30. nóvember 2009

Hallærislegar kynlífslýsingar - vafasamur heiður

caveNú er búið að tilnefna þá rithöfunda ársins sem þykja hafa skrifað hvað ömurlegastar kynlífslýsingar.  Listinn er birtur á bókasíðu The Guardian og þar má meðal annars finna Nick Cave og Philip Roth ásamt Goncourt-verlaunahafanum Jonathan Littell.  Í nýjustu bók Roths "The Humbling" birtist gamall leikari, Simon, sem tekst að snúa lesbískri konu til gagnkynhneigðar (ég ímynda mér bara hvað þetta er kjánalegt enda hef ég ekki lesið bókina)  og í bók Nicks Caves, "The Death of Bunny Munro", sem fjallar (að sögn þeirra sem lesið hafa) um kynóðan farandsala er víst alveg grátlega hallærisleg kynlífslýsing. Þessar tilnefningar munu þó ekki síður en aðrar tilnefningar gleðja útgefendur og höfunda sem þrá athygli, og við vitum öll að kynlíf selur hvort sem því er vel eða illa lýst. Útgefandi bókar Caves hjá forlaginu Canongate skálaði fyrir tilnefningunni og sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum ef bókin hefði ekki lent á listanum.

Þórdís Gísladóttir

27. nóvember 2009

Adda á elliheimilinu?

AddaÍ síðustu viku var ég stödd á flóamarkaði úti á Granda og rakst þar á ritröðina um stúlkuna Agnesi Þorsteinsdóttur, öðru nafni Öddu. Nokkrum dögum áður hafði ég rekist á Öddubækur í Kolaportinu, þær dúkka reglulega upp í hillum Góða hirðisins og mamma á enn sín lúnu eintök sem við systurnar marglásum. Það er auðvitað eðlilegt að rekast á þessar bækur í hillum og kössum. Öddubækurnar, sem komu fyrst út á árunum 1946-1952, munu gegnum árin hafa verið prentaðar í um sextíu þúsund eintökum ef marka má nýlega frétt um enn eina prentunina. Já, nú hafa sem sé fyrstu tvær Öddubækurnar verið endurútgefnar einu sinni enn. Það er líklega gott og eðlilegt að klassík sé endurprentuð og sjálfsagt munu margar mömmur, ömmur og langömmur kaupa þessar bækur handa stelpunum sínum og gefa í jólagjöf.

Mig langar hins vegar að vita hvort ungviðið árið 2009 hafi áhuga á að lesa Öddubækurnar. Hinn heilsteypti munaðarleysingi Adda, sem ættleidd var af vönduðum hjónum (lækni og hjúkrunarkonu) og kynntist kornung hinum dökkjarphærða Páli, ábyrgðarfullum læknanema sem hún síðan trúlofaðist (og giftist örugglega líka þó að Adda giftist hafi aldrei komið út), er óneitanlega barn síns tíma og kannski ekki alveg sú kvenhetja sem á brýnast erindi í dag.

Það loðir við uppalendur að þeir telja það gott fyrir afkomendur sína sem þeim finnst hafa hentað þeim sjálfum á æskuárum. Kardimommubærinn var til dæmis sýndur nýlega,  kannski vegna þess að um er að ræða gott leikverk, en maður getur velt því fyrir sér hvort aðallega sé um að ræða nostalgíukitl fyrir foreldra. Öddubækurnar eru ágætar á sinn hátt en hugsanlega áttu þær sér sinn tíma sem ekki kemur aftur.

Nú heyrir maður reglulega að erfitt sé að fá mörg stálpuð börn til að lesa bækur, enda margskonar afþreying sem keppir við bókina. Ef við teljum bóklestur mikilvægan hlýtur að vera áríðandi að finna lesefni fyrir krakka sem skemmtir þeim og kveikir löngun þeirra til frekari lestrar. Það er nóg til af nýjum og spennandi bókum á markaðinum og ég spyr sjálfa mig hvort Öddubækurnar séu kannski bara sniðug jólagjöf handa ömmu?

Þórdís Gísladóttir

Druslubækur og doðrantar flytja sig

Síðan tekur stökk yfir á Miðjuna. Og svo er líka hægt að fara beint inn á síðuna.
Sjáumst.

26. nóvember 2009

Uppskeruhátíð Ormstungu

Fimmtudaginn 26. nóvember kl. 20 verður uppskeruhátíð bókútgáfunnar Ormstungu haldin í Þjóðleikhúskjallaranum. Þar fagna menn útkomu nýrra bóka og höfundar og ritstjórar lesa valda kafla.




  • Gísli Már Gíslason segir frá endurútgáfu Landfræðissögu Íslands eftir Þorvald Thoroddsen.

  • Guðmundur Heiðar Frímannsson les upp úr bók Haralds Bessasonar, Guðir og menn.

  • Guðmundur Óskarsson les upp úr bók sinni Bankster.

  • Helgi Ingólfsson les upp úr bók sinni Þegar kóngur kom.

  • Hlín Agnarsdóttir les upp úr bók sinni Blómin frá Maó.

  • Stefán Sigurkarlsson les upp úr bók sinni, Raddir frá Hólmanesi.


Ari Agnarsson kemur fólki í rétta stemningu með píanóleik og Ljótu hálfvitarnir (í heild eða partur) trufla samkomuna eftir þörfum.

Kynnir verður  Sigrún Valbergsdóttir

25. nóvember 2009

Árlegt glæpasagnakvöld á Grand Rokk

Fimmtudagskvöldið 26. nóvember klukkan 8:30 hefst árlegt glæpakvöld Hins íslenska glæpafélags. Lesið verður upp úr sex glæpasögum þessa árs og einni glæpasögu næsta árs.

Boðið verður upp á glæpadjassleik þeirra Tómasar R. Einarssonar á kontrabassa, Ómars Guðjónssonar á gítar og Samúesl J. Samúelssonar á básúnu.