30. júní 2011

Öll mín fjölmörgu líf

Rithöfundurinn Edmund White er mikil kanóna í bandarískri samtímamenningu. Hann stendur nú á sjötugu og eftir hann liggur bústin ritaskrá. Sem ungur maður lærði hann kínversk fræði í háskólanum í Michigan og starfaði sem blaðamaður í New York áður en hann sneri sér alfarið að skáldskap og rannsóknum á lífi annarra rithöfunda. White hefur skrifað ýmislegt, meðal annars ellefu skáldsögur sem sumar hafa notið mikilla vinsælda. Sú fyrsta, Forgetting Elena, kom út 1973. Hún þykir vera nokkuð vel heppnuð satíra á kúltúr samkynhneigðra í Bandaríkjunum og raunar snúast flest skrif hans á einn eða annan hátt um vanda og vegsemd þess að vera hommi. Allir sem vildu vera hipp og kúl á áttunda áratugnum lásu Elenu. Nabokov lofaði hana í hástert og Susan Sontag sagði „loksins, loksins“.

Um áratugaskeið dvaldi White í Frakklandi við rannsóknir og hefur hann skrifað hnausþykkar ævisögur skáldanna Proust, Genet og Rimbauds. Hann hefur líka ritað ferðasögur, leikrit, kynlífsleiðbeiningarrit (The Joy of Gay Sex (1977)) og menningarrýni af ýmsu tagi. Þekktasta bókin hans er líklega A Boy´s Own Story (1982) sem hann byggði lauslega á eigin lífi. Þar kynnast lesendur unglingspiltinum Kevin, vaknandi líkama hans og óslökkvandi þrá. Oscar Wilde og Salinger í einni sæng sögðu sumir. White fylgdi sögunni eftir með tveimur öðrum sjálfsævisögulega innblásnum verkum The Beautiful Room is Empty (1988) og The Farewell Simphony (1997). Síðustu ár hefur White kennt í fínustu creative writing prógrömmunum vestanhafs meðfram sínum eigin skrifum, nú síðast í Princeton. White er mikill aktívisti og hefur barist fyrir HIV-smitaða allt frá því að veiran greindist fyrst í mönnum um 1980.

Ég hafði vitað af Edmund White í nokkur ár og lengi ætlað mér að lesa sjálfsævisöguleg skrif hans. Þegar ég sjálf fluttist á æskuslóðir hans varð það mitt fyrsta verk að verða mér út um eitt af hans nýrri verkum, My Lives: An Autobiography (2005).

White er uppalinn í Miðvestrinu, mekka landbúnaðar og iðnaðar – hjarta Ameríku sem dældi gylltum rjóma og holdmiklum steikum inn í þjóðarlíkamann ásamt því að sjá honum fyrir bílum og öðrum iðnaðarafurðum í massavís. Margar af stærri borgum Miðvestursins mega muna fífil sinn fegurri og hafa átt í erfiðleikum með að fóta sig í feni hnattvæðingar og annars fjára nútímans. Myndaseríur af niðurníddu iðnaðarhúsnæði sem eitt sinn ólgaði af sprelllifandi kapítalisma hafa vakið athygli. Fræg er til dæmis sería ljósmyndarans Sean Hemmerle, American Rustic Belt, sem sýnir meðal annars yfirgefnar verksmiðjur Detroit. Út úr þessum byggingum streymdu forðum gljáandi Buickar og Kadilakkar sem íslenskir sveitastrákar létu sig dreyma um. Nú er allt búið og Detroit eins og dauðs manns gröf.En nóg um það og aftur að White. Í My Lives dregur hann upp nákvæmar og oft kómískar myndir af fjölskyldu sinni og samferðamönnum. Lýsingar hans á foreldrum sínum eru sérlega athyglisverðar. Maður þráir ekki beinlínis að kynnast íhaldssömum vinnualkanum föður hans sem hlustaði á Brahms á kvöldin meðan hann snyrti á sér naglaböndin. Sálfræðingurinn móðir hans virkar frekar ógeðfelld í alla staði. Þau skildu þegar hann var sjö ára. White segir móður sína hafa girnst sig kynferðislega en sjálfur vildi hann helst af öllu sænga hjá föður sínum sem langaði mest í dóttur sína. Huggulegt.

Kynórar og kynlíf er þungamiðja My Lives. White lýsir því ítarlega þegar hann barn að aldri komst upp á sæmilegt lag með að veita sjálfum sér munngælur og við fáum að kynnast fyrstu elskhugum hans nokkuð náið. Við lauslegt gúgl má sjá að sumum lesendum finnst alltof miklu púðri eytt í þetta í bókinni og kann það vel að vera. En kynveran strúktúrerar lífið öðru fremur og á það einkar vel við í tilfelli White.

Ég ímynda mér að í dag sé erfitt að opinbera samkynhneigð í Miðvestrinu. Að minnsta kosti eru fréttir af hatursglæpum nokkuð tíðar og víða benda niðurstöður viðhorfskannana til þess að langt sé að bíða þess að hópurinn fái lagalega stöðu til jafns við gagnkynhneigða, hvað þá að fordómar verði kveðnir niður. Maður fær hreinlega hroll við það að hugsa um hvernig þessu var háttað fyrir hálfri öld eða svo þegar White var að byrja að skrifa. Samkynhneigð var af sálfræðingum enn talin vera einhverskonar röskun sem hægt væri að meðhöndla og formleg barátta hópsins fyrir réttindum hófst ekki fyrr en 1969 með Stonewall uppreisninni í New York sem White var reyndar þátttakandi í.

Tímabilið þegar HIV byrjar að grassera um 1980 er sögulega athyglisvert fyrir margra hluta sakir og í tilfelli White og vina hans er það sérstaklega harmrænt. Hvað gerir þú þegar þínir nánustu vinir byrja einn af öðrum að hrynja niður úr einhverri óskilgreindri óáran, sem enginn ber kennsl á, hvað þá að það sé til lækning? Það hlakkaði í sumum sem töldu að nú væri komið að skuldadögum og hommarnir myndu brenna í helvíti fyrir syndirnar. Fólk var hrætt og vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Veiran hjó fljótt skarð í raðir samkynhneigðra listamanna og rithöfunda í Bandaríkjunum. White greindist sjálfur árið 1985 og missti franskan elskhuga sinn til margra ára úr sjúkdómnum auk margra náinna vina. Hommar voru á ný orðnir viðfang læknavísindanna líkt og þeir höfðu verið allt fram á sjöunda áratuginn þegar sérfræðingar allra landa reyndu að finna lækningu við þessari óæskilegu hegðun. White hellti sér fljótt út í aktívisma. Hann var einn af þeim fyrstu sem kom opinberlega fram og sagðist vera smitaður. Í félagi við vini sína stofnaði hann samtök, lagði áherslu á að fræða og fjármagna rannsóknir. Í My Lives fjallar White aðeins stuttlega um þennan tíma enda hafði hann gert honum ítarleg skil í The Farewell Simphony.

Sá skýri munur sem White gerir á þessari sjálfsævisögu og þríleiknum sem hann byggði á lífi sínu er athyglisverður hvað varðar sannleiksástina. „Hér er ekkert skáldað“ segir hann í eftirmála My Lives á meðan hann útskýrir að í þríleiknum hafi hann ekki haldið fast í það sem raunverulega gerðist.

Stíllinn á My Lives er hnyttinn og spjallkenndur. Stundum kannski einum of. Eins og þú sitjir á Ölstofunni með málglaðan blaðamann í fanginu. Hann þyrstir í trúnó. En hann er aldrei leiðinlegur. My Lives er ábyggilega ekki besta bók Whites en hún er svo sannarlega lestursins virði og ég ætla að lesa allar hinar. Næst ævisögu Jean Genet. Meira síðar.

21. júní 2011

Raðmorðingjar og fjöldamorðingjar: Djöflastjarnan og Brotin egg

Um daginn las ég tvær nýútkomnar skáldsögur af því tilefni að ég var komin í einhvers konar sumarfrí. Mig langar að skrifa aðeins um þær báðar, af ólíkum ástæðum þó. Önnur er pottþéttur reyfari, sem ég mæli með fyrir þá sem langar að lesa einn slíkan – hin er vissulega áhugaverð, en ég veit ekki ennþá hvað mér finnst um hana. Mig langar svolítið að fá að vita hvað ykkur finnst. (Djöfull á kommentaþráðurinn eftir að loga!)

Djöflastjarnan er þriðja bók Jo Nesbø sem kemur út á íslensku, áður hafa komið út Rauðbrystingur og Nemesis. (Druslubókardaman Þorgerður E. Sigurðardóttir fjallar um Nemesis hérna.) Mér skilst að bókin sé í raun óbeint framhald hinna tveggja, svo ég hitti föður minn, sem er mikill aðdáandi bókanna, áður en ég byrjaði að lesa og fékk að vita svolítið um fyrri bækurnar tvær. Þá komst ég að því að fremur mikilvægt mál úr fyrri bókunum er gert upp í Djöflastjörnunni – maður þarf þó ekki að lesa þær til að hafa gaman af henni – maður kemst fljótt inn í málið þótt höfundur sé ekkert að rekja fyrri sögurnar neitt að ráði.

Bókin fjallar um tvennt sem mér finnst alveg sérstaklega skemmtilegt (í skáldskap, ekki raunveruleikanum): raðmorðingja og spillingu innan lögreglunnar. Ég ætla ekki að útlista söguþráðinn, bara nefna þetta tvennt og segja ykkur að ég varð mjög spennt við lesturinn. (Söguþræðinum eru gerð skil á vefsíðu Uppheima og aftan á bókinni sjálfri.) Leynilögreglumaðurinn Harry Hole er aðalpersóna bókarinnar. Ég var fyrst um sinn svolítið skeptísk á hann, mér fannst hann eiginlega of týpískur. „Drykkfelldur og óstýrilátur einstæðingur sem getur ekki haldið í konu, en er besti og heiðarlegasti lögleglumaðurinn á svæðinu“-týpan. Það góða við Harry er þó að hann er ekki myndarlegur eða sjarmerandi, heldur bara afskaplega óheflaður suddi, sem höfundur bregður upp mjög skemmtilegum myndum af. Í uppáhaldssenunni minni liggur Harry uppi í rúmi á (mögulegum) vettvangi glæps og verður grátklökkur og rís hold samtímis þegar minningar um fyrrverandi kærustu leita á hann (sjá bls. 86 í Djöflastjörnunni). Svoleiðis senur björguðu þessum ágæta lögreglufulltrúa frá því að verða klisjukenndur.

Hin bókin sem ég las er Brotin egg, fyrsta skáldsaga breska rithöfundarins Jim Powell. Powell er rétt rúmlega sextugur, menntaður sagnfræðingur og með bakgrunn í pólitík (á heimasíðu hans kemur fram að hann hafi verið virkur í breska Íhaldsflokknum á 9. áratugnum). Bókin ber þessum áhuga á sögu og stjórnmálum svo sannarlega vitni. Hún fjallar um pólska vinstrimanninn Feliks, höfund ferðahandbókar um Austantjaldslöndin, sem stendur frammi fyrir því að þurfa að endurskoða lífsviðhorf sín eftir fall múrsins. Samhliða því breytist öll tilvera hans: Á meðan hann íhugar pólitík fortíðarinnar, fer hann að grennslast fyrir um afdrif fólks sem hann þekkti fyrir mörgum árum, fyrir seinna stríð og áður en múrinn reis. Smám saman setur Feliks, sem hefur alla tíð haft meiri áhuga á hugmyndum en fólki, sögulega atburði í samhengi við persónulega sögu sína og fólksins sem hann þekkir.

Eins og Friðrika Benónýsdóttir bendir á í dómi sínum um bókina í Fréttablaðinu er „mikið lagt upp úr því að leggja að jöfnu kommúnisma og nasisma“ í bókinni. Bókin fjallar mikið nasismann, sem Feliks hefur alltaf hatað, og það hvernig honum er smám saman komið í skilning um það að fólkið sem hefur búið undir stjórn kommúnista undanfarna áratugi hafi þjáðst á sambærilegan hátt og fórnarlömb Hitlers. (Fjöldamorðingjarnir í titli þessa bloggs eru sem sagt Hitler og Stalín. – Titill bókarinnar sjálfrar, Brotin egg, vísar til ummæla harðbrjósta kommúnista þegar þeir heyrðu af grimmdarverkum Stalíns: „maður matreiðir ekki eggjaköku án þess að brjóta egg“ (Brotin egg, bls.184)).

Mér fannst niðurstaða bókarinnar reyndar bara vera hin margtuggna klisja: kapítalískt samfélag er það besta sem völ er á. Það er að minnsta kosti sú niðurstaða sem flestar persónur bókarinnar hafa komist að. Og æ, ég tek sénsinn á að hljóma eins og argasti kommúnisti: mér finnst það bara ekkert sérlega spennandi niðurstaða. Bókin er samt sem áður ágæt og alls ekki leiðinleg. Nú vil ég heyra hvað ykkur finnst.

*Á meðfylgjandi mynd er ég með brotið (og að vísu harðsoðið) egg og bókina Brotin egg.

9. júní 2011

Hvaða höfundar koma á bókmenntahátíð?

Mörgum finnst spennandi að frétta hvaða erlendir höfundar koma á Bókmenntahátíð í Reykjavík og hér fyrir neðan er því ljóstrað upp hvaða höfundar mæta á næstu hátíð!

Hátíðin verður sett í tíunda sinn miðvikudaginn 7. september. Þemað í ár er norrænn sagnaarfur, lifandi samtímabókmenntir og hátíðin í ár verður tileinkuð minningu Thors Vilhjálmssonar.

Dagskráin fer fram í Norræna húsinu og í Iðnó. Í Norræna húsinu verða hádegisviðtöl, málstofur og fyrirlestrar, en á dagskránni þar eru líka Íslendingasagnaþing og útgefendamálþing. Í Iðnó munu höfundar lesa úr verkum sínum á kvöldin auk þess sem haldið verður bókaball í Iðnó, laugardagskvöldið 10. september. Þá munu einnig verða dagskráratriði tengd Bókmenntahátíð í Reykjavík í Háskóla Íslands og í Borgarbókasafninu.

Erlendir höfundar sem taka þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2011 eru:

Herta Müller (1953), þýskumælandi rithöfundur frá Rúmeníu. Hún hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 2009. Skáldsaga hennar Ennislokkar einvaldsins kom út í íslenskri þýðingu árið 1995. Í haust er væntanleg íslensk þýðing nýjustu skáldsögu hennar, Atemschaukel hjá Ormstungu.

Nawal El Saadawi (1931), egypsk skáldkona, höfundur yfir 50 skáldverka, og einn af nafntoguðustu mannréttindafrömuðum Egyptalands. Hún kemur hingað í sameiginlegu boði Bókmenntahátíðar og Rannsóknarstofnunar í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.

Horacio Castellanos Moya (1957), smásagna- og skáldsagnahöfundur frá El Salvador og þykir einn mikilvægasti rithöfundur Mið-Ameríku um þessar mundir. Skáldsaga hans Insensatez er væntanleg í íslenskri þýðingu í haust hjá Bjarti.

Pia Tafdrup (1952), dönsk skáldkona. Árið 1999 hlaut hún Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir ljóðabók sína Dronningporten (Drottningahliðið). Ein þekktasta ljóðabók hennar er Krystalskoven, sem kom út árið 1992, en auk ljóðabóka hafa frá henni komið skáldsögur og leikrit.

Vikas Swarup (1963), indverskur rithöfundur, þekktastur fyrir metsölubókina Viltu vinna milljarð sem varð síðar að margverðlaunaðri óskarskvikmynd. Önnur skáldsaga hans Sex grunaðir kom út í íslenskri þýðingu árið 2009.

Alexis Wright (1950), áströlsk skáldskona af frumbyggjaættum. Hún gaf út bókina Carpenteria árið 2006 sem hlaut fjölda bókmenntaverðlauna í Ástralíu árið 2007 og hefur henni verið lýst sem 100 ára einsemd og Sjálfstæðu fólki Ástrala.

Denise Epstein (1929) kemur í sameiginlegu boði Bókmenntahátíðar og Alliance Française og kynnir gleymd verk móður sinnar, frönsku skáldkonunnar Irène Némirovsky, sem hafa nýlega verið enduruppgötvuð. Í haust kemur út hjá Forlaginu bók eftir Némirovsky í íslenskri þýðingu og einnig verður sett upp ljósmyndasýning.

Ingo Schulze (1962) þykir meðal bestu skáldsagnahöfunda Þýskalands en hann fjallar gjarnan um togstreituna sem myndaðist eftir sameiningu Þýskalands. Hann gaf út sína fyrstu bók árið 1995 og hlaut fyrir hana þýsku bókmenntaverðlaunin. Í haust kemur út hjá Forlaginu bókin Adam und Evelyn. Schulze var áður gestur Bókmenntahátíðar árið 2000.

Karl Ove Knausgård (1968), norskur rithöfundur sem hefur slegið í gegn með sjálfsævisögulega verki sínu Min kamp sem kom út í sex bindum. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín, meðal annars norsku Brage verðlaunin, norsku gagnrýnendaverðlaunin auk þess að hafa verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Kristof Magnusson (1976), þýsk-íslenskur rithöfundur og þýðandi. Hann hefur þýtt fjölda íslenskra bóka, m.a. Grettissögu, verk Einars Kárasonar og Steinars Braga. Fyrsta skáldsaga hans kom út árið 2005 og önnur skáldsaga hans frá árinu 2010, Das was ich nicht, hlaut afar góðar dóma og er væntanleg í íslenskri þýðingu hjá Forlaginu á næsta ári.

Matt Haig (1975), breskur blaðamaður og rithöfundur. Hann skrifar í gamansömum tón og hefur fært tvö verka Shakespeare í annan búning í skáldsögum sínum. Í öðru tilvikinu lét hann aðalpersónurnar í Hinriki IV vera hunda. Hjá Bjarti er væntanleg í íslenskri þýðingu í haust bókin The Radleys.

Paolo Giordano (1982), ítalskur rithöfundur og öreindafræðingur sem sló í gegn með fyrstu bók sinni Einmana prímtölur sem kom út í íslenskri þýðingu hjá Bjarti. Fyrir þá bók hlaut hann ítölsku bókmenntaverðlaunin. Í fyrra kom út kvikmynd byggð á sögunni sem sömuleiðis hlaut góðar viðtökur.

Sara Stridsberg (1972) er sænskur rithöfundur og þýðandi. Hún hefur skrifað þrjár skáldsögur og hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Drömfakulteten árið 2007 en í henni segir frá síðustu dögum Valerie Solanas.

Steve Sem-Sandberg (1957) er sænskur rithöfundur og gagnrýnandi. Hann gaf út sína fyrstu skáldsögu árið 1976 og hefur síðan skrifað bæði skáldsögur og ritgerðir. Hann var tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir bókina De fattiga i Lódz og hlaut jafnframt fyrir hana Augustpriset í Svíþjóð. Bókin er væntanleg á íslensku hjá Uppheimum.

Uwe Timm (1940) er þýskur og hefur gefið út fjölda skáldsagna. Hann er afar vinsæll í Þýskalandi og hefur bók hans um uppruna curry pylsunnar (Die Entdeckung der Currywurst) átt mikilli velgengi að fagna þar í landi. Timm hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín.

Jæja, hvernig líst ykkur á? Hefur einhver blogglesenda lesið bók Uwe Timm um uppruna Currywurst? Ég viðurkenni fúslega að ég er illa lesin í verkum þessara höfunda, hef líklega bara lesið eina heila bók eftir einn höfundanna, Söru Stridsberg. Ég reyndi fyrir ekki svo löngu að lesa smásagnasafn eftir Ingo Schulze en fannst það ekki nógu spennandi svo ég hætti og svo hef ég gluggað í Swarup.

Stjórn Bókmenntahátíðar er skipuð átta körlum og einni konu. Þau eru: Þorgerður Agla Magnúsdóttir, Sigurður G. Valgeirsson, Einar Kárason, Halldór Guðmundsson, Max Dager, Pétur Már Ólafsson, Óttarr Proppé, Sjón og Örnólfur Thorsson.

7. júní 2011

Tvær bækur eftir Kristian Lundberg

Þessa dagana er ég að þýða spennandi ævintýraglæpasögu (hátt á fimmta hundrað síður) sem gerist vítt og breitt um Evrópu, ofanjarðar og neðan- og menn þvælast alla leið til Norðurpólsins í loftbelg (Jules Verne hittir Dan Brown?). Þegar ég er sokkin í svoleiðis verk finnst mér mjög gott að lesa eitthvað allt annað og öðruvísi til að hvíla mig á æsilegum atburðum með tilheyrandi eltingaleikjum, blóðslettum og grunsamlegum karakterum og undanfarið hef ég verið óvenju heppin með hvíldarlestur.

Nýlega rakst ég fyrir tilviljun á viðtal við sænskan höfund, Kristian Lundberg, sem var að gefa út bók sem heitir Och allt skall vara kärlek. Ég fékk áhuga, útvegaði mér eintak, byrjaði að lesa og bókin er ein þeirra sem hafa algjörlega gripið mig, hún er býsna góð. Þetta er stutt og vel skrifað verk (ég myndi kannski skrifa ljóðræn ef ég héldi ekki að það myndi misskiljast og þið hélduð þá að þetta væri eintóm uppskrúfuð og ofstuðluð tilgerð – það er þvert á móti), á rétt rúmum hundrað síðum rúmast stéttaátök, innri átök, risastór ást, tilfinningar, uppgjör og geðveiki. Och allt skall vara kärlek er sjálfstætt framhald annarrar bókar, Yarden (2009) en mér finnst hún ekki beint vera framhald, hún er meira svona tilbrigði við sömu sögu. Auðvitað þurfti ég því líka að ná mér í fyrri bókina og Bókasafn Norræna hússins var svo elskulegt að panta hana. Yarden fékk árið 2010 bókmenntaverðlaun í Svíþjóð og það á hún svo sannarlega skilið (ég verð smá hissa ef framhaldið fær ekki líka einhver verðlaun).

Ef ég byrja á fyrri bókinni þá fjallar Yarden um líf skítblanka rithöfundarins Kristians Lundbergs sem vinnur sem daglaunamaður (já, hann er alvöru daglaunamaður því hann starfar hjá mönnunarfyrirtæki í tímavinnu) í bílageymslu við höfnina í Malmö. Vinnuaðstæður eru hörmulegar, maður gæti haldið að þetta væri á millistríðsárunum slík er meðferðin á verkamönnunum sem flestir eru útlendingar. Jafnframt því að höfundurinn stígur niður á plan sem hann var staddur á löngu áður og stundar verkamannavinnu þá stígur hann líka niður til bernsku- og æskuáranna sem voru enginn sænskur krúttveruleiki með ljóshærðum Lottum sem stela eplum í fögrum görðum og trallandi mæðrum þeirra sem þurrka af og baka snúða til skiptis. Móðirin er veik af skitsófreníu og getur ekki hugsað um börnin sín fimm, pabbinn (sem er einhvers konar "betri borgari") er stunginn af og Kristian eignast glæpamenn sem vini, dópar og drekkur sér til óbóta, dílar, stelur og hegðar sér eins og sjúkur skíthæll jafnframt því að skrifa.

Och allt skall vara kärlek
(sem er glæný) er á kápunni sögð sjálfstætt framhald Yarden, en mér finnst hún allt eins geta verið á undan henni (þannig las ég þær og fannst það ljómandi fyrirkomulag), hún segir að hluta sömu sögu frá öðru sjónarhorni. Sagan segir frá því sem er að gerast í nútímanum og því sem gerðist áður en hann var að vinna á ömulegu bílaplönunum í Malmö og stóra ástin sem Kristian yfirgaf tuttugu árum áður birtist aftur (í millitíðinni bjó hún á Íslandi). Svíar eru duglegir að skrifa stéttameðvitaðar sögur þar sem bakhliðum hinnar svokölluðu velferðar er lýst og þessar bækur falla í flokk þannig bóka (alltaf er verið að sortera og flokka). Bækurnar tvær eru samt sumpart merkilega ólíkar bæði hvað varðar efni og stíl. Í Yarden er áherslan meira á samfélagið og hún er myrkari en Och allt skall vara kärlek, þar sem sjónarhornið beinist meira að einstaklingnum. Kristian Lundberg klúðrar lífi sínu, missir ástina út af dópneyslu og rugli, hann er með allskonar ömurlega atburði í farangrinum en réttir sig samt af. Hann á son sem hann býr með og hugsar um og speglar sig líka í, hann uppgötvar sér til hryllings að þegar hann var á sama aldri og barnið hans seldi hann dóp, drakk landa og var smákrimmi á götunni. Þó að Kristian Lundberg sé með slæma samvisku og þurfi að sættast við eigin fortíð þá er ekki ein arða af sjálfsvorkun í þessum bókum, meðal annars þess vegna eru þær svo töff.

P.S. Hér er krækja á viðtal síðan í fyrra við Kristian Lundberg þar sem hann minnist meðal annars á þegar hann skrifaði gagnrýni um bók sem kom aldrei út.

2. júní 2011

Skuggaleiðir í Nexus

Mér finnst svo gaman að fara í verslanir þar sem starfsfólkið hefur mikla þekkingu á vörunum sem þar eru seldar. Og ég held ég hafi aldrei farið í búð þar sem starfsfólkið hefur jafn yfirgripsmikla þekkingu á vörunum sem eru á boðstólnum og í nördabúðinni Nexus.

Við kærastinn fórum þangað um daginn og ætluðum að finna okkur eitthvert skemmtilegt borðspil, en úrvalið var þvílíkt að okkur féllust bókstaflega hendur og við hrökkluðumst tómhent í bókahornið. Þar kennir margra grasa og úrvalið meira en marga myndi gruna. Þar má t.d. finna verk Brontë-systra, allt höfundaverk Jane Austen stillt upp við hliðina á Pride, Prejudice & Zombies og svo auðvitað Twilight, stafla af bókum eftir Neil Gaiman og fullt fullt fullt af fantasíum.

Á meðan ég fletti myndabók eftir Audrey Niffenegger vatt starfsmaður sér upp að kærastanum og spurði:

„Get ég aðstoðað ykkur?“

Mig rekur ekki minni til að þetta hafi nokkurntímann hent mig í bókabúð áður, en við náðum að halda andliti og kærastinn sagðist vera að leita að einhverri skemmtilegri fantasíu.

„Viltu einhverja djúpa eða bara page turner?“ spurði afgreiðslumaðurinn.*

Kærastinn bað um eitthvað auðmelt.

Starfsmaðurinn benti honum á nokkrar bækur og sagði honum í stuttu máli frá kostum þeirra og göllum og mælti að lokum sérstaklega með einni sem heitir The Way of Shadows eftir Brent Week og er fyrsta bókin í þríleik. Við ákváðum að treysta sérfræðingnum og keyptum hana, þrátt fyrir að kápan væri svo lummó að við hefðum aldrei í lífinu valið hana úr hillunni sjálf.

Kærastinn spændi í gegnum hana á u.þ.b. tveimur sólarhringum þegar hann átti að vera að læra undir próf og fór strax að lestri loknum og keypti næstu tvær í seríunni. Þegar ég lagðist svo nýverið með ógeðslega flensu og gat loks á þriðja degi hugsað mér að gera eitthvað annað en að liggja uppi í rúmi með lokuð augun og hlusta á This American Life podcastið, þá otaði kærastinn bókinni að mér.

Og það var engu logið um flettihraðann, því það lá við að mig langaði að lengja veikindafríið og vera heima og klára bókina.

Söguþráðurinn er svo flókinn að ég nenni enganveginn að tíunda hann hér og leyfi mér því að stela beint frá Wikipedia-síðu bókarinnar.

The story takes place in Cenaria City, the capital of Cenaria, which is located in the fictional land of Midcyru. It centers upon Azoth, a guild rat who seeks an apprenticeship with Durzo Blint, the city's most accomplished wetboy (an assassin with slight magical talent, such as the ability to muffle sound, or to block an attack with your mind).

Plottið er meira að segja svo flókið og persónur svo margar að stundum vissi ég ekki alveg hvað sneri upp eða niður í sögunni, en einhvernveginn kom það ekki að sök.

Semsagt, hin fínasta afþreying í veikindum eða í ferðalagið, sérstaklega fyrir þá sem er komnir með leið á krimmum.

Og svo var hún svo billeg líka, kostaði ekki nema 1.199 kr.

Áfram Nexus!


*Auðvitað sletti hann á ensku, einsog allir alvöru íslenskir lúðar.