19. nóvember 2012

Ólíver - handa öllum sem eru svolítið sérstakir

Forlagið gaf út fyrir skemmstu barnabókina Ólíver eftir Birgittu Sif. Bókin kom fyrst út í Bretlandi á vegum Walker Books Ltd. og hefur að því er virðist fengið lofsamlega dóma þar sem ætti nú sannarlega að ýta undir söluna hér þar sem Íslendingar eru jú alltaf spenntir fyrir upphefð sem kemur að utan.

En Ólíver er reyndar mjög vel allri upphefð komin. Þetta er einföld saga um lítinn strák sem er sér á báti og mikið einn. Hann er þó ekki óhamingjusamur í einveru sinni – hann á vini, tuskudýr sem hann lendir í spennandi ævintýrum með. En dag einn bregður svo við að gömlu vinirnir nægja honum ekki lengur. Hann leggur svo uppí langferð að leita að tennisbolta og leiðir sú ferð hann til Ólavíu – lítillar stúlku sem einnig er dálítið sér á báti og þau geta því verið sér á báti saman.
Þótt textinn sé bæði einfaldur og mjög fáorður er hann þó skemmtilega opin fyrir túlkun og þar koma myndirnar auðvitað sterkar inn. Þær eru alveg frábærar – kona getur skemmt sér löngum stundum við að skoða öll smáatriðin á hverri síðu því þótt sagan snúist um Ólíver er endalaust líf og ótal fleiri persónur að finna í myndunum sem ekki eru í textanum. Nostrið við hverja mynd og raunar hverja fígúru er slíkt að unun er á að horfa og mig dauðlangar í einhverja myndina uppá vegg í stofu.

hún nýtur sín nú betur í stærri upplausn - en hér er bóksafnið!
Ég get ímyndað mér að samspil mynda og texta geti líka verið frjó uppspretta samtala milli barna og fullorðinna um hvað sé í raun og veru að gerast hjá Ólíver og hvernig honum líði. Á einni síðunni segir textinn okkur frá ævintýrum sem Ólíver og vinir hans lenda í þegar þeir ríða á úlföldum yfir eyðimörkina, fara í hnattreisu og sigla niður fossa – myndirnar sýna okkur lítinn dreng sem stekkur yfir borð og stóla, grefur í sandkassa og dregur á eftir sér lítinn vagn með tuskubrúðunum, vinum sínum í. Drengurinn er greinilega hamingjusamur – og það eru tuskudýrin líka. Á öðrum stað segir textinn okkur hins vegar að „Stundum langaði Ólíver bara að láta sig hverfa“ og þá sýnir myndin okkur barnaafmæli með fullu húsi af fólki og undir borði er Ólíver með tuskudýr í fanginu.

Bókin fjallar sem sagt um lítinn dreng sem er öðruvísi án þess að það sé nokkuð verið að skilgreina hvað það er nákvæmlega sem gerir hann öðruvísi – enda myndi það um leið takmarka speglun lesandans. En Ólíver leikur sér ekki með hinum börnunum, hann leikur sér einn og er framan af bókinni fullkomlega ánægður með það. En sá tími kemur að hann þarfnast vina af holdi og blóði – Eitt sinn þegar hann spilar fyrir þá á píanóið þá klappa þeir ekki! Undrun hans yfir því gefur til kynna að hann hafi margsinnis áður spilað fyrir þá og hlotið að launum glymjandi lófatak. En eitthvað er breytt – og Ólíver er nógu heppinn til að kynnast lítilli stúlku sem er líka öðruvísi og þau geta verið öðruvísi saman.

Í viðtali talar höfundurinn sérstaklega um að sig hafi langað til að skrifa bók um að það sé allt í lagi að vera öðruvísi. Forlagið gefur svo upp tengil á erlendan dóm móður einhverfs drengs sem er afskaplega ánægð með bókina. Bókin er tileinkuð „öllum sem eru svolítið sérstakir“ og þannig geta allir sem vilja tekið það til sín. Það er nú allur gangur á hversu vandað efni er borið á borð fyrir yngstu kynslóð lesenda og því ber að fagna bók sem sameinar alveg sérstaklega fallegar myndir og boðskap sem skiptir máli.

Boðskapurinn er mikilvægur en hann er líka túlkunaratriði og í raun er hverjum lesanda í sjálfsvald sett hversu langt hann fer. Textinn er stuttur en hins vegar væri hægt að tala í óratíma um hverja mynd. Hér er því sögð falleg saga og lesandanum er treyst fyrir því að koma henni til skila – og þessi lesandi er strax orðinn spenntur og upprifinn yfir því mikilvæga verkefni.

Að lokum get ég ekki stillt mig um að nefna uppáhaldsmyndina mína en hún sýnir Ólíver og vini hans, tuskudýrin, á bókasafninu. Bókasafnið var ein af höfuðstöðvum bernsku minnar og þessi mynd talar beint við þá minningu. Þarna úir auðvitað og grúir af bókum og lífi og fólki af öllum aldri, stærðum og gerðum. Bókahillurnar ná frá gólfi og uppí loft og uppi í rjáfri í stiga stendur Ólíver með bók í annarri hendi, tryggan tuskuvin í hinni, og höfuðljós um ennið. Á einum veggnum má sjá veggspjald með áletruninni „Sá sem les getur flogið“ og við hliðina á veggspjaldinu eru svo dyr að annarri álmu í bókasafninu og yfir þeim þetta dásamlega hjálplega skilti: FLEIRI BÆKUR.

Engin ummæli: