28. janúar 2013

„Svona er þetta bara“: Hvítfeld – fjölskyldusaga

Fyrsta skáldsaga rithöfundarins og skáldkonunnar Kristínar Eiríksdóttur, Hvítfeld – fjölskyldusaga, fjallar um ungu konuna Jennu Hvítfeld og (eins og titillinn gefur vísbendingu um) fjölskyldu hennar. Í upphafi bókar hefur Jenna það náðugt á heimili sínu í Live Oak í Texas ásamt dóttur sinni Jackie. Inn í sjónvarpsþáttalegt og pastellitað umhverfið, sem er sjónvarpsglápurum kunnuglegt í framandleika sínum, berst símhringing frá Íslandi og Jennu eru færðar fréttir af því að systir hennar sé látin. Þessi byrjun er afar viðeigandi, þar sem eitt meginviðfangsefni bókarinnar er það að fjölskyldan verður ekki umflúin. Uppruni persóna og fortíð virðist fylgja þeim sama hversu langt þær fara til að komast undan. Jenna neyðist til að yfirgefa persónuleikasnauða íbúð sína, þar sem myndirnar „á veggjunum fylgdu með römmunum og skrautmunirnir eru svo fjöldaframleiddir að [Jenna] man ekki einu sinni hvaðan þeir komu“ og fara til Íslands, sem verður nokkurs konar fortíðarland þar sem óþægilegar minningar varðveitast í gömlum dagbókum, skókössum og gámum.

Þótt eftirnafn Jennu Hvítfeld hafi yfirbragð flekkleysis á það rætur sínar í eldgamalli lygasögu af forföður sem yfirbugar ísbjörn með ævintýralegum hætti, en fyrirferðarmesti þráður bókarinnar kjarnast í þessu nafni. Hvítfeld er bók um fjölskyldu(r) og fortíð, en hún fjallar kannski fyrst og fremst um óheiðarleikann. Aðalpersónan, sem er sögumaður stóran hluta bókarinnar, er beinlínis lygasjúk – hún ræður ekki við sig. Hún lýsir því hvernig hún lýgur fyrir lesandanum, sem gerir engu að síður ráð fyrir því að hann verði ekki fyrir barðinu á lygum hennar. Þannig er athygli okkar dregin að stöðu lesenda skáldskapar. Skáldverk eru náttúrulega ekki lygi í réttum skilningi þess orðs – þau lúta eigin lögmálum, öðrum lögmálum en til dæmis sagnfræði. En þeir sem lesa bækur vilja láta blekkjast eins og fjölskylda Jennu, sem hún segir að sé „fíkin í skáldskap“ og lifi í lygum. Í bókinni er þó líka fjallað um óheiðarleika í víðum skilningi. Jenna er lítið annað en sögurnar sem hún segir af sér, hana skortir einhvern kjarna eins og sést til dæmis þegar hún leigir íbúð með vinkonu sinni og tileinkar sér smám saman fatastíl hennar, talanda og kæki. Hún veit mögulega ekki sjálf hvenær hún er að grínast eða ljúga, hvenær hún er að meina það sem hún segir og gerir:

„Milli mín og umheimsins eru ótal lög af alvöru, háði, farsa og meðvitund. Ég þarf ekki nema að bæta einum tón við röddina til þess að allir skilji að ég er auðvitað ekki alveg að meina það sem ég segi.“ (Hvítfeld, bls. 53) 

Bókin veltir því í raun upp grundvallarspurningum: Hversu mikið ljúgum við að sjálfum okkur á hverjum degi? Hvenær erum við að ljúga? Hvenær erum við að grínast en samt ekki – hversu mikinn áhuga höfum við raunverulega á lífi Britney Spears? Þessi síðasta spurning er ekki aðeins ein af þeim sem Jenna tekst á við, heldur mögulega eitthvað sem við ættum öll að pæla svolítið í.

Í fyrstu þótti mér bygging sögunnar fremur undarleg. Jenna segir sögu sína framan af, en svo er eins og kaflar um fjölskyldu hennar taki söguna svolítið yfir. Skýringin er þó líklega sú að fjölskyldusagan er nauðsynleg til að skilja Jennu, hún er samofin hennar sögu eins og kemur fram þegar Jenna spyr sálfræðinginn sinn Laufeyju hvers vegna hún sé svona handónýt manneskja: „Frumur, segir Laufey hugsi, í hvert skipti sem við kyngjum skömm lendir hún í hausnum á afkomanda.“ (bls. 265)
Kristín talar líka um þetta í viðtali á Smugunni:

 „Þegar ég var byrjuð á sögunni heyrði ég svo af nýjum rannsóknum á erfðum og þar kemur í ljós að áföll erfast – eða öllu heldur: viðbrögðin við áföllum erfast. Það er hægt að rekja það aftur til ömmu og afa, eitthvað sem kom fyrir ömmu mína hefur áhrif á mig. Þetta kemur fram í einhverri vísindalegri rannsókn en það meikar ótrúlega mikinn sens fyrir mér að við séum í svona mynstri. Og í þessari fjölskyldu er ég að skoða mynstur óheiðarleikans. Sögumaðurinn er lygari og systir hennar er þjófur, sem eru tvær birtingarmyndir óheiðarleika. En síðan þarf maður að rýna dálítið í bakgrunn þeirra til að skilja af hverju þær eru eins og þær eru.“ („Britney Spears, ísbirnir og erfðalygin“, birt 25.11.12 á Smugunni)

Hvítfeld er oft óþægileg aflestrar. Efni bókarinnar er þess eðlis, það eru ástæður fyrir því að fólki finnst fortíðin oft betur gleymd. Stundum vildi ég næstum sjálf að Jenna drifi sig bara strax aftur til Texas og blastaði Beyoncé eða Britney með viskíglas í hönd eða strímaði eftirlætis sjónvarpsþættina sína á netinu. Fjölskyldan og stærri strúktúrar á borð við menntastofnanir verða þrúgandi í bókinni, óþægilegir staðir misnotkunar og óheilbrigðra samskipta. Fyrirferðarmestu persónur sögunnar eru konur og verkið er afar feminískt – en það er það sem mér þykir helst gera bókina áhrifamikla og eftirminnilega. Áföllin sem þessar aðalpersónur verða fyrir tengjast gjarnan kynferði þeirra og feðraveldið verður á köflum næstum áþreifanlegt. Það bitnar þó ekki aðeins á kvenpersónum, heldur einnig þeim karlpersónum sem fúnkera illa innan samfélags þar sem ósanngjarnar kröfur eru gerðar til þeirra, eins og til dæmis þær að þegja yfir ofbeldi vegna þess að „[s]vona er þetta bara stundum. Svona eru strákar bara. Hafa alltaf verið. Svona er þetta bara.“ (bls. 207) En þótt Hvítfeld væri stundum óþægileg var hún það góð að ég hélt áfram að lesa þangað til hún var búin. Það var ekki fyrr en þá sem ég stillti aftur á Britney og leyfði mér að slaka aðeins á.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér fannst líka flott hvernig titillinn blekkti mann til að búast við því að sagan fjallaði um föðurfjölskylduna og sögumaður lét í byrjun eins og móðurfjölskyldan væri svo ómerkileg að það tæki því varla að nefna hana. Og margt annað var flott, en það er bara erfitt að lýsa því mikið án þess að skemma eitthvað fyrir þeim sem ekki hafa lesið.

Ragnhildur.

Maríanna Clara sagði...

ég hlakka til að lesa hana aftur!

Nafnlaus sagði...

Já, fjúff, það voru mörg lög í bókinni sem ég áttaði mig bara smám saman á. Eins og Ragnhildur segir hérna að ofan er titillinn sjálfur að blekkja mann og frá fyrstu blaðsíðu er maður í hálfgerðum skollaleik við textann og persónurnar. Ég var hrikalega ánægð með hana.

Salka

Sigfríður sagði...

Var að klára bókina í gærkvöldið og finnst hún meiriháttar. Hef ekki lengi lesið bók sem mér finnst jafn sterk og já, bara einhvernvegin ótrúlega góð.

Nafnlaus sagði...

Já vildi líka hrósa þessari bók. Ég var mjög hrifin af henni. bók sem kom sífellt á óvart og undir það síðasta var samkenndin með aðalpersónunni það sterk að maður vildi að hún hefði sagt satt um sumt..las hana síðasta sumar og þegar ég var rétt búin að búin með hana þá flutti höfundurinn í næsta hús og mér fannst ég alveg þekkja hana ;)