5. apríl 2013

Sinnið vel, telpur, gjöfum listagyðju: Um bókmenntasögu og kvenhöfunda

Þættinum hefur borist svargrein eftir Hjalta Snæ Ægisson, bókmenntafræðing og stundakennara við Háskóla Íslands, við grein Grétu Kristínar Ómarsdóttur frá 28. mars.

Enhedúanna var kona og hofgyðja. Og skáld.
Grein Grétu Kristínar Ómarsdóttur sem birtist hér á síðunni á dögunum hefur vakið verðskuldað lof, enda stórmerkileg hugvekja og hreinn skemmtilestur. Tilefnið er þó ekki beinlínis skemmtilegt. Í greininni er vakin athygli á nær algjörum skorti á kvenhöfundum í námskeiðinu Bókmenntasaga sem kennt er uppi í Háskóla. Hvernig er þetta mögulegt í Háskóla Íslands árið 2013? spyr fólk. Spurningin á fullan rétt á sér, og mig langar að bregðast við henni hér, reyna að útskýra mína sýn á málið, í stað þess að þegja gagnrýnina í hel eða skrifa einhverja froðu í kommentakerfið þar sem ég segist „fagna umræðunni“ og „skilja reiðina“. Námskeiðið Bókmenntasaga er eitt af flaggskipum almennu bókmenntafræðinnar og því eðlilegt að fólk reki upp stór augu þegar það sér staðreyndirnar sem Gréta Kristín teflir fram máli sínu til stuðnings. Er annar eins kynjahalli boðlegur í námskeiði sem gefur sig út fyrir að vera yfirlit yfir vestræna bókmenntasögu?

Almenn bókmenntafræði var stofnuð sem sérstök fræðigrein við Háskóla Íslands árið 1971. Samanborið við önnur hugvísindafög við Háskólannheld ég að hún hafi alltaf staðið ágætlega þegar kemur að kynjafræðilegum áherslum og kvennabókmenntum. Þarna stóðu Helga Kress og Álfrún Gunnlaugsdóttir vaktina í áratugi og á seinni árum hafa ýmsir góðir fræðimenn sinnt kvenhöfundum með einum eða öðrum hætti innan vébanda almennu bókmenntafræðinnar. Alda Björk, Sif og Úlfhildur koma strax upp í hugann, eflaust má nefna fleiri.

Námið í almennu bókmenntafræðinni er nú byggt upp með fimm skyldunámskeiðum og svo valkúrsum til að dekka afganginn. Af skyldunámskeiðunum fimm er bókmenntasagan eitt, en til viðbótar má nefna að nemendur þurfa að velja annað námskeiðið af tveimur, Grískar bókmenntir eða Latneskar bókmenntir, í því sem kallað er „bundið val“. Þessi þrjú námskeið eru kjarni þess sem kalla má kalla karllægar elítubókmenntir í náminu og kvenhöfundar sjást sjaldan á leslistum þessara námskeiða (þótt skáldkonan frá Lesbey eigi alltaf sinn vísa stað). Ekkert er því til fyrirstöðu að nemendur velji bæði Grískar bókmenntir og Latneskar bókmenntir, en það gera fæstir. Í tilviki venjulegs nemanda er því hér um að ræða 20 einingar af þeim 180 sem BA-gráðan umfaðmar, eða rétt rúm 11 prósent.

 Það er viss blekking í því fólgin að skoða þessar 20 einingar án tengsla við allt hitt efnið sem nemandinn tileinkar sér á námsferlinum í almennu bókmenntafræðinni, hvað þá að skoða bara einingarnar 10 sem námskeiðið Bókmenntasaga gefur í aðra hönd. Námið er einfaldlega hugsað sem heildstæður pakki og kennararnir vita vel hverjir af öðrum, reynt er eftir fremsta megni að forðast of mikla efnislega skörun milli námskeiða því þannig má tryggja að menntunin verði alhliða og allrahanda undirstaða (þetta á jú að heita almenn bókmenntafræði). Í þessu módeli er hugsunin sú að dauðu, hvítu karlarnir og þeirra fagurfræði eigi sinn samastað í Bókmenntasögunni. Á þeim vettvangi fá nemendur tilefni til að kynnast Antígónu, Játningum Ágústínusar, Gleðileiknum guðdómlega, Don Kíkóta og öðrum bókmenntum með gæðastimpil frá Immanuel Kant og samtímamönnum hans, verkum sem hafa verið skilgreind sem hluti af kanónunni nokkurn veginn frá því að þau urðu til. Í núverandi mynd er kanónan skilgreind með hefðbundnum hætti í Bókmenntasögunni, en femínismi, fjölmenning og afbygging karllægrar forræðishyggju eiga heima í öðrum námskeiðum. Hefðin er hér, endurskoðunin er þar. Þegar maður kann nógu góð skil á hvoru tveggja getur maður útskrifast.

 Ef Grétu Kristínu finnst þetta fyrirkomulag samsvara því að læra hluti á einum stað og „af-læra“ þá á öðrum er ég einfaldlega ósammála. Námið verður bara að skoða í samhengi. Þess má líka geta að leslistinn einn segir ekki alla söguna. Kennslustundir í Bókmenntasögunni ganga ekki út á að láta eins og við séum stödd í Skálholtsskóla og árið sé sautjánhundruð og súrkál. Nýlegri teoríu (m.a. af sviði kynjafræðinnar) er haldið að nemendum í kennslustundum eftir föngum og fólki uppálagt að nýta sér nýjustu fræðilegar rannsóknir við ritgerðaskrif. Að öllu samanlögðu held ég að námið í bókmenntafræðinni sé því vel boðlegt með hliðsjón af jafnréttissjónarmiðum. Þótt fulltrúar Háskóla Íslands hafi stundum sofnað á jafnréttisvaktinni held ég að enginn hafi verið að gera meiriháttar mistök í þessu tilviki.

Ef við hins vegar samþykkjum gagnrýni Grétu Kristínar á efnistökin í námskeiðinu Bókmenntasaga hljótum við að ganga út frá því að núverandi fyrirkomulag námsins í heild standist ekki, sé úrelt eða eigi ekki rétt á sér af öðrum sökum. Gréta gerir þá kröfu að Bókmenntasagan þurfi að geta staðið á eigin forsendum – kanónuna þurfi að endurskoða í stað þess að kennarinn láti maskínuna malla á sjálfstýringu og treysti á að einhver annar kenni nemendum hvað myndin sé skökk. Þetta er vissulega lögmæt ábending, hún lýtur að námsefninu og er í samræmi við almennar hugmyndir hér á landi um eðlilegt kynjahlutfall. En þegar námsefnið er skoðað kemur í ljós að lausnin er kannski fjarlægari en ætla mætti.

Sýnisbók heimsbókmennta kom út í fyrstu útgáfu 2008 og í annarri útgáfu 2011. Áður en Sýnisbókin kom til skjalanna var stuðst við erlend rit af svipuðum toga við kennsluna, einkum The Norton Anthology of World Masterpieces. Hlutur kvenhöfunda í því riti er skárri en í Sýnisbókinni, en er þó langt frá því að geta talist viðunandi. Blaðsíðufjöldinn í The Norton Anthology er ríflega fjórfaldur á við það sem er í Sýnisbókinni, en ef maður einblínir á þann heimshluta og það tímabil sem samsvarar Sýnisbókinni (Vesturlönd frá fornöld fram til miðrar 19. aldar) er hlutfallið 4 konur á móti 44 körlum (m/v 8. útg. frá 1997). Forsvarsmenn Norton-útgáfunnar áttuðu sig á þessu fyrir löngu og reyndu að bæta úr málunum með því að gefa út sérstaka kvennabókmenntasögu, The Norton Anthology of Literature by Women, sem kom fyrst út 1985. Sú bók takmarkast þó við enska málsvæðið og er því í eðli sínu skyldari bókum á borð við Stúlka: ljóð eftir íslenskar konur (útg. Helga Kress, 1997) en Sýnisbók heimsbókmennta.

Grunnforsenda Sýnisbókarinnar, og ástæðan fyrir því að hún var yfirhöfuð búin til, er sú hugmynd að námsefnið í Bókmenntasögu við Háskóla Íslands sé haft á íslensku. Maður þarf varla að vera mikill málhreinsunarsinni til að finnast það plebbalegt að láta íslenska háskólanema lesa úrval úr Biblíunni í enskri þýðingu. Að hafa námsefnið á íslensku breytir líka öllum forsendum fyrir kennarann því þá er hægt að vitna átakalaust í verkin í fyrirlestrum.Ég geri ráð fyrir því að hið sama gildi um nemendur sem geta þá vitnað í textana í heimildaritgerðum sínum. Íslenskar þýðingar á stórvirkjum heimsbókmenntanna eru langt frá því að vera nógu margar, svona almennt séð, en þær dugðu þó til þess að hægt væri að klóra saman Sýnisbókinni. Einungis fimm textar voru þýddir gagngert fyrir útgáfuna (þar af voru tveir þýddir af konum), en að öðru leyti er verkið samsett úr áður birtu efni. Sýnisbókin er, með öðrum orðum, afrakstur ríkjandi bókmenntasmekks á málsvæðinu sem um ræðir (því íslenska). Enginn þeirra kvenhöfunda sem Gréta Kristín stingur upp á að eigi erindi í námskeiðið eru til í íslenskri þýðingu, svo ég viti til (öllum athugasemdum í kommentakerfi um að ég hafi rangt fyrir mér verður tekið fagnandi).

Vandamálið er því nokkuð víðtækt. Heimsbókmenntahugtakið er órjúfanlega tengt starfi þýðandans, og á Íslandi hefur sú stétt aldrei sett kvenhöfunda í fyrsta sætið. Við, sem ritstýrum Sýnisbókinni, erum dæmdir til þess að lifa með þessu vandamáli þangað til við sýnum sjálfir frumkvæði í því að þýða verk eftir konur eða þangað til einhver annar gerir það. Það eru bara tvö ár síðan Sýnisbókin tók á sig endanlegt form, sem birtingarmynd kanónunnar eins og hún hefur mótast í íslensku samhengi fram á þennan dag, og við erum einfaldlega ekki komnir lengra. Verkefnið sem blasir við er annað og stærra: Til þess að stækka hringinn þyrfti samstillt átak þar sem textum eða textabrotum eftir fjölda kvenhöfunda frá öllum öldum yrði snúið á íslensku. Að taka að sér að stýra slíku átaki jafngildir því að fara úr stóli ritstjóra yfir í hlutverk meiriháttar frumkvöðuls í íslensku menningarlífi. Slíkt hlutverk er þó engum merkt, hver sem er gæti tekið frumkvæðið og byrjað að snúa þróuninni við. Ef útkoman yrði viðunandi get ég ábyrgst að efnið yrði tekið inn í Sýnisbókina og kennt í Bókmenntasögunni. Stelpur eru meira en velkomnar í það pulsupartý, a.m.k. á meðan ég fæ að vera veislustjóri. En þetta er ekki eins manns verk og án hópeflis er hætt við því að áhrifin risti grunnt. Við lifum á vatnsberaöldinni – maður gerir ekki rassgat einn, eins og sagt er fyrir vestan.

Sem betur fer leynist alltaf vonarglæta í myrkrinu og sífellt fleiri vísbendingar berast um að hlutur forn-kvennabókmennta fari stækkandi í umræðunni hérlendis. Vorið 2011 skrifaði Kolbrún L. Kolbeinsdóttir BA-ritgerð um hofgyðjuna Enhedúönnu í almennu bókmenntafræðinni og skoðaði verk hennar með hliðsjón af viðtökufræði og kvennafræði. Bónusstig fær hver sá sem nennir að fletta ritgerðinni upp í Skemmunni og uppgötva hver var leiðbeinandi þeirrar ritgerðar.

Hjalti Snær Ægisson

13 ummæli:

Ásgeir H Ingólfsson sagði...

