur því vinsamlegast um að senda tölvupóst á bokvit@gmail.com og við munum reyna að skera úr um hvort þeirra hlýtur sæti á hinu geysivinsæla námskeiði Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi, sem er meira að segja svo vinsælt að það er orðið uppselt á það en áhugasamir geta samt enn skráð sig á biðlista og vonað það besta. 

Nú, eða þau Gísli og Þórdís geta gert sér lítið fyrir og giskað á ellefta lið, sem enn hefur ekki borist fullnægjandi svar við.

Rétt svar við fjórtánda og síðasta lið var auðvitað hin ógnvænlega Haldin illu anda eða The Exorcist eftir William Peter Blatty.

Annars þökkum við bara kærlega öllum þeim sem tóku þátt!

22. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fjórtándi og síðasti liður

Þá er það fjórtándi og jafnframt síðasti liður hinnar æsispennandi bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Enn hefur ekkert svar borist við þrettánda lið, sem þið megið endilega spreyta ykkur við.

Úrslit verða tilkynnt von bráðar, en eins og fyrr segir eru verðlaunin ekki af verri endanum, heldur sæti á jólabókaflóðsnámskeiði Endurmenntunar sem hefst á fimmtudaginn í næstu viku.

Og vindum okkur þá í fjórtánda liðinn.

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Nákvæmlega klukkan 00.25 eftir miðnætti leit Chris upp úr handritinu og hleypti brúnum. Hún heyrði undarleg högg. Þau voru óregluleg. Lág. Djúp. Hrynjandilaus. Annarleg eins og dauður maður berði.
Skrítið.
Hún hlustaði andartak; missti síðan heyrnar á höggunum, en þegar þau héldu áfram, gat hún ekki einbeitt sér að handritinu. Hún lagði það frá sér á rúmið.
Drottinn minn, ég þoli þetta ekki!Hún stóð upp til að kanna málið. Hún fór fram á ganginn og svipaðist um. Hljóðin virtust koma úr svefnherbergi Regans.“21. janúar 2014

Bókmenntagetraun, þrettándi liður

Þá er komið að þrettánda og næstsíðasta lið í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Svar við tólfta lið var Ég um mig frá mér til mín eftir Pétur Gunnarsson, en enn hefur ekki borist rétt svar við ellefta lið og því eru lesendur hvattir til að halda áfram að giska.

Spurt er: Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Einmanaleikinn var ekki horfinn úr hjarta mínu þegar við Ágúst gengum út af dansstaðnum Týnda hlekknum sem stóð bleikmálaður og háreistur með glæsilegum gluggapóstum við Götu glötuðu tækifæranna í þann mund sem hárprúðar hórur flykktust alls staðar að með klappstólana sína útá gangstétt, í sólríku síðdeginu, til þess að greiða sér, lesa blöðin, tjatta saman og mála sig. Allt í kringum þær rússuðu litlir strákar að gera þeim til geðs með sígarettuna hangandi í munnvikinu, með skemlana sína og skóburstakassana í höndunum, tilbúnir að bursta skó hóranna og karlanna sem færu að mæta í heimsókn eftir hádegisverðinn. Gömlu hórurnar sem voru hættar að sofa nokkurn hlut vöfruðu um, vaktandi ástand hlutanna og tóku auðvitað eftir mér um leið og við Ágúst gengum hönd í hönd útaf skemmtistaðnum.“

20. janúar 2014

Bókmenntagetraun, tólfti liður

Þá er það tólfti liður hinnar epísku bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Rétt svar við ellefta lið hefur enn ekki borist svo við hvetjum lesendur eindregið til þess að halda áfram að giska.

Og þá spyrjum við: Í hvaða verki birtist eftirfarandi brot og hver er höfundur þess?

„Hafiði séð rafmagnstannburstana? spurði tannlæknirinn í fjölskyldunni og fjölmargir þurftu að taka til máls um hina vélknúnu bursta sem voru nýkomnir á markaðinn, mælendaskráin ætlaði aldrei að tæmast. Það var kona búin að að króa tannlækninn af og endaði hverja setningu með því að gapa niður í kok og í hvert skipti var eins og tannlæknirinn fengi ofbirtu í augun. Fólk vissi ekki fyrr en það var búið að bursta aðrahverja fyllingu úr tönnunum.“

19. janúar 2014

Bókmenntagetraun, ellefti liður

Þá er komið að ellefta lið bókmenntagetraunarinnar. Textabrotið í tíunda lið var sótt í ævisögu Stefáns Jónssonar, Að breyta fjalli.

Nú er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Verkamenn hafa enga ástæðu til að drepa sig. Nema þá geðbilun. Þeir hafa ekki heldur neina ástæðu til geðbilunar. Þeim hefir aldrei liðið eins vel. Þeir ættu að skammast sín að bilast á geðsmunum og drepa sig eins og þeir hafa það gott. Annað mál með okkur. Við vinnum með heilanum og berum ábyrgðina á velferðarríkinu ofan frá og niður í gegn. Þeir ættu að skammast sín. Já, þeir ættu að skammast sín! Þurfa ekki einu sinni að hugsa. Og gera það ekki. Það er ekki ætlast til þess af þeim, það er ekki þeirra fag. Og samt drepa þeir sig. Til hvers ætlast þeir eiginlega? Þeir hafa sína menn til að standa í kjarasamningamakkinu fyrir sig og segja þeim hvenær þeir eiga að samþykkja og hvenær þeir eiga að fara í verkföll. Þeir fá sína lýðræðislegu tilsögn um hverja þeir eiga að kjósa, þeir fá allt upp í sig hakkað og tuggið. Um hvað ættu þeir að hugsa?“

18. janúar 2014

Bókmenntagetraun, tíundi liður

Það er farið að síga á seinni hlutann í bókmenntagetrauninni og komið að tíunda lið af fjórtán. Rétt svar við níunda lið var Frankenstein: eða hinn nýi Prómóþeus eftir Mary Shelley, í þýðingu Böðvars Guðmundssonar.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Það þótti ekki fráleitt að koma dálitlu hjartarsalti saman við í neftóbaksdós eða pontu, ef færi gafst, en fyrir neðan allar hellur að spræna í regnkápuvasa, þar sem maður geymdi munntóbakið sitt. Það var alls ekki vítavert að lauma dálitlu af natroni eða matarsóda í náttpottinn hjá gamalli frænku sinni, en fráleitt að nota karbít, sem gat brennt á henni botninn, þegar sauð upp úr koppnum. Óleyfilegt var að troða strigapoka ofan í stromp á nokkru húsi, en ekki fráleitt, ef svo bar undir, að leggja torfusnepil yfir reykháfinn og banka svo uppá og fá að sitja inni í eldhúsi dálitla stund, til þess að hlýða á athugasemdir húsfreyju um undarlega hegðun eldavélarinnar, sem aldrei áður hafði tekið upp á því að reykja!“

17. janúar 2014

Bókmenntagetraun, níundi liður

Þá er komið að níunda lið bókmenntagetraunarinnar. Verðlaunin eru ekki af verri endanum: sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi sem hefst 30. janúar, en það er í umsjón þriggja penna Druslubóka og doðranta.

Svarið við áttunda lið hefur þegar borist, en textabrotið var úr skáldsögunni Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Meðan ég var að lesa einbeitti ég mér að eigin tilfinningum og ástandi. Mér fannst ég vera líkur og þó jafnframt ólíkur þeim sem ég las um og hlustaði á ræða saman. Ég hafði samúð með þeim og skildi þau að nokkru leyti en hugur minn var ómótaður, ég var ekki háður neinum og ekki í ætt við neinn. Mér var „greiðfært á brautu að leita“ og enginn mundi gráta tortímingu mína. Ég var viðbjóðslegur útlits og risi að vexti. Hvað þýddi það? Hver var ég? Hvaðan kom ég? Hvert lá leið mín? Þessar spurningar leituðu stöðugt á mig en ég var ófær um að svara þeim.“

16. janúar 2014

Bókmenntagetraun, áttundi liður

Þá fer áttundi liður bókmenntagetraunarinnar í loftið. Svarið við sjöunda lið kom fljótt fram, en tilvitnunin var úr Dagbók Önnu Frank.

En í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Hún hrökk upp í Blessuð sértu sveitin mín og leit í kringum sig, hafði sigið niður í sætinu og sparkað skónum undir næsta bekk. Vonandi hafði hún ekki hrotið líka. Vandræðaleg gaut hún augunum til konunnar við hliðina en hún sat og starði svipbrigðalaus og steinþegjandi á textablaðið. Hinum megin við hana svaf eldri herra. Það ýldi í nefinu á honum þegar hann andaði inn, svo púffaði hann á útönduninni. Hún smokraði sér í skóna, reisti sig upp í sætinu og tók hraustlega undir.“

15. janúar 2014

Bókmenntagetraun, sjöundi liður

Og þá er það sjöundi liður bókmenntagetraunarinnar. Rétt svar við sjötta lið kom fram; Blinda eftir José Saramago, í þýðingu Sigrúnar Ástríðar Eiríksdóttur.

Að gefnu tilefni tökum við fram að svör þurfa að berast í kommentakerfi bloggsíðunnar en ekki á Facebook-síðu Druslubóka og doðranta.

Þá er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Við höfum öll verið dálítið ringluð þessa síðastliðnu viku vegna þess að yndislegu Westertoren kirkjuklukkurnar okkar hafa verið teknar niður og sendar í málmbræðslu vegna stríðsins, svo að við vitum ekki nákvæmlega hvað tímanum líður, hvort heldur er að nóttu eða degi. Ég el enn með mér vonir um að þeir komi með eitthvað í staðinn, gert úr tini eða kopar eða einhverju slíku, til þess að minna nágrennið á klukkuna.“

13. janúar 2014

Bókmenntagetraun, sjötti liður

Þá er komið að sjötta lið bókmenntagetraunar Druslubóka og doðranta. Svar við fimmta lið barst fljótt og vel, en textabrotið var úr ljóðabókinni Blysfarir eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur.

Þá er spurt: í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Stúlkan með sólgleraugun sté fram úr rúminu sínu hinum megin við ganginn og gekk af stað með útrétta handleggina í áttina að grátinum: – Þér eruð í uppnámi, get ég gert eitthvað fyrir yður? spurði hún þar sem hún gekk til hennar og þreifaði með báðum höndum á liggjandi fólkinu. Háttprýðin bauð henni að kippa að sér höndunum tafarlaust og heilinn gaf henni þessa skipun afdráttarlaust, en hendurnar hlýddu ekki, snertingin varð bara mýkri, varla annað en létt stroka með fingurgómunum yfir þykkt og hlýtt teppið. – Get ég gert eitthvað fyrir yður, spurði stúlkan aftur og núna dró hún loksins til sín hendurnar, lyfti þeim uns þær hurfu inn í steindauða hvítu, umkomulausar. Læknisfrúin var enn snöktandi og fór fram úr rúminu, faðmaði stúlkuna að sér: – Þetta er ekki neitt, ég varð allt í einu svo niðurdregin, sagði hún.“

12. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fimmti liður

Þá er komið að fimmta lið bókmenntagetraunarinnar. Rétt svar við fjórða lið var Gvendur bóndi á Svínafelli eftir J. R. R. Tolkien.

Og við vindum okkur bara beint í fimmta lið.

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„hann ítrekar að drekinn lækni einsemdina, ég
segi: ég er hér
en
drekinn gerir hann heyrnardaufan og málstola
og sjúklegan í sumarbirtunni, ég er með tálkn sem
víbra eins og dauðateygjur, ég sá það fyrir
því pabbi minn segir að allt fallegt sé
spillandi eða

kannski sagði hann það aldrei“


10. janúar 2014

Bókmenntagetraun, fjórði liður

Þá er komið að fjórða lið af fjórtán í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Eins og áður þurfa svör að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Rétt svar við þriðja lið er auðvitað að textabrotið er úr Hinu stórkostlega leyndarmáli Heimsins og er eftir Steinar Braga. Rétt svar hefur enn ekki borist við öðrum lið en við hvetjum ykkur eindregið til þess að halda áfram að giska.

En er þá komið að fjórða lið getraunarinnar:

 Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Bóndinn spratt á bak merinni. Drekinn tók til fótanna og merin líka, því að hún hafði fælst. Drekinn brokkaði másandi og blásandi yfir akra og engi. Merin fylgdi fast á hæla hans. Bóndinn skammaðist og öskraði eins og hann væri á veðreiðum og sífellt veifaði hann brandinum Sporðbíti. Því hraðar sem drekinn hljóp því ringlaðari varð hann og hræddari og sífellt neyddist hann til að auka hraðann.“


9. janúar 2014

Bókmenntagetraun, þriðji liður

Þá er komið að þriðja lið af fjórtán í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Við ítrekum að svör þurfa að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Ekki hefur borist rétt svar við lið tvö frá því í gær, þar sem spurt var um söguna af Gunnþóru sem mjaðmarbraut sig í frekjukasti, svo þið hafið enn tækifæri til að svara þar.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, þriðji liður:

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

"Svipurinn á andliti herra Saunders tók að molna - andlit hans geiflaðist, herptist og var allt í senn: undrandi, sakbitið, reiðilegt og bernskt. Ég sá glitta í litla drenginn er leitað hafði móður sinnar þegar upp komu vandræði, en núna var móðir hans, að því gefnu að hún væri ekki farþegi á skipinu, víðs fjarri. Hann stóð snöggt á fætur, gekk yfir að rimlatjöldunum, svipti þeim upp og starði út á Esplanöðuna. Að liðnum nokkrum mínútum af íhugun og mettaðri þögn sneri hann sér við og ávarpaði Stein:
"Þér spilið skítuga en kannski virði ég það við yður. Ég skal segja allt af létta, hafið ekki áhyggjur. Ég játa mig sigraðan. Þér gætuð kannski byrjað á að upplýsa mig hvernig... Var það Irene?"
"Ah," sagði Steinn og brosti. "Núna eruð þér forvitnir. Ég skal upplýsa yður... Ungfrú Betty sagði ekkert. Það sem kom upp um yður var öllu smærra að vöxtum, eða jafn smátt og langanir sumra viðstaddra.""

8. janúar 2014

Bókmenntagetraun, annar liður

Þá er komið að öðrum lið (af fjórtán) í bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta. Í verðlaun er eins og fyrr sagði sæti á námskeiðinu Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi sem hefst 30. janúar. Við ítrekum að svör þurfa að koma fram undir nafni svo hægt sé að halda saman stigafjölda keppenda.

Textabrotið frá því í gær var, eins og glöggir lesendur voru fljótir að uppgötva, úr Dýrasögu eftir Ástu Sigurðardóttur.

Nú kemur í ljós hvort þið getið jafn auðveldlega svarað öðrum lið.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, annar liður: 

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur þess?

„Í hvert sinn sem ég henti mér í gólfið sagði pabbi mér sömu söguna. Þetta var sagan af henni Gunnþóru. Gunnþóra reyndi alla ævi að sveigja veröldina að eigin frekju og meinlokum. Hún hafði vanið sig á að kasta sér í gólfið ef hún fekk ekki vilja sínum framgengt. Þegar hún var áttatíu og sjö ára gömul kastaði hún sér í gólfið í síðasta sinn og mjaðmarbrotnaði illa. Vildi ég enda eins og hún Gunnþóra?“


7. janúar 2014

Druslubækur og doðrantar kynna: Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta!

Druslubækur og doðrantar óska lesendum gleðilegs nýs árs. Við vonum að hið liðna hafi verið ykkur ánægjulegt.

Við ætlum að hefja nýtt lestrarár með æsispennandi bókmenntagetraun í mörgum liðum og verðlaunin eru vegleg, nefnilega sæti á bókmenntanámskeiði hjá Endurmenntun. Það eru auðvitað engar aðrar en við sjálfar sem kennum námskeiðið (eða réttara sagt hluti okkar, þær Kristín Svava, Salka og Hildur). Námskeiðið hefst fimmtudaginn 30. janúar og þar verða nokkrar vel valdar jólabækur lesnar og ræddar út frá öllum mögulegum vinklum, fræðilegum jafnt sem ófræðilegum. Námskeiðið heitir Eftir jólabókaflóðið: Yndislestur í góðum hópi og það má lesa meira um það hér.

Þar sem við erum fjórtán sem hér skrifum þá verður getraunin í fjórtán liðum. Hver okkar mun velja textabrot úr einhverri bók og lesendur eiga að giska á bæði verk og höfund þess í athugasemdakerfi síðunnar. Sá eða sú sem oftast giskar á rétt svar vinnur getraunina og þar með sæti á námskeiðinu, sem við lofum að verður skemmtilegt. Athugið því að svör þurfa að vera undir réttu nafni þess sem giskar svo við getum reiknað saman stig.

En vindum okkur bara beint í getraunina.

Bókmenntagetraun Druslubóka og doðranta, fyrsti liður:

Í hvaða verki birtist eftirfarandi textabrot og hver er höfundur verksins?

„Nei litla heimska dýrið sleppur ekki. Stóra stóra dýrið eltir það lengi enn - eltir það að gamni sínu. Stóra dýrið er ekkert þreytt og það getur hlaupið miklu miklu harðara ef það vill, en það er bara að skemmta sér við að hræða litla dýrið og gera það dauðþreytt. Litla dýrið hleypur miklu harðara en það getur af því að það er svo hrætt - svo ógurlega hrætt við stóra dýrið. En það er alveg sama hvað það hleypur, það á sér engrar undankomu von. Stóra dýrið nær í það með stóru sterku klónum þegar það vill.“