Ég hef nýlokið við ævisögu Ölvu Myrdal,
Det tänkande hjärtat, eftir Yvonne Hirdman, prófessor í sagnfræði sem notar sjónarhorn kynjafræðinnar í sínum rannsóknum. Bókin kom út fyrir örfáum árum á sænsku og er
líka til á ensku. Ekki veit ég hversu vel lesendur þessa bloggs þekkja til hjónanna og Nóbelsverðlaunahafanna Gunnars (hagfræði 1974 ásamt Hayek) og Ölvu Myrdal (friðarverðlaunin 1982), en slái maður nafn Ölvu inn á timarit.is kemur upp 221 grein, "Gunnar Myrdal" birtir 282 og sonur þeirra "Jan Myrdal" kemur upp 124 sinnum á timarit.is.
Hjónin Ölvu Myrdal (1902-1986) og Gunnar Myrdal (1898-1987) má segja meðal helstu hönnuða sænska velferðarkerfisins en auk þess komu þau víða annars staðar við á löngum ferli. Bók þeirra
Kris i befolkningsfrågan (1934) er lykilverk en þar er því haldið fram að mikilvægt sé að foreldrar deili ábyrgð á barnauppeldi með uppeldismenntuðu fólki og samfélaginu öllu. Í kjölfar útkomu bókarinnar varð Alva einn stofnenda og rektor Socialpedagogiska Seminariet, skóla sem menntaði fóstrur, en þar lærði m.a. fröken Þórhildur Ólafsdóttir sem varð forstöðukona á Tjarnarborg, leikskóla Sumargjafar í Reykjavík. Alva, sem var menntaður sálfræðingur, byggði kennsluna á nýjustu rannsóknum í uppeldisfræðum og jafnframt því að búið væri sem best að börnunum var því haldið fram að það væri mikilvægt að mæður barnanna fengju að njóta sín og þroska sína hæfileika og áhugamál. Konur áttu sem sé ekki að þurfa að velja á milli barneigna og launaðra starfa. Leikskóla, barnabætur, ókeypis hádegismat í skólana og almennilegt húsnæði með þvottavélum og tilheyrandi þurfti til að þetta næði fram að ganga. Árið 1938 fluttu Alva og Gunnar til Bandaríkjanna og þar skrifaði hún bókina
Nation and family (1941) sem fjallar um sænska fjölskyldupólitík en eftir það voru þau mikið á flakki milli landa og bjuggu ýmist í Svíþjóð eða annars staðar í heiminum. Myrdal-hjónin eru ekki síst umdeild fyrir skoðun sína á ófrjósemisaðgerðum en þau töluðu fyrir því að fólk væri gert ófrjótt að því forspurðu ef það þætti ekki hæfir foreldrar.
|
Hús Myrdal-fjölskyldunnar í Bromma |
Grundvöllur ævisögunnar eftir Yvonne Hirdman er bréfasafn Myrdal-hjónanna. Þau skrifuðust stöðugt á alla ævi og um er að ræða safn sem samanstendur af 46 pappakössum sem geyma þúsundir bréfa. Hjónin kynntust þegar Alva var sautján ára og hann um tvítugt en þau voru mikið til aðskilin árum saman eftir fyrsta fundinn og síðan aftur síðar á ævinni vegna starfa sinna sem fræðimenn, þingmenn og ráðherrar og Alva var líka diplómat, m.a. á Indlandi, og yfirmaður hjá Unesco. Verk hjónanna eru notuð til að bæta við bréfin og leggja út af inn á milli og aðeins er komið inn á endurminningar Jans, sonar þeirra, sem komu út í nokkrum bindum á níunda áratugnum og eru klassískar bókmenntir í Svíþjóð. Á sínum tíma var reynt að fá bækur Jans ritskoðaðar og foreldrarnir ásökuðu soninn um lygi og ómerkilegheit í sinn garð og Jan var hvorki viðstaddur þegar foreldrarnir fengu Nóbelinn né við jarðarför Ölvu þar sem Olof Palme hélt tölu. Fyrir tilhlutan Jans urðu Gunnar og Alva, sem áður voru sósíaldemókratískir snillingar og velferðarpostular, að tákngervingum vondra foreldra, ekki bara foreldra sinna eigin barna, heldur allra vanræktra sænskra barna sem höfðu verið geymd á stofnunum þar sem kuldalegir starfsmenn vanræktu þau enn meir, svona fyrir utan að alltaf vofði ófrjósemisaðgerð yfir þeim sem ekki hegðuðu sér í samræmi við skoðanir Ölvu á æskilegri hegðun. Undanfarið, m.a. vegna þessarar og fleiri ævisagna sem hafa verið skrifaðar í kjölfar þess að bréfasafn hjónanna var opnað árið 2000, hafa Myrdal-hjónin þó aftur fengið töluverða uppreisn æru.
|
Sameiginlegt skrifborð en ekki
sameiginlegt svefnherbergi. |
Bók Yvonne Hirdman er löng og vönduð en það er bæði kostur og galli að nota bréfin svona mikið og birta langa kafla úr þeim. Fyrir vikið verður verkið púsluspil og þar að auki púsluspil sem manni finnst stundum eitthvað vanta í. Fyrsti hlutinn er dálítið langdreginn, ástarbréf frústreraðra ungmenna eru ekkert svo áhugaverð. Þegar líður á verður bókin hins vegar fróðlegri. Þar er fjallað um Ölvu, Gunnar og fjölskylduna og heiminn á kalda-stríðs árunum, rætt um kvenréttindabaráttuna, vopnakapphlaupið og allskonar einkamál hjónanna og barna þeirra. Það er áhugavert að spá í hvernig Alva tók allt aðra stefnu í lífinu en t.d. Simone de Beauvoir, en þær áttu margt sameiginlegt hugmyndafræðilega, Alva ákvað að velja bæði móðurhlutverkið og starfsframann. Yvonne Hirdman kemur reyndar inn á að varðandi hugmyndir um kynin hafi Alva verið á undan Simone í svo mörgu og meira að segja er spurt hvers vegna Alva hafi ekki skrifað bók á borð við
Le Deuxième Sexe löngu á undan Simone.
|
Alva Myrdal |
Æsku sína segir Alva hafa verið djöfullega og það var móður hennar að kenna. Ég átta mig ekki alveg á hvað var svona slæmt, móðirin fór líklega bara voðalega í taugarnar á Ölvu. Mamman hafði engan áhuga á móðurhlutverkinu en engu að síður vildi hún ekki að dóttirin menntaðist þó að henni tækist ekki að stöðva það. Þetta minnir óneitanlega á tengsl Jans við Ölvu, hann ásakar hana fyrir ömurlega barnæsku og hætti snemma í skóla (en varð síðan höfundur tuga bóka og heiðursdoktor í þremur háskólum - öllum utan Svíþjóðar). Gunnar verður eins konar leið Ölvu út af æskuheimilinu og inn í heim menntamanna. En hans karríer kom á undan. Gunnar verður lögfræðingur og framamaður í pólitík til að byrja með þó að Alva virðist í raun hafa meira í þetta allt. Það kemur fram í bókinni að Alva var sú sem hafði meiri pólitísk áhrif á hann en hann á hana. Hann var miklu íhaldssamari en hún togaði hann í róttækari áttina og hafði skýrari hugmyndafræðilega sýn. Alva og Gunnar virðast bæði hafa verið full af sjálfstrausti og vissu um að þau hefðu rétt fyrir sér og hefðu enga veikleika. Og þau voru hvorugt neinir húmoristar. Alva virðist að minnsta kosti alveg hafa verið gjörsneydd skopskyni, eða ef það leynist þarna einhvers staðar í bréfunum þá missti ég af því. Jan sagði einhvers staðar að það væri dæmi um svartan, súrrealískan húmor að móðir hans hefði rekið skóla sem menntaði leikskólakennara en svartur húmor virðist mér sem sagt ekki hafa þvælst fyrir Myrdal-hjónunum í neinu samhengi. Alva virðist líka finna til lítillar samlíðunar með konunum sem hún var að berjast fyrir réttindum til handa. Það kemur fram að hún varð smám saman þreytt á kvenréttindamálum og henni fannst lítið koma til margra búttaðra húsmæðra sem hún hitti á kvennaráðstefnum á seinni hluta síðustu aldar.
Fyrir löngu las ég endurminningabækur Jans Myrdal og þótti þær ágætar og lýsa vel dreng sem á erfið uppvaxtarár. Þannig kynntist ég Ölvu og Gunnari sem vondu foreldrunum en fór þó ekkert að hata þau heitt og innilega. Þrátt fyrir að Alva sé sýnd sem kaldlynd og ógeðslega yfirborðskennd manneskja hafði ég samt pínulitla samúð með henni, enda var ég sjálf búin að þvæla börnunum mínum á milli heimshorna og senda þau í sænska leikskóla og skóla. Það sem er mér samt mjög minnisstætt úr bókum Jans er að hann segir Ölvu hafa borgað vinnukonum og barnfóstrunum ömurleg laun og komið illa fram við þær, sem er auðvitað ófyrirgefanlegt. Yfirgengilegur metnaður hjónanna segir Jan að hafi valdið því að hann var vanræktur. Gunnar og Alva voru alltaf að leysa vandamál annarra, hvort sem það voru vandamál fátækra barna, svertingja í Bandaríkjunum eða annarra og Jan var oft skilinn eftir hjá ömmu og afa eða öðrum og látinn eiga sig með sín vandamál. Hann eignaðist tvær yngri systur sem mér skilst að beri foreldrunum ekki svona illa söguna, en Jan var vandræðabarnið sem foreldrarnir sýndu enga ástúð, þau hæddu hann meira að segja fyrir að vera feitabolla. Jan Myrdal er mikið ólíkindatól og enn virkur í sænskri umræðu kominn hátt í nírætt. Hann skrifar sig Maóista á facebook-síðunni sinni og honum finnst heldur lítið koma til sænskra krata. Jan hefur líka varið morðin á Torgi hins himneska friðar og virðist standa keikur með Stalín, Pol Pot og Maó. Hann á blogg
sem er hér.
Svo ég snúi mér aftur að umræddri ævisögu Ölvu Myrdal þá er ég dálítið að velta fyrir mér á hvaða forsendum höfundurinn hafi valið bréfin sem eru birt. Með því að velja ákveðin bréf úr miklu safni og tengja þau saman er verið að matreiða ofan í lesandann sögu sem hefði orðið öðruvísi hefðu önnur bréf verið valin, en þetta er auðvitað bara klassískt vandamál. Svo er auðvitað annað vandamál að túlka sendibréf sem voru skrifuð á milli þess sem fólk hittist og talaði saman á allt öðrum tímum veraldarsögunnar. Þau eru sem sagt mörg problemin þegar kemur að ævisögum en þau vandamál verða auðvitað ekkert leyst í bráð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli