29. apríl 2013

Um ástarævintýri læknisfrúar, bælda höfunda og samfarir við Mr. Bean

Brian Moore (1921–1999) fæddist inn í strangtrúaða fjölskyldu í Belfast en flutti frá Írlandi á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og settist að í Kanada árið 1948 þar sem hann vann sem blaðamaður og skrifaði draslbækur undir dulnefnum fram á sjötta áratuginn. Árið 1955 kom út fyrsta bók hans undir eigin nafni, The Lonely Passion of Judith Hearne og síðan fylgdu um tveir tugir skáldsagna, þrjár þeirra lentu á Booker-listanum og fleiri viðurkenningar fékk Moore og eftir nokkrum verka hans voru líka gerðar bíómyndir. Fyrsta bók Moore sem komst á Booker-listann var The Doctor’s Wife, sem kom út 1976, en internetslúður segir mér að einn valdamikilla dómnefndarmeðlima, Mary Wilson, eiginkona forsætisráðherrans Harold Wilson, hafi heimtað að hafna bókinni vegna berorðra kynlífslýsinga. Moore ku hafa verið í uppáhaldi hjá mörgum skáldbræðrum, Anthony Burgess setti til að mynda The Doctor's Wife á lista yfir bestu skáldsögur eftirstríðsáranna.

24. apríl 2013

Saga samfélagsverkfræðings

Ég hef nýlokið við ævisögu Ölvu Myrdal, Det tänkande hjärtat, eftir Yvonne Hirdman, prófessor í sagnfræði sem notar sjónarhorn kynjafræðinnar í sínum rannsóknum. Bókin kom út fyrir örfáum árum á sænsku og er líka til á ensku. Ekki veit ég hversu vel lesendur þessa bloggs þekkja til hjónanna og Nóbelsverðlaunahafanna Gunnars (hagfræði 1974 ásamt Hayek) og Ölvu Myrdal (friðarverðlaunin 1982), en slái maður nafn Ölvu inn á timarit.is kemur upp 221 grein, "Gunnar Myrdal" birtir 282 og sonur þeirra "Jan Myrdal" kemur upp 124 sinnum á timarit.is.

Hjónin Ölvu Myrdal (1902-1986) og Gunnar Myrdal (1898-1987) má segja meðal helstu hönnuða sænska velferðarkerfisins en auk þess komu þau víða annars staðar við á löngum ferli. Bók þeirra Kris i befolkningsfrågan (1934) er lykilverk en þar er því haldið fram að mikilvægt sé að foreldrar deili ábyrgð á barnauppeldi með uppeldismenntuðu fólki og samfélaginu öllu. Í kjölfar útkomu bókarinnar varð Alva einn stofnenda og rektor Socialpedagogiska Seminariet, skóla sem menntaði fóstrur, en þar lærði m.a. fröken Þórhildur Ólafsdóttir sem varð forstöðukona á Tjarnarborg, leikskóla Sumargjafar í Reykjavík. Alva, sem var menntaður sálfræðingur, byggði kennsluna á nýjustu rannsóknum í uppeldisfræðum og jafnframt því að búið væri sem best að börnunum var því haldið fram að það væri mikilvægt að mæður barnanna fengju að njóta sín og þroska sína hæfileika og áhugamál. Konur áttu sem sé ekki að þurfa að velja á milli barneigna og launaðra starfa. Leikskóla, barnabætur, ókeypis hádegismat í skólana og almennilegt húsnæði með þvottavélum og tilheyrandi þurfti til að þetta næði fram að ganga. Árið 1938 fluttu Alva og Gunnar til Bandaríkjanna og þar skrifaði hún bókina Nation and family (1941) sem fjallar um sænska fjölskyldupólitík en eftir það voru þau mikið á flakki milli landa og bjuggu ýmist í Svíþjóð eða annars staðar í heiminum. Myrdal-hjónin eru ekki síst umdeild fyrir skoðun sína á ófrjósemisaðgerðum en þau töluðu fyrir því að fólk væri gert ófrjótt að því forspurðu ef það þætti ekki hæfir foreldrar.

22. apríl 2013

Martin snýr aftur

Á kápu nýjustu bókar Steinunnar Sigurðardóttur, Fyrir Lísu, má lesa að þetta sé sjálfstætt framhald Jójó sem kom út fyrir jólin 2011. Þetta er vissulega framhald en ansi hæpið að kalla það sjálfstætt. Nú er komið rúmt ár síðan ég las Jójó og strax á fyrstu síðum Fyrir Lísu var ég komin í vandræði – ég mundi ekkert hver Luftpabbi og Mammasomm voru og ég var meira að segja búin að gleyma að besti vinur aðalsöguhetjunnar Martins heitir einmitt Martin. Þetta allt saman ruglaði mig algjörlega í ríminu fyrstu 20 blaðsíðurnar eða svo. Smám saman rifjaðist þó fortíð persónunnar upp fyrir mér en ég er hrædd um að fyrir þann sem ekki hefur lesið Jójó verði róðurinn þyngri. Hin augljósa lausn væri kannski bara að lesa Jójó fyrst – enda dásamleg bók.

7. apríl 2013

Í leit að fegurð - The Line of Beauty eftir Hollinghurst

Á dögunum fór ég í langferð, í tvennum skilningi, fór bæði langt og dvaldist þar lengi. Í svoleiðis ferðum gefst manni gjarnan góður tími til að lesa og mér tókst að sporðrenna heilum níu bókum á meðan á ferðalaginu stóð. Bækurnar reyndust flestar góðir ferðafélagar og fyrir konu sem hefur vanrækt blogg þetta í ógurlega langan tíma er ekki úr vegi að dúndra inn færslum um nokkrar vel valdar.

Fyrstan skal telja doðrantinn The Line of Beauty eftir Alan Hollinghurst, sem ég tók með mér einmitt vegna þess að bókin er upp á fimmhundruð síður og var þar af leiðandi líkleg til að endast dágóða hríð. Fyrir bókina hlaut Hollinghurst Booker-verðlaunin árið 2004 og henni hefur verið haldið á lofti sem einni merkustu ensku skáldsögunni frá aldamótum. Í myndaleit fyrir þessa bloggfærslu komst ég að því að árið 2006 var gerð þáttaröð á BBC eftir bókinni, sem hljómar dálítið undarlega þar eð styrkur skáldsögunnar liggur í tungumálinu og því hvernig höfundurinn sýnir okkur inn í sálarlíf Nicks Guest, en Nick er aðalpersónan og sjónarhornið bundið við hann. Mig langar að sjá þessa þáttaröð til þess aðallega að komast að því hvernig unnið var með þetta allt saman og hvort það gengur upp í sjónvarpsformi. Skáldsagan segir frá stuttu tímabili á sitt hverju árinu; fyrsti kaflinn heitir "The Love-Chord" og gerist árið 1983 skömmu eftir gríðarlegan kosningasigur breska íhaldsflokksins, "To Whom Do You Beautifully Belong?" gerist þremur árum síðar og lokakaflinn "The End of the Street" árið 1987 skömmu fyrir þingkosningar. Þegar sagan hefst er Nick tiltölulega nýorðinn gestur á heimili Fedden-fjölskyldunnar í Notting Hill-hverfinu í London. Hann hefur nýlokið námi við Oxford-háskóla ásamt dáðadrengnum Toby Fedden sem kemur úr virtri íhaldsfjölskyldu; faðirinn Gerald er þingmaður íhaldsflokksins og harður stuðningsmaður forsætisráðherrans Margaret Thatcher. Á heimilinu eru einnig Rachel Fedden, kona Geralds, sem er af gamalgróinni enskri lávarðaætt, og dóttirin Catherine sem hefur átt við geðræna erfiðleika að stríða og prófar sig áfram með ýmiss konar uppreisnir við almennt áhugaleysi foreldranna. Nick er sjálfur úr miðstéttarfjölskyldu - faðir hans er antíksali sem hefur unnið mikið fyrir efristéttarfólk - og er þannig utanaðkomandi í þessu samfélagi forréttindafólks, ríkidæmis og valds. Eftirnafnið Guest vísar greinilega til stöðu hans í Thatcher-kreðsunum á 9. áratugnum. Það er þó ekki aðeins uppruninn sem gerir það að verkum að Nick er utanveltu heldur er hann einnig samkynhneigður og er þegar sagan hefst hálfvegis kominn út úr skápnum, svona eins og í boði var árið 1983 í Bretlandi, einungis 15 árum eftir að afnumin voru lög sem gerðu kynlíf samkynhneigðra refsivert.

5. apríl 2013

Sinnið vel, telpur, gjöfum listagyðju: Um bókmenntasögu og kvenhöfunda

Þættinum hefur borist svargrein eftir Hjalta Snæ Ægisson, bókmenntafræðing og stundakennara við Háskóla Íslands, við grein Grétu Kristínar Ómarsdóttur frá 28. mars.

Enhedúanna var kona og hofgyðja. Og skáld.
Grein Grétu Kristínar Ómarsdóttur sem birtist hér á síðunni á dögunum hefur vakið verðskuldað lof, enda stórmerkileg hugvekja og hreinn skemmtilestur. Tilefnið er þó ekki beinlínis skemmtilegt. Í greininni er vakin athygli á nær algjörum skorti á kvenhöfundum í námskeiðinu Bókmenntasaga sem kennt er uppi í Háskóla. Hvernig er þetta mögulegt í Háskóla Íslands árið 2013? spyr fólk. Spurningin á fullan rétt á sér, og mig langar að bregðast við henni hér, reyna að útskýra mína sýn á málið, í stað þess að þegja gagnrýnina í hel eða skrifa einhverja froðu í kommentakerfið þar sem ég segist „fagna umræðunni“ og „skilja reiðina“. Námskeiðið Bókmenntasaga er eitt af flaggskipum almennu bókmenntafræðinnar og því eðlilegt að fólk reki upp stór augu þegar það sér staðreyndirnar sem Gréta Kristín teflir fram máli sínu til stuðnings. Er annar eins kynjahalli boðlegur í námskeiði sem gefur sig út fyrir að vera yfirlit yfir vestræna bókmenntasögu?

Almenn bókmenntafræði var stofnuð sem sérstök fræðigrein við Háskóla Íslands árið 1971. Samanborið við önnur hugvísindafög við Háskólannheld ég að hún hafi alltaf staðið ágætlega þegar kemur að kynjafræðilegum áherslum og kvennabókmenntum. Þarna stóðu Helga Kress og Álfrún Gunnlaugsdóttir vaktina í áratugi og á seinni árum hafa ýmsir góðir fræðimenn sinnt kvenhöfundum með einum eða öðrum hætti innan vébanda almennu bókmenntafræðinnar. Alda Björk, Sif og Úlfhildur koma strax upp í hugann, eflaust má nefna fleiri.

Námið í almennu bókmenntafræðinni er nú byggt upp með fimm skyldunámskeiðum og svo valkúrsum til að dekka afganginn. Af skyldunámskeiðunum fimm er bókmenntasagan eitt, en til viðbótar má nefna að nemendur þurfa að velja annað námskeiðið af tveimur, Grískar bókmenntir eða Latneskar bókmenntir, í því sem kallað er „bundið val“. Þessi þrjú námskeið eru kjarni þess sem kalla má kalla karllægar elítubókmenntir í náminu og kvenhöfundar sjást sjaldan á leslistum þessara námskeiða (þótt skáldkonan frá Lesbey eigi alltaf sinn vísa stað). Ekkert er því til fyrirstöðu að nemendur velji bæði Grískar bókmenntir og Latneskar bókmenntir, en það gera fæstir. Í tilviki venjulegs nemanda er því hér um að ræða 20 einingar af þeim 180 sem BA-gráðan umfaðmar, eða rétt rúm 11 prósent.

2. apríl 2013

Afdrif okkar

Ég hafði aldrei verið í leshring þar til fyrir stuttu, að ég gerðist stofnmeðlimur tveggja manna leshringsins Dauði og ógeð. Nafnið segir allt sem segja þarf; við leshringskonur erum báðar sérlegar áhugamanneskjur um hvers kyns subbuskap og (það sem þröngsýnar manneskjur kalla) sjúkleg málefni, gjarnan með sagnfræðilegu ívafi. Fyrsta bókin sem ég las í tengslum við þennan nýja leshring var Stiff. The Curious Lives of Human Cadavers eftir hina bandarísku Mary Roach. Mér þykir ekki ólíklegt að Roach verði reglulegur gestur leshringsins, en hún hefur einnig skrifað bækur á borð við Gulp. Adventures on the Alimentary Canal og Bonk. The Curious Coupling of Science and Sex.

Eins og undirtitillinn gefur til kynna fjallar Stiff um það sem verður um líkama okkar eftir að við deyjum. Þannig fjallar Roach nokkuð fyrirsjáanlega um grafarræningja, líffæraflutninga, krufningar og líkbrennslu, en einnig um ókunnuglegri fyrirbæri á borð við múmíuát í lækningatilgangi (sem ég var einmitt nýbúin að lesa um í sagnfræðiriti sem var of virðulegt til að leyfa sér frekari umfjöllun um þetta forvitnilega mál, svo ég var mjög kát með ítarlega umfjöllun hjá Roach, en lyf úr múmíum og hunangslegnum mannslíkömum voru innbyrt við hinum fjölbreytilegustu krankleikum langt fram eftir öldum).

Stór hluti bókarinnar er helgaður vísindalegum tilraunum sem gerðar eru á líkum, sumum góðum og gagnlegum en öðrum andstyggilegum, þá einkum tilraunum sem ganga út á að komast að því hvaða stríðsvopn gagnast best til eyðileggingar á mannslíkamanum. Roach segir frá átakanlega hræsnisfullum en fullkomlega alvarlegum deilum um það hvort það sé siðferðislega réttlætanlegt að nota mannslík í vopnaþróunartilraunum, og þá út frá sjónarhorni líksins en ekki þeirrar lifandi manneskju sem á endanum verður fyrir vopninu.