9. nóvember 2012

Saga föður

Nýlega las ég bókina Að endingu eftir Julian Barnes, skáldsögu sem býður upp á vangaveltur um minningar. Þar neyðist eldri maður, Tony, til að rifja upp atburði sem gerðust þegar hann var um tvítugt og hann veltir því fyrir sér hvort hann muni í raun allt sem átti sér stað, hann reynir að lesa í hegðun fólks sem sagði eða gerði eitthvað einhvern tíma fyrir löngu, túlkar það sem gerðist og veltir fyrir sér hvaða minningar séu hugsanlega uppspuni og hver raunveruleikinn sé. Eftir lesturinn veltir maður því fyrir sér hvort Tony dragi virkilega réttar ályktanir, hvort hann sé kannski að fegra eigin gjörðir og hvað hafi í raun átt sér stað.

Það fór vel á því að lesa nýja sögu Úlfars Þormóðssonar, Boxarann, rétt á eftir verðlaunabók Julian Barnes. Þær eru nefnilega hliðstæðar að því leyti að óljós fortíð er rifjuð upp og í báðum bókum má finna launbörn og vangaveltur um atburði sem eru þannig að síður en svo er augljóst hvort þeir hafi í raun gerst eins og flestir virðast halda, eins og sagt er frá þeim, já eða hvort menn rámi í eitthvað sem í raun gerðist einhvern veginn allt öðruvísi en talið er.

Í bók Úlfars er rifjað upp lífshlaup látins föður sem var rótlaus og margbrotinn maður sem sagði aldrei mikið frá sjálfum sér og nánustu ættingjum sínum, suma minntist hann bókstaflega aldrei á eða að hann hliðraði augljóslega atburðum. Púslað er upp í myndina með uppflettingum í ýmsar heimildir, sögusagnir eru rifjaðar upp og myndir skoðaðar. Undirtitill bókarinnar er „Saga“ - orð sem bendir til þess að höfundurinn telji sig ekki endilega vera að segja blákaldan sannleikann. Sannleiksleit er líklega nothæft hugtak; þarna er maður sem leitar sannleikans um föður sinn. Á þessari síðu hefur áður verið skrifað um sænskar pabbabækur en dánir og drykkfelldir feður  eru viðfangsefni þeirrar bókmenntagreinar. Nú sýnist mér sem þessi grein bókmenntanna sé komin til Íslands, Boxara Úlfars mætti vel flokka með pabbabókmenntum.Í bókinni ávarpar sögumaðurinn pabba sinn og það er aðferð sem hentar sérlega vel. Frásögnin er einlæg, einn af mörgum kostum bókarinnar er að Úlfar veigrar sér ekki við að segja frá óþægilegum atburðum, ófullkomnu fólki og jafnvel siðblindu, en mér finnst hann ekki ganga of nærri því og fá nöfn eru nefnd. Í gegnum alla söguna lýsir mikil væntumþykja til manns sem var meingallaður á margan hátt en jafnframt heillandi og skemmtilegur. Þessi saga einstaklinga varpar líka ljósi á margt í sögu samtímans, í þessu tilviki sögu Íslendinga á síðustu öld, líkt og góðar og vandaðar ævisögur gera ævinlega. Ég er ekki búin að lesa margar af þeim nýju íslensku bókum sem eru að koma út þessa dagana en af þeim sem ég er búin að lesa er Boxarinn sú sem hefur heillað mig hvað mest.

Að lokum er hér lítil frásögn úr bókinni:

„Fjall var síðasti bærinn í dalnum. Einangruð byggð. Ekkert útvarp. Enginn sími. Strjálar mannaferðir. Við slíkar aðstæður verður oftar en ekki vöntun á umræðuefnum manna á milli og sömu málefni tuggin upp aftur og aftur. Vegna tíðindaleysis þarf því sífellt færri orða við. Skorturinn þæfir tunguna. Orðin missa framan af sér og aftan úr. Til verður nýtt talmál, eins konar stuttmælgi, með öðrum framburði og áherslum en grunnmálið. Engir skilja það aðrir en þeir sem nota það. Ef manninum verður slíkt tungutak tamt áður en hann nær tökum á grunnmálinu er allsendis óvíst að hann skilji þá sem það tala.
     Nú veit ég ekki hvernig skólamálum var hagað í þessari afdalabyggð. Það má þó ætla að farandkennari hafi átt þar leið um. En hvernig sem því var háttað kom það í ljós, þegar systir þín hóf að ganga til prestsins, að hún hvorki skildi né talaði íslenskt mál. Hún viðhafði stuttmælgi og presturinn botnaði ekkert í henni.
     Það máttu Húnvetningar eiga að þeir gáfust ekki upp fyrir þessum vanda. Þeir sendu hana í Heyrnleysingjaskólann í Reykjavík sem þá var að líkindum einasta stofnunin í landinu sem gat ráðið bót á tilfelli sem þessu. Þar var henni kennt að tala sitt eigið móðurmál. Ég hef sannfrétt að hún hafi náð ágætum tökum á því. En það hef ég eftir skilvísri frænku að þegar systir þín hitti fólk úr bernsku sinni hafi hún brugðið fyrir sig stuttmælgi sem var frænkunni með öllu óskiljanleg.“ (29-30)

Engin ummæli: