29. janúar 2013

Ófriður í Rökkurhæðum

Kápurnar eru mjög vel heppnaðar
sem og frágangurinn á bókunum
Eitt af nýjustu forlögum landsins er Bókabeitan sem sinnir einum stærsta og mikilvægasta lesendahópnum, nefnilega börnum og unglingum. Forlagið hefur sett sér metnaðarfullt manifestó sem má lesa á heimasíðu þess:
"Markmið Bókabeitunnar er að efla lestur barna og unglinga.
Tilgangur félagsins er alhliða útgáfa og miðlun menningarefnis, fræðslu og skemmtiefnis sem líklegt er til að auka lestur barna og unglinga og áhuga þeirra á lestri og bókmenntum.
Ætlunin er að bjóða upp á fjölbreytt og vandað lesefni.
Fyrst og fremst með útgáfu frumsaminna barna- og unglingabóka og þýðingum og útgáfu á erlendu á efni fyrir börn og unglinga með sérstaka áherslu á fantasíur og spennusögur. Bækurnar skulu vekja og viðhalda athygli og áhuga lesenda, vera  þægilegar aflestrar en jafnframt vandaðar og á góðu máli. Ævintýra-, spennu-, hryllings-, drauga-, galdra- og bækur sem er lítið af í íslenskri bókaflóru fyrir unglinga fá sérstaka athygli til að byrja með."
Eins og sést á þessari yfirlýsingu hafa aðstandendur forlagsins markað sér skýra útgáfustefnu og hugmyndafræði. Mikið er talað um að bóklestur barna og allra helst unglinga sé á undanhaldi og því mætti segja sem svo að Bókabeitan hafi snúið vörn í sókn. Á stefnulýsingunni má sjá að forleggjararnir hafa kynnt sér það sem í boði er fyrir ungt fólk og ákveðið að fylla í skarðið. Ég tek ofan fyrir þeim og manifestóinu - gott mál.
Rökkurhæðabálkurinn hefur hingað til verið fyrirferðarmestur á útgáfulista forlagsins og mér sýnist á öllu að hann hafi hlotið afar góðar viðtökur í lesendahópnum. Höfundarnir Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir fengu meðal annars Vorvindaviðurkenningu IBBY síðasta vor fyrir framlag sitt til barnamenningar. Hér er hægt að sjá stutt viðtal við þær stöllur. Rökkurhæðir eru yfirnáttúrulegar sögur sem hafa þó einnig á sér raunsæislegan blæ; persónurnar lifa að mörgu leyti og hrærast í kunnuglegu umhverfi, takast á við vandamál sem unglingar þekkja og eru að upplagi ósköp venjulegir krakkar, en höfundarnir skapa sögunum þó sérstakan heim þar sem lögmálin eru önnur en í hversdeginum. Hér á druslubókablogginu hefur verið fjallað um allar bækurnar sem þegar eru út komnar; Hildur Knútsdóttir skrifaði um Rústirnar, Guðrún Elsa rýndi í Óttulund og sjálf skrifaði ég um bókina Kristófer.
Nú er komin út fjórða sagan í bókaflokknum og nefnist hún Ófriður. Sagan segir frá Matthíasi sem er nýfluttur  í hverfið og var að byrja í 10. bekk í Rökkurskóla.
Matthías á sér talsvert erfiða fortíð og hann býst ekki við öðru en að krakkarnir í nýja skólanum dæmi hann af útlitinu og fyrri uppátækjum; hann er þess vegna kuldalegur í framkomu og reynir að brynja sig fyrirfram fyrir skoðunum annarra. Í tengslum við reynslu Matthíasar velta þær Birgitta og Marta upp áhugaverðum spurningum sem margir kannast við, bæði fullorðnir og börn - spurningum um traust, fordóma, nýtt upphaf og merkimiðana sem við sjálf og aðrir hengjum utan á okkur. Í Rökkurhæðum er hins vegar margt dularfullt á seyði eins og fyrri daginn. Það er undirliggjandi heift og árásargirni í loftinu svo jafnvel leikskólabörn eru farin að slást eins og óðir hundar. Hin aðalpersónan í bókinni er Ingibjörg sem er aðeins yngri en Matthías og langþreytt á að taka mikla ábyrgð á heimili sínu. Ingibjörg tekur líka eftir því að einhver óhugnanlegur ófriður kraumar í Rökkurhæðum og sögur þeirra Matthíasar fléttast saman.
Ég hafði ýmislegt við bókina um Kristófer að athuga - þótt hún væri í sjálfu sér ágæt lesning - og þótti ekki síst skorta frumlegri efnistök og dýpt. Í stuttu máli sagt finnst mér Ófriður miklu betri bók; hún er betur uppbyggð, ófyrirsjáanlegri og notar þennan spennandi furðuheim mun betur en gert var í þriðju bókinni. Ógnin er áþreifanleg og sagan er virkilega óhugnanleg; ekki bara fyrir tilstilli einhverra einstakra hryllingstrixa heldur hefur maður á tilfinningunni að hvað sem er geti gerst og ekki sé endilega hægt að afstýra öllu illu (eins og kemur á daginn). Það er ekkert ógeðslegt í bókinni, þetta er ekki hryllingur af þeim toga, en ógnin er raunveruleg, sem mér þykir til marks um virðingu fyrir lesendunum. Lesendum bókarinnar er treyst til að takast á við alvöru tilfinningar og stef sem eru ekki auðleysanleg.
Það er helst persónusköpunin sem mér þykir vanta upp á; þau Matthías og Ingibjörg eru bæði frekar flöt og óeftirminnileg, sérstaklega Ingibjörg, en persóna Kristínar vinkonu Ingibjargar þótti mér eiginlega áhugaverðari en þau og eins voru Guðmar gamli og Steinka prjónakona skemmtileg. Ég hef trú á því að höfundarnir geti bætt meira kjöti á beinin og hlakka til að fylgjast með bókaflokknum þróast.
Rökkurhæðir eru vel heppnaður söguheimur og það er gaman að sjá hvernig smám saman er fyllt upp í myndina af þessum einkennilega stað. Persónur úr fyrri bókum skjóta gjarnan upp kollinum þótt ekki sé nema í aukahlutverki og það finnst mér skipta miklu máli - maður vill að það sé stærra samhengi að finna í svona bókaflokki og það kitlar að sjá skírskotað til fyrri atburða sem lesandi hinna bókanna þekkir, þótt alls ekki sé nauðsynlegt að lesa bækurnar í ákveðinni röð eða hafa lesið þær sem á undan komu.
Semsagt: Hin fínasta furðusaga úr Rökkurhæðum sem ég las í einni bunu og mig grunar að það muni fleiri gera.

Engin ummæli: