30. júlí 2014

Niður með þjóðríkið! Upp með bíóið! Spjallblogg um Mánastein Sjóns.

Einn sólríkan laugardag settust Guðrún Elsa og Kristín Svava niður ásamt öldruðum ketti í stofu einni í San Francisco og ræddu skáldsöguna Mánastein eftir Sjón. Bókin fjallar um piltinn Mána Stein sem á heima í Reykjavík á 2. áratug 20. aldar.

Hér er það sem þeim stallsystrum fór á milli.

KST: Afskaplega þykir mér viðeigandi að hefja þetta spjallblogg um Mánastein sama dag og við fórum í Castro-leikhúsið í San Francisco og sáum tvær útgáfur af Galdrakarlinum í Oz, þar af eina dragsviðsetningu (The Wizard of Odd). Mánasteinn er jú frekar hinsegin bók. Hvað segir þú um það, Guðrún Elsa?

GEB: Jú, svo sannarlega. Alveg logandi hinsegin frá fyrstu blaðsíðu. Ég gæti líka ímyndað mér að aðalpersóna bókarinnar hefði sómt sér vel í bíósal Castro-leikhússins, enda fjallar bókin ekki aðeins um kynlíf karlmanna á hinum ólíklegustu stöðum í Reykjavík á öðrum áratug síðustu aldar, heldur líka um bíómenningu borgarinnar. Stundum renna þessir heimar líka saman í einhverjum skilningi, bíóið fylgir Mána Steini út úr salnum og kvikmyndaáhorfið er hin stórkostlegasta nautn.

KST: Og ég elska hvernig Sjón sviðsetur Mánastein, sem gerist að stærstum hluta árið 1918. Þetta er svo dramatískt ár í sögunni og allir stóru atburðirnir fá sinn sess í bókinni – spænska veikin, Kötlugosið, fullveldið – en alltaf er unnið með þessa sögulegu atburði og bakgrunn á skapandi hátt – spænska veikin rennur saman við einhvers konar súrrealíska fantasíu. Ekki eins og í sögulegum skáldsögum þar sem maður hefur á tilfinningunni að rithöfundurinn sé að elta sögubækurnar, án þess að vita sjálfur hvert hann vill fara. Hér eru hlutir eins og bíó og mótorhjól settir í forgrunn í skáldsögu sem gerist í Reykjavík árið 1918, sem er ekki endilega það fyrsta sem manni dettur í hug.

En það var samt ekki löngu eftir þetta sem Halldór Laxness sagði að nú hefði Reykjavík allt sem heimsborg þyrfti, „ekki aðeins háskóla og kvikmyndahús, heldur einnig fútboll og hómósexúalisma“. Þess má til gamans geta að Máni Steinn er einnig fæddur 23. apríl 1902 – ég varð ekkert lítið æst þegar útreikningar mínir leiddu mig að þeirri niðurstöðu. Hins vegar kemur fram að Máni Steinn er illa læs, og það er gaman að sjá kvikmyndum gert hærra undir höfði sem uppsprettu fantasíunnar og skáldskaparins. Maður er miklu vanari því að sjá bækur rómantíseraðar í bókum, það er kannski merki um sjálfhverfu rithöfundarins.

GEB: Gamlar kvikmyndir eru náttúrulega afskaplega rómantískt fyrirbæri. Mér fannst líka ljóminn sem fylgir þessum myndum smitast yfir á Reykjavík þessa tíma, þannig að sögupersónur birtast með mjúkri linsu og kvenhetjan á mótorhjólinu verður fallegur töffari í stíl kvenhetja gömlu myndanna. Ég sá einhverra hluta vegna fyrir mér Katherine Hepburn í mynd sem kom út rúmum áratug eftir að atburðir bókarinnar eiga sér stað, Christopher Strong. Ég hugsa að það sé út af leðurgallanum sem hún klæddist á mótorhjólinu.



Annað sem maður tengir ekki við Reykjavík 1918 er samkynhneigð. Með því að einblína á forboðið kynlíf, bíó og mótorhjólið…

KST: ...sem í ofanálag er ekið af Sólu Guðb, kvenímynd nýrra tíma, sem rennur saman við kvikmyndapersónuna Irmu Vep...

GEB: …akkúrat! – En með því að fjalla um þetta tímabil með þessum hætti, þá tekst Sjón að gera það einstaklega hrífandi, dulúðugt og sexý. Þar að auki er hinsegin Reykjavík kvikmyndahúsa og rafknúinna hjóla nútímaleg borg, spennandi. Svo þótti mér skemmtilegt að lesa gagnrýni á kvikmyndina og blætiseðli hennar (sem ýtir undir gægjufýsn og allskonar öfuguggaskap), sem sett var fram í formi blaðagreinar í skáldsögunni. Hugmyndirnar sem þar voru viðraðar minntu mig á seinna tíma skrif innan kvikmyndafræði, sem gjarnan voru innblásin af sálgreiningu og auðvitað sett fram á aðeins jákvæðari nótum, en ekki í kverúlantatóni íhaldssama læknisins dr. Garibalda.

KST: Já, það eru alls konar hugmyndir á sveimi um nútímann og menninguna og fantasíuna og svo framvegis. Samkvæmt skrifum dr. Garibalda er það ekki bara hin menningarlega hnignun sem á upptök sín í kvikmyndahúsinu heldur líka hinn líkamlegi sjúkleiki; það er þar sem spænska veikin smitast. Það er mjög flott sena þar sem Máni Steinn og Sóla Guðb sótthreinsa bíóið með gasi.

En höfundurinn tekur sér stöðu á jaðrinum, gegn þjóðernishyggju og hefðbundnum karlmennskugildum og íhaldssemi, með fantasíu og frelsi. Sem nær algjörum hápunkti í senunni þar sem Máni Steinn hittir danska sjóliðann á fullveldishátíðinni.

GEB: Besta sena ever.

KST: Niður með þjóðríkið!

Það heyrir annars til undantekninga að ég lesi skáldsögur sem mér finnst ekki að mætti stytta um að minnsta kosti hundrað blaðsíður. Meðal annars þess vegna hafði ég mikla ánægju af því að lesa Mánastein, sem er mjög hnitmiðuð bók og engu ofaukið.

GEB: Ég er innilega sammála því að hún er af afskaplega passlegri lengd. Það sem mér finnst oft leiðinlegt við sögulegar skáldsögur er hvað það er verið að reyna að segja mikið og hvað það þarf að koma mörgum persónum að. Til dæmis las ég Wolf Hall um daginn og þurfti í sífellu að fletta fram í bókinni að listanum yfir persónur og hvaða embættum þær gegndu í Englandi á 17. öld. (Fín bók samt, sem fór virkilega að taka við sér eftir svona 350 blaðsíður.) Mánasteinn lýsir meira einhverju andrúmslofti eða tilfinningu og er í rauninni bara saga sem gerist í ákveðnu umhverfi en ekki nákvæm úrvinnsla höfundar á sögulegum atburðum. Það finnst mér miklu skemmtilegra. Þú minntist á fullveldissenuna og þar er um raunverulegan sögulegan atburð að ræða, hins vegar er brugðið allt öðru ljósi á hann en í sögubókunum. Hann er gerður töff.

KST: Endirinn á bókinni er nokkuð óvenjulegur og við vorum ekki fyllilega sammála um ágæti hans. Það má segja að í síðustu setningum bókarinnar stígi höfundurinn inn í textann og dragi lesendurna og frásögnina inn í nútímann. Ég var ekki og er ekki enn alveg sannfærð um að þetta hafi verið tilkomumesta leiðin til að enda bókina, ég hefði sennilega hætt svona fimm línum fyrr.

GEB: Ég er sammála því að þessi endir er ekki jafn tilkomumikill og upphaf bókarinnar, sem er eitthvert það flottasta sem ég hef séð. Hins vegar hafði höfundur náð mér svo fullkomlega á sitt band þegar lestri lauk að ég var svosem bara glöð að hitta hann.

Engin ummæli: