8. ágúst 2014

Skaðlegri börnum en blásýra. Spjallblogg um The Well of Loneliness

Þessa hinsegin daga halda Guðrún Elsa og Kristín Svava áfram spjalli sínu um hinsegin bókmenntir, að þessu sinni yfir einum ísköldum Rusty Chain. Umfjöllunarefni dagsins er skáldsagan The Well of Loneliness eftir Radclyffe Hall, sem kom út árið 1928. 

Það er forvitnilegt að skoða ólíkar
kápumyndir bókarinnar.
KST: The Well of Loneliness kom mér mjög á óvart; hún var allt öðruvísi en ég hafði búist við. Ég vissi ekkert um bókina áður en ég byrjaði að lesa hana nema að hún væri klassísk lesbísk skáldsaga og ég hef sennilega verið að búast við einhverju dálítið framúrstefnulegu og róttæku, ekki bara í pólitískum skilningi.

GEB: Það brjálaða við þetta ágæta verk er náttúrulega það hversu íhaldssamt það er á sama tíma og það fjallar um eldfimt efni. Stíllinn er hámelódramatískur og hugmyndafræðilega er Radclyffe Hall ekki róttækasta skeiðin í skúffunni – fyrir utan viðfangsefnið sjálft hefði bókin í rauninni getað verið skrifuð löngu fyrr. Kristín, vilt þú varpa ljósi á viðfangsefni bókarinnar?

KST: Gjarnan, gjarnan. The Well of Loneliness fjallar um efri stéttar konu að nafni Stephen Gordon. Hún er einkabarn foreldra sinna - þau bjuggust allan tímann við strák og voru búin að ákveða að skíra hann í höfuðið á heilögum Stefáni - og elst upp á mjög svo ensku sveitasetri fjölskyldunnar á öndverðri 20. öld. Nafnið er ekki það eina sem greinir Stephen frá öðrum konum; frá því í frumbernsku, og jafnvel alveg frá því í móðurkviði, virðist hún fremur tilheyra heimi karla en kvenna. Frá sjónarhorni móður hennar, sem kann ekki alls kostar við dóttur sína, er henni lýst sem einhvers konar afbakaðri eða ófullkominni útgáfu af föður sínum.

Faðir Stephen, Sir Phillip, sem er vægast sagt upphafin persóna, gefur henni hins vegar rými til þess að vera eins og hún vill, svo hún ríður klofvega á hestum út um allar koppagrundir og klæðir sig upp sem Nelson flotaforingi til að ganga í augun á vinnukonunni. Þrátt fyrir verndarhönd föður hennar tekur Stephen það ekki út með sældinni að vera öðruvísi en hún á að vera. Eftir að hún fullorðnast og faðir hennar deyr neyðist hún til að yfirgefa hið ástsæla sveitasetur Morton. Þótt hún öðlist ákveðna velgengni í starfi, fyrst sem sjúkrabílstjóri í fyrri heimsstyrjöldinni og síðar sem skáldsagnahöfundur (á kápu bókarinnar stendur að hún sé „the thinly veiled autobiography of Radclyffe Hall“, hvort sem það nú er rétt eða ekki) setur mikil togstreita mark sitt á allt líf hennar, ástarsambönd og önnur sambönd á fullorðinsárunum.

GEB: Stephen er að mörgu leyti sympatískur krakki en verður frekar óþolandi þegar hún fullorðnast, afskaplega heilög og mótfallin öllum ólifnaði og drykkju, upptekin af því að svokallaðir „inverts“ eða samkynhneigðir séu til fyrirmyndar í hvívetna og staðráðin í að sanna sig í samfélaginu þrátt fyrir að vera alltaf og hafa alltaf verið á skjön.

KST: Hún er í rauninni breskur aristókrat, nema ekki með typpi.

Vladimir Putin með (mísógynískum
 og transfóbískum???) hundi.
GEB: Einmitt. Hún er algjör karlpungur í sér, gegnsýrð af úr sér gengnum hugmyndum um kynin, heillast af kvenlegum týpum en gengur þeim hálfpartinn í föður- eða móðurstað. Radclyffe Hall upphefur karlmanninn upp að því marki að hundurinn hennar Stephen sækir frekar í hana en aðrar konur en hafnar henni svo af eðlishvöt þegar alvöru karlmaður mætir á svæðið. Hundurinn er semsagt bæði mísógynískur og transfóbískur.

KST: Já, það var með fáránlegri senum í bókinni. Og föðurlegar tilfinningar Stephen eru frekar óþægilegar: „go to sleep, my child“, segir hún einu sinni við ástkonu sína. Önnur sena þar sem mann langar mest að berja persónurnar er þegar Mary, kærastan hennar Stephen, fær sér staup af einhverjum kellingarlegum líkjör - ég man ekki hvort það var crème de menthe - og Stephen tekur það strax sem merki um að hið fordæmda líferni sé að breyta Mary úr barnslega saklausri stúlku í úrkynjaða og kaldhæðna persónu. Sem er, að hennar mati, afar slæmt.

Vegna þess hve allt umhverfið í bókinni er íhaldssamt og öll kynhlutverk rígbundin er erfitt að sjá hvort Stephen er hreinlega trans eða hvort hún vill bara ekki ganga inn í það efri stéttar kvenhlutverk sem henni er ætlað. Það er út af fyrir sig fullkomlega skiljanlegt, í þessum kreðsum eru konurnar allar meira eða minna taugaveiklaðar og eiga helst ekki að hugsa um neitt annað en blúndur og teboð. Mér varð hugsað til annarrar cross-dressing persónu sem var í uppáhaldi hjá mér í denn, Georgs í Fimmbókunum. Það að Georg vildi frekar tilheyra strákunum en stelpunum meikaði svo mikinn sens fyrir manni sem lesanda - Jonni og Júlli voru hugrakkir og yfirvegaðir, Anna var óstabíl og hræðslugjörn. Enid Blyton er hins vegar svo mikið kvikindi að hún minnir lesandann reglulega á að Georg er ekki alvöru strákur, með því að láta hana fara að gráta, sem strákarnir gera aldrei. Ég efast reyndar um að Blyton hafi verið að reyna að koma á framfæri byltingarkenndum skilaboðum um kynhneigðir eða kynhlutverk.

Þótt Georg sé meira sjarmerandi persóna en Stephen Gordon eiga þær ekki bara sameiginlegan íhaldssaman skapara heldur einnig ástrík sambönd við dýrin sín. Þegar Georg fór að gráta var það yfirleitt vegna þess að hundinum hennar, Tomma, var ógnað á einhvern hátt, og eins og aristókrata sæmir á Stephen í nánu sambandi við hestinn sinn, Raftery.

Ehem.
GEB: Talandi um hesta: fíllinn í herberginu er náttúrulega sú staðreynd að Radclyffe Hall var gyðingahatari og fasisti.

KST: Já, og rasisti líka, það kemur ágætlega fram í senunni þar sem bandarísku blökkumennirnir tveir syngja og spila negrasálma í íbúð í París. Þeir eru báðir mjög frumstæðir. Sem betur fer var hundurinn hennar Stephen ekki á svæðinu, hann hefði örugglega bitið þá.

GEB: Það sem er svo heillandi við þessa bók er þessi hrikalega íhaldssemi sem ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á. Bókin öll er einhvers konar ákall um að samkynhneigðir njóti sömu virðingar í samfélaginu og gagnkynhneigðir og Radclyffe lýsir mjög afdráttarlaust þeirri skoðun sinni að einhvern daginn verði það að veruleika, en á sama tíma er eins og hún noti allar úr sér gengnar og íhaldssamar hugmyndir samfélagsins til að gera boðskapinn meira aðlaðandi fyrir lesendur sína. Hún beitir líka melódramatískum brögðum til þess að sýna fórnfýsi, gæsku og sakleysi samkynhneigðra persóna í skarpri andstöðu við hatursfyllri persónur í samfélaginu. Ást hestsins á Stephen verður ein leið til þess að gera hana meira aðlaðandi. Góðu persónurnar í bókinni sjá strax að Stephen er góður og greindur einstaklingur, þá sérstaklega faðir hennar sem sýnir henni óbilandi stuðning og les sér til um kynvillu í þeirra tíma kynferðisfræðum til þess að skilja þetta undarlega afkvæmi sitt betur. Þetta eru svo skýrar andstæður; allir sem eru góðir skilja þetta, ekki þeir sem eru vondir. Mamma hennar verður að hálfgerðu skrímsli en það er líka vegna þess að hana skortir vitsmuni til þess að skilja flókna hluti eins og samkynhneigð.

KST: Stephen er svo mikill sonur föður síns.

GEB: Hún átti augljóslega að fæðast karlmaður; auðvitað þráði móðir hennar ekkert heitar en að ala eiginmanni sínum son (þráin verður að fullvissu og því var Stephen valið karlmannsnafn) og svo fæddist hún líka herðabreið og löng. Ég hef aldrei heyrt um þannig barn áður.

KST: Já, var ekki talað um „this tadpole of a baby“? Mjög myndrænt.

Á þessari kápumynd ber ekki mikið
á karlmannlegu útliti Stephens.
GEB: Upphafning á karlmanninum og hinu „karlmannlega“ fer á áhugaverðan hátt saman við fyrirlitningu á því sem er talið kvenlegt í skáldsögunni. Jack Halberstam hefur fjallað um þessa upphafningu hins karlmannlega í bæði körlum og konum snemma á tuttugustu öld, til dæmis í skrifum Otto Weininger sem taldi karlmannlega eiginleika í konum til marks um hátt menningarstig og gáfur. Halberstam bendir á að Gertrude Stein hafi verið hrifin af hugmyndum Weiningers um karlmannlega kvensnillinginn (og ekki látið gyðinga- og kvenhatur hans trufla sig), en persóna Stephen smellpassar líka inn í það samhengi, hún er karlmannlegur snillingur sem þarf kvenlega týpu til að hugsa um sig á meðan hún vinnur að meistaraverkum sínum. Svo er ekki bara gert lítið úr fögrum og fíngerðum en treggáfuðum konum í bókinni, heldur kemur fram skýr vanþóknun á ýmsu kvenlegu í fari samkynhneigðs vinar Stephens, Jonathans Brockett, sem henni þykir oft óttalega hégómlegur og ýktur. Þar að auki finnst henni mjög truflandi hvað hendur hans eru hvítar og mjúkar: „his hands were as white and soft as a woman's—she would feel a queer little sense of outrage creeping over her when she looked at his hands.“ (The Well of Loneliness, bls. 226)

KST: The Well of Loneliness hefur enda ekki notið neinnar sérstakrar fagurfræðilegrar virðingar síðan hún kom út. Hún er fyrst og fremst tengd pólitíska boðskapnum sem hún flytur. Fremst í bókinni er það ekki annar rithöfundur sem mærir bókina heldur Havelock Ellis, sem var fræðimaður fyrst og fremst og frumkvöðull í rannsóknum á kynjum og kynhneigðum.

Bókin fór fyrir dóm bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum og var bönnuð í Bretlandi til ársins 1949 á þeim forsendum að hún hefði ósiðleg áhrif og væri líkleg til að spilla hugum viðkvæmra einstaklinga (það er að segja kvenna og barna). Samkvæmt þessu viðmiði dómsvaldsins, sem kallað hefur verið Hicklin-prófið, var bókin í rauninni verri því betur sem hún var skrifuð, því hún var þá enn líklegri til að hafa áhrif á lesendur. Í tilviki The Well of Loneliness þótti umfjöllunarefnið eitt og sér mjög siðspillandi, ekki síst vegna þess að þrátt fyrir erfitt líf Stephens var samkynhneigðin sjálf sýnd í jákvæðu ljósi. Radclyffe Hall lýsir þeirri von sinni og sannfæringu mjög hreinskilnislega að í framtíðinni verði samkynhneigð talin fullkomlega eðlileg og samkynhneigðir fái uppreisn æru. Þetta fór sérstaklega illa í fólk. Fræg hafa orðið ummæli sem birtust í Sunday Express eftir útgáfu bókarinnar: „I would rather put a phial of prussic acid in the hand of a healthy boy or girl than the book in question.“ Það eru hins vegar alls engar dónalýsingar í bókinni - persónulega hefði ég alveg verið til í smá klám til að poppa þetta upp á köflum.

GEB: Já, ég held að dónalegasta mómentið hafi verið þegar í ljós kemur að ein kvenpersóna bókarinnar er viðskotaill að hluta vegna þess að hún er kynferðislegra ófullnægð á meðan kærastan hennar er alvarlega veik. En hún slekkur þann neista auðvitað á næsta bar með nokkrum glösum af crème de menthe. Ég veit ekki hvort klám hefði nægt til að bjarga bókinni þótt það hefði vissulega verið forvitnilegt að sjá hvernig Radclyffe Hall skrifaði þess konar texta. Það er hins vegar alveg á hreinu þegar ólíkar kápumyndir bókarinnar eru skoðaðar að útgefendur hafa gjarnan gefið í skyn að verkið væri dónalegra en það er og eflaust blekkt marga vongóða lesendur.

KST: Hvað sem segja má um gæði bókarinnar var það hugrakkt af Radclyffe Hall að gefa hana út. Vonandi fékk hún einhverja ánægju út úr því líka. Hún hefur allavega haft smekk fyrir hinu leikræna; sagan segir að kvöldið fyrir útgáfudaginn hafi hún látið ástkonu sína lesa upphátt fyrir sig úr The Ballad of Reading Gaol eftir Oscar Wilde.

Engin ummæli: