30. nóvember 2009

Hallærislegar kynlífslýsingar - vafasamur heiður

caveNú er búið að tilnefna þá rithöfunda ársins sem þykja hafa skrifað hvað ömurlegastar kynlífslýsingar.  Listinn er birtur á bókasíðu The Guardian og þar má meðal annars finna Nick Cave og Philip Roth ásamt Goncourt-verlaunahafanum Jonathan Littell.  Í nýjustu bók Roths "The Humbling" birtist gamall leikari, Simon, sem tekst að snúa lesbískri konu til gagnkynhneigðar (ég ímynda mér bara hvað þetta er kjánalegt enda hef ég ekki lesið bókina)  og í bók Nicks Caves, "The Death of Bunny Munro", sem fjallar (að sögn þeirra sem lesið hafa) um kynóðan farandsala er víst alveg grátlega hallærisleg kynlífslýsing. Þessar tilnefningar munu þó ekki síður en aðrar tilnefningar gleðja útgefendur og höfunda sem þrá athygli, og við vitum öll að kynlíf selur hvort sem því er vel eða illa lýst. Útgefandi bókar Caves hjá forlaginu Canongate skálaði fyrir tilnefningunni og sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum ef bókin hefði ekki lent á listanum.

Þórdís Gísladóttir

2 ummæli:

bokvit sagði...

Það væri nú áhugavert ef einhver myndi nefna hliðstæðar lýsinga í íslenskum bókmenntum. Dettur ykkur eitthvað í hug?

Gísli Ásgeirsson sagði...

Meðan fólk flettir og leitar, væri ekki úr vegi að gefa dæmi um góðar kynlífslýsingar. Annars sér enginn muninn.

http://www.literaryreview.co.uk/badsexpassages.html