Eitt sem mér dettur í hug til þess að koma þessu á skrið: væri hreinlega hægt að bjóða uppá þýðingarkúrsa eða stök þýðingarverkefni innan annarra námskeiða, t.d. bókmenntasögunnar, með það að markmiði að fylla uppí þessar eyður? Í sumum tilfellum gætu komið tilbúnar og boðlegar þýðingar og í öðrum tilfellum gæti þetta orðið kveikjan að einhverju meira.
Mögulega er þetta gert eitthvað í þýðingarfræðinni núorðið, ég veit það ekki, þegar ég tók ágætis þýðingarkúrs í HÍ þá skiluðum við vissulega þýðingum en það var engin sérstök áhersla á að þessar þýðingar yrðu svo notaðar í eitthvað annað en sem einkunnir í námskeiðinu.

Hjalti sagði...

Takk fyrir ábendinguna, Ásgeir. Hagnýt rannsóknarnámskeið af þessu tagi hafa reynst vel á öðrum sviðum og eitt slíkt var haldið haustið 2007 sem liður í ritstjórnarvinnunni við Sýnisbókina. Mér fyndist alveg reynandi að halda þýðingakúrs fyrir Bókmenntasöguna. Líkt og þú bendir á yrði það svo bara að koma í ljós í lok námskeiðsins hvað yrði nothæft, umsjónarmaðurinn myndi þá væntanlega meta afraksturinn í samráði við umsjónarmann Bókmenntasögunnar. Nemendurnir þyrftu að vera meðvitaðir um það frá upphafi að það væri ekki sjálfgefið að efnið frá þeim yrði notað á endanum.

Það er ákveðinn happdrættisfaktor í þessu, náttúrlega, útkoman yrði algjörlega háð því hverjir myndu skrá sig í kúrsinn og hversu mikinn metnað fólk myndi leggja í verkefnið. En hér gildir hið fornkveðna að betri er ein sæmileg þýðing en engin frábær þýðing. Lokaverkefni í svona þýðingakúrsi er svo hægt að vinna áfram, nota þau sem grunn.

Unknown sagði...

Ég hegg eftir að fimm textar hafi verið þýddir gagngert fyrir íslensku útgáfuna og langar að spyrja beint. Hve margir af þessum fimm textum voru eftir kvenkyns höfunda?. (Ég sé að hlutfall kvenkyns þýðenda er óhagstætt í þessu samhengi en til allrar guðsmildi útskýranlegt með tölfræðilegum rökum.)

Nafnlaus sagði...

hverjir voru þessir 5 pörupiltar sem fengu þessa vafasömu inngöngu í Sýnisbókina á kostnað: Enhedúönnu frá Súmer, Sulpiciu, Hypatíu frá Alexandríu, Dhuodu, Övu frá Göttweig, Christine de Pizan, Margrétar Cavendish eða Öphru Behn.

Hjalti sagði...

Textarnir fimm sem voru þýddir sérstaklega eru nú mestmegnis karlabókmenntir. Tveir textar af þessum fimm eru eftir karlhöfunda og standa stakir: Valdir kaflar úr Kómedíu Dantes og brot úr Játningunum eftir Rousseau. Hinir þrír eru kvæði sem var steypt saman við eldri þýðingar svo að útkoman er textasyrpa þar sem fjöldi þýðenda leggur í púkkið. Hér er um að ræða ljóð eftir Baudelaire (birt með þýðingum eftir ýmsa eldri þýðendur), ljóð eftir Katúllus (birt með þýðingum annarra lýrískra skálda, grískra og rómverskra) og svo egypsk ljóð (birt með eldri þýðingum eftir Helga Hálfdanarson).

Ástæðan fyrir því að ég segi að ljóðin séu "mestmagnis" eftir karlhöfunda er sú að egypsku ljóðin eru höfundalaus. Einhver þeirra eru lögð í munn konum og því vel hugsanlegt að konur hafi ort þau.

Nafnlaus sagði...

Þá er spurning hvort Christine de Pizan hefði mátt koma fyrir Dante? þau lifðu jú á svipuðum tíma. Rousseau var litlu yngri en t.d. Cavendish og Behn.

Það bíður Grétu mikið ævistarf að rétta hallann og endurskrifa bókmenntasöguna.

Kristín Svava sagði...

Í fyrri hluta greinarinnar sýnist mér höfundur verja Bókmenntasöguna á þeim forsendum að hún sé eðlilega karllæg í samhengi við restina af námsframboðinu í almennri bókmenntafræði, í seinni hlutanum eru færð praktísk rök fyrir því hvers vegna er ekki hægt að breyta námskeiðinu. Hvort eru mótrökin við grein Grétu praktísk eða hugmyndafræðileg fyrst og fremst, velti ég fyrir mér?

Hvað varðar hinn praktíska þýðingavanda er hann skiljanlegur, en ekki óyfirstíganlegur, nenni menn að harka í þágu málstaðarins. Ég hef oft óskað þess að menn væru duglegri við að viðurkenna að þeim finnist hlutirnir einfaldlega ekki skipta nógu miklu máli til að nenna að leggja sig sérstaklega fram við að leiðrétta þá – ég nefni engin nöfn en fyrsti stafurinn byrjar á Egill. Ef vandamálið var að það var ekki til nógu mikið fjármagn til að bæta Sýnisbókina að þessu leyti þá er það bara vandamál sem þarf að leysa. Ásgeir H. hefur t.d. þegar komið með hugmyndir þar að lútandi í kommentakerfinu.

En þar kemur aftur að því sem Gréta kallar að læra og af-læra hugmyndir í mismunandi námskeiðum. Hjalti telur eðlilegt að bókmenntakanónan eigi sér stað í kúrsinum Bókmenntasögu en „endurskoðunin“ í öðrum kúrsum. Kvenhöfundum er þannig „sinnt“, farsællega, af ákveðnum bókmenntafræðingum. Þetta hlýtur að vera nákvæmlega það sem Gréta gagnrýnir: að ekki sé hreyft við kanónunni, en kvartsárum minnihlutahópum bætt upp fjarvera sín með umfjöllun annars staðar. Það sem talsmenn kanónunnar virðast oftar en ekki horfa framhjá er að burtséð frá bókmenntasmekk Kants er kanónan eins og hún birtist í Sýnisbók heimsbókmenntanna, Norton Anthology og öðrum slíkum yfirlitsritum ekki einhvers konar náttúruval þess besta sem sett hefur verið á blað, heldur alveg jafn pólitískt hlaðið úrval bókmenntatexta og fulltrúar „minnihlutahópa“ á borð við konur vilja ota fram.

Helga Þórey Jónsdóttir sagði...

Reyndar var það svo að áður en Sýnisbókin kom til skjalanna að þá keyptu nemendur leshefti í Háskólaprent, þar sem efnið er að mestu til á íslensku (og nú tek ég fram að ég er enginn áðdáandi lesheftanna, mér finnst að efni eigi frekar að vera á pdf). Fyrirkomulag leshefta/pdf-skjala býður upp á að námsefninu sé breytt milli ára, eitthvað sem framsækin menntastofnun ætti að hafa að leiðarljósi. Breytingar eru góðar, þær hjálpa okkur að læra og skilja hlutina upp á nýtt.

Að auki sé ég ekki hvaða máli það skiptir að efnið sé nákvæmlega allt á íslensku, efni ritað upphaflega á ensku ætti vitaskuld að vera lesið af nemendum á frummálinu. Enska er einskonar annað tungumál Háskóla Íslands. Það á ekki að vera vandamál fyrir nemendur og kennara að nota bæði tungumálin. Og það er sjálfsögð krafa að BA-nemar í bókmenntum séu reiprennandi í tungumálinu, það er skilyrði að kennari sé það.

Að gefa út sýnisbók með þessum hætti tryggir að fáar breytingar verði á námskeiðinu næstu ár. Því til þess að tryggja afkomu Sýnisbókar er skynsamlegast að halda henni í kennslu sem lengst. Og fyrir utan augljósan kynjahalla sem erfitt er að breyta þá gerir tilvist bókarinnar þá kröfu á komandi kennara námskeiðsins að þeir beygi sig undir bókmenntasöguskoðun annarra kennara og geti ekki sett mark sitt á námskeiðin eins og æskilegt er að góðir fræðimenn geri.

Nafnlaus sagði...

Allur hluti lesefnisins er fáanlegur á ensku í pdf formi, svo auðvelt er að sigla í gegnum námskeiðið án Sýnisbókar (myndi ég halda).

Unknown sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Unknown sagði...

Hressilegar umræður í gangi hér! Búbbíbei!

Eitt sem ég hef velt fyrir mér, Hjalti - þegar þú segir að "enginn þeirra kvenhöfunda sem Gréta Kristín stingur upp á að eigi erindi við námskeiðið [séu] til í íslenskri þýðingu" - Gleymirðu þá íslenskum þýðingum Valgerðar H. Bjarnadóttur og Kolbrúnar L. Kolbeinsdóttur í BA ritgerð Kolbrúnar sem þú vísar til sjálfur? Eða teljast þær þýðingar ekki viðunandi? ... Þú segir breytingar kalla á samstillt átak, er þá einhverskonar þátttökuskilyrði í átakið? Fallus?

Ég þakka annars góða grein og munda pennann.

Nafnlaus sagði...

Mörg rök Hjalta eru mjög skiljanleg, en ég fæ samt á tilfinninguna að þetta hafi ekki verið efni sem höfundar sýnisbókarinnar hafi velt mikið fyrir sér við gerð hennar, áður en Gréta Kristín vakti máls á þessu. Hugsunarleysi í þessum efnum er mjög algengt meðal kennslubókahöfunda, en sem betur fer er hugsunarleysi eitthvað sem er auðvelt að bæða úr ef viljinn er fyrir hendi.

Ragnhildur.

Arnar Sigurðsson sagði...

Ég sat þetta námskeið fyrir nokkrum árum, fyrir tíma umræddrar sýninsbókar, og þekki hana því ekki. En mig grunar að vandinn hér sé almennari en þetta einstaka rit.

Ég velti því fyrir mér hvort vandinn felist ekki síst í því hvernig við skilgreinum viðfangsefni þessa námskeiðs "Bókmenntasaga". Ég held að það sé alveg ljóst að efnisyfirlit þess endurspeglar ekki "bókmenntakanónuna" með greini, eins og hún kemur almennt fyrir í námi í bókmenntafræði við HÍ. Þeir textar sem þar eru lesnir eru alls ekki einhver rauður þráður í kanónum annarra námskeiða þar.

Þegar ég tók þetta námskeið datt mér aldrei í hug að nú ætti að fara að kenna mér það merkilegasta og besta sem skrifað hafi verið i mannkynssögunni. Það er m.a. því að þakka að í öðrum námskeiðum var nokkuð vel farið í "póststrúktúralískra rannsókna og femínískrar gagnrýni á útilokandi og takmarkandi hefðaveldi bókmenntakanónunnar" - sem Gréta minnist á, og mér hefði fundið sérhver tilraun til þess að búa til, á 21. öldinni, einhverja almenna kanónu verka í stigveldi gæða nokkuð gamaldags, í framhaldi af því.

Hjalti segir að "dauðu, hvítu karlarnir og þeirra fagurfræði eigi sinn samastað í Bókmenntasögunni". Svona túlkaði ég efni þessa námskeiðs þegar ég tók það. Og mér finnst gagnlegt að hafa eitt námskeið þar sem gefið er yfirlit yfir hefðbundna vestræna bókmenntakanónu (er þetta besta skilgreiningin?) - vegna þess að því verður ekki neita að í umhverfi því sem við vinnum í hér hefur hún verið æði áhrifamikil lengi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Er þetta nægjanlega útskýrt í námskeiðslýsingu, inngangstextum og kennslustundum? Ég get ekki dæmt um það.

Í stað þess að reyna að búa til nýja, almenna kanónu, sem þá myndi taka inn í hina 98% af heiminum; konur, asíubúa, undirokaðar stéttir o.s.frv. þá vil ég frekar leggja til að heiti þessa tiltekna námskeiðs yrði breytt í "Hefðbundin vestræn bókmenntasaga" - til að taka af allan vafa. Tilraunin til að búa til nýjan "uppfærðan" lista - "listann" með greini, yrði bara hálfur lærdómur af öllu því sum á undan hefur gengið.